Friday, January 31, 2014

Rusl-talOrð eru óþörfKR vann körfuboltaleik í Garðabæ

KR-vélin heldur áfram að hiksta dálítið eftir áramótin, en samt vinnur hún körfuboltaleiki. Stjörnumenn eiga sjálfsagt eftir að sofa illa í nótt eftir súrt tap fyrir KR á heimavelli í kvöld.

Gaman að sjá gulldrenginn okkar Pavel Ermolinski setja sigurkörfuna skömmu fyrir leikslok. Líka gaman að geta þess að Jón Sverrisson og Keli í Stundinni okkar tóku fleiri skot en Marvin Valdimarsson í liði Stjörnunnar - og sá síðarnefndi er ekki einu sinni í Stjörnunni.

Óþarfi að taka það fram að Martin Hermannsson (23/7/5) var besti maður vallarins í kvöld og það var einstaklega gaman að sjá hann kljást við Dag. Hey, hérna eru nokkrar myndir af þessu öllu saman.Monday, January 27, 2014

Ungu byssurnar


Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson eftir Stjörnuleikinn um helgina.


Velkomnir aftur


Kevin Garnett og Paul Pierce fengu konunglegar móttökur þegar þeir sneru aftur í Garðinn sinn í Boston í kvöld. Fallega gert af fólkinu að sýna þeim piltum smá ást eftir titilinn þeirra árið 2008. Svo var Pierce náttúrulega búinn að spila með Boston í 86 ár áður en hann skipti yfir til Nets.

Sunday, January 26, 2014

Sjóðbullandi


Carmelo Anthony skoraði 62 stig í sigri New York á Charlotte á föstudagskvöldið og fyrir vikið eru menn farnir að tala um að hann sé að hitna. Svo hirti hann meira að segja 20 fráköst í leik um daginn.

En Kevin Durant er líka sæmilega heitur um þessar mundir. Svo heitur að við ákváðum að bera þá félaga saman - athuga hvað þeir eru búnir að vera að gera í síðustu fimm leikjum. Þessi athugun segir ekkert stórmerkilegt, við ætlum ekki að halda því fram. Það er bara skondið að skoða tölur. Alltaf.


Saturday, January 25, 2014

Veðurathuganir Travis Cohn (þarna uppi)


Troðkeppnir geta alveg verið skemmtilegar ef þátttakendur kunna til verks. Snæfellingurinn Travis Cohn III er sannarlega einn þeirra. Klikkaði ekki á einni troðslu og sýndi langbestu tilþrifin í Hafnarfirði í dag, þar sem Stjörnuleikurinn 2014 fór fram.

Tilburðir hans hefðu auðveldlega dugað til að koma honum í úrslit í troðkeppninni í NBA deildarinnar. Maðurinn hefur svo lítið fyrir því að klifra þarna upp og dúlla sér að það er eiginlega asnalegt. Algjör fagmaður.

Hentum hérna inn nokkrum myndum af troðurunum knáu. Reyndar vantar þarna mynd af Nat-vélinni, en það kemur ekki til af góðu. Hann tók eiginlega Birdmanninn á þetta og var í stórvandræðum með útfærslurnar á troðslunum sínum. Endaði yfirleitt á því að skila niður iðnaði sem fékk svo ekki háa einkunn hjá dómurum.


Fegurð dagsinsÞessi var hugguleg


Sunday, January 19, 2014

Dennis Rodman á Vogi


Það er hálft ár síðan við sögðum ykkur frá því að Dennis Rodman væri búinn að leggja nafn sitt við áfengistegund sem við kölluðum Pörupiltavodka.

Þar lýstum við yfir áhyggjum okkar af því að þarna væri Rodman sennilega að tryggja sér ævibirgðir af sterku áfengi. Skemmst er frá því að þessar áhyggjur okkar reyndust á rökum reistar, því Rodman er búinn að tékka sig inn í meðferð við áfengissýki.

Umboðsmaður kappans segir að hafi verið bölvað álag á frákastaranum litríka undanfarið, en hann olli sem kunnugt er nokkru fjaðrafoki með heimsóknum sínum til frumstæðari endans á Kóreu um daginn.

Við hér á ritstjórn NBA Ísland sendum Rodman að sjálfssögðu batakveðjur í baráttunni við Bakkus og óskum honum alls hins besta í framtíðinni. Kannski nær hann að slíta vodkasamningnum og díla þá jafnvel frekar um að auglýsa skyrís fyrir Latabæ eða eitthvað í þeim dúr.

Óheppilegasta Twitter-auðkenni dagsins


Serbneska stúlkan Ana Ivanovic er ekki bara gullfalleg, hún er líka hörkugóð í tennis og er í þrettánda sæti styrkleikalista alþjóða tennissambandsins.

Nærtækasta dæmið um hæfileika Önu, er öruggur sigur hennar á Serenu Williams á opna ástralska meistaramótinu í nótt. Ivanovic hafði ekki unnið eina einustu lotu gegn Williams-vélinni fyrir leikinn í nótt, svo sigur hennar kom talsvert á óvart.

Það er samt pínulítið neyðarlegt að sjá hvernig hún skrifar nafnið sitt á Twitter, blessuð stúlkan. Að minnsta kosti fyrir fólkið sem snýr öllu sem það les upp í óæðri endann á sér. Við biðjumst velvirðingar á því ef þessi ómenning fer fyrir brjóstið á einhverjum lesenda.
ForeldrahugvekjaPaul George ákvað að troða bara


Friday, January 17, 2014

Fulltrúi NBA Ísland á Úlfavaktinni í Heiðurshöllina


Lesendur NBA Ísland eru alltaf á ferð og flugi og það er dásamlegt hvað þeir eru duglegir við að fara á NBA leiki sem fulltrúar NBA Ísland klæddir í bolinn góða.

Nýjasta myndin frá þessu tilefni er sannarlega með þeim dýrari sem borist hafa, en þar fer enginn annar en séra Guðni Már Harðarson úr Lindasókn í Kópavogi. Séra Guðni er mikill áhugamaður um íþróttir og er einn harðasti stuðningsmaður Minnesota Úlfanna hér á landi.

Guðni var svo heppinn að fá að stunda nám í Minnesota og gat því laumað sér á leiki með Úlfunum af og til. Úlfavaktin góða er orðin alþekkt fyrirbæri hjá NBA-hneigðum Twitternotendum sem eiga það til að vaka fram eftir nóttu.

Ritstjórn NBA Ísland er óhemju montin af því að geta kallað séra Guðna fýsískan fulltrúa síðunnar á Úlfavaktinni.

Við ætlum því að nota þetta tækifæri til að tilkynna ykkur að séra Guðni Már hefur hér með verið innvígður í Heiðurshöll NBA Ísland fyrir að standa Úlfavaktina af drengskap fyrir hönd síðunnar og hreinlega fyrir að vera toppmaður í alla staði. Hann lengi lifi - húrra, húrra, húrra!

Thursday, January 16, 2014

Magnaður leikur í Ásgarði


Það var ógeðslega gaman á leik Stjörnunnar og Þórs í Ásgarði í kvöld. Það var engu líkara en að um væri að ræða leik í úrslitakeppni, enda var vægi hans svo sem mikið - liðin á svipuðum slóðum í deildinni og endaspretturinn hafinn. Æ, þau hefðu eiginlega bæði átt skilið stig úr þessum leik. Leikbrot var líka á svæðinu.

En eins og þið vitið, fór Stjarnan með sigur af hólmi 97-95 eftir æsilegar lokamínútur. Þórsarar voru skrefinu á undan allan leikinn og voru í góðri stöðu þegar skammt var til leiksloka, en á einhvern undarlegan hátt náðu heimamenn að snúa þessu við í lokin. Það hjálpar að vera með miðherja sem getur vippað sér út fyrir og sett niður þrist á ögurstundu.

Eins og þið sjáið á stigaskorinu, eru þjálfarar beggja liða eflaust ósáttir með varnarleik sinna manna, en það þýðir bara að við áhorfendur fáum meiri sóknarleik fyrir peninginn okkar. Það er nægur tími til að spila varnarleik þegar kemur fram í úrslitakeppnina. Eða það finnst okkur a.m.k.


Við verðum líklega að biðja Nat-vélina afsökunar á að hafa jinxað hana með því að mæta loksins á leik með Þór, en landsliðsmiðherjar verða bara að hirða fleiri en fjögur fráköst á 29 mínútum. Þetta veit Ragnar vel og kippir þessu í liðinn næst. Það fór reyndar í taugarnar á okkur hvað hann fékk lítið að sjá af boltanum í sókninni. Mike Cook yngri  er með meira harpix í lúkunum en Héðinn Gilsson.

Við sáum fullt af háloftatilþrifum í þessum leik - flest þeirra frá Matthew Hairston - en við sáum líka dísellyftara í vinnu. Þið vitið, þennan sem er alltaf með öll fjögur dekkin á jörðinni en nær samt alltaf að staulast með hlassið á leiðarenda. Jú, það er Nemanja Sovic. Það bar meira á mörgum leikmönnum inni á vellinum, en samt var Sovic með vona 1600 fleiri framlagsstig án þess að svitna. Segir sína sögu um framlagsstig og segir sína sögu um díselvélina Sovic.Þetta var sannarlega einn fjörugasti leikurinn sem við höfum séð í vetur og lofar óhemju góðu fyrir baráttuna í vor. Andinn í liði Stjörnumanna var að vonum góður eftir þennan magnaða sigur, sem á eflaust eftir að gefa liðinu spark í anusinn. Ekki veitir af, þeir fá KR í heimsókn eftir hálfan mánuði milli þess sem þeir skreppa í Borgarfjörðinn.

Kjartan Atli Kjartansson er eins og þið vitið hættur að spila með liði Stjörnunnar og er búinn að skipta yfir í stórklúbbinn Álftanes. Kjartan er þó engan veginn hættur afskiptum sínum af Stjörnuliðinu og mætti flottur í tauinu á bekkinn. Það má því eiginlega segja að Teitur Örlygsson sé kominn með tvo aðstoðarþjálfara á bekkinn. Það vantar ekki stuðninginn fyrir ungu mennina í liðinu.

Hey, hérna eru nokkrar myndir: