Nú voru þeir Darwin og Durkheim ekki svo heppnir að geta fylgst með NBA körfuboltanum, en okkur verður stundum hugsað til þeirra þegar við fylgjumst með Leiknum í dag. Það er nefnilega eins með körfuboltamenn og annað fólk - það má finna skrímsli í þeirra röðum og það má alltaf koma auga á einhverja þróun í bæði leiknum og mönnunum sem spila hann.
Þeir sem lesa NBA Ísland reglulega muna eflaust eftir því að við höfum átt það til að skrifa um sérstaka tegund leikmanna sem við köllum fyrirbæri. Sumum finnst þetta kannski ljótt orð til að lýsa körfuboltamönnum, en trúið okkur, við meinum ekkert illt með því - þvert á móti. Við köllum nefnilega ekki hvern sem er fyrirbæri. Ó, nei.
(Mynd: Lakers miðherjarnir Kareem Abdul-Jabbar, Shaquille O´Neal og George Mikan)
Ástæðan fyrir því að við erum að hugsa um fyrirbæri núna er sú að þegar við vorum að hugsa um eitt þeirra um daginn, flaug okkur í hug að líklega væru fleiri fyrirbæri í NBA deildinni í dag en nokkru sinni fyrr. Og til að færa rök fyrir því, er upplagt að útskýra fyrir ykkur hvað við meinum með orðinu fyrirbæri, greina frá sögu þess og segja ykkur loks frá fyrirbærum dagsins í dag.
Fyrirbæri er í stuttu máli sá körfuboltamaður sem skarar fram úr keppinautum sínum með líkamlegum yfirburðum sínum og/eða hreinum hæfileikum. Flest fyrirbærin hljóta þá nafngift hjá okkur af því þau eru stærri, sterkari, fljótari, fjölhæfari eða hæfileikaríkari en flestir ef ekki allir mótherjar þeirra á körfuboltavellinum.
Eins og þið getið ímyndað ykkur, er enginn á ritstjórn NBA Ísland sem fór á NBA leiki fyrstu áratugina sem deildin var í gangi og því verðum við að styðjast við ritaðar heimildir í leit að fyrirbærum eins og öllu öðru sem átti sér stað um og eftir miðja síðustu öld.
Líklega eru flestir sammála um að fyrsta fyrirbærið í sögu NBA deildarinnar hafi verið George Mikan. Miðherjinn Mikan teldist sannarlega ekki mikið fyrirbæri í NBA deild dagsins í dag, enda ekki nema 208 sentimetrar á hæð - hvítur og luralegur náungi með gleraugu.
Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar var Mikan hinsvegar hinn eini sanni risi deildarinnar og var margfaldur stigakóngur og meistari með forvera Los Angeles Lakers í Minneapolis. Mikan var kallaður Herra Körfubolti og sjá má styttu af honum fyrir utan heimahöll Minnesota Timberwolves.
Við gætum haldið langan fyrirlestur um Mikan og þau áhrif sem hann hafði innan og utan vallar, en það sem skiptir mestu máli hvað fyrirbærafræðina varðar var að Mikan var það áhrifamikill í teignum að gerðar voru reglubreytingar út af honum.
Það eru góðar líkur á því að þú sért fyrirbæri ef þarf að breyta reglunum út af þér og það er engin tilviljun að miðherjarnir sem komu á eftir Mikan og höfðu þessi áhrif á reglurnar, fá líka á sig fyrirbærastimpilinn hjá okkur.
Næsta fyrirbæri á blaði hjá okkur kom ekki inn í NBA deildina fyrr en nokkrum árum eftir að Mikan hætti, en það var Wilt Chamberlain - mögulega fyrirbæri allra fyrirbæra.
Við höfum skrifað um Wilt áður og minnum ykkur á að þessum pistli er ekki ætlað að vera ævisaga mannanna sem fjallað er um, en Wilt er á þessum lista - og mögulega á toppnum - af því hann var fullkomlega óstöðvandi körfuboltamaður, líkamlegt og íþróttafræðilegt undur sem NBA deildin var hreinlega ekki tilbúin að taka á móti þegar hann kom til sögunnar í upphafi sjöunda áratugarins.
Wilt er eini maðurinn sem hefur skorað 100 stig í einum leik í NBA deildinni og hann er eini maðurinn sem hefur skorað 50 stig að meðaltali í leik í NBA deildinni.
Hann á flest met NBA deildarinnar í stigaskorun og fráköstum, en hann leiddi deildina líka einu sinni í stoðsendingum bara af því hann langaði að prófa það. Wilt var magnaður alhliða íþróttamaður og var frambærilegur bæði í blaki og frjálsum íþróttum á sínum tíma.
Svo skemmir það ekki fyrir goðsögninni Chamberlain að hann var sagður hafa átt bólfélaga sem skiptu þúsundum, hann spilaði einu sinni meira en 48 mínútur að meðaltali í leik yfir heila leiktíð, hann tróð einu sinni bolta með mann hangandi í honum og á að hafa fótbrotið annan mann af því hann tróð boltanum svo fast ofan á aðra löppina á honum.
Wilt Chamberlain gjörsamlega dómíneraði NBA deildinni allan sjöunda áratuginn og fram á þann áttunda og enginn leikmaður fyrr eða síðar hefur gert eins miskunnarlausar árásir á tölfræðiskýrslur í sögu körfuboltans.
Já, góðir hálsar. Wilt Chamberlain var fyrirbæri. Kannski fyrirbæriÐ.
Næstu tvö fyrirbæri á blað hjá okkur verða einfaldlega að fara þangað af því þau voru svo fáránlega góð í körfubolta, en það vill reyndar svo skemmtilega til að þau voru einu sinni saman í liði. Þetta eru Lew Alcindor, síðar Kareem Abdul-Jabbar og félagi hans Oscar Robertson.
Kareem er að mörgum talinn besti miðherji allra tíma í NBA deildinni og var sexfaldur meistari, sexfaldur leikmaður ársins og er stigahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 38.387 stig.

Liðsfélagi Jabbars (um hríð hjá Milwaukee Bucks), Oscar Robertson, var annars konar fyrirbæri, en hann er fyrsti maðurinn á lista okkar sem var ekki miðherji.
Robertson var bakvörður sem er frægastur fyrir fjölhæfni sína á vellinum, enda er hann eini maðurinn sem hefur verið með þrefalda tvennu að meðaltali í leik yfir heilt tímabil í NBA deildinni.
Robertson var framúrskarandi körfuboltamaður á öllum sviðum. Hann hafði alla kosti sem góðir bakverðir þurfa að hafa, en var ofan á það sterkur eins og ljón og frákastaði eins og stór maður.