Showing posts with label 99 vandamál. Show all posts
Showing posts with label 99 vandamál. Show all posts

Friday, December 8, 2017

Afsakið (þetta) hlé


Það er náttúrulega ekkert annað en vanvirðing við þá örfáu lesendur sem enn nenna að kíkja á NBA Ísland að skrifa ekki staf handa þeim í marga mánuði. Hvað sem því líður, getið þið rétt ímyndað ykkur hvort fór ekki um ritstjórn síðunnar þegar hún vaknaði allt í einu upp við það í lok sumars að hún hafði engan áhuga á að skrifa lengur - eftir að hafa gert það nánast daglega í meira en áratug.

Við höfum ekki hugmynd um af hverju ritstjórnin lamaðist skyndilega í ágúst, en mögulega hafa stórar breytingar eitthvað með það að gera. Svona breytingar eins og að flytja höfuðstöðvar okkar úr æsingi höfuðborgarinnar í sveitina og svo, tjah, ýmislegt annað skulum við segja.

















Við höfum heldur ekki hugmynd um hvort neistinn til að skrifa er kominn aftur eða ekki. Það eina sem við vitum er að NBA deildin er alveg viðbjóðslega skemmtileg eins og alltaf - og að það er alveg stórkostlega asnalegt að skrifa ekki um það daglega eða vikulega eða hvað það nú er.

Tölvupóstunum hefur auðvitað rignt yfir okkur á nbaisland@gmail.com í þessari löngu og leiðinlegu pásu, þar sem þið lesendur eruð búnir að spyrja okkur hvað sé í gangi. Sum ykkar hafa verið reið yfir þessari leti og kæruleysi, sum ykkar hafið lýst yfir áhyggjum ykkar og spurt hvort við séum yfir höfuð á lífi.*

Við hefðum átt að vera búin að því fyrir löngu, en okkur langaði amk að segja ykkur að við værum enn lifandi, að okkur langaði ekki að loka síðunni, að við hötuðum meira en nokkru sinni að vera ekki lengur með hlaðvarp og að við ætluðum að reyna allt sem við mögulega gætum til að byrja að skrifa aftur. Ef ekki fyrir ykkur, þá fyrir okkur - og ef ekki fyrir okkur, þá fyrir ykkur, fattiði...

Við verðum bara að sjá hvað setur. Þessi færsla er amk byrjun, þó ekki væri annað.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Hvert einasta orð í þessari málsgrein er samviskulaus helvítis haugalygi. Við höfum ekki fengið einn einasta tölvupóst vegna málsins, enda er öllum svo skítsama hvort þessi síða er til eða ekki, en við ætlum bara að loka augum og eyrum fyrir þeirri staðreynd og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Við erum ekki gáfaðari en þetta, eins og þið komust öll að fyrir mörgum árum.

Tuesday, February 14, 2017

Tuesday, February 7, 2017

Flóasvindlararnir


Ef þú ert í vafa, reyndu þá að styðjast við tölur, töflur og gröf sem sýna bullið sem er sóknarleikur Golden State Warriors...

Steph og KD voru einhverra hluta vegna kosnir kó-leikmenn mánaðarins í Vesturdeildinni eftir að Warriors-liðið þeirra straujaði flesta andstæðinga sína í janúar. Kannski hefði verið ósanngjarnt að gera upp á milli þeirra, en okkur er svo sem sama. Þetta snýst um hvað liðið er að gera, þegar allt kemur til alls.



Það er samt hálfgerð bilun að skoða hvernig þessir brjálæðingar eru að skjóta boltanum. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað en svindl. Þeir eru að spila 2K á rookie-mode meðan allir aðrir eru að ströggla fyrir öllu sínu á styrkleikastigum fyrir lengra komna. (Stundum er betra að smella músarbendlinum á myndir sem virka óskýrar og stækka þær svo hægt sé að njóta þeirra til fullnustu. Bara smá heilræði, sem á t.d. við myndina hér fyrir ofan).

Þegar skotkortin þeirra skotfóstbræðra eru skoðuð, kemur ýmislegt undarlegt í ljós. Eins og t.d. hvernig Kevin Durant virðist ekki geta keypt körfu fyrir utan þegar hann er beint á móti körfunni og svo sökkar hann í hægra horninu. En restin er líka grænmálað glóruleysi, ef svo má segja. Fyrir þá sem ekki vita, marka grænu svæðin hittni yfir meðaltali í deildinni, gult er á pari og rautt er undir meðalhittni í deildinni. Þeir Curry og KD eru venjulega grænni en Jónas frá Hriflu og þessi leiktíð er engin untantekning hvað það varðar.

Sjáið þið t.d. hittnina hjá þessum mönnum úr þriggja stiga skotunum vinstra megin á ská. Hún ætti að vera bönnuð. Þeir eru búnir að taka 217 þrista af þessu færi í vetur og beisikklí búnir að hitta helmingnum af þeim. Sem er náttúrulega ekkert annað en rugl. Svo er fólk hissa á því að það geti enginn unnið þetta Warriors-lið!*





























* - Djók. Það er enginn hissa á því. Ekki vera með þessa vitleysu!

Saturday, November 12, 2016

Popovich ræðir forsetakosningarnar


Hugsandi fólk er enn í losti yfir því að bandaríska þjóðin hafi kosið sjálfsmiðaðan níðing og trúð til að taka við embætti forseta þar í landi. Þetta kemur körfubolta ekkert við, en körfuboltamenn og miðlar hafa séð ástæðu til að tjá sig um málið eftir niðurstöðu kosninganna í vikunni.

Þannig tóku Ernie Johnson og félagar í Inside the NBA á málinu. Shaq og Barkley voru dálítið hneykslaðir á niðurstöðunni en ætla að gefa forsetanum nýkjörna tækifæri til að sanna sig. Ernie Johnson bað Jesú Krist bókstaflega að hjálpa sér í beinni útsendingu TNT - hjálpa sér að vinna úr þessari niðurstöðu mála.


Það sem allir biðu hinsvegar eftir, var að heyra viðbrögð Gregg Popovich þjálfara San Antonio. Þeir vissu að þar gæti komið biti sem færi rakleitt í mest lesið. Og Pop olli ekki vonbrigðum frekar en venjulega. Hann lýsti yfir áhyggjum sínum og fordæmdi óábyrgar og níðskotnar yfirlýsingar forsetans í kosningabaráttunni, sem hann sagði að hefðu kostað hvaða barn sem er áralangt útgöngubann. Hann líkir Bandaríkjunum við Rómarveldi.


Fyrir þremur árum settum við fram tvíþætta spá. Fyrri hluti hennar spáði því að Trump yrði kjörinn forseti Bandaríkjanna. Fólk hló að okkur. Síðari hlutinn sagði að Trump yrði valdur að þriðju heimsstyrjöldinni í forsetaembættinu. Við vonum að fólk eigi líka eftir að hlæja að því.

Þegar Donald Trump er dauður.

Monday, June 6, 2016

Warriors með algjöra yfirburði í úrslitaeinvíginu


Oftast höfum við alveg rosalega mikið að segja eftir stóra leiki í úrslitakeppninni og það kemur niður á ykkur í formi 3000 orða hlemma sem við skrifum hálf sofandi og birtum undir hádegið daginn eftir leik. Eftir fyrsta leik Golden State og Cleveland í síðustu viku, skrifuðum við aðeins nokkur orð, af því leikurinn einhvern veginn bauð ekki upp á meira.

Leikur tvö í nótt, veitti okkur enn minni innblástur. Í stað þess að byrja að skrifa um leikinn, fórum við bara að hlusta á Creedence Clearwater Revival og skoða myndir af þungarokkshljómsveitum á netinu. Þetta var einhvern veginn þannig leikur.

Ekki misskilja, við erum ekki að segja að hafi verið eitthvað að þessum leik, þó bæði lið hafi verið iðin við að missa boltann og barningurinn stundum komið niður á gæðunum hjá tveimur klúbbum sem bjóða oftar en ekki upp á líflegan sóknarbolta.


Það tók okkur 25 ár eða svo að komast að því að það getur verið varasamt að fara í dramaköst út af einum leik í úrslitakeppni. Ætli fyrsti leikur San Antonio og Oklahoma í undanúrslitum Vesturdeildarinnar hafi ekki verið leikurinn sem endanlega kenndi okkur þessa lexíu.

Fyrir vikið höfum við ákveðið að hoppa ekki upp til handa og fóta og öskra upphátt að "þeeetta sé búið," þó Cleveland hafi verið spilað gjörsamlega upp úr skónum í fyrstu tveimur leikjum sínum við Warriors í Oakland.

Það sér samt hvaða blindi maður sem er að Golden State er einfaldlega betra lið en Cleveland. Það að Warriors-liðið skuli vera búið að vinna sjö síðustu viðureignir liðanna gefur ákveðnar vísbendingar um þetta. Þú hlýtur að taka undir það.

Þýðir þetta að úrslitarimman sé búin og að meistararnir muni sópa þessu 4-0? Það gæti alveg komið fyrir, en okkur er til efs að Clevelendingar eigi eftir að verða svona blóðlitlir í heimaleikjunum sínum á miðvikudagskvöldið og föstudagskvöldið. Þeir hljóta bara að gera betur ef þeir hafa eitthvað stolt þessir menn.



Það var dálítið leiðinlegt að sjá Kevin Love verða fyrir þessum höfuðmeiðslum, sem blindu mennirnir sem við minntumst á hérna rétt áðan, hefðu örugglega séð undir eins að væri eitthvað í ætt við heilahristing. Við ætlum samt að deila með ykkur leyndarmáli varðandi þetta: Það skiptir engu máli.

En svo við minnumst nú aðeins á leikinn í nótt, ber það auðvitað hæst að þeir Steph Curry og Klay Thompson voru enn að spila á krúskontról. Ætli varnarleikur Cleveland eigi ekki einhvern hlut þar að máli, við verðum að gefa þeim það, en okkur finnst þeir bara ekkert vera að leita grimmt að skotunum sínum.

Þeir eru bara sáttir við að deila auðnum með öllum liðsfélögum sínum, sem er ósköp rómantískt, en myndi aldrei ganga upp hjá einhverju öðru liði í deildinni. Stjörnur Golden State geta hinsvegar leyft sér svona kommúnisma af því að bekkurinn þeirra er ekki bara sterkur, heldur líka fullkomlega óhræddur við að láta til sín taka í þessu einvígi.

Þannig hefur Leandro Barbosa hitt úr nánast öllu sem hann hefur hent á körfuna á þessum örfáu mínútum sem hann hefur spilað, Shaun Livingston fór hamförum í fyrsta leiknum og var líka flottur í nótt og svo væri hægt að færa rök fyrir því að Andre Iguodala væri aftur að gera tilkall til þess að vera kjörinn leikmaður úrslitanna líkt og í fyrra, því gaurinn er búinn að vera stórkostlegur þó hann sé ekki að skora mikið af stigum.


Eins vel og Iguodala er búinn að spila, er hann ekki leikmaður seríunnar til þessa. Það er Draymond Green. Hann fór hamförum í nótt og við höfum það sterkt á tilfinningunni að hann ætli sér að verða Iguodala lokaúrslitanna að þessu sinni.

Cleveland er að mana Green til að skjóta og hann tók því feginshendi í nótt. Nú gæti einhverjum þótt einkennilegt að Cavs tæki þá ákvörðun að leyfa honum að taka þessi skot í ljósi þess að hann er búinn að bæta sig gríðarlega sem skotmaður á hverju ári (úr 21% í þristum, upp í 34% og nú síðast í vetur upp í 39%) , en Tyronne Lue og félagar sjá fyrir sér að það sé skárri kostur en að láta þá byssubræður Curry og Thompson gera það.

Og ekki þarf að pína Draymond Green til að taka af skarið. Hann er óeigingjarn leikmaður, en er meira en til í að gegna þessu nýja skorarahlutverki sínu. Þó það nú væri! Það gæti endað í einhverjum bullandi hetjuskap eins og hann sýndi í nótt.

Þessi drengur er svo góður í körfubolta að hann er að verða búinn að þvinga okkur öll til að kalla hann stórstjörnu, þó það sé líklega heppilegra að kalla hann bara besta rulluspilara í heimi eða eitthvað þannig. Það breytir náttúrulega engu. Málið er bara að hann er ógeðslega góður og ætlar að taka þessa seríu og troða henni ofan í kokið á Cleveland.



Þegar lið byrjar úrslitaeinvígi 2-0 og vinnur svona stórsigra í báðum leikjunum, er freistandi að byrja strax að skrifa um hvaða þýðingu það hefði í stóra samhenginu ef Warriors hefði sigur (besta tímabil sögunnar?) og Cleveland tapaði (LeBron-drullið og það allt saman), en við skulum ekki byrja að velta okkur upp úr því alveg strax. Leyfum þeim nú að spila 3-4 leiki áður en við æðum út í þær pælingar. Það verður nægur tími til að hugsa um það í sumar og næstu árin ef því er að skipta.

Nei, það sem við viljum fyrst og fremst núna er að Cleveland rífi upp um sig buxurnar og fari að spila almennilega svo við fáum seríu úr þessu en ekki einhvern helvítis blástur! Það yrði svo mikið antíklæmax að fá blástur í lokaúrslitunum eftir epíska seríu Golden State og Oklahoma um daginn og þetta Cleveland lið á að geta miklu betur. Nægir að vísa þar í hvernig því tókst að komast yfir 2-1 á móti Warriors í fyrra þrátt fyrir öll meiðslin.



Cleveland á eftir að spila betur heima, það er óhjákvæmilegt og þar gæti það meira að segja fengið nokkur stig í púkkið frá mönnum eins og JR Smith. Spurningin er bara hvort það verður nóg ef Warriors-menn halda áfram að spila svona góða vörn og fengju jafnvel svo sem eins og einn leik frá Curry eða Thompson sem er eitthvað meira en bleh.

Það segir nefnilega allt sem segja þarf um þessa seríu. Það eru búnir tveir leikir í henni, Curry og Thompson eru búnir að vera bleh í þeim báðum, en samt hefur Cleveland ekki átt séns í helvíti í hvorugum þeirra.

Hvað segir það okkur um Cleveland og möguleika þess í framhaldinu?

Einmitt.



Hentum skotkortum beggja liða inn hérna fyrir neðan ef þið hafið áhuga á að skoða þau. Þau segja ákveðna sögu. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort er hvað. Ókei, þetta efra er kort Cleveland, neðra er frá Warriors, ef við þurfum að segja ykkur alla skapaða hluti.

Takið sérstaklega eftir nýtingunni undir körfunni hjá Cavs, þar sem LeBron James er til dæmis ekki að skjóta nema rétt um 50%, sem er mjög óvenjulegt fyrir þann mikla kappa (við settum skotkortið hans inn á Twitter í nótt). Hann er vanur að vera eiturgrænn undir körfunni, en er nú undir meðaltali þar, sem er harla óvenjulegt og skrifast einna helst á menn eins og Draymond Green og Andrew Bogut. Þeir hafa verið duglegir að passa dolluna, eins og þið sáuð til dæmis í nótt þegar Bogut varði fjögur skot í fyrsta leikhlutanum.
































Svo er Golden State náttúrulega gjörsamlega að eiga þetta allt saman fyrir utan 3ja stiga línuna eins og þið sjáið. Það var svo sem eitthvað sem mátti alveg búast við. Við vitum alveg að Cleveland var að skjóta rosalega vel í Evrópudeildinni í fyrstu þremur umferðunum, en núna er það komið í Meistaradeildina og farið að spila við alvöru körfuboltalið. Töff sjitt, eh?



Thursday, November 5, 2015

Goðsögn í vanda


Lesendur NBA Ísland í gegn um árin vita að ritstjórnin á í nokkuð flóknu sambandi við skotbakvörðinn og goðsögnina Kobe Bryant hjá Los Angeles Lakers. Við berum virðingu fyrir Kobe út af því sem hann hefur afrekað á löngum og glæstum ferli sínum, en síðari ár höfum við átt það til að stríða honum dálítið vegna hugarfars hans og leikstíls.

Það var allt í lagi að gera stundum grín að Kobe Bryant, því hann hefur alltaf staðið undir því og meira til. Hann var kannski á of háum launum og skaut kannski aðeins of mikið en það var allt í lagi, því Lakersliðið undanfarin ár er svo lélegt að það skiptir engu máli hvort Kobe tekur 3 eða 30 skot. Því ekki að halda bara áfram að bomba og reyna að slá met áður en skórnir fara á hilluna?

En svo byrjuðu bölvuð meiðslin að setja strik í reikninginn og eins og þið vitið hafa þau allt nema eyðilagt fyrir honum tvö keppnistímabil í röð. Þegar öll þessi meiðsli eru svo lögð ofan á skrokk sem búið að níðast á í tuttugu ár, er útkoman einhver elsti 37 ára gamli íþróttamaður veraldar.

Það var byrjað að bera á því áður en öll þessi meiðsli komu til. Kobe var byrjaður að dala verulega sem leikmaður, því skrokkurinn á honum var hættur að gera það sem honum var sagt.

Þetta kemur fyrir okkur öll á endanum og flest okkar sætta sig við það og aka eftir aðstæðum.

Ekki Kobe Bryant - varla hefur þú reiknað með því.

Við munum eftir viðtali sem Amad Rashad tók við Bryant fyrir nokkru þar sem hann sýndi áður óþekkta auðmýkt og viðurkenndi að meiðslavesenið hefði fengið á hann.

Var þetta ávísun á að þessi samviskulausi skorari væri farinn að þroskast og ætlaði að taka hugarfar sitt og leikstíl til endurskoðunar?

Ekki svo mikið.

Varast ber að stökkva á of miklar alhæfingar á 82 leikja keppnistímabili þegar búið að spila 5% af því, en nú er ljóst að allir eru farnir að hafa áhyggjur af Kobe Bryant. Bæði við og þið - og meira að segja hann sjálfur. Bryant kallaði sjálfan sig 200. besta leikmann deildarinnar í viðtali á dögunum, þar sem hann fór ófögrum orðum um sjálfan sig - sagðist frekast sjúga.


Það bætir svo ekki úr skák að Lakers skuli vera með eitt lélegasta lið í sögu félagsins um þessar mundir. Það er án sigurs í fjórum leikjum og er með lélegustu vörnina í NBA (fær á sig 113 stig á hverjar 100 sóknir andstæðinga sinna) og það ekki í fyrsta skipti. Og varnarleikurinn er meira að segja áberandi verri þegar Kobe Bryant er inni á vellinum (nærri 117 stig per 100 sóknir), sem er ákveðið afrek.

Við máttum bara til með að skrifa nokkur orð um þetta sérstaka vandamál sem komið er upp í gula hluta Los Angeles í dag, af því við höfum aldrei séð neitt þessu líkt áður. Ein af goðsögnum leiksins - einn besti skotbakvörður í sögu körfuboltans - stendur skyndilega frammi fyrir þeirri staðreynd að hann er ekki skugginn af sjálfum sér. Sjáðu t.d. þessa átakanlegu loftbolta:


Svartsýnustu menn spáðu því að öll þessi meiðsli gætu átt eftir að gera út af við Kobe og raunar þurfti enga svartsýni til. Skrokkur á þessum aldri með allt þetta slit, hefur einfaldlega ekki efni á að meiðast jafn illa og raun bar vitni hjá Kobe Bryant og höggið núna er enn þyngra af því hann er búinn að vera svo lengi frá. Svo poppar hann allt í einu inn í liðið á ný og í ljós kemur að það er allt í einum rjúkandi mínus.

En þarna er ekki öll sagan sögð. Þetta væri kannski ekki svo grábölvað ef Kobe Bryant hefði andlega burði til að takast á við allt mótlætið og setti alla sína orku og einbeitingu í aðlögunarferlið.

Málið er bara að það er ekki stíllinn hans Kobe Bryant. Kobe hefur aldrei farið eftir annari pólitík en sinni eigin - aldrei dansað eftir lögum annara. Hann er búinn að vera maðurinn í fimmtán ár og er búinn að gleyma því hvernig rulluspilarar hjálpa liðum sínum að vinna. Það eina sem kemst að hjá Kobe er að drepa, klára leiki, hleypa alfa-menninu lausu - Svörtu Mömbunni.

Gallinn er bara að lemstraðir fertugir karlar eru engar andskotans Mömbur, sama hve heitt þeir þrá það. Banvæn Svarta Mamban er horfin og í staðinn er kominn drukkinn órangútan með vélbyssu, sem er alveg jafn líklegur til að skjóta sjálfan sig í tætlur og einhvern annan.

Tuesday, February 17, 2015

Fjögur mögur ár Amare Stoudemire hjá Knicks


Við höfum ekki verið sökuð um sérstaka Þórðargleði yfir óförum New York Knicks undanfarin ár, sem er undarlegt í ljósi þess að við fáum mjög mikið út úr því að vera með leiðindi út í það ágæta félag á þessu vefsvæði. Þið vitið svo sem að þessi leiðindi rista ekki djúpt og eiga rætur að rekja til skrifstofu félagsins og fjölmiðla í New York fremur en leikmanna liðsins og enn síður stuðningnsmannanna.

Segja má að New York standi á tímamótum í dag. Carmelo Anthony fer líklega í hnéuppskurð og kemur ekki meira við sögu í vetur og í dag kunngerðu Knicks að þeir hefðu leyst framherjann Amare Stoudemire undan samningi. Því má segja að ákveðnu tímaskeiði sé að ljúka hjá Knicks. Tímaskeiði sem við skulum kalla Amare-Melo tilraunina.

Við kölluðum ekki til fjölmiðlafundar þegar Stoudemire gekk í raðir Knicks frá Phoenix sumarið 2010. Umfjöllun okkar um það var þvert á móti frekar fátækleg. New York þurfti að landa stjörnu til að selja miða og úr því það náði ekki í LeBron James (sem aldrei kom til greina hvort sem er), ákvað það að henda hundrað kúlum í manninn sem kallaði sig bæði Svarta Jesú og S.T.A.T. (Standing Tall And Talented).

Hann var bæði hár og hæfileikaríkur, hann Amare, það vantaði ekki og hann skilaði Knicks 25 stigum og 8 fráköstum í leik á fyrsta árinu sínu þar sem hann spilaði 78 leiki. Hann var allt í öllu hjá liðinu fram yfir áramótin 2011 en í febrúar það ár, fór Knicks í stórvirkar aðgerðir á leikmannamarkaðnum sem enduðu með því að liðið landaði Carmelo Anthony.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á, en auðvitað hefðum við átt að skjóta þessi viðskipti Knicks alla leið til andskotans og fordæma þau strax frá upphafi, því þau meikuðu ekki sens í eina mínútu.

Það tók okkur rúman mánuð að tjá okkur eitthvað um þetta nýja Knicks-lið og við höfum verið neikvæð og leiðinleg út í þetta lið nánast óslitið síðan.

Og það eru ástæður fyrir þessari neikvæðni. Hvað hefur New York afrekað síðan það ákvað að kasta sitt hvorum 100 milljónunum í þá Stoudemire og Anthony? Jú, 151 sigri og 160 töpum samkvæmt New York Daily News (ekki halda að við nennum að telja það saman).

Það sem skyggir enn frekar á þessa undarlegu viðskiptahætti Knicks er að þegar þeir Amare og ´Melo hafa spilað saman með liðinu (Amare er náttúrulega búinn að missa mjög mikið úr vegna meiðsla), er það meira að segja lélegra.

New York er aðeins 74-110 þegar tvímenningarnir eru báðir með og það sem verra er, er það aðeins 2-10 í úrslitakeppninni undir sömu kringumstæðum.

Á meðan annað lið sem ætlaði sér stóra hluti með því að púsla saman stórstjörnum, Miami Heat, fór í lokaúrslitin fjögur ár í röð með hjálp stjarnanna sinna, var New York 36 leikjum undir 50% vinningshlutfalli með þeim Melo og Amare - 44 leikjum ef úrslitakeppnin er meðtalin.

Sunday, February 8, 2015

Sunday, January 11, 2015

Knicks upp á háaloft


Það mætti halda að við værum með New York á heilanum, en þetta verður það síðasta sem skrifað verður um Knicks á leiktíðinni nema Madison Square Garden brenni til grunna. Við þurftum bara að koma frá okkur einni athugasemd í viðbót, sem okkur flaug í hug þegar við fylgdumst með "óslitinni sigurgöngu" Detroit Pistons og Philadelphia 76ers.

New York Knicks 2015 er sorglegasta körfuboltalið sem við höfum séð.

Philadelphia er með tvo eða þrjá NBA leikmenn í sínum röðum, en það hefur nú unnið fleiri leiki en New York. Philadelphia er að tánka, meðan New York ætlaði upphaflega að reyna að gera eitthvað í deildakeppninni. Og það þýðir ekkert að fela sig á bak við meiðsli.

Við vitum alveg að New York er líklega ekki lélegasta lið allra tíma, en það er klárlega það sorglegasta. Einhver lið hljóta að teljast lélegri en 2015 útgáfan af Knicks, en þau eru ekki mörg. Við erum að tala um það að New York er orðið svo lélegt að við erum farin að hata allt við félagið! Réttast væri að loka þessari vonlausu sjoppu.

Yfir og út á Knicks-skrif í bili.

"... Og haldiði svo kjafti!"

Wednesday, July 23, 2014

Erfið byrjun hjá ástralska undrinu


    Þetta er krúttið hann Dante Exum, sem Utah Jazz tók númer fimm í nýliðavalinu um daginn. Ástralinn, sem varð nítján ára gamall á dögunum, átti mjög erfitt uppdráttar í sumardeildinni í Las Vegas. Þetta er reyndar bara sumardeildin, svo það skiptir kannski ekki öllu máli hvernig menn spila þar - ekki þannig, fattiði...

Það var mikið fjaðrafok í kring um Exum í ár og margir vilja meina að hann sé efni í stórstjörnu. Hann minnir suma á Penny Hardaway og aðra á ungan Kobe Bryant. Það getur vel verið að sé pótensjall í stráknum, en hann minnti okkur hvorki á Bryant né Hardaway.

Thursday, June 19, 2014

NBA Ísland skoðar framtíðarhorfur Miami Heat


Eins gleðilegt og það er nú að krýna nýja NBA meistara á hverju ári, þarf einhver því miður einhver að tapa líka. Og þegar einhver tapar á stóra sviðinu, þarf að sjálfssögðu að finna blóraböggul. Það er inngróin og rík þörf hjá flestum okkar, þó hún sé sjaldnast sanngjörn.

Þið sem sáuð úrslitaeinvígi San Antonio og Miami þetta árið, vitið að það var sannarlega ekkert eitt sem réði því að San Antonio vann rimmuna. Það var frekar allt. Lið Spurs var einfaldlega miklu, miklu betra og því fór sem fór.

Það þýðir þó ekki að við getum ekki litið yfir farinn veg hjá Miami og reynt að kenna skella skuldinni á einhvern. Það er svo auðvelt, ódýrt, ósanngjarnt og skemmtilegt. Það er hægt að benda á margt og marga þegar kemur að Miami. 

Wednesday, April 16, 2014

Meiðsli Bogut gætu eyðilagt áform Warriors


Þú ferð út á lífið og hittir föngulega dömu. Ferð með henni heim og leikar taka að æsast. Þið látið vel að hvort öðru og ákveðið að færa aksjónið inn í svefnherbergi. Svo þegar þú klæðir hana úr buxunum... kemur í ljós að hún er með bleyju. Þú nuddar augun og athugar hvort þig er að dreyma, en hjá þessu verður ekki komist. Hún er með bleyju, hvort sem þér líkar betur eða verr.

Svona líður stuðningsmönnum Golden State Warriors eftir að þeir fréttu að Andrew Bogut væri rifbeinsbrotinn og ætti því eftir að missa af úrslitakeppninni.

Eftir langan og strangan vetur var fjörið loksins að byrja. Loksins gátu strákarnir hans Mark Jackson farið að sýna okkur að ágætur árangur þeirra í úrslitakeppninni í fyrra* hafi ekki verið nein tilviljun.

En þá gerist þetta.

Svona er þetta alltaf hjá Golden State og svona hefur þetta raunar alltaf verið hjá Andrew Bogut, hvers heilsufar hefur verið kraftaverk síðustu mánuði miðað við vesenið á honum undanfarin ár.

Í fyrra var það David Lee sem meiddist í úrslitakeppninni og gat lítið beitt sér eftir það. Stephen Curry var líka meiddur þá og er eiginlega alltaf meiddur, því ökklarnir á honum eru ónýtir.

Curry var þó búinn að halda sæmilegri heilsu í vetur eins og Bogut, en nú er sú heilsa úr sögunni eins og hún verður fljótlega hjá keppendunum í þættinum Feitasti einstaklingurinn sem missir fáránlega mikla þyngd á skömmum tíma í sjónvarpi, en dettur svo strax aftur í það og verður feitur aftur af því að fólk sem er svona feitt á oftast við andlegan sjúkdóm að stríða sem kemur grænmeti og hlaupabrettum óskaplega lítið við - sem verið hefur á dagskrá í íslensku sjónvarpi undanfarið.

Þetta er í alla staði ömurlegt dæmi. Og þá erum við að tala um meiðslin, ekki þáttinn (Immit).

Það er kannski of mikil bölsýni að ætla að dæma Warriors úr leik í úrslitakeppninni bara af því það missir einn mann í meiðsli, en staðreyndin er bara sú að þessi maður er mikilvægasti leikmaður liðsins í varnarleiknum, með fullri virðingu fyrir frábærum varnarmanni eins og Andre Iguodala.

Það sem gerir þetta enn verra, er að maðurinn sem ætti með öllu að koma inn í stað Bogut og var meira að segja í byrjunarliði Warriors í helmingi leikja liðsins á síðustu leiktíð, Festus Ezeli, er líka meiddur. Hann er reyndar byrjaður að æfa eftir að hafa verið úr leik í allan vetur, en hann á ekki eftir að gera mikið í úrslitakeppninni ef hann kemur þá yfir höfuð við sögu.

Við erum því að tala um að Golden State sé að fara inn í úrslitakeppnina með Jermaine O´Neal sem eina miðherjann sem Mark Jackson treystir þokkalega. Það væru ágætar fréttir af við værum stödd á árinu 2004, en eins og þið vitið er 2014 núna og það boðar ekki gott þegar haft er í huga að O´Neal var búinn á því strax árið 2009, þegar hann gerði sig bókstaflega að fífli í úrslitakeppninni fyrir framan augun á okkur.

Það stefnir í að mótherji Golden State í úrslitakeppninni verði LA Clippers og ljóst að miðherjalaust Warriors-liðið getur ekki nýtt sér einn af veikleikum Clippers-liðsins sem er skortur á sentimetrum og kjöti í teignum.

Meiðsli Bogut þýða að það verður ekkert annað í boði hjá Warriors en að spila minnibolta. Allir vita að það fer liðinu langbest að tefla fram snaggaralegum leikmönnum undir tvo metra á hæð og hlaupa svo og skjóta eins og andskotinn væri á hælunum á þeim.

Bogut hefur reyndar alltaf verið með í myndinni í þessari fantasíu. David Lee hefur verið málaður út úr henni, sérstaklega eftir úrslitakeppnina í fyrra, en Bogut er alltaf inni.

En nú er hann ekkert inni.

Við gætum kannski trúað því upp á LA Clippers að drulla á sig ef Vinnie del Negro væri enn að þjálfa liðið, en hann er blessunarlega farinn og Doc Rivers er tekinn við af honum.

Undir stjórn Rivers hefur Clippers-liðið bætt sig talsvert þrátt fyrir meiðslavesen og því hefði eflaust verið lítil ástæða til að tippa á Warriors í einvígi liðanna, jafnvel þó Bogut hefði verið inni í myndinni.

Því miður fyrir Warriors, sjáum við því fyrir okkur að öfugt við í fyrra, þegar liðið var heppið með andstæðing og sló Denver út í fyrstu umferð, verði enginn Öskubuskuandi svífandi yfir vötnum í Oakland þetta árið.

Mark Jackson á eftir að predika mikið og við eigum alveg bókað eftir að fá heimsklassadrama í leikjum Golden State í úrslitakeppninni.

Það er hinsvegar spurning hvort Jackson gæti þurft að leita annað með predikanir sínar á næsta tímabili ef illa fer hjá Warriors. Það væri líklega ósanngjarnt í ljósi mótlætisins, en í NBA deildinni snýst þetta um að éta eða verða étinn, hvort sem menn eru andlegir á því eður ei.

* - Við mælum sérstaklega með viðtalinu við George Karl í samantektinni um fyrstu umferðina í úrslitakeppnina í fyrra sem er að finna þegar smellt er á tengilinn. Það er auðvitað eðlilegt.

Wednesday, March 26, 2014

Knicks heldur áfram að gefa



Varst þú einn af þeim sem fór í dramakast þegar við sögðum að Knicks-liðið þitt væri drasl um daginn?

Vonandi ekki, því Nix sótti Lakers heim í nótt og lét drulla yfir sig. Hið sögufræga Lakers-lið hefur aldrei í sögunni verið lélegra og það er grínlaust alveg hægt að kalla Lakers D-deildarlið eins og NBA lið ef tekið er mið af mannskapnum sem Mike D´Antoni þjálfari hefur úr að moða.

Þeir Kobe Bryant, Pau Gasol og Steve Nash eru kannski ekki nógu sterkir leikmenn orðið til að gera Lakers að meistaraefni, en það munar sannarlega um að hafa þá alla í jakkafötum.

Það kom þó ekki að sök þegar New York kom í heimsókn í Staples höllina í nótt.

New York á að heita í baráttu um sæti í úrslitakeppninni! Einmitt.

Í stað þess að reyna að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni, ákvað New York auðvitað frekar að tapa leiknum og setja félagsmet með því að fá á sig FIMMTÍU OG EITT STIG í þriðja leikhlutanum!

Á móti leikmönnum eins og Wesley Johnson, Kendall Marshall, Jodie Meeks, Ryan Kelly, Xavier Henry, Nick Young, Robert Sacre, Kent Bazemore, MarShon Brooks og Chris fokkíng Kaman!

Þessi karakterslausi mannskapur hjá New York ætti að skammast sín, en gerir það sannarlega ekki. Liðið er löngu hætt að hlusta á orð af því sem Mike Woodson þjálfari er að pípa, svo hann er dauðari maður í gönguferð en nokkru sinni fyrr - og ekki hefur verið lognmollan í kring um hann að undanförnu.

Þetta er með ólíkindum. Phil Jackson hefur örugglega parkerað svarta Parker-pennanum sínum í kvöld og tjáð sig í svörtu bókina með rauðum, feitum túss. Það væri réttast að setja þessa aumingja hans alla með tölu á tombólu uppi í Torfufelli.

Við látum svo fylgja með nokkrar myndir úr leiknum í nótt, þar sem þið takið eftir því hvað D-drengirnir hjá Lakers eru alveg að hata þetta allt saman, meðan ráðaleysið skín úr andlitum Nix-manna.







Monday, March 10, 2014

Af Tæreki og Skörfunum


Þið munið væntanlega eftir því þegar hann Tærekur Evans var kjörinn nýliði ársins hjá Sacramento Kings hérna um árið. Ekki? Jæja, ókei. Hann Evans var reyndar drulluflottur á því á nýliðaárinu sínu. Hann varð aðeins fjórði leikmaðurinn í sögu NBA deildarinnar til að skila yfir 20 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Þessir þrír sem grísuðu á að ná þessu á undan honum voru einhverjir Oscar Robertson árið 1961, Michael Jordan árið 1985 og svo einhver Lee-Bron James fyrir tíu árum síðan.  Ekki slæmur félagsskapur svo sem.

En eftir þessa huggulegu byrjun hefur Evans varla gert nokkuð annað en að drulla á sig. Hann lækkar um tvö stig á ári og sígur hægt og rólega niður í nær öllum tölfræðiflokkum, sem er stórundarlegt fyrir svona knáan íþróttamann.

Reyndar vitum við að bölvuð iljarfellsbólgan var talsvert að trufla hann þegar hann var hjá Sacramento á sínum tíma. Það er ömurlegur fjandi að eiga við.

Samt.

Áhöfnin á Pelíkananum RE-1100 var þó hvergi bangin við þennan neikvæða spíral sem Tærekur virtist kominn í.  Allir skipstjórar hafa auðvitað óbilandi trú á hæfileikum sínum sem stjórnendur og peoples-persónur (ísl. mannfólk). Þeir myndu nú aldeilis rífa drenginn upp á anusnum og fá allt það besta út úr honum hjá þessu nýja og spennandi liði.

U, nei. Ja, bíddu við, ekki fyrr en um daginn!

Tæríkur er bara allt í einu farinn að spila eins og hann gerði á nýliðaárinu sínu og er að bjóða upp á 25/8/8 í mars! Það er engu líkara en hann og Trevor Ariza hafi dottið ofan í töfraseyðispottinn hans Steinríks (Tæríkur - Steinríkur... er eitthvað þarna? Nei?).

Svona getur deildin okkar verið stórfurðuleg stundum. Úr því að við erum að fabúlera um Pelíkananananananabúbú á annað borð, væri kannski réttast að spyrja hvað sé að frétta þarna í fenjunum eiginlega. Það er nefnilega ekki andskoti mikið.

New Orleans átti að verða eitt af Spútnikliðum vetrarins, en í staðinn fyrir að taka c.a. svona Phoenix á þetta, er liðið meira að taka New York á þetta - sem snýst mest um að framleiða óæskilegan og óendurvinnanlegan úrgang eins og þið vitið.

Meiðsli spila þarna stórt hlutverk eins og alls staðar í vetur og það er erfitt að ætla að gera eitthvað í Vesturdeildinni þegar tveir af sterkustu mönnum liðsins eru í klessu. 

En fyrir utan þetta, hefur okkur alls ekki þótt neinn glans á liðinu, jafnvel í þessum fáu leikjum þar sem það var sem næst því að vera með alla menn heila.

Nei, það eina sem kætir í þessum vandræðum er hann Brúnar okkar. Þvílíkur leikmaður sem hann er að verða! Strákurinn er kominn með 20/10 eins og alvöru stór, nýtir vel og ver bæði og verst. 

Við erum svo hrifin af stráknum að við reiknum með að safna augabrúnum í mottumars.

Æ, vonandi ná þeir að hrista þetta eitthvað saman þarna í New Orleans á næsta ári. Þetta var kannski ekki 100% stefna hjá þeim að ná í Jrue Holiday frænda þinn og Tærek en það eru til galnari lið í deildinni þó þau þurfi ekki að gefa Austin Rivers að borða á hverjum degi. Menn eru allavega að reyna að gera eitthvað - það er meira en segja má um marga.