Showing posts with label Sonics. Show all posts
Showing posts with label Sonics. Show all posts

Thursday, December 29, 2016

George Karl er frekar ómerkileg manneskja

































Væntanleg bók* fyrrum NBA þjálfarans George Karl sem heitir því stutta og hnitmiðaða hafni Furious George: My Forty Years Surviving NBA Divas, Clueless GMs, and Poor Shot Selection hefur reynst fjölmiðlum sem fjalla um NBA deildina óþrjótandi fréttauppspretta undanfarna daga.

Það sem fjölmiðlum ytra þótti fyrst merkilegt við bókina hans Karl, nú eða það fyrsta bitastæða sem þeir fengu að lesa úr bókinni (hún er ekki komin út), voru miður falleg ummæli sem hann lét falla um Carmelo Anthony sem hann þjálfaði um árabil hjá Denver Nuggets. ´Melo var auðvitað ekki sá eini sem fékk að heyra það frá Carl í þessari stuttu úttekt úr bókinni, því sá gamli lét sér ekki muna um að henda mönnum eins og JR Smith og Kenyon Martin undir rútuna í leiðinni.



Við gátum ekki stillt okkur um að glotta þegar við lásum þetta, því hvert einasta orð sem Karl lét hafa eftir sér um leikmennina - sérstaklega Carmelo Anthony - var dagsatt. Hafið hugfast að við erum hér að tala um ummæli Karl um ´Melo og félaga innan vallar, ekki persónu þeirra eða hagi utan vallar (þó þetta tvennt haldist vitanlega stundum í hendur).

Karl sagði sem var að Carmelo Anthony hugsaði bara um annan enda vallarins, væri eigingjarn leikmaður og svo það sem okkur hefur alla tíð þótt augljóst; hann er ekki tilbúinn til að leggja á sig þá vinnu sem til þarf til að verða leikmaður í hæsta gæðaflokki.

Þetta hefur ekki síst með það að Carmelo Anthony á að heita leiðtogi í sínum liðum af því hann fær borgað sem slíkur, en ef leiðtoginn og/eða hæstlaunaðasti leikmaðurinn í liðinu þínu er ekki tilbúinn til að spila vörn og leggja á sig þá vinnu sem til þarf til að fá það mesta út úr liði sínu - þá er enginn í liðinu að fara að gera það.



Það sem okkur þótti hinsvegar miður við ummæli Karl var þegar hann fór að blanda persónulegum hlutum eins og því hvort leikmennirnir sem spiluðu undir hans stjórn á sínum tíma áttu feður eða höfðu jákvæðar/heppilegar föðurímyndir og fabúlera um hvort það væri atriðið sem stæði þeim fyrir þrifum sem leikmenn.

Auðvitað getur meira en vel verið að svona issjú skipti máli þegar kemur að kjarna leikmanna bæði sem manna og atvinnumanna og það getur líka vel verið að þetta sé allt saman rétt hjá George Karl, en þú ferð ekki að gaspra um svona lagað í bókinni þinni. Þetta eru hlutir sem eiga ekki að fara út úr búningsherberginu og þarna er því um trúnaðarbrest að ræða - Karl er þarna að brjóta óskráða reglu sem gildir í samskiptum leikmanna og þjálfara sem eiga að vera vopna- og fóstbræður.

Það sem stendur upp úr hvað Denver-hraun Karl varðar, er að okkar mati hvað Carmelo Anthony tók þroskaða afstöðu - háa veginn góða - þegar fjölmiðlar reyndu að fá hann til að hrauna til baka. Hann er kannski ekki mesti sigurvegari í heimi, hann Melo, en hann hefur þroskast gríðarlega síðan hann kom inn í deildina á sínum tíma.
































En eins og þið sem fylgist með hafið lesið, virðist George hvergi nærri hættur, því nú síðast var hann byrjaður að hrauna yfir Damian Lillard hjá Portland!

Eins og búast mátti við, var Terry Stotts þjálfari Portland fljótur að gagnrýna George harðlega fyrir þessi leiðindi. Það er ekki nema von að Stotts hafi verið vonsvikinn, því hann bæði spilaði fyrir Karl á sínum tíma og var aðstoðarþjálfari hans um árabil bæði hjá Seattle Supersonics og Milwaukee Bucks.

Við höfum lesið fleiri en eina grein um George Karl í gegn um árin þar sem látið hefur verið í veðri vaka að hann sé ef til vill ekki besti karakter í heimi. Að hann hafi verið fremur leiðinlegur við leikmenn sína, tækifærissinaður og gjarn á að henda þeim undir rútuna.

Þessi bók hans sem er að koma út virðist renna stoðum undir þessar kenningar en við höfum reyndar líka lesið greinar um það að George sé ofmetinn þjálfari ofan á allt saman. Ef fólk vill fara í þá áttina, er svo sem hægt að benda á það hvað hann þjálfaði lengi í deildinni og hvað hann náði miklum árangri á þessum 30 árum sínum eða svo.

Karl var aldrei nálægt því að vinna meistaratitil á ferlinum, en hann var svo sem aldrei með nein ofurlið í höndunum, þó þau væru oftast ljómandi góð. Því eru menn ekki sammála um hvað hann á mikinn heiður skilinn fyrir árangur liðanna hans. Hann fór með Seattle í lokaúrslit gegn Chicago árið 1996, en þar átti liðið aldrei séns eftir að hafa lent 3-0 undir í einvíginu. Á myndinni hér fyrir ofan sérðu fjóra af lykilmönnum ´96 liðs Sonics. Frá vinstri: Gary Payton, Shawn Kemp, George Karl, Sam Perkins og Detlef Schrempf.

Karl fékk svo langþráða nafnbótina Þjálfari ársins eftir margra ára skak með Denver þegar það náði að vinna 57 leiki árið 2012, en  það var engin innistæða fyrir þeim árangri frekar en venjulega - Denver liðið hans datt nánast alltaf út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Það er svo sem óþarfi fyrir okkur að vera að velta okkur upp úr þessu bulli í George Karl, en það eina sem okkur langar að segja er að okkur þykir það eiginlega með ólíkindum að maður eins og Karl skuli láta svona ómerkilegheit út úr sér á prenti - maður kominn á þennan aldur - og verandi nýbúinn að hafa betur í baráttunni við krabbamein og allar græjur! Nei, best að gefa þá bara út bók og drulla yfir allt og alla sem maður hefur unnið með um ævina! Því ekki það!

Það sem Karl er að láta hafa á eftir sér á prenti í þessari bók sinni er ómerkilegt og ber vott um biturð, tvöfeldni og öðru fremur óhemju lélegan karakter. Við áttum okkur á því að menn verða að segja eitthvað ef þeir ætla sér að selja bækur, en þarna fer Karl yfir strikið og þó við séum sammála honum með margt af því sem hann segir, á margt af því ekkert erindi á prent.

George Karl er augljóslega ekkert sérstaklega merkilegur karakter og hann er svo sem ekki eini sigursæli þjálfarinn í sögu NBA sem virðist vera skítakarakter.

Það fer vel á því að hann skuli sitja í 5. sæti listans aðeins þremur sætum eða svo fyrir ofan annan skítakarakter, Larry "á ég að lána þér húfu og vettlinga til að hafa meðan þú liggur þarna undir rútunni sem ég er að fara að henda þér fyrir á meðan ég fer í viðræður um að þjálfa annað félag þegar ég er með lið í miðri úrslitakeppni" Brown.

Já, það eru sauðir í þjálfarastéttinni eins og öðrum, þó við viljum auðvitað öll halda að þjálfarar séu snillingar upp til hópa eins og Gregg Popovich.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Lesendur NBA Ísland eru svo heppnir að fá sník pík á báðar bókarkápurnar sem hannaðar voru fyrir nýju bókina hans George Karl hér í þessari færslu. Það var lítið.

Monday, October 13, 2014

Hagvöxtur


Kaffimógúllinn Howard Schultz (til vinstri á myndinni) seldi hinum slímuga Clay Bennett körfuboltafélagið sitt Seattle Supersonics fyrir 350 milljónir dollara árið 2006.

Það er svipuð upphæð og Kevin Durant (sem Seattle tók númer 2 í nýliðavalinu árið eftir) fær fyrir skósamninginn sem hann var að gera við Nike þegar allir bónusar eru taldir.

Í dag eru "ómerkilegustu" klúbbarnir í NBA deildinni á borð við Milwaukee og Sacramento metnir á yfir 500 milljónir dollara. Fyrir skömmu var met slegið þegar Steve Ballmer keypti LA Clippers á tvo milljarða dollara.

Ætli Schultz sjái eftir sölunni?

Thursday, August 7, 2014

Shawn Kemp tróð körfuboltum á fólk



























Þeir sem hafa fylgst með NBA frá því deildin ruddi sér til rúms hér á landi muna líklega allir eftir framherjanum Shawn Kemp.

Þessi mikli háloftafugl sló í gegn með Seattle Supersonics sáluga á fyrstu árum tíunda áratugarins og líklega er óhætt að segja að hann hafi toppað sem leikmaður í lokaúrslitunum árið 1996 þegar lið hans tapaði þar fyrir Chicago Bulls.

Áður en Kemp varð einn besti framherji deildarinnar, var hann hinsvegar fyrst og fremst þekktur sem háloftafugl og krafttroðari. Tomahawk-troðslurnar hans urðu heimsfrægar og samvinna hans og Gary Payton í hraðaupphlaupum Sonics var sjónvarpsefni í hæsta gæðaflokki.

Við rákumst á þessa skemmtilegu syrpu hérna fyrir neðan með mörgum af mögnuðustu troðslunum hans Kemp og meira að segja Kemp-aðdáendur eins og við fengum smá gæsahúð við það að rifja upp þvílíkt eintak af íþróttamanni drengurinn var fyrir um tuttugu árum síðan.

Við mælum eindregið með því að yngri körfuboltaáhugamenn skoði þetta myndband hérna fyrir neðan vel, þó margar af klippunum líti út fyrir að vera frá því árið 1946 vegna lélegra myndgæða.

Veitið því sérstaklega athygli hvað Kemp tróð fáránlega oft í andlitið á tveimur af bestu skotblokkurum sinnar kynslóðar - þeim Alonzo Mourning og Dikembe Mutombo.

Það má með sanni segja að Kemp hafi verið undanfari Blake Griffin á troðsviðinu, því ekkert fannst honum skemmtilegra en að gefa mönnum slátur - ekki síst leikmönnum Golden State Warriors eins og þið sjáið á mörgum af hans frægari troðslum undir lokin á myndbandinu.

Það er ekki laust við að við fyllumst nostalgíu þegar við horfum á Kemp nudda miðsvæðinu á sér í andlitið á andstæðingunum og láta þá svo vita vel af því eftir á.

Miðað við reglurnar í dag hefði hann fengið tæknivillu eftir um það bil 68% af þessum troðslum sínum, en á síðustu öld mátti nefnilega sýna tilfinningar á körfuboltavöllum, öfugt við það sem tíðkast í dag.

Góða skemmtun.

Friday, May 9, 2014

Það var árið 2005


Fyrir sléttum níu árum síðan voru San Antonio og Seattle að berjast í annari umferð úrslitakeppninnar. Seattle var eitt af Spútnikliðum vetrarins undir stjórn Nate McMillan og rúllaði Sacramento nokkuð óvænt upp 4-1 í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Liðið veitti San Antonio svo harða keppni í annari umferðinni þar sem það jafnaði 2-2 heima eftir að hafa lent undir 2-0, en San Antonio kláraði síðustu tvo leikina og vann svo titilinn nokkrum vikum síðar með því að leggja Detroit í lokaúrslitum.

Þetta Spútnik sem var í Seattle-liðinu á þessum tíma náði þó ekki lengra en þetta. Nate McMillan var látinn fara og stórskotalið þeirra Rashard Lewis (Orlando) og Ray Allen (Boston) leituðu loks annað. Eins og þið sjáið á myndinni hérna fyrir neðan var Manu Ginobili með hár á þessum tíma. Þarna er hann í baráttu við stórmeistarann Nick Collison hjá Seattle, sem tæknilega er enn hjá sama félagi, þó Oklahoma komi Seattle auðvitað ekkert við.


Tuesday, January 22, 2013

Áfram skal drullað yfir góða stuðningsmenn



Það væri lélegt ef við segðum ekki okkar skoðun á því að nú virðast vera 99% líkur á því að Sacramento sé að missa körfuboltafélagið sitt til Seattle. Hið rétta er að við höfum ekki með nokkru móti nennt að setja okkur almennilega inn í þetta mál af því það er svo mikil skítalykt af því.

Það fór gríðarlega í taugarnar á okkur eins og öllum (nema Oklahoma-búum) þegar Supersonics var stolið frá Seattle og því er það óendanlega kaldhæðnislegt að hinir flottu stuðningsmenn í Seattle séu nú aftur að fá NBA lið - og það stolið alveg eins og Sonics forðum.

Undirmálsmennirnir Maloof-bræður hafa verið milli tannanna á fólkinu í Sacramento í mörg ár, en þessir drulluhalar sem voru búnir að lofa að liðið færi ekki frá Sacramento, stukku auðvitað beint á að losa það þegar ljóst varð að þeir fengju þessar fáránlega háu upphæðir fyrir Kings. Þetta félag er ekki nálægt því að vera 500 milljón dollara virði, það er brandari.

Nú erum við þegar búin að skrifa allt of mikið um þetta. Því miður eru þessi mál fastur partur af lífinu í NBA og þegar þessi bisness er annars vegar, er öllum skítstama um alla.

Fólkið í Sacramento, með fyrrum NBA leikmanninn og borgarstjórann Kevin Johnson í fararbroddi, hefur barist blóðugri baráttu fyrir því að fá að halda liðinu sínu í borginni og hefur gert allt sem til þurfti.

Það er bara ekki nóg.

Vissulega er það þannig að Kings hefur verið brandari í NBA deildinni og að undanskildum árunum með Chris Webber, hefur það verið að gólfmotta í besta falli. Það verður því enginn söknuður af liði Sacramento Kings - ekki nokkur - en við erum bókstaflega í rusli fyrir hönd stuðningsmanna Kings.

Þetta fólk er búið að vera ótrúlega duglegt að styðja við bakið á liðinu þó það hafi verið drullandi á sig áratugum saman og loksins þegar liðið byrjaði að geta eitthvað um aldamótin, voru stuðningsmennirnir ef til vill þeir háværustu og bestu í deildinni.

Ef við skoðum hina hliðina á peningnum, er gaman að fólkið í Seattle sé að fá NBA lið aftur, en alveg eins og með Oklahoma, er ekki hægt að gleðjast að fullu fyrir hönd félagsins á næstu árum út af drullunni sem gengið hefur á í sögu þess.

Drullusekkurinn sem á Oklahoma City var búinn að lofa því að Seattle gæti fengið Supersonics nafnið aftur ef borgin fengi lið á ný (hann á réttinn á nafninu) en það er einskis virði ef félagið fær ekki sögu sína til baka. Við sjáum ekki að svo geti orðið, þó auðvitað eigi að slíta sögu Sonics frá Thunder og miða sögu OKC við árið þegar það flutti til Oklahoma.

Við botnum ekkert í þessari hringavitleysu.

Skál fyrir þér og þínum skítaplönum enn eina ferðina David Stern. Gangi þér vel í að hrauna frekar yfir deildina áður en þú drullast loksins til að hætta, elliæra fífl.

Allt snýst þetta um peninga og pólitík og það eru einmitt atriðin sem okkur leiðast mest.
Sérstaklega fyrra atriðið. Pólitík á ekki heima í jafn fallegum leik og körfubolta. Á ekki að sjást.