Showing posts with label Skrum. Show all posts
Showing posts with label Skrum. Show all posts

Tuesday, October 13, 2015

Thursday, October 30, 2014

Allir saman nú


Eins og við mátti búast er Nike búið að gera óguðlega dramatíska auglýsingu í kring um endurkomu LeBron James til Cleveland. Í kvöld spilar hann fyrsta heimaleikinn sinn þar síðan hann var dæmdur réttdræpur þar fyrir fjórum árum.


Þó svona dramatík sé kannski full mikið af svo góðu, er ekki annað hægt en að hafa gaman af metnaði Bandaríkjamanna í að smíða skemmtilegt narratíf og umgjörð um leikinn. Við ætlum amk ekki að missa af leiknum í kvöld - og heldur ekki annað kvöld, þegar LeBron og félagar mæta Bulls í Chicago í beinni á Stöð 2 Sport.

Þetta er byrjað, krakkar. Þetta er byrjað.

Sunday, June 22, 2014

Meiðsli Joel Embiid hafa mikil áhrif á nýliðavalið


Nýliðavalið í NBA er á fimmtudaginn og loksins þegar bæði sérfræðingarnir og nördarnir voru búnir að reikna það út hvaða lið ætlaði sér að taka hvaða leikmann, sprakk allt draslið í loft upp þegar tilkynnt var að miðherjinn Joel Embiid væri fótbrotinn.

Embiid þessi er af mörgum talið mikið efni og reiknað var með því að Cleveland tæki jafnvel sénsinn á honum og tæki hann með fyrsta valréttinum í næstu viku. Þessi tíðindi þýða að nú eru þau plön úr sögunni og fyrir vikið fara plön fyrstu 7-8 liðanna í nýliðavalinu í ruslið.

Eins og þið vitið höfum við hérna á ritstjórninni ekkert agenda annað en það að við fáum sem fallegastan körfubolta og sem mest af honum. Þessi meiðsli á Embiid setja þar nokkurt strik í reikninginn og við værum að ljúga ef við segðum að við værum ekki brjáluð af því að verða vitni að enn einu fórnarlambinu lenda í kjaftinum á meiðsladraugnum.

Thursday, February 20, 2014

Tuesday, February 11, 2014

Bull og vitleysa?


Þeir sem fylgjast með á NBA Ísland vita vel að okkur gæti ekki verið meira sama um hvað er að gerast í háskólaboltanum. 

Okkur finnst háskólaboltinn lélegur og hundleiðinlegur og okkur er því miður drullu sama hvað leikmenn eru að gera þar - þeir hafa nægan tíma til að sanna sig þegar og ef þeir komast í NBA deildina.

Eins og þið vitið flest, hefur því verið spáð lengi að nýliðaárgangurinn í sumar verði sá sterkasti í mörg ár - mögulega síðan 2003 árgangurinn þeirra LeBron James og félaga. 

Þessar spár vöktu smá forvitni hjá okkur, enda var okkur farið að lengja mjög eftir almennilegum nýliðaárgangi. Á síðasta ári eða svo, náði svo skrumið í kring um 2014 árganginn hámarki. 

Svo bjartsýnir voru menn með þessa ungu leikmenn, að meira að segja við létum blekkjast og fórum meira að segja að gæla við það að horfa á leik í háskólaboltanum.

Núna er hinsvegar komið allt annað hljóð í strokkinn og menn sem hafa atvinnu af því að fylgjast með háskólaboltanum eru allt í einu farnir að draga í land með alla þessa snillinga sem þeir voru að lofa okkur í sumar.

Við skömmumst okkar hrikalega fyrir að hafa látið skrumið hafa áhrif á okkur. Nú ætlum við ekki að segja að nýliðavalið næsta sumar verði drasl, en ef marka má fregnir að vestan, verður það aldrei þessi gullnáma sem búið var að spá. 

Menn voru búnir að lýsa því yfir að liðin sem ættu fyrstu 7-8 valréttina myndu jafnvel öll ná sér í fínasta NBA leikmann og að 2-3 þeirra yrðu jafnvel stórstjörnur í framtíðinni.

Einmitt.

Auðvitað vonum við að þetta standist allt og að 2014 árgangurinn verði í alla staði stórkostlegur, en mikið óskaplega óttumst við að allt þetta tal um framtíðarstjörnurnar í nýliðavalinu í sumar reynist argasta kjaftæði. Einst og staðan er núna, er það líklegra en hitt.

Hvað sem kemur út úr þessu, verður þetta vonandi í síðasta skipti sem við látum plata okkur út í að verða spennt yfir hóp krakka í háskólaboltanum. Það er bara ekki fyrirhafnarinnar virði.

Wednesday, October 30, 2013

Thursday, May 30, 2013

Friday, February 22, 2013

Thursday, February 21, 2013

Þetta var allt og sumt


Félagaskiptaglugginn í NBA lokaðist í kvöld og eins og svo oft vill verða, sitja fjölmiðla- og stuðningsmenn uppi með lítið sem ekkert. Allt þetta skrum til einskis.

Þetta er raunveruleiki sem við verðum að sætta okkur við. Nýju kjarasamningarnir í NBA þýða að félögin eru í enn meiri spennitreyju en áður í launamálum og enginn þorir að taka áhættu - hvorki fjárhagslega né á körfuboltasviðinu.

Hér eru öll ósköpin sem gerðust fyrir lok gluggans í kvöld. Ekkert af þessu kemur til með að hafa stórkostleg áhrif á gang himintugla NBA deildarinnar í bráð.


Monday, January 28, 2013

Friday, January 4, 2013

Sagan af Amare Stoudemire er enn í smíðum


Það góða við að Amare Stoudemire skuli vera farinn að spila aftur með Knicks er að nú þurfum við ekki lengur að lesa þreyttustu tuggur ársins í fjölmiðlum - hvenær Stoudemire snúi aftur í lið Knicks.

Reyndar tekur ekkert betra við. Nú velta New York-miðlarnir sér bara upp úr því hvað hann fær margar mínútur og skot, sem er í raun ekkert mikið skárra, en skárra þó.

Stoudemire blessaður, er ein stór ekki frétt í okkar hugum, þvi miður. Fátt gladdi okkur meira en að sjá hann ljúka fallegum sendingum Steve Nash hjá Suns forðum.

NBA deildin hefur ekki hýst mörg eintök á borð við Stoudemire hvað varðar íþróttamennsku, táp og fjör. Hann hélt á þessum kyndli á undan Blake Griffin eins og þið munið.

Amare á hinsvegar ansi margt ólært sem leikmaður og úr þessu er óvíst að hann nái því. Síðast í gær lásum við fyrirsögn þar sem vitnað var í Stoudemire. Þar viðurkenndi hann að sér hefði aldrei verið kennt að spila varnarleik. Við vorum öll búin að taka eftir því.

En það er ekki bara varnarleikurinn.

Amare Stoudemire, allir 211 sentimetrarnir af honum, hefur nefnilega aldrei getað frákastað eins og maður. Þessi hávaxni íþróttamaður hefur ekki einu sinni náð að hirða 10 fráköst að meðaltali í leik á þeim áratug sem hann hefur spilað í deildinni. Og það sem meira er, hefur hann aðeins í tvígang hirt fleiri en 9,0 fráköst að meðaltali á leiktíð. Það er hrikalega slappt.


Charles Barkley mistókst einu sinni að hirða 10 fráköst að meðaltalí í leik á sínum ferli og það var á nýliðaárinu þegar hann spilaði ekki nema 28 mínútur í leik og var með Moses flippin Malone við hliðina á sér. Barkley, sem er/var meira en höfðinu lægri en Stoudemire, hirti þrettán sinnum 11 fráköst í leik eða meira á ferlinum.

Ekki er Stoudemire flinkari við að gefa boltann. Þar hefur hann aðeins tvisvar sinnum á ferlinum rofið tveggja stoðsendinga múrinn.

Svo við höldum okkur við Barkley, gaf hann níu sinnum fleiri en FJÓRAR stoðsendingar í leik á ferlinum og Karl Malone sjö sinnum. Ekki tvær eins og Stoudemire. Fjórar.

Það er hálf sorglegt að fylgjast með þessum fjölmiðlasirkus í kring um Stoudemire, þar sem allar fréttir snúast meira og minna um hvað hann getur ekki og mun aldrei ná að gera. Kannski var það ekki einu sinni tilviljun að Knicks yrði allt í einu sæmilegt lið með Stoudemire í enduræfingu.

Umræðan í dag snýst bara um það hvort Mike Woodson takist að láta hann spila einhverjar mínútur án þess að eyðileggja allt fyrir liðinu. Það er náttúrulega fyrir neðan allar hellur að það sé til vandræða að þurfa að púsla 100 milljón dollara manni inn í lið og eiga það jafnvel á hættu að hann skemmi meira en hann lagar!

Þetta er allt voðalega tragíst, en þetta vildi hann.

Til hvers að eiga ljúfasta líf í heimi í sólinni í Arizona þar sem þú þarft ekki að gera annað en grípa sendingar frá Steve Nash og troða þeim ef þú getur farið til New York og valdið alvöru vonbrigðum með míkrafón í andlitinu 24/7?

Það er ansi margt sem er ofar okkar skilningi í þessum bransa, krakkar.

Amare Stoudemire er eitt af því.

Saturday, November 17, 2012

- Þáttaskil hjá besta körfuboltamanni heims -


Miami-penninn Tom Haberstroh á ESPN átti kollgátuna í fyrradag þegar honum þótti ástæða til að skrifa grein um það þegar LeBron James ákvað að gefa boltann í stað þess að skjóta sjálfur á lokamínútu viðureignar Denver og Miami á dögunum.

Hversu oft höfum við ekki heyrt og séð þetta í gegn um árin?  James var ekki búinn að vera lengi í deildinni þegar byrjað var að skrifa heilu hlemmana um ákvarðanatöku hans á ögurstundu - skoða hverja ákvörðun og hverja hreyfingu í gegn um smásjá.

Það hefur vissulega komið fyrir á níu ára ferli hans að LeBron James hafi annað hvort (saurlosun) á sig eða ekki ráðið við verkefnið. 

James (saurlosun) á gólfið þegar Celtics sló Cleveland-liðið hans út úr úrslitakeppninni árið sem Cavaliers átti endanlega að fara alla leið árið 2010. Aftur (saurlosun) hann þegar Miami tapaði fyrir Dallas í lokaúrslitunum árið 2011.

Árið 2007 fór hann líka með veikt Cleveland-lið í úrslitin gegn San Antonio en réði þá ekki við verkefnið. Það verður að teljast fullkomlega mannlegt, því San Antonio var um það bil 840 sinnum sterkara lið en Cleveland og lokaði einfaldlega hurðinni á eina manninn sem gat eitthvað hjá Cavs.

LeBron var ekki búinn að vera lengi í deildinni þegar hann byrjaði að verða fyrir gagnrýni fyrir að gefa boltann á ögurstundu í stað þess að reyna að skora sjálfur. Ekki síst af því "Jordan og Kobe gerðu það alltaf."

Flestir sem skrifuðu um þetta tiltekna málefni tóku þó afstöðu með James, því það var augljóst að hann var bara að leita að besta skotinu sem í boði var, hvort sem hann tók það eða einhver annar.

Þetta er kallað að treysta meðspilurum sínum, en það er siður sem mörg stórstjarnan hefur átt erfitt með að temja sér.

Fólk er alltaf svo fljótt að gleyma því að James hefur hvað eftir annað lokað leikjum upp á sitt einsdæmi, aldrei eins eftirminnilega og með Cleveland gegn Detroit Pistons forðum.

Það er fallegt að hugsa til þess að pilturinn hafi kosið að vera samkvæmur sjálfum sér og halda sínum (rétta) leikstíl áfram þrátt fyrir alla þessa gagnrýni. Málið er auðvitað það að James er ekki þessi hefðbundni ofur-skorari og neyðarkall, þó hafi alla burði til þess.

Hann er ekki Kobe Bryant.

Hann er hinsvegar LeBron James, guði sé lof.

 Lang-, langbesti körfuboltamaður í heimi í dag.

Hann hlær að samkeppninni, óttast engan og stundum er eins og hann svífi í gegn um heilu leikina.

Maðurinn er  óstöðvandi á báðum endum vallarins og er alltaf að leita leiða til að vinna körfuboltaleiki, taka réttar ákvarðanir.

Sé það skot, verður það skot. Sé það sending, verður það sending. Gjör það sem til þarf til að vinna. Leyndarmálið.

Nei, ekki Kobe Bryant. Frekar eins og Larry Bird. Bara aðeins minni sveitalubbi, aðeins minni hormotta og sítt að aftan. Og aðeins meira svona... einn fræknasti íþróttamaður sögunnar.

Við erum alltaf að sjá nýjar og fallegar hliðar á þeirri dásamlegu staðreynd að LeBron James er loksins búinn að finna leið í gegn um gaddavírsgirðingarnar sem stóðu fyrir álit okkar allra á honum. Hann er frjáls ferða sinna, veit hver hann er og hvað hann þarf að gera. Gæti þess vegna sagt okkur að hann fílaði Creed og komist upp með það.

Þess vegna þótti Haberstroh ástæða til að skrifa þessa grein.

Það hjálpaði vissulega málstaðnum að þessi umrædda sending James þarna í Denver, sem var á galopinn Norris Cole í horninu, skilaði körfu sem ísaði leikinn.

En hvort sem skotið hefði farið niður eða ekki, er fólk nú farið að eyða orkunni í að hugsa um eitthvað annað en hvort James drekkur Coke eða Pepsi.

LeBron James fær að einbeita sér að því að vera hann sjálfur og halda áfram að vinna körfuboltaleiki með meistaraliðinu sínu.

Það eru falleg tíðindi.

Við urðum líka að skrifa grein, alveg eins og Haberstroh. Af því LeBron er leikmaður sem neyðir okkur reglulega að lyklaborðinu, hvort sem við höfum heilsu til að skrifa eða ekki. Hann er uppspretta andagiftar, hann er það góður.

Það hefur aldrei verið planið hjá okkur að fara í einhverja herferð til að auka hróður LeBron James á Íslandi, en það er ekki hægt að kalla þessa sífelldu pistla okkar um hann neitt annað en það - herferð.

Hann á bara skilið orðið að fallega sé um hann skrifað.

Hann er búinn að borga upp lánin sín í deildinni. Búinn að vinna vinnuna, svitna svitanum og bíta í súra eplið. Hann er búinn að gera mistök og að lokum hefur hann nú uppskorið eftir sáningu.

Fáir íþróttamenn, ef einhverjir, hafa byrjað í atvinnumennsku með öðru eins fári og LeBron James.

Við höfum sagt það áður og segjum enn. Það merkilegasta við feril James er að okkar mati sú staðreynd þrátt fyrir smá hiksta inn á milli, hefur pilturinn náð að standa undir megninu af þeim óraunhæfu kröfum sem til hans hafa verið gerðar á skrumfylltum fyrri áratug hans í NBA.

Það er ekki víst að þú áttir þig á því hve mikið afrek það er.

Nú er LeBron svo byrjaður að taka til hendinni í síðasta kaflanum í bókinni um James Konung, en sá kafli snýr að því að vinna fleiri meistaratitla. Það er ekki gott að segja til um hversu marga titla hann á eftir að vinna á ferlinum en flest bendir til þess að þeir verði fleiri en þessi eini.

Og það er sko ekkert að því okkar vegna.

Sunday, July 1, 2012

Dwight Howard tekur við Danny Ainge verðlaununum


Vonandi verður þessi pistill stuttur, því hann er hrútleiðinlegur og neikvæður. Hættu umsvifalaust að lesa ef þú ert mótfallin(n) slíku drama.

Þetta er út af honum Dwight Howard. Við höfum nokkrum sinnum átt það til að stríða honum á þessu vefsvæði og þegar við skrifum um hann hefur það stundum verið í leiðindatón. Núna erum við aftur á móti gjörsamlega búin að fá nóg af Dwight Howard. Mælirinn er fullur.

Helmingurinn af þessu er fjölmiðlum að kenna. Þeir eru búnir að vera með Dwight Howard efstan í fréttum í að okkur finnst mörg ár. Það er komið nóg af þessu. Hinn helminginn af bullinu á Howard sjálfur, því hann hefur ekki hugmynd um hvað hann ætlar að gera við líf sitt sem atvinnumaður og dregur okkur öll með sér niður í þennan valkvíðadrullupoll.

Við vitum ekki með ykkur, en við höfum fengið svo miklu, miklu meira en nóg af þessu bulli.

Þegar öllu er á botninn hvolft, er Dwight Howard ekki leikmaður til að standa undir öllu þessu óþolandi skrumi. Hann er ofmetnasti leikmaður síðari tíma í NBA.

Howard er fínn varnarmaður og góður frákastari, en ofmetinn á báðum sviðum og það er líka restin af leik hans.

Dwight Howard mun aldrei leiða lið til meistaratitils, ekki nálægt því, af því hann er ekki nálægt því að standa undir neinu slíku.

Hann er enginn sóknarmaður, grátlega léleg vítaskytta og hefur sýnt fram á það að undanförnu að hann er ekki eftirsóknarverður liðsfélagi ef á móti blæs.

Við roðnum í hvert skipti sem hann vinnur til verðlauna og þegar hann er kallaður besti miðherji í heimi. Miðherjastaðan er dauð.

Dúkkulísum eins og Howard hefði verið pakkað saman á níunda og tíunda áratugnum þegar voru alvöru stórir menn í deildinni.

Þess vegna höfum við fengið meira en nóg af öllu þessu fári í kring um það hvert Dwight Howard vill fara. Af hverju í fjandanum skiptir Orlando þessu fífli ekki til New Jersey hið snarasta? Félagið getur fengið einhverja mola fyrir hann þar og verður að láta sér það duga. Howard er löngu búinn að eyðileggja möguleikann á því að Magic fái raunvirði fyrir hann út af bullinu í honum. Hann mun heldur ekki hika við að ganga út þegar samningur hans rennur út ef til þess kemur, sem reyndar verður að teljast ólíklegt.

Dwight Howard er sagður trúaður og góður piltur og það má vel vera.

Hann er hinsvegar illa gefinn og virðist ekki hafa nokkra einustu hugmynd um takmörk sín eða hafa skilning á því hvernig NBA deildin virkar. Virðist vilja vera bæði "maðurinn" og meistari hjá nýja liðinu sínu, sem er hlægilegt.


Eftir hverju þessi snillingur er að bíða, veit enginn. Allra síst hann sjálfur.

Körfuboltinn verður allur miklu betri þegar þessi ofmetni bjáni sem Howard er, heldur sér loksins saman og byrjar að spila, hvar sem það verður nú.

Við vitum samt öll að þögnin verður ekki löng. Það verður ekki langt þangað til hann byrjar að væla aftur og þá út af óhæfum þjálfara eða slökum meðspilurum.

LeBron James hefur verið blóraböggull og óvinsælasti leikmaður NBA deildarinnar undanfarin ár, eða frá því hann framdi almannatengslamorð með "Ákvörðuninni" og eldflaugaverkfræðiummælum sem komu í kjölfarið.

Nú hefur hann hinsvegar leiðrétt þessi mistök og unnið titil og fer því smátt og smátt að komast aftur í góðu bækurnar hjá pöpulnum.

Við þurfum því að fá nýjan blóraböggul, nýja flóttageit sem við getum bölvað fyrir heimsku sína og titlaleysi - og Dwight Howard er fullkominn í hlutverkið.

Reyndar er Carmelo Anthony að veita honum sælskap á toppi þessa lista, en það verður Dwight sem situr í skussasætinu á næstu misserum. Köllum þetta Danny Ainge-verðlaunin í höfuðið á einum hataðasta manni deildarinnar á sínum tíma.

Til að súmmera. Ákveddu þig Dwigt, naglhaltu kjafti og reyndu að bæta þig sem leikmaður. Reyndu svo að vinna nokkra titla til að standa undir þessu fáránlega skrumi sem í kring um þig er alla daga. Þá skulum við athuga hvort við fyrirgefum þér allar þessar ömurlegu fyrirsagnir og greinar sem mengað hafa sjónlínu okkar síðustu misseri.

Þangað til skaltu steinþegja!