Showing posts with label Raptors. Show all posts
Showing posts with label Raptors. Show all posts

Friday, May 19, 2017

Allt um aðra umferð úrslitakeppninnar


Þegar úrslitakeppnin í NBA er upp á sitt versta, er hún dálítið eins og pizza. Oft fær maður pizzu sem er ekkert spes, en pizza er alltaf pizza og hún slær á hungrið og veitir einhverja (litla) næringu, þó hún sé kannski ekki best í heimi í það skiptið. Það má alveg eins setja kynlíf inn í þessa jöfnu í stað flatböku, fyrir þau ykkar sem borða ekki flatbökur.

Við ætlum að vona að einhver ykkar lesi NBA Ísland að staðaldri af þvi þið treystið því að við segjum ykkur sannleikann um deildina okkar. Við reynum alltaf að gera það - vera samkvæm sjálfum okkur og kalla endur endur og erni erni.

Og það þarf enga sérfræðinga til að segja ykkur að úrslitakeppnin í NBA 2017 er búin að vera afskaplega döpur og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, er þetta mögulega ein slappasta úrslitakeppni sem við munum eftir á seinni árum.

Það þurfti hvorki Nasa-starfsmenn né Nóbelsverðlaunahafa til að spá því strax í haust að líklega ættum við eftir að fá lokaúrslit með sömu liðunum þriðja árið í röð. Cleveland færi þangað þriðja árið í röð af því það spilaði í Austurdeild sem var svo mikið drasl að ekkert lið gæti ógnað því.


Golden State kæmist ekki hjá því að komast þangað eftir að það bætti Kevin Durant í leikmannahóp sinn - og þá alveg sama hvort það yrðu meiðsli í herbúðum liðsins eins og á síðustu leiktíð eða ekki. Já, margir urðu hreinlega reiðir og sögðu að tímabilið væri ónýtt og kenndu Kevin Durant helst um allt saman. 

Því miður gengu þessar spár eftir í deildarkeppninni, því Golden State fræsti sig í gegn um deildarkeppnina og náði besta árangri allra liða í deildinni með lítilli fyrirhöfn, þó San Antonio hafi þó veitt því sæmilegt aðhald lengst af í vetur. 

Og þessar leiðindaspár hafa mestmegnis gengið eftir í úrslitakeppninni, því þegar þetta er ritað, eru Golden State (10-0) og Cleveland (9-0) enn taplaus í úrslitakeppninni og hafa ekki aðeins verið miklu betri en allir andstæðingar sínir, heldur hafa þau líka verið miklu heppnari en andstæðingarnir (með meiðsli). 

En ætlun okkar með þessum pistli er ekki að greina undanúrslitin eða úrslitin, það kemur síðar, heldur ætlum við að renna stuttlega yfir hvað gerðist í annari umferð úrslitakeppninnar. Og já, við erum í alvörunni að spá í að reyna að gera þetta stuttlega að þessu sinni, þó þessi langloka okkar hérna í byrjun gefi sannarlega merki um eitthvað allt annað.*

Látum okkur sjá. Byrjum fyrir austan eins og venjulega:



CLEVELAND 4 - TORONTO 0

Andstæðingar Cleveland í austrinu eru löngu búnir að gera sér grein fyrir því að það útheimtir ákveðna auðmýkt að mæta LeBron James og félögum í úrslitakeppninni. Toronto-liðið er eitt þessara liða og eftir þessa nýjustu rimmu þessara liða er lúbarinn og vælandi hundur, liggjandi á götunni, fyrsta myndlíkingin sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um þetta einvígi.

Við vitum vel að Kyle Lowry var meiddur og missti af megninu af seríunni. Hann er besti leikmaður Toronto og því vantar að sjálfssögðu ansi mikið í Kanadaliðið ef hans nýtur ekki við. Vitið þið hvað? Það skiptir samt ekki nokkru einasta helvítis máli. 

Þetta Toronto lið - sem var meira að segja búið að sækja sér liðsstyrk sem átti að hjálpa til við að veita Cleveland meiri keppni - hafði aldrei, aldrei trú á því að það gæti unnið Cleveland. Ekki einu sinni í sínum villtustu draumum.

Og þetta fundu James og félagar, sem voru byrjaðir að leika sér að Toronto liðinu eins og háhyrningar að vönkuðum selskóp þegar aðeins örfáar mínútur voru liðnar af leik eitt. 


Það var hreinlega átakanlegt að horfa upp á þetta. Toronto liðið var ekki jafn vonlaust og karakterslaust og Atlanta hér um árið, en við vorkenndum Snareðlunum frá fyrsta leik. Þær höfðu ekkert í þessa rimmu að gera og hefðu alveg eins getað setið heima.

Það er eitt að tapa seríu, annað að gera sig nánast að fífli. Það er stór munur þarna á, eins og við munum koma að síðar í þessum pistli. Sóp er ekki endilega það sama og sóp, sjáið þið.

Nú eru gríðarlega stórar ákvarðanir á döfinni hjá Toronto. Forráðamenn félagsins þurfa að ákveða hvort þeir ætla að framlengja samningana við nokkra af lykilmönnum sínum, þar sem Kyle Lowry og samningurinn hans stendur auðvitað hæst. 


Toronto er nú þegar með 7. hæsta launakostnaðinn í NBA deildinni en ef félagið ætlar að framlengja við alla sína menn, fer það svo hátt yfir launaþakið að það þyrfti líklega að borga lúxusskatt sem nemur launakostnaði 2-3 félaga í viðbót. Það gefur augaleið að það er ekki raunhæfur valkostur og þó ekki væri nema bara þess vegna, er augljóst að breytinga er að vænta hjá Toronto.

Auðvitað eru stuðningsmenn Toronto og ansi margir hlutlausir í netheimum, löngu byrjaðir að öskra upphátt og heimta að forseti körfuboltamála hjá félaginu Masai Ujiri sprengi liðið algjörlega upp og byrji upp á nýtt. 

Flestir tippa á að Dwane Casey þjálfari verði látinn fara í sumar (persónulega erum við nokkuð hissa á því að hann skuli enn halda starfi sínu) og að Raptors verði með duglegri félögum á markaðnum í sumar. Gallinn er bara að það lítur enginn við mannskapnum hjá þeim og tæki sennilega ekki við honum gegn greiðslu.

Útlitið hjá Toronto er ekki alveg svart, það eru nokkrir ungir leikmenn í hópnum sem gefa einhverja ástæðu til bjartsýni, en það er ljóst að aðalliðið hans Casey með þá Lowry og DeRozan í fararbroddi, er bara ekki að gera sig þegar kemur að úrslitakeppni, þó þeir vinni 50 leiki í svefni í deildarkeppninni.

Hér komum við að þessari sígildu spurningu sem alltaf er fyrst fram á varirnir þegar kemur að því hvort félög eiga að halda baráttunni áfram með óbreytt lið eða stokka allt upp á nýtt. Það er hvort félagið treystir sér til þess að bjóða stuðningsmönnum sínum upp á þau óhjákvæmilegu ár sem framundan eru ef taka á ákvörðun um að byrja upp á nýtt. 



Og félög á borð við Toronto eru einfaldlega mjög rög við að fara út í svo drastískar aðgerðir, af því forráðamenn félagsins muna enn allt of vel hvernig það var að vera skítalið sem enginn tók alvarlega, átti enga aðdáendur alþjóðlega, enga stjörnuleikmenn og aldrei komst í úrslitakeppnina. 

Á þessum ógeðslega stað var Toronto um árabil og rétt eins og er með LA Clippers og við sögðum ykkur frá í vesturhelmingi uppgjörsins um 1. umferðina, eigum við erfitt með að sjá að stjórn Toronto hafi kjark í að fara í dramatískar aðgerðir þegar hún er með 50 sigra lið í höndunum - alveg sama hversu ógeðslega LeBron James niðurlægir það á hverju einasta vori. 

Það er ekki eins og þetta sé eitthvað skemmtileg staða sem þeir eru í, aumingja Toronto-mennirnir. Það er ekki víst að sé ljós í enda ganganna, hvora leiðina sem þeir velja.

BOSTON 4 - WASHINGTON 3

Einvígi Boston og Washington átti fátt sameiginlegt með jarðarförinni í Toronto, því fyrir það fyrsta voru þar á ferðinni tvö körfuboltalið sem voru áþekk að styrkleika. Munurinn á liðunum var bara tvíþættur þegar upp var staðið - og allt hugsandi fólk gat sagt sér það fyrir einvígið - Boston var með heimavallarréttinn og var, öfugt við Washington, með körfuboltamenn á varamannabekk sínum sem voru með mælanlegan púls.

Saturday, May 28, 2016

Af lokaúrslita-LeBron og Toronto á Tene


Manstu eftir þessum sveppum hérna fyrir ofan? Það hlýtur eiginlega að vera, því það er ekki svo langt síðan þeir réðu öllu í Austurdeildinni eins og Detroit hafði gert árin á undan þeim. Af hverju erum við að rifja þetta lið upp? Jú, af því þetta er síðasta alvöru liðið sem LeBron James þurfti að kljást við í Austurdeildinni.

Cleveland fór loksins að taka hlutina alvarlega eftir neyðarleg töp í leikjum þrjú og fjögur gegn Toronto og gjörsamlega valtaði yfir Kanadaliðið í leikjum fimm og sex. Það var nákvæmlega ekkert óvænt við það. Munurinn á þessum liðum er í raun og veru stjarnfræðilegur, þó þau hafi nánast verið jöfn í töflunni í deildarkeppninni.

LeBron James er nú að fara í lokaúrslitin sjötta árið í röð og auðvitað er það til marks um hversu magnaður leikmaður hann er að hann skuli vera búinn að ná þessum árangri með sitt hvorum klúbbnum. Þú þarft að vera heppinn með að sleppa við meiðsli og ákveðinn snillingur ef þú átt að komast í lokaúrslit sex ár í röð - og viti menn - LeBron James er heppinn með meiðsli og snillingur.


En við skulum ekki sykurhúða þetta meira en nauðsyn krefur. Í rauntali sagt, hafa liðin hans LeBron James mætt aaafar lítilli mótspyrnu síðan áðurnefnt Celtics-lið lagði upp laupana. Eina liðið sem náði að stríða Miami-liðinu hans LeBrons í úrslitakeppninni var Indiana á sínum tíma. Það var ágætis lið, fínt varnarlið, en ákaflega takmarkað þegar upp var staðið. Það gat farið með Miami í oddaleiki, en þegar allt var í járnum, gat þetta lið bara ekki búið til stig og féll á því, aftur og aftur og aftur. Og gerir raunar enn.

Chicago hefði strangt til tekið átt að vera öflugasti andstæðingur Miami-liðsins á sínum tíma, en meiðsli eyðilögðu hverja einustu leiktíð hjá þeim og gera enn. Önnur lið voru þremur þrepum fyrir neðan Miami og aldrei annað en það sem við köllum fallbyssufóður.

Og ekki tók "betra" við þegar LeBron James gekk aftur í raðir Cavs, því síðan hann flutti heim, hefur Cleveland verið eina liðið sem getur eitthvað í Austurdeildinni. Eitthvað!

(Á töflunni hér fyrir neðan sérðu að það eru ekki nema FIMMTÍU ár síðan körfuboltamaður komst síðast í lokaúrslitin sex ár í röð eða oftar. Það voru allt aðrir tímar og allt annar bolti en tíðkast í dag. Varla sama íþrótt, satt best að segja. 

Svo eru jú þrjátíu lið í deildinni í dag, en okkur minnir að þau hafi verið níu þegar Boston vann titilinn átta ár í röð frá árinu 1959 til 1966. Þessi mulningsvéll af liði vann alls ellefu titla á þrettán ára kafla á sjötta og sjöunda áratugnum og Bill Russell tók þátt í þeim öllum).



















Eins og við höfum talað um svo oft, þarf eitthvað lið að fara með Cleveland í undanúrslitin úr Austurdeildinni hvort sem það er skítlélegt eða ekki. Á síðstu leiktíð var það Atlanta sem var þetta skítlélega lið (okkur er alveg sama þó það hafi unnið sextíu leiki í deildarkeppninni), enda sópaði Cleveland því út úr úrslitakeppninni með svo afgerandi hætti að við höfum sjaldan séð annað eins.

Atlanta liðið var gjörsigrað frá fyrstu mínútu í þessu einvígi, hafði enga trú á því sem það var að gera og sýndi álíka mikinn karakter og stjórnmálamaður. Lögðust niður grenjandi og létu keyra yfir sig og það þó Cleveland-liðið hafi m.a. verið án Kevin Love í seríunni eins og þið munið.

Það kom í hlut Toronto að vera í þessu hlutverki í ár eins og þið vitið, en Snareðlurnar brugðust nákvæmlega öfugt við því að mæta LeBron. Þær börðust eins og ljón, þó þær fengu stundum hrikalega ljóta skelli og náðu að krafsa út sigra í tveimur leikjum.

Þú trúir kannski ekki á svona móralska sigra, en þú gætir þurft að taka það til endurskoðunar. Toronto var að komast í undanúrslitin í fyrsta skipti í sögu félagsins, sem var auðvitað ákaflega spennandi fyrir klúbbinn, en hvort heldurðu að sé betra veganesti inn í næsta vetur - að vera sópað fjögur núll, eða að hafa náð að gera einvígi úr þessu í smá stund og vinna tvo leiki?

Toronto var aldrei, aldrei að fara að vinna þessa seríu, það er bara ekki nógu gott lið, en það verður forvitnilegt að sjá hvaða pól þeir taka í hæðina með þetta lið á næstu misserum. Þið munið kannski að það er í rauninni algjör tilviljun að þetta lið hafi raðast svona saman, því Toronto menn ætluðu að stokka þetta allt upp og fara að tapa aftur með það fyrir augum að byggja upp nýtt lið. Svipað og Portland var að gera.

En svo fór liðið óvart að vinna allt of marga leiki og þá voru plönin um uppstokkun sett á ís og nú er svo komið að þeir eru smátt og smátt að pikka einn einn og einn leikmann inn í dæmið hjá sér en byggja að mestu á leikmannakjarnanum sem þeir eru með fyrir - ungum mönnum eins og Kyle Lowry, DeMar DeRozan og Jónas Val-ansi-Jónas.

Þetta lið er ekki meistaraefni og verður aldrei með þennan kjarna, en það er nógu gott til að míga utan í Cleveland í toppbaráttunni í deildarkeppninni en tapa svo örugglega fyrir því í úrslitakeppninni. Svona er þetta bara í austrinu og þetta er veruleiki sem blasir við öllum hinum liðunum sem komust í úrslitakeppnina þeim megin lands.

Það er því rosalega kósí fyrir LeBron James að vera svona einráður í deildinni sinni og hann er náttúrulega að njóta góðs af ýmsum forgjöfum í því sambandi. Fyrir það fyrsta er náttúrulega ekkert lið í austrinu sem getur veitt Cleveland einhverja samkeppni og því heyrir það til undantekninga ef liðið sópar andstæðingum sínum ekki.

Þarna kemur afar mikilvæg hvíld inn í dæmið, hvíld sem LeBron James þarf nauðsynlega á að halda nú orðið, enda orðinn fullorðinn maður. Og á meðan Cleveland er bara á ströndinni að tana sig eftir öll þessi sóp, eru verðandi mótherjar þeirra í Vesturdeildinni að fara í gegn um hverja blóðugu baráttuna eftir aðra og grænda sig í drasl.



















En það þýðir ekkert fyrir okkur að vera að bölsótast út í LeBron James ræfilinn þó að þetta sé svona. Hann hafði vit á þvi að halda sig í Austurdeildinni þegar hann tók allar þessar Ákvarðanir sínar og þar er meira en huggulegt að vera. James er líka að nýta hvern dropa af þeim hagnaði sem það færir honum. Og þó það nú væri. Maðurinn ætlar að vinna eins mikið og hann getur meðan hann spilar í þessari deild.

Nú er Toronto farið á Benidorm* og Cleveland komið í lokaúrslitin eins og við vissum öll. Liðið bíður þess nú að fá að vita hvort það fær meistara Golden State eða ólíkindatólin í Oklahoma í keppninni um allar kúlurnar.

Við ætlum ekkert að fara að spá í spilin með það núna, en langar samt að vekja athygli á einu litlu atriði varðandi lokaúrslitin sem er ekki víst að allir hafi áttað sig á. Ef Golden State fer í fænalinn, verður liðið að sjálfssögðu með heimavallarréttinn gegn Cleveland eins og hvaða liði sem er í deildinni af því það setti jú met yfir fjölda sigra í deildarkeppninni (73).


En fari svo að Oklahoma komist í úrslitin, verður nefnilega Cleveland með heimavöllinn af því það vann 57 leiki í vetur en Oklahoma aðeins 55. Þetta er afar mikilvægt atriði í okkar huga ef Oklahoma tækist að slá Golden State út. Við sjáum ljóslifandi dæmi um það hvað eftir annað í hverri einustu úrslitakeppni hvað bölvaður heimavöllurinn er hrikalegar mikilvægur þegar kemur í svona hnífjafnar seríur.

Í lokaúrslitunum verður keppt með 2-2-1-1-1 fyrirkomulaginu alveg eins og í áðurgengnum umferðum eftir að 2-3-2 sýstemið var lagt niður á sínum tíma - segjum að séu tvö ár síðan.  Og vá, hvað þér er skítsama um það, lol.

Nýja fyrirkomulagið þýðir að öll ferðalög verða stífari hjá leikmönnum, starfsmönnum og fjölmiðlafólki, en það skiptir ekki nokkru máli þegar komið er í lokaúrslitin því deildin er alltaf að lengja og lengja tímann á milli leikja og gott ef hann verður ekki lengdur enn meira í ár. Ætli verði ekki einhverjar þrjár til fjórar vikur á milli leikja í finals í ár.

En svona í alvöru, er sýstemið í lokaúrslitunum steingelt og handónýtt út af þessum langa tíma sem líður á milli leikja, sérstaklega af því fólk er komið upp á lag með það í t.d. undanúrslitunum að það séu leikir á hverju einasta kvöldi.

Svo þegar kemur í lokaúrslitin er svo langt á milli leikja að fólk er gjörsamlega dottið úr væbinu og stemmaranum þegar er loksins komið að næsta leik. Þetta er rosalegur galli. Ekki galli, svona eins og apaskinnsgalli (#landsbyggðin), heldur galli, eins og í gallagripur.


Að lokum er svo rétt að benda ykkur á að restin af leikjunum í úrslitakeppninni verða sýndir beint á Stöð 2 Sport. Leikur sex hjá Oklahoma og Golden State, sem er ekki nema rétt RISAVAXINN, er í beinni í nótt (laugardag) klukkan eitt og ef til oddaleiks kemur, verður hann í beinni á sama tíma á mánudagskvöldið. Lokaúrslitin verða svo öll sýnd beint eins og vant er og hérna getur þú séð áætlaða leiktíma í úrslitunum eftir því hvort liðið fer áfram úr Vesturdeildinni.

Við vonum samt að þú sért ekki að lesa þetta og pæla í því í leiðinni hvaða leikir verði sýndir og hverjir ekki, þegar þú ert með dagskrársíðuna á NBA Ísland beint fyrir framan nefið á þér. Við uppfærum þessa dagskrá alltaf eins fljótt og við getum.

Það er dálítið skondið að þó við eigum merkilega stóran lesendahóp hér á NBA Ísland, virðast ekki nema um það bil þrjú prósent af þessu ágæta fólki átta sig á því að þessi dagskrársíða skuli vera virk. Annars lendum við í því reglulega að vinir og fjölskyldumeðlimir senda okkur línu í óðagoti og spyrja hvort og hvenær einhverjir leikir séu í beinni. Kommon sko...

----------------------------------------------------------------------------------------------

* - Það stuðlar reyndar miklu betur að senda Toronto til Tenerife en Benidorm, þannig að við erum            að hugsa um að gera undantekningu í þetta skiptið. Toronto fer á Tene - önnur á Bene.

Wednesday, May 25, 2016

Jæja, Cleveland...


Auðvitað vorum við að jinxa seríuna áfram þegar við slógum upp fyrirsögn hér á dögunum sem sagði að mótherjar Cleveland í Austurdeildinni gætu ekki skít!* Allt fyrir ykkur. Viljum við ekki öll fá fullt af leikjum?

Það sem vekur athygli okkar við Cleveland-Toronto-seríuna er hvað Cleveland hefur spilað eins og aumingjar í síðustu tveimur leikjum, sérstaklega í vörninni. Það hlaut að koma að því að þetta lið hætti að skjóta 70% úr þriggja stiga skotum, en það á að vera alveg nógu gott í vörn til að halda Toronto niðri í annað hvort leik þrjú eða fjögur til að geta farið heim og klárað í leik fimm.

Ekki aldeilis.

Út frá sjónarhóli Cleveland, sjáum við ekki alveg hvað er svona flókið við að dekka lið sem er með tvo valkosti í sóknarleik sínum og ekkert að frétta í teignum af því sóknarmiðherji þess (Jónas, nokkur) er ekki með. Án þess að vera að verja Cleveland-menn, var allt að detta fyrir Toronto-liðið í þessum síðustu tveimur leikjum og hið andstæða uppi á teningnum hjá LeBron og félögum.

Það má samt ekki taka það af Kanadamönnunum. Þeir áttu skilið að vinna þessa leiki. Það er svo einfalt. Nú standa þeir frammi fyrir því að fara til Cleveland og reyna að halda þessum látum áfram þar. 

Það er ekki séns í helvíti og Cleveland vinnur auðveldan sigur í leik fimm. Hvað gerist svo eftir það, er okkur ráðgáta.

Okkur þótti áhugavert að sjá talsmann LeBron James á ESPN, hinn þéttvaxna Brian Windhross, taka Tyronne Lue þjálfara Cleveland af lífi í pistli eftir fjórða leikinn. 

Þar sagði hann að Lue hefði verið að gera nýliðamistök sem þjálfari og meðan annars gert þau mistök að láta LeBron James spila allt of mikið í leik fjögur (46 mínútur). 

Windhrossið skrifar ekki svona beitta pistla um Cleveland nema LeBron James gefi grænt ljós á þá og því vakti þessi árás á þjálfarann óneitanlega áhuga okkar. Þessi pistill þýðir bókstaflega að LeBron James sé ekki sáttur við hvernig þjálfarinn hans er að að vinna hlutina. 

Það sem hann ætti hinsvegar að hafa meiri áhyggjur af, er að finna svör við því af hverju Cleveland getur ekki unnið lið eins og Toronto nokkuð örugglega.

Svona er þetta. Það þarf ekki nema tvo leiki til að breyta hinni fullkomnu leiktíð í kúkableyju. Fyrir fimm dögum var Cleveland á krúskontról á leið í úrslitin - taplaust og hitti úr öllu sem það grýtti á körfuna. Núna líta þeir út eins og aular á móti liði sem á ekkert erindi í undanúrslit NBA deildarinnar. Hvað heldurðu að Toronto myndi vinna marga leiki í sjö leikja seríu á móti Oklahoma og Golden State? Nú, eða San Antonio eða heilbrigðu Clippers-liði? Hekk, Portland? Áhugaverð pæling í hugum ritstjórnarinnar.

Blóraböggullinn hjá Cleveland þessa stundina, ef þjálfarinn er undanskilinn, er kunnuglegur náungi. Maðurinn sem er búinn að vera blóraböggullinn hjá liðinu frá fyrstu mínútu sinni hjá Cleveland. Dýrasti rulluspilari í heimi - Kevin Love.

Það kemur svo sem ekkert mikið á óvart að hann Ástþór okkar hafi fengið að heyra það, því hann er ekki að skila nema 11 stigum, 5 fráköstum og 36% skotnýtingu í einvíginu við Toronto.  

Til samanburðar er LeBron James að skjóta 64% í seríunni við Toronto þó hann sé að skjóta eins og blindur órangútan í þriggja stiga skotum (18%). Aumingja Kevin Love á aldrei eftir að gera neinum fyllilega til geðs meðan hann býr í Cleveland. Það er að verða nokkuð ljóst.

Annars er fyllilega eðlilegt að Channing Frye sé að skjóta 23 af 40 (58%) í þristum og skora níu stig að meðaltali í leik fyrir Cleveland í úrslitakeppninni. 

Við lýstum yfir hrifningu okkar af ákvörðun Cleveland að pikka hann upp í vetur, en bjuggumst ekki alveg við þessu. 

Cavs-liðið er algjört skaðræði í sóknarleiknum þegar það er með Frye í fimmunni - ekki síst þegar drengurinn er að skjóta svona. LeBron James getur keyrt á körfuna eins og hann hefur úthald til.

Á Kyle Lowry skilið að fá klapp á bakið fyrir frammistöðu sína í síðustu tveimur leikjum? Líklega. 

Hann spilaði eins og hann gerir best og án hans væri Toronto ekki búið að jafna þessa seríu. En það hvernig drengurinn er búinn að spila bókstaflega eins og jójó alla úrslitakeppnina sýnir svart á hvítu að Kyle Lowry er bara mjög góður körfuboltamaður. 

Hann er ekki stórstjarna. Hann er ekki leikmaður sem á að spila í Stjörnuleiknum ár eftir ár og ekki DeMar Derozan heldur. Þeir eru ekki alvöru stórstjörnur - bara mjög góðir körfuboltamenn. Og það er líka alveg í fínu lagi.

Lítum við út eins og fífl og fávitar fyrir að hafa skrifað Toronto út af sakramentinu í stöðunni 2-0? Já, já, við skulum alveg taka það á okkur eins og annan asnaskap sem við berum ábyrgð á. En treystið okkur samt. Við lítum ekki eins illa út eins og Cleveland gerir núna.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Þetta er reyndar haugalygi frá a til ö.

Friday, May 20, 2016

Cleveland fær enga samkeppni í Austurdeildinni


Þetta er eiginlega verra en við reiknuðum með. Við vorum að vona að Toronto gæti eitthvað staðið í Cleveland í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar, þó nákvæmlega ekkert benti til þess. Cleveland er búið að taka 2-0 forystu í rimmunni og þó mótspyrnan hafi verið aðeins meiri hjá Toronto í leik tvö, þurftu Cleveland menn ekki að fara í sturtu eftir leikinn.

Þeir eru vissulega meiddir, Kanadamennirnir sem eru engir Kanadamenn, en þeir voru líka að væla um þreytu eftir annan leikinn. Kommon. Toronto er búið að spila helmingi fleiri mínútur en Cleveland í úrslitakeppninni, en svona ungt lið eins og Toronto hefur engar afsakanir fyrir því að geta ekki drullast til að spila á 48 tíma fresti.

Það er alltaf annar Toronto-bakvörðurinn eða báðir í einhverri krísu. Nú er það Kyle Lowry sem er í krísu af því hann er búinn að skjóta 4 af 14 í báðum leikjum og er búinn að hitta einu af sextánhundruðogáttatíuþúsund 3ja stiga skotum sínum.


Lowry er samt frákastahæsti leikmaður Toronto liðsins í seríunni við Cleveland.

Með fimm fráköst að meðaltali í leik...

Dæs...

Toronto spilaði þokkalega vörn á köflum í  seríunni við Miami, en þeir eru búnir að stengleyma hvernig þeir fóru að þvi. Það þarf víst að dekka aðeins fleiri menn hjá Cleveland. Það eru fleiri en einn maður þar sem geta skorað.

Andstæðingar Cleveland hafa ekki verið andskoti merkilegir í úrslitakeppninni fram að þessu, en á einhverjum tímapunkti verðum við að gefa þeim smá kúdós fyrir að skjóta svona fyrir utan. Cavs er með þrjá leikmenn sem eru að skjóta 50% eða betur í þristum og sex leikmenn sem eru 45% eða betur. Þetta er frekar mikið rugl sko.






















Þið eruð búin að heyra og lesa það út úr LeBron James í allan vetur að hann hefur mjög ákveðnar hugmyndur um það hver sé besti körfuboltamaður heims.

"Verðmæti, serðmæti!" segir hann upphátt við sjálfan sig þegar kemur fimm mínútna löng syrpa í sjónvarpinu sem sýnir Stephen Curry raða niður þriggja stiga körfum og taka við Podoloffnum úr höndum Stjórans. Annað árið í röð.

"Sjá þennan titt..."


Cleveland er ekki með fullkomið lið, en það er mesta furða hvað það hefur komið sér á góða siglingu í úrslitakeppninni. Það var búið að vera drama í allan vetur, alveg eins og síðasta vetur, og það var meira að segja búið að vera hikst á liðinu í nokkrum leikjum í úrslitakeppnini. Samt virðist þetta ætla að smella sæmilega saman fyrir rest.

Nú eru líka allir heilir. Það er allt annað að spila við Golden State með stjörnuleikmenn á hvora hönd í stað þess að þurfa að gera allt sjálfur. Nei, sko, ALLT sjálfur. Enga svoleiðis steypu aftur.

Og nú er líka boðið upp á reglulega hvíld. Svo mikla að það liggur við að liðið detti úr takti. Enginn alvarlega meiddur núna. Nú verður tekinn almennilegur slagur og nú sjáum við hvort er hægt að vinna titil í Cleveland eða ekki.

LeBron James er náttúrulega að hugsa um:


Og ef það á að lúkka rétt, þarf að fara að koma titill áður en glugginn lokast.
Áður en það verður of seint.

Það veltur alveg á Cleveland hvað Toronto serían verður löng. Það getur vel verið að þeir leyfi þessu að fara í fimm leiki, bara svona til gamans. Það kæmi okkur þó alls ekki á óvart þó Cleveland myndi sópa þessu.

Vonandi fyrir stuðningsmennina nær Toronto að bjarga andlitinu með því að vinna einn eða tvo leiki heima svo þetta verði ekki alveg tilgangslaus ferð í úrslit austursins hjá þeim greyjunum.

Kaldur og nöturlegur veruleikinn blasir samt við Kanadaliðinu. Toronto er laumufarþegi í undanúrslitum og er tveimur klössum veikara lið en hin þrjú sem eru eftir.

Þetta þýðir að LeBron James er að krúsa inn í enn eitt lokaúrslitaeinvígið án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir því og þetta hefur aldrei verið eins létt fyrir hann eins og í ár.

Cleveland er tíu núll og  er að setja alls konar met. Við nennum ekki að telja þau upp, af því Cleveland mönnum gæti ekki fræðilega verið meira sama um þau. Þeir vilja bara klára upphitunina svo þeir geti byrjað á bardaganum.

Eitt þarf að koma hér fram, mjög mikilvægt atriði. Fólk þarf að taka höfuðið út úr ristlinum á sér og átta sig á því að LeBron James er ennþá alveg hrikalega góður í körfubolta.

Við verðum alltaf vör við það reglulega að einhverjir ellilífeyrisþegar og aldamótabörnin eru að hrauna yfir hann. LeBron er bara old news og drasl af því Stephen Curry er búinn að vera leikmaður ársins tvö ár í röð. Kommon.

LeBron er að spila á krúskontról núna af því hann þarf ekki að eyða meiri orku í þetta, en hann er samt að spila stórkostlega.

Hann henti í þrennu í nótt til gamans og minnti okkur á það hvað hann er viðbjóðslega góður í körfubolta. Það eru allir búnir að taka honum sem sjálfsögðum hlut þrjú ár og eru því búnir að gleyma því að leikmenn eins og hann koma fram á fimmtíu ára fresti.

Við erum að segja ykkur það: LeBron James er HARÐ ákveðinn í að hjóla í hvaða stórstjörnu sem það verður sem hann mætir í úrslitum og sýna henni eða þeim hver er besti körfuboltamaður í heimi.

Minnir á þetta skemmtilega komment í úrslitunum í fyrra (1:03).



LeBron James verður á missjóni sem aldrei fyrr í lokaúrslitunum í næsta mánuði og það verður geggjað að fá að fylgjast með því. Curry? KD? Russ? LeBron? Hver ætlar að hirða hásætið?

Friday, December 12, 2014

Vörutalning - Austurdeild


Nú eru flest liðin í NBA deildinni búin að spila tuttugu leiki og þá fer að verða hægt að rýna vitrænt í það hvað er að gerast í deildinni. Stutta útgáfan er að Vesturdeildin er svo sterk að annað eins hefur varla sést, en það þýðir vitanlega að Austurdeildin er mögulega að verða lélegri en áður, sem er afrek svo ekki sé meira sagt. En eins og allir sem lesið hafa NBA Ísland í fimm ár vita, er ekkert til á þessu vefsvæði sem heitir stutta útgáfan. Þannig að...

AUSTURDEILD

Auðvitað er Toronto í efsta sæti Austurdeildarinnar...

Toronto er í alvöru í efsta sæti Austurdeildarinnar þegar þetta er skrifað. Það er ekkert stungið af, en það er samt í efsta sæti. Toronto er veiðihári á undan Atlanta í efsta sætinu, manstu ekki, Atlanta sem byrjaði leiktíðina 1-3...

Ekki misskilja okkur. Toronto (16-6), Atlanta (15-6) og Washington (15-6) eru fín körfuboltalið, en þú veist að deildin þín er ekkert rosalega sterk ef þessi þrjú lið toppa hana.

Þessi lið eru öll með betra en 70% vinningshlutfall og það er fínt, en kommon. Það er ekkert heimsmet að vinna sjö af tíu leikjum í þessari Austurdeild, þar sem þú ert að spila við lið eins og New York, Detroit og Philadelphia kvöld eftir kvöld.

Það hefur hinsvegar margoft komið fram á þessu vefsvæði að það er ekki liðum eins og Toronto, Atlanta og Washington að kenna að hin liðin í deildinni þeirra (Austurdeildinni) séu rusl. Ókei, þá vitum við það.

Thursday, November 20, 2014

Hetjan og skúrkurinn Vince Carter


Snareðlurnar frá Toronto eiga ekki tvítugsafmæli fyrr en eftir eitt ár, en félagið er strax byrjað að fagna því með fortíðarblæ. Í nótt tóku forráðamenn Raptors loksins þá ákvörðun að heiðra fyrrum leikmann sinn Vince Carter með smá myndbandssýningu á risaskjánum.

Margir voru búnir að bíða ansi lengi eftir þessu augnabliki. Sumir til að fá tækifæri til að klappa honum lof í lófa, en aðrir til að baula á hann. Vince Carter lék með Toronto frá árinu 1998 til ársins 2004, þegar honum var skipt til New Jersey Nets fyrir dauða hænu, ryðgað stjörnuskrúfjárn og hálfan pakka af bláum Gajol - sem er ekki einu sinni góður eins og þið vitið.

Sumir segja að fyrsta höggið í þessu drama hafi komið frá félaginu, að það hafi verið klúbburinn sem klúðraði þessu öllu saman og flæmdi Vince í burtu. Við trúum því mætavel að félagið hafi klúðrað fullt af hlutum - það er staðreynd - en það er ekki hægt að kenna því um brotthvarf Vince Carter.

Carter nefnilega hætti bara!

Monday, September 30, 2013

Snareðlurnar eru tvítugar í dag


Í dag eru tuttugu ár síðan Toronto fékk grænt ljós á að stofna félag í NBA deildinni. Eins og flestir muna voru Kanadaliðin tvö á þessum tíma, Toronto Raptors og Vancouver Grizzlies.

Toronto spilaði sinn fyrsta leik í NBA deildinni haustið 1995. Isiah Thomas var fyrsti framkvæmdastjóri Raptors og Damon Stoudamire var fyrsti nýliðinn í sögu félagsins.

Það kæmi okkur ekki á óvart þó einhverjir dæsi yfir því að séu tveir áratugir síðan Toronto eignaðist aftur NBA-lið. Þetta virkar eitthvað svo stutt síðan, en þó ekki.

Hérna eru nokkrar skemmtilegar myndir frá sokkabandsárum Snareðlanna í NBA, þið þekkið eflaust flesta þessa kappa:










Thursday, January 31, 2013

Memphis þarf ekki lengur að borga Rudy Gay fyrir að spila körfubolta, sem eru ákaflega góð tíðindi


Það hefur verið yfirlýst stefna nýju eigenda Memphis Grizzlies að skera niður launakostnað.

Fyrsta skrefið var að koma félaginu undir launaþakið. Það tókst um daginn, en það var ekki nóg.

Í gær tókst forráðamönnum Memphis að gera nokkuð sem þeir voru búnir að reyna nokkuð lengi, að losa sig við Rudy Gay og tröllvaxinn samning hans. Óháð körfubolta - og þetta er alveg óháð körfubolta - eru þetta ágæt viðskipti.

Sagt er að Memphis sé núna 8 milljónum dollara undir launaþakinu og hafi í heildina sparað sér rúmlega 37 milljónir dollara næstu þrjú árin.

Það er óhemju peningur fyrir félag sem spilar á einum minnsta markaði í deildinni og er augljóslega með eigendur sem ætla að velta hverri krónu.

Ef þú ert alveg úti á túni og skilur ekkert hvað við erum að tala um, þá erum við að tala um leikmannaskipti sem áttu sér stað í gær, þar sem hæst ber að Rudy Gay fer frá Memphis til Toronto. Toronto sendir Jose Calderon til Detroit og Ed Davis til Memphis, sem fær Tayshaun Prince og Austin Daye.

Enginn skilur hvað Toronto er að hugsa með þessum viðskiptum, en það er líklega bara að hugsa með anusnum eins og það virðist jafnan gera þegar kemur að leikmannamálum. Það er hvort sem er öllum sama um Toronto-liðið, því miður er staðan bara þannig. Líka með Detroit auðvitað.

En hvað vakir fyrir John Hollinger og félögum hjá Memphis?

Flestir sem skrifað hafa um málið eru á því að Memphis sé sigurvegarinn í þessum viðskiptum fyrst og fremst vegna sparnaðarins, sem er umtalsverður eins og við greindum frá í upphafi pistilsins. En hvað með körfuboltahliðina á þessu? Skiptir hún allt í einu ekki máli, eða?

Jú, auðvitað skiptir hún máli. En hvernig sem á það er litið, eru þessi skipti óhemju jákvæð fyrir Memphis. Félagið varð einfaldlega að gera eitthvað í þessum Rudy Gay-pakka og er nú búið að losa sig við hann.

Gay fékk allt, allt, allt of stóran samning hjá félaginu á sínum tíma og það gekk augljóslega ekki fyrir svona lítinn klúbb að vera að borga honum max peninga þegar það var að borga þeim Zach Randolph og Marc Gasol risapeninga líka.

Memphis er í mjög öfundsverðri stöðu. Ekkert lið í NBA er með betri mannskap í stöðu leikstjórnanda, kraftframherja og miðherja - ekki nálægt því - og þetta verður stjórn félagsins að nýta sér.

Griz hefur náð að hnoða saman fínt lið úr ágætum mannskap og með góðum þjálfara undanfarin ár, en nú er kominn tími til að hlaða í og gera þetta lið að áskoranda í alvöru.

Til hvers að vera með svona óhemju sterka framlínu og frábæran leikstjórnanda (Mike Conley, vanmetnasta leikstjórnanda í NBA) ef þú ætlar ekki að gera neitt með þetta nema miðjumoðast eitthvað í aðra umferð í úrslitakeppninni?

Það sem Memphis er búið að gera með því að losa sig úr þessum Gay-álögum (no pun intended) er að búa sér til pláss til að gera eitthvað á leikmannamarkaðnum í nánustu framtíð. Helst sem fyrst auðvitað.

Liðið mun auðvitað sakna Rudy Gay eitthvað - maðurinn er jú stigahæsti leikmaður liðsins - en það sýndi sig þegar liðið náði lengst í úrslitakeppninni í hittifyrra að það þarf í rauninni ekki á honum að halda. Tölurnar hans í vetur hafa svo ekki verið neitt æðislegar, reyndar hefur hann droppað í stigum og hrunið í skotnýtingu (rétt slefar í 40% allt í einu).

Það sem hefur verið vandamálið með Rudy Gay er nákvæmlega það sama og hefur verið að plaga Danny Granger hjá Indiana. Þeir eru ágætisleikmenn en ekkert meira. Þeir fá borgað eins og stórstjörnur en eru það ekki. Þeir eru ekki þessir neyðarkarlar sem liðin þeirra þurfa og hafa þess vegna báðir verið falir lengi.

Nú er Memphis með pálmann í höndunum eftir að hafa losað sig við Gay og Indiana bölvar örugglega í hljóði að hafa ekki verið búið að bjóða forráðamönnum Toronto að kaupa Danny Granger (þó þeir séu örugglega búnir að reyna það 100 sinnum).

Það verður einhver að skora þessi 17-20 stig sem Rudy Gay var að skora hjá Memphis. Það er ekki víst að Tayshaun Prince skori nema brot af því en hann ætti að koma með reynslu og fagmennsku inn í lið Memphis - nokkuð sem liðinu veitir ekki af.

Það er stór spurning hvað Prince á eftir á tanknum eftir nokkur hörmuleg ár í Detroit að undanförnu.

Við skrifuðum um Prince fyrir einhverju síðan þar sem við leiddum líkum að því að hann væri löngu búinn að missa áhugann á að spila körfubolta - það væri augljóst á þeirri staðreynd að hann hefði samið aftur við Detroit.

Við skulum sjá hvað Memphis getur fengið út úr honum. Hann kunni nú einu sinni að spila hörkuvörn og hefur reyndar verið að hitta mjög vel úr þriggja stiga skotunum sínum í vetur. Vonandi heldur hann því áfram fyrir Memphis, sem nú horfir björtum augum á framtíðina - án Rudy Gay.

Friday, January 25, 2013

Friday, November 9, 2012

Manstu eftir þessu?


Við vorum búin að gleyma þessu. Kannski sem betur fer fyrir Toronto Raptors, en við höfum reyndar ekki skrifað neitt um það ágæta lið, svo það skiptir kannski ekki máli.

Jú, þetta myndbrot hérna fyrir neðan sýnir Jeremy Lin tryggja New York Knicks sigur á Toronto með flautukörfu á síðustu leiktíð. Allt ætlar um koll að keyra í húsinu. Áhorfendur rísa úr sætum og öskra og klappa. Allt vitlaust í kofanum.



Í Toronto!

Heimamenn töpuðu!

Lin-ævintýrið var vissulega krúttlegt og vissulega var hafði Toronto ekki að nokkrum sköpuðum hlut að keppa frekar en venjulega.

Samt.

Hver haldið þið að vilji spila fyrir svona rækjusamlokur?

Þetta er hneyksli.

Friday, October 5, 2012

Fjölmiðladagurinn: Raptors


Fjölmiðladagurinn árlegi í NBA deildinni fór fram mánudaginn 1. október. NBA Ísland kíkti í heimsókn til nokkurra liða í deildinni og lagði fram nokkrar athugasemdir, hvort sem það var viðeigandi eða ekki. Þetta tekur nokkrar færslur og í þeirri síðustu tökum við saman skemmtilegustu myndir fjölmiðladagsins 2012.     

Toronto hefur fengið til sín nokkra leikmenn og munar þar mest um Kyle Lowry, sem félagið fékk frá Houston.

Lowry fór hamförum á síðustu leiktíð áður en veikindi slógu hann óvænt úr leik. Við erum enn að klóra okkur í höfðinu yfir því af hverju Houston lét hann fara.

Hæfileikar Lowry og nokkur ný andlit nægja þó ekki til að gera almennilegt lið úr Toronto Raptors, því miður. Það er langt þangað til við þurfum að taka þetta lið alvarlega.