Showing posts with label Brynjar Björnsson. Show all posts
Showing posts with label Brynjar Björnsson. Show all posts

Friday, November 20, 2015

Kræsingar í KEF


Fjandi öflugur sigur hjá Keflvíkingum á KR í gærkvöldi 89-81. Stöð 2 Sport hitti enn og aftur á frábæran leik til að sýna beint, en það var svo sem nóbreiner að sýna þennan þar sem þetta var toppslagur.

Keflavíkurliðið byrjar þetta 7-0 og er með sprækt og skemmtilegt lið. Það fékk 24/15/6/3 frá Earl Brown yngri og sjóðandi heita fimm þrista frá Reggie Dupree frænda þínum, sem er að skjóta 68% (17 af 25) fyrir utan á leiktíðinni. Risavaxnir ko-hónis þristar Ágústs Orrasonar skemmdu ekki fyrir heimamönnum í restina.

KR skaut og frákastaði betur en heimamenn í þessum leik, en Keflavíkurliðið vann leikinn betur, sem telur aðeins meira. Þetta var ekki dagur meistaranna, sem gátu ekki keypt körfu fyrir utan.

Það eina sem gekk upp í sóknarleik KR voru áætlanaferðir Michael Crayon inn í teiginn, en með fullri virðingu fyrir þeim ágæta leikmanni, var varnarleikur Keflvíkinga gegn honum í besta falli kómískur á köflum. Crayon þakkaði gott boð og hrærði í 29/15 og 4 stolna.

Brynjar Þór, Björn og Tóti Túrbó náðu sér ekki á strik í langskotunum eins og áður sagði. Við hittum mann eftir leikinn sem fullyrti að Brynjar hefði verið að spila meiddur í gærkvöldi. Við erum ekki svona næm á þetta, allra síst í gegn um myndavélalinsuna.

Ægir okkar Steinarsson náði sér aldrei á strik í skotunum fremur en aðrir KR-ingar, en þar fyrir utan drullaði hann tölfræðiskýrsluna vel út með 12 fráköstum, 5 stoðsendingum og aðeins einum töpuðum bolta.

Ægir er að bjóða upp á 11/7/7 meðaltal í vetur, en þarf að skjóta betur fyrir utan til að opna betur fyrir sig. Það köttar þetta ekki að vera innan við 30% í þristum.

Það er ekki annað en ljómandi gott fyrir deildina að Keflavíkurliðið hafi unnið þennan leik og haldi toppsætinu. Það setur bara pressu á lið eins og KR, sem vonandi fer nú að fá þá Helga og Pavel til baka úr meiðslum, því þeirra er sárt saknað.

Við ætlum ekki þvaðra meira um þennan leik annað en það að stemningin í Sláturhúsinu var algjörlega frábær og þið hefðuð geta logið í einhvern að þetta hefði verið leikur í úrslitakeppninni, svo magnað var andrúmsloftið í Keflavík.

Enn og aftur fær Stöð 2 Sport að sýna gullmola af leik í beinni útsendingu og þó við höfum verið á vellinum og misst af veislunni í sjónvarpinu, gerum við fastlega ráð fyrir að það hafi komið einstaklega vel út.

Það gerir þetta svo enn skemmtilegra að vera með strákana úr Körfuboltakvöldi með í prógramminu fyrir og eftir. Rándýrt að vera með Tom og Svala á litnum og Kjartan Atla, Fannar og Jón Halldór að analísera.

Þetta er standandi veisla.

Það er svo dásamlegt að körfuboltinn okkar sé að verða kominn með umfjöllunina og umgjörðina sem hann hefur átt skilið í svo mörg ár. Þetta eru algjörir nammitímar, stanslaus jól fyrir okkur körfuboltasjúklingana - við gerum ekki annað en opna pakka heilu fimmtudagana og föstudagana.

Hey, hvernig líst þér á að kíkja á sex eða sjöþúsund myndir til gamans?

Það var ekkert.




Saturday, October 31, 2015

KR slátraði Njarðvík í frumraun Hauks Helga


Við áttum von á talsvert mikið jafnari leik í Vesturbænum í gærkvöldi. Við flýttum okkur í Frostaskólið og tókum upphitun, hitting og burger áður en flautað var til leiks - allt eins og það á að vera fyrir hörkuleik tveggja stórliða.

En Íslandsmeistarar KR voru ekkert á því að halda einhverri spennu í viðureign sinni við Njarðvík. Þeir þurftu hvorki á Helga Magnússyni né Pavel Ermolinski að halda, þegar þeir völtuðu yfir þá grænklæddu 105-76.

Njarðvíkingarnir voru vissulega ekki með fullt lið heldur. Handsprengjan Stefán er í gönguskó og spilar ekkert með liðinu á næstunni, en dagurinn í gær snerist alls ekki um að væla út af meiðslum, heldur fagna komu Hauks Helga Pálssonar inn í Njarðvíkurliðið.

Haukur er slíkur hvalreki fyrir Suðurnesjaliðið að við ætluðum honum auðvitað að keyra beint í borgina og vinna KR. Það fór ekki alveg þannig eins og áður sagði, en það fer heldur enginn á taugum yfir óhagstæðum úrslitum í október - nema kannski Skagfirðingar.

Það var svo fjandi mikið að gera hjá okkur að taka myndir handa ykkur að við misstum af stórum hluta leiksins. Það er erfitt að lesa í spilamennsku á bak við linsuna. Við skulum kalla þetta ljómandi góða afsökun fyrir því að skrifa lítið sem ekkert um leikinn.

En þó voru nokkur atriði sem fóru ekki framhjá okkur. Við tókum eftir því að KR spilaði ljómandi fínan sóknarleik (reyndar gegn slökum varnarleik Njarðvíkinga) þar sem boltinn fékk á tíðum að fljúga milli manna og skapa opin þriggja stiga skot. Þetta er merkilegt þegar horft er til þess að það vantar jú besta leikstjórnanda deildarinnar í KR-liðið. Bæði lið lentu í klafsi og vandræðum annað slagið vegna leikstjórnarskorts, en KR tókst augljóslega betur að takast á við það. Leikmenn KR skiluðu flestir ljómandi góðum leik í gær og við vorum sérstaklega hrifin af því að þrír byrjunarliðsmenn meistaranna skiluðu 6+ stoðsendingum.

Þar fór Ægir Þór Steinarsson fremstur í flokki og reyndi að þrenna þetta upp með sjö stigum (sjö stigum? kommon), tíu fráköstum og níu stoðsendingum. Fagmaðurinn Darri Hilmarsson sletti líka á skýrsluna með 13/11/7 og Brynjar og Crayon voru solíðir.

Það var svo hinn 17 ára gamli Þórir Þorbjarnarson sem stal senunni í leiknum. Pilturinn skoraði 21 stig og henti niður fimm þristum í sjö tilraunum og er að neyða Finn þjálfara til að leyfa sér að spila, því hann hefur bætt við sig bæði stigum og mínútum í öllum fjórum leikjum KR í deildinni til þessa. Svo er það líka sérstakur plús að hann skuli vera örvhentur, það er alltaf gaman að horfa á örvhenta menn skjóta, jafnvel þó skotið þeirra sé dálítið flatt. Ef það fer ofan í, er öllum sama.

Þessi stóri skellur sem Njarðvíkingar fengu var ekki frumsýningin sem Haukur Helgi var búinn að sjá fyrir sér - það vitum við án þess að hafa sagt eitt orð við manninn. Hann gerði þó það sem hann gat og sýndi okkur annað slagið hvað hann er óhemju sterkur og fjölhæfur körfuboltamaður. Hann á eftir að gata nokkrar tölfræðiskýrslur í vetur, það er öruggt mál.

Njarðvíkurliðið á helling inni og þeir Friðrik Ingi Rúnarsson og Teitur Örlygsson munu sjá til þess að ná meira út úr því. Þetta var dálítið ljótt í gær og ljóst að það er mikil vinna fram undan hjá grænum, en þeir geta nú líka huggað sig við að þurfa ekki að spila við KR aftur alveg strax.

Það er haust og því fer enginn að missa sig í óðagot þó hann tapi körfuboltaleikjum. Við erum enn í október (þó að sé kominn nóvember þegar þú lest þetta) og þú vinnur ekkert í október, svo við rúllum okkur aðeins í 2. persónuna eins og Hubie Brown.

Það hefur ekki tíðkast hjá Friðrik Inga og Teiti að afsaka sig og sitt lið með væli út af meiðslum, en auðvitað gefur það augaleið að það vantar helling í Njarðvíkurliðið þegar það er án leikstjórnandans síns.

Saturday, April 2, 2011