Friday, February 28, 2014

Ristill: Körfuboltalið New York Knicks er


Þetta er vægast sagt afdráttarlaus fyrirsögn, en hún er með þeim sannari sem skrifaðar hafa verið á þetta vefsvæði. Það er alveg sama hvernig þú teiknar það upp - hvort þú ert fullur eða edrú - hvort sem þú elskar eða hatar New York Knicks. Þetta körfuboltafélag er fullkomið rusl og stjórn þess, þjálfarateymi og leikmenn eiga ekki skilið að fá borguð laun síðustu fjóra mánuði.

New York var eitt af Spútnikliðum síðasta vetrar og óvænt gengi liðsins kom engum fagmanninum á óvart, því það er sama hvort um er að ræða hörðustu stuðningsmenn Knicks eða blaðamenn í Bandaríkjunum - allir virðast jafnan halda að Knicks-liðið sé um það bil helmingi betra en það er í raun og veru.

Og auðvitað héldu bæði sérfræðingar og vitleysingar þess vegna að Knicks myndi byggja á árangrinum á síðustu leiktíð og verða enn betra í vetur.

Sem dæmi um þetta má nefna spá þeirra ESPN-manna Jalen Rose í haust. Þeir eru einmitt skemmtileg blanda af sérfræðingum og vitleysingum og þeir spáðu því að New York yrði eitt af tíu bestu liðunum í NBA í vetur.

Eins og staðan er í dag, er New York ekki einu sinni eitt af tíu bestu liðunum í Austurdeildinni og þó vill svo vel til að þessi Austurdeild er sú lang, langlélegasta sem við höfum orðið vitni að á þeim áratugum sem við höfum fylgst með NBA deildinni.

Ef við skoðum töfluna í dag, eru sex lið með verri árangur en New York og nokkur þeirra eru búin að skipta frá sér öllum NBA leikmönnunum sínum og spila á D-deildarmönnum.

Utah Jazz er með betri árangur en New York Knicks þegar þetta er skrifað. Já, sama Utah Jazz liðið og efast var um að ætti eftir að vinna tíu leiki í vetur eftir að það byrjaði 1-14 í haust.

Ein af sorglegustu staðreyndunum við þetta allt saman er að aðalstjarna liðstins, Carmelo Anthony, er að eiga eina af sínum bestu leiktíðum síðan hann kom inn í deildina með LeBron James og Dwyane Wade árið 2003. Hann hefur aldrei spilað jafnmargar mínútur og hefur aldrei frákastað eins vel.

En það er engin fylgni milli spilamennsku Carmelo Anthony og stöðu Knicks í töflunni. Carmelo Anthony er fyrst og fremst skorari og er vissulega í heimsklassa sem slíkur, en þar með er öll sagan sögð.

´Melo nær ekki að gera hina fjóra mennina sem spila með honum betri, það er orðið augljóst og fyrir vikið kemst liðið hans aldrei yfir ákveðinn þröskuld.

Það eru strangar kröfur á hvaða körfuboltamann sem er að ætla honum að gera meðspilara sína betri, en það eru eðlilegar kröfur á mann í launaflokki og stöðu Carmelo Anthony. Það eru ekki nema örfáir leikmenn í NBA deildinni sem uppfylla þessar kröfur, en það eru líka hinar sannkölluðu ofurstjörnur.

Það er Carmelo Anthony ekki.

Carmelo Anthony er fyrst og fremst frábær skorari, sem er byrjaður að ógna um leið og hann stígur yfir miðju, en hann er langt frá því að vera hagkvæmur skorari og seint verður sagt að skotval hans sé mjög gott.

´Melo getur spilað ágætis varnarleik ef honum sýnist svo, en það er bara mjög sjaldan sem honum sýnist svo. Það er svo fyrst núna í vetur sem hann er að frákasta eins og hann hefur burði til, en fram til þessa hefur hann oftar en ekki verið með lélegar tölur í þeirri deildinni.

Lykilatriðin á bak við listina að gera meðspilara sína betri eru boltameðferð, sendingageta og útsjónasemi og þá gefum við okkur að viðkomandi leikmaður hafi líka áhuga á að gefa boltann - sé óeigingjarn. ´Melo hefur eitthvað af þessu, en hann virðist ekki hafa nægan áhuga á að eyða tíma í þessa þætti leiksins.

Sjáðu bara pilt eins og Paul George hjá Indiana, strák sem spilar sömu stöðu og Carmelo Anthony. Það eru mörg ár síðan menn vissu að George hefði alla burði til að verða stórstjarna, en áður en svo mátti verða þurfti hann að laga tvo stór atriði. Hann var jú alls ekki góður skotmaður og svo var hann með afleita boltameðferð.


Skottækni geta menn alltaf lagað og hún fer oftar en ekki batnandi hjá mönnum eftir því sem árin líða í NBA deildinni. George hefur enda bætt sig sem skotmaður og á sjálfsagt eftir að halda því áfram.

En það var ekki skottæknin sem varð til þess að hann fór frá því að verða efnilegur yfir í að verða einn af fimm bestu alhliðaleikmennum í deildinni. Það var boltameðferðin. Og hana bætti pilturinn stórlega með þrotlausri vinnu.

Boltameðferðin hjá Paul George er enn ekki eins og best verður á kosið og skotnýtingin hans er líka oft upp og ofan. Það er samt skondið að sjá það að á síðasta rúma ári eða svo, hefur George að okkar mati tekið fram úr Anthony.

Jú, jú, Melo er með eitthvað betri tölfræði, en þið megið ekki gleyma því að leikurinn fer fram á tveimur vallarhelmingum.

Svo má kannski minnast á að Indiana-liðið hans George (þó það sé vissulega betur mannað en Knicks) er búið að vinna meira en helmingi fleiri leiki en liðið hans Anthony (44 vs 21).

Við höfum hundrað sinnum skrifað um vandræðaganginn á Knicks og þá staðreynd að hann hefur alltaf byrjað á skrifstofunni.

Það er bara svo grátlegt að forráðamenn félagsins virðast alltaf svo staðráðnir í því að binda félagið í báða skó og reka það eins og íslenskan banka. Keyra allt áfram á glórulausum lánum og halda áfram að hnoða stærri og stærri snjóbolta sem bara stækkar og stækkar.

Það hefur legið í loftinu í fjölda ára, en ekkert hefur verið gert í því. Núna bendir hinsvegar flest til þess að verði ekki bara gerð uppstokkun hjá Knicks, heldur verði spilastokknum bókstaflega hent og nýr keyptur í staðinn.

Það hefur ekkert annað verið í stöðunni í nokkur ár, en forráðamenn Knicks virðast alltaf vera einu aðilarnir sem fatta það ekki.

Það er ómögulegt að segja hvað verður um Carmelo Anthony þegar þessi uppstokkun á sér stað, en það vill svo vel til að kappinn er með lausa samninga í sumar og því er augljóst að það kemur í ljós á næstu mánuðum hvort hann er í framtíðarplönum Knicks.

Vissulega er það hroki og besserwiss að segja svona, en ef forráðamenn Knicks ætla sér að gera eitthvað í framtíðinni, eiga þeir að láta Carmelo Anthony fara - hvort sem þeir fá eitthvað fyrir hann eða ekki.

Við erum löngu búin að sjá hvað lið getur náð langt með Carmelo Anthony sem aðalstjörnu, bæði með lélegan og þokkalega góðan mannskap í kring um hann. Ef metnaður Knicks gengur út á að vera í kring um 50% vinningshlutfallið og detta út í 1-2 umferð úrslitakeppninnar, er um að gera að semja við ´Melo sem fyrst.

Sé metnaðurinn meiri, verður hann að fara.

Og það krakkar, það er bara þannig.