Showing posts with label Ógnarstyrkur. Show all posts
Showing posts with label Ógnarstyrkur. Show all posts

Friday, June 17, 2016

Hömlulaus LeBron - Oddaleikur í úrslitunum


Ætli sé ekki best að byrja á smá tölfræði á meðan við náum okkur niður eftir þetta rugl þarna í Cleveland í nótt. Þá eigum við sérstaklega við tölfræði LeBron James, sem virðist vera að taka því mjög illa að hafa lent undir 3-1 og vera því á góðir leið með að tapa enn einu lokaúrslitaeinvíginu sínu á ferlinum.

Cleveland er allt í einu búið að jafna metin í einvíginu við Golden State og það er ekki síst að þakka téðum LeBron James, sem er búinn að spila á guðs vegum í síðustu tveimur leikjum. Þar hefur hann boðið upp á 41 stig, 12 fráköst, 9 stoðsendingar, 3,5 stolna bolta, 3 varin skot, þrjá tapaða bolta að meðaltali í leik og +39 í plús/mínus tölfræðinni. Einmitt.



James er skráður með 188 "snertingar" í þessum tveimur leikjum skv. heimasíðu NBA deildarinnar, sem þýðir að hann er meira með boltann en nokkur annar maður í einvíginu og því er með öllum ólíkindum að maðurinn sé aðeins búinn að missa boltann þrisvar sinnum. Við erum að tala um þrjá tapaða bolta á 86 leikmínútum.

Ofan á þetta hefur Golden State skotið 2 af 10 undir körfunni þegar hann er á svæðinu í leikjunum tveimur og einhver tölfræði sagði að Warriors-menn sem James var að dekka í leiknum í nótt, hefðu skotið 0 af 7 utan af velli.

Er þetta ekki nóg, spyrðu!?!

Einmitt.



Á lykilkafla í síðari hálfleik í nótt, skoraði Cleveland 27 stig í röð þar sem James annað hvort skoraði sjálfur eða eða átti stoðsendingu. Hann skoraði 17 stig í fjórða leikhlutanum einum saman (6 af 9 í skotum) og gaf auk þess fjórar stoðsendingar.

LeBron kom að 70 stigum Cleveland í leiknum með beinum eða óbeinum hætti og þó það muni miklu fyrir hann að langskotin hans séu farin að detta, er það sú staðreynd að hann er aftur farinn að skjóta 65% í teignum sem segir okkur að hann sé mættur í slaginn á ný - og rúmlega það.



Hann er sem sagt með 30 stig, 11,3 fráköst, 8,5 stoðsendingar, 2,7 stolna bolta, 2,2 varin skot, 51% skotnýtingu, 40% 3ja stiga nýtingu og +22 í plús/mínus í leikjunum sex í lokaúrslitunum. Þú vissir væntanlega líka að hann er efstur í öllum tölfræðiþáttum í báðum liðum í einvíginu. Hann er reyndar með jafnmörg fráköst og Tristan Thompson, en þú fattar þetta.

Trúlega væri hægt að halda áfram með þetta rugl, en þið eruð örugglega farin að ná því hvað við erum að fara hérna; Það er engu líkara en að LeBron James sé góður í körfubolta. Við sjáum mynd:



Úrslitaeinvígið okkar í ár hefur nú vaknað til lífsins og sprungið út með tilþrifum. Það reyndist forljótur andarungi sem fáir vildu sjá í stöðunni 2-0 og 3-1 fyrir Golden State. Nú er svo komið að meistararnir, sem komu til baka eftir að hafa lent undir 3-1 gegn Oklahoma í síðasta mánuði, eru nú sjálfir búnir að klúðra þessu og missa seríuna í jafntefli.

Þvílíkt einvígi!



Það góða við að vera með frjálsan og óháðan miðil eins og NBA Ísland er að við getum rekið á honum hvaða ábyrgðarlausa áróður sem okkur sýnist án þess að hlusta á kóng eða prest og nú ætlum við að nýta þennan vettvang til að leggja fram boðskap sem á erindi til allra körfuboltakera á landinu.

Þið hafið öll séð hvað narratífið í kring um lið og leikmenn í NBA deildinni eru svakalega fljótt að breytast. Það er að segja hvaða stefnu menn taka þegar þeir fjalla um t.d. úrslitaeinvígið í NBA. Hvernig menn ákveða að segja frá hlutunum - hvað þeir leggja áherslu á og hvað ekki.



Enginn leikmaður í nútímasögu NBA deildarinnar fengið jafn sveiflukennda og dramatíska umfjöllun og LeBron James og það er magnað að horfa upp á það að hann skuli enn vera fær um að breyta narratífinu í kring um sig með handafli. Margir hafa reynt það, en fáum tekst það.

Íslendingur nokkur er einmitt að reyna þetta, gnístandi tönnum af gremju. Hann reynir að skrifa söguna sína sjálfur eftir eigin höfði á hverjum degi en þó nokkrir afskaplega illa gefnir einstaklingar trúi öllu sem hann segir, breytir það engu um það að þetta er ekki raunveruleg saga, heldur átakanlegt bull og lygar örvæntingarfulls manns sem nær aldrei að þurrka mistökin sín út úr sögubókunum, sama hvað hann klórar og grenjar.



Lokaúrslitin 2016 áttu að vera úrslit Warriors-liðsins og leikmanns ársins, Stephen Curry. En á einhverjum pungsparks og kjaftbrúks tímapunkti í þessu einvígi, ákvað LeBron James að taka stílabækurnar sem sagnfræðingar eru búnir að vera að skrifa í í allan vetur og rífa þær í tætlur.

Nota bene, James er ekki búinn að skrifa lokakaflann, hann verður ekki skrifaður fyrr en á sunnudagskvöldið og það er lokakaflinn sem ræður úrslitum í þessu magnaða einvígi. En það sem við viljum árétta sérstaklega hér, er hvað er búið að gerast í síðustu tveimur leikjum.



Það sem gerðist, er að LeBron James tók eitt stykki lokaúrslitaeinvígi í NBA deildinni og barði það í andlitið með með felgulykli. Hann tók sögu sem var nánast alveg búið að skrifa, reif hana í tætlur, eyðilagði hana og er að semja sína eigin. Það vantar bara lokakaflann. En athugaðu að hvernig sem lokakaflinn fer - hver það verður sem skrifar hann, verður LeBron búinn að breyta þessari sögu varanlega og hann þarf að fá sitt hrós fyrir það.

Afar fáir körfuboltamenn hafa hæfileika, skapgerð og burði til að taka lokaúrslitaseríu yfir og breyta henni upp á sitt einsdæmi og við verðum að segja alveg eins og er, að okkur datt ekki í hug að LeBron James hefði það sem til þurfti til að gera neitt slíkt í dag. Sérstaklega eftir að við horfðum á hann klúðra hverju sniðskotinu á fætur öðru í fyrstu leikjunum gegn Warriors og fá litla hjálp frá félögum sínum.



En svo gerist eitthvað. Það er til dæmis alveg pottþétt mál að lið sem er í vandræðum með sóknarleikinn sinn, mun undir öllum kringumstæðum hagnast á því ef besta varnarmanni andstæðingsins er kippt út í eins og einn leik. Ókei, flott fyrir Cleveland, en vannst þessi sigur í leik fimm þá ekki eingöngu út á það að Draymond Green var ekki með? Nei, það virðist ekki vera.

LeBron James losnaði við Green úr vegi sínum í fimmta leiknum, en það er eins og hann hafi gleymt því að hann mætti til baka í sjötta leikinn, því hann bara sótti á körfuna eins og enginn væri morgundagurinn. Það hefur svo engan veginn dregið kjarkinn úr James í ruðningsferðum sínum inn í teiginn þegar hann far að andstæðingur hans númer eitt - Andre Iguodala - byrjaði skyndilega að haltra um völlinn eins og hann væri búinn að gera í buxurnar í nótt. Gera stórt í buxurnar.



Þvílíkt andskotans vesen er orðið á þessu Golden State liði, afsakið hjá okkur orðbragðið, en við erum viss um að leikmenn og þjálfarar orða það ekki á fallegri hátt en þetta. Þetta var allt svo klippt og skorið fyrir nokkrum dögum síðan. Liðið sem gat ekki unnið þá var komið út í horn og allt eins og það átti að vera. Það var ekki annað að gera en vinna það einu sinni enn og svo bara leikur, vindill, kampavín, skál, búið!



En í staðinn er allt komið í óefni hjá meisturunum. Bogut hefur lokið keppni, Iguodala er eins og Robocop á línuskautum, skvettubræður eru upp og ofan og Draymond var daufur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Golden State mætir mótlæti, þið áttið ykkur alveg á því, en það er dálítið nýtt fyrir þá að gera dálítið í bussan sín með þessum hætti.

Við þurfum alveg örugglega ekki að telja upp fyrir ykkur hvað lið sem spila á útivelli í oddaleikjum eru andskoti ólíkleg til að vinna nokkurn skapaðan hlut. Þið vitið þetta. En á Cleveland þá einhvern séns á sunnudaginn? Sagan segir nei, alveg eins og tölvan forðum, en af hverju ekki?



Það er allt á móti Cavs í þessu sambandi, sama hvort það varðar sögubækur, trend eða tölfræði. Lið sem lenda undir 3-1 vinna ekki seríur og lið sem eru á útivelli vinna ekki oddaleiki og bla bla bla. En af hverju á Cleveland ekki möguleika á að vinna lið sem það er búið að vinna tvisvar í röð í hreinum úrslitaleik? Af hverju á Cleveland ekki möguleika á móti Warriors-liði sem er ekki heilt heilsu og er alls ekki að finna taktinn sinn um þessar mundir?

Við skulum láta þessum spurningum ósvarað til að vera ekki að eyðileggja fyrir ykkur áhorfið á sunnudaginn og ljúkum þessu frekar með því að ítreka það sem við tókum fram hér að ofan: LeBron James reif stílabókina af söguriturum NBA deildarinnar, barði þá í hausinn með henni og er búinn að skrifa kafla fimm og sex í henni algjörlega eftir sínu höfði. Þessar breytingar eru varanlegar óháð úrslitum í sjöunda leiknum, en það er ljóst að það fer allt í eitt risastórt kaos ef Cleveland heldur þessum ótrúlega endaspretti sínum áfram.



Nú eru náttúrulega ekki allir sammála okkur um hvernig á að ganga frá þessari sögu og okkur finnst skemmtilegast að lesa skrif þeirra sem ætla að láta það ráðast í næsta leik hvernig þeir gera ferilinn hans LeBron James upp. Grínlaust, það er fullt af fólki sem ætlar sumsé að gera þetta svona: Ef Cleveland tapar, verður það LeBron James að kenna og því er hann sjálfkrafa stimplaður kokari og aumingi - en ef Cleveland vinnur verður hann bestur í heimi, jafnvel betri en Jordan.

Sigh...



Það er ekki auðvelt að díla við svona, en við skiljum svo sem að hluta af hverju fólk er svona æst. Það er af þvi LeBron James er enn og aftur að sýna okkur að hann er ofurmenni á körfuboltavelli og getur enn tekið gjörsamlega yfir heilu leikina án þess að nokkur fái rönd við reist. Og það sem meira er, við erum öll að taka þessu sem algjörlega sjálfssögðum hlut, eins og þetta sér bara eitthvað eðlilegt að spila svona!

Nei, LeBron James var bara að minna okkur aðeins á það, í þúsundasta skipti, að hann er einn allra, allra besti körfuboltamaður sem uppi hefur verið og þú skalt ekki láta þér detta í hug að sú jafna breytist eitthvað stórkostlega út af einum körfuboltaleik. Sigur á sunnudaginn gæti orðið ágætis kirsuber á toppinn á rjómaísnum sem er ferillinn hans James, þó hann sé auðvitað ekki búinn.

En hvort sem leikurinn tapast eða vinnst um helgina, verður það sífellt stærri áskorun að finna körfuboltamenn í sögunni sem eru betri en LeBron James. Þá má orðið telja á fingrum annarar handar. Þú getur notað sumarið til að díla við það.


Saturday, June 11, 2016

Meistararnir sjá í mark


Menn deila um það hvort körfubolti er einföld eða flókin íþrótt. Eftir leiki eins og fjórða leik Cleveland og Golden State í Ohio í nótt, er rosalega þægilegt fyrir fólk eins og okkur - sem hefur ekkert vit á körfubolta - að grípa einföldu útskýringarnar á lofti eftir leiki eins og fjórðu viðureign liðanna í úrslitunum í nótt.

Fyrir það fyrsta, hefur raunveruleikinn nú aftur tekið völd, eftir smá útúrdúr í þriðja leiknum á dögunum. Nú er Golden State aftur orðið "einfaldlega betra lið" en Cleveland. Það sýndu meistararnir í nótt með fagmannlega öruggum 108-97 sigri sínum í Cleveland og hafa því náð 3-1 forystu í seríunni.



Við vitum öll hvað það þýðir í sögulegu samhengi - það á ekki að vera hægt að tapa úrslitarimmu með slíka forystu, enda hefur engu liði tekist það. Okkur dettur ekki í hug að spá því að þetta Cleveland-lið verði fyrsta liðið til að hrista af sér þá Grýlu, því það er fátt í spilunum sem bendir til þess.

Ef þú lest NBA Ísland að staðaldri eða horfir á einvígið á Stöð 2 Sport, ertu löngu búin(n) að heyra þetta allt saman: Golden State er betra lið, með betri vörn, betri skyttur, betri liðsheild, meiri breidd, meiri takt, meiri Draymond, meiri Iguodala, meiri sögu og sigurvilja, betri rútínu og í alla staði þyngri katalóga í fræðunum.

Nei, líklega er fátt annað eftir en að segja: "Þeeett´er búið!" eins og maðurinn sagði.



Við erum samt ekki búin með þetta einvígi. Við eigum ekki bara eftir að sjá hvort og þá hvernig Golden State gengur frá málinu á heimavelli sínum á mánudagskvöldið, heldur eigum við eftir að sjá hvernig Cleveland ætlar að bregðast við þessari nöturlegu stöðu sem það finnur sig í núna. Og þegar við segjum Cleveland, erum við auðvitað að meina LeBron James, því ef við eigum að vera alveg heiðarleg, er okkur tæknilega alveg sama um restina af dæminu.

Restin af dæminu er ef til vill áhugaverð, þó ekki væri nema bara til að sjá hvernig menn eins og Kyrie Irving og Kevin Love klára þetta dæmi í ljósi mögulegra framtíðaráforma forráðamanna félagsins. Eiga þessir menn afturkvæmt? Eru þetta menn sem eru boðlegir kandídatar í að fara með LeBron James í frekari stríð og styrjaldir? Það kemur í ljós.



En athygli okkar er nær öll á James. Nú eru fjórtán þúsund blaðamenn byrjaðir að skrifa fjallræður sínar um hann og frammistöðu hans í einvíginu - og hvað verði næst á dagskrá. Það er óhjákvæmilegt. En þú ert að leita að þrumuræðum og hraunflóði um LeBron James hér á þessu vefsvæði, verður þú líklega að leita annað, en það þýðir ekki að við höfum ekki smá áhyggjur af honum.

Við erum ekki alveg með það á hreinu hvort þetta einvígi er búið að koma okkur á óvart eða ekki, svona í heildina. Það hefur komið okkur nokkuð á óvart hvað Golden State er búið að malla í gegn um þetta einvígi án þess að fá stöðuga ofurmannlega frammistöðu frá skyttunum sínum (sérstaklega Curry) þangað til í nótt. Við sem höfum horft á Curry skjóta allt og alla til andskotans í allan vetur erum enn alltaf vælandi ef hann skorar ekki fjörutíu stig og tíu þrista í hverjum einasta leik.



Það sem kemur okkur hinsvegar mest á óvart er hvað LeBron James er búinn að eiga erfitt uppdráttar í einvíginu, þrátt fyrir að vera að skila tölum sem enginn annar körfuboltamaður á jörðinni gæti boðið upp á í svona seríu.

Við reiknuðum alveg með því að skotið hans ætti eftir að detta inn og út í þessu, en við erum engan veginn að ná utan um það hvernig stendur á því að hann virðist oft ragur á keyra á körfuna, snýr sér við í loftinu og kastar boltanum út í loftið (stundum upp í stúku) og virðist ekki með nokkru móti geta klárað eins og maður undir körfunni. Aftur sáum við nokkuð áberandi dæmi um þetta í nótt.

Ef þú ætlar að vera týpan sem heldur því fram að James sé að koka á þessu, verður þú að fara eitthvað annað, en þú hann sé ekki að koka, er ekki allt eins og það á að vera. Það er mjög eðlilegt að menn geti átt erfitt með að slútta í teignum þegar menn eins og Bogut og Ezeli fylla hann, en þegar hann er fullur af mönnum sem eru á hæð við James og teljast ekki endilega skotblokkarar? Það er ekki eðlilegt.



Hvað eftir annað höfum við séð James keyra inn í traffík og eiga annað hvort skelfileg skot eða hreinlega láta verja þau frá sér. Það er ekkert eðlilegt við það. Það er eitthvað alveg nýtt. Og hér gildir einu hvort um er að ræða töpin ljótu í Oakland, sigurinn í leik þrjú eða tapið í nótt. James er bara ekki að dómínera í teignum eins og hann hefur (nánast) alltaf gert og það er morgunljóst að þessir erfiðleikar eru farnir að hafa áhrif á ákvarðanatöku hans.

James er maður sem setur niður tvö af hverjum þremur skotum sem hann tekur í teignum, það hefur alltaf verið jafn öruggt og hækkandi fasteignaverð, enda skaut hann þannig í allan vetur og alveg eins í úrslitakeppninni þangað til hann mætti ófreskjunni frá Oakland.

Hann er að skjóta 56,6% í teignum á móti Golden State, sem er ef til vill ásættanleg tölfræði fyrir venjulegt fólk undir þessum kringumstæðum, en afleit fyrir mann eins og LeBron James.

Þú sérð skotkortið hans í lokaúrslitunum hér til hliðar. Ekki stórt úrtak, en þetta skiptir máli, andskotinn hafi það.

Og áður en þú ferð að væla yfir því að það sé nú hægt að taka skot annars staðar en í teignum, verður þú að hafa hugfast að hann tekur alltaf megnið af skotunum sínum þar. Hefur alltaf gert.

Það getur vel verið að vörn Golden State sé hrikaleg - hún er það - en hún hefur þurft að hafa allt of lítið fyrir því að loka miðjunni fyrir James í þessu einvígi. Hann skaut bara rétt rúm 50% í miðjunni í lokaúrslitunum í fyrra, en það var einfaldlega vegna þess að þá gátu leikmenn Warriors einbeitt sér að því einu að loka miðjunni af því að þá var Cleveland ekki með einn einasta leikmann sem gat refsað Warriors fyrir utan.



Cavs eiga að vera með meiri ógn fyrir utan að þessu sinni, en eins og allt annað hjá þeim í þessu einvígi, hefur það mestmegnis verið pappírsógn. Það er ekki nóg að vera með fulla rútu af skotmönnum. Ef þeir hitta ekkert, er alveg jafn gott að keyra þetta bara áfram á mönnum eins og Matthew Dellavedova, sem hafa amk getu og vilja til að spila þokkalega vörn.

Talandi um vörn. "Tilþrif" manna eins og Kyrie Irving og Channing Frye í varnarleiknum í þriðja leikhlutanum þegar Golden State stakk endanlega af í leiknum í nótt, var náttúrulega hroðaleg. Við erum búin að tuða endalaust um þetta illa geymda leyndarmál. Þú getur komist upp með að spila eins og bandormur annað slagið í vörninni á móti Atlanta og Toronto, þar sem þú getur bætt upp fyrir það með því að salla bara niður 3-4 þristum í röð. Það er ekkert mál, eins og Cleveland sýndi um daginn.

En ef þú spilar 9. flokks vörn á móti Golden State, lendirðu undir eins í trjákurlaranum.



Þið kannist við Gárungana frægu. Þeir eru alltaf til staðar í íþróttaumfjöllun og það sem er efst á baugi hjá þeim núna, þegar þeir eru búnir að segja öllum sem vilja og vilja ekki heyra það að LeBron James sé aumingi, er að ákveða hver í ósköpunum eigi eftir að verða kjörinn leikmaður lokaúrslitanna. Það er skiljanlegt að fólk pæli í því, enda er það að verða forvitnileg pæling alveg eins og í fyrra.

Við höfðum orð á því eftir leik þrjú að það kæmi okkur á óvart ef Stephen Curry væri ekki farinn að hugsa með sér: "Nei, andskotinn, ég verð að fara að spila eins og maður svo ég láti ekki einhverja rulluspilara slá mér við í kjörinu á leikmanni lokaúrslitanna annað árið í röð!"



Gott ef spilamennska Curry í nótt var ekki nákvæmlega á þessari línu. Enn og aftur bar strangt til tekið ekkert allt of mikið á Curry á löngum köflum í leiknum - ekki eins og í allan vetur þegar hann var í gjöreyðingargír á hverju kvöldi - fór allt til helvítis hjá Cleveland um leið og hann kveikti á nítróinu. Það er alveg magnað hvað þessi hálf-Curry sem er að spila í lokaúrslitunum er viðurstyggilega góður í körfubolta.



Ekki halda að það hafi farið fram hjá okkur hvernig þeir Draymond Green og síðar Steph Curry gáfu sér tíma til að rífa smá kjaft við LeBron James í leiknum í nótt. Draymond ákvað að "taka einn Draymond" á þetta og dangla að eins í djásnin á kóngsa. LeBron vildi meina að Green hefði farið yfir strikið í rusltali sínu en blés á það þegar hann var spurður út í viðskipti sín við Curry og sagði þau ekki annað en heilbrigð tjáskipti keppnismanna á stóra sviðinu.



Draymond Green getur ekki með nokkru móti sleppt því að vera Draymond Green í heilan körfuboltaleik og það er náttúrulega eitt af því sem gerir hann svona skemmtilegan karakter, þó við gerum okkur fulla grein fyrir því að góður helmingur ykkar hati hann eflaust út af lífinu.

Green er alveg búinn að taka við keflinu af Paul Pierce sem "lang mest óþolandi hási hrokagikkur deildarinnar sem er samt svo góður að þú verður eiginlega að bera virðingu fyrir honum, en guð almáttugur hvað einhver þarf að berja hann í andlitið með vöfflujárni til að lækka í honu rostann" -NBA deildarinnar og blómstrar í hlutverkinu í lokaúrslitunum.



Golden State heldur áfram að bjóða okkur upp á tölfræði sem við höfum ekki séð mikið áður, eins og til dæmis að vinna leiki í lokaúrslitum með því að skora fleiri 3ja stiga körfur en 2ja stiga körfur - og það sem meira er - vinna leiki þar sem það er að skjóta eins og vængbrotnir dílaskarfar í teignum og undir körfunni.

Og þá komum við að lokum að atriðinu sem við nefndum í byrjun. Einfaldleikanum. Vitleysingunum líður alltaf betur ef þeir geta útskýrt hlutina á sem einfaldastan hátt og þið sjáið merki þess á þessari síðu í hverri viku.

En kannski er einföldunin ekki svo slæm þegar kemur að því að túlka fáránlegan styrk þessa Warriors-liðs. Því ekki að umorða bara gamlan frasa úr fótboltanum:

Körfubolti er íþrótt þar sem tvö fimm manna lið rífast um einn bolta og Golden State vinnur - af því það skorar alltaf miklu fleiri þriggja stiga körfur en þú.

Það er ekki flókin lógík á bak við þennan frasa - og hann er hvorki ljóðrænn né fræðilegur - en gott ef hann er ekki nóg til að útskýra fyrir leikmönnum og konum af hverju Golden State er besta körfuboltalið nútímans.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------

Að lokum er hér Sonya Curry (og einhver gaur).


















Fimmti leikur Golden State og Cleveland fer fram í Oakland á mánudagskvöldið klukkan eitt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Hver veit nema kampavín verði haft um hönd?

Sunday, May 1, 2016

San Antonio slátraði Oklahoma í fyrsta leik


Ætli Ron Burgundy hafi ekki orðað þetta best þegar hann sagði:



Margir bjuggust við því að San Antonio myndi vinna fyrsta leikinn á móti Oklahoma í nótt og margir þessara manna og kvenna hafa eflaust búist við því að sigurinn yrði stór. En þetta þarna í nótt var náttúrulega bara rugl, bara steypa.

Nema þér finnist bara eðlilegt að Spurs hafi unnið leikinn 124-92* og að lokatölurnar gefi kolranga mynd af honum, þar sem heimaliðið hefði unnið hann með 50-60 stiga mun ef það hefði á nokkurn hátt kært sig um það.

Við höfum hundrað sinnum séð seríur í úrslitakeppni NBA snúast á punktinum. Við höfum öll upplifað að lið a vinni lið b stórt á heimavelli en hljóti svo jafnvel skell á útivelli viku síðar. Þetta er allt saman þekkt, þið þekkið þetta líka. 

Menn segja að lið taki hvorki töp né sigra með sér á bakinu milli leikja í úrslitakeppninni og það getur vel verið að svo sé í 99% tilvika, en við fullyrðum að sum töp séu einfaldlega of stór til að lið geti bara kyngt þeim, gleymt þeim og haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. 

Þetta er eitt þeirra, það getur ekki annað verið. Oklahoma getur ekki unnið þessa seríu eftir þessa útreið, það bara getur ekki verið.

Án þess að vera að berja okkur um of á brjóst, verður að segjast eins og er að áhyggjurnar sem við höfðum af Oklahoma-liðinu fyrir einvígið og fram komu í ógurlegri upphitun okkar fyrir fyrsta leikinn í gær, reyndust allar á rökum reistar.

Okkur óraði bara ekki fyrir því að Oklahoma myndi ekki aðeins spila þessa lélegu og einbeitingarsljóu vörn sem það hefur gert sig sekt um í vetur, heldur spilaði það Houston-vörn, sem er með öllu óafsakanlegt og dauðadómur þegar spilað er við jafn sterkt lið og San Antonio.

Við skulum samt átta okkur á því að Oklahoma-liðið var ekki alveg eins lélegt og tölurnar í nótt báru vott um - það var alveg satt sem Gregg Popovich þjálfari Spurs sagði - hans menn hittu bara úr öllum skotum sem þeir grýttu á körfuna. 

Meira að segja Danny Green hitti úr öllum sínum skotum, og hann er maður sem er búinn að skjóta eins og blind keisaramörgæs í allan vetur. Það gekk ALLT upp hjá San Antonio í sóknarleiknum. 

Kawhi gjörsamlega spændi vörn Oklahoma í sig og þegar hann var ekki að því, var LaMarcus Aldridge að hitta úr stökkskotum þar sem stundum voru þrír kílómetrar í næsta varnarmann. Það er ekki alveg vitað, en talið er að Aldridge hafi hitt úr eitthvað í kring um 1300 stökkskotum í leiknum.

Við þurfum ekkert að fara mörgum orðum um þennan leik. Það fór ALLT úrskeiðis hjá Oklahoma sem gat farið úrskeiðis, meðan allt gekk upp hjá San Antonio.

Sko... það getur komið fyrir hvaða lið sem er að hitta á off daga, þar sem þau bara ná sér ekki á strik, ná sér ekki upp stemmara, eru óheppin með tapaða bolta og skotin vilja einfaldlega ekki detta. Þetta kemur fyrir á bestu bæjum og það er þetta fyrirbæri sem útskýrir hluta af óförum Oklahoma í nótt.

En þar með er ekki allt upp talið. Ó, nei.

Stóra málið er að Oklahoma mætti ekki tilbúið í þennan leik og það sérstaklega varnarlega. Það var eins og útsendarar og aðstoðarþjálfarar Oklahoma hefðu verið sendir í Borgarnes að skáta Skallagrím en ekki San Antonio. 

Planið hjá Oklahoma var ekkert, liðið fann engin svör, en til að bæta gráu ofan á svart, gerðu leikmenn OKC sig seka um að gera mistök eftir mistök sem skrifast ekki á neitt annað en einbeitingarleysi. 

Hvað kallarðu það til dæmis þegar lið brýtur fjórum sinnum á mönnum í þriggja stiga skotum í einum hálfleik? Aðeins eitt af þessum tilvikum skrifast á nýliða, en að öðru leyti er ef til vill réttara að skrifa svona spilamennsku á heimsku en ekki einbeitingarleysi. Þetta var bara rugl frá a til ö.

Þegar lið fá svona skell, fara menn ósjálfrátt að leita að sökudólgum og þeir voru ansi margir hjá Oklahoma. 

En eins og við töldum upp hérna rétt áður er ekki hægt að neita því að stærstur hluti blammeringanna sem ætlaðar eru Oklahoma verða að fara á Billy Donovan og þjálfarateymið hans.

Hvað voru þeir að gera fyrir þennan leik? Voru þeir í alvörunni að skáta Skallagrím en ekki San Antonio? Er það von að við spyrjum. 

En svona í alvöru, þá er þetta ekki beinlínis fjöður í hattinn hjá Donovan, sem hefur valdið okkur vonbrigðum í vetur eins og við erum búin að tyggja 200 sinnum ofan í ykkur hér á þessum vettvangi.

En það er eitt að valda vonbrigðum í deildarkeppninni, sem strangt til tekið skiptir lið eins og Oklahoma ekki nokkru einasta máli. Það er annað að mæta í úrslitakeppnina og láta lemstrað Dallas-lið taka af sér leik og hanga inni í nokkrum öðrum og láta svo gjörsamlega fræsa á sér andlitið í fyrsta leik í annari umferð.

Það eru leikmennirnir sem spila þessa leiki, en sorry Billy boy, þú verður að taka þennan. 

Og þið Mo Cheeks verðið að koma upp með eitthvað skothelt plan fyrir leik tvö ef þið ætlið ekki að líta út eins og fífl í þessari seríu.

Haldið þið að Billy Donovan haldi starfi sínu næsta vetur ef Oklahoma verður hent út í fjórum eða fimm leikjum í þessari seríu? 

Ekki við heldur - og ekki myndum við gráta það þó hann yrði látinn taka pokann sinn. 

Það getur vel verið að Donovan sé fínn þjálfari, per se, en eins og staðan er núna hefur hann ekkert að sýna eftir fyrsta veturinn sinn annað en lið sem er á hægri niðurleið á öllum sviðum körfuboltans. Það er bara staðreynd. 

Áður en við hlöðum í sleggjudóma skulum við hafa hugfast að það er bara einn leikur búinn í þessu einvígi og að það er nánast óhugsandi að Oklahoma eigi aðra eins hörmung af leik aftur í sömu seríunni (þetta var versta tap liðsins í úrslitakeppni síðan því var stolið frá Seattle). 

En eins og við sögðum hér að ofan, eru sum töp bara svo ógeðsleg að þau geta ekki annað en límt sig inn í huga leikmanna. Hvað haldið þið að leikmenn Oklahoma fari að hugsa ef San Antonio nær aftur 10-15 stiga forystu á þá í fyrsta leikhluta annars leiksins á mánudagskvöldið?

Óháð því hvort liðið færi með sigur af hólmi og óháð því hve margir leikirnir yrðu í einvíginu, vonuðumst við um fram allt til þess að það yrði myljandi skemmtilegt. 

Nú fengum við að sjá blástur í fyrsta leiknum, en vonum svo sannarlega að þeir verði ekki fleiri - að við fáum jafnari leiki það sem eftir lifir af rimmunni. Kommon, við eigum það inni.

Eitt verðum við að minnast á svona í lokin, af því það böggar okkur alveg hrikalega. Það eru viðhorf fólks til leikjanna í úrslitakeppninni. 

Tveir leikir koma sérstaklega upp í hugann í þessu sambandi, en það eru fyrsti leikur Golden State og Houston í fyrstu umferðinni og fyrsti leikur San Antonio og Oklahoma í nótt.

Þessir leikir voru sýndir beint á Stöð 2 Sport og áttu það sameiginlegt að heimaliðið vann stórsigur í þeim báðum - Golden State burstaði Houston og mörg ykkar sáuð svo San Antonio kjöldraga Oklahoma í nótt.

Nú er Twitter ekki algildur mælikvarði á viðhorf fólks til lífsins, en eins og margir vita er það ágæta apparat alveg ljómandi verkfæri til að nota með NBA áhorfi, sem er hið besta mál. 

En það var einmitt á Twitter sem við urðum vör við full mikla neikvæðni hjá fólki í garð leikjanna, eins og til dæmis í nótt þar sem fólk var að kvarta og kveina og væla yfir því að leikurinn væri ójafn.

Auðvitað viljum við öll að leikir séu jafnir og spennandi, en sumir virðast ekki átta sig á því að það er ekki hægt að panta spennuleiki fyrirfram, heldur eiga leikirnir það til að þróast alveg eftir eigin höfði.

Það eru til tvær tegundir af NBA leikjum: jafnir og ójafnir leikir. Flestir vilja að allir leikir séu spennandi, en sú er ekki raunin. En við verðum bara að segja að okkur finnst það ákaflega barnalegt viðhorf að stimpa leiki sem ekki eru jafnir sem eitthvað drasl eða "snúsfest."

Ef þið spyrjið okkur, værum við til í að horfa á Golden State og San Antonio kjöldraga lið á hverju einasta kvöldi ef svo býr undir, af því körfubolti er hefur upp á svo endalaust margt að bjóða þó leikurinn sé kannski ekki endilega spennandi. 

Erum við ekki að horfa á körfubolta í þeirri von að við fáum að sjá góðan körfubolta!?!

Það besta sem við gerum er að horfa á góð körfuboltalið spila góðan körfubolta og þá skiptir ekki sjitt máli hvort leikirnir eru spennandi eða ekki. 

Það er fagurfræðileg unun að horfa á lið eins og Spurs og Warriors slátra andstæðingum sínum, enda eru þetta tvo af sterkustu liðum samtímans á báðum endum vallarins, andskotinn hafi það! 

Þú ættir kannski bara að drulla þér út og fara að gera eitthvað annað ef þér fellur þetta ekki í geð. Horfa kannski á hrútleiðinlegan og lélegan háskólabolta, nú eða snúa þér bara alfarið að pílukastinu og meistaradeildinni í hestaíþróttum, af því það eru góðar líkur á því að þú sért ekki alveg að ná þessu með körfuboltann.

Plís, sko.

-----------------------------------------------------------------------------------------------

* - Okkur þykir miður að vera að linka á tölfræðiskýrslur frá ESPN eftir að þessi sauðnaut breyttu boxscorinu þannig að þú þarft að smella á "sýna varamannabekk" til að sjá heildartölfræði og tölfræði varamanna beggja liða og þú þarft að gera það aftur í hvert skipti sem þú refreshar síðuna.

Þetta er versta breyting í sögu internetsins og það sérstaklega af því það er nákvæmlega allt sem mælir á móti henni og ekkert sem mælir með henni. Þetta er rakið dæmi og sönnunn þess sem við höfum alltaf haldið fram, að hinn dæmigerði vefhönnuður hjá ESPN sé álíka vel greindur og hundasleði.



Vandamálið er bara að þrátt fyrir þessa heimskustu breytingu í sögu internetsins, er ESPN samt enn með skárstu boxscorin sem við höfum fundið. Reyndar er heimasíða NBA deildarinnar með ljómandi fínar tölfræðiskýrslur, en vefhönnuðirnir þar á bæ eru næstum því eins miklir fæðingarhálfvitar og kollegar þeirra á ESPN og hafa komið því þannig fyrir að það er alveg sama á hvaða síðu þú ferð á nba punktu com - það fer alls staðar í gang allt of hávært og gjörsamlega tilgangslaust video um leið og þú dettur inn á síðuna.

Heimskan sem saman er komin á þessum tveimur síðum er næg til að keyra tvö álver og ef þið hafið áhuga á þessum málaflokki, hvetjum við ykkur endilega til að senda síðunum - sérstaklega ESPN - línu og segja þeim hvað ykkur finnst um þessar heimskulegustu breytingar í sögu internetsins.

Síða ESPN var einu sinni fullkomlega solid og sinnti öllum þínum erindum á skjótan og einfaldan hátt. Undanfarin 3-4 ár hefur hún hinsvegar versnað og versnað og versnað og er ekki annað en gimmík í dag, þar sem er ekki lengur hægt að finna neitt af viti, heldur bara skrolla til eilífðarnóns niður einhver gjörsamlega tilgangslaus 30 sekúndna löng myndbönd sem ekki nokkur maður á jarðríki hefur áhuga á að skoða.

Það eina sem ESPN hefur umfram nba punktur com í þessum efnum er að þar er amk hægt að stilla það hvort helvítis myndböndin fara sjálf að spilast eður ei. Það er ekkert slíkt uppi á teningnum hjá heimasíðu NBA - enda er hún með yfirburðum sú versta sem við vitum um á internetinu.

Ef við vissum ekki betur, myndum við halda að fólkið sem hannar og heldur úti þessum síðum sé undirmálsfólk og hálfvitar, en það er auðvitað alls ekki þannig.

Þetta varð bara að koma fram, allt saman. Nú liður öllum betur.

Annars hafið þið tekið eftir því eins og við að ESPN er hægt og bítandi að missa frá sér allt sitt besta og áhrifamesta fólk og það er orðið augljóst að það er hægt og bítandi verið að skrúfa meira og meira fyrir fjárveitingar í þetta risavaxna batterí, þó það sé nú orðið partur af Illa Heimsveldinu hjá Disney.

Nú má ekki lengur eyða peningum í að framlengja við Bill Simmons, búa til 30 for 30 myndir, halda úti Grantland og halda almennilegum pennum og hönnuðum(!) í vinnu. Þeir eru eflaust farnir að skera við nögl í ljósritunarpappír, pennum og prentarableki af því að stjórn heimsveldisins verður að geta greitt sér út almennilegan arð. Svona virkar þetta í þessum heimi eins og öðrum.

Já, það er ekki ofsögum sagt að þetta hafi allt saman stigmagnast nokkuð snögglega.

Thursday, February 4, 2016

Hvernig varð Warriors-liðið svona gott?


Skondið. Við rákumst á grein í gær sem við skrifuðum um Warriors í desember árið 2012, þar sem við vorum á einlægan en samt nokkuð kaldhæðinn hátt að spá í það hvernig í fjandanum stæði á því að Golden State væri allt í einu farið að vinna körfuboltaleiki. Það var engin furða, því þið eruð sjálfsagt ekki búin að gleyma því að þetta Warriors-lið var brandari, okkur liggur við að segja áratugum saman.

Án þess að vera að berja okkur á brjóst, verðum við að minnast á það að í þessum pistli fyrir þremur árum vorum við að hrósa Warriors fyrir að hafa losað sig við Monta Ellis og bundum vonir við að liðið yrði betra eftir að hann færi. Það kom sannarlega á daginn, þó okkur hefði ekki órað fyrir því hvurslags bylting ætti eftir að eiga sér stað hjá félaginu. Það þarf svo sem enga eldflaugaverkfræðinga til að gefa sér það að körfuboltalið verði betra eftir að það losar sig við Monta Ellis, en gefið okkur þennan litla mola, fjandinn hafi það.

Við vorum ekki alltaf svona gáfuð, því þó við finnum ekki þau skrif (eða nennum ekki að leita að þeim) vorum við á einhverjum tímapunkti að rífast út í forráðamenn Warriors fyrir ákvarðanatöku þeirra. En þið getið ekki verið að bleima okkur fyrir að vera neikvæð út í félag sem átti sér áratuga langa sögu sem fjallaði ekki um neitt annað en undirmigur og brúnar brækur.

Spólum þrjú ár fram í tímann og þessi eitt sinn glórulausi klúbbur er kominn alveg út á hinn endann í litrófinu - hann er orðinn glórulaus af því hann er svo góður!

Við vitum að við erum alltaf að missa allar mögulegar gerðir af líkamsvessum yfir þessu Warriors-liði, en eins og við segjum ykkur alltaf, þetta lið er bara svo andskoti innspírerandi að við getum ekkert að þessu gert.

Kvöld eftir kvöld hristum við bara höfuðið og hlæjum út í nóttina á brjálæðislegri vampíruvaktinni, en hugsum um leið sorgmædd til alls fólksins sem vegna áhuga- eða þekkingarleysis síns - nú eða bara af því það er svo andskoti vitlaust - er ekki búið að uppgötva þessa bestu afþreyingu sem völ er á í heiminum um þessar mundir. Veit ekki af þessari fagurfræðilegu íþróttabyltingu sem er ólík öllu sem við höfum séð áður.

Það er alveg magnaður fjandi hve mörg félög í NBA deildinni hreinlega átta sig ekki á því að þau vaða um í villu og eyða milljörðum króna og dýrmætum mánuðum og árum undir því yfirskini að þau séu að búa til góð körfuboltalið. Við áttum okkur alveg á því að það er hunderfitt að byggja upp gott lið, hvað þá lið sem á að ná alvöru árangri, en ef sauðnautin sem stýra sorglegustu klúbbunum í NBA deildinni myndu gefa sér smá tíma til að skoða félög eins og Golden State, myndu þau átta sig á því á fimm mínútum að öll þeirra plön eru gjörsamlega fáránleg. Þetta á við rekstur eins og hefur verið stundaður hjá klúbbum eins og Sixers, Nets, Knicks og Kings undanfarin ár svo einhverjir séu nefndir.

Undirstöðuatriðið sem þarf helst að vera í lagi ef byggja á upp sæmilegt körfuboltalið er að vera með eigendur sem eru ekki súrrandi geðveikir.

Því miður  falla nokkrir klúbbar í NBA deildinni strax á þessu prófi og þið þekkið nokkra þeirra. Sjáið til dæmis eigendur Sacramento Kings og Brooklyn Nets. Þessir menn hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera og ákvarðanataka þeirra keyrir klúbbana þeirra í hvert átakanlegt strandið á fætur öðru.

Klúbbarnir sem eru svo heppnir að vera með sæmilega ógeðveika eigendur, hvað þá eigendur sem eru tilbúnir að eyða smá peningum og tilbúnir í að ráða fólk á skrifstofuna sem þeir treysta til að vinna vinnuna sína, eru strax með risavaxið forskot á alla hina.

Enn og aftur gerum við okkur grein fyrir því að skrifstofufólk sem hefur þekkingu og hæfileika til að byggja upp meistaralið í NBA deildinni vex ekki á trjánum. Langt í frá. En það eru nokkur atriði sem er hægt að hafa í huga þegar kemur að því að leita að fólki til að stýra körfuboltaklúbbum eins og öðrum sportklúbbum. Það er hægt að leitast við að ráða fólk sem er með góðar ferilskrár og allra helst fólk sem hefur reynslu af því að vinna körfuboltaleiki - kemur frá klúbbum með sigurhefð. Það er ekki til endalaust af svona fólki, en það er þarna innan um.

Golden State hefur náð að sanka að sér ljómandi fínum mannskap. Eigendurnir virðast sæmilega heilir, það er með goðsögn og reynslubolta eins og Jerry West í stjórninni, framkvæmdastjórnn Bob Meyers virðist vita hvað hann er að gera og þegar hér er komið við sögu, förum við að heyra nöfn sem við könnumst betur við.

Þessi lygilega velgengni sem Warriors nýtur um þessar mundir er uppskera gríðarlegrar vinnu, en það er ekki bara snilligáfa sem gerir það að verkum að dæmið hefur gengið upp hjá þeim. Það er líka góður dass af heppni í þessu öllu saman.

Þó þjálfaratíð Mark Jackson hafi að hluta til einkennst af hálfgerðum vitleysisgangi, sérstaklega þegar kom að samskiptum Jakcson við samstarfsfólk sitt, verður það ekki af honum tekið að hann átti sinn þátt í að koma félaginu á rétta braut. Eins og við sögðum ykkur var búinn að vera losarabragur á Warriors meira og minna áratugum saman, en Jackson tókst að ná vel til leikmanna og gera sitt til að breyta kúltúrnum hjá félaginu.

Jackson gerði líka óhemju vel þegar hann á einhvern stórfurðulegan hátt náði að gera Golden State að bullandi fínu varnarliði þó hann hefði enga fyrri reynslu af þjálfun. Sóknarleikur liðsins var vandræðalega lélegur, sérstaklega á miðað við efniviðinn sem var til staðar í leikmannahópnum, en varnarleikurinn góður og Jackson tókst líka að ná nokkuð vel til leikmanna eins og Stephen Curry og fylla þá af sjálfstrausti.

Samstarfsörðugleikar og lélegur sóknarleikur urðu Jackson að falli á sínum tíma og hann var látinn fara þrátt fyrir að hafa augljóslega rifið liðið alveg helling upp frá því sem áður var.

En nýjir eigendur voru ekki saddir, þeir vildu ná lengra og ákváðu að láta Jackson fara, sem var mjög umdeild ákvörðun út á við, þó þeir sem þekktu til hjá félaginu vildu meina að það hafi ekki verið annað í stöðunni en reka manninn.

Var það rakalaus útsjónasemi og snilld sem varð til þess að félagið réði Steve Kerr - annan nýliða í þjálfun - til að taka við af Jackson fyrir einu og hálfu ári?  Kannski að hluta til, en það getur enginn sagt 100% til um það hvort menn verða góðir þjálfarar í NBA eða ekki, sérstaklega ekki ef þeir eru ekki með neina reynslu.

Wednesday, January 20, 2016

Af dvínandi meistaravonum Cleveland


"Ég var ekki vanur að pæla í því að leikir gætu verið steitment-leikir þegar ég spilaði í deildinni, en það sem þetta Golden State-lið er að gera hérna... það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en steitment."

Það var eitthvað í þessum dúr sem hann Chris Webber sagði við Marv Albert þar sem þeir félagar sátu saman og lýstu leik Cleveland og Golden State á TNT sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi.

Ef það fór framhjá einhverju ykkar, þá valtaði Golden State yfir heimamenn í Cleveland 132-98, í leik sem var spennandi í um það bil fimmtán mínútur en breyttist svo í eitthvað sem er ekki hægt að kalla annað en hreina og klára slátrun. Það er hægt að senda frá sér yfirlýsingar með talsvert minna áberandi og afgerandi hætti en þetta.

Við erum sammála Chris Webber upp að vissu marki. Það er ekki alltaf mikið að marka þegar lið mætast í deildarkeppninni - sérstaklega ekki þegar þau eru á sitt hvorri ströndinni og mætast ekki nema tvisvar allan veturinn. Það getur því þýtt eitt þegar liðin mætast í nóvember og allt annað þegar þau mætast aftur í mars.

Nú eru Golden State og Cleveland búin að mætast í tvígang á leiktíðinni og mætast því ekki aftur fyrr en ef þau rekast aftur á hvort annað í lokaúrslitunum í júní.


Þegar þessi lið mættust á jóladag síðastliðinn, munum við að lengra komnir höfðu orð á því að báðir þjálfarar hafi haldið spilunum nokkuð þett upp að bringunni í þeim leik og þeir spáðu því að þau ættu bæði eftir að gera það í síðari viðureigninni. Það má vel vera að svo hafi verið, en það breytir því ekki að við erum alveg tilbúin í að lesa eitthvað út úr þessum leikjum - sérstaklega leiknum í gær.

Í okkar augum - og við erum svo heppin að hafa ekki hundsvit á körfubolta, þannig að það þvælist ekki of mikið fyrir okkur þegar við erum að leikgreina - styrkti leikurinn í gær okkur í ákveðinni trú.

Við höfum ekki verið tilbúin með að gefa út of stórar yfirlýsingar varðandi Golden State vs Cleveland fram að þessu af því það veit jú enginn hvernig þessi lið myndu smella saman í úrslitakeppninni ef þau mættust þar með alla sína menn heila.

En nú vitum við hvað gerist og erum tilbúin að deila því með hverjum sem vill heyra.


Cleveland á ekki fræðilegan möguleika í logandi helvíti í Golden State Warriors - hvorki í deildarkeppni, né seríu, með heilan leikmannahóp eða hálfan. Ekki breik. Ekki séns. Gleymdu því bara. Það er ekki að fara að gerast.

Hitti Golden State á toppleik og Cleveland á lélegan þarna í gær? Vissulega, en það breytir engu máli.

Þegar Warriors var búið að ná 40 stiga forskoti í leiknum, veittum við því athygli að það klikkaði á 4-5 galopnum þriggja stiga skotum sem það setur venjulega ofan í.

Það munaði sem sagt ekki miklu að Cleveland lenti yfir 50 stigum undir í þessum leik - á heimavelli - þar sem liðið tapar næstum aldrei. Sérstaklega með alla sína menn heila eins og það er loksins að gera nú um þessar mundir.

Þetta varð svo vandræðalegt á kafla að Andre Iguodala bókstaflega sofnaði á varamannabekk Warriors.