Showing posts with label Fráköst. Show all posts
Showing posts with label Fráköst. Show all posts

Saturday, January 21, 2017

Brook Lopez á svarta listann


Körfuboltamenn hafa margt þarfara við tíma sinn að gera en að reyna að koma sér í svörtu bækurnar hjá ritstjórn NBA Ísland. Ef svo undarlega vildi til að þá langaði allt í einu að gera það - ef að við gæfum okkur að miðherji hjá ónefndu körfuboltaliði myndi bara vakna einn daginn, harðákveðinn í að komast í ónáð hjá NBA Ísland, þyrfti hann aðeins að gera einn lítinn hlut.

Hætta að frákasta.

Þið vitið að margt fer í taugarnar á ritstjórn NBA Ísland, það er eins og það sé eitthvað nýtt á hverjum degi sem vekur hjá okkur gremju, enda er þessi ritstjórn komin til ára sinna. En líklega fer þó ekkert eins mikið í taugarnar á okkur og stórir menn sem frákasta ekki.

Við gerum öll mismiklar kröfur til körfuboltamanna um framlag í frákastadeildinni og oft er það þannig að því fleiri sentimetra sem höfuðið á leikmanninum er frá gólfinu, því fleiri fráköst viljum við að hann taki. Og þar eð miðherjar eru oftast hávöxnustu leikmennirnir í körfuboltaliðum, gerum við gjarnan mestu kröfurnar á þá um framlag í fráköstunum, enda er það eitt aðalhlutverk þeirra á vellinum.
Það er út af þessu sem við erum núna að lesa okkur til í svartagaldri.

Við ætlum nefnilega að búa til litla brúðu, kukla á hana einhvers konar álög, skíra hana Brook Lopez, og fara svo að stinga sjóðandi heitum prjónum í hana og loks berja hana með gegnheilum Estwing-klaufhamri.

Lopez hefur alltaf farið í taugarnar á okkur af því hann frákastar eins og langamma, en hann er að setja heimsmet í frákastavanhæfni í ár (smelltu svona þúsund sinnum á efri myndina í færslunni til að sjá betur tölurnar). 

Við fengum algjört áfall þegar við skoðuðum tölfræðina hans í nótt og komumst að raun um að hann er að hirða FIMM KOMMA TVÖ fráköst í leik sem byrjunarliðsmiðherji í NBA deildinni - miðherji sem á að heita góður miðherji í NBA deildinni.

Við vitum alveg að Lopez er ekki að spila neinar 40 mínútur í leik - hann spilar ekki nema um 30 mínútur í leik - en okkur er fjandans sama. 

Þessar tölur ofbjóða okkur endanlega, því það er líka ekki eins og Lopez sé að spila við hliðina á Dennis Rodman og Wilt Chamberlain í þessu rusli sem þetta Nets-lið hans er. Þeir hitta náttúrulega ekki lifandi skít í þessu liði, þannig að nóg er líka af tækifærunum til að hirða sóknarfráköst. En, nei. Ekki Brook Lopez.

Af þessu tilefni höfum við sumsé ákveðið að tilnefna Brook Lopez versta frákastara allra tíma. Hér er ekki á ferðinni vísindaleg rannsókn eða niðurstaða. Við tókum íslensku leiðina á þetta. Við tókum ákvörðun, brugðumst hin verstu við, létum tilfinningarnar og reiðina hlaupa með okkur í gönur, ákváðum að fullyrða eitthvað og stöndum nú eftirleiðis og öskrum þessar niðurstöður á hvaða torgum sem kunna að verða á vegi okkar.

Þú ert algjör andskotans vesalingur, Brook Lopez! 

Reyndu að taka þér tak, drengur!!!

Saturday, January 16, 2016

Detroit heiðrar Stóra-Ben í nótt


Þetta er Stóri-Ben Wallace, miðherji Detroit Pistons á árunum 2000-´06 og 2009-´12.

Þeir verða ekki mikið hrikalegri en Wallace og það er ekki laust við að fólk velti því fyrir sér hvort þessi maður hafi einhvern tímann verið látinn pissa í glas.

"Merkja þetta betur, Skúli minn!"

Ef við ættum að finna einn körfuboltamann sem væri hvað best lýsandi fyrir meistaralið Detroit Pistons frá árinu 2004, myndum við velja Ben Wallace.

Hann var varnarakkeri einnar sterkustu varnar í sögu NBA deildarinnar og er sennilega sá maður sem hefur komist næst því að feta í fótspor Dennis Rodman síðan sá litríki maður lagði skó sína á hillun.

Wallace gegndi alltaf stöðu miðherja hjá Detroit þó hann væri ekki nema um 206 sentimetrar á hæð og þó það viðgangist í dag, þótti það dvergvöxtur fyrir miðherja á fyrstu árum aldarinnar.

Það er varla nóg að rétt slefa í tvo metrana ef maður þarf að dekka Shaquille O´Neal er það?

Jú, einhvern veginn dugði það Wallace. Svona stundum amk.

Ben Wallace var fjórum sinnum valinn Varnarmaður ársins í NBA deildinni, sem er met sem hann á með Dikembe Mutombo.

Fimm sinnum var hann í varnarúrvali deildarinnar og hann fór meira að segja í fjóra Stjörnuleiki - svo sterkt var Detroit á þessum árum. Liðið fór í úrslit Austurdeildar sex ár í röð, frá 2003 til 2008.

Hrikalegasta tölfræðin sem Wallace bauð upp á á ferlinum var árið 2003, þegar hann skoraði 7 stig að meðaltali í leik, en hirti 15,3 fráköst, stal 1,4 boltum  og varði 3,2 skot. Hann var með 10,3 stig, 14,3 fráköst og 2,4 varin skot að meðaltali í leik í úrslitakeppninni árið sem Detroit vann titilinn (2004).

Af hverjum erum við að rifja þetta upp núna?

Jú, af því að Detroit ætlar að hengja treyjuna hans upp í rjáfur í kvöld þegar Golden State kemur í heimsókn og verður hann þar með fyrsti leikmaðurinn úr meistaraliðinu 2004 sem er heiðraður með þessum hætti.

Þegar hefur verið ákveðið að Chauncey Billups fái sömu trakteríngar þann 10. febrúar næstkomandi. Reiknað er með því að Billups verði viðstaddur seremóníuna í kvöld ásamt liðsfélögum þeirra Rip Hamilton og Rasheed Wallace, svo einhverjir séu nefndir.

Wallace, sem er 41 árs gamall í dag, spilaði 655 leiki með Pistons á sínum tíma og á eitthvað af félagsmetum í vörðum skotum auk þess að vera ofarlega á listum í stolnum boltum og fráköstum.

Ekki slæmt af manni sem oft á tíðum var lágvaxnasti miðherji deildarinnar og enginn hafði áhuga á að taka í nýliðavalinu árið 1996.

Búningurinn hans Wallace (númer þrjú) verður sá áttundi sem fer upp í rjáfur í Höllinni í Detroit, en þar eru fyrir þeir Joe Dumars, Dennis Rodman, Isiah Thomas, Vinnie Johnson, Bob Lanier, Dave Bing og Bill Laimbeer. Ekki dónalegur mannskapur það.

Til lukku með þetta, Benni.

Thursday, June 12, 2014

Og þá kom Barkley


Charles Barkley er einn af þeim frábæru leikmönnum sem teknir voru í nýliðavalinu fræga í NBA árið 1984. Hans er því auðvitað getið í heimildamyndinni sem gerð var um þetta sögulega nýliðaval og frumsýnd var á dögunum. Barkley var sannarlega ekki lengi að koma sér á kortið ef svo má segja.

Það var Philadelphia sem landaði Barkley með fimmta valrétti í fyrstu umferð, en öfugt við sum af liðunum sem áttu fyrstu valréttina, var Philadelphia með sterkt lið fyrir. Það vann meira að segja titilinn leiktíðina 1982-83. Það voru því engir skussar sem spiluðu með Sixers í þá daga, þarna voru menn eins og Julius Erving, Moses Malone, Andrew Toney og Maurice Cheeks.

Tuesday, December 3, 2013

Kevins-költið Willis


Moses Malone, Dennis Rodman, Ben Wallace, Kevin Love og Kevin Willis.

Þetta eru mennirnir sem hafa náð að hirða 15 fráköst eða meira að meðaltali í leik í NBA deildinni á síðustu 30 árum. Willis þekkja margir. Hann var upp á sitt besta í upphafi tíunda áratugarins þegar körfuboltatískubólan var sem stærst á Íslandi.































Atlanta-liðið hans átti marga stuðningsmenn hér á landi og á eflaust enn. Eitt af þessum költ liðum á Íslandi ef svo má segja. Spud Webb átti þar hlut í máli, einnig Dominique Wilkins, en Kevin Willis átti líka marga aðdáendur hérlendis. Við munum vel eftir því. Willis var almennt álitinn líkamlega sterkasti leikmaður deildarinnar ásamt Karl Malone. Þetta voru íþróttamenn í lagi.

Hérna er skemmtileg syrpa með tilþrifum frá Kevin Willis, sem lék í 11 ár með skemmtilegu liði Atanta Hawks. Þar spilaði hann meðal annars með Doc Rivers, núverandi þjálfara LA Clippers.



Þeir Kevin Willis og Dominique Wilkins voru líka þekktir fyrir að vera vel til fara.




Thursday, November 28, 2013

Fráköst í boði


Fólk er dálítið að spá í það af hverju Carmelo Anthony sé allt í einu farinn að frákasta eins og maður, með um tíu slík að meðaltali í leik. Það er reyndar ekki erfitt að svara því.



Það liggur í augum uppi að það eru talsvert fleiri fráköst í boði á varnarendanum þegarTyson Chandler er meiddur og mennirnir tveir sem eru með Carlmelo í framlínu Knicks, þeir Kenyon Martin (4) og Andrea Bargnani (5), frákasta ekki meira en þessir tveir:




Wednesday, May 29, 2013

Allt í járnum í austrinu


Við ætlum ekki að fara mörgum orðum um fjórða leik Miami og Indiana í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar. Við þurfum þess ekki. Indiana varð að vinna þennan leik, sérstaklega í ljósi þess hvernig fór í vestrinu. Við viljum ekki sjá sóp (4-0) og herramannasóp (4-1) í undanúrslitarimmunum. Það væri bara glatað. Lokatölurnar urðu 99-92.

Indiana slapp ekki aðeins við að lenda undir 3-1 og eiga næsta leik á útivelli, heldur er liðið nú búið að jafna metin í seríunni - sem er allt í einu orðin galopin á ný. Það er ekkert stórfurðulegt að Indiana hafi unnið þennan leik. Þeir áttu inni að spila betur en í leik þrjú og Miami gat fjandakornið ekki haldið áfram að hitta eins og það gerði í leiknum á undan.

Nú er því tryggt að við fáum amk eina undanúrslitarimmu sem verður spennandi og á meðan safna Tim Duncan og félagar í San Antonio ryki heima í Texas. Sjá fram á níu eða tíu daga frí.

Þegar Indiana vinnur Miami, er það af því liðið leikur góða vörn (39% hittni hjá Heat), frákastar vel (+19) og fær gott stigaframlag frá Lance Stephenson (20 stig,  9 af 15 í skotum). Svo var sláninn okkar Roy Hibbert líka að standa sig, bauð upp á þriðja 20/10 leikinn í röð og hirti sóknarfráköstin sem tryggðu Pacers sigurinn í nótt.

Það er skammt stórra högga á milli. Eftir öruggan sigur Miami í þriðja leiknum, sáu margir ekki fram á að liðið myndi tapa öðrum leik í þessu einvígi og Indiana átti að vera alveg búið á því. Sem betur fer var það ekki þannig og heimamenn kipptu því í liðinn sem þeir þurftu að laga fyrir fjórða leikinn. Þessi sería búin að vera hin besta veisla og ætlar að vera það áfram. Sérdeilis prýðilegt.

Sunday, January 20, 2013

Ristill: Um afleita frákastavinnu Bosh og Bargnani


Mikið hefur verið gert úr því að Miami hefur ekki verið að spila sérstaklega vel undanfarið. Auðveldast væri að segja að það sé út af varnarleiknum, en fráköst eru sannarlega hluti af varnarleik og þar situr sveðjan í beljunni. Miami er sem stendur í 29. sæti deildarinnar í fráköstum.

Á töflunni hér fyrir neðan sérðu hvað leikmenn Miami eru slappir í fráköstunum. LeBron James gerir nokkuð vel að venju, en strangt til tekið má segja að allir hinir leikmennirnir þurfi að skoða sín mál.


















Það eru auðvitað stóru mennirnir sem eiga að frákasta og því miður fyrir Miami er það Chris nokkur Bosh sem gegnir stöðu miðherja hjá liðinu. Það á eftir að koma í ljós, en við óttumst að Chris Bosh eigi eftir að verða valinn í Stjörnulið Austurdeildarinnar í ár.

Það er eitthvað að ef svo verður. Bosh er búinn að vera hræðilegur undanfarið.

Bosh er sannarlega enginn miðherji og þó hann hafi lengst af á ferlinum verið skráður kraftframherji, er hann líkari skotbakverði á vellinum en kraftframherja.

Hlutverk stórra manna í körfubolta er að spila vörn, verja skot og hirða fráköst. Bosh hefur hinsvegar lítinn áhuga á þessu og sérgrein hans er stökkskot utan af velli, því hann hefur ofnæmi fyrir snertingu.

Þetta fer allt saman rosalega í taugarnar á okkur eins og þið eruð eflaust farin að átta ykkur á.

Bosh átti nokkra skínandi leiki í úrslitakeppninni á síðasta ári og hann á jú sínar sterku hliðar sem leikmaður, en hann mun aldrei vinna fyrir þeim fáránlegu launum sem hann er að fá hjá Miami. Og það fer líka í taugarnar á okkur.

Menn sem vinna engan veginn fyrir kaupinu sínu og stórir menn sem þola ekki snertingu og hirða ekki fráköst, eru atriði á topp 10 lista okkar yfir mest óþolandi hlutina í NBA deildinni.

Lítum aðeins á tölurnar hans Chris Bosh:

Hann er að spila fæstar mínútur á ferlinum og því kemur ekki á óvart að hann sé að hirða færri fráköst en nokkru sinni. Hann er að rífa niður heil sjö fráköst á 33 mínútum, sem er grátlega lélegt. Það er nú ekki eins og hann sé að spila með einhvern Pekovic eða Love við hliðina á sér.

Chris Bosh hirti fjórum sinnum 10 fráköst eða meira í einum leik í nóvember og fjórum sinnum í desember, en hann hefur enn ekki náð tveggja stafa tölunni í janúar.

Hann hefur náð í heilar níu tvennur í allan vetur og hefur ekki náð 10 fráköstum síðan í fyrra.


Við sögðum ykkur frá upplifun okkar þegar við horfðum á Bosh spila gegn Warriors á dögunum. Þar hitti hann 5 af 14 skotum, skoraði 11 stig, hirti 6 fráköst og tapaði 3 boltum.

Það er erfitt að lýsa því með orðum hvað hann var lélegur. Hvað eftir annað var hann að láta kasta sér til og lét bakverði rífa af sér fráköst. Það er sorglegt að horfa á manninn spila.

Það eina sem Chris Bosh getur huggað sig við þessa dagana - og reyndar alltaf - er að þótt ótrúlegt megi virðast, er hann EKKI lélegasti frákastarinn í NBA deildinni! (hér væri upplagt að spila mjög hátt á gamalt kirkjuorgel til að undirstrika þessi gríðarlega óvæntu tíðindi - svona til að auka hughrifin).

Án þess að leggja fram vísindaleg rök fyrir því - fullyrðum við að Andrea Bargnani er lélegasti frákastarinn, ekki bara í NBA deildinni, heldur mögulega í öllum heiminum. Hann lætur Bosh líta út eins og Dennis Rodman í samanburði. Að hugsa sér að þessir menn hafi spilað saman á árum áður. Hvernig náði Toronto fráköstum?

Bargnani er einmitt á svipuðu flugi og Chris Bosh var varðar aumingjaskap í vetur. Hann hefur alltaf verið ömurlegur frákastari en er nú að hóta því að setja ný met í að frussu-drulla á sig á frákastasviðinu.

Bargnani er skráður miðherji eins og Bosh en spilar raunar stöðu kraftframherja. Það er ekki andskoti mikill kraftur í umræddum framherja, því hann heldur auðvitað að hann sé skotbakvörður alveg eins og Bosh.

Þessi 213 sm hái Ítali er að hirða hvorki meira né minna en 4,3 fráköst að meðaltali í leik á 33 mínútum. Þetta er ekki langt frá því að vera heimsmet - það bara getur ekki annað verið.

Bargs er búinn að vera dálítið meiddur í vetur og er bara búinn að spila 21 leik, en þú hugsar örugglega með þér;

"ókei, hann er kannski slappur frákastari, en hann hlýtur að vera búinn að ná sér í EINA tvennu í vetur... er það ekki?"

Nei.

Hann hefur einu sinni tekið níu fráköst.

Tvisvar átta.

Þetta á ekki að vera hægt.

Það eru ellefu bakverðir í NBA deildinni sem hirða fleiri fráköst en Andrea Bargnani.
Hann er í sjöunda sæti í fráköstum í sínu liði! Sjöundi! Bakverðirnir taka fleiri fráköst en hann.

Hvað á að gera við svona aumingja? Án gríns!

Fyrirgefið okkur þessi ógurlegu leiðindi, en við bara getum ekki þagað yfir svona.

REYNIÐ AÐ PAPPÍRA YKKUR, AULAR!

Friday, January 4, 2013

Sagan af Amare Stoudemire er enn í smíðum


Það góða við að Amare Stoudemire skuli vera farinn að spila aftur með Knicks er að nú þurfum við ekki lengur að lesa þreyttustu tuggur ársins í fjölmiðlum - hvenær Stoudemire snúi aftur í lið Knicks.

Reyndar tekur ekkert betra við. Nú velta New York-miðlarnir sér bara upp úr því hvað hann fær margar mínútur og skot, sem er í raun ekkert mikið skárra, en skárra þó.

Stoudemire blessaður, er ein stór ekki frétt í okkar hugum, þvi miður. Fátt gladdi okkur meira en að sjá hann ljúka fallegum sendingum Steve Nash hjá Suns forðum.

NBA deildin hefur ekki hýst mörg eintök á borð við Stoudemire hvað varðar íþróttamennsku, táp og fjör. Hann hélt á þessum kyndli á undan Blake Griffin eins og þið munið.

Amare á hinsvegar ansi margt ólært sem leikmaður og úr þessu er óvíst að hann nái því. Síðast í gær lásum við fyrirsögn þar sem vitnað var í Stoudemire. Þar viðurkenndi hann að sér hefði aldrei verið kennt að spila varnarleik. Við vorum öll búin að taka eftir því.

En það er ekki bara varnarleikurinn.

Amare Stoudemire, allir 211 sentimetrarnir af honum, hefur nefnilega aldrei getað frákastað eins og maður. Þessi hávaxni íþróttamaður hefur ekki einu sinni náð að hirða 10 fráköst að meðaltali í leik á þeim áratug sem hann hefur spilað í deildinni. Og það sem meira er, hefur hann aðeins í tvígang hirt fleiri en 9,0 fráköst að meðaltali á leiktíð. Það er hrikalega slappt.


Charles Barkley mistókst einu sinni að hirða 10 fráköst að meðaltalí í leik á sínum ferli og það var á nýliðaárinu þegar hann spilaði ekki nema 28 mínútur í leik og var með Moses flippin Malone við hliðina á sér. Barkley, sem er/var meira en höfðinu lægri en Stoudemire, hirti þrettán sinnum 11 fráköst í leik eða meira á ferlinum.

Ekki er Stoudemire flinkari við að gefa boltann. Þar hefur hann aðeins tvisvar sinnum á ferlinum rofið tveggja stoðsendinga múrinn.

Svo við höldum okkur við Barkley, gaf hann níu sinnum fleiri en FJÓRAR stoðsendingar í leik á ferlinum og Karl Malone sjö sinnum. Ekki tvær eins og Stoudemire. Fjórar.

Það er hálf sorglegt að fylgjast með þessum fjölmiðlasirkus í kring um Stoudemire, þar sem allar fréttir snúast meira og minna um hvað hann getur ekki og mun aldrei ná að gera. Kannski var það ekki einu sinni tilviljun að Knicks yrði allt í einu sæmilegt lið með Stoudemire í enduræfingu.

Umræðan í dag snýst bara um það hvort Mike Woodson takist að láta hann spila einhverjar mínútur án þess að eyðileggja allt fyrir liðinu. Það er náttúrulega fyrir neðan allar hellur að það sé til vandræða að þurfa að púsla 100 milljón dollara manni inn í lið og eiga það jafnvel á hættu að hann skemmi meira en hann lagar!

Þetta er allt voðalega tragíst, en þetta vildi hann.

Til hvers að eiga ljúfasta líf í heimi í sólinni í Arizona þar sem þú þarft ekki að gera annað en grípa sendingar frá Steve Nash og troða þeim ef þú getur farið til New York og valdið alvöru vonbrigðum með míkrafón í andlitinu 24/7?

Það er ansi margt sem er ofar okkar skilningi í þessum bransa, krakkar.

Amare Stoudemire er eitt af því.

Tuesday, November 27, 2012

Z-Bo og fráköstin


Zach Randolph, eða Z-Bo eins og hann er gjarnan kallaður, átti ljómandi fínan leik þegar lið hans Memphis marði undirmannað lið Cleveland 84-78 í nótt.

Randoph skoraði 19 stig í leiknum og hitti úr 8 af 11 skotum sínum, en hann hirti aðeins 8 fráköst á þeim 36 mínútum sem hann spilaði. Flestir leikmenn í deildinni yrðu sáttir við að hirða 8 fráköst í leik, en ekki Z-Bo.

Þessi átta fráköst voru auðveldlega það langminnsta sem hann hefur tekið í leik í vetur og var þetta í fyrsta skipti sem hann nær ekki tveggja stafa tölu. Fyrir leikinn í nótt, hafði hann ekki tekið undir 11 fráköst í hverjum einasta leik í vetur, sem er ansi magnað.

Randolph er með 13,4 fráköst að meðaltali í leik þegar þetta er skrifað og er í öðru sæti deildarinnar í þeim tölfræðiflokki, en hann tapaði reyndar illa í frákastabaráttunni fyrir manninum sem leiðir deildina í leiknum í nótt.

Brasilíumaðurinn Anderson Varejao hjá Cleveland reif nefnilega niður 22 fráköst og er því enn öruggur í efsta sætinu á frákastalistanum með rúmlega 14 að meðaltali í leik. Nokkuð óvæntur árangur hjá Varejao.

Friday, July 29, 2011

Nokkur orð um fráköst


Þessir vösku piltar eiga það sannarlega sameiginlegt að vera bráðhuggulegir. Þeir sem eru vel að sér í fræðunum eru eflaust fljótir að kveikja á því hvað þeir eiga fleira sameiginlegt.



Þetta eru þeir Bill Walton, Swen Nater, Bill Laimbeer og Kevin Love og ef þú ert með söguna á hreinu hefur þú eflaust áttað þig á því að þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa orðið frákastakóngar í NBA deildinni. Fráköst eru vanmetin listgrein, enda segir Pat Riley alltaf "no rebounds - no rings."

Það sem er sérstakt við þessa fjóra af öllum þeim her manns sem hafa orðið frákastakóngar í deildinni okkar er að þeir eru bleiknefjar. Þessir fjórir eru einu hvítu mennirnir sem hafa orðið frákastakóngar í NBA síðan blökkumönnum var á annað borð leyft að spila í deildinni.

NBA deildin markar upphaf sitt árið 1946, en fyrstu blökkumennirnir fóru ekki að sjást í deildinni fyrr en upp úr 1950. Það var ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem hlutfall hvítra og svartra fór að jafnast í NBA. Um miðjan áttunda áratuginn og fram á þann níunda, fór hlutfallið að líkjast því sem það hefur verið síðan, þar sem segja má að þrír af hverjum fjórum leikmönnum í deildinni séu svartir.

Það er fleira sem tengir áðurnefnda pilta en hörundsliturinn. Þrír af þeim spiluðu jú fyrir UCLA háskólann.

Walton og hinn hollenski Nater voru samherjar og urðu tvívegis háskólameistarar undir stjórn goðsagnarinnar John Wooden. Kevin Love er sá þriðji og er núverandi frákastakóngur í NBA.

Eðlilega voru bleiknefjar eins og George Mikan frákastakóngar á sokkabandsárum NBA en eftir að hinn seinheppni Maurice Stokes braut ísinn fyrir þá svörtu árið 1956 var ekki aftur snúið.

Þá var röðin nefnilega komin að þeim Bill Russell og Wilt Chamberlain sem nánast skiptu frákastatitlinum milli sín frá 1957 til 1973.

Russell hirti titilinn þrjú ár í röð frá árinu 1957, þá tók Chamberlain við og vann fjögur ár í röð, þá vann Russell aftur tvö ár í röð og svo tók Wilt aðra rispu og varð frákastakóngur sjö af næstu átta árum.

Eins og sjá má á þessu kemst enginn með tærnar þar sem Wilt hafði hælana en hann varð ellefu sinnum frákastakóngur og hirti tvisvar 27 fráköst eða betur að meðaltali í leik.

Chamberlain er líka eini maðurinn sem hefur átt 50/25 meðaltal á tímabili í NBA. Vissulega var leikurinn öðruvísi í þá daga en hann er núna, en það breytir því ekki að þetta eru lygilegar tölur.

Þegar gullöld þeirra Chamberlain og Russell lauk má segja að það hafi verið Moses Malone sem tók við sem óumdeildur frákastakóngur deildarinnar. Moses varð frákastakóngur árið 1979 og hirti flest fráköst allra sex af næstu sjö árum.

UCLA drengirnir Bill Walton og Kareem Abdul-Jabbar urðu frákastahæstir árin á undan Moses, en það var téður Swen Nater sem kom í veg fyrir að Moses næði flestum fráköstum sjö ár í röð þegar hann varð frákastakóngur árið 1980 með San Diego Clippers.

Nater er eini maðurinn sem afrekaði að verða frákastakóngur bæði í NBA og ABA og lauk ferlinum í NBA með LA Lakers árið 1984 þar sem liðið tapaði fyrir Boston í oddaleik í lokaúrslitum.

Það var svo einmitt Bill Laimbeer sem batt enda á sigurgöngu Moses Malone í fráköstunum þegar hann vann sinn fyrsta og eina frákastatitil árið 1986 með Detroit, en það var ekki fyrr en aldarfjórðungi síðar
sem næsti hvíti maðurinn vann titilinn þegar Love
gerði það í vor.

Árið 1987 varð Charles Barkley frákastakóngur í sitt fyrsta og eina skipti og er það sérstakt fyrir þær sakir að hann er lágvaxnasti leikmaður sem orðið hefur frákastakóngur í nútíma NBA.

Barkley snaraði þá 14,6 fráköst að meðaltali (5,7 í sókn) í leik þrátt fyrir að vera ekki millimeter hærri en 200 sentimetrar á hæð (líklega nær 195).

Árið 1992 var röðin komin að manninum sem margir kalla besta frákastara allra tíma, Dennis Rodman. Hann varð frákastakóngur NBA deildarinnar sjö ár í röð, sem er að sjálfssögðu met.

Ekki var nú hæðin að þvælast fyrir Rodman frekar en Barkley, en Rodman var einfaldlega fæddur til að frákasta og lagði ofuráherslu á það.

Þeir sem hafa svo verið framarlega í greininni síðan Rodman hætti eru Dikembe Mutombo (tvö ár í röð), Ben Wallace (tvö ár í röð), Kevin Garnett (fjögur ár í röð) og Dwight Howard (þrjú ár í röð).

Þá er bara að sjá hvort Kevin Love verður aðeins annar maðurinn (Chris Webber ´99) á síðustu 20 árum sem nær ekki að verja frákastatitil sinn næsta vor - ef hann fær þá tækifæri til þess, blessaður.