Showing posts with label Sigurvegarar. Show all posts
Showing posts with label Sigurvegarar. Show all posts

Wednesday, November 30, 2016

Draymond Green afgreiðir körfuboltaleiki, aftur


Þau ykkar sem hlustuðu á hlaðvarpið okkar á föstudaginn var, hafa eflaust tekið eftir því að þar fór að minnsta kosti helmingur þátttakenda gjörsamlega á límingunum við það að lýsa hrifningu sinni á spilamennsku Leatherman-framherjans Draymond Green hjá Golden State Warriors.

Alhliða spilamennska Green er nú í sviðsljósinu sem aldrei fyrr, ekki síst varnarleikur kappans, sem var eitt helsta umræðuefnið þegar leikmanninn bar á góma í ofangreindu hlaðvarpi. Hann er orðinn svo góður í körfubolta að það virðist ekki vera hægt að jinxa hann einu sinni.

Ekki ef marka má frammistöðu hans á lokaaugnablikunum þegar Warriors-liðið tók á móti Atlanta Haukunum á dögunum, en þá tók Green sig til og gerði nákvæmlega það sem lýst var í hlaðvarpinu; hann tók þá skynsömu ákvörðun að klára leikinn upp á sitt einsdæmi á lokamínútunum - og það sem meira er - hann gerði það (mestmegnis) með því að spila varnarleik.

Þetta var dálítið dæmigerður Warriors-leikur. Það var alltaf líklegra að Golden State væri að fara að vinna hann, því lið sem stunda það að vinna 10+ leiki í röð eiga það til að vera sigurstranglegri en... til dæmis lið úr Austurdeildinni.

Þetta var samt alveg leikur þarna í restina á mánudagskvöldið og Atlanta er alveg með gaura sem geta sparkað í punginn á þér ef þú yfirbugar þá ekki, svona ef við gætum þess að hafa líkingamálið bæði karllægt og ofbeldisfullt í tilefni jólanna.

Jæja, eins og þið sjáið í myndbandinu hérna fyrir neðan, freistaði Curry þess að stinga rýtingnum í Haukaliðið, en hetjuskotin hans voru ekki að detta og þið heyrið alveg að sjónvarpsþulir Warriors-liðsins eru ekkert yfir sig hrifnir af ákvarðanatöku og óþolnimæði sinna manna í sókninni þarna í lokin.

Það var á þessum tímapunkti sem Draymond Green tók áðurnefnda ákvörðun, sem minnst var á í hlaðvarpinu á föstudaginn; svona: Æ, best að loka þessu bara, snöggvast!

Smelltu á play, spólaðu á 7:30 og sjáðu hvað gerist. Nei, reyndar ekki. Farðu á 7:30 og horfðu bara á hvað Draymond Green gerir!



Það er ekki flókin stærðfræði að nánast allt jákvætt sem gerist hjá góða liðinu frá og með þessum tímapunkti, kemur frá Green. Sama hvort það eru hindranir, stoðsendingar, fráköst, hagkvæmar villur, réttar staðsetningar og ákvarðanir - jú, eða kannski tvö varin skot sem klára leikinn og annað þeirra hrekkur meira að segja af sóknarmanninum og í innkast, eins og til að kóróna fagmennskuna.

Þetta er akkúrat málið með Draymond Green. Hvenær sástu svona leikmann, með svona pakka, gera svona hluti inni á körfuboltavelli síðast? Nákvæmlega.

Við vitum alveg að við erum dramatísk og við vitum líka að við höfum ekki með körfuboltalegt kapítal í að ætla okkur að fara að greina NBA leiki - hvort sem um er að ræða varnar- eða sóknarleik, Val eða Warriors. Við erum hvorki Valur Ingimundar né Hubie Brown (aiiit?).

En málið snýst heldur ekkert um það.

Málið snýst alfarið um það hvað Draymond Green er orðinn ískyggilega góður í körfubolta og hvað sú staðreynd er sumpart farin að grafa undan hugmyndafræði okkar um stórstjörnuna í NBA sem setið hefur og safnað ryki um árabil. Þetta er sannarlega rannsóknarefni, sem taka verður föstum tökum, helst með hjálp sérfræðinga, þegar hlutirnir róast aðeins á ritstjórninni eftir mánaðamótin.

Friday, July 15, 2016

Tim Duncan með augum NBA Ísland



















Þú veist að það er eitthvað sérstakt í gangi þegar hörkutól úr bransanum eins og RC Buford framkvæmdastjóri og Gregg Popovich þjálfari San Antonio vatna músum. En það gerðist nú samt á sitt hvorum fjölmiðlafundinum þegar þeir voru spurðir út í Tim Duncan, sem hefur ákveðið að leggja skó sína á hilluna eftir 19 ára feril í NBA deildinni.

Við erum búin að liggja yfir þessu í nokkurn tíma og reyna að átta okkur á því að Tim Duncan verði ekki í NBA deildinni næsta vetur. Rétt eins og verður með Kobe Bryant, eigum við öll eftir að sjá á eftir Tim Duncan þegar hann hverfur inn í sólarlagið, enda höfum við öll getað stillt klukkurnar okkar eftir stöðugri spilamennsku hans í nær tvo áratugi.

Við höfum stundum skrifað minningagreinar um menn þegar þeir hætta að spila í NBA. Við skrifuðum reyndar ekkert um Kobe Bryant á sínum tíma, því okkur þótti við vera búin að gera svo mikið af því í gegn um tíðina. Nú er ekki loku fyrir það skotið að við gerum ferilinn hans Kobe Bryant upp í pistli einn daginn, en þegar við heyrðum að Duncan væri hættur, greip okkur strax einhver tilfinning í ætt við skyldurækni - að við yrðum bara að skrifa pistil um hann.



Tim Duncan er sannarlega ekki litríkasti eða umdeildasti leikmaður í sögu NBA deildarinnar, enda hefur umfjöllun um hann alltaf verið í lágmarki bæði hér og annars staðar. Þar liggja nokkrar ástæður að baki. Duncan var aldrei neitt fyrir það að trana sér fram og vildi helst ekki veita viðtöl, en þar að auki hefur kúltúrinn hjá Spurs aldrei snúist um neitt skrum, frægð eða frama.

Og það var að hluta til Tim Duncan sem byggði þennan fræga kúltúr, þetta stjórnkerfi San Antonio Spurs sem öll hin liðin í NBA deildinni hafa öfundað það af í tvo áratugi. Tim Duncan bara mætti (snemma) í vinnuna, vann vinnuna sína vandlega og fór svo heim til fjölskyldunnar, án frægðarljóma eða flugeldasýninga. Gregg Popovich er arkítektinn á bak við megnið af kúltúrnum hjá Spurs, en Tim Duncan hefur verið kjarni hans í nær tuttugu ár.

Tim Duncan hefur aldrei verið allra og mörgum finnst hann leiðinlegur leikmaður, ekki síst af því stuðningsmenn hinna liðanna í NBA eru búnir að vera að tapa fyrir honum í tuttugu ár. Flest körfuboltaáhugafólk sem við þekkjum hefur hinsvegar vottað Duncan virðingu sína í vikunni, hvort sem það var gefið fyrir leik hans eða ekki, af því þetta fólk veit að þar hverfur af sjónarsviðinu algjör goðsögn í sögu deildarinnar.



Einhver ykkar eru eflaust búin að lesa eina eða fleiri af þeim fjölmörgu greinum sem skrifaðar hafa verið um Duncan síðustu daga. Þær hafa verið misgóðar, en leitað í svipaða sálma; Tim Duncan var frábær leikmaður - allt að því vélrænn - liðið hans vann næstum því alltaf, hann var meiri húmoristi og vænni drengur en flestir gerðu sér grein fyrir og líklega var hann líka betri leikmaður en flestir gerðu ráð fyrir.

Við hefðum kannski getað skrifað pistil í ætt við þetta, en þar sem við höfum alltaf horft á Tim Duncan út frá alveg sérstöku sjónarhorni, ákváðum við frekar að deila því með ykkur sem á annað borð nennið að lesa um hetjuna hæglátu. Nánar um það á eftir.



Fyrsti tendensinn sem vaknaði hjá okkur þegar fyrir lá að skrifa Duncan út, var að reyna að finna út hversu ofarlega hann á heima á lista bestu körfuboltamanna allra tíma. Þá hnussa mörg ykkar og segja að fólk eigi ekki að vera að flokka körfuboltamenn - það sé ekkert hægt að bera saman bakverði og miðherja og enn síður ef líða áratugir á milli þess sem þeir spila í deildinni.

Við skiljum að mörgum finnist svona uppröðun og listar asnalegir, en það eru margir sem hafa gaman af þessu og okkur þykir bara alveg nauðsynlegt að reyna að átta okkur á því hvar við eigum að setja Duncan eftir þennan stórkostlega feril sem hann átti í NBA.

Saturday, May 28, 2016

Af lokaúrslita-LeBron og Toronto á Tene


Manstu eftir þessum sveppum hérna fyrir ofan? Það hlýtur eiginlega að vera, því það er ekki svo langt síðan þeir réðu öllu í Austurdeildinni eins og Detroit hafði gert árin á undan þeim. Af hverju erum við að rifja þetta lið upp? Jú, af því þetta er síðasta alvöru liðið sem LeBron James þurfti að kljást við í Austurdeildinni.

Cleveland fór loksins að taka hlutina alvarlega eftir neyðarleg töp í leikjum þrjú og fjögur gegn Toronto og gjörsamlega valtaði yfir Kanadaliðið í leikjum fimm og sex. Það var nákvæmlega ekkert óvænt við það. Munurinn á þessum liðum er í raun og veru stjarnfræðilegur, þó þau hafi nánast verið jöfn í töflunni í deildarkeppninni.

LeBron James er nú að fara í lokaúrslitin sjötta árið í röð og auðvitað er það til marks um hversu magnaður leikmaður hann er að hann skuli vera búinn að ná þessum árangri með sitt hvorum klúbbnum. Þú þarft að vera heppinn með að sleppa við meiðsli og ákveðinn snillingur ef þú átt að komast í lokaúrslit sex ár í röð - og viti menn - LeBron James er heppinn með meiðsli og snillingur.


En við skulum ekki sykurhúða þetta meira en nauðsyn krefur. Í rauntali sagt, hafa liðin hans LeBron James mætt aaafar lítilli mótspyrnu síðan áðurnefnt Celtics-lið lagði upp laupana. Eina liðið sem náði að stríða Miami-liðinu hans LeBrons í úrslitakeppninni var Indiana á sínum tíma. Það var ágætis lið, fínt varnarlið, en ákaflega takmarkað þegar upp var staðið. Það gat farið með Miami í oddaleiki, en þegar allt var í járnum, gat þetta lið bara ekki búið til stig og féll á því, aftur og aftur og aftur. Og gerir raunar enn.

Chicago hefði strangt til tekið átt að vera öflugasti andstæðingur Miami-liðsins á sínum tíma, en meiðsli eyðilögðu hverja einustu leiktíð hjá þeim og gera enn. Önnur lið voru þremur þrepum fyrir neðan Miami og aldrei annað en það sem við köllum fallbyssufóður.

Og ekki tók "betra" við þegar LeBron James gekk aftur í raðir Cavs, því síðan hann flutti heim, hefur Cleveland verið eina liðið sem getur eitthvað í Austurdeildinni. Eitthvað!

(Á töflunni hér fyrir neðan sérðu að það eru ekki nema FIMMTÍU ár síðan körfuboltamaður komst síðast í lokaúrslitin sex ár í röð eða oftar. Það voru allt aðrir tímar og allt annar bolti en tíðkast í dag. Varla sama íþrótt, satt best að segja. 

Svo eru jú þrjátíu lið í deildinni í dag, en okkur minnir að þau hafi verið níu þegar Boston vann titilinn átta ár í röð frá árinu 1959 til 1966. Þessi mulningsvéll af liði vann alls ellefu titla á þrettán ára kafla á sjötta og sjöunda áratugnum og Bill Russell tók þátt í þeim öllum).



















Eins og við höfum talað um svo oft, þarf eitthvað lið að fara með Cleveland í undanúrslitin úr Austurdeildinni hvort sem það er skítlélegt eða ekki. Á síðstu leiktíð var það Atlanta sem var þetta skítlélega lið (okkur er alveg sama þó það hafi unnið sextíu leiki í deildarkeppninni), enda sópaði Cleveland því út úr úrslitakeppninni með svo afgerandi hætti að við höfum sjaldan séð annað eins.

Atlanta liðið var gjörsigrað frá fyrstu mínútu í þessu einvígi, hafði enga trú á því sem það var að gera og sýndi álíka mikinn karakter og stjórnmálamaður. Lögðust niður grenjandi og létu keyra yfir sig og það þó Cleveland-liðið hafi m.a. verið án Kevin Love í seríunni eins og þið munið.

Það kom í hlut Toronto að vera í þessu hlutverki í ár eins og þið vitið, en Snareðlurnar brugðust nákvæmlega öfugt við því að mæta LeBron. Þær börðust eins og ljón, þó þær fengu stundum hrikalega ljóta skelli og náðu að krafsa út sigra í tveimur leikjum.

Þú trúir kannski ekki á svona móralska sigra, en þú gætir þurft að taka það til endurskoðunar. Toronto var að komast í undanúrslitin í fyrsta skipti í sögu félagsins, sem var auðvitað ákaflega spennandi fyrir klúbbinn, en hvort heldurðu að sé betra veganesti inn í næsta vetur - að vera sópað fjögur núll, eða að hafa náð að gera einvígi úr þessu í smá stund og vinna tvo leiki?

Toronto var aldrei, aldrei að fara að vinna þessa seríu, það er bara ekki nógu gott lið, en það verður forvitnilegt að sjá hvaða pól þeir taka í hæðina með þetta lið á næstu misserum. Þið munið kannski að það er í rauninni algjör tilviljun að þetta lið hafi raðast svona saman, því Toronto menn ætluðu að stokka þetta allt upp og fara að tapa aftur með það fyrir augum að byggja upp nýtt lið. Svipað og Portland var að gera.

En svo fór liðið óvart að vinna allt of marga leiki og þá voru plönin um uppstokkun sett á ís og nú er svo komið að þeir eru smátt og smátt að pikka einn einn og einn leikmann inn í dæmið hjá sér en byggja að mestu á leikmannakjarnanum sem þeir eru með fyrir - ungum mönnum eins og Kyle Lowry, DeMar DeRozan og Jónas Val-ansi-Jónas.

Þetta lið er ekki meistaraefni og verður aldrei með þennan kjarna, en það er nógu gott til að míga utan í Cleveland í toppbaráttunni í deildarkeppninni en tapa svo örugglega fyrir því í úrslitakeppninni. Svona er þetta bara í austrinu og þetta er veruleiki sem blasir við öllum hinum liðunum sem komust í úrslitakeppnina þeim megin lands.

Það er því rosalega kósí fyrir LeBron James að vera svona einráður í deildinni sinni og hann er náttúrulega að njóta góðs af ýmsum forgjöfum í því sambandi. Fyrir það fyrsta er náttúrulega ekkert lið í austrinu sem getur veitt Cleveland einhverja samkeppni og því heyrir það til undantekninga ef liðið sópar andstæðingum sínum ekki.

Þarna kemur afar mikilvæg hvíld inn í dæmið, hvíld sem LeBron James þarf nauðsynlega á að halda nú orðið, enda orðinn fullorðinn maður. Og á meðan Cleveland er bara á ströndinni að tana sig eftir öll þessi sóp, eru verðandi mótherjar þeirra í Vesturdeildinni að fara í gegn um hverja blóðugu baráttuna eftir aðra og grænda sig í drasl.



















En það þýðir ekkert fyrir okkur að vera að bölsótast út í LeBron James ræfilinn þó að þetta sé svona. Hann hafði vit á þvi að halda sig í Austurdeildinni þegar hann tók allar þessar Ákvarðanir sínar og þar er meira en huggulegt að vera. James er líka að nýta hvern dropa af þeim hagnaði sem það færir honum. Og þó það nú væri. Maðurinn ætlar að vinna eins mikið og hann getur meðan hann spilar í þessari deild.

Nú er Toronto farið á Benidorm* og Cleveland komið í lokaúrslitin eins og við vissum öll. Liðið bíður þess nú að fá að vita hvort það fær meistara Golden State eða ólíkindatólin í Oklahoma í keppninni um allar kúlurnar.

Við ætlum ekkert að fara að spá í spilin með það núna, en langar samt að vekja athygli á einu litlu atriði varðandi lokaúrslitin sem er ekki víst að allir hafi áttað sig á. Ef Golden State fer í fænalinn, verður liðið að sjálfssögðu með heimavallarréttinn gegn Cleveland eins og hvaða liði sem er í deildinni af því það setti jú met yfir fjölda sigra í deildarkeppninni (73).


En fari svo að Oklahoma komist í úrslitin, verður nefnilega Cleveland með heimavöllinn af því það vann 57 leiki í vetur en Oklahoma aðeins 55. Þetta er afar mikilvægt atriði í okkar huga ef Oklahoma tækist að slá Golden State út. Við sjáum ljóslifandi dæmi um það hvað eftir annað í hverri einustu úrslitakeppni hvað bölvaður heimavöllurinn er hrikalegar mikilvægur þegar kemur í svona hnífjafnar seríur.

Í lokaúrslitunum verður keppt með 2-2-1-1-1 fyrirkomulaginu alveg eins og í áðurgengnum umferðum eftir að 2-3-2 sýstemið var lagt niður á sínum tíma - segjum að séu tvö ár síðan.  Og vá, hvað þér er skítsama um það, lol.

Nýja fyrirkomulagið þýðir að öll ferðalög verða stífari hjá leikmönnum, starfsmönnum og fjölmiðlafólki, en það skiptir ekki nokkru máli þegar komið er í lokaúrslitin því deildin er alltaf að lengja og lengja tímann á milli leikja og gott ef hann verður ekki lengdur enn meira í ár. Ætli verði ekki einhverjar þrjár til fjórar vikur á milli leikja í finals í ár.

En svona í alvöru, er sýstemið í lokaúrslitunum steingelt og handónýtt út af þessum langa tíma sem líður á milli leikja, sérstaklega af því fólk er komið upp á lag með það í t.d. undanúrslitunum að það séu leikir á hverju einasta kvöldi.

Svo þegar kemur í lokaúrslitin er svo langt á milli leikja að fólk er gjörsamlega dottið úr væbinu og stemmaranum þegar er loksins komið að næsta leik. Þetta er rosalegur galli. Ekki galli, svona eins og apaskinnsgalli (#landsbyggðin), heldur galli, eins og í gallagripur.


Að lokum er svo rétt að benda ykkur á að restin af leikjunum í úrslitakeppninni verða sýndir beint á Stöð 2 Sport. Leikur sex hjá Oklahoma og Golden State, sem er ekki nema rétt RISAVAXINN, er í beinni í nótt (laugardag) klukkan eitt og ef til oddaleiks kemur, verður hann í beinni á sama tíma á mánudagskvöldið. Lokaúrslitin verða svo öll sýnd beint eins og vant er og hérna getur þú séð áætlaða leiktíma í úrslitunum eftir því hvort liðið fer áfram úr Vesturdeildinni.

Við vonum samt að þú sért ekki að lesa þetta og pæla í því í leiðinni hvaða leikir verði sýndir og hverjir ekki, þegar þú ert með dagskrársíðuna á NBA Ísland beint fyrir framan nefið á þér. Við uppfærum þessa dagskrá alltaf eins fljótt og við getum.

Það er dálítið skondið að þó við eigum merkilega stóran lesendahóp hér á NBA Ísland, virðast ekki nema um það bil þrjú prósent af þessu ágæta fólki átta sig á því að þessi dagskrársíða skuli vera virk. Annars lendum við í því reglulega að vinir og fjölskyldumeðlimir senda okkur línu í óðagoti og spyrja hvort og hvenær einhverjir leikir séu í beinni. Kommon sko...

----------------------------------------------------------------------------------------------

* - Það stuðlar reyndar miklu betur að senda Toronto til Tenerife en Benidorm, þannig að við erum            að hugsa um að gera undantekningu í þetta skiptið. Toronto fer á Tene - önnur á Bene.

Friday, April 29, 2016

Fella hjá KR

































Körfuboltavertíðinni hér heima lauk formlega hjá strákunum í gærkvöldi þegar KR lagði Hauka nokkuð örugglega 70-84 á Ásvöllum og tók úrslitaeinvígið sumsé 3-1. Þetta er búinn að vera nokkurn veginn fullkominn vetur hjá KR-ingum sem tóku bæði deild og bikar í ár.

Áætlunin hans Helga Magnússonar um að hætta með stæl gekk því óaðfinnanlega upp, þar sem hann er Íslandsmeistari þrjú síðustu árin sín og vinnur allt á lokaárinu sínu. Þið munið eflaust eftir öðrum þekktum körfuboltamanni sem lagði skó sína á hilluna árið 1998 eftir að hafa orðið meistari þrjú ár í röð, en það er nokkuð skondin tilviljun að sá leikmaður fór líka til Washington eftir titlana þrjá eins og Helgi ætlar sér að gera átján árum síðar.


KR-ingar eru vel að titlinum komnir eins og venjulega. Haukaliðið er einfaldlega ekki nógu sterkt til að vinna KR í seríu og við vissum það öll fyrirfram. Hinsvegar verðum við að hrósa Haukapiltum fyrir að ná að gera þetta að einvígi á kafla en ekki sópi. Við fengum smá drama í þriðja leiknum og það reddaði seríunni, sem hefði ekki verið merkileg ella. Til dæmis ekki nálægt því eins góð og Njarðvíkurserían hjá KR.

Það hefði verið gaman að sjá KR mæta Stjörnunni, það hefði verið gaman að sjá KR mæta Njarðvíkurliði sem væri ekki með lykilmenn í meiðslum og síðast en ekki síst hefði verið helvíti gaman að fá að sjá Kára Jónsson spila með Haukunum í úrslitaeinvíginu. En svona er þetta víst. Meiðsli gerast og allt það.



Það verður forvitnilegt að sjá hvernig KR-ingar ætla að fylla í það stóra skarð sem Helgi Magnússon skilur eftir sig næsta vetur og það verður eftirsjá í þessum flinka leikmanni og leiðtoga. Það verður líka áhugavert að sjá hvernig Haukarnir tækla næstu leiktíð - hvort þeir ætla að láta sér nægja að hafa skrifað smá Öskubuskuævintýri núna og sökkva sér bara aftur í meðalmennskuna þegar Kári er farinn. Vonandi ekki.

Ritstjórn NBA Ísland óskar KR-piltum og Snæfellsstúlkum hjartanlega til hamingju með titlana sína í vikunni. Þetta er búinn að vera frábær körfuboltavetur hjá okkur á innlendum vettvangi.

Hérna eru loks nokkrar myndir frá Ásvöllum í gær.
Smelltu á "Lesa meira" ef þig langar að skoða þær allar.








Friday, April 8, 2016

Sögubóka-Warriors eru enn að


Eitt af hlutverkum NBA Ísland er að gæta þess að íslenskumælandi fólk sem hefur áhuga á körfubolta átti sig á því þegar sögulegir hlutir eru að gerast í NBA deildinni. Þetta er bara eitthvað sem við höfum alltaf litið á sem mikilvægan part af ritstjórnarstefnu síðunnar.

Mörg ykkar eruð ef til vill orðin svo góðu vön að þið áttið ykkur ekki á því, en dettið ekki í þá gryfju að taka því sem sjálfssögðum hlut að Golden State sé búið að vinna 70 leiki í deildarkeppninni í vetur. Það getur vel verið að þið verðið orðin feður og mæður eða afar og ömmur næst þegar þetta gerist - nú eða steindauð, hreinlega.

Þegar sögulega sterkt Chicago-liðið vann 72 leiki í deildarkeppninni árið 1996, vissu menn hreinlega ekki hvað þeir áttu af sér að gera og spáðu því að það það yrði ansi langt þangað til það yrði toppað.

Auðvitað er alltaf mikið af fólki með hálftómt glasið og segir að þessi árangur skipti ekki nokkru einasta máli ef ekki tekst að vinna titil í kjölfarið - og víst er sannleikskorn í því. 

En við verðum að hafa hugfast að NBA deildin er tvö mót, deildarkeppnin og úrslitakeppnin.

Margir horfa aðeins á deildarkeppnina með öðru auganu og nenna ekki að fylgjast almennilega með fyrr en úrslitakeppnin byrjar. Það er þeirra mál.

Við erum ekki af þeim sauðahúsum. Fyrir okkur er deildarkeppnin alveg jafn dásamlegt fyrirbæri og úrslitakeppnin, þó þetta séu ólík fyrirbæri.

Og núna erum við bara að tala um deildarkeppnina. Úrslitakeppnin segir okkur hvaða lið er best í NBA þegar í alvöruna er komið og það er alveg ljómandi, en deildarkeppnin segir okkur líka mjög mikið um það hvað í þessi lið er spunnið. 

Deildarkeppnin er enn meira langhlaup en úrslitakeppnin og því er ljóst að skussar og aulabárðar geta ekki náð árangri í deildarkeppninni. 

Hún er bara svo ógeðslega löng og erfið að þú verður að hafa úthald og karakter til að ná árangri í henni.

Golden State er eitt af þessum liðum sem hefur úthald og karakter, og þessi sögulega deildarkeppni hjá liðinu í vetur er ein sú sögulegasta sem færð hefur verið í bækurnar - og hún er ekki einu sinni búin.

Það gefur Golden State óneitanlega meiri vigt á þessum spretti í vetur að liðið hafi unnið titilinn á síðustu leiktíð. Ef liðið hefði ekki unnið titilinn síðasta sumar, væri árangur þess í deildarkeppninni loftkenndari en raun ber vitni. En það er ekki um neitt svoleiðis að ræða hjá Warriors núna.

Þetta lið hakkaði sig í gegn um deildarkeppninna á síðustu leiktíð með því að vinna 67 leiki og Stephen Curry var kjörinn leikmaður ársins. Það yrði ekki toppað svo glatt, eða hvað?

Jú, reyndar. Golden State er búið að vinna 70 leiki nú þegar og getur slegið met Chicago Bulls frá ´69 ef það vinnur þrjá síðustu leikina sína í deildarkeppninni á næstu dögum. Og rétt eins og liðið er búið að bæta sig, er besti leikmaður liðsins búinn að bæta sig. 

Stephen Curry verður kjörinn verðmætasti leikmaður ársins aftur í ár og það með því að skora sex stigum meira að meðaltali í leik en hann gerði þegar hann var kjörinn leikmaður ársins á síðustu leiktíð. Við þurfum sennilega ekki að taka fram að það yrði NBA met.

Okkur er með öðrum orðum nákvæmlega sama hvort Golden State vinnur 70, 71, 72 eða 73 sigra í deildarkeppninni í ár, þó það yrði óneitanlega gaman að sjá liðið slá met Chicago frá því fyrir tuttugu árum - liðinu sem þjálfari Warriors í dag spilaði með sem leikmaður.

Golden State er þegar búið að stimpla sig inn í sögubækurnar með því að verða annað liðið í sögunni til að ná að vinna 70 leiki í deildarkeppninni og við skulum gæta þess að gera ekki lítið úr því. Sama hvort liðið vinnur 71 leik eða 73 - og sama hvort liðið vinnur titilinn í sumar eða ekki.

Ef þið hafið hugfast að stórveldin sem hafa unnið megnið af titlunum sem í boði hafa verið í sögu NBA deildarinnar - Lakers og Celtics - hafa ekki náð að vinna 70 leiki í sögu félaganna, sýnir það okkur svart á hvítu hvað þetta er ótrúlegt afrek.

Hér eru einfaldlega sögulegir hlutir í gangi og það er nauðsynlegt að færa það til bókar.

Sunday, February 14, 2016

Og þá var kátt í Höllinni


NBA Ísland óskar KR-piltum og Snæfells-stúlkum til hamingju með bikarmeistaratitlana í gær. Það er alltaf svo gaman að vera til á bikardeginum, þegar við fjölmennum öll í höllina, hittum hvort annað og skemmtum okkur saman yfir frábærum körfubolta. Allir vinna, nema þeir sem tapa.

Við ætlum ekki að reyna að neita því að Þórsliðið úr Þorlákshöfn er búið að heilla okkur mikið í vetur og því var sómi af því að sjá þetta skemmtilega lið í Höllinni í gær. Eins og flestir reiknuðu með, reyndist KR-liðið of stór biti til að kyngja fyrir austanmenn, en þeir stóðu sig frábærlega og eiga hrós skilið fyrir frammistöðu sína í sínum fyrsta bikarúrslitaleik.

Það sem gladdi okkur mest við úrslitaleikinn í karlaflokki var sú staðreynd að Helgi Magnússon næði að vinna sigur í því sem er nokkuð örugglega hans síðasti bikarúrslitaleikur. Helgi og KR-liðið hans hefur lent í basli í bikarnum á undangengnum árum, en það var ljóst frá fyrstu mínútu í gær að Helgi ætlaði alls ekki tómhentur heim úr höllinni. Hann ætlaði að vinna þennan fjandans titil og ekkert rugl!

Það verður eftirsjá í höfðingja eins og Helga þegar hann hættir að spila í vor, því menn eins og hann vaxa ekki á trjánum. Liðsmenn og leiðtogar út í gegn, fúndamentin á hreinu og aldrei neitt bull. Sannkallaður meistari, hann Helgi. Þá er bara að loka Íslandsmeistaratitlinum, til að fullkomna endasprettinn. Það yrði sannarlega draumaár fyrir þennan frábæra leikmann.

Hérna eru nokkrar gular myndir úr Höllinni: