Showing posts with label Nets. Show all posts
Showing posts with label Nets. Show all posts

Sunday, April 26, 2015

Vörutalning 25/4


Látum okkur sjá...

Í haust reiknuðum við með því að úrslitakeppnin yrði svo jöfn að hún ætti eftir að koma okkur í gröfina. Annað hefur að sjálfssögðu komið á daginn og það er mjög langt síðan fyrsta umferðin hefur verið eins "ójöfn" og raun ber vitni. Það er mjög sérstakt að sex af átta rimmum þar hafi byrjað 3-0, raunar munum við ekki eftir svona löguðu. Það gerðist síðast fyrir tólf árum að fimm einvígi byrjuðu 3-0.

Liðin þrjú í austrinu sem komust í 3-0 gerðu það af því mótherjinn getur ekki neitt. Golden State lokaði New Orleans 4-0,  ekki af því að Brúnar og þeir væru lélegir, heldur af því Golden State er svo sterkt lið.

Svo eru Memphis og Houston komin í 3-0 af margvíslegum ástæðum, einna helst meiðslum.

Það er augljóst að fyrsta umferðin í ár er áberandi slappari en hún hefur verið á síðustu árum. Það er rauntal. En það er samt ósanngjarnt að bera hana saman við fyrstu umferðina í fyrra, sem var ein sú besta sem við höfum séð - ef ekki sú besta.

Það er svo fáránlegt hvað er stutt síðan við spáðum því að úrslitakeppnin í vestrinu í vor yrði ein sú besta (sterkasta) í sögunni, en eins og þið hafið séð fer lítið fyrir því. Það er ekki nema ein dúndur sería í gangi og það er sorglegt.

En nú skulum við hætta þessum helvítis barlómi og henda niður á blað því helsta sem er að frétta úr stríðinu:

Eins og við sögðum ykkur fyrir skömmu, er viðureign LA Clippers og San Antonio að bjarga þessari úrslitakeppni. Fyrstu tveir leikirnir í LA voru rafmagnaðir en San Antonio tók sig reyndar til og slátraði Clippers í þriðja leiknum.

Það er því enginn vafi á því að allur meðbyr í einvíginu er í seglum San Antonio þessa stundina, en slæmu fréttirnar fyrir LA Clippers í því sambandi eru að Texasliðið á helling inni í sóknarleiknum.

Munar þar mestu um Tony Parker, sem vegna margvíslegra meiðsla hefur ekki gert annað en skemma fyrir liðinu með framlagi eins og 25% skotnýtingu.

Lélegur leikur Parker og takmarkað leikform Tiago Splitter hefur hinsvegar ekki komið að sök enn sem komið er í einvíginu og það er nýjustu stórstjörnu NBA deildarinnar að þakka. Kawhi Leonard er gjörsamlega búinn að fara hamförum hjá Spurs og tekur á sig stærra hlutverk með hverjum leiknum sem líður. Hann er í alvöru að verða skerí-góður eins og það er kallað. Aumingja Clippers að þurfa að díla við þetta apparat.

Clippers syngur sama lag og áður. Byrjunarliðið hjá þeim er frábært og hangir oftast í Spurs, en um leið og þeir þurfa að hvíla, fer allt til andskotans í hvelli. Þeim þjálfara-Doc Rivers og framkvæmdastjóra-Doc kemur alveg örugglega illa saman.












Thursday, July 10, 2014

Kirilenko opnar Barmabúllu í Moskvu


Í vor spurðist það út að rússneski framherjinn Andrei Kirilenko hjá Nets ætlaði sér að opna Hooters-stað í Moskvu. Hooters (ísl. Barmabúllan) er amerísk veitingahúsakeðja sem lokkar til sín karlkyns viðskiptavini með því að ráða mestmegnis huggulegar og léttklæddar stúlkur til þjónustustarfa.

Nú, Kirilenko lét verkin tala og hérna fyrir neðan má sjá afraksturinn. Þetta lítur ágætlega út hjá honum. Hann er kannski með ljótari hárgreiðslu en Gerry Francis, en ætli við verðum ekki að fara að tala um AK-47 sem athafnamann framvegis.


Friday, December 6, 2013

Fyrsta lestarferð Charles Barkley


Charles Barkley var svo óheppinn að vera á vakt á TNT sjónvarpsstöðinni í gærkvöld þegar hún sýndi beint frá leik Brooklyn og New York. Eins og flestir sem þetta lesa vita, hefur ekki verið mikill glans yfir leik New York-liðanna tveggja í haust og auðvitað stóð ekki á pillunum frá Charles Barkley:

"Ég skildi eftir tvo boðsmiða á leikinn á hótelinu mínu í gærkvöldi, en þegar ég kom niður í lobbí í morgun voru sex miðar á borðinu," sagði spéfuglinn.

Barkley er auðvitað annálaður sveitamaður og af því leikurinn var svo hundleiðinlegur, ákvað framherjinn íturvaxni að prófa eitthvað nýtt og skellti sér í sína fyrstu neðanjarðarlestarferð. Það er hægt að búa til sjónvarp um nánast hvað sem þessi snillingur tekur sér fyrir hendur.




Sunday, November 24, 2013

Thursday, November 21, 2013

Rotið Epli


Hér sjáum við morðvopnið á bak við enn eitt tapið hjá New York Knicks á heimavelli. Liðið var með leikinn við Indiana gjörsamlega í höndum sér þegar Iman Shumpert ákvað að brjóta á Paul George í þriggja stiga skoti og gefa honum tækifæri til að jafna og senda leikinn í framlengingu.

Auðvitað vann Indiana aukaleikhlutann og svínað Knicks í 3-8, þar af 1-6 á heimavelli. Þetta lítur ekkert rosalega vel út hjá liðunum tveimur í Stóra Eplinu þessa dagana.

Vissulega setja meiðsli strik í reikninginn bæði hjá Knicks og Nets (líka 3-8), en það verður bara að setjast eins og er að grannarnir eru báðir gjörsamlega að drulla á sig. Aðeins Milwaukee (2-8) hefur gert betur í buxurnar í Austurdeildinni það sem af er leiktíðinni.

Við vitum að skammtastærðin er enn lítil, en ef úrslitakeppnin hæfist í dag, myndu tvö lið með innan við 40% vinninshlutfall fara í hana í Austurdeildinni. Þar af lið með 36% vinningshlutfall (Detroit). Alltaf sömu risarnir þarna austanmegin.

Monday, November 11, 2013

Bankinn er alltaf opinn í Brooklyn


Launaþakið margfræga í NBA deildinni er í ár eitthvað um 7,2 milljarðar króna. Lágmarks launagreiðslur (90% af launaþakinu) sem félögin í deildinni þurfa að greiða leikmönnum sínum eru 6,5 milljarðar. Já, þú verður að eyða ákveðið miklum peningum ef þú ætlar að reka félag í NBA.

Lúxusskatturinn svokallaði byrjar að telja í 8,8 milljörðum og frá og með síðustu kjarasamningum sem gerðir voru í verkbanninu hræðilega, eru nú sektir fyrir að fara yfir launaþakið orðnar stjarnfræðilegar. Félögin þurfa þannig að borga 1,5 dollara á móti hverjum dollara ef þau fara 0-5 milljónum yfir markið og glæpsamlega 2,5 dollara á móti hverjum dollara ef farið er 10-15 milljónum yfir þakið.

Þannig gengur þetta koll af kolli, talan hækkar um 0,5 við hverjar 5 milljónir dollara sem farið er yfir markið. Það eru því varla takmörk fyrir því hvað hægt er að skattpína stórhuga félög á borð við Nets. Samkvæmt kjarasamningum, skiptast upphæðirnar sem Mikhail Prokhorov eigandi borgar í lúxusskatt á hin félögin í deildinni. Þessu kerfi er ætlað að koma á fjármálajöfnuði í deildinni, hvernig svo sem það gengur.



Brooklyn er að borga 12,4 milljarða króna í laun ef skatturinn er ekki talinn með og það er svo magnað að þú þarft ekki að taka saman nema laun byrjunarliðsins til að sprengja launaþakið í tætlur. Deron Williams, Joe Johnson, Paul Pierce, Kevin Garnett og Brook Lopez eru samanlagt með 10 milljarða í laun í vetur.

Brooklyn er að borga tæpa 10 milljarða bara í lúxusskatt í ár, sem er það langhæsta sem félag hefur þurft að reiða fram í sögu NBA.

Gamla metið átti Portland, sem pungaði út rúmum sex milljörðum í lúxusskattinn árið 2003 eftir að hafa gert nokkuð heiðarlega tilraun til að byggja upp meistaralið.

Þessir 10 milljarðar sem fara sérstaklega í skattinn hjá Nets eru hærri upphæð en 26 af liðunum 30 í NBA deildinni greiða í heildarlaun, sem er auðvitað alveg þræleðlilegt...

Prokhorov er í heildina að borga yfir 22 milljarða króna í laun í vetur, en hann hefur svo sem efni á því. Forbes metur eignir auðmannsins rússneska á yfir 1600 milljarða króna.

Hann fer því létt með að borga þessi svimandi háu laun - og á meira að segja afgang til að kaupa sér Stiga-sleða og Snickers ef sá gállinn er á honum.



Saturday, June 29, 2013

Prokhorov bruðlar í Brooklyn:


Þetta er ekki dónalegt byrjunarlið á pappírunum.

Rússinn Mikhail Prokhorov var ekkert að grínast þegar hann keypti Nets árið 2010. Margir hlógu þegar hann sagðist ætla að vinna titil innan fimm ára og það getur vel verið að þeir brosi enn, en þeir eru hættir að hlæja.

Prokhorov er bókstaflega að taka Manchester City-pakkann á þetta og er skítsama um þær óhugnalegu peningaupphæðir sem hann kemur til með að þurfa að greiða í lúxusskatt á næstu árum. Þið vitið að við erum reyndar ekkert rosalega mikið fyrir að velta okkur upp úr peningamálum leikmanna í NBA deildinni - nema þeir séu ekki að vinna fyrir þeim.

Nei, við erum meira fyrir að skoða hvað gerist inni á körfuboltavellinum sjálfum.

Fyrir Boston þýða þessi skipti einfaldlega að það á að fara að byggja allt upp á nýtt og nú er liðið með hvorki meira né minna en sex valrétti í fyrstu umferð nýliðavalsins næstu þrjú ár. Með smá klókindum ætti að fást eitthvað gott fyrir það.

Eina spurningin sem er ósvarað hjá Celtics er hvort Rajon Rondo verður látinn fara líka, en þó hann sé reyndar meiddur enn þá, er hann á fínum samningi og engin ástæða til að hræra í því.

Það er Brooklyn sem er í sviðsljósinu eftir þessi skipti og þó félagið hafi í rauninni haft afar lítið svigrúm til að stokka upp hjá sér, verðum við líklega að taka ofan fyrir forráðamönnum klúbbsins fyrir að prófa þetta djarfa útspil.

Margir vilja gera breytingar bara til að gera breytingar - og óþolinmóðir eigendur sem eru grilljarðamæringar eru sannarlega engin undantekning þar á.

Það er hinsvegar fullkomlega rökrétt að stokka aðeins upp í þessu hjá Nets að okkar mati, því þó liðið hafi bætt sig í deildakeppninni á milli ára, var frammistaða þess óásættanleg í úrslitakeppninni.

Nú er svo komið að Nets hefur losað sig við fáránlegan samninga þeirra Gerald Wallace og Kris Humphries og einnig losað sig við tvo leikmenn sem spiluðu undir væntingum á síðustu leiktíð. Það er í sjálfu sér mjög vel gert, en auðvitað koma himinháir samningar inn í staðinn.

Mestu munar þarna um Paul Pierce sem þénar 17 milljónir dollara næta vetur en þeir Kevin Garnett og Jason Terry eru svo sem ekkert að vinna kauplaust heldur.

En þá er bara stóra spurningin eftir: Verður Brooklyn-liðið betra eftir þessi skipti?

Stutta svarið er já, en hversu mikið betra eigum við alveg eftir að sjá.

 Ef marka má úrslitakeppnina í vor, er ekkert rosalega mikið eftir á tanknum hjá þeim Garnett og Pierce og Jason Terry fékk hvað eftir annað að koma inn á hjá Boston þó hann væri látinn.

Þeir KG og Pierce verða 37 og 36 ára gamlir þegar leiktíðin hefst í haust og eru því augljóslega löngu komnir af léttasta skeiði. Spurningin er bara hversu vel þeir ná að mótívera sig í vetur.

Þeir hljóta að geta keyrt sig upp á því að Boston hafi dissað þá og ekki kært sig um starfskrafta þeirra. Það má vel vera að þeir félagar hafi verið sprækari, en þeir geta samt kennt sekkjunum hjá Nets eitt og annað .

Til dæmis koma þeir með leiðtogahæfileika, drápseðli og dugnað inn í dæmið - og ef allt gengur upp - kenna þeir þessum skussum kannski að vinna körfuboltaleiki.

Keppnin í Austurdeildinni verður væntanlega mun harðari næsta vetur en hún var í ár.

Miami-skrímslið verður á sínum stað, unglingarnir hjá Indiana verða bara betri og endurheimta Danny Granger (eða fá einhvern í hans stað) og endurkoma Derrick Rose lyftir Chicago úr meðalmennskunni í keppnina á toppnum.

Það er því ljóst að Brooklyn-liðið þarf að slípast vel saman og halda heilsu í vetur ef það á að ná sér í góða stöðu fyrir úrslitakeppnina. Svo má auðvitað ekki gleyma því að þjálfari liðsins hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera, af því hann hefur aldrei þjálfað áður.

Jason Kidd er klár strákur og er með góða aðstoðarmenn, en það verður sannarlega forvitnilegt að sjá hvernig honum tekst að ná sambandi við jafnaldra sína frá Boston. Ráðning Kidd var stórfurðuleg, en það getur vel verið að þessi áhætta borgi sig líkt og var með Mark Jackson hjá Warriors.

En svo er hinn möguleikinn. Að þetta springi allt í andlitið á þeim. Það þarf nú ekkert að pína Deron Williams í að láta reka þjálfarana sína eins og þið vitið - hann er þegar með þrjú nöfn á samviskunni þessi fitubolla.

Svo er það stór spurning í okkar huga hvernig kemistríið á eftir að verða í þessu liði. Þarna er hellingur af egói, reynslu og skoðunum - stýrt af manni sem hefur enga reynslu af þjálfun.

Hmmm.

Brooklyn er sem fyrr að reyna að hlaða í titil strax, verkefni sem er nær ómögulegt nema vera með hárréttan mannskap, þjálfara og fullt af heppni. Segðu hvað sem þú vilt um þessa kostnaðarsömu aðferðafræði Prokhorov, það verður ekki tekið af honum að hann hefur að minnsta kosti kjark til að reyna að gera eitthvað og setur um leið smá púður í þetta karlinn.

Wednesday, May 8, 2013

Þetta gerðist í 1. umferð - Austurdeild


Fyrsta umferðin í úrslitakeppni NBA árið 2013 er löngu afstaðin og því er allt of seint að skrifa um hana núna.

Við ætlum nú samt að gera það.

Við lofuðum því um helgina og er það líklega orðin stærsta skita í sögu þessarar síðu.

Hvað sem því líður er fullt af fólki þarna úti sem botnar hvorki upp né niður í því hvað gerðist í fyrstu umferðinni fyrr en það les um það á NBA Ísland og þessu fólki má ekki bregðast. Við höfum líka margt að segja eftir fyrstu umferðina.

Nokkur einvígi í fyrstu umferðinni voru drasl og því algjörlega óþarft að eyða í þau orðum. Önnur voru hinsvegar bæði betri og dramatískari - sum nóg til að láta reka þjálfara. Þessa hluti þarf að skoða.


Ef við byrjum í Austurdeildinni, var þar fátt um fína drætti eins og búast mátti við, jafnvel þó lið eins og Boston hafi hleypt smá lífi í þetta á kafla. Miami hraunaði yfir Milwaukee eins og það átti að gera og öllum var skítsama um Indiana-Atlanta.

New York virtist ætla að rótbursta Boston, en þá fóru leikmenn Knicks að sýna okkur hluta af ástæðunni fyrir því að þetta lið er ekki að fara að gera neitt í úrslitakeppninni.

Fyrir það fyrsta létu nokkrir af hnúahausunum hjá Knicks það fréttast að þeir ætluðu að "jarða Celtics" með táknrænum hætti fyrir/eftir fjórða leikinn. Þetta hleypti auðvitað lífi í gömlu hræin hjá Celtics, sem náðu að vinna tvo leiki til viðbótar og hræða líftóruna úr Knicks í sjötta leiknum.

Fyrir utan þennan vanþroska, er New York hætt að hitta úr þriggja stiga skotum (eins og við óttuðumst að mundi gerast þegar kæmi í úrslitakeppnina), hætt að spila eins og það lék best í deildakeppninni (boltahreyfing) og tveir af þremur lykilmönnum liðsins í sóknarleiknum spila eins og fífl og geta ekki neitt (hér er átt við Carmelo Anthony og J.R. Smith - Raymond Felton hefur verið besti maður Knicks í úrslitakeppninni - og verði þeim að góðu sem kusu Anthony í þriðja sætið í MVP kjörinu í vetur).

Við gætum tekið ofan fyrir Celtics fyrir að ná að kreista út tvo sigra gegn Knicks, en við ætlum ekki að gera það. Lykilmenn liðsins vita að það er ekki nógu gott, sama hvort Rondo var með eða ekki. Ef Boston hefði getað EITTHVAÐ í sóknarleiknum (Paul Pierce var t.d. afleitur þegar á reyndi) hefði liðið með öllu átt að vinna þetta einvígi.

New York var hinsvegar ekki nógu lélegt til að tapa fyrir lélegu Boston-liði, en þeir grænu hefðu örugglega lokað þessu ef Rajon Rondo hefði notið við.

Seinna einvígið sem við tökum til umfjöllunar í Austurdeildinni er skrautleg rimma Chicago Bulls og Brooklyn Nets. Ekki vegna þess að hér hafi verið um gæðaeinvígi að ræða, heldur af því þessi rimma sjokkeraði okkur upp úr skónum á tvo vegu.

Brooklyn sjokkeraði okkur fyrir það hvað það var lélegt. Það getur vel verið að Brooklyn hafi verið að bæta sig eitthvað í vetur, en þetta félag er bara undir miklu meiri pressu, með miklu betri menn og borgandi allt of há laun til að gefa því einhverja frípassa fyrir að bæta sig um einhverja leiki í deildakeppninni - til þess eins að láta væng- og fótbrotið lið drulla yfir sig og henda sér í sumarfrí!

Þessir launaháu menn hjá Nets urðu sér samanlagt til háborinnar skammar í þessu einvígi. Það getur vel verið að menn eins og Lopez hafi spilað þokkalega í þessu einvígi og að Joe Johnson hafi ekki gengið heill til skógar - okkur er bara drullusama. Þetta eru aular sem höfðu enga ástríðu fyrir að fara áfram í úrslitakeppninni og fyrstur í blammeringaröðinni er Deron Williams, leikstjórnandi.

Williams var besti leikstjórnandi deildarinnar á kafla (þegar Chris Paul var meiddur) en hefur ekki gert neitt annað en drulla á sig síðan honum var skipt til Nets.

Þessi maður verður að fara fyrir þessu karakterslausa liði, en getur það ekki af því hann er alltaf meiddur eða í fýlu. Joe Johnson er kominn af léttasta skeiði og samningur hans, Kris Humphries og Gerald Wallace munu sliga þetta lið um ókomin ár.

Prokhorov og félagar urðu að gera eitthvað eftir þessa háðlegu útreið og datt ekki annað í hug en að reka þjálfarann. Klassík. Við skulum sjá hvort einhverjum öðrum tekst að vekja þessa aulabárða til lífsins. Gangi þeim vel og verði þeim að góðu.

Chicago, hinsvegar...

Chicago Bulls er allt það sem Brooklyn er ekki - og fyrir það á liðið alla okkar virðingu. Við höfum alltaf haft miklar mætur á t.d. Tom Thibodeau og mönnum eins og Joakim Noah, en aldrei meiri en nú.

Thibs þjálfari náði einhvern veginn í ósköpunum að draga þetta lið í gegn um deildakeppnina á punghárunum þrátt fyrir mikil meiðsli, en þetta meiðslavesen byrjaði ekki fyrir alvöru fyrr en í úrslitakeppnina var komið.

Það má deila um það hversu gaman er að horfa á Chicago spila sóknarleik - sérstaklega þegar sterabarnið Nate Robinson er nú að bera hann uppi - en varnarleikur liðsins, dugnaður og fórnfýsi er hreint augnakonfekt. Og það er með hreinum ólíkindum að þetta lið skuli vera komið áfram í aðra umferð í úrslitakeppninni (og sé komið í 1-0 á móti Miami þegar þetta er skrifað! Meira um það síðar).

Það er án nokkurs vafa lið Chicago Bulls sem fær Thule eftir fyrstu umferðina í Austrinu, en drullukökuna fær Brooklyn.

Pistill um Vesturdeildina kemur fljótlega

Sunday, April 28, 2013

Chicago er við það að slá út slappa Brooklyn-menn


Chicago er komið í 3-1 lykilstöðu í einvígi sínu við Brooklyn eftir sögulegan sigur í þríframlengdum leik fjögur í Chicago í kvöld. Leikmenn Nets eru allt nema úr leik og það er þeim sjálfum að kenna.

Brooklyn leiddi 109-95 þegar skammt var eftir af leiknum, en missti allt niður um sig á lokasprettinum og því varð að framlengja í stöðunni 111-111.

Það var fyrst og fremst ólíkindatólið Nate Robinson sem tryggði Chicago framlengingu með ógurlegri hetjurispu í sókninni. Naggurinn skoraði 34 stig á 29 mínútum og án hans hefði Chicago aldrei unnið þennan leik.

"I always think I'm on fire, kind of like the old school game NBA Jam," sagði Robinson eftir leikinn og laug engu - það var engu líkara en hann væri persóna í leiknum NBA Jam þegar hann var að raða niður skotunum.

Við höfum alltaf sagt að þetta Brooklyn lið fari bara eins langt og leikstjórnandi þess og aðalstjarna Deron Williams ber það.

Williams var úti í drulla í leikjum tvö og þrjú (sem Nets tapaði auðvitað) en var talsvert grimmari í kvöld. Hann á samt meira inni og okkur er alveg sama þó hann hafi skorað 32 stig í leiknum, Kirk Hinrich gerði honum lífið leitt á báðum endum vallarins.

Chicago á skilið gott klapp fyrir frábæra frammistöðu í þessu einvígi. Það er að vinna þessa leiki á frábærum varnarleik og nógu góðum sóknarleik og er komið í 3-1 þrátt fyrir að vera án sínst besta manns og með sinn næstbesta mann haltrandi um völlinn.

Í þúsundasta skipti: Tom Thibodeau er að gera fáránlega góða hluti með Bulls og á líklega skilið að vera kjörinn þjálfari ársins (eins og reyndar sjö aðrir menn, en látum það liggja milli hluta).

Brooklyn hefur engar afsakanir. Þetta er bara lélegt hjá þeim og liðið er að drulla á sig. Gæfulegur fjandi að vera að borga öllum þessum mönnum svimandi há laun og fá þessa frammistöðu fyrir peninginn. Prokhorov getur ekki verið sáttur við þetta. Ætli hann reki ekki PJ þjálfara og ráði Rafa Benitez í staðinn.

Nei, svona án gríns. Þetta er ekki að virka hjá Nets. Deron Williams virðist ekki geta haldið sér nógu heilum til að leiða þetta lið áfram og Joe Johnson var náttúrulega á annari löppinni eins og þið sáuð í kvöld.

Þetta lið hefur náð sér ágætlega á strik inn á milli en svo dettur það niður í ruglið.

Næsti leikur í þessu einvígi verður í Brooklyn á mánudagskvöldið og það getur vel verið að Nets nái að lengja aðeins í snörunni, en þetta lið er aldrei að fara að vinna þrjá leiki í röð á móti Bulls. Það vantar alla stemningu, baráttu og anda í þetta Nets lið og ekki eykst það nú eftir þetta drull í Chicago í kvöld.

Til að súmmera: Kúdós á Bulls, en það verður einhver að hringja á Hreinsitækni til að þrífa upp eftir Nets, sem eru einfaldlega að valda vonbrigðum í vetur þrátt fyrir að hafa bætt árangur sinn mikið í deildakeppninni.

Hér fyrir neðan getur þú séð samantekt af sprengjuárás Nate Robinson á aumingja Nets í kvöld.

Tuesday, January 22, 2013

Sunday, December 30, 2012

Brooklyn-blús



























Það er búið að reka Avery Johnson frá Brooklyn Nets eins og þú vissir. Við verðum bara að skrifa nokkrar línur um það af veikindavaktinni þó þetta sé gömul frétt.

Nokkuð sérstakt að þjálfari mánaðarins í nóvember sé rekinn nokkrum vikum síðar, en svona er þetta í NBA deildinni - sérstaklega hjá félögum sem eru að borga há laun og ætlast til að fá sigra í staðinn.

Avery Johnson var lengi vel búinn að vera í kósí djobbi hjá Nets. Hann notaði óþolandi röddina sína til að öskra á menn sem kunnu ekki körfubolta og töpuðu óhemju fjölda leikja. Það var ekkert verið að erfa það við Johnson, því það ætlast enginn til þess að þú farir með Jet Black Joe í úrslitakeppnina í NBA.

Núna er landslagið hinsvegar orðið allt annað. Nets er með besta bakvarðapar deildarinnar á pappírunum, borgar fullt af körfuboltamönnum fullt af peningum og nú á að fara að vinna.

Það heppnaðist framan af þegar liðið átti flúgandi 11-4 start í nóvember og vann meðal annars LA Clippers og New York Knicks, en svo datt botninn úr öllu saman.

Desember hófst á átta töpum í fyrstu tíu leikjunum og þeir fimm sigrar sem Nets hefur náð að druslast til að vinna í mánuðinum eru gegn stórveldum eins og Detroit, Cleveland, Charlotte og Toronto.

Aðeins sigurinn gegn Philadelphia getur talist góður sigur, hin liðin gætu tapað fyrir Newcastle og Norwich á góðum degi.

Það er rosalega auðvelt og freistandi að kenna Deron Williams um hvernig fór fyrir Johnson og við ætlum að gera það. Williams er hjartað og sálin í liði Nets og framtíð þess veltur öll á honum.

Eina afsökunin sem Williams hefur er sú að hann gengur ekki heill til skógar og hefur ekki gert síðan hann gekk í raðir Nets. Þegar Williams er í lagi, er hann launa sinna virði og í klúbbi með bestu leikstjórnendum heims.

En þegar úlniðurinn á honum er í klessu og hann fer í fýlu út í þjálfarann sinn,  hjálpar hann liðinu sínu sorglega lítið. Og sú var raunin og þjálfarinn fékk sparkið.

Kannski er ósanngjarnt að klína öllu á Deron Williams. Hann þvertekur fyrir að vandræði Nets og brottreksturinn sé honum að kenna, en segist gera sér grein fyrir að hann fái blammeringarnar og segist gangast við þeim hvort sem það er sanngjarnt eða ekki.

Okkur er alveg sama hvort það er sanngjarnt eða ekki. Deron Williams er nú orðinn staðfestur þjálfaramorðingi í okkar augum. Var reyndar þegar orðinn það, en nú hefur hann tekið af allan vafa.

Deron Williams er ástæðan fyrir því að Jerry Sloan hætti að þjálfa og það er fyrst og fremst honum að kenna að Avery Johnson er á atvinnuleysisskrá.

Hvað framtíðina varðar hjá Nets, voru fjölmiðlar að sjálfssögðu fljótir að orða alla bestu þjálfara heims við félagið af því þeir vita að eigandi Nets þarf ekkert að brjóta sparigrísinn ef hann ætlar að landa góðum manni. Hann á nóg af aurum.

Einmitt þess vegna var strax byrjað að tala um Phil Jackson og eitthvað svoleiðis. Að okkar mati er það útilokað að Jackson tæki við Nets. Vissulega fengi hann feit laun og það freistar hans örugglega, en Jackson er í bransanum til að vinna titla og það er enginn efniviður til þess hjá Nets sem stendur.

Nets vegna vonum við að þjálfarinn sem landar djobbinu verði sterkur karakter, því það er ljóst að Deron Williams virðist hreint ekki tilbúinn til að vinna með hverjum sem er. Það höfum við fengið að sjá.

Það verður mikil áskorun að gera alvöru lið úr Nets þó vissulega séu þar hörkuspilarar inn á milli. Það hjálpar í þjálfaraleitinni að staðan verður vel borguð, en ekki búast við að næsti þjálfari verði þar í átta ár. Ekki frekar en að PJ Carlesimo geri góða hluti þar sem aðalþjálfari.


Ríki Derons


(Smelltu til að stækka)


Wednesday, November 28, 2012

Monday, November 5, 2012

Frank var sá fyrsti





















Okkur varð hugsað til Lawrence Frank, þjálfara Detroit Pistons, þegar við horfðum með öðru auganu á viðureign LA Lakers og Detroit sem var lokaleikurinn á Vampíruvaktinni í nótt.

Hinn smávaxni Frank hóf þjálfarastörf í NBA um aldamótin  og var fyrst aðstoðarmaður hjá Grizzlies og síðar hjá Nets. Hann var tímabundið gerður að aðalþjálfara Nets í janúar árið 2004 þegar Byron Scott var látinn fara og vann liðið þrettán fyrstu leikina undir hans stjórn. Það er besta byrjun þjálfara í sögu Bandaríkjanna, hvort sem um er að ræða körfubolta, hafnabolta, ruðning eða hokkí.

Önnur og ljótari rispa varð svo til þess að Frank missti starfið sitt hjá Nets, en hann var látinn taka poka sinn í lok nóvember árið 2009 eftir að liðið tapaði fyrstu 16 leikjum sínum í deildinni það haustið.

Frank er líka eini þjálfarinn í sögunni sem hefur unnið 10+ leiki í röð þegar hann tók við og tapað 10+ þegar hann var rekinn frá sama félagi. Skrautlegt og skemmtilegt.

Frank er nú að reyna að sanna sig á ný hjá Detroit og er svo sem ekki öfundaður af því. Hann átti ágætis ár hjá New Jersey og fer það orð af honum að hann sé einn af efnilegri þjálfurum deildarinnar af yngri kynslóðinni.

Reyndar er eina ástæðan fyrir því að við erum að velta okkur upp úr þessu sú, að fréttin um brottrekstur Frank þarna árið 2009 var fyrsta málið sem tekið var fyrir á þessari síðu.

Við vorum búin að vera að skrifa í nokkur ár þegar þarna var komið við sögu, en það var Lawrence Frank sem hlaut þann heiður að verða fyrsti maðurinn sem var Photoshoppaður á NBA Ísland eins og við þekkjum það í dag.

Síðan hefur hver vitleysan rekið aðra og ekkert lát á því...

Sunday, November 4, 2012

Thursday, October 4, 2012

Fjölmiðladagurinn: Nets


Fjölmiðladagurinn árlegi í NBA deildinni fór fram mánudaginn 1. október. NBA Ísland kíkti í heimsókn til nokkurra liða í deildinni og lagði fram nokkrar athugasemdir, hvort sem það var viðeigandi eða ekki. Þetta tekur nokkrar færslur og í þeirri síðustu tökum við saman skemmtilegustu myndir fjölmiðladagsins 2012.    

Þeir verða nokkuð lengi að læra nöfnin hver á öðrum pésarnir í Brooklyn, en þegar þeir ráða fram úr því, bíðum við öll spennt eftir að sjá hvort þeir ná að skáka grönnum sínum í Knicks.

Prokhorov hefur engu til sparað frekar en John Hammond á sínum tíma. Hann náði kannski ekki að landa Dwight Howard, en hann verður að fá risaplús í kladdann fyrir að halda Deron Williams og lokka til sín Joe Johnson, svona ef þú gleymir því á hvaða launum hann er. Prokhorov er nákvæmlega sama

Hann vill bara verða stærri en Knicks og er búinn að stíga fyrsta skrefið.