Showing posts with label Sam Cassell. Show all posts
Showing posts with label Sam Cassell. Show all posts

Tuesday, April 28, 2015

Þúsund orða mynd af Milwaukee


Ef þetta er ekki þúsund orða mynd, þá eru þær ekki til. Rákumst á þessa fyrir skömmu, þetta er aldamótalið Milwaukee Bucks með þjálfarateymi, hásetum og kokki.

Ef vel er að gáð má sjá nokkur áhugaverð andlit þarna, bæði í röðum leikmanna og þjálfara. Auðvitað er hægt að sjá kunnugleg andlit á öllum svona liðsmyndum, en okkur fannst þessi bara alveg spes.

Eldri lesendur þekkja megnið af þessum mönnum og þurfa því ekkert að lesa áfram, bara skoða myndina og fara svo að horfa á Útsvar. Þeir yngri gætu lært eitthvað ef þeir passa sig ekki, eins og Bill Cosby sagði alltaf í upphafi þáttanna um Albert Íturvaxna*

Við byrjum í öftustu röð, en annar maður frá vinstri þar heitir Don Newman og var aðstoðarþjálfari Bucks þarna, en hann var síðar í þjálfarateymi Spurs í átta ár, m.a. þegar það vann titlana 2005 og 2007. Í dag er Newman í þjálfarateymi Randy Whittman hjá Washington Wizards.

Maðurinn hægra megin við Newman, sem sagt gaurinn sem er þriðji frá vinstri í öftustu röðinni, er enginn annar en Ron Adams.

Adams þessi var aðstoðarþjálfari hjá Bucks um aldamótin en er í dag sérstakur varnarþjálfari hjá Golden State Warriors.

Það er mál manna að hann eigi mjög stóran hlut í ógurlegri velgengni liðsins í vetur alveg eins og Alvin Gentry, fyrrum aðalþjálfari Phoenix Suns, en hans sérsvið er sóknarleikurinn.

Þeir Adams og Gentry eru nánustu samstarfsmenn Steve Kerr á bekknum hjá Golden State og þið getið rétt ímyndað ykkur hvort hann hefur ekki notið góðs af reynslu þessara manna í vetur, verandi reynslulaus í þjálfun sjálfur.

Hávaxni maðurinn fyrir miðju í öftustu röðinni gegndi stöðu aðstoðarþjálfara Bucks þegar myndin var tekin, eins og glöggir sjá er hann orðinn aðalþjálfari Portland Trailblazers í dag. Þetta er Terry Stotts, sem hefur verið að gera ljómandi fína hluti með Blazers síðustu ár, þó eitthvað hafi dregið fyrir sólu nú á vormánuðum.

Þá segjum við skilið við öftustu röðina og byrjum lengst til vinstri í miðröðinni.

Þar er fyrstur á blaði jakkafataklæddur maður með mottu sem einhver ykkar ættu að þekkja. Þetta er Ernie Grunfeld, framkvæmdastjóri Washington Wizards í dag.

Grunfeld er fyrrum leikmaður og hann var á skrifstofunni hjá Knicks síðast þegar liðið gat eitthvað. Þar var hann í átta ár, þá fjögur ár hjá Bucks þar sem hann var nýtekinn við þegar myndin er tekin og hefur verið hjá Wizards síðan.

Grunfeld ber ábyrgð á afrekum eins og samningum við Gilbert Arenas og að hafa tekið menn á borð við Kwame Brown og JaVale McGee í nýliðavalinu. Nýjasta afrek hans er líklega þegar hann tók Jan Vesely í staðinn fyrir t.d. Klay Thompson eða Kawhi Leonard í nýliðavalinu árið 2011.

Hægra megin við Grunfeld er götuboltagoðsögnin Rafer "skrepptu á klósettið" Alston. Honum tókst einhvern veginn að eiga tíu ára feril í NBA deildinni þrátt fyrir að vera hálfgert ólíkindatól. Eftir að hafa skoppað á milli nokkurra liða, náði Alston loks að komast alla leið í lokaúrslitin með Orlando Magic árið 2009, þar sem liðið tapaði fyrir Lakers. Hann er samt skólabókadæmi um að blandsnældur og götubolti koma NBA deildinni lítið við.

Ætli þið þekkið ekki manninn hægra megin við Alston. Þar er á ferðinni sjálfur Ray Allen, sem þarna var að hefja sitt fjórða ár í deildinni, sem segja má að hafi verið árið sem hann stimplaði sig inn sem stjörnu í NBA. Allen skoraði 22 stig í leik og skaut 42% úr þristum þennan vetur.

Hægra megin við Allen er svo sjálfur Stóri-Hundurinn Glenn Robinson. Robinson var þarna á sínu sjötta ári með Bucks, en hann var fyrst og síðast skorari og nákvæmlega ekkert annað.

Hann skoraði yfir 21 stig að meðaltali á 8 árum með Bucks en var svo fjandi heppinn að næla sér í meistaratitil á síðasta árinu sínu í NBA deildinni þegar hann var vindill hjá San Antonio Spurs árið 2005.

Sonur Robinson - Robinsin þriðji - er því miður á samningi hjá Philadelphia í dag. Það var Minnesota sem tók Robinson litla í nýliðavalinu árið 2014, nákvæmlega tuttugu árum eftir að Milwaukee tók pabba hans með fyrsta valrétti.

Sunday, January 4, 2015

Erfiður áratugur hjá Úlfunum


Hversu líklegt er að við fáum að sjá Minnesota Timberwolves í úrslitakeppninni í vor? Ekki mjög. Raunar eru betri líkur á því að sjá fljúgandi svín keppa í listdansi á skautum í helvíti en að Úlfarnir komist í úrslitakeppnina. Og það er hæpið að breyting verði þar á á allra næstu árum.

Við verðum reyndar að hafa það í huga að það stóð nú aldrei til hjá Úlfunum að fara í úrslitakeppnina í vor. Hugmyndin var að búa til gott körfuboltalið með þeim Ricky Rubio, Kevin Love og Nikola Pekovic. Þið munið öll hvernig það gekk, svona inn á milli ferða á slysó.

Því var hætt við það allt saman, Ástþór seldur og stefnan sett á að byrja upp á nýtt og byggja upp nýtt lið skipað ungum og efnilegum leikmönnum. Í fimmtánþúsund-sjöhundruðfimmtugasta-
ogáttunda skiptið.

Kannski er þetta að verða dálítið þreytt aðferðafræði, en svona er þetta víst hjá Úlfunum og fólkið í Minnesota virðist hafa keypt þetta plan. Að ættleiða hvolpana efnilegu og styðja þá af stað út í lífið. Að byrja enn og aftur upp á nýtt.


En hvað erum við að tuða um Úlfana núna? Nú þegar félagið er í enn einum öldudalnum, aðeins nokkrum mánuðum eftir að það var einn mest spennandi klúbburinn í NBA. Liðið sem allir fylgdust reglulega með og farið var að valda stuðningsmannaframhjáhöldum og vagnhoppi daglega.

Jú, í því sem við fórum að hugsa um efniviðinn hjá Úlfunum, áttuðum við okkur um leið á því hvað þessir strákar eins og Andrew Wiggins eiga óhemju langt í land áður en þeir búa til lið sem einhver þarf að taka alvarlega. Það þýðir að sama skapi að klúbburinn sem hefur verið lengst allra utan úrslitakeppninnar í NBA, þarf enn að bíða eitthvað lengur.

Minnesota hefur nefnilega ekki komist í úrslitakeppnina síðan 2004 og því verða ellefu ár í vor síðan liðið fékk að spreyta sig á alvörunni. Þetta ku vera næstlengsta lægð þessarar tegundar síðan 16 liða úrslitakeppnin var tekin í gagnið með núverandi fyrirkomulagi árið 1984.

Aðeins Golden State getur státað af öðrum eins aulagangi, þegar liðið missti af úrslitakeppninni tólf ár í röð frá árinu 1995 til 2007. Fólk gleymir því kannski í allri gleðinni við Flóann í dag, að Warriors var eiginlega ekki búið að gera neitt annað en gera sig að fífli í rúman áratug þegar það svo loksins komst í úrslitakeppnina árið 2006.

Eins og mörg ykkar muna, var það svo reyndar úrslitakeppni fyrir allan peninginn, þegar liðið gerði sér lítið fyrir og sló efsta lið deildakeppninnar út í fyrstu umferðinni (Dallas, sem vann hvorki meira né minna en 67 leiki í deildakeppninni þann veturinn).

Það hljómar kannski ekkert svakalega langt, þannig, þessi ellefu ár án úrslitakeppni hjá Úlfunum. En bíðið þið bara.

Eruð þið búin að gleyma því hvernig Minnesota var mannað þegar það fór síðast í úrslitakeppni? Og munið þið hverjir mótherjar þess voru? Hafið ekki áhyggjur, við erum hérna til að hjálpa þeim sem muna þetta ekki.

Minnesota-liðið árið 2004 gerði nefnilega miklu meira en að komast í úrslitakeppnina. Það fór alla leið í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar þar sem það þurfti reyndar að láta í minni pokann gegn pappírs-pésunum í Los Angeles Lakers.

Úlfarnir voru með gríðarlega öflugt lið þarna fyrir tíu árum síðan og unnu 58 leiki í deildakeppninni, sem er langbesti árangur í sögu félagsins. Fjögur bestu árin hjá Úlfunum voru árin 2000 (50 sigrar), 2002 (50 sigrar), 2003 (51 sigur) og téð 2004 (58 sigrar).

Minnesota er eitt af yngstu félögunum í NBA deildinni og var ekki stofnað fyrr en 1989. Fyrstu árin í deildinni voru skiljanlega ansi mögur, þar sem liðið var að vinna 15-20 leiki, en svo fór ástandið hægt og bítandi að skána.

Monday, August 12, 2013

Vanda ber valið þegar kemur að leikstjórnendum


Við erum búin að ganga með eftirfarandi pælingu í maganum í nokkur ár og ákváðum að drulla henni loksins á blað. Hugtakið sigurvegari er oft notað til að lýsa körfuboltamönnum sem ná góðum árangri á ferlinum, en svo eru aðrir leikmenn sem virðast bara ekki geta náð árangri þrátt fyrir hæfileika og fögur fyrirheit.

Þeir Stephon Marbury, Sam Cassell og Jason Kidd eru dæmi um þetta. Þeir eru allir leikstjórnendur og leiðir þeirra hafa legið um líkar slóðir í gegn um tíðina - stundum skiptu þeir meira að segja um lið. Þess vegna er afar fróðlegt að skoða hvernig liðum þeirra gekk áður en þeir komu til sögunnar, meðan þeir léku með þeim og eftir að þeir fóru frá þeim.

Þetta er auðvitað ekki sanngjarn samanburður, því þremenningarnir voru oft með ólíka meðspilara, en það er samt gaman að skoða þetta. Þessari pælingu er ekki ætlað að komast að neinum stórum sannleika eða drulla yfir einn eða neinn. Þetta er aðeins gert til að varpa ljósi á feril þeirra þriggja. Við skulum því skoða hverni liðum þeirra gekk á árunum sem þeir Kidd, Cassell og Marbury léku með þeim.

Jason Kidd er sá eini af þeim þremur sem spilaði með Dallas Mavericks. Þar hóf hann ferilinn sem nýliði en jafnvel snilli hans hafði ekkert að segja, því Mavericks var skelfilegt lið í þá daga.

Dallas var reyndar með einn lélegasta árangur sögunnar skömmu áður en Kidd kom til liðsins (Dallas vann aðeins 11 og 13 leiki tímabilin tvö áður en Kidd kom til sögunnar).

Annað var uppi á teningnum þegar Kidd kom aftur til Dallas árið 2008, en þá gekk hann inn í mjög sterkt lið og gegndi ólíku hlutverki en þegar hann byrjaði. Dallas komst í úrslitakeppnina öll fjögur árin sem Kidd spilaði með því og vann fyrsta meistaratitilinn í sögu félagsins árið 2011.

Þetta reyndist fyrsti og eini meistaratitill Kidd og Mavericks. Kidd gegndi lykilhlutverki í baráttunni um titilinn og var það mál manna að leiðtogahæfileikar hans innan sem utan vallar hefðu vegið þungt á leið liðsins að titlinum.

Eins og margir muna hóf Sam Cassell feril sinn í NBA með látum á sínum tíma, því hann fór strax að láta að sér kveða með Houston Rockets.

Strax á nýliðaárinu hans veturinn 1993-94 varð Houston meistari og endurtók leikinn árið eftir.

Cassell átti mikinn þátt í velgengni Houston þó hann þyrfti að spila fyrir aftan Kenny Smith og setti margar mikilvægar körfur fyrir Rockets á lykilaugnablikum í úrslitakeppninni á þessum árum.

Cassell spilaði með Milwaukee Bucks í fimm ár sitt hvoru megin við aldamótin og af þessum fimm árum fór liðið fjórum sinnum í úrslitakeppnina.


Undir stjórn Cassell og George Karl þjálfara náði liðið best í úrslit Austurdeildarinnar árið 2001, þar sem það þurfti að sætta sig við tap fyrir Philadelphia eftir hörkurimmu. Þetta voru bestu ár Milwaukee síðan á níunda áratugnum og fátt hefur verið um fína drætti þar síðan Cassell var þar leikstjórnandi.

Allir sem á annað borð fylgjast með NBA deildinni vita að árangur Los Angeles Clippers í úrslitakeppninni hefur verið átakanlegur síðustu áratugi. Segja má að aðeins ein undantekning sé á þessu og það var merkilegt nokk þegar Sam Cassell var hjá liðinu. Þetta var árið 2006 og þá náði Clippers í aðra umferð úrslitakeppninnar, sem var besti árangur félagsins í áratugi þangað til það jafnaði hann árið 2012.

Clippers-lið þetta var vissulega vel mannað, en þarna sáum við mjög gott dæmi um hvað Sam Cassell hafði góð áhrif á lið sem hann kom til. Klúbbur sem var brandari áður en hann kom til sögunnar, var allt í einu orðið lið sem þurfti að taka alvarlega í úrslitakeppni. Cassell var aðeins tvö ár hjá Clippers en það seinna gerðu meiðsli það að verkum að það komst ekki í úrslitakeppnina.

Annað lið sem Cassell hafði mjög greinileg og góð áhrif á var Minnesota. Enn og aftur náði lið besta árangri sínum í ár eða áratugi þegar Cassell kom til sögunnar. Og þarna fara leiðir þremenninga okkar að skerast, því Cassell tók þarna við Minnesota liði nokkrum árum eftir að Stephon Marbury hafði verið þar allt í öllu.



Á fyrstu tveimur árum Marbury í deildinni, náði liðið í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en vann aðeins tvo leiki.

Strax á fyrsta ári Cassell með Úlfunum, fór liðið alla leið í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar þar sem það mætti stjörnum prýddu liði LA Lakers.

Úlfarnir þurftu að sætta sig við tap í einvíginu, en það var ekki síst vegna þess að Sam Cassell meiddist og gat ekki klárað rimmuna.

Þetta var og er enn, langbesti árangur Úlfanna í sögu félagsins.

Allir þrír leikmennirnir sem við tökum fyrir hér eiga það sameiginlegt að hafa spilað fyrir Phoenix Suns. Cassell spilaði reyndar ekki nema um tuttugu leiki fyrir Suns, svo við látum eiga sig að meta áhrif hans á þann klúbb. Þeir Kidd og Marbury komu sér þó báðir á kortið hjá Phoenix.



Kidd var viðloðandi Phoenix Suns í um fimm ár og liðið fór í úrslitakeppnina öll árin. Það komst hinsvegar aðeins einu sinni í aðra umferð um aldamótin. Marbury lék þar í tvö ár og komst í úrslitakeppnina annað árið - féll úr í fyrstu umferð hitt árið.

Marbury skoraði líklega eftirminnilegustu körfu sína á ferlinum með Suns í úrslitakeppninni árið 2003 þegar hann tryggði Suns annan af tveimur sigrum sínum á verðandi meisturum San Antonio Spurs með flautukörfu. Ansi magnað atvik, sem reglulega er spilað í annálum NBA deildarinnar.

Annar klúbbur sem þrennan okkar hefur öll spilað fyrir er New Jersey Nets. Þar er með ólíkindum hvað liðið sveiflast fram og til baka eftir því hver þeirra vina okkar var í leikstjórnandastöðunni.

Það var Sam Cassell sem reið á vaðið og var hjá liðinu leiktíðina 1997-98. Hann náði að fara með liðið í úrslitakeppninna, þangað sem liðið hafði ekki komið í mörg ár á undan. Árið eftir tók Stephon Marbury við taumunum hjá Nets og hélt þeim til ársins 2001. Árangur Nets á þeim tíma var ekki til að hrópa húrra fyrir, liðið hrundi niður í aðeins 16 sigra eftir að Marbury tók við og skilaði 31 og 26 sigrum næstu tvö ár þar á eftir.

Það kom svo í hlut Jason Kidd að taka við þessu 26 sigra liði Nets og þar sáum við eitt skýrasta dæmið um styrk Kidd. Strax árið eftir vann Nets 52 leiki og fór alla leið í lokaúrslitin. New Jersey fór í lokaúrslitin tvö ár í röð árin 2002-03 og þó það þyrfti að lúta í lægra haldi fyrir Lakers og Spurs, fór það ekki framhjá neinum hvað Jason Kidd sneri gengi liðsins gjörsamlega við með leik sínum. New Jersey fór svo í aðra umferð úrslitakeppninnar þrjú af næstu fjórum árum með Kidd sem besta mann.

Þá er aðeins eitt lið eftir í upptalningunni okkar og það er New York Knicks. Þar á bæ var Stephon Marbury æðstistrumpur á 100 milljón dollara samningi á árunum 2004 til 2008 og skemmst er frá því að segja að liðið komst aðeins einu sinni í úrslitakeppnina á þessum tíma þegar því var sópað í fyrstu umferð árið 2004.

Er það svo ekki dæmigert að á síðustu leiktíð skuli New York ná besta árangri sínum í úrslitakeppni síðan um aldamótin, einmitt þegar Jason Kidd gekk í raðir liðsins. Vissulega var Kidd ekki í sinni stærstu rullu inni á vellinum og spilaði reyndar afleitlega í úrslitakeppninni, en það var mál manna að bætt gengi Knicks hefði að einhverju leyti mátt þakka leiðtogahæfileikum og fagmennsku Jason Kidd í búningsklefanum.

Þar með látum við þessari umfjöllun um þessa þrjá leikmenn lokið. Eins og við tókum fram í byrjun er auðvitað ekki sanngjarnt að ætla að bera árangur liðanna og leikmannanna saman með beinum hætti, en það er heldur betur gaman að skoða þetta. Þið getið svo rýnt betur í þetta ef þið viljið.