Showing posts with label Timberwolves. Show all posts
Showing posts with label Timberwolves. Show all posts

Monday, March 6, 2017

Ölkær og 86

































Þessi hressa heiðurskona var úthrópuð (shout-out) á leik Sacramento Kings og Utah Jazz í gærkvöldi. Við náðum ekki nafninu hennar eða af hverju hún kom í mynd í hálfleik nema þó kannski bara af því hún var að drekka Bud Light, en vallarþulurinn fór gjörsamlega á límingunum og öskraði það yfir allan salinn þegar hann sá hvað gjémlöh-gjémlöh var að drekka.

Nei, við náðum ekki nafninu, en daman ku vera 86 ára gömul og grjóthörð stuðningskona Kings. Ætli liggi þá ekki beinast við að spyrja hvort sú gamla var að skála af því hún er laus við Boogie.

Það var amk allt annað að sjá andann í Sacramento-liðinu í nótt en við höfum séð undanfarið. Þetta lið vinnur náttúrulega ekki fjandi marga leiki, enda eru mjög litlir hæfileikar í leikmannahópnum, sem samanstendur af sexhundruð senterum og skrilljón skotbakvörðum.

Sacramento og Leicester eru svo sem ekki einu liðin sem fundið hafa nýtt líf í vikunni. New York-liðið greip einhvern anda í leik sínum við Golden State í gærkvöldi og náði með honum að hanga inni í leiknum allt til loka. Það er svartmálmur að horfa á Knicks, en hæfileikar og pótensjallinn í Kristaps Porzingis tryggja það að öllum getur stokkið bros yfir tilþrifum hans annað slagið, ef þeir pína sig í gegn um leik með sorglegasta stórliði íþróttaheimsins.

Þeir sögðu að Knicks-leikurinn kæmi á hárréttum tíma fyrir Stephen Curry og Klay Thompson; að enginn væri svo kaldur að hann næði sér ekki á strik í leik á móti New York Knicks - hvað þá á fjölum Madison Square Garden.

Jæja, þeir Curry og Thompson hafa oft skotið betur, en þeir hafa líka báðir átt verri leiki og við skulum segja að gárungarnir hafi haft rétt fyrir sér enn eina ferðina. Það er alltaf gott að mæta New York - líka í þessi fáu skipti sem leikmenn Knicks nenna að leggja sig fram.

Leikur New York og Golden State í gærkvöldi var sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 og það er gaman að geta þess að NBA-boltinn verður aftur á dagskrá strax á föstudaginn þegar Golden State-liðið verður aftur á ferðinni. Þá sækja Curry og félagar ungt og sprækt lið Minnesota Timberwolves heim, sem ætti að verða afar hressandi leikur. Þar gefst áhorfendum Sportsins tækifæri á að sjá ungstirnið Karl-Anthony Towns leika listir sínar, en þessi ungi miðherji Minnesota er gjörsamlega búinn að fara hamförum að undanförnu. Leikurinn á föstudagskvöldið hefst klukkan eitt eftir miðnætti.

Gute stunde.

































Towns fleygar körfuna hjá Dílaskörfunum...

Tuesday, January 10, 2017

Af Chauncey og Carlisle


Karl-Anthony Towns, eða Borgþór eins og við hérna á ritstjórninni köllum hann stundum, skoraði 20 stig (8 af 9 í skotum) fyrir Úlfana sína í fyrsta leikhluta í botnslag Minnesota og Dallas í nótt.

Hann ku þegar hafa afrekað að skora 22 stig í einum leikhluta fyrr í vetur og því er ljóst að pilturinn gerir harða atlögu að félagsmeti Úlfanna yfir stig í einum leikhluta.

Það vill svo skemmtilega og ólíklega til að það er enginn annar en Chauncey Billups sem á þetta met hjá Úlfunum. Það vildi til með þeim hætti að Billups tók sig til og sallaði 24 stigum, einmitt á Dallas, í þriðja leikhluta í stórsigri Úlfanna þann 19. febrúar árið 2002.

Myndin hér til hliðar er tekin þar sem Chauncey er að skora tvö af stigum sínum í þessum þriðja leikhluta, merkilegt nokk.

Billups skoraði reyndar ekki nema 36 stig í leiknum, sem var það langmesta sem hann skoraði í leik þetta árið. Hann skoraði raunar ekki nema þrisvar sinnum meira en 24 stig í heilum leik nema þrisvar fyrir utan umræddan leik leiktíðina 2001-02.

Þetta var annað og jafnframt síðasta tímabilið sem Billups spilaði með Úlfunum og þó Flip heitinn Saunders hafi haft miklar mætur á Billups sem leikmanni þá, eftir því sem sagan segir, heillaði hann þjálfarann sinn þó ekki nógu mikið til að fá að vera um kyrrt í Minnesota.

Rétt eins og í Boston, Toronto og Denver þar á undan, þurfti nú 25 ára gamall Billups að pakka saman og skipta um lið enn einn ganginn, en að þessu sinni lá leið hans til Detroit.

Í Bílaborginni, kom Billups inn í lið sem Rick Carlisle hafði tekið við árið áður og komið frá 32 sigrum upp í 50 sigra eins og honum einum var og er lagið.

Carlisle rétti Billups feginshendi leikstjórnartaumana að liði sínu fyrir leiktíðina 2003, því sveppir eins og Chucky Atkins, Dana Barros og Jon Barry höfðu ekki beinlínis farið á kostum í því hlutverki árið áður þó ágætis árangur næðist.

Það segir sína sögu að skotbakvörðurinn og stigahæsti maður liðsins, Jerry Stackhouse, skuli hafa verið stoðsendingahæsti maður liðsins leiktíðina 2002 með 5,3 stykki í leik.

Chucky Atkins og Jon Barry komu næstir, með 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik, sem er ekki beint glansinn. Hugsið ykkur bara; miðherjinn Ben Wallace var með fleiri varin skot að meðaltali í leik (3,5) en þeir höfðu stoðsendingar!

Metnaðurinn var svo rosalegur hjá Detroit-mönnum á þessum tíma, að eftir að Rick Carlisle hafði rifið liðið upp úr drullunni og þjálfað það til fimmtíu sigra, var hann rekinn eftir aðra leiktíð sína með liðið af því það náði ekki að gera betur en að jafna þann árangur árið eftir.

Þessi brottrekstur situr alltaf í okkur, því Carlisle var kjörinn þjálfari ársins á fyrra árinu sínu hjá Pistons af því hann þótti hafa búið til þetta ljómandi fína kjúklingasalat úr litlu öðru en kjúklingaskít sem fyrir var hjá félaginu.

Það eina sem getur afsakað að reka mann eins og Carlisle undir þessum kringumstæðum, var að eftirmaður hans næði að gera betur - og þá helst enn betur. Og þó maðurinn sem tæki við væri afskaplega leiðinlegur karakter, náði helvítið á honum að gera einmitt það.

Eins og mörg ykkar muna, náði jú Larry Brown að gera Detroit-liðið 2004 að meisturum á sínu fyrsta ári með liðið og fór með það í lokaúrslit aftur árið eftir þar sem það tapaði fyrir San Antonio í ótrúlegri seríu.

Þetta var einvígi þar sem boltaskopp til eða frá (eða heilaprump eins og að dekka ekki eina frægustu ögurstundarlangskyttu í sögu NBA deildarinnar eftir að hún er búin að taka innkast*) réði því að Detroit þurfti að sætta sig við tap í það skiptið.

Það breytti því ekki að Pistons-liðið fagnaði mjög svo óvæntum meistaratitli árið 2004 með því að leggja ofurlið Los Angeles Lakers mjög örugglega í lokaúrslitum, 4-1.

Aðeins tveimur árum eftir að enginn virtist finna not fyrir hann, var Chauncey Billups kjörinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna árið 2004 þar sem hann skilaði 21 stigi, 5 stoðsendingum og 3 fráköstum að meðaltali í leikjunum fimm. Hann skaut líka 51% utan af velli, 47% í þristum og 93% af línunni, auk þess sem hann tapaði aðeins 13 boltum í úrslitaeinvíginu og batt saman leik þessa agaða sóknar- og frábæra varnarliðs sem Detroit var á þessum tíma.

Rick Carlisle lét ekki brottreksturinn frá Detroit hafa áhrif á sig og tók við Indiana Pacers strax leiktíðina 2003-04 og rétt eins og Detroit gerði undir hans stjórn áður, tók Indiana stórt stökk undir hans stjórn og vann hvorki meira né minna en 61 leik á fyrsta árinu hans.

Því miður fyrir Carlisle varð hann að bíta í það súra epli að tapa fyrir Detroit-liðinu hans Larry Brown í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar, en það reyndist svo aðeins byrjunin á ógæfu hans hjá félaginu.



Detroit reyndist Carlisle hinn versti albatrosi, því eins og kunnugir vita var það þar sem slagsmálin frægu milli Pacers og Pistons lögðu grunninn að því að eyðileggja allt fyrir þessu efnilega Indiana-liði, sem af ýmsum ástæðum náði aldrei að sýna almennilega hvað í því bjó.

Það var ekki vegna þess að hæfileikana vantaði - af þeim var nóg - það var bara stór skortur á einhverju sem við skulum kalla skapgerðartrefjum.

Rick Carlisle þótti alltaf einn besti þjálfari NBA deildarinnar og þykir enn, en það var ekki fyrr en árið 2011 sem hann náði endanlega að sanna sig fyrir neikvæðustu mönnum þegar hann gerði Dallas-liðið sitt að NBA meistara með því að vinna sigur á Sólstrandargæjunum frá Miami í lokaúrslitum.

Það var öðrum fremur Dirk Nowitzki sem dró vagninn fyrir Dallas á leið þess að titlinum árið 2011, en til gamans má geta þess að í þessu Dallas-liði var einn leikmaður sem Carlisle hafði í sínum röðum á fyrra árinu sínu með Detroit 2002.

Ef þú manst ekki hver það var, geturðu fundið svarið neðst í þessari færslu. Eigum við ekki að kalla þetta trivíu vikunnar eða eitthvað....

Þó meistaratitlarnir séu enn aðeins í eintölu hjá Rick Carlisle líkt og hjá Chauncey Billups, hefur hann jafnan náð ljómandi fínum árangri með liðum sínum, ekki síst í deildarkeppninni. Carlisle hefur reyndar ekki unnið einvígi í úrslitakeppninni síðan Dallas lagði Miami í lokaúrslitaeinvíginu 2011, en hann hefur heldur ekki haft úr miklu að moða hjá Mavericks síðan.

Það hefur gengið afleitlega að safna liði í kring um Dirk til að gefa honum sénsinn á einu titilkapphlaupi í viðbót og nú er útséð með það að hvort sem Þjóðverjinn hættir á þessu ári eða næsta, verður hann að láta sér þennan eina titil nægja á glæstum ferlinum.

Vandræðagangurinn á Dallas í vetur þýðir að útlit er fyrir að Carlisle muni þurfa að bíta í það súra epli aðeins í annað skiptið á ferlinum sem aðalþjálfari að ná ekki að vinna helming leikja sinna eða fleiri.

Það er búið að vera dálítið sorglegt að horfa upp á þá félaga Dirk og Carlisle það sem af er í vetur, því eins og sé ekki nóg að liðið sem þeir eru með í höndunum sé bara ekki nógu gott, hefur það líka verið hundóheppið með meiðsli líka. Svona rekur oft eitt annað í þessari blessuðu deild okkar.

Þeir Dirk og Carlisle vita báðir að þessum áfanga ferðalagsins er lokið og tími til kominn að róa á ný mið. Dirk mun væntanlega reyna fyrir sér sem uppistandari eða jafnvel freista þess að feta í fótspor Hoff-vélarinnar á leiklistarbrautinni, en Carlisle fer vonandi að fá samkeppnishæft lið upp í hendurnar á ný eftir fremur mögur ár að undanförnu.

Carlisle er allt of góður þjálfari til að vera að hjakka í einhverri meðalmennsku eða þaðan af verra. Hann var ungur maður þegar hann byrjaði að þjálfa, var orðinn tvífari Jim Carrey þegar hann vann titilinn, en í dag lítur hann bara út eins og þreytt og lúin amma hans Jim Carrey, ef við gefum okkur að hún hafi dabblað aðeins í krakkinu, svona á virkum dögum og um helgar.

Þetta er búinn að vera alveg dásamlegur sveimhuga pistill, varla um nokkurn skapaðan hlut, en það er hressandi að spóla annað slagið til baka og rifja upp gamla tíma. Við vonum að þið hafið jafn gaman af því og við.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------

Leikmaðurinn sem við vorum að tala um að hefði spilað fyrir Rick Carlisle hjá Detroit árið 2002 og aftur hjá Dallas árið 2011 var miðherjinn lipri Brian Cardinal, sem á myndinni hér til hægri hótar að henda meistarabikarnum í gólfið í ofbeldisfullum fagnaðarlátunum 2011.

Sá stóri var vitanlega ekki að spila stóra rullu hjá honum, hvorki árið 2002 né 2011, en þó er gaman að segja frá því að hann skoraði 7 af 10 stigum sínum í úrslitakeppninni árið 2011 í lokaúrslitaeinvíginu gegn Miami.

Cardinal tók ekki eitt tveggja stiga skot alla úrslitakeppnina, en setti 3 af 4 3ja stiga skotum sínum í úrslitakeppninni ofan í - tvo þrista og eitt víti skoraði hann í lokaúrslitunum og fékk þennan fína meistarahring að launum.

* - Hér erum við að vísa í heilaprumpið hjá Rasheed Wallace hjá Detroit þegar hann ákvað að skilja Robert Horry eftir gaaalopinn (með því að hlaupa í óþarflega dramatíska tvöföldun á Ginobili niður í horninu) eftir að hann tók innkast á ögurstundu fyrir San Antonio í fimmta leik Spurs og Pistons í lokaúrslitunum árið 2005.

Horry kastaði boltanum inn á síðhærðan Manu Ginobili, sem kastaði boltanum aftur út á Stórskota-Stebba, sem jarðaði þrist og tryggði Spurs 3-2 forystu fyrir tvo síðustu leikina í San Antonio. Okkur eru enn minnistæð viðbrögð Benedikts Guðmundssonar þjálfara sem lýsti leiknum á Sýn sálugu, en hann fékk hálfgert flogakast í beinni yfir ákvörðun Rasheew Wallace að falla af manni sem þá þegar var búinn að tryggja sér orðspor sem ein magnaðasta ögurstundarstórskytta í sögu úrslitakeppni NBA deildarinnar.

Spurs tapaði sjötta leiknum en náði að klára þann sjöunda og tryggja sér titilinn. Þarna var Horry að vinna sjötta meistaratitilinn sinn á ferlinum og átti eftir að bæta einum í viðbót í safnið með Spurs tveimur árum síðar. Hér fyrir neðan geturðu rifjað upp hetjudáð Horry í umræddum leik.

Tuesday, November 17, 2015

Vörutalning: Vesturdeild


Það er talsvert meira mál að setjast niður og telja í vestrinu en í austrinu, en úr því við vorum að asnast í að gera vörutalningu í Austurdeildinni fyrir helgi, verður ekki hjá því komist að gera það í betri deildinni líka. Annað væri asnalegt.

Það er líka ekki eins og kofinn sé tómur. Það er nóg af djúsí stöffi að gerast í Vesturdeildinni, sem í það heila er að spilast mjög ólíkt því sem við og flestir aðrir spámenn höfðu gert sér í hugarlund - og þá tökum við með í reikninginn að tímabilið sé ekki nema tíu leikja gamalt eða svo.

GOLDEN STATE WARRIORS

Stóra fréttin í NBA deildinni það sem af er er að sjálfssögðu byrjunin hjá meisturunum, sem hafa ekki tapað leik þegar þetta er skrifað - eru 11-0.

Með því að byrja svona vel, eru bæði Stephen Curry (33,4 stig að meðaltali í leik - 5 stigum meira en næsti maður) og Warriors náttúrulega að kalla yfir sig mykjustorm af athygli, skrumi og gífuryrðum frá fjölmiðlunum. Það kemur ekkert á óvart.

Við leyfum okkur oft að fljóta með straumnum þegar kemur að einhverju svona jákvæðu og skemmtilegu, en við - alveg eins og leikmenn Warriors - ætlum að hafa báða fætur á jörðinni og missa okkur ekki í eitthvað rugl, heldur reyna bara að njóta augnabliksins.

Þegar við segjum "missa okkur ekki í eitthvað rugl" erum við að meina hvernig sumir fjölmiðlar hafa eytt talsverðu bleki í að bera Golden State saman við sterkasta lið Chicago sem vann 72 leiki í deildakeppninni veturinn 1995-96 og setti með því met yfir flesta sigra í deildarkeppninni.

Því ætti Golden State núna ekki að geta unnið 72 leiki þegar það vann 67 leiki á síðustu leiktíð og allir sjá að það er bara sterkara í ár - spyrja menn.

Við erum svo sem ekki með beina tilvitnun í neinn af leikmönnum Warriors, en trúið okkur, þeir eru ekki að hugsa um að reyna að vinna 72 leiki. Þeir eru að hugsa um að reyna að vinna hvern einasta leik sem þeir taka þátt í  - einn leik í einu - og reyna að halda heilsu fram á vorið og óska þess að þjálfarinn þeirra nái heilsu. Það er allt og sumt sem þeir hugsa og við lofum ykkur því.

En svona skrumlaust, er Golden State auðvitað að spila ljómandi vel. Við höfum áður tíundað hvað Stephen Curry er að spila vel og það sem hann hefur verið að gera undanfarið er efni í annan pistil, sem við munum vafalítið skrifa fljótlega. Og á meðan Klay Thompson er að spila langt undir getu, aðallega vegna bakmeiðsla, eru menn eins og Draymond Green gjörsamlega að fara hamförum.

Hann er kannski ekki að kveikja í með stigaskorinu sínu (12 stig í leik), en eins og við sögðum ykkur um daginn er hann efstur bæði í fráköstum (8) og stoðsendingum (7) hjá liðinu, stelur einum og hálfum og ver einn og hálfan bolta í leik, hótar þrennu á hverju kvöldi og dekkar gjarnan besta leikmann mótherjanna.

Green er alltaf að taka sér stærra og meira leiðtogahlutverk hjá Warriors og er satt best að segja enn að fara fram úr björtustu vonum allra hvað hæfileika snertir. Golden State er að borga honum atvinnuleysisbætur miðað við framlag, þó mörgum þætti hann fá full hressilega kauphækkun í sumar.

Annað sem við veitum athygli hjá Warriors er hvað Festus Ezeli er að spila vel. Hann deilir miðherjastöðunni með Andrew Bogut þegar sá ástralski er á annað borð heill og hefur farið fram á báðum endum vallarins - hann á ekki mjög langt í að verða jafn mikilvægur varnarmaður og Bogut á sinn hátt, af því hann er yngri og miklu meiri íþróttamaður.

Einhver ritstjórnin hefði kannski sleppt því að fara í enn eina upptalninguna á afreksverkum Warriors, en þetta lið á það bara skilið. Þessi undirliggjandi kjaftasaga um að liðið hafi haft heppnina með sér í úrslitakeppninni síðasta vor er nákvæmlega það veganesti sem það þurfti nú í haust.

Þið munið að sögulega samhengið og tölfræðin tala mjög fallega um Golden State og kannski væri upplagt að rifja upp það sem við sögðum ykkur á síðustu leiktíð, þegar tölfræðimódelin byrjuðu að segja okkur að eitthvað sögulegt gæti verið í uppsiglingu hjá Warriors: Reynum að njóta þess.


SAN ANTONIO SPURS

Um leið og við erum búin að afgreiða meistarana, fara hlutirnir að taka áhugaverða stefnu í þessari yfirreið um vestrið. Eins og við sáum þetta í haust, yrðu það Houston, Oklahoma og LA Clippers sem kæmu til með að berjast við meistarana um heimavallarréttinn í vestrinu. Það má vel vera að sú verði raunin þegar upp er staðið, en stöðutaflan í vestrinu í dag er bara bonkers!

Og sem stendur er það gamla góða San Antonio sem er eina liðið sem nær að narta í hælana á meisturunum í töflunni, með átta sigra og tvö töp. Þið munið, San Antonio sem við afskrifuðum enn og aftur um daginn.

Já, já, það eru bara búnir tíu leikir, en ef þér finnst svona leiðinlegt að lesa um þróun mála í NBA deildinni þegar hún er nýbyrjuð, en þú veist að þú getur líka alltaf hring inn á Útvarp Sögu eða smellt þér inn á athugasemdakerfið á dv.is og tjáð þig um vígasamtök íslamska ríkisins eða Schengen-samstarfið.

Eins og svo oft áður, mallar Spurs-vélin bara áfram sama hver er við stýrið. Við vorum öll svo upptekin af því að pæla í því hvort LaMarcus Aldridge ætti eftir að passa inn í liðið að við gleymdum að hann er ekki einu sinni besti leikmaður þess.

Nei, á meðan LaMarcus er að dúlla sér í 16 stigum (45% fg) og 10 fráköstum (sem er ljómandi), er besti leikmaður Spurs að skora 22 stig (52,6% fg) , hirða 7,5 fráköst og stela 1,9 boltum ásamt því að skelfa bestu sóknarmenn andstæðingana á hverju kvöldi. Við erum að sjálfssögðu að tala um Kawhi Leonard.

Þeir Aldridge og Leonard eru einu leikmennirnir í hópnum hjá San Antonio sem eru að spila 30 mínútur eða meira, sem er ekkert nýtt. Það sem er nýtt er að þeir eru einu mennirnir sem eru að spila meira en 27 mínútur í leik hjá Spurs. Allir taka þátt, allir spila vel (nema Danny Green) og allir vita hvað þeir eiga að gera. Sama gamla boring old San Antonio, eh?

Þeir fara nú ekki að gera okkur það að vinna eitthvað næsta vor....

DALLAS MAVERICKS

Þegar þetta er skrifað, er Dallas einhvern veginn í fjandanum í þriðja sæti Vesturdeildarinnar með 7 sigra og 4 töp.

Meltu það í smá stund.

Við vitum að við sögðum að Dallas ætti eftir að drulla á sig og jafnvel tanka í vetur (eigandinn hafði hótað því) en þegar lið eins og Dallas eiga í hlut, neitum við að taka ábyrgð á því þegar við gerum í brækurnar í Vegas-spám í upphafi leiktíðar.

Við sögðum að Dallas yrði lélegt af því það átti enginn að vera heill hjá Dallas fyrr en eftir áramót og þá yrði liðið löngu, löngu, löngu út úr myndinni í úrslitakeppni og öllu því.

En nei. Svo kemur á daginn að það er bara ekkert að þessum andskotum og þeir byrja allir að spila strax. Það sem við héldum að yrðu þrír mánuðir af Jeremy Evans, er bara strax orðið þetta lúmskt flotta-á-pappírunum-lið Dallas, sem maður eins og Rick Carlisle getur alveg fengið til að vinna nokkra leiki.

Sunday, January 18, 2015

Stjarna er að fæðast í Minnesota


Þið vitið hvað við eigum það til að vera skeptísk á nýliða í NBA deildinni. Þessi vantrú okkar á unga fólkinu stafar af því að við höfum brennt okkur á að trúa einhverju skrumi um háskólaleikmenn sem hafa svo ekki gert neitt nema drulla á sig þegar þeir koma í deild hinna fullorðnu.

Andrew Wiggins var einn af þessum ungu mönnum sem óhemju miklar vonir voru bundnar við. Fólk var farið að líkja honum við LeBron James löngu áður en hann spilaði sinn fyrsta NBA-leik og talað var um að hann væri mesta efni sinnar kynslóðar í súperstjörnu í NBA deildinni.

Heilladísirnar reyndust ekki á bandi Wiggins á fyrstu vikunum sínum í NBA deildinni, því í stað þess að spila með LeBron James í góðu liði í Austurdeildinni, var honum skipt í kuldann í Minnesota í til félags sem er bæði lítið og frægt fyrir að vita ekkert hvað það er að gera.

Æði.

Jæja, það góða við þetta hjá Wiggins var þó að það vantaði ekki spilamínúturnar. Vitað var að Úlfarnir yrðu ekki beint sterkir í vetur, en eins og venjan er á þeim bænum, meiddist megnið af lykilmönnum liðsins strax í haust og því hefur nánast hver sem er getað fengið mínútur hjá Minnesota ef hann á annað borð er með púls.

Það má ef til vill deila um það hvort það gerir Wiggins gott að læra fyrstu skrefin sín í NBA deildinni með gjörsamlega handónýtu liði, en eftir að hafa verið tiltölulega rólegur fyrstu vikurnar á ferlinum, er hann nú heldur betur að minna á sig.

Það er dálítið leiðinlegt fyrir Wiggins að þessi fína spilamennska hans sé til einskis, því ekki vinnur liðið hans leiki.

Það er hinsvegar mjög jákvætt að pilturinn sé að leyfa okkur að skyggnast inn í framtíðina og sýna okkur að ef til vill geti hann staðið undir einhverjum af lofræðunum sem ortar voru til hans í allt sumar.

Við finnum alltaf jafn mikið til með stuðningsmönnum Úlfanna, sem hafa mátt þola gengdarlaust mótlæti og vonbrigði síðustu ár, en nú gæti farið að sjá til sólar hjá þeim ef Wiggins heldur áfram að spila svona eins og engill.

Við skrifuðum þessa stuttu hugleiðingu í tilefni þess að Wiggins átti sinn besta leik á ferlinum í nótt þegar hann skoraði 31 stig, hirti 9 fráköst, gaf 4 stoðsendingar, varði 3 skot og stal einum bolta í óvæntum útisigri Minnesota á Denver.

Við gáfum það í kjölfarið út á Twitter að nú væri Wiggins-vagninn formlega kominn á fulla ferð, enda var mikið talað um piltinn einmitt á þeim miðli í kjölfar þessarar góðu frammistöðu hans.

Sjáðu bara hvað Wiggins er búinn að spila eins og engill í janúar.





Þetta lofar óhemju góðu og verður vonandi til þess að tala stuðningsmenn Úlfanna inn af syllunni sem þeir hafa staðið á að undanförnu. Kannski er bara von í þessu eftir allt saman.

Friday, November 14, 2014

Skothvíslari Ricky Rubio


Þessi bráðhuggulegi maður heitir Mike Penberthy og spilaði nokkra leiki með meisturum Los Angeles Lakers á meistaraárunum um aldamótin.

Penberthy var og er skytta og þykist ekki vera neitt annað.

Í dag er hann skotþjálfari hjá Minnesota Timberwolves og hefur fengið það sérstaka verkefni að reyna að bæta hræðilega skotnýtinguna hans Ricky Rubio.

Penberthy hefur áður gert góða hluti með menn eins og Paul George hjá Indiana og Reggie Jackson hjá Oklahoma. Svo góða, að hann er kallaður skothvíslari hjá Minnesota.

Við heyrðum frábæra sögu af Penberthy á dögunum, sem við bara verðum að deila með ykkur.

Hún átti sér stað fyrir nokkrum dögum, skömmu fyrir einn af leikjum Minnesota. ESPN-penni nokkur var þá að horfa niður á völlinn þar sem leikmenn Timberwolves höfðu verið að hita upp skömmu áður, en nú var þar aðeins einn maður - téður Pemberthy.

Pemberthy tók sér stöðu í hægra horni vallarins og tók tíu þriggja stiga skot, sem öll fóru beint ofan í. Þá færði hann sig nokkra metra til vinstri og tók önnur tíu þriggja stiga skot á ská á móti körfunni, sem öll fóru sömu leið. Svo færði hann sig lengra til vinstri þangað til hann var beint á móti körfunni og enn setti hann tíu þrista í röð, sem snertu varla hringinn.

Þegar þarna var komið, voru komnir nokkrir áhorfendur sem voru farnir að fylgjast með þessum tilþrifum skotþjálfarans og þeir fóru að hlæja þegar 31. þriggja stiga skotið hans Pemberthy skall á hringnum og fór ekki ofan í. Hann var þá kominn á næstu skotstöð, á ská til vinstri.

Áhorfendahópurinn litli hló enn meira þegar næsta skot Pemberthy fór í spjaldið og ofan í. Þeir héldu áfram að hlæja og spurðu hvort þetta hefði þá allt verið grís hjá honum.

Þeir hættu að hlæja þegar næstu níu skot fóru í spjaldið og ofan í með nákvæmlega sama hætti.

Kannski getur einhver kennt Ricky Rubio að skjóta eftir allt saman.

Ef svona maður getur það ekki, er það ekki hægt.

Friday, June 20, 2014

Oakland vill Ástþór


Nú er pískrað um að Golden State sé að vinna í því að fá framherjann Kevin Love til sín frá Minnesota. Love hefur sem kunnugt er farið fram á að verða skipt frá Úlfunum, þar sem hann hefur enn ekki náð að komast svo mikið sem einu sinni í úrslitakeppnina á þeim sex árum sem hann hefur spilað þar.

Það er ekkert leyndarmál lengur að Love vilji fara frá Minnesota og sú staðreynd veikir auðvitað samningsstöðu Úlfanna mikið þegar kemur að því að fá eitthvað almennilegt í skiptum fyrir framherjann sterka. Forráðamenn Úlfanna eru nú samt að gera sig eins breiða og þeir geta og sagt er að þeir heimti að fá megnið af yngri og efnilegri leikmönnum Warriors í staðinn ef af þessu á að verða.

Þar er átt við pilta eins og Klay Thompson, Harrison Barnes og Draymond Green, en Kaliforníufélagið vill líka helst losna við framherjann sinn David Lee í þessum skiptum, enda spilar hann sömu stöðu og Ástþór og yrði því allt nema atvinnulaus ef eitthvað gerðist nú í þessu.

Eins og þið vitið kannski, erum við venjulega lítið fyrir það að velta okkur mikið upp úr svona slúðri og leyfum hlutunum oftast að gerast áður en við förum að spá í spilin í kring um hugsanlegar mannabreytingar.

En þegar við heyrðum að Warriors væri að reyna að ná í Kevin Love...

Það fyrsta sem við færum að pípa ef þetta gengi eftir væri að sjálfssögðu eitthvað um það að Love ætti nú svo sem ekki eftir að styrkja Golden State mikið meira í varnarleiknum en David Lee og ekki væri það nú efnilegt og bla bla bla bla.

En skítt með alla hagkvæmni og raunsæi. Það er hægt að spá í það seinna.

Ertu eitthvað að pæla í því hvaða rugl færi í gang hjá Golden State ef Kevin Love bættist við stórskotaliðið sem er þar fyrir? Steph Curry og Kevin Love í vegg og veltu? Ertu eitthvað að grínast?

Curry og Love tóku yfir ellefuhundruð þriggja stiga skot samanlagt á síðustu leiktíð, þó hvorugur þeirra spilaði alla 82 leikina.

Það eru: Ellefu. Hundruð.

Til samanburðar má geta þess að Reggie Miller tók 950 þriggja stiga skot síðustu þrjú árin sín í NBA og ekki hataði hann að láta vaða.

Og hugsið ykkur bara ef Golden State næði á einhvern hátt að halda Klay Thompson líka (sem er reyndar ólíklegt ef díllinn á að ganga í gegn). Kæmu ekki nema svona 500+ þristar í viðbót þaðan.

Þett´er náttúrulega bara lol.

Okkur er til efs að Steve Kerr ætti eftir að banna þessum byssum að beita langskotunum og því mætti alveg eins reikna með enn stærri flugeldasýningu í Oakland en á síðustu tveimur árum - og þá er nú mikið sagt.

Golden State gæti ugglaust orðið fyrsta körfuboltaliðið til að skjóta hreinlega yfir sig!

Saturday, March 22, 2014

Já, veinaðu Úlfur, Úlfur*


Það er ljúft að fá loksins tækifæri til að vera í byrjunarliði í NBA deildinni. Eða svo virðist vera ef við skoðum feril nýliðans Gorgui Dieng ( í treyju númer fimm á myndinni hérna fyrir neðan) hjá Úlfunum.

Senegalinn síkáti var ekki búinn að fá nema það sem kallað er ruslmínútur í vetur en var hent í byrjunarliðið á dögunum eftir að Úlfarnir misstu þrettánþúsundfjögurhundruðogáttunda leikmanninn sinn í meiðsli.

Jæja, hann var ekki lengi að svara kallinu og er búinn að skila 15 stigum, 14 fráköstum og 2 vörðum skotum í þeim þremur leikjum sem hann hefur verið í byrjunarliðinu.

Á fimmtudagskvöldið bauð drengurinn svo upp á 22 stig og 21 frákast í tapi Úlfanna gegn Houston Rockets. Hvar endar þetta, er fólk eflaust farið að spyrja.

Það hafa jú ekki nema þrír leikmenn verið með svona læti í fyrstu þremur leikjunum þeir komu inn í byrjunarlið á síðustu tuttugu árum í deildinni (DeJuan Blair hjá Spurs (2x), Joe Smith (2x) hjá Warriors og auðvitað Tim Duncan hjá Spurs skv. tölfræði Elíasar og ESPN).

Æ, við verðum að reyna að finna eitthvað jákvætt hjá Úlfunum í vetur - ekki eru þeir að fara í úrslitakeppnina. Það getur ekki talist líklegt.**

Það eru meira en tveir mánuðir síðan þeir sem rýna í tölfræði fyrir lengra komna, lýstu því yfir að það væri ekki séns að Úlfarnir færu í úrslitakeppnina.

Okkur þótti sem þessir tölfræðingar (gott ef Kevin Pelton var ekki einn þeirra) dálítið snemma í því að dæma Úlfana okkar úr leik, en það er að koma á daginn að þeir voru sannspáir. Meira að segja jinx eins og þetta er ekki nóg til að koma Úlfunum í úrslitakeppnina. Og það er sorglegt.

Vissulega eru meiðsli búin að setja strik í rekninginn hjá Minnesota í vetur, en það er bara fastur liður hjá þessu liði og verður alltaf. Stjörnurnar hjá þessu liði spila bara ekki meira en 60-80% þeirra leikja sem eru í boði, nú eða náttúrulega minna en það.

Það nöturlega við þetta allt saman er ekki meiðslin. Það sorglega við það að Úlfarnir skuli nú vera að missa af úrslitakeppninni tíunda árið í röð, eða síðan Sam Cassell (20/7) og Kevin Garnett (24/15/5/2) fóru fyrir því og komu því alla leið í úrslit Vesturdeildar.

Sjáðu bara hvað þeir eru ánægðir með sig hérna til hægri. Þeir máttu svo sem vera það, þeir voru flottir þessir karlar.

Þá, eins og nú, er aldrei að segja hvað hefði gerst ef meiðsli hefðu ekki fokkað þeim upp á versta tíma.Við getum reynt að horfa áfram á björtu hliðarnar. Við getum reynt að fókusera á það að Úlfarnir eru hægt og bítandi búnir að vera að bæta sig undanfarin ár.

Það er reyndar helvíti erfitt að ná annað en betri árangri þegar lið vinnur bara 15 leiki allan veturinn, en Minnesota er búið að bæta sig frá 15 sigrum, í 17 sigra, í 26 sigra, í 31 sigur og er þegar komið með 34 sigra þegar þetta er ritað og því öruggt með besta árangur sinn síðan 2005 (44 sigrar).

Vandamálið er bara að þetta er ekki nóg í Vesturdeildinni í NBA. Þetta er ekki Austurdeildin, þar sem þú getur tapað sjö leikjum í röð án þess að það hafi nokkur áhrif á möguleika þína á að komast í úrslitakeppni. Þetta er Vesturdeildin, þar sem þú ert beisikklí fögt ef þú tapar 2-3 leikjum í röð.

Sjáið bara lið eins og Portland og Phoenix. Portland er búið að öskubuskast í toppbaráttunni í allan vetur, en er nú búið að lenda í smá mótlæti og er komið niður á jörðina.

Liðið sem var að elta San Antonio og Oklahoma á toppnum hálfan veturinn, má núna þakka fyrir að mæta ekki San Antonio eða Oklahoma í úrslitakeppninni og verða sópað út eins og hverju öðru rusli.

Phoenix var sömuleiðis búið að Spútnika yfir sig í allan vetur, en þarf sem komið er á kraftaverki að halda til að komast í úrslitakeppnina. Þrátt fyrir að vera með 57% vinningshlutfall og vera, án gríns, búið að vinna fjórum sinnum fleiri leiki en spár gerðu ráð fyrir í haust.

En vandamál Úlfanna er ekki bara sú staðreynd að liðið spilar í þessari ógnarsterku Vesturdeild. Það tekur okkur óhemju sárt að þurfa að segja þetta, en ákveðin sannleikur liggur fyrir varðandi Úlfana í vetur. Ákveðin staðreynd sem komið hefur í ljós, sama hvað meiðsli hafa reynt að fela hana.

Minnesota er bara ekki nógu gott lið.

Úlfarnir eiga sér nokkra grjótharða stuðningsmenn á Íslandi og á tímabili var orðið ansi þétt setið á Úlfavagninum góða. Allur þessi pótensjal sem þetta lið hafði! Þess var framtíðin, var ekki svo?

Öll héldum við að Rubio yrði betri, að Love yrði betri, að Pekovic yrði betri. Og að þessir aukaleikarar sem liðið var að safna í kring um þá og líma saman með sterkum þjálfara eins og Adelman?

Ef þetta lið drullaðist einhvern tímann til að haldast heilt nógu lengi, væri það að sjálfssögðu á leið beint í úrslitakeppninna - var það ekki?

Nei, nefnilega ekki. Meiðslin hafa reyndar haldið áfram að hrjá liðið, svo mikið að við erum búin að lýsa því yfir að þau séu komin til að vera, en það er ekki bara það. Minnesota er bara ekki nógu gott lið.

Alltaf er þetta spurnin um sömu hlutina. Minnesota er ekki nógu gott varnarlið, Ricky Rubio getur (alls, alls, alls) ekki skotið, Love og Pekovic eru gjörsamlega vonlaus varnarframlína, liðið ver engin skot, er ekki með neinar skyttur og bekkurinn hjá því er rusl.***

Kevin Love er alltaf með klámfengna tölfræði og árið í ár er þar engin undantekning. Rubio og Pekovic eru strangt til tekið búnir að bæta sig í tölfræðinni, en það sem er að þessu liði kemur ekki alltaf fram í tölfræðinni, nema kannski þetta með þá staðreynd að Össur Skarphéðinsson er sennnilega betri skytta en Ricky Rubio.

Kannski er það bara í takt við þetta að liðið sé að bæta sig örlítið ár frá ári, bara alls ekki eins mikið og við - hin óþolnimóða Twitter-kynslóð - er að óska eftir. En það er ekki bara okkar óþolinmæði.

Örfáir sigrar upp á við á ári eru bara ekki nóg ef það skilar ekki í það minnsta sæti í úrslitakeppni. Það ætti að vera ljóst, nú þegar Kevin Love er allt nema farinn frá félaginu

Sagt er að versti staðurinn til að vera á í NBA deildinni sé í meðalmennskunni - að vera svona Atlanta Hawks - lið sem þið munið að fór í úrslitakeppnina ár eftir ár eftir ágætis deildakeppni, en var svo alltaf slegið út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Ef þú getur ekki fengið til þín menn með lausa samninga og færð aldrei almennilega nýliða af því þú velur alltaf í kring um 20, eru líkurnar á því að þú bætir þig ansi litlar, alveg sama hvað þú ert með efnilegt lið.

Minnesota getur reyndar ekki einu sinni státað af því að detta út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð. Það gerði það á árunum með Kevin Garnett, þegar það datt 87 ár í röð í fyrstu umferð þegar það var fast í 50% vinninshlutfallinu. Það er líka ömurlegur staður til að vera á.

Það væri rosalega auðvelt fyrir svona hrokagikki eins og okkur að sitja hérna og segja Minnesota að það sé kominn tími til að stokka upp og breyta til - reyna eitthvað nýtt.

En það er bara sorglega líklegt að slík ákvörðun verði tekin fyrir félagið, þegar Kevin Love klárar samninginn sinn og fer (til Los Angeles). Og hvað verður þá til ráða?

Nei, smáklúbbur úr sveit eins og Minnesota Timberwolves getur ekki leyft sér jafn yfirgripsmiklar aðgerðir eins og að fara að kasta frá sér stórstjörnunni sinni eða bestu leikmönnunum sínum bara af því að liðið er ekki að bæta sig í nógu stórum stökkum. Líklega er þolinmæðin það eina sem er í stöðunni hjá Úlfunum.

Verstur fjandinn fyrir okkur og alla hina aðdáendur liðsins, er að við verðum örugglega öll farin að horfa eitthvað allt annað ef þessi þolinmæði ber einhvern daginn ávöxt.

Og þó...

Það er svo létt að hoppa á vagninn aftur.

---------------------------------------------------------------------------------------

* -- Þetta orti Megas einu sinni og líkurnar á því að við höfum notað þetta í fyrirsögn áður, eru betri en líkurnar á því að Úlfarnir komist í úrslitakeppnina - svo mikið er handvíst.

** -- Eins og hendi hafi verið veifað, er lítill "sælar stelpur, Gorgui hérna"-pungur búinn að breytast í stóran hlemm um endalausa ógæfu Úlfanna. Þarna gefst ykkur sjaldgæft tækifæri til að öðlast innsýn í brjálaða starfshætti ritstjórnar NBA Ísland. Fjandinn er fljótur að verða laus.

*** --  1.) Mótherjar Minnesota skjóta 63% undir körfunni. Langhæsta hlutfall í allri deildinni. Andstæðingar Indiana skjóta 51% undir körfunni (best í NBA).

2.) Minnesota ver fæst skot allra liða í NBA deildinni. Ronny Turiaf ver flest skot í liðinu (1,7) og enginn annar leikmaður (sem fær marktækar mínútur) er nálægt því að verja eitt skot í leik. Turiaf ver því helming skota liðsins. Til samanburðar má geta þess að Michael Jordan varði best 1,6 skot í leik með Chicago og Dwyane Wade 1,3 í tvígang. Þeir eru/voru jú bakverðir.

3.) Aðeins varamannabekkir Indiana, Washington, Toronto og Portland skora minna en bekkur Úlfanna, sem skilar liðinu 26 stigum í leik. Þá skilar bekkur Úlfanna aðeins 39,7% skotnýtingu, nánast sömu nýtingu og bekkur Golden State, en þessir tveir eru í langneðsta sæti í deildinni - meira en tveimur prósentustigum fyrir neðan næsta lið. San Antonio er að sjálfssögðu efst í þessum tölfræðiflokki - bekkur Spurs er með 48,8% skotnýtingu.

Friday, January 17, 2014

Fulltrúi NBA Ísland á Úlfavaktinni í Heiðurshöllina


Lesendur NBA Ísland eru alltaf á ferð og flugi og það er dásamlegt hvað þeir eru duglegir við að fara á NBA leiki sem fulltrúar NBA Ísland klæddir í bolinn góða.

Nýjasta myndin frá þessu tilefni er sannarlega með þeim dýrari sem borist hafa, en þar fer enginn annar en séra Guðni Már Harðarson úr Lindasókn í Kópavogi. Séra Guðni er mikill áhugamaður um íþróttir og er einn harðasti stuðningsmaður Minnesota Úlfanna hér á landi.

Guðni var svo heppinn að fá að stunda nám í Minnesota og gat því laumað sér á leiki með Úlfunum af og til. Úlfavaktin góða er orðin alþekkt fyrirbæri hjá NBA-hneigðum Twitternotendum sem eiga það til að vaka fram eftir nóttu.

Ritstjórn NBA Ísland er óhemju montin af því að geta kallað séra Guðna fýsískan fulltrúa síðunnar á Úlfavaktinni.

Við ætlum því að nota þetta tækifæri til að tilkynna ykkur að séra Guðni Már hefur hér með verið innvígður í Heiðurshöll NBA Ísland fyrir að standa Úlfavaktina af drengskap fyrir hönd síðunnar og hreinlega fyrir að vera toppmaður í alla staði. Hann lengi lifi - húrra, húrra, húrra!

Thursday, November 28, 2013

Svartir Úlfar


Það eru skiptar skoðanir um aukabúninga Úlfana sem þeir klæddust í nótt. Auðvitað er þetta líkara hand- eða fótboltabúningum en körfuboltabúningum, en það má alveg hafa gaman að þessu. Svartur klikkar aldrei.


Monday, November 4, 2013

Gleði



Við ætlum að leyfa liðunum í NBA að spila meira en þrjá leiki áður en við förum að draga ályktanir eins og að Philadelphia sé að fara í úrslitakeppnina.

Það sem einkennir fyrstu daga tímabilsins í okkar bókum er gleðin - gleðin yfir að endurheimta menn eins og Derrick Rose, Russell Westbrook og Kevin Love af meiðslalilstanum. Þetta eru allt snillingar.

Við vorum sannarlega ekki búin að gleyma því hvað Derrick Rose er góður leikmaður, en eitt leiðir að öðru þarna í Chicago og nú er það heilsa Joakim Noah sem er áhyggjuefni.

Það sem við vorum hinsvegar næstum búin að gleyma, er hvað Minnesota getur verið hrikalega skemmtilegt og sterkt lið þegar það fær meira en helming leikmanna sinna af meiðslalistanum - sem gerist reyndar ekki oft.

Vonandi verður það ekki til þess að við förum að jinxa þá neitt, en nú er aftur orðið dásamlegt að sitjá Úlfavaktina þegar þeir Ástþór, Pekovic og Rubio fá loksins að spila saman. Það er orðið langt síðan síðast.

Ástþór spilar eins og hann eigi lífið að leysa og skilar hverjum 30/15 leiknum á fætur öðrum.

Það er missir í Andrei Kirilenko, en menn eins og Ronnie Brewer og Kevin Martin eru að gera fína hluti þarna og eiga eftir að styrkja þetta lið.

Bara ef Rubio gæti nú komið körfuboltanum annað slagið ofan í körfuna, það myndi opna alveg nýja vídd í sóknarleik liðsins. Enn sem komið er getur hann ekki svo mikið sem skotið skökku við.

Ef vörnin og heilsan verður í lagi hjá Úlfunum í vetur, er full ástæða til að ætla þeim sæti í úrslitakeppninni. Það er hægara sagt en gert að komast í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni, en það gerir þetta bara enn skemmtilegra - það fara sko engin skítalið í vormótið í vestrinu.

Friday, July 5, 2013

Meiðslafaraldurinn 2013: Vesturdeildin


Meiðsli settu svo leiðinlega stóran svip á deilda- og úrslitakeppni NBA á síðustu leiktíð að okkur fannst ekki annað hægt en að skrifa aðeins um það.

Í gær sögðum við ykkur frá meiðslunum sem herjuðu á liðin í Austurdeildinni en í kvöld færum við okkur yfir í Vesturdeildina þar sem meiðsli höfðu líka mjög mikil áhrif á gang mála í vetur og vor. Alveg eins og í fyrri pistlinum byrjum við á botninum og færum okkur upp á við.

Það eru léleg lið í Vesturdeildinni alveg eins og í Austurdeildinni, en þau eru talsvert færri fyrir vestan.

Sum lið eru bara léleg alveg sama hvort þau glíma við meiðsli eða ekki og þannig hefur það til dæmis verið hjá Sacramento um árabil.

Það var Phoenix sem rak lestina í vestrinu í vetur með 25 sigra, New Orleans vann 27 og Sacramento 28. Öll þrjú glímdu við talsverð meiðsli og máttu engan veginn við því.

Þar má til dæmis nefna endalaust vesenið á skotbakverðinum Eric Gordon hjá New Orleans. Gordon virðist ekki með nokkru móti geta haldið sér heilum og eins og til að bæta gráu ofan á svart, missti liðið Antonio "Brúnar" Davis líka af 20 leikjum.

Ef Dílaskarfarnir verða aðeins heppnari með meiðsli næsta vetur, ættu þeir að geta verið með ágætis lið því þeir eru þegar þetta er skrifað að landa vængmanninum Tyreke Evans frá Sacramento og eru með áhugaverðan nýliða í fyrir framtíðina í Nerlens Noel.

Úlfavaktin/Læknavaktin

Næsta lið fyrir ofan þessi þrjú í töflunni er aumingja Minnesota Timberwolves með 31 sigur.

Úlfarnir eru kapítuli út af fyrir sig og raunar væri hægt að skrifa sér pistil um ólukkuna sem elt hefur þann klúbb undanfarin misseri.

Eins og þið munið myndaðist gríðarleg spenna fyrir Úlfunum hjá flestum NBA áhugamönnum þegar Ricky Rubio kom loksins til Minnesota.

Hugtakið Úlfavaktin varð til og fljótlega varð mjög þröngt á Rubio- og Úlfavagninum. Flest okkar sem fylgjumst með NBA vorum gríðarlega spennt fyrir möguleikunum sem voru uppi á borðinu hjá Úlfunum fyrir síðustu leiktíð.

Meiðsli höfðu tekið sinn toll árið áður, en nú kæmi ekkert slíkt til greina. Úlfarnir fengu  meira að segja spennandi liðsstyrk í formi Andrei Kirilenko og Brandon Roy. Hvorugur þessara kappa hefur sloppið vel við meiðsli á ferlinum og á því varð ekki mikil breyting.

Það sem fór hinsvegar alveg með þetta er að Kevin Love náði aldrei að komast í gang með liðinu af því hann var alltaf að mölva á sér lúkurnar.

Ástþór skilaði aðeins 18 leikjum í vetur og skyttan Chase Budinger aðeins 20, sem þó var skárra en aumingja Brandon Roy - sem náði aðeins fimm leikjum og gafst upp á kommbakkinu sínu.

Þar með var það þó ekki upptalið - aldeilis ekki. Ricky Rubio missti auðvitað úr 25 leiki eftir að hafa slitið krossband vorið áður og þeir Andrei Kirilenko og Nikola Pekovic misstu báðir úr um það bil 20 leiki. Svo hrikaleg voru meiðslin á Úlfunum að Luke Ridnour var eini maðurinn sem náði að spila 82 leiki.

Þetta var hrikalega erfitt hjá Úlfunum á síðustu leiktíð og okkur dettur ekki í hug að fara eitthvað að jinxa liðið aftur með því að fara að tala um hvað það sé spennandi fyrir næsta tímabil. Reyndar er það svo að við erum dálítið búin að missa trúna á Úlfana sem Spútniklið.

Fram undan eru erfið mál sem þarf að ljúka eins og að framlengja samninga við Kevin Love og Nikola Pekovic - og það verður að teljast ólíklegt að félagið nái að halda Kirilenko áfram. Við erum ekki alveg viss af hverju, en sjarminn er horfinn af Úlfunum.

Nú verður eitthvað annað lið að taka við kyndlinum sem Spútnik- og/eða League Pass lið vetrarins. Úlfarnir eru búnir að fá næga sénsa, en óheppni hefur gert það að verkum að ekkert hefur orðið úr hlutunum hjá þeim.

Sem betur fer varð þessi umfjöllun um Úlfana bara stutt og hnitmiðuð...

Svona eru vonbrigðin hrikaleg.

Næstum því...

Portland (33 sigrar) kom næst í stöðutöflunni í Vesturdeildinni, en það er eitt af fáum liðum sem slapp nokkurn veginn stórslysalaust í gegn um leiktíðina. Það var líka eins gott, því breiddin hjá liðinu var álíka góð og hjá Indiana Pacers - engin.

Næstu tvö lið í töflunni, Dallas (41) og Utah (43) voru bæði á höttunum eftir sæti í úrslitakeppninni en urðu að játa sig sigruð og sitja heima.

Þar var meiðslum sannarlega um að kenna, þó hvorugt þessara liða hafi verið líklegt til afreka í úrslitakeppninni með 5-10 sigrum í viðbót í deildakeppninni.

Hjá Dallas spilaði Dirk Nowitzki aðeins 53 leiki og var afar lengi í gang eftir hnémeiðsli. Þá spilaði Shawn Marion aðeins 67 leiki og Chris Kaman aðeins 66.

Utah Jazz missti eina fúnkerandi leikstjórnanda sinn (Mo Williams)  hálfa leiktíðina og það eitt og sér var bara of stór biti til að kyngja. Þú hefðir kannski unnið nokkra leiki með þá Earl Watson og Jamaal Tinsley í leikstjórnandastöðunni ef við værum stödd á árinu 2003, en því miður fyrir Jazz er áratugur síðan og þessir tveir eiga jafn mikið erindi í byrjunarmínútur í NBA og Ingvi Hrafn.

Houston náði að lauma sér inn í úrslitakeppnina eftir skemmtilegan Spútnikvetur þar sem stefnan var að skora nógu fjandi mörg stig og drita þristum eins og þrek leyfði.

Rockets slapp við stórkostleg meiðsli en þau bönkuðu upp á í úrslitakeppninni þegar Jeremy Lin gat lítið sem ekkert beitt sér í seríunni gegn Oklahoma City (4 stig, 25% skotnýting). Houston náði að gera einvígið spennandi á kafla en náði ekki að fara lengra án leikstjórnanda síns.

Ónýtt ár

Mörg lið urðu fyrir barðinu á meiðsladraugnum í vetur, en líklega fór ekkert eins illa og Los Angeles Lakers. Fyrir leiktíðina var þeim gulklæddu spáð góðum árangri enda voru leikmenn eins og Dwight Howard og Steve Nash komnir til að aðstoða Kobe og Pau.

Þessi draumur breyttist fljótlega í martröð, því allir leikmenn liðsins sem eitthvað gátu á annað borð (og fleiri) glímdu við erfið meiðsli - allan veturinn.

Annars fabúleruðum við talsvert um stöðuna á Lakers í pistlinum um Dwight Howard sem datt hérna inn fyrir skömmu. Þar meðal annars komið inn á meiðsli lykilmanna.

Það hefði verið dálítil bjartsýni að spá LA Lakers titlinum í upphafi síðustu leiktíðar, en á hinn bóginn er alveg öruggt að það hefði unnið miklu fleiri en þessa 45 sigra sem það landaði.

Kannski var það bara nokkuð gott hjá Lakers að komast í úrslitakeppnina þrátt fyrir öll þessi meiðsli, en þar beið þess ekki annað en að vera fallbyssufóður fyrir San Antonio Spurs. Þar hefði hvorki Dallas né Utah gert betur.

Flottir flóamenn

Golden State var sannarlega ein af filgúdd fréttum síðustu leiktíðar. Við skömmumst okkar ekkert fyrir að viðurkenna að við gerðum grín að félaginu þegar það réði Mark Jackson sem aðalþjálfara og hlógum að fólki sem tók sénsinn og tippaði á að Warriors færi nú loksins í úrslitakeppnina.

Það hlaut að enda með því að Flóamenn kæmust í bölvaða úrslitakeppnina og var ekkert annað en sómi af þessu skemmtilega liði á stóra sviðinu.

Golden State væri hinsvegar ekki Golden State ef það hefði sloppið alveg við meiðsli.

David Lee féll þannig úr leik hjá liðinu snemma í úrslitakeppninni og þeir Steph Curry og Andrew Bogut voru meira og minna á felgunni.

Nú ætlum við ekki að segja að Warriors hefði slegið San Antonio út í annari umferð úrslitakeppninnar ef allir leikmenn hefðu verið heilir, en það hefði sannarlega verið gaman að sjá hvað hefði gerst.

Golden State fær öruggt A hjá okkur fyrir frammistöðu sína á síðustu leiktíð, en við óttumst að meiðsli eigi alltaf eftir að hóta að skemma öll plön hjá liðinu. Það er óðs manns æði að ætla Andrew Bogut að vera allt í einu heill og ekki eru ökklarnir á Curry traustvekjandi. Að því sögðu vonum við innilega að þetta bráðskemmtilega lið hafi heppnina með sér í framtíðinni.

Annað lið sem stóð sig prýðilega vel í úrslitakeppninni í vor var Memphis Grizzlies, en þangað gleymdi meiðsladraugurinn alveg að fara að þessu sinni og megnið af lykilmönnum liðsins spilaði í kring um 80 leiki.

Sömu sögu var ekki að segja um mótherja Memphis í fyrstu umferðinni, LA Clippers. Alveg eins og á síðustu leiktíð, lenti Blake Griffin í meiðslum á versta mögulega tíma í úrslitakeppninni. Það hafði kannski ekki úrslitaþýðingu í einvíginu, en þeir Marc Gasol og Zach Randolph óðu yfir Clippers á skítugum skónum þegar Griffin naut ekki lengur við.

Þetta var því annað árið í röð sem Clippers þurfti að sætta sig við að falla snemma úr leik í úrslitakeppninni og ef við segjum hlutina bara eins og þeir eru, var liðið bara lélegt. Meiðsli spiluðu inn í bæði árin, sérstaklega 2012, en þau voru ekki ástæðan fyrir því að liðið fór snemma í sumarfrí.

Clippers er bara ekki nógu vel byggt fyrir úrslitakeppni og var þjálfað af manni sem var ekki starfi sínu vaxinn. Það verður gaman að sjá hvort að ný andlit í leikmannahópnum og Doc Rivers í þjálfarastólnum þýði bættan árangur í úrslitakeppninni. Allt er á sínum stað til að fara að gera eitthvað af viti. Meistaraþjálfari, besti leikstjórnandi í heimi og ungir og efnilegir piltar með í för. Koma svo, Clippers.

Snemma í sumarfrí

Einhverjir spáðu því að Denver myndi ganga nokkuð vel í deildakeppninni. Ekki við.

Hverjum átti að detta í hug að Denver tæki 57 leiki?

En jú, George Karl náði að púsla saman liði sem nýtti sér heimavöllinn til hins ítrasta og hakkaði hvern andstæðinginn á fætur öðrum með hröðum leik sínum.

Eins og Clippers, reyndist þetta Denver lið hinsvegar ekki vel byggt fyrir átökin í úrslitakeppninni og mátti sætta sig við tap í fyrstu umferð þrátt fyrir að ná 3. sætinu í Vestureildinni. Auðvitað spiluðu meiðsli sína rullu í að knésetja Nuggets.

Það gerðist í formi krossbandaslits Danilo Gallinari og þar með var liðið búið að missa sína helstu skotógn utan af velli og einn sinn besta leikmann. Það er samt algjör óþarfi að gráta fyrir þeirra hönd, lið Warriors var líka krambúlerað eins og við sögðum ykkur áðan.

Læri, læri, tækifæri

Við fyrstu sýn virðist San Antonio hafa sloppið nokkuð vel við meiðsli í vetur, enda komst liðið alla leið í lokaúrslitin í fyrsta skipti í háa herrans tíð.

Þegar nánar er skoðað, má samt setja fram eins og eitt spurningamerki.

Það var ekki stórmál frekar en venjulega fyrir Spurs þó Tony Parker og Manu Ginobili misstu úr góðan slatta af leikjum í deildakeppninni, en þegar í úrslitakeppnina var komið var allt annað uppi á teningnum.

Parker spilaði eins og engill fram í lokaúrslit en gerði það á meiddu læri sem hægði augljóslega nokkuð á honum.

Var það nóg til að gera gæfumuninn í svona hnífjöfnu einvígi þar sem úrslitin ráðast ekki fyrr en á lokasekúndunum í leik sjö í finals? Hugsanlega.

Þetta er veikur málflutningur og Dwyane Wade var sömuleiðis meiddur hjá Miami, en markmiðið með þessum pistli var að benda á hvað meiðsli höfðu mikil áhrif á landslagið í vetur.

Rotið án Russ

Þá eigum við ekki annað eftir en að taka fyrir Oklahoma City, en að okkar mati voru það meiðsli Russell Westbrook sem voru þýðingarmest af þeim öllum.

Oklahoma var að flestra mati liðið sem átti að fara upp úr Vesturdeildinni og jafnvel ná fram hefndum á Miami í lokaúrslitunum.

Ekkert slíkt var þó í spilunum og það var eiginlega hálf sorglegt að sjá liðið hrynja án Westbrook.

Þegar við erum að skoða hvort Oklahoma hafi verið kandídat í lokaúrslitin, verðum við samt að hafa í huga að í vor var enginn James Harden hjá Thunder eins og árið áður.

Í staðinn var hann í liði andstæðinganna og að reyna að skjóta sína gömlu félaga í kaf.

Það var mjög augljóst að Oklahoma varð strax lakara lið við að missa Harden. Við ætlum hér að nota tækifærið og minna á að við lýstum yfir áhyggjum yfir því strax í haust að Martin næði ekki að fylla nema hluta af skarðinu eftir Harden - sérstaklega í úrslitakeppninni.

Hann átti leik og leik sem var þokkalegur, en heilt yfir var hann bara alls ekki nógu góður. Þarna kom bersýnilega í ljós hvað Harden var saknað - alveg eins og Westbrook auðvitað.

Þá erum við búin að segja ykkur frá nokkrum af helstu og örlagaríkustu meiðslunum sem lögðust á liðin í bæði austri og vestri og ekki annað eftir en að taka smá súmmeringu á þetta allt saman. Lagt verður upp með að hafa þessa súmmeringu stutta, en þið vitið nú hvernig það endar stundum.

Það kemur í ljós í næsta pistli.