Showing posts with label Netbrennur. Show all posts
Showing posts with label Netbrennur. Show all posts

Tuesday, February 7, 2017

Flóasvindlararnir


Ef þú ert í vafa, reyndu þá að styðjast við tölur, töflur og gröf sem sýna bullið sem er sóknarleikur Golden State Warriors...

Steph og KD voru einhverra hluta vegna kosnir kó-leikmenn mánaðarins í Vesturdeildinni eftir að Warriors-liðið þeirra straujaði flesta andstæðinga sína í janúar. Kannski hefði verið ósanngjarnt að gera upp á milli þeirra, en okkur er svo sem sama. Þetta snýst um hvað liðið er að gera, þegar allt kemur til alls.



Það er samt hálfgerð bilun að skoða hvernig þessir brjálæðingar eru að skjóta boltanum. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað en svindl. Þeir eru að spila 2K á rookie-mode meðan allir aðrir eru að ströggla fyrir öllu sínu á styrkleikastigum fyrir lengra komna. (Stundum er betra að smella músarbendlinum á myndir sem virka óskýrar og stækka þær svo hægt sé að njóta þeirra til fullnustu. Bara smá heilræði, sem á t.d. við myndina hér fyrir ofan).

Þegar skotkortin þeirra skotfóstbræðra eru skoðuð, kemur ýmislegt undarlegt í ljós. Eins og t.d. hvernig Kevin Durant virðist ekki geta keypt körfu fyrir utan þegar hann er beint á móti körfunni og svo sökkar hann í hægra horninu. En restin er líka grænmálað glóruleysi, ef svo má segja. Fyrir þá sem ekki vita, marka grænu svæðin hittni yfir meðaltali í deildinni, gult er á pari og rautt er undir meðalhittni í deildinni. Þeir Curry og KD eru venjulega grænni en Jónas frá Hriflu og þessi leiktíð er engin untantekning hvað það varðar.

Sjáið þið t.d. hittnina hjá þessum mönnum úr þriggja stiga skotunum vinstra megin á ská. Hún ætti að vera bönnuð. Þeir eru búnir að taka 217 þrista af þessu færi í vetur og beisikklí búnir að hitta helmingnum af þeim. Sem er náttúrulega ekkert annað en rugl. Svo er fólk hissa á því að það geti enginn unnið þetta Warriors-lið!*





























* - Djók. Það er enginn hissa á því. Ekki vera með þessa vitleysu!

Tuesday, May 31, 2016

Meistararnir áfram eftir sögulega seríu


Við sögðum ykkur að þetta færi svona fyrir tveimur dögum síðan. Let´s face it, það var ekki séns í helvíti að Oklahoma tæki þennan leik. Heimaliðið vinnur game 7, það er bara þannig. Það er hinsvegar gríðarlega margt sem vert er að hugleiða eftir þetta einvígi og við erum að hugsa um að gera það hérna fyrir neðan.

Oddaleikur Golden State og Oklahoma um sæti í lokaúrslitunum þróaðist ekki eins og við höfðum spáð, því Warriors var ekki búið að klára hann í öðrum leikhluta. Í staðinn spilaði Oklahoma frábærlega í fyrri hálfleik og neitaði að gefast upp fyrr en í fulla hnefana eins og það hefur gert alla þessa úrslitakeppni.

Niðurstaðan er ein besta sería í sögu úrslitakeppninnar - tvö lið sem eru gjörsamlega hlaðin hæfileikum og sveiflur, drama og tilþrif á heimsmælikvarða. Þetta var sería okkar áhugamannanna og allir nema stuðningsmenn Oklahoma brosa út að eyrum yfir þessu magnaða sjónvarpskonfekti. Þetta var gjörsamlega geggjuð sería og það fyndna við þetta er að lokaúrslitin hafa alla burði til að verða álíka skemmtileg, með álíka starpower og hæfileika í Cleveland-liðinu.


Við vitum að það er klisja, en Oklahoma getur farið með höfuðið hátt út úr þessari seríu þó hún hafi tapast. Við vitum alveg að Russell Westbrook og Kevin Durant gefa skít í slíkan hugsunarhátt, en þó stefnan sé alltaf titill eða dauði hjá OKC og sé búin að vera það síðan árið 2012, var frammistaða liðsins í þessari úrslitakeppni til algjörrar fyrirmyndar.

Russell Westbrook og Kevin Durant spiluðu eins og þeir væru tveir af allra bestu körfuboltamönnum í heimi og það var hér um bil nóg til að koma liðinu í lokaúrslitin, þar sem þeir hefðu líklega þótt sigurstranglegir í margra augum eftir að hafa farið í gegn um tvo risavaxna andstæðinga á leiðinni þangað.

Ástæðan fyrir því að Oklahoma á að hluta að taka þessu tapi sem mórölskum sigri, var að liðið hafði í fullu tré við tvö sögulega góð körfuboltalið. Vann annað þeirra nokkuð örugglega eftir að hafa látið slátra sér í leik eitt og farið alla leið í oddaleik gegn hinu. Okkur er sama hvað hver segir, þetta var mjög góður árangur hjá Oklahoma og miklu, miklu betri árangur en við bjuggumst við af þessu liði þetta vorið.


Stuðningsmenn Oklahoma vilja ekkert frekar hlusta á eitthvað jarm um móralska sigra frekar en leikmennirnir, en ef þið spáið í því er Oklahoma eins nálægt því að vera NBA meistari og lið getur verið án þess að lyfta bikarnum. Það vantar alveg sorglega lítið upp á til að þetta lið geti orðið meistari, nánar tiltekið tvo þokkalega vængmenn. Til dæmis menn eins og Andre Iguodala og Harrison Barnes. Það er ekki meira, þó við gerum okkur grein fyrir að slíkir menn vaxi ekki á trjánum, sérstaklega Iguodala.

Dion Waiters stóð sig betur í þessari úrslitakeppni en við hefðum nokkru sinni þorað að vona, en hann er ekki nógu góður leikmaður til að valda því hlutverki sem ætlast er til af honum. Og Andre Roberson er það ekki heldur. Roberson er frábær varnarmaður og stóð sig í rauninni frábærlega í úrslitakeppninni, en eitt pínulítið atvik í leiknum kórónaði þessa skoðun okkar og sannar gildi hennar.

Það var þegar Roberson fékk sendingu frá Kevin Durant og stóð aleinn fyrir utan 3ja stiga línuna í síðari hálfleiknum, en í stað þess að skjóta án þess að hika, kastaði hann boltanum eins og sjóðheitri kartöflu til Dion Waiters, sem varð að taka langt, kontestað tveggja stiga skot sem fór að sjálfssögðu ekki ofan í. Vandamál Oklahoma í hnotskurn í einu litlu atviki.



Það er alveg satt sem þeir segja: þú lifir með þristinum og þú deyrð með honum - og ekkert lið sannar það sennilega eins vel og Golden State. Málið er bara að þeir skjóta svo fáránlega vel úr 3ja stiga skotum að þeir lifa í sátt og samlyndi með þristinum og hafa enn ekki dáið með honum. Það munaði fáránlega litlu að þessu sinni, en það var þristurinn og ekkert annað sem beilaði meistarana út úr þessu einvígi.

Og það sem gerði endanlega útslagið var að Stephen Curry var loksins "hann sjálfur" í heilan leik og það hefði ekki geta komið á betri tíma fyrir Golden State.

Oklahoma spilaði einfaldlega betur en Golden State ef undan er skilinn hræðilegi kaflinn í lok sjötta leiksins og nokkrar mínútur í síðari hálfleik í oddaleiknum í nótt. Oklahoma-sóknin gekk prýðilega og það sem meira er, var varnarleikurinn hjá þeim algjörlega frábær - sá langbesti sem Golden State hefur nokkru sinni mætt.

En hversu ógeðslega niðurdrepandi er það fyrir sálartetur hvaða liðs sem er, að það skuli spila betur en andstæðingurinn í meirihlutann af leiknum - og leikjunum - en tapa samt? Það þurfa leikmenn Oklahoma að díla við núna. Þeir litu betur út en Golden State, spiluðu frábæra vörn, en meistararnir bara skutu þá í kaf með þriggja stiga skotum. Sumum hverjum fáránlegum. Flestum þeirra, meira að segja, fáránlegum.

Þetta er í rauninni ekki sanngjarnt, en svona er þetta því miður. Leikmenn Oklahoma eiga eftir að vera með óbragð í munninum í allt sumar yfir þessu. Matt Moore, körfuboltaskríbent hjá CBS, orðaði þetta skemmtilega á Twitter í nótt.


Seríur sem fara í sjö leiki eru alltaf jafnar og þessi var engin undantekning á því. Og þegar seríur eru svona jafnar - ekki síst þar sem liðið sem tapar kemst yfir 3-1 - er augljóst að sigurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var. Boltinn hefði ekki þurft annað en að skoppa til hægri en ekki vinstri - bara einu sinni - og þá vinnur lið B en ekki lið A.

Þess vegna er náttúrulega barnalegt að gefa út stórar yfirlýsingar eftir svona leiki (eins og við erum svo gjörn á að gera, eins og þið hafið séð). Liðið sem tapar er ekki drasl, og það er það sannarlega ekki í þessu tilviki. Oklahoma er alveg ógeðslega gott lið.

Kevin Durant sá þetta alveg eins og við og þegar hann var spurður út í tvo síðustu leikina og um leið hvað gerðist í einvíginu eftir að Oklahoma náði 3-1 forystu í því, sagði hann eitthvað á þessa leið: "Við spiluðum betur en þeir, fráköstuðum betur, áttum teiginn og spiluðum frábæra vörn. Þeir héldu bara áfram að setja niður þriggja stiga skot."



Þetta var ekkert flóknara. Grínlaust. Það má vel vera að fólk sem raunverulega hefur vit á körfubolta segi ykkur eitthvað annað, en við fullyrðum það. Golden State vann þessa seríu af því það setti niður alveg ógeðslega mörg - og mörg hver fáránleg - þriggja stiga skot í síðustu tveimur leikjunum í þessu einvígi. Meira að segja mörg fyrir Golden State - og það eru MÖRG þriggja stiga skot.

Ef Golden State hefði hitt eitthvað nálægt því eðlilega úr 3ja stiga skotum í leikjum sex og sjö, væri Oklahoma á leiðinni í úrslit. Gallinn er bara sá að Stephen Curry og Klay Thompson eru tvær af bestu skyttum sem NBA deildin hefur nokkru sinni séð. Curry sú besta og Thompson er kominn helvíti hátt á þeim lista líka

Thompson sækir mjög hratt upp listann af því hann getur státað af því að hafa sett fleiri og stærri þrista í úrslitakeppninni en nokkurn veginn allir leikmenn í sögunni. Ray Allen er auðvitað þarna uppi, en magnið sem þeir Curry og Thompson eru að vinna með, trompar allt sem á undan hefur komið.

Tökum hinn svívirðilega ofmetna Reggie Miller sem dæmi. Hann skoraði 320 þrista í fimmtán ferðum í úrslitakeppnina á ferlinum. Klay Thompson er búinn að skora meira en helminginn af því (169) þó hann sé aðeins í sinni fjórðu úrslitakeppni á ferlinum. Reggie Miller skoraði þessa 320 þrista sína í 144 leikjum í úrslitakeppni, en Stephen Curry er búinn að skora 203 þrista í aðeins 50 leikjum í úrslitakeppni á ferlinum.


Þeir Ray og Reggie skoruðu nokkra áhrifamikla þrista á sínum tíma, en Reggie skoraði sína þrista flesta í fyrstu tveimur umferðunum, svo þeir Steph og Klay, sem eru á leið í önnur lokaúrslitin sín á ferlinum, eru þegar búnir að slá honum við hvað það varðar. Ray Allen á ennþá einn stærsta og eftirminnilegasta þrist í sögu lokaúrslitanna, en þeir skvettubræður hjá Golden State sækja hart að honum og eiga örugglega eitthvað uppi í erminni í komandi úrslitaeinvígi.

Við vitum alveg að þetta eru breyttir tímar og það er ósanngjarnt að bera þá Curry og Thompson saman við menn sem spiluðu á tímum þar sem fólk var ekki eins geggjað í dag þegar kemur að langskotum. Við erum aðeins að benda á það hvað Reggie Miller er ógeðslega ofmetinn bakverðir Golden State eru að skjóta allar metabækur í tætlur og eru að því er virðist og í raun og veru, rétt að byrja.

Þetta var hressandi útúrdúr, en það er bannað að misnota tækifæri til að drulla aðeins yfir Reggie Miller, þið vitið það.

Ef þið hafið lesið ameríska körfuboltamiðla lengur en í tvær vikur, vitið þið væntanlega hvert umræðan um Oklahoma mun fara héðan í frá. Nú snýst ALLT sem skrifað verður um þetta lið um hvort Kevin Durant framlengir samning sinn við félagið í sumar eða kýs að reyna fyrir sér annars staðar.


Við förum ekki ofan af því að við teljum og viljum að hann verði áfram hjá Oklahoma. Það er ekki ólíklegt að hann framlengi samning sinn um eitt ár og taki þar sem séns á að meiðast ekki alvarlega, því launaþakið verður búið að hækka svo svívirðilega eftir þetta eina ár að þá getur hann skrifað undir risasamning sem á engan sinn líkan í sögunni.

Okkur er alveg sama um þessar tölur, við vonum að bæði Durant og Westbrook verði áfram hjá Oklahoma og við erum alveg handviss um að þannig vilja forráðamenn Oklahoma hafa það. Þeir vita sem er að liðið er aðeins hársbreidd frá því að vinna meistaratitil og að vandamál þess liggur ekki hjá stjörnunum, heldur hjá aukaleikurunum, sem eru bara ekki nógu góðir.

Þú vinnur ekki titil með Dion Waiters í lykilstöðu, fjandakornið. Svona eins og við eigum eftir að sjá Cleveland vinna titil ef það þarf á stöðugu framlagi frá JR Smith að halda. Það á ekki að vera hægt, því auk þess að vera algjör hægðaheili, er Smith oftast hræðilegur þegar lið hans þarf mest á honum að halda (sjá: 28% 3ja stiga skotnýtingu í lokaúrslitunum í fyrra). Dálítið eins og Jamal Crawford hjá Clippers.




















Þó við vonum vissulega að Durant verði um kyrrt hjá Oklahoma og þó að það sé á flestan hátt skynsamlegasta ákvörðunin fyrir hann, er eitt lið sem orðað hefur verið við hann áhugaverðara en öll önnur og það er einmitt Golden State.

Meistararnir gætu tekið hann með smá leikfimi í launa- og leikmannamálum, þó þeir þyrftu líklega að þynna aðeins hjá sér hópinn. Tilhugsunin um Kevin Durant í þessu Golden State liði hlýtur að vera efni í verstu martraðir hjá restinni af deildinni og það yrði þá og þegar óárennilegasta sóknarlið í sögu deildarinnar. Í einu orði sagt: Ósanngjarnt.

Við sjáum það samt ekki fyrir okkur að Kevin Durant muni ganga í sæng með óvininum, því hann hefur hingað til verið mjög hollur sínu félagi. Það er samt ómögulegt að gera sér í hugarlund hvað hann er að hugsa núna, annað en það að akkúrat núna er hann í massífu þunglyndiskasti.

Restin verður að koma í ljós í sumar. Sumarið eftir frábæra úrslitakeppni hjá Oklahoma, þá næstbestu í sögu félagsins (við blöndum sögu OKC ekki saman við sögu Seattle, það er fáránlegt). Megi þetta lið halda áfram að vaxa.

Fjölmiðlamenn greindu frá því að Kevin Durant hafi tekið í höndina á öllu staffinu hjá Golden State og þakkað öllum fyrir rimmuna, allt niður í skúringakonur og boltastráka. Það er klassi yfir Durant, hann er ekki bara stórkostlegur leikmaður, hann er líka vel upp alinn og auðmjúkur í tapi.



Að lokum verðum við að gefa þjálfaranum Billy Donovan feitt kúdós. Hann var ekki langt frá því að stinga endanlega upp í okkur með því að fara hreinlega alla leið, eftir að við vorum búin að gera grín að honum og kalla hann lélegan þjálfara um daginn. Þetta undirstrikar hvað við höfum ekki hundsvit á körfubolta og erum í raun algjör fífl, en þið vissuð það nú alveg.

Donovan notaði veturinn í vetur til þess að gera tilraunir með liðið og var ekkert að stressa sig á því þó það tapaði kannski leikjum sem það átti að vinna í deildarkeppninni. Svo skipti liðið um gír í úrslitakeppninni og breyttist í þetta drápstól sem við sjáum fara alla leið með Golden State. Billy Donovan er enginn skussi, það erum við sem erum skussar.


Thursday, February 4, 2016

Það eiga allir rétt á að sjá Golden State


Hvað er hægt að segja annað eftir aðra eins flugeldasýningu og Golden State bauð upp á þegar það vann 44. leikinn sinn í vetur í stórskotaeinvígi við Washington í höfuðborginni. Mönnum hefur verið þakkað fyrir annað eins og Steph Curry og félagar sýndu í nótt, í brjáluðum óld-skúl 134-121 sigri sínum.

Eins og svo oft í vetur, fór Curry fyrir sínum mönnum, en í þetta sinn af meiri krafti en áður. Leikmenn Washington skynjuðu að þetta gæti orðið helvíti langt kvöld þegar hann sallaði sjö þriggja stiga körfum í andlitið á þeim í fyrsta leikhluta. Curry skoraði 36 stig í hálfleik og hefur þrisvar sinnum skorað 35+ stig í hálfleik á ferlinum - oftar en nokkur annar maður í NBA deildinni á síðasta áratug.

Hann lauk keppni í nótt með 51 stig úr 28 skotum, þar af ellefu þrista. Það var ekki verið að eltast við nein met á þeim bænum frekar en venjulega. NBA metið yfir flesta þrista í leik er 12. Þú getur rétt ímyndað þér hvort Curry hefði átt séns á að setja tvo þrista í öðrum, þriðja og fjórða leikhluta í nótt ef hann hefði virkjað sinn innri Kobe...

John Wall var frábær hjá Washington með 41 stig og 10 stoðsendingar, en hefði alveg eins getað ekið um völlinn á Land Rover með blæju, syngjandi lög með Stjórninni. Ekkert sem hann hefði getað gert hefði breytt niðurstöðu leiksins, þó við verðum að gefa Wiz kredit fyrir að reyna að hanga inni í leiknum.

Mikið var skrifað í metabækur eftir þennan leik eins og að því virðist í hvert skipti sem þetta Warriors-lið dettur í smá stuð.

Klay Thompson skoraði 24 stig og sex þrista en það tók enginn eftir því.

Draymond Green skoraði 12 stig, hirti 10 fráköst, gaf 12 stoðsendingar og varði 5 skot - það tóku fáir eftir því líka, þó hann sé búinn að slá þrennumetið á tímabili hjá Warriors (10) þó sé ekki einu sinni kominn Stjörnuleikur.

Það sjúkasta við þetta allt saman, ef þið spyrjið okkur, er tölfræðin hans Steph Curry í bull-skotunum. Þá erum við ekki að meina öll sirkus-skotin sem hann hitti úr inni í teig, þó nóg væri af þeim. Nei, við erum að meina skotin hans sem koma bókstaflega neðan úr bæ.

Þriggja stiga línan í NBA er í c.a. 7,3 metra fjarlægð frá körfunni í NBA og þykir flestum það alveg nóg, nema Curry. Hann er búinn að taka 99 skot í vetur af meira en 8,2 metra færi og hitta úr 50 þeirra. Það er náttúrulega alveg eðlilegt, eins og sést á því að restin af leikmönnunum í NBA deildinni eru að skjóta 24% af þessu sama færi.

Það er í fúlustu alvöru kominn tími til fyrir hinn almenna íslenska bol að taka sér tak og fara að horfa á NBA ef hann er ekki þegar að því.

Fólk sem hefur á einhvern hátt gaman af íþróttum á að horfa á Curry og Golden State spila körfubolta núna, því það verður talað um þessa spilamennsku eftir tuttugu ár og það verður talað um hana eftir fimmtíu ár.

Það er bylting í gangi. Nú er mál að gefa enska boltanum, spænska boltanum, handboltanum, íshokkíinu, blönduðu bardagaíþróttunum, hestunum og briddsinu pásu í bili og fara að horfa á Golden State. Það er algjört hneyksli að missa af þessu!

Farið því og látið fólk vita. Það eiga allir rétt á því að vita að sé eitthvað til sem heitir Stephen Curry og Golden State, svo rjúkið út í glugga eða út á götu og öskrið:

"KARLAR, KONUR OG BÖRN! ÞIÐ VERÐIÐ AÐ HORFA Á GOLDEN STATE... NÚNA! TAKIÐ YKKUR TAK OG VERÐIÐ VITNI AÐ KRAFTAVERKINU!" 

Eða eitthvað þannig.

Grínlaust, þetta er rugl!

Friday, January 29, 2016

Er þetta Green?


Nú er búið að tilkynna hvaða leikmenn skipa Austur- og Vesturdeildarúrvalið í Stjörnuleiknum í NBA sem fram fer í Toronto eftir tvær vikur. Það er bolurinn sem fær að kjósa byrjunarliðin en það eru (allir) þjálfararnir í deildinni sem ákveða hvaða leikmenn skipa varamannabekkinn.

Án þess að við höfum rannsakað það vísindalega, sýnist okkur ekki mikið um stórskandala þegar kemur að vali þjálfaranna þetta árið. Í fljótu bragði ætti Damian Lillard auðvitað að vera í liðinu á kostnað Kobe Bryant, en svo hefur það örugglega verið höfuðverkur fyrir þjálfarana að skilja goðsagnir eins og Tim Duncan og Dirk Nowitzki eftir heima. 

Nowitzki hefði örugglega verið til í að taka einn Stjörnuleik í viðbót, en eitthvað segir okkur að Tim Duncan langi heldur að slaka á með fjölskyldunni heldur en að fara í þriggja sólarhringa fjölmiðlamaraþonið sem helgin er.

Þegar valið í Stjörnuleikinn ber á góma verður okkur oft hugsað til þess hvað gerðist við þetta sama tækifæri árið 1990, en það er í fyrsta skipti sem við munum eftir því að valið í Stjörnuleikinn hafi farið í taugarnar á okkur. Og það hefur gert það ansi oft síðan.

Það sem fór svona heiftarlega í taugarnar á okkur fyrir aldarfjórðungi var líka vinsældakosning áhangenda - og það sem meira er - var það líka út af Lakers-manni sem hafði ekkert í Stjörnuleikinn að gera. 

Í dag er það Kobe Bryant en árið 1990 var það A.C. Green sem fór öfugt ofan í okkur.

A.C. Green var ágætis körfuboltamaður og gengdi auðvitað lykilhlutverki hjá sigursælu liði Los Angeles Lakers á níunda áratugnum. 

En að hann - maður sem skoraði innan við tíu stig að meðaltali í leik á umræddri leiktíð - væri kosinn í byrjunarliðið í Stjörnuleiknum í staðinn fyrir Karl Malone? 

Það var bara mesti skandall í heimi!

En svona var þetta og svona er þetta enn þann dag í dag og ekkert við því að gera. Þetta var samt dálítið gróft dæmi þarna 1990 og það voru fleiri gramir yfir þessu en við. Karl Malone varð brjálaður þegar hann frétti að 13 stiga hreinn sveinn með krullur hefði verið kosinn inn í byrjunarliðið á sinn kostnað.

Malone var afar óhress með þetta og ákvað að taka gremju sína út á næsta andstæðingi Utah Jazz á körfuboltavellinum, Milwaukee Bucks. Það gerði hann svo um munaði, því hann skoraði 61 stig í leiknum, hirti 18 fráköst og hitti úr 21 af 26 skotum utan af velli (19 af 23 á línunni) á aðeins 33 mínútum í 144-96 sigri Utah.*  Svona á að gefa út yfirlýsingar.

 Malone var kjörinn leikmaður Stjörnuleiksins í Houston árið áður (myndin hér fyrir ofan), en hvort sem það var fýla eða ekki, þá bar hann við meiðslum og mætti hann ekki í Stjörnuleikinn árið 1990 þrátt fyrir að hafa verið valinn í hann af þjálfurunum seinna.

"Ég get annað hvort farið heim til Louisiana að veiða eða farið til Miami. Akkúrat núna er ansi freistandi að fara að veiða," ansaði Malone þegar hann var spurður út í tilfinningar sínar að vera ekki valinn í byrjunarliðið. Þetta kom við egóið á honum, sem var risavaxið (hann talaði alltaf um sig í 3. persónu) en viðkvæmara en lappirnar á Greg Oden.

Karl Malone var framúrskarandi leikmaður á þessum árum og skilaði til að mynda 31 stigi og 11 fráköstum að meðaltali í leik og skaut 56% utan af velli leiktíðina ´89-´90. 

Ekki var hann verri í leikjunum fjórum gegn Lakers þennan vetur, þar sem hann skoraði 34 stig að meðaltali, hirti 9 fráköst og skaut 61%.

Einhver gæti ef til vill giskað á að ástæðan fyrir Stjörnuleiksdissinu á Malone hefði verið staða liðs hans í töflunni, því leikmenn í lélegum liðum fá jú færri atkvæði. 

En því var ekki að skipta þarna. Utah var alveg á hælunum á LA Lakers þegar þarna kom við sögu. Jazzararnir voru með 29 sigra og 11 töp, meðan Lakers var með 31 sigur og 9 töp.

Það var misjafnt hvort Malone var valinn á bekk eða í byrjunarlið í Stjörnuleikjunum sem fylgdu á eftir þeim dramatíska árið 1990, en hann mætti í þá á hverju ári þangað til árið 2002 þegar hann var valinn í síðasta skipti en sat vegna meiðsla.

Við þökkum Morgunblaðinu fyrir að leyfa okkur að birta blaðagreinina um reiðikastið hans Karl Malone hérna á vefsvæðinu, en hún er að sjálfssögðu skrifuð af Gunnari Valgeirssyni í Bandaríkjunum. Gunnar gerði vel í að fjalla um deildina fögru hér áður, þegar lítið sem ekkert var að finna um NBA boltann annað en tveggja daga gömul úrslit í Mogganum.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Þú hlýtur að vera að pæla í því hvað John Stockton gaf margar stoðsendingar í risaleiknum hans Malone, þar sem Utah setti 144 stig á töfluna. Þær voru reyndar ekki nema 16 í þetta skiptið, sem er ekki hægt að kalla annað en vonbrigði hjá manni sem var jú einu sinni með næstum því fimmtán stoðsendingar að meðaltali í leik. Dálítið undarlegt.

Warriors-menn skora eins og Suns-lið Barkley


Metin hrannast upp hjá Golden State þessa dagana og reyndar San Antonio líka. Lætin í meisturunum eru eftirtektarverð, því í stað þess að spila eins og þeir séu saddir eftir titilinn, spila þeir eins og þeir séu á persónulegri vendettu gegn hverju einasta liði deildarinnar. Alltaf sömu krúttin, en spila eins og þeir séu brjálaðir. Eins og þeir séu í sjómann við gaurinn sem henti dúkku litlu systur þeirra í pollinn.

Ekki dettur okkur í hug að reyna að fiska upp öll metin sem þetta Warriors-lið er að slá um þessar mundir, en þó langar okkur að vekja athygli á nokkum skemmtilegum molum. Fyrsti molinn hefur með skemmtanagildið að gera og undirstrikar hvað Golden State er í senn sterkt og skemmtilegt lið.

Þið munið að helsta ástæðan fyrir því að Golden State er besta lið í heimi er að það spilar svo góða vörn. Liðið spilar frábæran sóknarleik, sem alltaf er að verða betri, en það er vörnin sem er grunnurinn og hún ræður. Golden State er best af því þeir gera allt rétt - og þeir sem gera rétt, sjá til þess að þétta varnarleikinn áður en þeir fara í sóknarkrúsídúllur.


Ókei, en nú er sóknarleikurinn hjá Golden State sem sagt að verða sama bomban og varnarleikurinn. Liðið virðist alltaf vera að skora meira og meira og þó hluta af því megi tengja tempóinu sem liðið spilar á (sem er náttla ansi hátt), er hraðinn ekki allt.

Golden State er nefnilega komið í óld skúl spilamennsku núna og farið að skora yfir 120 stig leik eftir leik, svona eins og liðið gerði hjá Don Nelson í kring um 1990. Og það var ekki leiðinlegt að horfa á það lið spila körfubolta.

Nú er svo komið að Golden State er búið að vinna fimm leiki í röð og er búið að skora 120+ stig í þeim öllum. Þetta gerist ekki á hverjum degi og liðið sem afrekaði síðast að skora svona hrikalega var heldur ekkert smálið. Það var Phoenix-liðið hans Charles Barkley frá árinu 1993.




























Þetta Suns-lið vann fimm í röð í febrúar á fyrsta árinu hans Barkley með liðinu, þar sem það skoraði ekki undir 121 stigi í neinum þeirra og vann þá líka alla. Eins og þið sjáið á rándýru töflunni sem við klipptum út handa ykkur, var þetta Suns-lið þeirra Barkley, Kevin Johnson og Dan Majerle ekki í teljandi vandræðum með að skora og gerði það reyndar liða best í deildarkeppninni þennan veturinn (þó það hafi tapað fyrir Chicago í lokaúrslitunum sumarið á eftir).

Enn sjaldgæfara afrek hjá Warriors var að vinna þrjá af fjórum leikjum með 30+ stigum, en samkvæmt Íþróttastofu Elíasar hafði ekkert lið unnið svo hrikalega síðan ofurlið Los Angeles Lakers byrjaði almanaksárið 1987 með álíka látum.

Golden State er núna búið að vinna þrjá leiki í röð þar sem það hefur aldrei lent undir á neinum tímapunkti í leiknum og er alls búið að eiga tíu slíka leiki í vetur.

Það er helmingi oftar en liðin sem koma næst - Chicago, Boston og San Antonio.

Stephen Curry er líka að hóta því að slá enn eitt metið, því hann skoraði þriggja stiga körfu í 117. leiknum sínum í röð í gærkvöldi og nálgast því NBA met Kyle Korver, sem setti þrist í 127 leikjum í röð fyrir ekki löngu síðan.

Bæði Golden State og San Antonio eru að hóta því að setja met í heimasigrum í vetur. San Antonio er þegar búið að setja met yfir flesta sigra í röð á heimavelli í byrjun leiktíðar, en það hefur unnið 25 fyrstu heimaleikina sína í vetur.

Golden State er auðvitað ekki búið að tapa heima heldur, aðeins búið að spila færri heimaleiki (22-0). Warriors-liðið er hinsvegar á lengri sigurgöngu á heimavelli í heildina, því þegar það skellti Dallas í nótt sem leið, var það fertugasti sigur liðsins í röð á heimavelli - rispa sem nær nú yfir ár aftur í tímann.

Með 40. heimasigrinum í röð, jafnaði Golden State árangur Orlando Magic frá árunum 1994-96, sem er næstbesti árangur í sögu NBA. Það er Chicago Bulls frá árunum 1994-96 sem hefur unnið flesta heimaleiki í röð í sögunni - fjörutíu og fjóra.

Og er Golden State að fara að tæta það met í sig eins og öll önnur?

Það verður alveg að koma í ljós, en það gæti orðið nokkuð snúið, því andstæðingarnir í næstu fjórum heimaleikjum Warriors eru Oklahoma, Houston, Atlanta og Oklahoma aftur. Ef liðið lokar þessu, þarf það svo að vinna Orlando þann 7. mars til að hrifsa metið af Bulls.

Skiljanlega hefur metið yfir flesta sigra á tímabili verið mikið í umræðunni í ljósi þessarar frábæru byrjunar hjá Golden State í vetur. Margir veðja á að Warriors geti slegið 72 sigra met Chicago Bulls frá miðjum tíunda áratugnum.

Við ætlum ekki að spá mikið í það núna, en ef þið hafið áhuga á að velta því fyrir ykkur hvort Stephen Curry og félagar geta slegið met þjálfara síns (Steve Kerr, þjálfari Warriors, lék með Chicago-liðinu sem á metið), mælum við með því að þið fylgist vel með liðinu í febrúar. Það eru nefnilega nokkur hressandi ferðalög fram undan hjá Warriors á næstu vikum.

Saturday, January 23, 2016

Stephen Curry: Því ekki að skjóta frá miðju?


Stephen Curry spilaði alveg einstaklega Stephen Curry-legan leik í nótt þegar Golden State vann eitthvað í kring um 800. leikinn sinn á tímabilinu með því að skella Indiana á heimavelli 122-110.

Curry bauð upp á 39/10/12 dúllugang (sjöundu þrennuna á ferlinum) og átta þrista, en það var ekki nóg. Hann ákvað líka að skjóta einu sinni á körfuna frá sínum vallarhelmingi, en féll því miður á tíma við það svo karfan var ekki góð.

Þá er ekki annað en henda í aðra. Við hefðum sagt "reyna" að henda í aðra, en Steph Curry er ekki í "reyna"-bransanum frekar en Liverpool. Hann hittir bara alltaf, enda er það miklu betra þegar á heildina er litið.



Einu sinni þótti það stórmerkilegur hlutur ef leikmaður í NBA deildinni skoraði átta þriggja stiga körfur í einum og sama leiknum, en stórskotahríð Curry í vetur hefur gert það að verkum að nú þykir það álíka merkilegt og táknmálsfréttatími. Þetta var í NÍUNDA skipti í vetur sem Curry skorar átta þrista eða meira í leik, sem er NBA met og auðvitað mjög eðlilegt.

Þú veist væntanlega að tímabilið er jú hálfnað! Drengurinn ætlar í 400 þrista í vetur. Þessi geimvera.

Hann setti NBA met með 286 þristum á síðustu leiktíð en er kominn í 204 þrista í aðeins 42 leikjum á þessari leiktíð.

Ef hann heldur áfram á sama skriði út veturinn, verða tuttugu leikir eftir af tímabilinu þegar hann slær metið sitt. Sem er svoooo eðlilegt.

NBA metið yfir flestar þriggja stiga körfur í leik er í eigu Donyell Marshall (Toronto 2005) og Kobe Bryant (Lakers 2003), en þeir skoruðu tólf þrista í einum og sama leiknum (Marshall var með nítján tilraunir, Kobe átján).

Curry á best ellefu þrista í leik (eins og félagi hans Klay Thompson og nokkrir aðrir) sem hann setti niður í aðeins þrettán tilraunum þegar hann skaut New York til andskotans í febrúar árið 2013. Þar setti hann stigametið sitt með 54 stigum.

Eins og góður maður hafði orð á á Twitter í nótt, er það eiginlega með ólíkindum að Stephen Curry skuli ekki eiga NBA metið yfir flesta þrista í leik í ljósi þess að hann er gjörsamlega trylltur í langskotunum í vetur (ellefu tilraunir í leik) - og ekki bara það - heldur hittir hann vel líka (5 þristum í leik).

Það kæmi engum á óvart þó Curry færi að slá þetta met og við tippum á að þegar hann gerir það á annað borð, eigi hann eftir að setja fimmtán þrista en ekki þessa þrettán sem þarf til að slá metið.

Það eina sem mælir á móti því að Curry nái þessum áfanga er erfðaefnið í honum, því þó hann sé magnaðasta skytta í sögu NBA deildarinnar, skortir hann samviskuleysi manna eins og Kobe Bryant til að eltast við met.

Það er náttúrulega dálítið sérstakt þegar menn er farið að skorta leysi, en þið ættuð að vera farin að læra það núna að það er ekkert eðlilegt þegar Stephen Curry er annars vegar.

Heitur Curry



































Saturday, December 12, 2015

Andstæðir pólar



Stephen Curry teymir NBA deildina inn í nýja tíma


Stór hluti af byltingunni sem Stephen Curry og Warriors-liðið hans fara fyrir í NBA deildinni þessi misserin er byggður á þriggja stiga skotunum - að taka mörg, óhemju mörg - og hitta vel úr þeim.

Öll hafið þið heyrt línuna hans Charles Barkley, sem er orðin mjög fræg á meðal þeirra sem aðhyllast tölfræði fyrir lengra komna, að lið sem byggja sóknarleik sinn á stökkskotum vinni ekki titla. Þetta var kannski þannig þegar Barkley spilaði í deildinni, en það var bara ekki sama deild og við erum að horfa á í dag.

Núna vinna lið sem byggja á stökkskotum - þriggja stiga skotum - meistaratitla ár eftir ár. Við erum búin að sjá minnst þrjú slík á síðustu árum í Dallas, San Antonio og nú Golden State. Allt lið sem treystu gríðarlega mikið á þriggja stiga skotin, reyndar alveg eins og Miami gerði líka.

Við erum dálítið spurð út í þetta. Hvað sé svona sérstakt við þetta Warriors-lið og ekki síður hvað sé svona hættulegt við þetta Curry-krútt, sem er alltaf brosandi eins og engill og skokkar um völlinn í rólegheitum milli þess sem hann tekur langskotin sín mjúku. Hann lítur ekki út fyrir að vera hryðjuverkamaður í einu eða neinu, þetta rassgat.

En látið ekki blekkjast, Curry er ekkert krútt, amk ekki ef þú ert í körfuboltaliði sem þarf að mæta honum. Og hann er að fara að sprengja öll þriggja stiga met sem til eru til fjandans áður en hann hættir. Á grafinu hérna fyrir neðan sjáið þið hvað hann gjörsamlega skilur aðrar skotgoðsagnir eftir í rykinu þegar kemur að afköstum og magni.



Það myndi taka okkur einn af þessum glórulaust-löngu pistlum að útskýra það endanlega hvað Curry og Golden State eru að breyta NBA deildinni og gera hluti sem hafa aldrei sést áður, en við nennum því ekki núna, enda er það ekki tímabært. Við skrifum kannski bara bók um það nokkrum árum eftir að byltingunni lýkur.

Akkúrat núna, langar okkur að draga upp einfalda mynd af því hvernig Curry byltingin virkar með því að setja hann aðeins í samhengi við aðra þekkta leikmenn í NBA sögunni. Setja þetta í perspektíf.

Það er dálítið skondið að hugsa til þess, en þriggja stiga línan er ekki nema 35 ára gamalt fyrirbæri í NBA deildinni og það tók bæði menn og lið mörg ár að taka henni opnum örmum. Sumir þykjast meira að segja hata hana enn þann dag í dag, þó það sé auðvitað tóm vitleysa.

Það hafa alltaf verið til þriggja stiga sérfræðingar í NBA deildinni - menn sem gerðu lítið annað en að skjóta þriggja stiga skotum - og þumalputtaregla til að finna þessa menn er að renna í gegn um þátttakendur í 3ja stiga skotkeppnunum um Stjörnuhelgina. Hérna fyrir neðan sjáið þið þátttakendur í annari 3ja stiga skotkeppninni sem haldin var um Stjörnuhelgina í Seattle árið 1987.

Þið sjáið hann Larry lengst til vinstri, Detlef með mottuna við hliðina á honum, Dale Ellis þar við hliðina (sem sagar í fótinn á sér með bogasög daglega fyrir að vera ekki NBA leikmaður í dag) og hversu óheyrilega og ógeðslega kaldhæðnislegt er að sjá sjálfan þriggja stiga skota fæluna, tölfræði fyrir lengra komna hatursmanninn og afturhaldssegginn Byron Scott þarna þriðja frá hægri? Hann skammast sín eflaust gríðarlega fyrir að hafa tekið þátt í þessum vitleysisgangi á sínum tíma.



Maðurinn sem rúllaði þessari keppni upp fyrstu þrjú árin* var goðsögnin Larry Bird hjá Boston Celtics og segja má að hann hafi verið ein af fyrstu stjörnunum í NBA deildinni sem hafði 3ja stiga skotin í vopnabúri sínu, þó hann hafi meira notað það sem neyðartæki eða bakbrjót, í stað reglubundinnar leikaðferðar eins og menn gera í dag.

Næsta stjarna sem byggði leik sinn mikið á þriggja stiga skotunum var Reggie Miller hjá Indiana Pacers. Miller er einn ofmetnasti leikmaður í sögu NBA og gerði ekkert inni á vellinum annað en að skora, en það verður ekki af honum tekið að hann var fín skytta.

Fulltrúi kynslóðarinnar sem kom á eftir Miller var tvímælalaust Ray Allen sem undir lok ferils síns tók fram úr Reggie Miller og varð afkastamesta 3ja stiga skytta í sögu deildarinnar.

Allen var ekki bara betri skytta heldur en Miller, heldur skaut hann líka meira, enda var langskotið þegar hér var komið við sögu orðið miklu stærri partur af öllum sóknarleik í deildinni en hann var áður.

Allen spilaði lengst af á ferlinum með Milwaukee og Seattle, en mörg ykkar muna ef til vill meira eftir honum á síðustu árunum hans í deildinni þar sem hann spilaði alltaf fram í júní með liðum sínum Boston Celtics og síðar Miami Heat.

Þar náði hann að skilja eftir sig djúp fótspor með í sögunni með meistaratitlum og æfingum eins og þessum hérna á myndinni fyrir ofan þegar hann skaut hjartað úr San Antonio í lokaúrslitunum um árið.

Það kemur svo í hlut manna eins og Stephen Curry að taka við keflinu af Allen og enn og aftur eru þeir að skjóta meira en kynslóðin á undan. Það klikkaða við þetta er bara að hann er ekki bara að skjóta miklu meira, hann er líka að hitta miklu betur!


Eins og þið sjáið á töflunni hérna fyrir ofan (smelltu bara á hana og stækkaðu hana ef hún er svona fjandi óskýr - hvað er eiginlega að þér?) sýnir hún Curry ekki vera að taka "nema" 6,8 3ja stiga tilraunir í leik á ferlinum, en það er náttúrulega bara pínöts miðað við hvað hann er að gera í dag, þar sem hann er að taka ELLEFU þriggja stiga skot í leik.

Fyrir aðeins örfáum árum, hefði svona skotgleði verið kölluð stöppu-geðveiki - hvort sem menn hefðu verið að hitta úr þessu eða ekki. Menn bara skutu ekki svona hér áður, það hefði bara þótt dónaskapur.

En eins og við höfum farið í gegn um áður, tók það menn einfaldlega mjög langan tíma að fatta það að þriggja stiga skotin eru drullu hagkvæm skot þó þau fari ekki jafn oft ofan í og tveggja stiga skotin, af þeirri einföldu ástæðu að það fást fleiri stig fyrir að setja þau niður.

Nú er það vitaskuld ekki á færi allra liða að hitta fyrir utan, en þegar þú ert með lið eins og Warriors, sem er með fimm og sex leikmenn í sínum röðum sem skjóta vel yfir 40% fyrir utan - þá gefur augaleið að þú lætur vaða eins og fjandinn sé á hælunum á þér.


Öll þessi tölfræði fyrir lengra komna sýnir svo ekki verður um villst að öll þessi þriggja stiga skot - í höndunum á liði sem getur sett þau niður - eru að gera Golden State að einu af bestu liðum sögunnar. Og það er náttúrulega Stephen Curry sem fer fyrir öllu þessu. Það er hann sem tekur flest skotin og það er hann sem veldur mótherjum Warriors mestum kvíða.

En það er alveg sama hvað mótherjar liðsins skáta hann fram og aftur, hann finnur alltaf leiðir til að raða þristum í andlitið á þeim en spilar svo bara félaga sína uppi ef hann sjálfur fær of mikla athygli. Það er nú eitt af því sem er svo bjútífúl við drenginn - honum er fullkomlega sama um allt þetta skytterí bara ef liðið hans er að vinna. Og það er sko að vinna.

Sjáðu skotkortið hjá þessum brjálæðingi! Það er eins og lógóið hjá vinstri grænum!
























Curry og Warriors-liðið hans er fjarri því að vera eina liðið í deildinni sem tekur mikið af þriggja stiga skotum og við eigum eflaust eftir að sjá sóknarleikinn verða enn meira þristaþenkjandi áður en við förum að sjá draga úr langskotum í NBA.

Gallinn við þetta er bara að það eru ekki öll lið svo heppin að eiga bakvarðapar eins og Curry og Klay Thompson sem skjóta eins og brjálæðingar en hitta alltaf í kring um 45% úr þristunum sínum. Á meðan svo er, verður þetta Golden State skaðræði við að eiga.

------------------------------------------------------------------------------------------------

* Fræg er sagan af því þegar Bird mætti inn í klefa fyrir 3ja stiga keppnina og hreytti út úr sér svo allir hinir keppendurnir heyrðu til hans: "Jæja, hver af ykkur aumingjunum ætlar að verða í öðru sæti í þessari keppni?"



Wednesday, November 11, 2015

Saturday, November 7, 2015

Friday, October 23, 2015

Blóðbað í Breiðholtinu


Fallega gert af Natvélinni og félögum í Þór að standa undir hrósinu sem við gáfum þeim á dögunum með því að valta yfir Tindastól í Ljósabekknum í Þorlákshöfn 92-66. Þetta eru ekki beint tölurnar sem við hefðum búist við, en Þórsarar eru þarna að láta enn betur vita af sér en þeir gerðu í Vesturbænum á mánudaginn.

Ekki skemmir að téð vél hélt áfram að terrorísera í teignum og hirti 17 fráköst, þó það væri auðvitað Davíð Ágústsson sem stal senunni með þristunum sínum sjö úr átta tilraunum.

Það er okkur alltaf ánægjuefni þegar litlu liðin úti á landi eru með kjaft, þó að þessu sinni hafi ofbeldið bitnað á öðru landsbyggðarliði. Þið vitið hvað við erum að fara.

Okkur dreymir jú öllum um að hvert einasta pláss á landinu fái forskeytið "körfuboltabærinn xxx."

Annað landsbyggðarlið með leiðindi er FSu, en það náði að hræða líftóruna úr Garðbæingum í Ásgarði í kvöld. Stjarnan náði á endanum að klára leikinn 91-87 en frá bæjardyrum heimamanna sýnir þessi leikur glöggt að það eru ansi fáir leikir gefnir í þessari deild.

Ef við skoðum dæmið frá sjónarhorni austanmanna, hljóta þessi úrslit að vera alveg sérstaklega svekkjandi, því þetta er í annað skipti á viku sem liðið tapar leik þar sem úrslitin ráðast í blálokin.

Liðið kastaði þessum kannski ekki frá sér líkt og Grindavíkurleiknum um daginn, en það er sama. FSu er hér að eiga við dæmigerða nýliðakveisu - að geta ekki klárað leiki - annað hvort vegna þess að það skortir reynslu eða gæði (oft bæði).

Nú er bara að sjá úr hverju FSu-menn eru gerðir, hvort þeir láta þetta mótlæti brjóta sig niður og eyðileggja tímabilið eða hvort þeir ná að bæta sig um þessi 5% sem vantar upp á til að fara að vinna leiki. Stigin eru dýrmæt í þessu, svo mikið er víst.

Aðalleikur kvöldsins fór fram í Breiðholtinu, þar sem ÍR tók á móti Grindavík. Þetta var aðalleikur kvöldsins af þeirri einföldu ástæðu að NBA Ísland var á svæðinu, enda alltaf gott að koma í Seljaskólann.

En talandi um Seljaskólann, megum við til með að minnast á mikilvægt atriði áður en lengra er haldið.

Um árabil - já, um árabil, voru Breiðhyltingar með allt lóðrétt niður um sig þegar kom að umgjörð og aðstöðu fyrir fjölmiðlafólk. Þar bar auðvitað hæst að internetið í kofanum var aldrei í lagi - ef það var þá einhvern tímann til staðar yfir höfuð. Við öskruðum okkur hás og skrifuðum okkur í krampa yfir þessum málum aftur og aftur en það skilaði litlu.

En batnandi fólki er best að lifa. Í kvöld varð okkur á að skjótast upp í fjölmiðlastúku inn á milli leikhluta til að skoða tölfræðina og þar beið okkar nokkuð mögnuð sjón. Þá reyndust ÍR-ingarnir ekki aðeins vera með dúndurgott internet (4G), heldur var þarna aðstaða fyrir alla fjölmiðlamenn hvort sem þeir voru skrifandi eða takandi upp og svo var þarna meira að segja kaffi, gos og bakkelsi!

Nú vitum við hvað þið eruð að hugsa - ætli blaðamannastéttin sé ekki nógu fjandi feit svo körfuboltafélögin á landinu fari ekki að bera í þau bakkelsi og slikkerí! Jú, þetta er hárrétt, en okkur þykir alveg nauðsynlegt að minnast á það þegar svona vel er staðið að málum - ekki síst þar sem menn voru með allt lóðrétt áður.

Þú þarft ekkert að vera með gos og bakkelsi, þannig séð, en það lýsir bara ákveðnum standard að hugsa vel um fjölmiðlafólkið meðan á leik stendur. Það hjálpar ekki aðeins til þegar kemur að umfjöllun, heldur er það líka augljóst merki um metnað og fagmennsku.

KR-ingar hafa verið í algjörum sérflokki þegar kemur að þessu atriði undanfarinn áratug. Við vitum alveg að KR er stór klúbbur og á því auðveldara með svona trakteríngar en önnur félög, en eins og áður sagði er þetta allt spurning um metnað félaganna. Það geta allir boðið upp á góða alhliða umgjörð ef viljinn er fyrir hendi - líka litlu klúbbarnir.

En vindum okkur að leiknum. Þeir eru eflaust fáir sem eru sammála okkur, en okkur þótti leikur ÍR og Grindavíkur alveg ógeðslega skemmtilegur.

Eins og þið vitið líklega, vann Grindavík miklu öruggari sigur en lokatölurnar 79-94 segja til um, þetta var blástur frá upphafi og langleiðina til enda. ÍR lenti sannarlega í grændernum í kvöld.

Monday, May 4, 2015

Frá Kerr til Curry



Við erum alltaf að pæla í því annað slagið hvernig það hefði verið ef gömlu hetjurnar í NBA deildinni væru að spila í dag, sérstaklega skytturnar. Við minntumst á það hér fyrir ekki svo löngu að menn eins og Drazen Petrovic heitinn hefðu heldur betur blómstrað í NBA í dag, þar sem allir leikmenn eru með græna ljósið á að skjóta nær ótakmarkað fyrir utan. Menn eins og Drazen hefðu ekki látið sér nægja að skjóta boltanum - hann hefði sett hann ofan í líka.

Annað slagið rekumst við á sögur, staðreyndir eða statt sem fá okkur til að horfa um öxl. Dæmi um slíkt gerðist í kvöld þegar það lak út að Stephen Curry yrði kjörinn MVP í NBA í ár, sem kemur ekkert á óvart. Einn liðurinn í því sem gerir Curry svona góðan er náttúrulega þriggja stiga skotin hans, en hann bætti metið yfir flesta þrista á tímabili um daginn (gamla metið setti hann sjálfur árið áður).

Þá varð okkur hugsað til þjálfarans hans Stephen Curry, Steve Kerr. Þeir sem muna eftir seinni titlaþrennu Chicago Bulls frá 1996 til 1998 muna sannarlega eftir Kerr - gjarnan galopnum í horninu að taka skot eftir að Michael Jordan var þrídekkaður. Kerr lét ekki þar við sitja og flutti sig um set til San Antonio þegar Jordan hætti árið 1998.

Það var kannski ekki sami glans á Spurs og hafði verið á Bulls, en liðið vann nú samt meistaratitilinn á verkbannsárinu ömurlega árið 1999 og því vann Kerr meistaratitilinn fjórum sinnum í röð, sem er einstakt. Hann bætti meira að segja einum titli við með Spurs á lokaárinu sínu í deildinni árið 2003.

En þá að því sem við vorum að hugsa um. Steve Kerr var alltaf þekktur sem rosaleg þriggja stiga skytta og það var svo sem engin furða, hann er jú með bestu þriggja stiga nýtingu í sögu deildarinnar.



Það var hinsvegar sama hversu góðar skyttur menn voru, liðin í deildinni trúðu því ekki að það gæti verið gáfulegt að taka fleiri þriggja stiga skot undir ákveðnum kringumstæðum - sumir þjálfarar trúa því reyndar ekki enn (t.d. Byron Scott).

Í dag þykir hinsvegar ákaflega sniðugt að taka þriggja stiga skot og það ekki síst ef þú ert með eina bestu þriggja stiga skyttu allra tíma í liðinu þínu, mann eins og Stephen Curry.

Það magnaðasta við Curry er í raun og veru ekki nýtingin hans, þó hún sé frábær og dugi honum í þriðja sæti listans. Nei, það klikkaðasta er nýtingin hans miðað við það óguðlega magn af langskotum sem hann tekur.

Þetta er helsti munurinn á Curry og Kerr. Á meðan Steve Kerr var fyrst og fremst maður sem beið í hornunum og setti niður opin skot sem hann tók úr kyrrstöðu, hefur Curry komið með nýja vídd inn í þetta með því að skjóta á fullri ferð upp völlinn, sem gerir það að verkum að varnir fá taugaáfall um leið og hann kemur yfir miðju.

En hvað er Curry þá að skjóta mikið meira en Kerr? Fljótlegasta leiðin er að útskýra það með eftirfarand dæmi. Steve Kerr skoraði 726 þriggja stiga körfur á ferlinum í NBA sem spannaði hvorki meira né minna en fimmtán ár.

Curry er búinn að skora 819 þrista á síðustu þremur tímabilum.

Mætti halda að væru breytingar í gangi.