Showing posts with label Örlög. Show all posts
Showing posts with label Örlög. Show all posts
Monday, May 4, 2015
Áhrif meiðslaplágunnar á úrslitakeppnina í NBA
Það var kominn tími á að einhver settist niður og tæki saman lista yfir öll meiðslin sem eru í gangi í NBA deildinni. Við nennum því að sjálfssögðu ekki, en það þýðir ekki að við getum ekki komið leikmanninum í skilning um hvað þetta er alvarlegt mál.
Skiptar skoðanir eru á því hvaða lið geti talist góð eða léleg, sumir nota úrslitakeppnina til að finna einhverja línu til að vinna með í því sambandi. Við förum ekki í slíkan formalisma. Við förum eftir eðlisávísun - og samkvæmt henni eru þrettán lið í NBA deildinni sem skipta einhverju máli, eru relevant og sæmilega sterk. Lausleg talning okkar leiddi í ljós að það eru eitthvað í kring um 25 leikmenn meiddir í þessum þrettán liðum, sem þýðir tveir menn á hvert lið og það er alveg helvíti eðlilegt bara.
Meiðsli eru afar flókið fyrirbæri og því best að skilgreina það áður en við höldum áfram. Meiddur leikmaður - í okkar bókum - getur verið að glíma við nokkrar tegundir af meiðslum eða verið á misjöfnum stöðum í meiðslaferlinu.
Verstu meiðslin eru auðvitað "sjáumst kannski næsta vetur" eins og fótbrotið hans Paul George hjá Indiana í fyrra og hásinarslit Kobe Bryant og Wesley Matthews hjá Portland. Við erum ekki að bera saman fótbrot og hásinarslit, aðeins að sýna ykkur hvernig meiðsli fara í þyngsta og versta flokkinn. Nokkrir leikmenn í NBA eru að díla við vona erfið meiðsli, en þeir eru sem betur fer ekki mjög margir.
Næsti flokkur fyrir neðan eru meiðsli sem tekur nokkra mánuði að laga. Slík meiðsli eru að hrella nokkuð marga leikmenn í NBA deildinni og það að þurfa í uppskurð og tveggja eða þriggja mánaða endurhæfingu þýðir náttúrulega að þú sért úr leik á tímabilinu ef meiðslin koma t.d. eftir Stjörnuleik.
Næsta þrep er menn sem eru að spila meiddir. Allir leikmenn í NBA eru að drepast í skrokknum á lágmark þremur stöðum öllum stundum. Hér erum við tala um menn eins og Kyle Lowry hjá Toronto sem var augljóslega meiddur og spilaði hræðilega í einvíginu við Wiz, Tony Parker hjá Spurs sem var að glíma við sautján mismunandi krankleika og Paul Millsap hjá Atlanta, sem er augljóslega ekki alveg í lagi vegna axlarmeiðslunum sem hann varð fyrir korter í úrslitakeppni (auðvitað).
Síðasta tegundin er svo menn sem eru að koma til baka eftir stutt- eða langvarandi meiðsli en eiga langt í land með úthald, leikæfingu og almennan riðþma fyrir leiknum. Dæmi um þetta eru menn eins og Tiago Splitter hjá San Antonio og okkur liggur við að segja að Derrick Rose sé búin að vera í svona ferli mánuðum saman, aftur og aftur.
Jæja, þá vitið þið hvað við eigum við þegar við tölum um meiðsli og hvað þau þýða fyrir klúbbana. Þetta er ekki skemmtileg upptalning eða upplífgandi en kannski verður það eins og að skila skattframtali eða koma heim frá tannlækninum þegar þetta er afstaðið - fyrst og fremst léttir.
Eins og við tókum fram í byrjun, nennum við ekki að skrifa skýrslu um hvern einasta leikmann sem er meiddur, það er líka ákaflega niðurdrepandi verkefni. Þess í stað ákváðum við að grípa í grafíkina og bjóða upp á eitthvað sem er örugglega með dýrari og betri Photoshop-vinnu sem þú hefur séð. Þurfum við eitthvað að ræða plástrana á efstu myndinni? Slakaðu bara á og njóttu augnabliksins meðan þú horfir á þessa dýrð.
Við settum inn stöðutöfluna í austri og vestri með tíu efstu liðunum. Ef er merki á eftir nafninu á liðinu þínu, þá er það relevant - að gera eitthvað. Ekkert merki þýðir eiginlega nákvæmlega það - ekkert - þetta eru lið sem fara frá því að vera lélegt drasl og upp í bleh. Þið takið eftir því að við setjum Washington í bleh-flokkinn og það er af því þetta lið er ekki búið að gera neitt. Það getur vel verið að það geri eitthvað í úrslitakeppninni núna, en það kemur þessu tiltekna máli ekkert við.
Efnisflokkar:
Bölvanir og blökku-galdur
,
Dreptu okkur ekki
,
Furður veraldar
,
Meiðsli
,
Örlög
,
Realtalk
,
Warriors
,
Þett´ er búið!
,
Þunlyndi
,
ÞvinguðHasstögg
Wednesday, April 16, 2014
Meiðsli Bogut gætu eyðilagt áform Warriors
Þú ferð út á lífið og hittir föngulega dömu. Ferð með henni heim og leikar taka að æsast. Þið látið vel að hvort öðru og ákveðið að færa aksjónið inn í svefnherbergi. Svo þegar þú klæðir hana úr buxunum... kemur í ljós að hún er með bleyju. Þú nuddar augun og athugar hvort þig er að dreyma, en hjá þessu verður ekki komist. Hún er með bleyju, hvort sem þér líkar betur eða verr.
Svona líður stuðningsmönnum Golden State Warriors eftir að þeir fréttu að Andrew Bogut væri rifbeinsbrotinn og ætti því eftir að missa af úrslitakeppninni.

En þá gerist þetta.
Svona er þetta alltaf hjá Golden State og svona hefur þetta raunar alltaf verið hjá Andrew Bogut, hvers heilsufar hefur verið kraftaverk síðustu mánuði miðað við vesenið á honum undanfarin ár.
Í fyrra var það David Lee sem meiddist í úrslitakeppninni og gat lítið beitt sér eftir það. Stephen Curry var líka meiddur þá og er eiginlega alltaf meiddur, því ökklarnir á honum eru ónýtir.
Curry var þó búinn að halda sæmilegri heilsu í vetur eins og Bogut, en nú er sú heilsa úr sögunni eins og hún verður fljótlega hjá keppendunum í þættinum Feitasti einstaklingurinn sem missir fáránlega mikla þyngd á skömmum tíma í sjónvarpi, en dettur svo strax aftur í það og verður feitur aftur af því að fólk sem er svona feitt á oftast við andlegan sjúkdóm að stríða sem kemur grænmeti og hlaupabrettum óskaplega lítið við - sem verið hefur á dagskrá í íslensku sjónvarpi undanfarið.

Það er kannski of mikil bölsýni að ætla að dæma Warriors úr leik í úrslitakeppninni bara af því það missir einn mann í meiðsli, en staðreyndin er bara sú að þessi maður er mikilvægasti leikmaður liðsins í varnarleiknum, með fullri virðingu fyrir frábærum varnarmanni eins og Andre Iguodala.
Það sem gerir þetta enn verra, er að maðurinn sem ætti með öllu að koma inn í stað Bogut og var meira að segja í byrjunarliði Warriors í helmingi leikja liðsins á síðustu leiktíð, Festus Ezeli, er líka meiddur. Hann er reyndar byrjaður að æfa eftir að hafa verið úr leik í allan vetur, en hann á ekki eftir að gera mikið í úrslitakeppninni ef hann kemur þá yfir höfuð við sögu.
Við erum því að tala um að Golden State sé að fara inn í úrslitakeppnina með Jermaine O´Neal sem eina miðherjann sem Mark Jackson treystir þokkalega. Það væru ágætar fréttir af við værum stödd á árinu 2004, en eins og þið vitið er 2014 núna og það boðar ekki gott þegar haft er í huga að O´Neal var búinn á því strax árið 2009, þegar hann gerði sig bókstaflega að fífli í úrslitakeppninni fyrir framan augun á okkur.
Það stefnir í að mótherji Golden State í úrslitakeppninni verði LA Clippers og ljóst að miðherjalaust Warriors-liðið getur ekki nýtt sér einn af veikleikum Clippers-liðsins sem er skortur á sentimetrum og kjöti í teignum.

Bogut hefur reyndar alltaf verið með í myndinni í þessari fantasíu. David Lee hefur verið málaður út úr henni, sérstaklega eftir úrslitakeppnina í fyrra, en Bogut er alltaf inni.
En nú er hann ekkert inni.
Við gætum kannski trúað því upp á LA Clippers að drulla á sig ef Vinnie del Negro væri enn að þjálfa liðið, en hann er blessunarlega farinn og Doc Rivers er tekinn við af honum.

Undir stjórn Rivers hefur Clippers-liðið bætt sig talsvert þrátt fyrir meiðslavesen og því hefði eflaust verið lítil ástæða til að tippa á Warriors í einvígi liðanna, jafnvel þó Bogut hefði verið inni í myndinni.
Því miður fyrir Warriors, sjáum við því fyrir okkur að öfugt við í fyrra, þegar liðið var heppið með andstæðing og sló Denver út í fyrstu umferð, verði enginn Öskubuskuandi svífandi yfir vötnum í Oakland þetta árið.
Mark Jackson á eftir að predika mikið og við eigum alveg bókað eftir að fá heimsklassadrama í leikjum Golden State í úrslitakeppninni.
Það er hinsvegar spurning hvort Jackson gæti þurft að leita annað með predikanir sínar á næsta tímabili ef illa fer hjá Warriors. Það væri líklega ósanngjarnt í ljósi mótlætisins, en í NBA deildinni snýst þetta um að éta eða verða étinn, hvort sem menn eru andlegir á því eður ei.
* - Við mælum sérstaklega með viðtalinu við George Karl í samantektinni um fyrstu umferðina í úrslitakeppnina í fyrra sem er að finna þegar smellt er á tengilinn. Það er auðvitað eðlilegt.
Efnisflokkar:
99 vandamál
,
Andrew Bogut
,
Clippers
,
Mark Jackson
,
Meiðsli
,
Örlög
,
Raunir hvíta mannsins
,
Warriors
Monday, June 17, 2013
Þetta gat aðeins farið á einn veg
Auðvitað var pistillinn sem við skrifuðum í gær ekkert annað en vandlega staðsettur þráður í vef örlaganna. San Antonio átti ekki möguleika í fimmta leiknum nema við tækjum okkur til og reverse-jinxuðum x-faktórinn í einvíginu til andskotans.

Við urðum að gæta þess að tilætlanir okkar væru ekki of augljósar og því varð pistillinn að vera sannfærandi. Við urðum að keyra Manu Ginobili í kaf til að gefa örlögunum start og það tókst - með látum.
Við meintum hvert orð sem við sögðum í pistlinum í gær og stöndum við það. Ginobili er ekki sami maður og hann var.
Góður lesandi orðaði það best þegar hann sagði að Manu gæti í besta falli haft áhrif á einstaka leik, en ekki heilu einvígin eins og hann gat áður.
Einhver varð að kasta grjóti í örlögin og við tókum þetta á okkur til að fá sem flesta leiki í einvígið. San Antonio þurfti á hjálp að halda - og þá sérstaklega argentínski vinur okkar.

Rödd Charles Barkley ómar í höfðinu á okkur:
"GINOBILIIIIIIIIIII!!!"
Þið megið hlæja að okkur alveg fram á næsta tímabil. Okkur er sama. Þetta dásamlega úrslitaeinvígi verður langt og skemmtilegt og Manu lifir - í versta falli í nokkra daga í viðbót.
Við höfum aldrei gefið okkur úr fyrir að hafa vit á körfubolta, en við getum jinxað hitabylgju yfir Norðurpólinn ef við vöndum okkur.
Og vakið körfuboltamenn upp frá dauðum, greinilega.
En Manu okkar á ekki allan heiðurinn.

Þrátt fyrir að San Antonio hafi á köflum leikið frábæran bolta í fimmta leiknum í nótt, var með ólíkindum hvað Miami var fljótt að keyra inn í leikinn aftur með snörpum áhlaupum sem komu oftast algjörlega upp úr þurru.
Leikmenn Spurs gerðu sig hvað eftir annað seka um einbeitingarleysi og klaufamistök og það er bara dauðasök á móti sterku liði eins og Miami.
Þú tekur tvö illa ígrunduð skot og missir tvo bolta - og allt í einu er Miami búið að taka 11-0 sprett á þig á rúmri mínútu. Það er með ólíkindum.
Þegar þetta er ritað er eflaust verið að lyfjaprófa Danny Green hjá San Antonio. Það nær ekki nokkurri átt hvað drengurinn er að hitta vel.
Green er búinn að skora 90 stig í lokaúrslitunum og skora 25 þrista, en það er meira en hann gerði
í deildakeppninni samanlagt bæði 2010 og 2011.
Hann nýtir 66% þrista sinna í lokaúrslitunum og er búinn að slá met Ray Allen yfir flesta skoraða þrista á stóra sviðinu.
Tony Parker gerði líka sitt þó hann væri augljóslega ekki á fullu gasi. Segir sína sögu um það hvað hann er góður og hvað við leggjum mikið á herðar hans að hann skuli skila 24 stigum (10-14 í skotum) á felgunni vegna meiðsla í læri.

Við fengum samt ekki þessa ofurframmistöðu frá Sólstrandargæjunum og við fengum í leik fjögur.
Okkur grunaði það svo sem, en það var ekki mikið út á frammistöðu þeirra að setja. Stjörnurnar voru að hver um sig að skila ágætisleikjum heilt yfir.
Enn eina ferðina hefur orðið viðsnúningur í þessu einvígi. Enn og aftur er San Antonio komið yfir eftir að hafa verið komið langt undir á stigum og útlitið verið farið að dökkna.
Það lítur ekkert illa út fyrir svona rútínerað lið eins og San Antonio að þurfa bara að vinna einn af næstu tveimur leikjum sínum til að landa titlinum enn eina ferðina - jafnvel þó það þurfi að gerast á útivelli.

En Miami á að sjálfsögðu eftir að líða betur á heimavelli sínum og þið vitið hvað gerist alltaf þegar Miami tapar - það kemur öskrandi í næsta leik.
Ef næsti leikur verður þannig eitthvað í takt við annað í þessu einvígi, vinnur Miami auðveldan stórsigur í næsta leik og við fáum hreinan úrslitaleik á fimmtudaginn.
Það yrði nú ekki leiðinlegt.
Við skulum samt ekki fara fram úr okkur. Draumar okkar allra sem erum hlutlaus í þessu rættust með sigri Manu og félaga í nótt. Fjörið heldur áfram og við eigum dásamlega leiki í vændum, jafnvel þó hlegið verði að sumum okkar - gangandi um með ullarsokka í kjaftinum.
Það er ekki nema ánægjulegur fórnkostnaður fyrir svona veislu. Amen.
Efnisflokkar:
Andlitsmeðferð
,
Digranes
,
Dramatík
,
Heat
,
Jinx
,
Lokaúrslit
,
Manu Ginobili
,
Nostradamus
,
Örlög
,
Spurs
,
Úrslitakeppni 2013
Subscribe to:
Posts (Atom)