Showing posts with label Viðvaningsháttur. Show all posts
Showing posts with label Viðvaningsháttur. Show all posts

Saturday, January 12, 2013

Fail City


Strákarnir í Lob City, þeir Chris Paul, DeAndre Jordan og Blake Griffin, láta þetta líta út fyrir að vera svo rosalega auðvelt. Það er samt alls ekki á allra færi að spila sirkuskörfubolta. Sjáðu bara hvernig fór hjá Jerryd Bayless hjá Grizzlies þegar hann ætlaði að vera svaka töffari gegn Spurs.




Friday, November 30, 2012

Ersan Ilyasova og Hedo-heilkennið




Ersan Ilyasova hefur verið nokkuð í fréttum í haust og þó það nú væri. Komið hefur í ljós að hann hefur skitið á sig eftir næstum hvern einasta leik Bucks til þessa.

Ilyasova er fæddur á Eskişehir (Eskifirði) í Tyrklandi þann 15. maí 1987. Fyrstu fimm árin sín með Bucks var hann með að meðaltali 1,6 milljónir dollara í árslaun, sem er ansi hreint lítið miðað við það sem gengur og gerist í NBA.

Ekki fór mikið fyrir piltinum fyrstu árin, en á síðustu leiktíð byrjaði hann allt í einu að leggja fram svona leiki (stig/fráköst):

19/15, 17/17, 20/16, 31/12, 32/10, 29/25, 17/16, 7/19.

Sannarlega ekki á hverjum degi sem menn bjóða upp á 29 stig og 25 fráköst í einum leik.  Aðeins Ástþór býður upp á svona tölur - eða það héldum við þar til Ilyasova frussaði upp þessari stera-línu gegn Nets á síðustu leiktíð.

Og svo er hann brúkleg langskytta líka, svona eins og sykurlaus Ástþór.

Þvílík tilviljun að Ersan okkar skuli hafa verið með lausa samninga mitt í öllum þessum látum!

Og rétt eins og landi hans Hidayet "Hedo" Türkoğlu hérna um árið, virðist Ilyasova nú ætla að gera fátt annað en að drulla í buxurnar eftir að hafa skrifað undir samning sem færir honum 8 milljónir dollara á ári næstu fimm árin.

Það er milljarður króna á ári.

Sjáðu bara hvað tölfræðin hans hefur hrunið.

Vonandi nær Ilyasova að hrista þetta af sér og vonandi er hér ekki um Hedo-heilkennið að ræða. Kannski væri heppilegra að kalla það bara Tyrkjarán.

Það er svívirðilegt hvað er auðvelt að búa til ódýra orðaleiki úr raunum Ilyasova og biðjum við lesendur umsvifalaust afsökunar á því.

Já, krakkar, það væri synd ef Ersan næði sér ekki á strik á ný, verandi sjaldgæfur og solid fjórfari.

Svo er auðvitað alltaf sá hræðilegi möguleiki fyrir hendi að Scott Skiles þjálfari drepi hann hreinlega með ryðfríum kartöflustappara.

Maður sem var tilbúinn að fljúgast á við Shaquille O´Neal lætur það nú ekki eftir sér að mauka einn Tyrkjadjöful sem er að stela kaupinu sínu.

Það er kannski ljótt að segja svona, en þið vitið að okkur gengur aldrei annað en gott til. Þetta er aðeins ætlað sem hvetjandi skrif til handa efnilegum leikmanni sem villst hefur af leið og stefnir í glötun.

* - (Lausleg þýðing) Áttavilltur ungur maður í NBA - ENDAÞARMSINNLEGG ERSANS

Friday, November 9, 2012

Manstu eftir þessu?


Við vorum búin að gleyma þessu. Kannski sem betur fer fyrir Toronto Raptors, en við höfum reyndar ekki skrifað neitt um það ágæta lið, svo það skiptir kannski ekki máli.

Jú, þetta myndbrot hérna fyrir neðan sýnir Jeremy Lin tryggja New York Knicks sigur á Toronto með flautukörfu á síðustu leiktíð. Allt ætlar um koll að keyra í húsinu. Áhorfendur rísa úr sætum og öskra og klappa. Allt vitlaust í kofanum.



Í Toronto!

Heimamenn töpuðu!

Lin-ævintýrið var vissulega krúttlegt og vissulega var hafði Toronto ekki að nokkrum sköpuðum hlut að keppa frekar en venjulega.

Samt.

Hver haldið þið að vilji spila fyrir svona rækjusamlokur?

Þetta er hneyksli.

Shaquille O´Neal er að eyðileggja Inside the NBA






















Inside the NBA er margverðlaunaður þáttur á TNT sjónvarpsstöðinni í umsjón Ernie Johnson. Þeir Charles Barkley og Kenny Smith hafa verið meðreiðarsveinar Johnson í nokkuð mörg ár og svo hafa hinir og þessir gestir dottið í heimsókn.

Fyrir síðustu leiktíð var Shaquille O´Neal bætt í settið og héldu þá flestir að langbesti körfuboltaþátturinn í sjónvarpi yrði enn betri. Sú varð hreint ekki raunin. O´Neal hefur valdið gríðarlegum vonbrigðum. Hann hefur lítið að segja og það sem hann segir er oft tóm vitleysa og svo misnotar hann aðstöðu sína til að drulla yfir leikmenn sem hann var að keppa við nokkrum mánuðum áður. Svo hjálpar það honum ekki að það skilur enginn hvað hann er að segja þegar hann muldrar ofan í bringuna á sér.

Gott dæmi um bullið í O´Neal var í nótt þegar Clippers var að drulla yfir Portland í síðari leiknum á TNT. Þar fékk Shaquille O´Neal þá snilldar hugmynd að kalla DeAndre Jordan besta miðherjann í Vesturdeildinni af því hann æfði sig í sumar.

 "I’m going on the record. Best center in the West right now is DeAndre Jordan. You heard it here first."

Það er rétt að Jordan hefur bætt sig og það nokkuð mikið. Það var raunar gaman að sjá þessar hreyfingar frá honum. En að kalla hann besta miðherjann í Vesturdeildinni - þar sem til dæmis Dwight Howard og Marc Gasol spila - er algjörlega út í hött.

Við skiljum alveg að O´Neal þoli ekki Dwight Howard, en þetta er bara asnalegt. Ófagmannlegt og asnalegt. Það er með ólíkindum að maðurinn skuli halda vinnunni þegar hann er að bjóða upp á svona skít. Þetta er ekkert annað en skítur.

Höfuðið á Shaquille O´Neal var fullt af ranghugmyndum síðustu árin sem hann spilaði í NBA. Hefur kannski verið það alla tíð, en það var áberandi á síðustu árunum hans. Stundum kom hann fyrir eins og óþroskaður, bitur og frekur krakkavitleysingur. Hann heldur þessum stælum áfram í Inside the NBA og fær að komast upp með það. Þetta er fyrir neðan allar hellur, ef þig langar að vita hvað okkur finnst um þetta.

Eina leiðin til að koma í veg fyrir að Shaq dragi besta körfuboltaþátt í heimi ofan í svaðið er að reka hann á staðnum og ráða Chris Webber inn í staðinn. Webber hefur oft droppað inn í Inside og hefur allt sem til þarf. Góðan talanda, hressleika, þekkingu og reynslu úr sjónvarpi.

Út með Shaq - Inn með Webber - Málið dautt!