Sunday, June 22, 2014

Meiðsli Joel Embiid hafa mikil áhrif á nýliðavalið


Nýliðavalið í NBA er á fimmtudaginn og loksins þegar bæði sérfræðingarnir og nördarnir voru búnir að reikna það út hvaða lið ætlaði sér að taka hvaða leikmann, sprakk allt draslið í loft upp þegar tilkynnt var að miðherjinn Joel Embiid væri fótbrotinn.

Embiid þessi er af mörgum talið mikið efni og reiknað var með því að Cleveland tæki jafnvel sénsinn á honum og tæki hann með fyrsta valréttinum í næstu viku. Þessi tíðindi þýða að nú eru þau plön úr sögunni og fyrir vikið fara plön fyrstu 7-8 liðanna í nýliðavalinu í ruslið.

Eins og þið vitið höfum við hérna á ritstjórninni ekkert agenda annað en það að við fáum sem fallegastan körfubolta og sem mest af honum. Þessi meiðsli á Embiid setja þar nokkurt strik í reikninginn og við værum að ljúga ef við segðum að við værum ekki brjáluð af því að verða vitni að enn einu fórnarlambinu lenda í kjaftinum á meiðsladraugnum.

Af hverju fer þessi meiðsladraugur aldrei í heimsókn til Joe Crawford, Didier Drogba, Arjen Robben, Robin Van Persie eða Luis Suarez? Eða fólksins sem ákveður að það sé góð hugmynd að halda júróvisjónkeppnir? Eða stjórn FIFA?  Eða Adam Sandler og Drew Barrymore? Í stað þess að fokka í mönnum eins og Joel Embiid, Russell Westbrook og Derrick Rose, svo einhverjir séu nefndir! Stundum er ekkert réttlæti í þessum heimi.

Embiid, sem lék með Kansas háskólanum á liðinni leiktíð, er langt frá því að vera slípaður demantur, en hann er talið eitt besta miðherjaefni sem komið hefur fram í NBA í mjög langan tíma.

Hann er fæddur og uppalinn í Kamerún og byrjaði ekki að æfa körfubolta af viti fyrr en hann kom til Bandaríkjanna 16 ára gamall.

Hann hafði fram að því haldið sig við fótbolta og blak og vissi ekki muninn á maður á mann vörn og svæðisvörn árið 2011. Það litla sem hann vissi um körfubolta voru stúderingar hans á hreyfingum Hakeem Olajuwon af myndbandi sem einhver lét hann hafa í Kamerún.

Það er með hreinum ólíkindum hvað leið piltsins hefur verið lóðrétt upp á við á þessum stutta tíma, en þó skrumið í kring um hann sé óguðlegt, er hluti af því á rökum reistur, því drengurinn er óhemju hæfileikaríkur og fljótur að læra.

Það er eiginlega geðveiki að maður skuli vera bendlaður við 1. valrétt í nýliðavalinu í NBA deildinni einhverjum 4-5 árum eftir að hann snertir körfubolta í fyrsta sinn, en þannig var það nú samt með Embiid vin okkar.

Auðvitað er alltaf einhver smá séns á því að svona undrabörn reynist vera sekkir og skussar þegar upp er staðið - skemmst er að minnast manna eins og Hasheem Thabeet hjá Oklahoma, sem margir héldu að yrðu svaka spaði, en eins og allir eru löngu búnir að sjá í dag - kann drengurinn (enn) ekki körfubolta.

Það vill hinsvegar enginn framkvæmdastjóri vera fíflið sem missti af næsta Serge Ibaka í nýliðavalinu - nú eða þá næsta Hakeem Olajuwon! Já, ekki hlæja, fólk er í alvörunni búið að líkja Joel Embeed við Hakeem Olajuwon, sem er dálítið eins og að líkja Jógvan Hansen við Bruce Dickinson.

En nú er eins og draumur Embiid hafi breyst í martröð á einu bretti. Það eina sem fundið hefur verið að Embiid fyrir utan reynsluleysi og Thabeet-áhættu, er að hann missti mikið úr keppni á síðasta ári út af bakmeiðslum sem hann varð fyrir upp úr nánast engu. Það hringja alltaf viðvörunarbjöllur þegar stórum mönnum er illt í bakinu - ekki síst ungum stórum mönnum.

Bættu svo við það svona fótameiðslum eins og komu í ljós fyrir helgina og "böst-pótensjallinn" hans rauk upp úr öllu valdi.

Þessi meiðsli, þetta fótbrot sem kom í ljós á Embiid, boðar nefnilega EKKERT gott ef það er skoðað í sögulegu samhengi. Þetta eru sömu meiðsli og stórir menn eins og Bill Walton, Yao Ming, Zydrunas Ilgauskas og fleiri hafa orðið fyrir. Í tilviki þessara manna voru þau í besta falli alvarleg og kostuðu þá nokkur ár frá keppni, en í verstu tilvikunum, gerðu þau út um ferilinn hjá viðkomandi.

Það eina sem vinnur með Embiid í þessu samhengi er að hann er mjög ungur og að hann er talsvert léttari á fæti en fleistir þeir leikmenn sem glímt hafa við þessi þrálátu meiðsli.

Hann er ungur já, en er það ekki einmitt það versta við þetta? Að svona kornungur strákur skuli vera svona brothættur og það áður en hann kemur inn í NBA deildina - þar sem álagið byrjar fyrir alvöru. Margir skrifa þessi meiðsli á það hvað Embiid stækkaði rosalega hratt á síðustu árum og það getur vel verið að sé eitthvað til í því. Það breytir því hinsvegar ekki að hann er úr leik sem 1. valréttur í nýliðavalinu 2014 - það er alveg bókað.

Það er því nokkuð líklegt að Cleveland mun velja á milli þeirra Andrew Wiggins og Jabari Parker á fimmtudaginn kemur, en það verður líka áhugavert að sjá hvaða félag hefur kjark í að taka sénsinn á Embiid. Það er nefnilega þannig að þó NBA deildin sé alltaf að reyna að stilla regluverkið þannig að allir séu jafnir, er það auðvitað alls ekki þannig.

Þess vegna er líklegra að einhver af stærri og ríkari klúbbunum taki sénsinn á Embiid úr því sem komið er, því félög eins og t.d. Los Angeles Lakers, geta alltaf lokkað til sín menn með lausa samninga og eru því ekki eins háð því að hitta í mark í nýliðavalinu.

Það er þannig miklu meiri pressa á félögum eins og t.d. Milwaukee eða Utah að hitta í mark þegar kemur að nýliðavalinu, því svona klúbbar eiga engan séns á að lokka til sín alvöru leikmenn með lausa samninga.

Þau verða því aldrei góð nema detta í lukkupottinn í nýliðavalinu og styrkja sig þannig, eða með leikmannaskiptum.

Takist þessum klúbbum að ná í almennilega leikmenn í nýliðavalinu er svo ekki nema hálfur sigur unninn, því þessir leikmenn láta oft ljósadýrðina í stórborgunum lokka sig í burtu úr sveitinni og þá situr upprunalegi klúbburinn þeirra oft uppi með eitthvað drasl. Það er sko ekki tekið út með sældinni að vera smáklúbbur í NBA. Spurðu bara Denver (Carmelo Anthony), New Orleans (Chris Paul), Utah (Deron Williams) eða Minnesota (Kevin Love, sem er búinn að pakka í ferðatöskuna og á bara eftir að gefa upp ákvörðunarstað).

Eins og þið kannski vitið, erum við sjaldan æst yfir nýliðavalinu í NBA. Við fylgjumst ekki með háskólaboltanum af því hann er hundleiðinlegur, liðin í honum eru léleg, reglurnar asnalegar og þar fyrir utan er nægur tími til að horfa á piltana sem standa sig vel í háskólaboltanum spila þegar þeir gerast atvinnumenn.

Þrátt fyrir þessi leiðindi öll sömul, verðum við að viðurkenna að við erum með annað augað á nýliðavalinu í ár, af því menn eru búnir að vera að hæpa það upp í tvö eða þrjú ár.

Fyrir ári síðan átti nýliðavalið 2014 að vera það besta síðan 2003, en síðan hefur skrumið hægt og rólega minnkað.

Hvað sem því líður, hafa "sérfræðingar" í draftfræðum fullyrt það að þetta sér 7-8 manna nýliðaval, þ.e. að það séu sjö eða átta leikmenn að koma inn sem eiga að vera öruggir með að geta styrkt NBA lið með hæfileikum sínum - sumir strax (eins og Jabari Parker) en aðrir eftir nokkur ár þegar þeir hafa náð að slípa sig til (Embiid, Wiggins, Dante Exum).

Ef við miðum við hvað við höfum verið að fá út úr nýliðavalinu undanfarin ár, eru þetta ansi bjartsýnar spár og einn maður er meira að segja strax dottinn út úr pottinum vegna meiðsla.

Án þess að við höfum nokkuð fyrir okkur í því, er samt eitthvað sem segir okkur að við gætum átt eftir að fá nokkra stráka inn í deildina úr þessu nýliðavali sem ættu að geta skemmt okkur vel á næstu árum og jafnvel gagnast liðum sínum eitthvað.

Sjáið þið bara hvað við erum orðin ógeðslega bjartsýn! Við látum okkur ekki detta það í hug að ætla að fara að skrifa eitthvað meira um strákana sem fara í nýliðavalið á fimmtudaginn, við gerum víst nóg af því að fabúlera um eitthvað sem við höfum ekki hundsvit á.

En við þorum alveg að viðurkenna að við erum spennt fyrir nýliðavalinu í fyrsta sinn í mörg ár og það er algjör fjársjóður, því það lengir tímabilið í NBA svo mikið. Fyrst sjáum við hver fer hvert og svo fáum við vondandi að sjá flesta af þessum strákum spila eitthvað strax í sumardeildunum. Það verður hrikalega spennandi.