Showing posts with label Oscar Robertson. Show all posts
Showing posts with label Oscar Robertson. Show all posts

Wednesday, January 13, 2016

NBA Ísland skoðar einstaka körfuboltamenn


Frávik eru nauðsynleg í samfélagi okkar fullyrti franski félagsfræðingurinn Émile Durkheim fyrir meira en hundrað árum síðan. Enski náttúrufræðingurinn Charles Darwin talaði líka um annars konar frávik - skrímsli og ýmis konar vanskapnað - sem hefur áhrif á þróun dýrategunda. Við mannfólkið erum jú ekkert annað en dýr. Þetta eru merkileg fræði þó ólík séu, frá tveimur af skörpustu hugsuðum nítjándu aldarinnar.

Nú voru þeir Darwin og Durkheim ekki svo heppnir að geta fylgst með NBA körfuboltanum, en okkur verður stundum hugsað til þeirra þegar við fylgjumst með Leiknum í dag. Það er nefnilega eins með körfuboltamenn og annað fólk - það má finna skrímsli í þeirra röðum og það má alltaf koma auga á einhverja þróun í bæði leiknum og mönnunum sem spila hann.

Þeir sem lesa NBA Ísland reglulega muna eflaust eftir því að við höfum átt það til að skrifa um sérstaka tegund leikmanna sem við köllum fyrirbæri. Sumum finnst þetta kannski ljótt orð til að lýsa körfuboltamönnum, en trúið okkur, við meinum ekkert illt með því - þvert á móti. Við köllum nefnilega ekki hvern sem er fyrirbæri. Ó, nei.






(Mynd: Lakers miðherjarnir Kareem Abdul-Jabbar, Shaquille O´Neal og George Mikan)

Ástæðan fyrir því að við erum að hugsa um fyrirbæri núna er sú að þegar við vorum að hugsa um eitt þeirra um daginn, flaug okkur í hug að líklega væru fleiri fyrirbæri í NBA deildinni í dag en nokkru sinni fyrr. Og til að færa rök fyrir því, er upplagt að útskýra fyrir ykkur hvað við meinum með orðinu fyrirbæri, greina frá sögu þess og segja ykkur loks frá fyrirbærum dagsins í dag.

Fyrirbæri er í stuttu máli sá körfuboltamaður sem skarar fram úr keppinautum sínum með líkamlegum yfirburðum sínum og/eða hreinum hæfileikum. Flest fyrirbærin hljóta þá nafngift hjá okkur af því þau eru stærri, sterkari, fljótari, fjölhæfari eða hæfileikaríkari en flestir ef ekki allir mótherjar þeirra á körfuboltavellinum.

Eins og þið getið ímyndað ykkur, er enginn á ritstjórn NBA Ísland sem fór á NBA leiki fyrstu áratugina sem deildin var í gangi og því verðum við að styðjast við ritaðar heimildir í leit að fyrirbærum eins og öllu öðru sem átti sér stað um og eftir miðja síðustu öld.

Líklega eru flestir sammála um að fyrsta fyrirbærið í sögu NBA deildarinnar hafi verið George Mikan.  Miðherjinn Mikan teldist sannarlega ekki mikið fyrirbæri í NBA deild dagsins í dag, enda ekki nema 208 sentimetrar á hæð - hvítur og luralegur náungi með gleraugu.

Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar var Mikan hinsvegar hinn eini sanni risi deildarinnar og var margfaldur stigakóngur og meistari með forvera Los Angeles Lakers í Minneapolis. Mikan var kallaður Herra Körfubolti og sjá má styttu af honum fyrir utan heimahöll Minnesota Timberwolves.

Við gætum haldið langan fyrirlestur um Mikan og þau áhrif sem hann hafði innan og utan vallar, en það sem skiptir mestu máli hvað fyrirbærafræðina varðar var að Mikan var það áhrifamikill í teignum að gerðar voru reglubreytingar út af honum.

Það eru góðar líkur á því að þú sért fyrirbæri ef þarf að breyta reglunum út af þér og það er engin tilviljun að miðherjarnir sem komu á eftir Mikan og höfðu þessi áhrif á reglurnar, fá líka á sig fyrirbærastimpilinn hjá okkur.



Næsta fyrirbæri á blaði hjá okkur kom ekki inn í NBA deildina fyrr en nokkrum árum eftir að Mikan hætti, en það var Wilt Chamberlain - mögulega fyrirbæri allra fyrirbæra.

Við höfum skrifað um Wilt áður og minnum ykkur á að þessum pistli er ekki ætlað að vera ævisaga mannanna sem fjallað er um, en Wilt er á þessum lista - og mögulega á toppnum - af því hann var fullkomlega óstöðvandi körfuboltamaður, líkamlegt og íþróttafræðilegt undur sem NBA deildin var hreinlega ekki tilbúin að taka á móti þegar hann kom til sögunnar í upphafi sjöunda áratugarins.

Wilt er eini maðurinn sem hefur skorað 100 stig í einum leik í NBA deildinni og hann er eini maðurinn sem hefur skorað 50 stig að meðaltali í leik í NBA deildinni.

Hann á flest met NBA deildarinnar í stigaskorun og fráköstum, en hann leiddi deildina líka einu sinni í stoðsendingum bara af því hann langaði að prófa það. Wilt var magnaður alhliða íþróttamaður og var frambærilegur bæði í blaki og frjálsum íþróttum á sínum tíma.

Svo skemmir það ekki fyrir goðsögninni Chamberlain að hann var sagður hafa átt bólfélaga sem skiptu þúsundum, hann spilaði einu sinni meira en 48 mínútur að meðaltali í leik yfir heila leiktíð, hann tróð einu sinni bolta með mann hangandi í honum og á að hafa fótbrotið annan mann af því hann tróð boltanum svo fast ofan á aðra löppina á honum.

Wilt Chamberlain gjörsamlega dómíneraði NBA deildinni allan sjöunda áratuginn og fram á þann áttunda og enginn leikmaður fyrr eða síðar hefur gert eins miskunnarlausar árásir á tölfræðiskýrslur í sögu körfuboltans.

Já, góðir hálsar. Wilt Chamberlain var fyrirbæri. Kannski fyrirbæriÐ.



Næstu tvö fyrirbæri á blað hjá okkur verða einfaldlega að fara þangað af því þau voru svo fáránlega góð í körfubolta, en það vill reyndar svo skemmtilega til að þau voru einu sinni saman í liði. Þetta eru Lew Alcindor, síðar Kareem Abdul-Jabbar og félagi hans Oscar Robertson.

Kareem er að mörgum talinn besti miðherji allra tíma í NBA deildinni og var sexfaldur meistari, sexfaldur leikmaður ársins og er stigahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 38.387 stig.

Punkturinn yfir i-ið hjá Kareem var svo einkennismerkið hans, sveifluskotið, sem gerði hann að óstöðvandi sóknarmanni. Hann upplifði það líka að reglunum í leiknum var breytt út af yfirburðum hans á vellinum.

Liðsfélagi Jabbars (um hríð hjá Milwaukee Bucks), Oscar Robertson, var annars konar fyrirbæri, en hann er fyrsti maðurinn á lista okkar sem var ekki miðherji.

Robertson var bakvörður sem er frægastur fyrir fjölhæfni sína á vellinum, enda  er hann eini maðurinn sem hefur verið með þrefalda tvennu að meðaltali í leik yfir heilt tímabil í NBA deildinni.

Robertson var framúrskarandi körfuboltamaður á öllum sviðum. Hann hafði alla kosti sem góðir bakverðir þurfa að hafa, en var ofan á það sterkur eins og ljón og frákastaði eins og stór maður.

Thursday, November 5, 2015

"Heppnir" Stríðsmenn í sögulegu samhengi


Við erum reyndari en svo í bransanum að við látum smá flugeldasýningu frá Stephen Curry slá okkur út af laginu og fá okkur til að skrifa pistil um að hann sé últra-mega-bestur í heimi. Það er samt allt í lagi að leyfa sér að brosa og gleðjast þegar drengurinn fer hamförum eins og hann hefur gert nú í upphafi leiktíðar. Um það snýst þetta nú allt saman - að hafa gaman.


Annað atriði sem tengist frammistöðu Curry undanfarin misseri með beinum hætti er gengi liðs hans síðustu tólf mánuði. Það er hlutur sem hefur verið til umræðu undanfarið og í þeirri umræðu hafa komið fram skoðanir sem urðu helsta kveikjan að þessum pistli.

Umræðan um meinta og raunverulega heppni Golden State-liðsins á síðustu leiktíð er nefnilega ekki að deyja og virðist meira að segja lifa góðu lífi. Þannig er ekki langt síðan fjölmiðlar nýttu tækifærið og tóku ummæli Doc Rivers þjálfara Clippers og rifu þau úr samhengi, þegar hann hafði orð á því að vissulega hefði Golden State haft heppnina með sér á leið sinni að titlinum á síðustu leiktíð. Við sögðum þetta nákvæmlega sama oftar en einu sinni, en fólk sá líka ástæðu til að taka það úr samhengi.

Það sem okkur þótti nauðsynlegt að benda á í þessu samhengi, er að þó Warriors hafi ef til vill haft heppnina með sér eins og öll lið sem verða meistarar í NBA, bendir nákvæmlega ekkert til þess að þar hafi verið á ferðinni lið sem grísaðist til að vinna einn meistaratitil. Þvert á móti, segja tölfræðin og sagan okkur að Golden State hafi verið eitt öflugasta lið sögunnar og því vel að titlinum komið hvort sem vegurinn að honum var holóttur eða malbikaður.


Við erum búin að segja ykkur þetta oft áður og ef þið eruð orðin leið á því, skulið þið bara sleppa því að lesa þetta. Ætlun okkar með þessum áróðri er ekki að troða því upp á ykkur að Warriors-liðið sé besta lið allra tíma - okkur langar bara að benda aftur á það að árangur þessa liðs var enginn grís. Langt í frá.

Hvort sem Golden State var heppið á síðustu leiktíð eða ekki, fór árangur liðsins í sögubækurnar af því hann var einn sá besti sem sést hefur. Nóg er að nefna að liðið vann 67 leiki í deildarkeppninni, sem er eitthvað sem við sjáum ekki á hverju ári eins og þessi tafla sýnir.


Frekari tölfræðigröftur sýnir að Golden State var líka með einn hagstæðasta stigamun per 100 sóknir sem sést hefur, enda vann það ekki bara stóra sigra, heldur gat líka leyft sér þann munað að hvíla stjörnurnar sínar í fjórða leikhluta leik eftir leik.

Þeir segja að vörn vinni titla og þó það sé klisja, var það sönn klisja á síðustu leiktíð þegar besta varnarlið deildarinnar varð meistari. En Golden State var nefnilega ekki bara besta varnarlið deildarinnar, það var líka veiðihári frá því að vera besta sóknarlið deildarinnar. Það var í öðru sæti yfir bestu sóknina, rétt á eftir Los Angeles Clippers eins og við höfum tuggið í ykkur 200 sinnum.

Og það er sannarlega ekki algengt að lið séu á eða við toppinn í báðum katagóríum. Síðasta lið sem við munum eftir sem var á toppnum bæði í vörn og sókn var ofurlið Chicago Bulls frá árinu 1995-96 sem margir kalla besta lið allra tíma. Lið eru sæmd slíkum titlum þegar þau vinna 72 leiki í deildarkeppninni (NBA met), eru best í vörn og sókn, hagstæðasta stigamuninn (+13) og vinna loks titilinn.

Hérna er tafla frá tölfræðivélinni John Schuhmann á NBA punktur kom, sem sýnir okkur hina og þessa tölfræði öflugustu liðanna í nútímakörfuknattleik.


















Golden State var aðeins þriðja liðið á síðustu 38 árum sem var á topp tvö í bæði vörn og sókn og stigamunur liðsins (+11,4 stig per 100 sóknir) var sá fjórði besti á sama tíma á eftir Chicago-liðunum 1996 (+13,3 og 72 sigrar) og ´97 (+12 og 69 sigrar) og meistaraliði Boston Celtics frá árinu 2008 (+11,5). Þetta Boston lið var besta varnarlið deildarinnar á sínum tíma og vann 66 leiki, en aðeins í tíunda sæti í sókn og fór ekki beint óaðfinnanlega í gegn um úrslitakeppnina eins og þið munið kannski.