Showing posts with label Phil Jackson. Show all posts
Showing posts with label Phil Jackson. Show all posts

Tuesday, February 17, 2015

Fjögur mögur ár Amare Stoudemire hjá Knicks


Við höfum ekki verið sökuð um sérstaka Þórðargleði yfir óförum New York Knicks undanfarin ár, sem er undarlegt í ljósi þess að við fáum mjög mikið út úr því að vera með leiðindi út í það ágæta félag á þessu vefsvæði. Þið vitið svo sem að þessi leiðindi rista ekki djúpt og eiga rætur að rekja til skrifstofu félagsins og fjölmiðla í New York fremur en leikmanna liðsins og enn síður stuðningnsmannanna.

Segja má að New York standi á tímamótum í dag. Carmelo Anthony fer líklega í hnéuppskurð og kemur ekki meira við sögu í vetur og í dag kunngerðu Knicks að þeir hefðu leyst framherjann Amare Stoudemire undan samningi. Því má segja að ákveðnu tímaskeiði sé að ljúka hjá Knicks. Tímaskeiði sem við skulum kalla Amare-Melo tilraunina.

Við kölluðum ekki til fjölmiðlafundar þegar Stoudemire gekk í raðir Knicks frá Phoenix sumarið 2010. Umfjöllun okkar um það var þvert á móti frekar fátækleg. New York þurfti að landa stjörnu til að selja miða og úr því það náði ekki í LeBron James (sem aldrei kom til greina hvort sem er), ákvað það að henda hundrað kúlum í manninn sem kallaði sig bæði Svarta Jesú og S.T.A.T. (Standing Tall And Talented).

Hann var bæði hár og hæfileikaríkur, hann Amare, það vantaði ekki og hann skilaði Knicks 25 stigum og 8 fráköstum í leik á fyrsta árinu sínu þar sem hann spilaði 78 leiki. Hann var allt í öllu hjá liðinu fram yfir áramótin 2011 en í febrúar það ár, fór Knicks í stórvirkar aðgerðir á leikmannamarkaðnum sem enduðu með því að liðið landaði Carmelo Anthony.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á, en auðvitað hefðum við átt að skjóta þessi viðskipti Knicks alla leið til andskotans og fordæma þau strax frá upphafi, því þau meikuðu ekki sens í eina mínútu.

Það tók okkur rúman mánuð að tjá okkur eitthvað um þetta nýja Knicks-lið og við höfum verið neikvæð og leiðinleg út í þetta lið nánast óslitið síðan.

Og það eru ástæður fyrir þessari neikvæðni. Hvað hefur New York afrekað síðan það ákvað að kasta sitt hvorum 100 milljónunum í þá Stoudemire og Anthony? Jú, 151 sigri og 160 töpum samkvæmt New York Daily News (ekki halda að við nennum að telja það saman).

Það sem skyggir enn frekar á þessa undarlegu viðskiptahætti Knicks er að þegar þeir Amare og ´Melo hafa spilað saman með liðinu (Amare er náttúrulega búinn að missa mjög mikið úr vegna meiðsla), er það meira að segja lélegra.

New York er aðeins 74-110 þegar tvímenningarnir eru báðir með og það sem verra er, er það aðeins 2-10 í úrslitakeppninni undir sömu kringumstæðum.

Á meðan annað lið sem ætlaði sér stóra hluti með því að púsla saman stórstjörnum, Miami Heat, fór í lokaúrslitin fjögur ár í röð með hjálp stjarnanna sinna, var New York 36 leikjum undir 50% vinningshlutfalli með þeim Melo og Amare - 44 leikjum ef úrslitakeppnin er meðtalin.

Sunday, February 8, 2015

Saturday, March 15, 2014

Hvað ætlar Phil Jackson að gera í New York?


Þegar stórmenni eins og Phil Jackson ráða sig í vinnu, er það jafnan í áhrifastöður hjá alvöruklúbbum. Annað væri enda óeðlilegt. Hvað ætti svo sem sjötugur og þrettánfaldur NBA meistari eins og Jackson að gera með að fara að hella sér út í járnabindingar, meindýraeyðingu eða þjálfa Milwaukee?

Þeir sem hafa haldið niðri í sér andanum yfir því hvort Knicks-orðrómurinn um Phil Jackson væri réttur, geta nú loksins andað frá sér og haldið áfram að lifa sínu eðlilega lífi. Ef þessir sömu aðilar ætla hinsvegar að sjúga inn annan lítra af lofti og halda niðri í sér andanum meðan Jackson losar um hnútana og kemur Knicks aftur á kortið sem alvöru körfuboltaliði, er illa fyrir þeim komið.

Þess vegna erum við að skrifa um þetta nokkur orð. Við erum að vara stuðningsmenn Knicks við því að missa sig í gleðinni. Er það ekki dæmigert af þessari bölsýnu, leiðinlegu og neikvæðu ritstjórn? 

Í þessum pistli færðu að vita hvaða helstu skilyrði þú þarft að uppfylla ef þú hyggst byggja upp samkeppnishæft lið í NBA deildinni, þar sem óguðlegt verkefni Phil Jackson hjá Knicks verður haft til hliðsjónar.

Það er ógeðslega létt að setjast við lyklaborð og skrifa nokkur orð um að það sé meira en að segja það að rétta Knicks-skútuna af og koma henni aftur á siglingu.

Skrifa, að þú gætir ekki komið Knicks á toppinn á ný þú þú nytir aðstoðar Frank Underwood, Walter White, Völu Matt, Leðurblökumannsins, Kim Larsen, Herra T, Vreni Schneider, gaursins sem lék Gunther í Friends og Jesúsar frá Nasaret.

Verkefnið er svo risavaxið að meira að segja Phil Jackson - einn sigursælasti maðurinn í sögu körfuboltans - gæti ekki leyst það.

Jackson, sem vann titlana sína tvo sem leikmaður þegar hann spilaði með Knicks fyrir fjörutíu árum síðan, gerir sér örugglega grein fyrir því eins og allir aðrir að verkefnið að koma Knicks aftur á toppinn er eins og að ausa hafið með skel.

En af hverju er hann þá að taka þessu djobbi? Maðurinn sem hefur hingað til ekki verið mikið fyrir það að eyða tíma sínum í eitthvað rugl, heldur stefnt að því að vinna titla með hjálp alvöru körfuboltamanna - Michael Jordan, Shaquille O´Neal og Kobe Bryant, svo einhverjir séu nefndir.

Fyrir það fyrsta er Jackson auðvitað að skipta um vettvang núna, því hann er að setjast alveg á skrifstofuna og lætur öðrum eftir að þjálfa. Enginn veit nákvæmlega hvert hlutverk Jackson verður hjá Knicks, en í okkar huga eru þó nokkur atriði alveg augljós.
Fyrir það fyrsta, er maðurinn ekki að vinna kauplaust, það er á hreinu. Það skiptir máli fyrir hann, en ekki Knicks, sem er opinn hraðbanki sem aldrei tæmist.

Hjá Knicks er hann að vinna hjá félagi þar sem hann nýtur mikillar virðingar, ekki bara sem sigursælasti þjálfari NBA-sögunnar, heldur líka af því hann spilaði með klúbbnum á sínum tíma og var í síðasta og eina Knicks-liðinu sem vann meistaratitil (1971 og 1973). 

Það hjálpar mikið á vinnustaðnum að vera með gott kaup, njóta virðingar og síðast en ekki síst - að vera ekki að vinna fyrir kærustuna sína og mág sinn líkt og þegar hann var á mála hjá Lakers síðast. 

Lakers var ekki tilbúið að ganga að skilyrðum Jackson þegar til stóð að ráða hann sem þjálfara í þriðja sinn á sínum tíma. Félagið var ekki tilbúið að opna budduna upp á gátt og heldur ekki að ganga að þeim skilyrðum sem Jackson setti varðandi keppnisferðalög og annað sem hafði með heilsu hans að gera. Það gleymist að Jackson er ekkert unglamb og hefur verið í vandræðum með heilsuna. 

Það var pínulítið klúðurslegt hvernig Phil Jackson skildi við Lakers síðast (reyndar ekki í fyrsta sinn) og þar vegur þyngst hvernig gengið var framhjá honum á elleftu stundu þegar gengið var frá ráðningunni á Mike D´Antoni á sínum tíma. 

Því má reikna með því að Jackson beri engan sérstakan hlýhug til Jim Buss og stjórnar Lakers og ef þessi ráðning hans hjá Knicks nú verður ekki til neins annars en að senda Buss-börnunum (fyrir utan kærustu hans Jeanie) og öðrum forráðamönnum Lakers hringsettan fingurinn, er hún örugglega þess virði fyrir Jackson. 

Nærvera Jackson ein, ætti að gefa Knicks trúverðugleika á leikmannamarkaðnum sem félagið hefur ekki búið yfir síðan Pat Riley var þar í brúnni fyrir tuttugu árum. Sú staðreynd að Jackson er búinn að skrifa undir þýðir að vægi Knicks er strax orðið talsvert meira en það var fyrir mánuði síðan.

Það eina sem félagið hefur haft upp á að bjóða síðustu ár er sú staðreynd að það er staðsett í einni merkilegustu borg í heimi, sem þar að auki er mekka körfuboltans. Miami hefur hinsvegar Pat Riley, hringana hans og vatnsgreiðslu - veðurfar, glans og guggur á Suðurströnd.

Við trúum því ekki að Phil Jackson sé bara að ráða sig til Knicks til að ulla á Lakers, fjandakornið. Eitthvað meira hlýtur að liggja að baki, hann hefur löngu gefið það út að hann er fjarri því að vera hrifinn af kuldanum þarna fyrir austan. Maðurinn hlýtur að ætla sér að ná árangri þarna eins og hann hefur gert allar götur síðan hann vann fyrsta meistaratitilinn sinn sem þjálfari árið 1991. Forsendurnar til þess eru bara ekki til staðar. Þess vegna erum við öll dálítið forvitin og í raun steinhissa á því hvað Jackson er að pæla með þessu.

Heldur maðurinn í alvörunni að hann geti náð árangri með Knicks? 

Langar hann kannski að ná að feta í fótspor Pat Riley forseta Miami Heat með því að verða meistari á þriðja stigi leiksins? 

Það hafa fáir gert, en Jackson veit að menn eins og Riley og Jerry West njóta talsverðrar virðingar fyrir skrifstofustörf sín ofan á sigra sem leikmenn og þjálfarar.

Jackson er auðvitað búinn að vinna miklu fleiri titla en Pat Riley, en ferill Riley er alltaf dálítið sérstakur af því hann hefur náð árangri á öllum þremur stigum leiksins. 

Riley var var rulluspilari í einu frægasta og besta körfuboltaliði allra tíma (Lakers 1972), þjálfaði eitt besta lið allra tíma (Skemmtikraftana hjá Lakers undir stjórn Magic Johnson á níunda áratugnum) og flutti loks til Miami eftir silfurstopp í New York í nokkur ár. Í Miami hefur hann náð að byggja upp tvö mjög sterk lið sem hann hefur gert að meisturum bæði sem þjálfari og síðar skrifstofumaður. 

Afsakið orðbragðið, en þú fokkar ekkert í þessu. Þetta er stórkostlegur árangur.

Auðvitað er smá séns á því að Jackson sé bara að tryggja fleiri kynslóðum afkomenda sinna efnahagslegan farborða með því að taka við nokkrum milljörðum frá bjöllusauðunum sem eru eigendur Knicks, svona rétt áður en hann gerist formlega ellilífeyrisþegi.

En myndir þú ekki frekar tippa á að svona mikill keppnismaður ætlaði í þennan slag til að ná árangri? 

Jú, við líka, en það segir okkur ekkert svo sem. Ekkert konkret á bak við það.

Ef við ætlum að komast að því hverjar raunverulegar fyrirætlanir Jackson eru, neyðumst við því til þess að gefa okkur smá tíma til að greina ástandið og fylgjast með því hvað hann gerir í vinnunni næstu misseri.

Gefum okkur það að Jackson ráði einhverju í nýja djobbinu. New York Knicks er risavaxið batterí og stór klúbbur sem hefur lítið gert annað en að verða sér til skammar síðustu ár. Ef til stendur að breyta því, verður að stokka gjörsamlega upp í dæminu eins og við höfum hvað eftir annað skrifað um á þessu vefsvæði. 

Og ef á að gera breytingar, verða fingraför Jackson væntanlega á verkefninu. Helsta ástæða þess að Knicks-mönnum er ráðlagt að halda ekki niðri sér andanum í biðinni eftir árangri er sú klúbburinn er eins og maður sem er fastur í kviksyndi. 

Því meira sem hann hamast og reynir að bjarga sér á örvæntingarfullan hátt, því hraðar sekkur hann.

Klárustu félögin í NBA deildinni (Lakers) voru oft ótrúlega fljót að stokka upp og byggja upp ný stórveldi - stundum þurftu þau ekki einu sinni að stokka upp. 

Í dag er hinsvegar búið að breyta reglunum svo mikið að svona aðferðafræði er nær ómöguleg. Þú verður helst að drulla konunglega upp á bak, vera lélegur í einhvern tíma og stokka svo allt upp á nýtt áður en þú getur farið að spá í að vinna titla á ný. Meira að segja stærstu klúbbarnir verða að fara þessa leið í dag.

Og það er þetta sem blasir við Knicks í dag. Þetta er auðvitað risastór klúbbur og krafan í Madison Square Garden er alltaf að bjóða upp á keppnishæft lið til að réttlæta bjánalega hátt miðaverðið. 

Það grátlega við þetta er hinsvegar að því meira sem þeir hafa reynt að undanförnu, því verra verður liðið eins og við bentum á í kviksyndislíkingunni áðan.

Knicks er með svívirðilega háan launakostnað og er með stórstjörnur á launaskrá, en það er ekki að skila nokkrum hlut. Því gæti einhver spurt: 

Af hverju þá ekki að "dömpa" bara öllum þessum "stjörnum" og byrja bara upp á nýtt?

Þarna komum við aftur að nýja djobbinu hans Jackson. Hvað myndir þú gera ef þú værir í hans sporum? 

Stærsta spurningin sem blasir við Knicks núna er samningsmálin hjá Carmelo Anthony. Myndir þú semja við hann og reyna áfram að byggja upp lið í kring um hann?

Phil Jackson var frábær þjálfari og vissi upp á hár hvað hann var að gera þegar hann var kominn með mannskap sem passaði vel inn í hugmyndafræði hans, þríhyrningssóknina, kammeratskap og kosmíska krafta. 
En hvað gerir hann nú þegar það kemur í hans hlut að ráða mannskap til að koma Knicks á toppinn?

Við segjum að þetta byrji allt saman á þjálfarastöðunni. Strúktúrinn hjá Knicks er til staðar, það er til nóg af peningum og umgjörðin er flott. 

Núna er bara að halda fund, koma sér saman um stefnu félagsins og byrja að ráða menn í verkefnið. Þetta er hægt að gera ef þú ert Knicks, en allt nema ómögulegt að gera ef þú ert Sacramento eða Minnesota.

Það vill enginn spila þar og rapparar, leikarar og fyrirsætur eru sjaldgæf sjón í dýru sætunum við hliðarlínuna

Efst á blaði er að ráða þjálfara fyrir liðið og það þarf að vera almennilegur þjálfari, ekki Mike Woodson, með fullri virðingu fyrir honum. 

Þetta þarf annað hvort að vera þjálfari sem er með plan og veit hvað til þarf til að búa til meistaralið (Rick Carlisle), eða einhver afburðasnjall maður í yngri kantinum sem sefur á skrifstofunni sinni og er tilbúinn að selja nýrun úr móður sinni til að vinna körfuboltaleiki (Erik Spoelstra).

Svo þarf að finna stórstjörnu, einn af fimm bestu leikmönnum deildarinnar (helst LeBron James eða Kevin Durant, auðvitað), mann sem er svo sterkur að hann myndi gera hvaða lið sem er í deildinni að virkum keppinaut - kandídat í meistaraskap. 

Svona kappar hrista upp í valdajafnvægi deildarinnar og þegar þeir skipta um lið, breytir það öllum hugmyndum manna um titilbaráttu næstu ára. Dæmi um þetta eru þegar Shaquille O´Neal fór frá Lakers til Heat og þegar LeBron James samdi við Miami.

Eins og áður sagði er búið að breyta strúktúrnum í NBA svo mikið að allar svona æfingar eru óhemju erfiðar. Lúxusskattur og leikmannasamningar þýða að aðeins handfylli af klúbbum í deildinni á möguleika á að lokka til sín samningslausa leikmenn. Memphis er ekkert að fara að landa Kevin Love þegar samningar hans losna, bara út af Elvis, vinalegu fólki eða góðum steikum. 

Regluverkið í dag er þannig að stjörnuleikmaðurinn Guðmundur annað hvort heldur áfram að spila hjá liði X þegar samningur hans rennur út hjá félaginu sem hann spilar fyrir - eða hann stingur af og fer eitthvað annað.

Klúbburinn hans Guðmundar getur boðið honum miklu hærri laun en nokkurt annað félag, svo það er umhugsunarvert hvort hann á að taka og Carmelo Anthony á þetta, væla sig út hjá klúbbnum sínum og ganga til liðs stórt og ríkt félag á stórum markaði.

Það sem ræður því að menn fara til stóru klúbbanna er "stærð markaðarins", kúltúrinn og svo auðvitað tekjumöguleikar. 

Þú getur t.d. rétt ímyndað þér hvort Kevin Love hefur meiri möguleika á því að vökva frægð sína og egó og fita hjá sér budduna í Minneapolis eða Los Angeles.

Þarna sjáið þið að það er sannarlega ekki að því hlaupið að byggja upp stórveldi í NBA deildinni. Það hefur satt best að segja aldrei verið erfiðara og þetta á bæði við um smáklúbba og þá stóru. Litlu klúbbarnir (Spurs, Thunder) þurfa bókstaflega að vinna í Víkingalottóinu sjö helgar í röð til að takast að koma saman meistaraliði. 

Risaklúbbarnir þurfa að vinna tvær vinnur og allar helgar, vera með klárt fólk á skrifstofunni, í þjálfun og frábæra leikmenn, ótakmarkað fjármagn og vorubílshlass af heppni til að gera sama hlut.

Möguleikar stóru klúbbanna á því að hlaða í meistaralið eru sem sagt takmarkaðir, sem þýðir jafnframt að möguleikar litlu klúbbanna eru astrónómískir

Og það þrátt fyrir að David Stern hafi um árabil verið að reyna að stilla regluverkið þannig að Davíð ætti smá séns í Golíat svona inn á milli.

Það má svo deila um ágæti þessarar jafnaðarstefnu fram á nótt, en það verður ekki gert hér.

Þannig að...

Það er sem sagt ekki víst að við sjáum einhverja risavaxnar breytingar hjá Knicks alveg strax, einfaldlega af því félagið er svo mikil rjúkandi rúst að það er ekki gott að sjá hvar best er að byrja. 

Við sögðum ykkur að þeir þyrftu að stokka upp - og það þurfa þeir að gera - en þeir verða að vera dálítið útsjónarsamir með það hvernig þeir fara að því.

Fyrsta og annað skrefið í uppstokkun hjá Knicks er Carmelo Anthony og við spáum því að við eigum eftir að læra mikið inn á tilætlanir Jackson og félaga þegar við sjáum hvernig þeir standa að ´Melo-málum. 

Félagið er reyndar svo efnað að það getur svo sem vel verið að það framlengi bara samninginn við Anthony hvort sem það ætlar sér að stokka upp eða ekki. 

Það má alltaf djassa upp einhverja díla með menn eins og Carmelo Anthony, málið er bara að reyna að gelda félagið ekki of langt inn í framtíðina (sjá: Bryant, Kobe og Lakers).

Við höfum oftar en einu sinni viðrað skoðanir okkar á Carmelo Anthony á þessu vefsvæði. Hann er einn besti stigaskorari jarðarinnar, en að okkar mati er hann ekki heppilegur kjarnaleikmaður til að byggja upp meistaralið í kring um.

Það eru um það bil þúsund ástæður fyrir því að að Knicks ætti að framlengja við ´Melo eins og skot og einbeita sér að næsta atriði, en að okkar fátæklega mati ætti félagið að losa sig við hann undir eins og reyna að fá eins mikið fyrir hann og unnt er.

Það ætti að vera nokkuð gerlegt enn sem komið er, því Anthony er enn í blóma lífsins og skorar eins og Hollywood-leikari á djamminu í Reykjavík.

Það má vel vera að Phil Jackson sé með plan í vasanum sem gengur út frá því að byggja upp samkeppnishæft NBA lið í kring um Carmelo Anthony á 150 milljón dollara samningi, en okkur er það til efs. 

Jackson er margfalt klárari en við þegar kemur að öllu sem snýst um körfubolta nema kannski lélegum Photoshop-bröndurum og Sasha Vujacic og þess vegna grunar okkur að það eigi ekki eftir að verða pláss fyrir Carmelo Anthony á málverkinu sem Jackson er nú að versla í striga og liti.

Tyson Chandler væri aftur á móti hiklaust maður sem væri inni í okkar plönum ef við værum í stöðunni hans Jackson, en því miður fær hann ekki að gegna stóru hlutverki í pælingunni sökum aldurs. 

Chandler er eini leikmaðurinn í liði New York í dag sem smellpassar inn í svona plön eftir okkar höfði - allt byrjar þetta í varnarleiknum. 

Þið megið ekki misskilja okkur og halda að við séum að drulla yfir ´Melo litla - hann er alveg góður körfuboltamaður - málið er bara að hann er ekki að fara að taka á sig neinar launalækkanir meðan hann er upp á sitt besta og því passar hann ekki inn í þetta skema hjá Knicks. 

Auðvitað gæti hvaða meistaralið sem er vel notað stórskorara eins og Anthony, en vandamálið er bara að það er svo lítill peningur eftir undir launaþakinu þegar hann er búinn að fá borgað að það er ekki hægt að borga restinni af meistaraliðinu okkar meinta laun.

Það er einhvern veginn svona sem við sjáum stöðu mála hjá Knicks í dag. Þetta er veruleikinn sem blasir við Phil Jackson í nýju vinnunni. 

 Forríkt félag á mögulega besta markaði í NBA deildinni sem heldur að það sé samkeppnishæft með því að tefla fram liði sem er blanda af of gömlum, of feitum, of heimskum og of meiddum leikmönnum sem eru allt frá því að vera sæmilegir að getu, niður í að vera bókstaflega kómískir og bara...  fyrir!

Það er orðin spurning um að skipta um vinnu ef þú ert orðin(n) fyrir í vinnunni, en þetta er oft raunveruleiki sem blasir við mönnum eins og Andrea Bargnani, J.R. Smith, Amare Stoudemire, Iman Shumpert, Kenyon Martin og Cole Aldrich svo einhverjir séu nefndir.

Það er hæpið að snillingur eins og Phil Jackson verði í hóp þeirra sem eru bókstaflega fyrir hjá New York Knicks, en í okkar augum er verkefnið sem við honum blasir svo risavaxið að líklega yrði það mesta afrekið hans á hans þó sögulega ferli ef hann næði að gera eitthvað með þetta Knicks-lið. 

Hér er að hefjast eitthvað sem er lygasögu líkast og eins og þetta horfir við okkur, er líklegast að fáir eigi eftir að heyra þessa sögu.

Verði sagan hinsvegar að bók, er ljóst að við erum að tala um verk sem á eftir að seljast meira en biblían og vitnað verður í til eilífðarnóns.

Slíkt er verkefnið sem blasir við Phil Jackson.

Monday, July 8, 2013

Perlan og Riley


Rákumst á þessa skemmtilegu mynd á rúntinum um netið. Þetta er blaðaúrklippa frá árunum í kring um 1970 sem sýnir "Perluna" Earl Monroe hjá Baltimore Bullets dansa í kring um Pat Riley, þáverandi leikmann San Diego Rockets.

Þeir Riley og Monroe komu báðir inn í NBA deildina árið 1967 en gegndu ólíku hlutverki hjá liðum sínum. Riley var rulluspilari allan leikmannsferilinn og sló ekki í gegn fyrr en hann hætti að spila og gerðist þjálfari.

Perlan lét hinsvegar strax til sín taka og var kjörinn nýliði ársins 1968 þegar hann skilaði 24 stigum, 6 fráköstum og 4 stoðsendingum í leik með Bullets.

Monroe og félagar komust alla leið í lokaúrslitin árið 1971 en máttu sín lítils gegn ógnarsterku liði Milwaukee Bucks með þá Jabbar og Oscar Robertson fremsta í flokki.

Mikil meiðsli voru í herbúðum Bullets og fyrir vikið var liðinu sópað í úrslitunum 4-0.

Svo skemmtilega vill til að leiktíðina 1971-72 skiptu bæði Riley og Monroe um lið. Monroe fór þá til New York Knicks þar sem hann myndaði eitt besta bakvarðapar sögunnar ásamt Walt "Clyde" Frazier, en þeir félagar skoruðu samtals um 46 stig í leik að meðaltali á þessari leiktíð.

MYND: Phil Jackson (nr.18) setur hindrun fyrir Walt Frazier (nr.10) í leik gegn Seattle Supersonics. Spencer Haywood (nr.24) heldur utan um Jackson og ennisbandafrumherjinn "Slick" Watts fylgist með lengst til hægri.

Pat Riley gekk í raðir LA Lakers og reyndist happafengur hinn mesti ef marka má árangur liðsins eftir komu hans, því hér er um að ræða liðið sem vann 33 deildaleiki í röð og setti met sem stendur enn. Lakers lauk deildakeppninni með 69 sigra og 13 töp, sem á þeim tíma var met.

Lykilmenn í þessu Lakers-liði voru Wilt Chamberlain, Jerry West, Gail Goodrich, Jim McMillian og Happy Hairston og er þetta lið oftast haft með í umræðunni þegar talað er um bestu lið allra tíma í NBA deildinni.

Og enn lágu leiðir Monroe og Riley í líka átt, því New York og Los Angeles mættust svo í lokaúrslitunum þetta árið, þar sem Lakers hafði betur 4-1 og landaði því loksins titlinum langþráða.

Liðið hafði þá tapað hvorki meira né minna en sjö sinnum í lokaúrslitum frá árinu 1962 - oftast fyrir frábæru Celtics-liði Bill Russell og félaga sem var nánast áskrifandi að meistaratitlinum á þessum árum.
  
MYND: Pat Riley hjá Lakers (nr.12) sækir að Phil Jackson hjá Knicks (nr.18)

New York þurfti ekki að bíða lengi eftir að ná fram hefndum gegn Lakers, því árið eftir snerist dæmið við þegar Knicks vann öruggan 4-1 sigur í úrslitaeinvíginu 1973. Þetta var annar meistaratitillinn í sögu Knicks, sem reyndar hefur ekki unnið hann síðan.

Til gamans má geta þess að þjálfarinn Phil Jackson var í leikmannahópnum hjá New York árið á þessum árum, en var aðeins rulluspilari hjá liðinu líkt og Pat Riley hjá Lakers. Það var "Kafteinninn" Willis Reed sem kjörinn var verðmætasti leikmaður úrslitaeinvígisins 1973 rétt eins og þremur árum áður.

Wednesday, May 15, 2013

Bling-blingið hans Jacksons


Phil Jackson brást ekki þegar hann var beðinn um að setja mynd af meistarahringjunum sínum með New York inn á Twitter í gærkvöldi. Auðvitað henti hann inn mynd af öllu bling-blinginu. Þetta er ekki slæmur haugur. Tveir hringar hjá Knicks sem leikmaður, sex með Chicago og fimm með Lakers sem þjálfari. Ekki nálægt því nóg af fingrum fyrir alla þessa hringa.


Tuesday, November 20, 2012

Phil Jackson lollar


"Hey, strákar! Ef ég hitti spassasveifluskoti með vinstri úr horninu, 
fer ég frá Chicago, tek við Lakers og vinn fimm titla þar, LOL!"


Monday, November 12, 2012

NBA Ísland heldur áfram að pönkast á LA Lakers



















Við verðum að viðurkenna að það kom okkur dálítið á óvart að Los Angeles Lakers tæki þá ákvörðun að ráða Mike D´Antoni til að taka við þjálfarastöðunni af Mike Brown.

Það virtist vera nánast klappað og klárt að Phil Jackson fengi sér sæti í sérútbúnu stólunum sínum aftur. Þeir voru þarna á sínum stað í æfingaaðstöðunni hjá Lakers og Mike Brown hefur eflaust þótt æðislega gaman að horfa á stólana í upphafi hverrar æfingar.

Engin pressa...

Nú kemur það í hlut Mike D´Antoni að horfa á stólana hans Jacksons, húsgögn sem minna á nýjasta velgengnitímabil Los Angeles Lakers sem útlit er fyrir að verði ekki leikið eftir í bráð.

Okkur þykir miður að harðorður pistill okkar á dögunum hafi orðið til þess að Mike Brown ræfillinn var rekinn á svona eftirminnilegan hátt, en það er ekkert grín að þjálfa Lakers, hann vissi það alveg sjálfur.

Myndin hérna fyrir neðan var tekin af Brown á kjúklingastað aðeins klukkustundum eftir að hann var látinn fara. Hann brosti sínu breiðasta, enda á hann eftir að fá um það bil einn og hálfan milljarð í laun frá Lakers áður en yfir lýkur.

Þeir öskra hátt núna, þeir fjölmörgu sem settu spurningamerki við ráðningu Mike Brown á sínum tíma. Við vorum í þeim hópi reyndar, en nú fær þessi sami hópur nýtt skotmark til að baula á - Mike D´Antoni.

D´Antoni náði frábærum árangri með Phoenix-hraðalestina með Steve Nash í fararbroddi en gat svo auðvitað ekki neitað sér um það þegar hann fékk tækifæri til að beygja Titanic-skipi þeirra New York manna frá ísjakanum.

Auðvitað tókst það ekki og nú bíður hans annað álíka krefjandi verkefni.

Enginn gerði beinlínis þær kröfur til D´Antoni að hann gerði Knicks að NBA meistara, en hjá Lakers er það titill eða dauði. Hann er með miklu betri mannskap hjá Lakers, en ekki nógu góðan, eins og við höfum tíundað í pistlum hér á síðustu dögum.

Nafnarnir Brown og D´Antoni eru spegilmynd hvor af öðrum.

Brown er flottur varnarþjálfari sem veit ekkert hvað hann er að gera á hinum enda vallarins, það hafa dæmin sýnt. D´Antoni er aftur á móti mjög góður sóknarþjálfari sem aldrei hefur getað fengið liðið sitt til að spila nógu góða vörn til að vinna meistaratitil.

Þetta kann að ljóma neikvæður og harðbrjósta dómur um Mike-ana tvo, en svona er þetta bara svart á hvítu.

Það er allt í lagi að vera krúttlegur þegar maður er að þjálfa Cleveland (Brown) eða Phoenix (D´Antoni) en þegar maður tekur við Lakers með fjóra Heiðurshallarmeðlimi í byrjunarliði, er það einfaldlega titill eða dauði.

Lakers-liðið ætti að vinna fleiri leiki nú þegar D´Antoni er tekinn við, einfaldlega af því hann er með litla generálinn sinn Steve Nash inni á vellinum. Nash veit upp á hár hvað hann á að gera fyrir D´Antoni og ef einhver maður í deildinni getur látið Lakers smella með því að spila jazz, er það Steve Nash.

D´Antoni er fullfær um að búa til Showtime á ný í Los Angeles, það er bara ansi fátt sem bendir til þess að liðið nái að sýna þá takta alveg fram í júní.  Til þess eru aðalpersónur of gamlar, vörnin of slök og breiddin of lítil.

Fari svo að Lakers reki þetta allt ofan í okkur - og því ætti það ekki að vera hægt með þennan mannskap - tökum við því auðvitað fagnandi. Dæmin bara sýna að það verður hrikalega erfitt fyrir Lakers að fara alla leið með þeim mannskap sem fyrir er.

Einn góður maður sem við heyrðum í í dag hitti naglann svo skemmtilega á höfuðið:  

"Ég hefði orðið dálítið smeykur við Lakers ef Phil Jackson hefði tekið við liðinu, en ég er bara ekkert hræddur við Lakers undir stjórn Mike D´Antoni."

Það er samt ekki þjálfarastaðan sem er vandamálið hjá Lakers. Það eru forráðamenn liðsins sem eru að gera í buxurnar. Uppbygging liðsins hefur ekki verið hugsuð til enda og því er erfitt að sjá hvernig Lakers á að haldast í fremstu röð á næstu árum.

Það er vinsælt að kenna auknum umsvifum Jim Buss, sonar eigandans Jerry Buss, um það sem hefur farið úrskeiðis hjá Lakers að undanförnu. Við ætlum ekki að þykjast hafa vit á þeim málum, en ljóst er að félagið hefur ekki haldið alveg nógu þétt á spöðunum að undanförnu.

Þessar miklu hræringar á Los Angeles Lakers haustið 2012 valda að okkar mati engum straumhvörfum í valdajafnvæginu í NBA deildinni.

Það eina sem þær gera er að gera sterkt en takmarkað lið Lakers skemmtilegra og þó það ætti auðvitað að selja fleiri miða og vera tryggara hinni gömlu og góðu showtime-stefnu félagsins, verður það ekki til að auka líkurnar á því að Kobe Bryant jafni Michael Jordan í titlafjölda.

Sumir halda eflaust að við séum að blanda heldur sterkt Hatorade handa Lakers með þessum endalausu bölsýnipistlum okkar, en svona sjáum við þetta bara.

Það yrði okkur sannur heiður að fá tætlurnar úr þessari spá í andlitið í sumar ef svo fer.

Ekkert mál.

Monday, September 3, 2012

Saturday, May 7, 2011

Sögulegir hlutir að gerast í úrslitakeppninni:


Ef eitthvað lið getur klúðrað 3-0 forystu, er það líklega Dallas Mavericks. Ef eitthvað lið getur komist í sögubækur með því að vinna seríu eftir að hafa lent undir 3-0, er það klárlega þetta Lakers-lið.

Dallas er nýbúið að sýna okkur (leikur 4 í Portland) að það hefur alla burði til að láta hlutina snúast í höndunum á sér. Lakers-liðið er með Kobe Bryant og Phil Jackson í sínum röðum, svo einhverjir séu nefndir. Menn sem hafa gert þetta allt saman áður.

Hvað ef Lakers-menn næðu nú að vinna leik fjögur í Dallas og færu svo á heimavöllinn burstuðu Mavs hressilega í leik fimm? Væri það ekki nóg til að rifja upp gamlar og slæmar minningar hjá Mavericks? Nóg til að láta þá kúka undir og missa seríuna frá sér?

Ofangreindar hugleiðingar eiga allar rétt á sér. Ekki tækjum við áhættu á því að veðja á móti Lakers. Þessi sería getur enn orðið spennandi - af hverju ekki?

En það er ekki málið.

Málið er, að Lakers-liðið er ekki með sjálfu sér. Það er eitthvað að. Aldur leikmanna hjálpar ekki, en það er eitthvað meira að. Þeir töpuðu tveimur leikjum gegn Hornets í fyrstu umferð en það hefur gerst áður. Það kom á daginn að það var ekkert til að hafa áhyggjur af. En að lenda undir 3-0 á móti Dallas eftir að hafa nánast gefið frá sér tvo vinnanlega leiki? Óhugsandi.

Memphis hefur verið spútniklið úrslitakeppninnar 2011, ekki spurning. Fáir reiknuðu með því að þeir tækju Spurs létt og næðu splitti í fyrstu tveimur leikjunum í Oklahoma í annari umferð. Algjört Öskubuskuævintýri. En það er samt miklu ótrúlegra að Dallas skuli vera í 3-0 á móti Lakers. Óhugsandi.

Þetta er síðasta árið hans Phil Jackson. Hann á í versta falli aðeins einn leik eftir á lygilegum þjálfaraferlinum. Kobe Bryant er hættur að geta gert hvað sem honum sýnist á vellinum. Andrew Bynum er ekki hægt að treysta vegna meiðsla og Pau Gasol virkar einfaldlega uppgefinn.

Fyrir stuttu síðan virtist enginn í Vesturdeildinni eiga eftir að koma nálægt Lakers á næstu misserum. Ekki lengur. Framvegis verður Lakers-liðið ekki með frípassa í finals. Ekki með þennan mannskap. Þú sérð það á þeim. Það er bara ekki innistæða fyrir þessu. Verða ekki sterkari næsta vetur nema stokka upp og fá til sín fleiri stórspilara.

Það er furðulegt að þetta hafi gerst svona eins og hendi hafi verið veifað, en það fer ekkert á milli mála. Lakara lið er að slá Lakers út úr úrslitakeppninni. Nákvæmlega ekkert eðlilegt við það.

Þetta Lakers-stórveldi eins og við þekkjum það hefur lokið keppni.

Og erkifjendurnir á austurströndinni gætu verið á sömu leið.