Showing posts with label Álag. Show all posts
Showing posts with label Álag. Show all posts

Saturday, December 31, 2016

Meistaraskýrsla


Sigur Cleveland á Golden State í jólaleiknum um daginn og áhugaverð þróun í spilamennsku lykilmanna liðsins varð til þess að nú höfum við óvart skrifað smá skýrslu um stöðu mála hjá meisturunum á síðasta degi ársins 2016. Ykkur er velkomið að renna yfir hana, hún er meira að segja stutt, svona á miðað við það sem gengur og gerist á þessu vefsvæði.

Ef við skellum Cleveland í gegn um vandamálagreiningarskannann, dúkka fáar niðurstöður upp. Eina vandamálið í herbúðum Cleveland þessa dagana er að (nothæfra) leikmannahópurinn er of fámennur, sérstaklega í ljósi meiðsla JR Smith, sem mætir ekki til vinnu á ný fyrr en lóan kemur.

Þetta er svo sem ekki vandamál í sjálfu sér, því það er ekki eins og Cleveland sé að fá mikla samkeppni í deildarkeppninni í austrinu. Eina liðið sem ógnar meisturunum í keppninni um efsta sætið eystra er Toronto og þó Kanadaliðið sé að spila vel, er Cleveland ekkert hrætt við það - hvort sem það verður með heimavöll eða ekki þegar í úrslitakeppnina er komið.



Nei, það eina neikvæða við það að lykilmenn Cleveland séu að spila of margar mínútur í vetur er að LeBron James sé að spila of margar mínútur. Við erum búin að tuða um það í allan vetur, að of mikið álag á James er ekki smámál, heldur lögreglumál

James varð 32 ára í gær og eftir um það bil tíu leiki, verður hann 33. maðurinn í sögu NBA til að spila 40.000 mínútur í deildarkeppninni. Þá eru ótaldar 8.383 mínúturnar sem hann hefur spilað í úrslitakeppni á ferlinum og til að gefa ykkur hugmynd um hvað það er stór viðbót við þessar 40.000, má geta þess að aðeins Kobe Bryant, Kareem Abdul-Jabbar og Tim Duncan hafa spilað fleiri mínútur en James í úrslitakeppni í sögu NBA. Hentu inn í þetta tæpum 2.500 mínútunum hans á undirbúningstímabilum og við erum komin vel yfir 50.000 mínútur að ótöldu landsliðsskaki.

Fimmtíu. Þúsund. Mínútur.



LeBron James er einhver blanda af ofurmenni, geimveru, hálfguði og sæborg. Það er það eina sem útskýrir hvernig í ósköpunum skrokkurinn á manninum hefur staðið undir öllu þessu álagi án þess að meiðast nokkru sinni alvarlega.

En svona ef við tölum aðeins í alvöru, er frábært heilsufar LeBron James á körfuboltaferlinum álíka einstakt og lottóvinningur. Líkurnar á að atvinnumaður í deild með jafn miklu álagi og NBA meiðist ekki alvarlega á þrettán og hálfu ári og fimmtíu þúsund mínútum eru álíka góðar og að Jón Viðar Jónsson vakni í svo góðu skapi tvo daga í röð að hann ákveði að sleppa því að drekkja kettlingum í heila viku.

Þið sjáið að þetta mínútumál hans LeBron James liggur þungt á okkur, en það er ekki af ástæðulausu. Cleveland kemur til með að halda áfram að gefa James leik og leik í frí (liðið er búið að tapa öllum leikjunum sem hann hefur sleppt í vetur) en þó það sé hið besta mál, vegur það ekki upp á móti öllum þessum 40 mínútna leikjum hans að undanförnu. 

Ekki segja að við höfum ekki varað ykkur við, Cleveland.



Annað sem vekur athygli okkar hjá Cavs í vetur, fyrir utan mínúturnar hans James og þá staðreynd að hann er líka að spila eins og höfðingi eins og hann er vanur (t.d. búinn að laga 3ja stiga nýtinguna sína til muna, sem er ómetanleg staðreynd fyrir hann), er hvað þeir Kyrie Irving og Kevin Love eru líka búnir að vera flottir í vetur.

Kevin Love er hreinlega allt annar maður en hann var í fyrra, þegar meiðsli, taktleysi og andlegur núningur gerðu honum lífið ansi hreint leitt. Nú er hann hinsvegar búinn að fara með liðinu alla leið í úrslitakeppninni og finna sína rullu og sinn takt með liðinu sem gerir það að verkum að lífið er í alla staði léttara hjá honum. 



Þetta skilar sér beint á tölfræðiskýrsluna eins og þið sjáið og þó hann sé aldrei að fara að taka einhver 25/15 tímabil með þessu Cleveland-liði, er lykiltölfræðin hans búin að taka áberandi kipp í vetur. Þar munar mestu um næstum fimm tikk upp á við í 3ja stiga nýtingunni og hvorki meira né minna en sex stiga bætingu að meðaltali í leik, sem er meira en umtalsvert.

Sömu sögu er að segja af Kyrie Irving. Það hefur ekki borið mikið á honum í vetur ef hetjukarfan hans í jólaleiknum gegn Warriors er undanskilin, en leikstjórnandinn knái er líka búinn að bæta sig helling í tölfræðinni og er að eiga sitt besta tímabil á ferlinum í stórum þáttum eins og stigum og skotnýtingu og er líka að hóta því að bæta sinn besta árangur í stoðsendingum, sem að okkar mati yrði mjög áhugavert.



Við komumst nefnilega að því fyrir tilviljun þegar við fórum að skoða tölfræðina hans Irving í dag, að hann er allt í einu farinn að gefa boltann eins og hann fái borgað fyrir það.

Vitið þið hvað Kyrie Irving átti marga 10+ stoðsendinga leiki á síðustu leiktíð? O.k. við skulum bara segja ykkur það. Hann gaf ekki einu sinni tíu stoðsendingar eða meira á síðustu leiktíð - hvorki í deild né úrslitakeppni. Ekki einu sinni! Það getur vel verið að hann sé meiri skorari en leikstjórnandi, en þetta á ekki að þekkjast.

Og hann byrjaði þessa leiktíð með svipuðum hætti. Hann gaf aðeins einu sinni 10 stoðsendingar í október og nóvember, en núna í desember eru stórfurðulegir hlutir að eiga sér stað.

Allt í einu er Kyrie Irving búinn að gefa tíu stoðsendingar eða meira í fimm af síðustu sjö leikjum Cleveland! Þar af 13 stoðsendinga leik gegn Milwaukee, sem var met hjá honum á ferlinum. Ja, batnandi mönnum og allt það...

Þetta voru nokkur orð um meistara Cleveland Cavaliers* og stöðu mála hjá þeim. Sigur liðsins á Warriors á jóladag sýnir að liðið er til alls líklegt í sumar ef það heldur heilsu og meira en það.

Eins og staðan er í dag, er Cleveland nefnilega komið í stöðu sem það hefur aldrei nokkru sinni lent í áður í sögu félagsins. Cleveland er sigurstranglegasta liðið í baráttunni um meistaratitilinn í NBA deildinni árið 2017.

Þú getur dundað þér við að hugsa um þetta það sem eftir lifir af árinu 2016 - einu furðulegasta boltaíþróttaári allra tíma.

Ári Íslands, Leicester City og Cleveland Cavaliers.

------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Það hættir aldrei að vera súrrealískt að tala um lið frá Cleveland sem meistara í einhverju.

Wednesday, October 26, 2016

Friday, November 30, 2012

Ristill: David Stern vs San Antonio


Enn og aftur erum við með óbragð í munninum yfir fyrirætlunum David Stern. Hann hefur nú gefið það út í dramakasti að hann ætli að refsa San Antonio fyrir ákvörðun þjálfarans að hvíla lykilmenn liðsins í útileik þess gegn Miami í nótt.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Popovich þjálfari Spurs gerir þetta. Hann gerði þetta amk í tvígang á síðustu leiktíð og fékk liðið stóran skell í annað skiptið. San Antonio hefur aldrei unnið leik þegar Popovich hefur ákveðið að hvíla þá Duncan, Ginobili og Parker og það breyttist ekki í nótt, þó tapið væri afar naumt gegn meisturunum.

Twitter hefur auðvitað logað út af þessu máli í alla nótt og við verðum að segja að það kemur okkur á óvart hve margir hafa tekið upp hanskann fyrir viðbjóðinn hann David Stern í þessu máli.

Það þýðir þó ekki að megi ekki finna að þessari ákvörðun Popovich, alls ekki.

Við erum af gamla skólanum og þó Popovich eigi að heita það líka, hefur það ekki aftrað honum frá því að taka þessa umdeildu ákvörðun um að hvíla fjóra stigahæstu leikmenn sína fyrir leikinn í Miami.

Það sem við eigum við þegar við segjum að við séum af gamla skólanum, er best að útskýra með því að vitna í Jerry Sloan, fyrrum þjálfara Utah Jazz. Sloan benti alltaf á það að leikmenn skulduðu fólkinu það að gefa 100% í alla leiki - alltaf - því fólkið sem borgaði stórfé inn á leikina ætti það skilið.

Þetta er auðvitað alveg rétt hjá þeim gamla og ekki var hann að hvíla sína menn Stockton og Malone með þessum hætti, þó þeir spiluðu báðir fram undir og yfir fertugt hjá honum.

Sloan þekkti það jafnvel betur en Popovich hvernig var að keyra á lykilmönnum sem komnir voru langt fram yfir sitt léttasta skeið, svo hans skoðun telur því þungt í þessu samhengi að okkar mati.

NBA leikmenn eru, þegar öllu er á botninn hvolft, milljarðamæringar og eiga því að vera nógu góðir til að spila þessa leiki sem eru á töflunni eins og allir aðrir.

Annað atriði sem er auðvelt að gagnrýna við ákvörðun Pop, er að hann skuli senda leikmennina upp í flugvél og heim til Texas - í stað þess að leyfa þeim bara að sitja á bekknum og hvíla.

Að senda þá heim gerir meira í því að senda deildinni langt nef en bara það að hvíla þá (þó það sé auðvitað miklu meiri hvíld í því að fara bara heim í sófa).

En nú komum við að hinni hliðinni á peningnum - hliðinni sem snýr upp að okkar mati.

Gregg Popovich ræður hvað hann gerir við liðið sitt og það kemur engum rassgat við. Hvorki þér né David Stern

Popovich, Duncan, Parker og Ginobili hafa unnið sér það inn frá því fyrir aldamót að gera það sem þeim fokkíngs sýnist. Þeir hafa unnið sér inn virðingu til þess og höfðu í þessu tilviki unnið sér inn fyrir því að fá smá frí, því liðið hefur byrjað leiktíðina með bravúr og var að koma úr bestu útileikjarispu Í SÖGU NBA áður en kom að Miami leiknum.

Spurs var búið að vinna 29 af síðustu 33 útileikjum sínum og toppar þar m.a. ótrúlegan árangur Chicago-liða Michael Jordan á sínum tíma - annað þeirra náði til að mynda besta árangri allra tíma, 72-10.

Þá hefur þessi lykilmannskapur San Antonio jú unnið fjóra meistaratitla, svo ef einhver þjálfari og einhver mannskapur hefur unnið sér það inn að fá að hvíla einn bévítans leik - er það þetta San Antonio lið.

Ef það er einhver ákveðin tegund leikmanna í NBA sem er líklegri en önnur til að meiðast, er það leikmenn sem eru undir gríðarlegu álagi.

Ef einhver tegund leikmanna er líklegri en þessi til að meiðast, eru það gamlir leikmenn undir miklu álagi.

Það er nóg af þessum efnivið í San Antonio og þetta veit Popovich ósköp vel. Hann er að tefla til að vinna meistaratitil, ekki til að reyna að komast í úrslitakeppnina. Hann er að spila heilt tímabil, ekki bara að reyna að vinna næsta leik til að bjarga á sér beikoninu eins og svo margir aðrir þjálfarar í NBA.

Og ekki fara að væla um að stuðningsmenn Miami hafi borgað góðan pening til að sjá stórstjörnur San Antonio. Þið vitið öll að San Antonio er almennt álitið minnst sexí körfuboltalið í deildinni af Jóni Jónssyni úti í bæ og 90% af kasjúal fans eru búnir að fá hundleið á Spurs fyrir tíu árum síðan.

Það er ekki verið að neita þeim um að sjá Kobe eða Durant. Þetta er gamla, leiðinlega San Antonio, svo þessi afsökun er ekki tekin gild. Sorry.

Það er til fordæmi um svona sektir í NBA. Valdafyllibyttan David Stern sektaði Pat Riley og Los Angeles Lakers um 25 þúsund dollara árið 1990 fyrir að hvíla lykilmenn eins og Magic Johnson og James Worthy í lokaleik deildakeppninnar.

Það er einfaldlega rangt að Stern skuli rísa upp á afturlappirnar og taka geðkast allt í einu núna þegar Spurs er búið að gera þetta oft áður. Það er því eiginlega sársaukafullt hve augljóst það er af hverju Stern er að bregðast svona við núna.

Stern hefur fengið símtal frá reiðum toppi frá TNT sjónvarpsstöðinni þegar í ljós kom að Spurs ætlaði að hvíla sína bestu menn, því auðvitað snýst NBA deildin ekki um neitt annað en peninga eins og allt annað.

Sjónvarpspeningar eru dýrmætustu og mestu peningarnir í öllu NBA-samhenginu og David Stern er ekki maður sem lætur skamma sig. Hann mun því taka alla sína ógæfu út á San Antonio og setja eitt af sínum fasistafordæmum, sannið til.

Refsingin sem hann mun skella á Spurs er aukaatriði í sjálfu sér, það eru viðbrögð Stern sem fara í taugarnar á okkur. Var virkilega ekki hægt að ræða málin? Var ekki hægt að gefa Spurs aðvörun?

Heimildir herma að Stern hafi ekki svo mikið sem sett sig í samband við San Antonio áður en hann rauk í fjölmiðla og gaf út að hann ætlaði að refsa félaginu. Þetta eru dæmigerð diktatoravinnubrögð hjá þessum hrokafulla, peningagráðuga  og valddrukkna fáráði.

Stern var maðurinn sem kom NBA deildinni á koppinn, það verður ekki af honum tekið, en rétt eins og margir menn í valdastöðum, vissi hann ekki hvenær hans tími var kominn. Hann hefði átt að hætta fyrir löngu síðan.

Verst af þessu öllu er svo þessi óþolandi hræsni í yfirlýsingu hans að biðja stuðningsmenn NBA afsökunar á gjörðum San Antonio í kvöld.

Ertu að grínast, gölturinn þinn!?!

*Hvernig væri að byrja á að biðjast afsökunar á Donaghy-skaldalnum?

*Hvernig væri að biðjast afsökunar á verkbanninu í fyrra?

*Hvernig væri að minnka álagið á leikmenn í deildinni?

*Hvernig væri að biðjast afsökunar á því hvernig nokkur lið gera það viljandi og kerfisbundið að tapa leikjum á hverju einasta vori út af gölluðu kerfi í deildinni? #Tanking

*Hvernig væri að biðjast afsökunar á Charlotte Bobcats og Washington Wizards?

Líttu í eigin barm, hrokafulla, elliæra svín.

Það verður dásamlegt þegar þú hættir.

Friday, November 9, 2012

Ristill: Staðan er slæm hjá LA Lakers


  Los Angeles Lakers tapaði fyrir Utah Jazz í nótt sem leið og hefur því tapað fjórum af fyrstu fimm leikjum sínum í vetur. Eini sigur liðsins kom gegn Detroit, sem þessa dagana ætti fullt í fangið með að vinna Mostra.

Meiðsli Steve Nash er sannarlega ekki að hjálpa Lakers-liðinu að stilla saman nýja strengi, en vandamálið sem liðið stendur frammi fyrir er svo miklu stærra en það. Við höfum skrifað ristil af minna tilefni.

Margir segja að það sé hin meinta Princeton-sókn sem sé að þvælast fyrir Lakers, en liðið var nú að skjóta yfir 50% áður en það fór til Salt Lake City í gær, svo það er ódýr útskýring.

Við viljum meina að vandræði Lakers séu fleiri og meiri en þetta. Auðvitað á þetta eftir að ganga betur hjá Lakers þegar Nash kemur heill inn í þetta og menn fara að þekkjast betur.

Það breytir því þó ekki að:

* Vanarleikur liðsins er afleitur. Dwight Howard átti að breyta miklu þar og gæti átt eftir að gera það einn daginn, en varnarleikur liðsins fram að þessu hefur á körflum verið skelfilegur.

* Helsta ástæðan fyrir töpunum fjórum hjá Lakers til þessa hefur verið tapaðir boltar, en Lakers hefur tapað hvorki meira né minna en 93 boltum. Það er næstversti árangur í deildinni og þar af eru Kobe Bryant (22) og Dwight Howard (19) með hátt í helminginn (41)Þetta er annað atriði sem ætti að lagast þegar menn fara að þekkjast betur en þetta er allt, allt of mikið.

* Dýptin í liðinu er engin.

* Kobe Bryant er kominn í fýlu. Hann var afleitur í fyrri hálfleiknum gegn Jazz í gær, en ákvað að skjóta Lakers inn í leikinn í þeim síðari. Hann setti nokkrar huggulegar körfur eins og hann er vanur og þurfti ekki annað en depla auganu til að brotið væri áhonum.

En menn sem fylgdust með leiknum, sóru fyrir það að Bryant hafi ekki gefið eina sendingu síðustu c.a. 7 mínútur leiksins. Ekki eina.

Hann var enda stuttur í spuna eftir leikinn og svo sem ekkert nýtt við það. Það er ómögulegt að taka viðtal við Bryant eftir tapleiki, sérstaklega ef þeir eru nokkrir á stuttum tíma. Bryant sendi ljót augnaráð í allar áttir meiripartinn af leiknum í gær og hafi einhver tekið þau til sín, hefur sá hinn sami líklega orðið hræddur.

Nú erum við komin út fyrir efnið, en vandræði Lakers eru raunveruleg.

Mike Brown getur ekki unnið með þessu sýstemi og fer rangt að hlutunum að okkar mati. Af hverju? Af því hann notar ekki hættulegasta sóknarmanninn í liðinu og er bara með tvö plön í gangi. Annað hvort lætur hann dæla boltanum stanslaust inn á Dwight Howard eða lætur Kobe Bryant skjóta sig í hel.

Allt of oft er Dwight Howard að fá boltann á vinstri blokkinni og hnoðast. Hann er takmarkaður sóknarmaður sem í besta falli fær villu og klúðrar báðum vítaskotunum.

Planið með Kobe Bryant höfum við öll séð. Þá fær hann einfaldlega græna ljósið á að gera eitthvað sem hann ræður bara ekki við nema í skömmtum lengur og þá er niðurstaðan því miður oftast svipuð og hún var í Energy Solutions Arena í gærkvöldi.

Hér er okkar kenning:

Pau Gasol er lykilmaður í liði Lakers að okkar mati, en Mike Brown notar hann eins og hvern annan kraftframherja og lætur því hæfileika hans fara til spillis. Pau Gasol er að okkar mati hæfileikaríkasti stóri maðurinn í NBA deildinni, alveg sama hvað hver segir um Dwight Howard, Andrew Bynum eða Ómar Ragnarsson.

Sóknarleikurinn hjá Lakers á að fara í gegn um Pau Gasol að okkar mati. Hann er eitraður nálægt körfunni og er frábær sendingamaður og óeigingjarn. Að okkar mati er Lakers-liðið langhættulegast þegar sóknin gengur í gegn um Spánverjann. Það má svo hver sem vill hafa allt aðrar skoðanir á því.

Lausnin við vandamálum Lakers virðist alltaf vera að losa félagið við Pau Gasol. Þvílíkur þvættingur.

Lakers-liðið hefur ENGA breidd. Einn af göllunum við að vera með eitt besta byrjunarlið sögunnar á pappírunum.

En það er erfitt að gera rósir með engan bekk eins og Lakers. Maðurinn sem átti að vera aðalnúmerið á bekknum hjá þeim, Antawn Jamison, getur ekki neitt og virðist búinn.

Á bara eftir að staðfesta andlátið.

Við hefðum ekkert á móti því þó lið Lakers næði að rétta úr kútnum og verði sterkt á ný. Við erum ekki að drekka neitt Hatorade hérna. Líkurnar á því að liðið verði gott eru meiri en minni. Eins og staðan er í dag erum við hinsvegar alls ekki að sjá að þetta dæmi muni ganga upp hjá þeim.

Þetta lið er ekki að fara að gera nokkurn skapaðan hlut í vor ef það ætlar að láta Kobe Bryant, Steve Nash og Pau Gasol spila 40 mínútur í leik, ef þeir verða þá heilir í vor. Og kannski þolir bakið á Howard það ekki heldur.

Ekkert lið í sögunni hefur orðið NBA meistari eftir að hafa byrjað leiktíðina 1-4 eins og Lakers núna. Við ætlum að tippa á að Lakers verði ekki fyrsta liðið til að afreka það, jafnvel þó það bæti sig til muna í vetur.

Þetta eru bara fimm leikir og því er glórulaust að ætla að byggja heilu kenningarnar á því, en við ætlum samt að reyna að gera okkur að fíflum bara fyrir ykkur.

Það kemur sér vel fyrir Lakers að næstu fimm leikir liðsins eru á heimavelli. Tveir fyrstu mjög vinnanlegir og svo slagur við San Antonio. Mike Brown þjálfari getur þakkað fyrir að þessi heimaleikjarispa er fram undan því Lakers er ekki í neinu standi til að fara á erfiða útivelli og vinna. Það sáum við í gær.

Það væri asnalegt ef Lakers myndi bara reka Mike Brown, en þrátt fyrir að stjórnin verði auðvitað að sýna honum þolinmæði, er óvíst að hann fái að tapa fullt af leikjum í haust. Það er einu sinni verið að berjast um sigur í Vesturdeildinni og sem stendur er liðið þar í neðsta sæti.

Allra augu beinast að Lakers þessa dagana og lið eins og Oklahoma og Miami elska hvað það dregur athyglina frá þeim. Sviðsljósið verður sterkara á Lakers en nokkru sinni fyrr meðan liðinu gegnur svona illa og það er stutt í að Los Angeles-miðlarnir fari að fá blóðbragð í munninn og tala illa um Mike Brown. Þannig er þetta bara í LA.

Og þá erum við ekki farin að tala um framtíðina hjá Lakers, þar sem risasamningur Kobe Bryant er efsta atriði á blaði. Skoðum það síðar.

Thursday, October 6, 2011