Showing posts with label Nýliðavalið. Show all posts
Showing posts with label Nýliðavalið. Show all posts

Friday, June 27, 2014

NBA Ísland rennir yfir nýliðavalið í nótt


Nýliðavalið í NBA deildinni er eiginlega júróvisjón körfuboltaáhugamanna, nema hvað draftið er auðvitað ekki glórulaus og rándýr rúnkseremónía fyrir plebba þar sem mestmegnis hæfileikalaust og athyglisjúkt pakk keppir í klisjugangi og væli.

Við höfum oftast frekar lítinn áhuga á nýliðavalinu, en við létum blekkjast í ár þar sem fjölmiðlar og þeir sem pína sig í að horfa á háskólaboltann að staðaldri lofuðu okkur að í ár gætu mögulega komið upp strákar sem raunverulega kynnu að spila körfubolta.

Þetta var of gott til að vera satt.

Menn hafa talað um nýliðavalið 2014 sem bombu í nokkur ár og þó mjög margir hafi dregið í land með yfirlýsingarnar um að þetta sé besti árgangur síðan sautjánhundruð og sjö, hefur skrumið og spennan í kring um hann verið með ólíkindum.

Og við létum auðvitað blekkjast af þessu skrumi öllu, eins og vitleysingarnir sem við erum. Það má vel vera að megnið af strákunum í þessu nýliðvali verði drasl, en við höfum nú samt haft lúmskt gaman af að fylgjast með þessu síðustu vikur. 

Ekki hefur vantað dramatíkina í þetta.

Nýliðahópnum í ár er best lýst með orðinu "en."

Huggulegt uppátæki hjá Silver og NBA-mönnum


Einhver ykkar hafa eflaust frétt af ógæfu Isaiah Austin frá Baylor-skólanum. Aðeins fjórum dögum fyrir nýliðavalið, greindist miðherjinn með alvarlegan sjúkdóm, sem þýðir að hann mun líklega aldrei spila körfubolta framar.

Þetta eru auðvitað skelfileg tíðindi fyrir þennan unga mann, sem var nokkrum dögum frá því að öðlast fjárhagslegt frelsi til æviloka. Flestir hölluðust að því að Austin yrði tekinn seint í fyrstu umferðinni eða snemma í þeirri annari, en þarna var ljóst að ekkert yrði af því. Við erum ekki læknar, en sumir segja að pilturinn megi þakka fyrir að veikindi hans hafi komið í ljós núna, því þau eru lífshættuleg.

Þrátt fyrir þetta mótlæti, var Austin samt mættur á nýliðavalskvöldið í Brooklyn í nótt. Hafi einhver furðað sig á því af hverju, fékk sá hinn sami svör við því þegar kom að því að velja fimmtánda leikmanninn í valinu.

Þá gerði Adam Silver forseti deildarinnar hlé á dagskránni, kynnti Austin til leiks og "valdi hann" svo fyrir hönd allrar NBA deildarinnar. Miðherjinn ungi fékk því að stíga á sviðið og taka í höndina á Silver eins og hann hafði dreymt um að gera síðan hann var barn.

Það má vel vera að einhverjum finnist þetta vera full tilfinningaklámfengið atriði, en okkur þótti þetta fallegur virðingarvottur af hálfu deildarinnar. Það er áberandi betri tilfinning að fylgjast með Adam Silver sinna starfi forseta NBA deildarinnar en hrokafullum forvera hans David Stern. Silver gefur af sér jákvæðan þokka og er í alla staði mannlegri og geðþekkari náungi.

Já, það var gaman að sjá hann Austin fá þarna smá móment til að nota sem hvatningu í baráttunni sem fram undan er hjá honum. Hérna fyrir neðan sérðu myndband af þessu skemmtilega augnabliki. Eftir seremóníuna er svo tekið viðtal við Austin, en það var einmitt framkvæmt af Jay Williams, manni sem veit allt um það hvernig er að sjá NBA ferlinum sópað í burtu á einu augnabliki.




Myndasafn frá nýliðavalinu 2014




Sunday, June 22, 2014

Meiðsli Joel Embiid hafa mikil áhrif á nýliðavalið


Nýliðavalið í NBA er á fimmtudaginn og loksins þegar bæði sérfræðingarnir og nördarnir voru búnir að reikna það út hvaða lið ætlaði sér að taka hvaða leikmann, sprakk allt draslið í loft upp þegar tilkynnt var að miðherjinn Joel Embiid væri fótbrotinn.

Embiid þessi er af mörgum talið mikið efni og reiknað var með því að Cleveland tæki jafnvel sénsinn á honum og tæki hann með fyrsta valréttinum í næstu viku. Þessi tíðindi þýða að nú eru þau plön úr sögunni og fyrir vikið fara plön fyrstu 7-8 liðanna í nýliðavalinu í ruslið.

Eins og þið vitið höfum við hérna á ritstjórninni ekkert agenda annað en það að við fáum sem fallegastan körfubolta og sem mest af honum. Þessi meiðsli á Embiid setja þar nokkurt strik í reikninginn og við værum að ljúga ef við segðum að við værum ekki brjáluð af því að verða vitni að enn einu fórnarlambinu lenda í kjaftinum á meiðsladraugnum.

Thursday, June 19, 2014

Það var fyrir 30 árum


Í dag eru 30 ár síðan nýliðavalið árið 1984 var haldið, en flestir eru sammála um að þar hafi verið á ferðinni besti flokkur nýliða sem nokkru sinni hafi komið inn í NBA deildina.

Nægir þar að nefna Heiðurshallarmeðlimi eins og Michael Jordan, (H)akeem Olajuwon, Charles Barkley og John Stockton. Nú er búið að gera heimildamynd um uppátækið sem frumsýnd var fyrir nokkrum dögum en ef þú hagar þér skikkanlega, máttu svo sem horfa á hana hérna fyrir neðan.

Thursday, June 12, 2014

Og þá kom Barkley


Charles Barkley er einn af þeim frábæru leikmönnum sem teknir voru í nýliðavalinu fræga í NBA árið 1984. Hans er því auðvitað getið í heimildamyndinni sem gerð var um þetta sögulega nýliðaval og frumsýnd var á dögunum. Barkley var sannarlega ekki lengi að koma sér á kortið ef svo má segja.

Það var Philadelphia sem landaði Barkley með fimmta valrétti í fyrstu umferð, en öfugt við sum af liðunum sem áttu fyrstu valréttina, var Philadelphia með sterkt lið fyrir. Það vann meira að segja titilinn leiktíðina 1982-83. Það voru því engir skussar sem spiluðu með Sixers í þá daga, þarna voru menn eins og Julius Erving, Moses Malone, Andrew Toney og Maurice Cheeks.

Tuesday, February 11, 2014

Bull og vitleysa?


Þeir sem fylgjast með á NBA Ísland vita vel að okkur gæti ekki verið meira sama um hvað er að gerast í háskólaboltanum. 

Okkur finnst háskólaboltinn lélegur og hundleiðinlegur og okkur er því miður drullu sama hvað leikmenn eru að gera þar - þeir hafa nægan tíma til að sanna sig þegar og ef þeir komast í NBA deildina.

Eins og þið vitið flest, hefur því verið spáð lengi að nýliðaárgangurinn í sumar verði sá sterkasti í mörg ár - mögulega síðan 2003 árgangurinn þeirra LeBron James og félaga. 

Þessar spár vöktu smá forvitni hjá okkur, enda var okkur farið að lengja mjög eftir almennilegum nýliðaárgangi. Á síðasta ári eða svo, náði svo skrumið í kring um 2014 árganginn hámarki. 

Svo bjartsýnir voru menn með þessa ungu leikmenn, að meira að segja við létum blekkjast og fórum meira að segja að gæla við það að horfa á leik í háskólaboltanum.

Núna er hinsvegar komið allt annað hljóð í strokkinn og menn sem hafa atvinnu af því að fylgjast með háskólaboltanum eru allt í einu farnir að draga í land með alla þessa snillinga sem þeir voru að lofa okkur í sumar.

Við skömmumst okkar hrikalega fyrir að hafa látið skrumið hafa áhrif á okkur. Nú ætlum við ekki að segja að nýliðavalið næsta sumar verði drasl, en ef marka má fregnir að vestan, verður það aldrei þessi gullnáma sem búið var að spá. 

Menn voru búnir að lýsa því yfir að liðin sem ættu fyrstu 7-8 valréttina myndu jafnvel öll ná sér í fínasta NBA leikmann og að 2-3 þeirra yrðu jafnvel stórstjörnur í framtíðinni.

Einmitt.

Auðvitað vonum við að þetta standist allt og að 2014 árgangurinn verði í alla staði stórkostlegur, en mikið óskaplega óttumst við að allt þetta tal um framtíðarstjörnurnar í nýliðavalinu í sumar reynist argasta kjaftæði. Einst og staðan er núna, er það líklegra en hitt.

Hvað sem kemur út úr þessu, verður þetta vonandi í síðasta skipti sem við látum plata okkur út í að verða spennt yfir hóp krakka í háskólaboltanum. Það er bara ekki fyrirhafnarinnar virði.

Wednesday, June 26, 2013

NBA Ísland kafar ofan í nýliðavalið fyrr og nú


  Eins og þið vitið höfum við stundum dálitlar áhyggjur af því hvað uppbyggingarstarfið í     körfuboltanum í Bandaríkjunum virðist vera komið í tómt tjón.

Þjálfun yngri iðkenda virðist ábótavant og nú er svo komið að háskólaboltinn er orðinn hundleiðinlegt drasl sem aðeins þeir hörðustu nenna að horfa á. Þeir sem til þekkja fullyrða að gera þurfi einar 6-10 breytingar á reglunum í háskólaboltanum, því hann sé orðinn allt önnur íþrótt en stunduð er í NBA deildinni.

Nú erum við bara að hafa eftir það sem við höfum lesið og heyrt frá fólki sem fylgist með þessu, við viðurkennum fúslega að okkur þykir álíka gaman að horfa á háskólaboltann og að fara til tannlæknis.

Það var gaman að háskólaboltanum hérna einu sinni, en í dag er hann eins og blackmetaltónleikar í blómabúð - sem sagt ekki að gera sig.

Nú styttist í nýliðavalið árlega en fáir eru spenntir fyrir því. Eins og raunin hefur verið undanfarin ár, er lítið um almennilegan efnivið og margir tippa á að nýliðavalið í ár verði eitt það lélegasta í sögunni.

Til marks um þetta hafa menn ekki hugmynd um hvaða leikmaður verður valinn fyrstur og menn eru nánast alveg jafn líklegir að detta inn á góðan leikmann með vali númer tólf eins og númer eitt.

Þetta eru dálítið ógnvekjandi pælingar, þó við séum ef til vill að ýkja pínulítið, en athugið að við erum samt enn ekki farin að ræða stærsta vandamálið (pun intended) í dag - skortinn á alvöru miðherjum.

Við erum alltaf að pæla í þessu. Líklega er þetta ekki annað en dæmigerðir neikvæðnitendensar sem vakna hjá fólki þegar það er orðið gamalt eins og við.

En okkur langaði nú samt að prófa að spóla til baka og kanna það svart á hvítu hvort nýliðavalið nú á dögum væri drasl á miðað við nýliðavalið fyrir tíu og tuttugu árum.

Nú vitum við að það er kannski ósanngjarnt að bera venjulega nýliðaárganga saman við þann sem kom inn í deildina árið 1992, því þar var sannarlega að finna hörkuspilara.

Okkur langaði hinsvegar að bera þennan árgang saman við árganginn 2002 og svo piltana í 2012 árgangnum sem kláruðu sitt fyrsta ár nú í vor.

Nú eigum við auðvitað óralangt í land með að spá fyrir um það hvernig 2012 drengjunum á eftir að reiða af, en það er alveg hægt að bera saman nýliðaárin þeirra og sjá hvort þeir komu með hvelli inn í deildina eða ekki.

Það er nátturulega vita glórulaust að eyða tíma í svona kjaftæði, en við vonum að einhver ykkar hafi gaman af því að rifja þetta upp og skoða nánar.

Eins má vel vera að þið séuð ósammála mati okkar á leikmönnum, en þetta er fjandakornið ekki það langt frá lagi.

Við leyfum ykkur svo að rífast um það hvort framboð á góðum leikmönnum sé meira í nýliðavalinu nú á dögum eða fyrir tíu og tuttugu árum síðan. Við erum aðallega að teikna þetta upp til gamans - ekki vísindalega - og af því við erum búin að vera með þessa pælingu á heilanum í hálft ár eða meira.

Nýliðavalið 1992:

(Valinn númer, nafn, leikir/þar af í byrjunarliði - Stig/fráköst/stoðsendingar)

 1. Shaquille O´Neal  81/81 - 23/14, 15x Stjörnuleikmaður, 4x NBA meistari, Heiðurshöllin
 2. Alonzo Mourning   78/78 - 21/19, 3,5 blk - 7x Stjörnuleikmaður, NBA meistari ´06 (MIA)
 3. Christian Laettner 81/81 - 18/9 47% fg Stjörnuleikmaður, Heiðurshöllin*
 4  Jimmy Jackson  28/28 - 15/4/5 - 40% fg**  Besta tímabil: 26/5/4 og 47% fg ´95 (DAL)
 5. LaPhonso Ellis 82/82 - 15/9 50% fg. Besta tímabil: 22/7 ´97 (DEN)
 6. Tom Gugliotta    81/81 - 15/10/4/2 43% fg - Stjörnuleikmaður - Besta tímabil 20/9 ´96-´98 (MIN)
 7. Walt Williams 59/26 - 17/5/3 44% fg
 8. Todd Day***      71/37 - 14/4 43% fg
 9. Clarence Weatherspoon    82/82 - 16/7 47% fg. Besta tímabil: 18/10 ´94 (PHI)
10. Adam Keefe    82/6  - 7/5  50% fg. Glórulaust, byrjunarliðsmaður í liði í lokaúrslitum (UTA)
11. Robert Horry    79/79 - 10/4/1st/1blk - Rulluspilari. Sjöfaldur NBA meistari
12. Harold Miner    73/0  - 10, 48% fg. Einmitt.
13. Bryant Stith    39/12 - 9/3, 45% fg. Besta tímabil: 15/4/3, 39% í þristum ´97 (DEN)
14. Malik Sealy    58/2  - 5, 43% fg 
15. Anthony Peeler   77/11 - 10, 47% fg. Besta tímabil: 15 stig, 37% í þristum ´97 (VAN).
16. Randy Woods**** 41/1  -  2, 35% fg
17. Doug Christie 23/0  -  6, 43% fg. Besta tímabil: 17/5/4 (TOR)
18. Tracy Murray   48/14 -  6, 42% fg. Bombari. Besta tímabil: 16/4, 42% í þristum ´96 (TOR).
19. Don MacLean   62/4  -  7, 44% fg - Framfarakóngur ´94 þegar hann stökk upp í 18 stig í leik
20. Hubert Davis  50/2  -  5, 44% fg - 44% í þristum yfir ferilinn
21. Jon Barry - Rulluspilari. Pabbi hans var betri leikmaður en sonurinn þegar hann var fimmtugur
22. Oliver Miller - Rulluspilari í finals-liði Phoenix Suns 1993. Feitur.
23. Lee Mayberry - Rolluspilari, lol, bara að athuga hvort þú ert vakandi.
24. Latrell Sprewell - 4X Stjörnuleikir, var í 1. úrvalsliði NBA ´94. Geðsjúklingur en góður.

*    - Er í Heiðurshöllinni af því hann var vatnsberi í Draumaliðinu. Átti frábæran háskólaferil.
**   - Spilaði lítið á nýliðaárinu af því hann náði ekki samningum við Dallas
***  - Milwaukee átti 8. og 23. valrétt í þessu djúpa drafti, en skeit á sig og fékk lítið.
**** - Heldurðu að Clippers hafi náð að klúðra þessu drafti? Stutta svarið er: Já, eins og öðrum.

Nothæfir leikmenn sem teknir voru seinna í nýliðavalinu 1992:
P.J. Brown (29.), Brent Price (32.), Popeye Jones (41.), Matt Geiger (42.)


Nýliðavalið 2002:
(Valinn númer, nafn, leikir/þar af í byrjunarliði - Stig/fráköst/stoðsendingar)

1.  Yao Ming 82/72 - 14/8/2blk - 50% fg - 19/9 á ferlinum
2.  Jay Williams 75/54 -  10/5 40% fg - Spilaði aðeins eitt ár. Stútaði á sér löppunum í vélhjólaslysi.
3.  Mike Dunleavy 82/3 - 6, 40% fg - Rulluspilari. Besta ár: 19/5/4 ´08 (IND)
4.  Drew Gooden 70/47 - 12/7 46% fg - Fæddur rulluspilari og ferðalangur.
5.  Nikoloz Tskitishvili 81/16 - 4/2 29% fg - Risavaxið klúður (á næstefstu myndinni í færslunni).
6.  Dajuan Wagner 47/24 - 13/3 37% fg. Farinn úr deildinni eftir 4 ár
7.  Nene  80/53 - 11/6 52% - Besta ár: 15/8 ´11 (DEN). Aldrei staðið undir væntingum/pótensjal.
8.  Chris Wilcox 46/3 - 4, 52% - Rulluspilari. Besta ár: 14/8 ´07 (SEA).
9.  Amare Stoudemire 81/71 - 14/9 47%. 6x í Stjörnuliði. Besta ár: 26/9, 56% fg 2005 (PHO).
10. Caron Butler  15/5 42% - 2x í Stjörnuliði. Besta ár: 20/7/5 árið 2008 (WAS)

Hræ eins og Melvin Ely, Marcus Haislip, Bostjan Nachbar, Curtis Borchardt, Ryan Humphrey og Steve Logan fylla út í fyrstu umferðina, sem lítur vægast sagt illa út eftir 10. valrétt.

Nothæfir leikmenn sem teknir voru seinna í nýliðavalinu 2002:
Tayshaun Prince (23.), John Salmons (26.), Carlos Boozer (34.), Matt Barnes (45.) og Luis Scola (55.).  Ágætis leikmenn þar á ferðinni.

Nýliðavalið 2012:


Tuesday, June 12, 2012

Við höfum áhyggjur af framtíðinni í körfubolta


New Orleans mun nota fyrsta valréttinn til að taka Kentucky-framherjann hávaxna, Anthony Davis.

Annað kemur ekki til greina.

Á myndinni sérðu nákvæmlega af hverju.

Drengurinn er með yfirnáttúrulegt vænghaf og margir tippa á að hann eigi eftir að verða flottur varnarmaður í NBA um ókomin ár.

Eins og sum ykkar vita, fylgjumst við ekkert með háskólaboltanum. Með fullri virðingu fyrir þeirri keppni, þá nennum við ekki að horfa á litla krakka í Bandaríkjunum spila körfubolta. Gerum nóg af því hér heima.

Myndum kannski fylgjast með háskólaboltanum ef nú væri árið 1984, en í dag er tímanum miklu betur varið í að horfa á Iceland Express deildina og yngri flokka heima á klakanum.

Það var ekki ætlunin að nota þessa færslu til að drulla yfir háskólaboltann.

Punkturinn sem við vildum koma að, er að síðustu tvö til þrjú ár, hafa dunið á okkur loforð um að nýliðaárgangurinn árið 2012 ætti eftir að verða mjög sterkur - sá sterkasti í áraraðir.

Einmitt.

Nú heyrum við að Anthony Davis verði fínn, leikmenn tvö til sex svona la la og restin drasl.

Nýliðaárgangurinn 2013 verði svo almennilega lélegur.

Jesús, María, Jósef og allt þeirra fylgdarlið!

Þeir verða farnir að taka garðhúsgögn úr Europris í annari umferð á næsta ári.

Þetta er alvarlegt mál. Framleiðsla á góðum - og ekki síst hávöxnum - leikmönnum virðist vera að leggjast af.

Ekki margt í spilunum og við erum farin að óttast að þetta verði bara einhver búðingakeppni þegar 2003 árgangurinn lýkur keppni. Það er ekki að sjá að leikmenn á borð við Tim Duncan og Shaquille O´Neal séu væntanlegir í NBA.

Thursday, May 31, 2012

Til hamingju New Orleans


Við berum miklar taugar til tónlistarborgarinnar New Orleans og því var það okkur sönn ánægja þegar í ljós kom að körfuboltafélagið í borginni hreppti hnossið í Nýliðalottóinu.

Eins og svo oft áður þurfti liðið með lélegasta árangurinn að bíta í það súra epli að fá ekki fyrsta valréttinn þrátt fyrir að eiga bestu líkurnar á því.

Á grafinu hér til hliðar sérðu hvaða líkur klúbbarnir áttu á því að hreppa fyrsta valréttinn og þar sést glöggt að Charlotte átti auðvitað bestu líkurnar á 1. valrétti, en sem betur fer varð ekkert úr því.

Það hefði verið dapurlegt að sjá Michael Jordan skamma Brúnar inn á geðveikrahæli og bjóða svo jafnvel upp á þriðju endurkomuna eftir Stjörnuleikinn í febrúar.

Sem betur fer sér karmað oftast um að refsa skítaklúbbum sem tanka. Það átti reyndar ekki við um Golden State að þessu sinni, en félagið fékk að halda sínum valrétti sem það hafði mikið fyrir að tanka til sín í vetur. Skammarlegt metnaðarleysi.

Það er ekkert leyndarmál að hinn fjölhæfi og varnarsinnaði einbrúnungur Anthony Davis verði valinn númer eitt í sumar. Ef að líkum lætur, á Brúnar eftir að reynast slöku liði New Orleans sannkallaður hvalreki.

Gaman fyrir hinn efnilega þjálfara Monty Williams og þetta unga lið. Vonandi skemma samsæriskenningarnar ekki fyrir þeim gleðina og við fáum bara bullandi uppgang í Nawlins.

Monday, June 27, 2011