Monday, May 30, 2011

Lið fólksins


Þessi bolur endurspeglar líklega afstöðu Cleveland-búa þegar kemur að úrslitaeinvígi Miami og Dallas. Þeir eru ekki margir sem halda með Miami. Dallas er lið fólksins í þessu einvígi. Sumir hugsa kannski til þess með hryllingi að Miami verði í úrslitum á hverju ári framvegis. Það er óvíst að Dallas komist aftur í úrslitin í bráð, svo fylgismönnum liðsins er líklega hollara að njóta næstu daga í botn.

Sunday, May 29, 2011

Tími Oklahoma og Chicago reyndist ekki kominn:


Við erum búin að vera dálítið vond við Oklahoma og Chicago. Það fór svo að lokum að bæði lið töpuðu 4-1 í undanúrslitunum, en bæði þessi lið eru betri en sú tölfræði gefur til kynna. Auðvitað voru það vonbrigði fyrir liðin að detta svona út.

Chicago var eftir allt með besta árangurinn í vetur, verðmætasta leikmanninn og þjálfara ársins. Og í vestrinu var það Oklahoma sem átti að vera spútnikliðið ef svo ólíklega vildi til að Lakers færi ekki í úrslitin.

Hafi þessi niðurstaða í undanúrslitunum kennt okkur eitthvað, er það sú staðreynd að reynslan skiptir máli. Bæði Chicago og Oklahoma voru með nokkra af þessum leikjum í höndunum en gáfu þá frá sér með klaufaskap og reynsluleysi. Chicago átti ekki svör við varnarleik Miami og sóknarleik ofurstjarnanna þegar allt var undir. Oklahoma náði ekki að klára með unninn leik á heimavelli gegn Dallas.

Það er í fljótu bragði hægt að benda þrjú tilvik þar sem Miami og Dallas unnu leiki þar sem þau voru dauð og grafin. Leikjum sem þau hefðu líklega tapað ef óreyndir andstæðingar þeirra hefðu náð einu vel tímasettu stoppi eða skoti. Og það eru ekki bara leikmennirnir sem eru blautir á bak við eyrun. Þjálfarar liðanna tveggja voru búnir að vinna samanlagt tvo leiki í úrslitakeppni áður en keppni hófst um daginn.

Við erum ekki vön að vera að horfa á glasið hálffullt en við ætlum að reyna það í þessu tilviki. Flest lið þurfa að ganga í gegn um smá brölt áður en þau fara að vinna titla og þannig verður það með Oklahoma og Chicago.

Oklahoma var að vinna 20+ leiki á ári fyrir ansi stuttu síðan. Tók Öskubuskuna á þetta í fyrra og veitti Lakers fína keppni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Og í ár fer liðið í úrslit Vesturdeildar, þar sem það tapar reyndar dálítið illa, en einvígið var jafnara en tölur segja til um.

Lykilmenn Oklahoma eru kornungir og ákafir og virðast vera rétt stilltir. Það er óhjákvæmilegt að vakni margar spurningar eftir að lið dettur út 4-1 og fer illa að ráði sínu á köflum eins og Oklahoma gerði gegn Dallas.

Er Scott Brooks nógu góður þjálfari? Er Russell Westbrook leikstjórnandi og á félagið að hafa lyklana að sóknarleiknum í höndunum á honum? Er þeim stætt á að hafa James Harden áfram á bekknum? Á Kendrick Perkins eftir að nýtast liðinu almennilega? Getur Kevin Durant alið með sér meiri grimmd og staðið af sér þær barsmíðar sem hann fær í úrslitakeppni? Heldur Ibaka áfram að bæta sig og verður hægt að nota hann í stóru leikjunum?

Þetta eru ansi margar spurningar. Flestar þeirra eiga rétt á sér. En munum að Oklahoma er eitt yngsta lið deildarinnar og getur bara orðið betra. Og hvaða lið eru að fara að standa í vegi fyrir Oklahoma í vestrinu á næstu árum? Ekki mörg. Höfum glasið bara hálffullt og sleppum því að fara í panikk. Þetta lið er á bullandi uppleið og þarf að tapa aðeins áður en það fer að vinna meira. Pressan verður meiri á næsta ári en þessir piltar eru alveg til í að mæta henni.

Það sama er uppi á teningnum hjá Chicago Bulls. Þar verður meiri pressa á næsta ári.  Liðið átti frábæra deildakeppni og hefði tekið því síðasta sumar ef því hefði verið sagt að það færi í úrslit Austurdeildar. Chicago fór langauðveldustu leiðina í undanúrslit en vann fyrir því með því að vera með besta árangurinn í deildakeppninni.

Rétt eins og með Oklahoma, hefur ansi mörgum spurningum verið beint að Chicago eftir útreiðina sem það fékk frá Miami.

Var Derrick Rose að bregðast liðinu sínu með skotvali sínu og ákvörðunum? Voru það mistök að fá Carlos Boozer? Var Tom Thibodeau að standa sig í Miami seríunni? Vantar Chicago ekki almennilegan skotbakvörð? Hefði Kurt Thomas ekki átt að fá eitthvað af mínutunum hans Boozers? Hefði verið hægt að ætlast til þess að fá meira frá Luol Deng í sókninni? Hver á að vera annar kostur í sókninni hjá þessu liði?

Ef við munum rétt voru fleiri sérfræðingar á því en færri að Miami færi með sigur af hólmi í einvíginu gegn Chicago en við vorum ekki alveg að sjá af hverju. Sjáum það kannski núna. Þeir sem tippuðu á móti Chicago voru að velta því fyrir sér hvernig liðið færi að því að skora nóg á sterka Miami-vörnina og munurinn lá að miklu leyti þar. Chicago er í bullandi vandræðum með að slútta. LeBron James fór hamförum í vörninni á Rose og fékk líka góða hjálp. Þegar Rose er tekinn svona úr umferð, er ekki mikið eftir í sóknarleik Chicago.

Leikir liðanna voru flestir jafnir og spennandi en þó bæði lið hafi verið að slútta illa á lokamínútunum í gegn um einvígið, voru það stjörnurnar hjá Miami sem gerðu gæfumuninn. Við tippuðum á Chicago í þessu einvígi af því við héltum í barnaskap okkar að Chicago myndi gjörsamlega eiga teiginn. Það gekk ekki eftir og við urðum fyrir vonbrigðum með stóru mennina hjá Chicago. Vissum að Boozer myndi ekki gera neitt, en Noah átti að dansa stríðsdans í teignum og hirða 20 fráköst í hverjum einasta leik og senda LeBron og Wade í gólfið til skiptis. Og þegar hann færi í villuvandræði áttu Asik og Thomas að halda áfram að gera þetta sama. Vonbrigði.

Chicago er ekki eins ungt og efnilegt lið eins og Oklahoma, en það er sannarlega komið til að vera við toppinn í Austurdeildinni næstu ár. Derrick Rose er algjör lykilmaður í þessu liði og hann mun læra af manna mest af þessu Miami-einvígi. Hann er rétt stilltur og kemur sterkari út úr þessu, það er bókað. Vonandi verður sömu sögu að segja af Thibodeau þjálfara. Þessir gaurar vita að þeir eiga eftir að spila ansi oft við Miami á komandi árum.

Það sem Chicago þarf að gera öðru fremur er að útvega sér boðlegan skotbakvörð og senda Rose og Boozer saman á æfingu daglega til að bæta tvímenninginn.

Boozer var 20/10 maður hjá Utah af því hann fékk góða þjónustu en hana er hann ekki að fá hjá Bulls.

Það á kannski eftir að batna en ef Boozer er ekki að skila góðum sóknartölum, hefur hann ekkert inn á völlinn að gera af því hann er einn lélegasti varnarmaður deildarinnar. Og nennir heldur ekki að spila vörn.

Það er með ólíkindum að þessi maður sé að spila fyrir Tom Thibodeau. Ekki gleyma því að Boozer er ekki búinn að gefa Chicago nema smjörþefinn af meiðslatendensunum sínum.

Kannski tekur hann sig á og verður meiri lykilmaður hjá Bulls á næstu leiktíð, en það sem er líklegra er að félagið eigi eftir að dauðsjá eftir því að hafa samið við hann. Það er ekki mjög algengt að meistaralið séu með byrjunarliðsmann sem nennir ekki og getur ekki spilað vörn og er alltaf meiddur.

Ok við skulum hætta að pönkast á Boozer. Chicago ætti að verða betra á næstu leiktíð jafnvel þó engar mannabreytingar verði gerðar. En liðið verður ekkert krúttlið á næsta ári. Á næsta ári verður krafan að fara í lokaúrslit, allt annað verða vonbrigði. Aðeins Miami verður með meiri pressu á sér næsta vor.

Það var kannski til of mikils mælst að ætla Chicago og Oklahoma að fara alla leið í lokaúrslitin í ár en það er enginn heimsendir fyrir þessi lið. Þau fengu góðan skóla og verða bara betri á næsta ári.

Monday, May 23, 2011

Eru Miami og Dallas betri í körfubolta?


Miami spilar frábæran varnarleik. Og Chicago er stundum í erfiðleikum með sóknarleikinn. Hvort tveggja sáum við í nótt og þess vegna er Miami komið yfir 2-1 í einvíginu.

Við höfum það rosalega sterkt á tilfinningunni að Miami sé einfaldlega betra liðið í þessu einvígi. Rétt eins og Dallas virðist vera heilsteyptara lið en Oklahoma. Það lítur allt út fyrir að við fáum endurtekningu á lokaúrslitunum 2006.

Bæði Chicago og Oklahoma verða að vinna næsta leik. Annars eru þau fögt.

Saturday, May 21, 2011

Það er kominn tími á nýtt stórveldi í NBA


Hugtakið kynslóðaskipti er líklega ofnotað í boltaíþróttum en þó er ekki hægt annað en nota þessa klisju til að lýsa því sem er að gerast í NBA þessa dagana. Gömlu stórveldin Lakers, Celtics og Spurs hafa náð hátindi frægðar sinnar og styrkleika með núverandi mannskap.

Liðin eru komin mislangt á þessari leið hnignunar. San Antonio hefur lokið keppni sem stórveldi af þeirri einföldu ástæðu að Tim Duncan hefur ekki lengur líkamlega burði til að binda liðið saman á báðum endum vallarins.

Það er kannski full snemmt að dæma Lakers úr leik í ljósi þess að félaginu hefur hingað til tekist að næla sér í sterka leikmenn til að halda sér á toppnum (sjá: orðróm um t.d. Dwight Howard), en þetta frábæra lið keyrði á vegg um daginn þegar því var slátrað af Dallas-liði sem er ekkert mikið betra en það hefur verið síðustu fjögur ár.

Boston er svo einhversstaðar mitt á milli. Það er of snemmt að dæma liðið alveg úr leik eins og San Antonio, en Celtics þurfa meiri liðsstyrk en Lakers til að keppa aftur um titilinn. Kobe er kannski að eldast aðeins, en hann hefur öfluga stóra menn með sér (Gasol og Bynum) sem enn eru ferskari en þeir Pierce, Allen og Garnett hjá Boston.


Við höfum verið að heyra raddir sem ætla að gjaldfella úrslitin í ár af því stórveldin þrjú eru fallin úr leik, en það er ósanngjarnt, sömu liðin geta ekki unnið endalaust. Þú púllar engan Ryan Giggs í NBA deildinni.

Celtics/Lakers, Detroit, Chicago, Houston, Chicago, Lakers, San Antonio, Celtics/Lakers.

Svona hefur landslagið verið frá áttunda áratug síðustu aldar en nú þarf að öllum líkindum að fara að rista ný nöfn á dollurnar, sem er frábær tilhugsun.

Lið Chicago Bulls var ekki kallað stórveldi árið 1991, ekki frekar en aldamótalið Lakers. Þessi lið þurftu að fá nokkra skelli áður en þau náðu á toppinn. Á sama hátt verður alltaf stjarna fyrir aftan titlana sem Houston vann um miðjan tíunda áratuginn líkt og titil San Antonio á verkfallsárinu 1999, hvort sem það er sanngjarnt eða ekki.

Það á eftir að koma í ljós hvort liðið sem vinnur meistaratitilinn árið 2011 verður one hit wonder eins og Miami 2006 eða hvort titillinn verður bara upphafið að einhverju sögulegu. Ef við skoðum liðin fjögur sem eru eftir, verðum við að hallast að síðari kostinum.

Margir hallast að því að það verði Dallas sem tekur þetta í ár en þó ljótt sé að segja það yrði það eina niðurstaðan sem gæti orðið til að gjaldfella titilinn að okkar mati.

Af hverju? Af því sama hvað hver segir, er þetta Dallas lið ekki það mikið betra en hin liðin sem Nowitzki hefur farið fyrir á síðustu árum. Og Dallas er eina liðið af þessum fjórum sem er á síðasta séns til að vinna eitthvað. Dirk verður ekki betri og margir af lykilmönnum liðsins eru að verða eða eru þegar orðnir of gamlir.

Sú er ekki raunin með Oklahoma, Chicago og Miami.

Oklahoma er ungt og vel mannað lið sem getur orðið betra og sömu sögu er að segja um Chicago, sem þar að auki er með alla hefðina með sér og stóran markað.

Flestir eru svo sammála um að Miami geti ekki orðið nema betra á næstu árum þegar það getur leyft sér aðeins meira svigrúm í leikmannamálum og stjörnurnar spilast betur saman. Það eina sem í fljótu bragði gæti skemmt fyrir Miami er heilsan á Dwyane Wade.

Við skulum því ekki fara á límingunum þó Lakers og Celtics séu fallin úr leik í ár og "nýtt" nafn fari á bikarinn.

NBA deildin hefur sjaldan eða aldrei verið skemmtilegri og er stútfull af hæfileikamönnum sem eru æstir í að verða næsta stórveldi.

Margir hallast enn að því að verði verkfall í NBA í sumar en ef það þarf endilega að koma, er það að koma á flottum tíma. Sumir segja að það sé að koma á versta mögulega tíma, en það er einfaldlega rangt.

Það er að koma á besta mögulega tíma í sögulegu samhengi vegna þeirra miklu kynslóðaskipta sem eru í gangi.

Það hefði verið hrikalegt ef verkfall hefði rænt einhvert stórveldið möguleika á að vinna tvöfalt eða þrefalt en nú er engu slíku fyrir að fara. Borðið er hreint.

Auðvitað yrði verkfall massa turn-off, en tíminn gæti ekki verið betri þó deildin sé í mikilli sókn. Við skulum samt vona að ekkert verði af þessu, Zach Randolph er alveg maðurinn til að verða Shawn Kemp þessa verkfalls.

Við skulum því ekki fara í þunglyndiskast og verða svartsýn þó nýir hlutir séu að gerast í deildinni okkar. Hún mun halda áfram að standa fyrir sínu. Leikurinn mun alltaf sigra að lokum.

Friday, May 20, 2011

Thursday, May 19, 2011

Tuesday, May 17, 2011

Saturday, May 14, 2011

Tölfræði


Ainge og Perkins-skiptin með augum listamannsins


Gamlir kunningjar að ljúka keppni á stóra sviðinu:


Það hlaut að koma að því einn daginn, en við áttum ekki von á að það yrði vorið 2011.

Þú ert kannski einn af þeim sem duttu inn í NBA boltann þegar Michael Jordan var að vinna síðustu titlana sína með Chicago Bulls. Sá síðasti kom árið 1998 og eftir það urðu eðlilega straumhvörf í deildinni - stórveldi Chicago Bulls lagðist í dvala. Það virðist óskaplega langt síðan.

Þrír menn hafa skipt á milli sín flestum þeim titlum sem í boði hafa verið síðan árið 1998. Þetta eru auðvitað Shaquille O´Neal, Tim Duncan og Kobe Bryant. Einhver þeirra hefur spilað til úrslita um NBA titilinn á hverju einasta ári síðan #23 hætti.

Þangað til nú.

Við höfum fylgst með NBA nokkuð lengi en munum í fljótu bragði ekki eftir öðrum eins hamagangi og verið hefur í úrslitakeppninni árið 2011. Hér eru mjög sögulegir hlutir að gerast.

Í fyrrasumar, fyrrahaust, vetur og nú fram á vor, spáðum við að LA Lakers og Boston Celtics myndu leika aftur til úrslita um meistaratitilinn. Það var dálítið leiðinleg og óspennandi spá, en við sáum þetta ekki þróast öðruvísi, sérstaklega ekki í Vesturdeildinni.

Nú er önnur umferðin ekki einu sinni búin og minni spámenn eru búnir að bókstaflega drulla yfir gömlu risana, San Antonio, LA Lakers og Boston. Þessi lið voru send í frí með afgerandi hætti og nú er að verða komið að leiðarlokum.

San Antonio afskrifuðum við í fyrra en þó við höfum ekki ætlað liðinu langt í úrslitakeppninni núna, bjuggumst við ekki við að Memphis af öllum liðum ætti eftir að rassskella Spurs.

Það hefur tekið marga ansi langan tíma að afskrifa Spurs en nú þora loks allir að gera það. San Antonio vann fjóra meistaratitla út af Tim Duncan, en það er ekki sami Duncan og kom vægast sagt illa út úr einvíginu við Memphis.

Sóp Dallas-liðsins á Lakers eru einhver ótrúlegustu úrslit síðari tíma í úrslitakeppninni. Þegar Lakers lestin fer út af sporinu, lifir enginn af. Þetta Lakers lið verður gott áfram en þessi hræðilegi skellur sem það fékk nú, sýnir okkur að liðið nær ekki fyrri hæðum með þennan mannskap.

Lakers skorti hungur í ár. Það vantaði neistann. Varnarleikurinn var ömurlegur og Phil Jackson var ekki að ná til manna. Það var eiginlega sorglegt að horfa upp á þetta.

Nú þarf að finna nýjan þjálfara sem er Kobe þóknanlegur og reyna að mótívera mannskapinn aftur. Bryant hefur ekki tog til að bera liðið á herðum sér lengur og það er erfitt að sjá Lakers vinna titla nema með breytingum.

Samsæriskenningar um Howard-Bynum skipti eru þegar komnar á flug. Þegar Lakers vantar leikmenn, þá fara þeir bara og ná í þá. Þannig er það bara.

Boston hafði heppnina ekki með sér í þessari úrslitakeppni en tapaði fyrir betra Miami liði. Meiðsli Rajon Rondo og fleiri góðra manna höfðu sitt að segja í þessu samhengi, en stjörnur liðsins virkuðu bara of þreyttar í verkefnið.

Perkins-skiptin við Oklahoma verða áfram gagnrýnd harðlega, en við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr Perkins og Green á næstu árum til að dæma endanlega um þetta.

Það er auðvelt að benda á að Perkins (og Tony Allen reyndar) hefði aldrei átt að fara frá Boston. Það er hægt að benda á að Boston var nánast ósigrandi í deildakeppninni þegar Shaq var heill. Það er hægt að benda á að Rajon Rondo spilaði með annari hendi í síðustu leikjunum.

Þetta var allt óheppilegt, en Boston er komið yfir síðasta söludag með að vinna annan titil. Það verða einhverjar breytingar hjá þeim í sumar en þær þurfa að vera stórkostlegar til að komast fram hjá ungu liðunum í Austurdeildinni.

Það er skrítið að hugsa til þess að Shaquille O´Neal gæti hafa spilað sinn síðasta leik á ferlinum. Hann hefur tekið það mjög nærri sér að ná ekki að hjálpa Celtics í úrslitakeppninni en krónísk meiðsli hans hljóta að fá hann til að hugsa um að fara að hengja það upp.

Það er alltaf hálf melankólískt þegar verða kynslóðaskipti í NBA, ekki síst þegar þau gerast með jafn afgerandi hætti og nú.

Þeir Shaq, Kobe og Duncan voru leikmenn áratugarins en nú er þeirra tími liðinn og kominn tími á næstu kynslóð að taka við. Ungu mennirnir virðast vera alveg klárir í það.

Á leið í leik sjö


Hann gæti líka verið drengur á leið í fermingarfræðslu. Durant er svo mikið krútt.
Reynslubankinn stækkar hjá bæði Memphis og Oklahoma í leik sjö klukkan 19:30 á sunnudagskvöld.
Fyrsti oddaleikurinn í úrslitakeppninni. Oklahoma fer áfram og Durant verður góður.

Thursday, May 12, 2011

Wednesday, May 11, 2011

Monday, May 9, 2011

Atlanta og Memphis eru að spila körfubolta. Ekki Phil Jackson, Kobe Bryant og meistarar LA Lakers


Svona fór þetta þá. Það þýddi ekki einu sinni að jinxa Dallas með því að dæma meistarana úr leik í stöðunni 3-0.

Lakers hittu á skelfilegan dag til að vera undir 3-0. Þú veist, svona dag þar sem Dallas getur ekki með nokkru móti klikkað á þriggja stiga skoti.

Dallas sópaði Lakers út úr úrslitakeppninni með 122-86 sigri á heimavelli.

Það þarf svo sem ekki að analísera þessa seríu neitt stórkostlega. Lakers, sem hafa átt það til að hiksta aðeins í fyrri umferðum í úrslitakeppninni undanfarin ár, gerðu meira en að hiksta að þessu sinni.

Þetta var óþekkjanlegt lið. Horfðu bara á alla GALopnu þristana sem Dallas jarðaði í einvíginu.

Þetta var rosalega dapurt hjá meisturunum.

Stundum eru menn bara ekki með þetta og Lakers-menn voru ekki með þetta gegn Dallas. Það var engu líkara en þeir væru farnir að finna fyrir því að vera búnir að spila 100 leiki á hverju ári síðan 2008. Lykilmenn að eldast og allt það jara jara. Það er ekki einu sinni hægt að pikka út leikmenn og rífa í sig. Þeir spiluðu bara allir eins og aumingjar.

Við höfum fengið skammir fyrir að hrósa ekki Dirk Nowitzki og Dallas-liðinu. Það er af því þetta lið er ekki að gera neitt sem við höfum ekki séð áður. Það er þekkt stærð og gengur mikið til á sömu prinsippum og hafa einmitt ekki skilað því langt á undanförnum árum.

Auðvitað spilaði Dallas samt fantavel. Dirk hefur verið stórkostlegur og hefur fengið mikla hjálp frá félögum sínum. Þú vinnur ekki sex leiki í röð í úrslitakeppni ef þú ert með lélegt lið. Það er samt ekki málið. Málið fyrir okkur er að meistarar síðustu tveggja ára lögðust í götuna og drulluðu á sig.

Það er grátlegt að sjá Phil Jackson fá slíka útreið í sínum síðustu leikjum sem þjálfari. Vera sópað í fyrsta sinn á 20 árum sem þjálfari og horfa á liðið sitt gjörsamlega brotna niður. Og tapa kúlinu.

Við missum okkur þegar við sjáum svona bull eins og Andrew Bynum var að bjóða upp á þegar hann gaf Barea litla olnbogaskotið. Við erum alltaf að kvarta yfir því að NBA deildin sé orðin dömubindaauglýsing, en það er eitt að spila fast og annað að vera bara klassalaus fáviti. Það var Bynum í þetta skipti. Pikkaðu á einhvern sem er svipaður á stærð og þú og þakkaðu fyrir að einhver tekur sig ekki til og sparkar í gimpahnéð á þér.

Það er gaman að fá óvænt úrslit af og til í körfubolta en við erum hætt að fatta hvað er að gerast í þessari Vesturdeild þetta vorið. San Antonio og LA Lakers hafa verið send í frí með skömm og nýju krakkarnir í hverfinu eru að gera allt vitlaust.

Við gerum öllu þessu drama ekki skil í einni færslu. Við þurfum að pæla í arfleifð Lakers-liðsins og Phil Jackson og ræða sérstaka stöðu sem er komin upp í úrslitakeppninni. Meira um það síðar.

"Bíddu, snýr þetta ekki eitthvað vitlaust?" dagsinsSaturday, May 7, 2011

Sögulegir hlutir að gerast í úrslitakeppninni:


Ef eitthvað lið getur klúðrað 3-0 forystu, er það líklega Dallas Mavericks. Ef eitthvað lið getur komist í sögubækur með því að vinna seríu eftir að hafa lent undir 3-0, er það klárlega þetta Lakers-lið.

Dallas er nýbúið að sýna okkur (leikur 4 í Portland) að það hefur alla burði til að láta hlutina snúast í höndunum á sér. Lakers-liðið er með Kobe Bryant og Phil Jackson í sínum röðum, svo einhverjir séu nefndir. Menn sem hafa gert þetta allt saman áður.

Hvað ef Lakers-menn næðu nú að vinna leik fjögur í Dallas og færu svo á heimavöllinn burstuðu Mavs hressilega í leik fimm? Væri það ekki nóg til að rifja upp gamlar og slæmar minningar hjá Mavericks? Nóg til að láta þá kúka undir og missa seríuna frá sér?

Ofangreindar hugleiðingar eiga allar rétt á sér. Ekki tækjum við áhættu á því að veðja á móti Lakers. Þessi sería getur enn orðið spennandi - af hverju ekki?

En það er ekki málið.

Málið er, að Lakers-liðið er ekki með sjálfu sér. Það er eitthvað að. Aldur leikmanna hjálpar ekki, en það er eitthvað meira að. Þeir töpuðu tveimur leikjum gegn Hornets í fyrstu umferð en það hefur gerst áður. Það kom á daginn að það var ekkert til að hafa áhyggjur af. En að lenda undir 3-0 á móti Dallas eftir að hafa nánast gefið frá sér tvo vinnanlega leiki? Óhugsandi.

Memphis hefur verið spútniklið úrslitakeppninnar 2011, ekki spurning. Fáir reiknuðu með því að þeir tækju Spurs létt og næðu splitti í fyrstu tveimur leikjunum í Oklahoma í annari umferð. Algjört Öskubuskuævintýri. En það er samt miklu ótrúlegra að Dallas skuli vera í 3-0 á móti Lakers. Óhugsandi.

Þetta er síðasta árið hans Phil Jackson. Hann á í versta falli aðeins einn leik eftir á lygilegum þjálfaraferlinum. Kobe Bryant er hættur að geta gert hvað sem honum sýnist á vellinum. Andrew Bynum er ekki hægt að treysta vegna meiðsla og Pau Gasol virkar einfaldlega uppgefinn.

Fyrir stuttu síðan virtist enginn í Vesturdeildinni eiga eftir að koma nálægt Lakers á næstu misserum. Ekki lengur. Framvegis verður Lakers-liðið ekki með frípassa í finals. Ekki með þennan mannskap. Þú sérð það á þeim. Það er bara ekki innistæða fyrir þessu. Verða ekki sterkari næsta vetur nema stokka upp og fá til sín fleiri stórspilara.

Það er furðulegt að þetta hafi gerst svona eins og hendi hafi verið veifað, en það fer ekkert á milli mála. Lakara lið er að slá Lakers út úr úrslitakeppninni. Nákvæmlega ekkert eðlilegt við það.

Þetta Lakers-stórveldi eins og við þekkjum það hefur lokið keppni.

Og erkifjendurnir á austurströndinni gætu verið á sömu leið.

Sunday, May 1, 2011

Wade finnur LeBron


Svona var fyrsta umferðin í úrslitakeppninni


Það ríkir ákveðin örvænting af því NBA Ísland er ekki búið að segja frá því hvað gerðist í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í NBA. Hafðu ekki áhyggjur, hér kemur það.

AUSTURDEILD:

Chicago-Indiana (4-1) var aldrei spennandi sería og átti heldur ekki að vera það. Chicago búið að vera á góðu skriði og kláraði dæmið eins og við var búist.

Chicago þurfti sem betur fer ekki á Carlos Boozer að halda í einvíginu, því hann var ekki með í því. Eitthvað af því skrifast á támeiðslin hans. Þegar allt er talið, er Indiana ekki nógu sterkt lið til að eiga skilið að fara í úrslitakeppni. Þetta var formsatriði hjá Chicago og gott að sjá að liðið hafði drápseðli til að klára þessa seríu með formlegum hætti.

Orlando-Atlanta (2-4) var leiðinlegasta einvígið í fyrstu umferðinni eins og reikna mátti með, enda er Atlanta í miðri herferð sem ætlað er að eyða áhuga á íþróttinni körfubolta.

Bæði lið sýndu sínar verstu hliðar í þessu einvígi en svo fór að lokum að Orlando hafði betur hvað það varðar og tapaði seríunni.

Dwight Howard spilaði mjög vel en það eru óveðursský á himninum yfir Orlando. Van Gundy verður eflaust látinn fara þó það sé ekki honum að kenna að liðið sé að borga Hedo Turkoglu og Gilbert Arenas peninga sem nægðu til að koma Orkuveitu Reykjavíkur yfir núllið.

Boston-New York (4-0) var minnst spennandi serían í úrslitakeppninni. Margir voru að vona að New York næði að stríða Boston eitthvað, en varnarleikur liðsins og meiðsli Chauncey Billups og Amare Stoudemire komu í veg fyrir það. New York-liðið barðist hetjulega en átti aldrei séns þó það hafi verið í bullandi séns með að stela leik í Boston. Celtics kláruðu þetta dæmi nokkuð vel bara. Kannski betur en reiknað var með.

Miami-Philadelphia (4-1) er sería sem þróaðist svipað og búist var við en þar stendur líklega upp úr hvað Sixers-liðið stóð sig vel og fór fram úr væntingum í vetur. Doug Collins gerði vel með þann mannskap sem hann hafði úr að moða og var kannski óheppinn að mæta einmitt Miami í fyrstu umferðinni - líklega það lið sem Sixers hentaði verst að mæta. Miami kláraði þetta einvígi á hæfileikunum en lendir strax í miklum vandræðum í næstu umferð ef það ætlar að halda áfram að dúlla sér eins og það gerði gegn Sixers.

VESTURDEILD:

San Antonio-Memphis (2-4) var auðvitað öskubuskuævintýri fyrstu umferðarinnar. Einhverjir Nostradamusar spáðu Memphis sigri í einvíginu en hefðu ekki gert það ef líf þeirra hefði legið við.  Ekkert mál að þykjast vera gáfaður á pappír, það vitum við.

Gregg Popovich hefur látið í veðri vaka að meiðsli Tim Duncan og Manu Ginobili hafi skemmt fyrir liði Spurs þó það sé auðvitað engin afsökun.

Meiðsli eða ekki, við höfum aldrei séð Tim Duncan jafn ævintýralega lélegan og hann var í þessari seríu. Parker og Manu áttu spretti en voru ekki góðir.

Memphis-liðið var einfaldlega betra og óttaðist Spurs ekki á nokkrum tímapunkti, sem er ótrúlegt. Við höfum oft sagt að Memphis ætti að vera með leikmenn til að vera betra lið en það hefur verið undanfarin ár og nú er það að sýna sig - og það án Rudy Gay. Lionel Hollins þjálfari er að gera ótrúlega hluti með þetta lið.

Oklahoma-Denver (4-2) er sería sem margir töldu að færi jafnvel alla leið í sjö leiki. Oklahoma var ekki sammála því og átti þessa seríu. Tímabilið hjá Denver endar því í ákveðnu þunglyndi eftir alla gleðina sem ríkti eftir Carmelo-skiptin. Melo eða ekki Melo, Denver er bara ekki með þetta. Það er bara þannig.

Dallas-Portland (4-2) var áhugaverð sería fyrir þær sakir að flestir voru að tippa á að Portland myndi vinna hana.

Dirk og félagar náðu hinsvegar að hrista af sér slenið sem einkenndi liðið á lokasprettinum í deildinni og klára þetta. Dirk var fáránlega góður í þessu einvígi og þeir eru ekki margir leikmennirnir sem spiluðu betur en hann í fyrstu umferðinni.

Fjórði leikur liðanna (Brandon Roy leikurinn) var stórkostlegur en enn eitt árið þarf Portland að sætta sig við að vera bara efnilegt lið. LaMarcus Aldridge gleymdi dálítið að mæta í þetta einvígi.

LA Lakers-NewOrleans (4-2) var dæmigert fyrstu umferðar einvígi fyrir Lakers, sem létu okkur halda að þeir væru í vandræðum í fyrstu fjórum leikjunum.

Rétt eins og til dæmis gegn Houston og Oklahoma í fyrstu umferðinni á síðustu árum, var liðið bara að stríða okkur.

Chris Paul sýndi okkur sparihliðarnar á köflum í þessu einvígi og þegar hann gerir það, kemst enginn leikstjórnandi í heiminum nálægt honum í hæfileikum.

Engin skömm af því fyrir Hornets að tapa fyrir Lakers og slútta tímabilinu svona eftir að hafa misst sinn næstbesta mann í meiðsli fyrir nokkru síðan.

Við fengum enga sjö leikja seríu í fyrstu umferðinni og það er allt í lagi, því þetta voru frábærir leikir sem voru í boði - ein allra besta 1. umferð síðari ár að margra mati.

Memphis og Atlanta fóru gegn hefðinni og náðu að vinna einvígi sín án þess að vera með heimavallarrétt. Memphis varð fjórða 8. sætis liðið í sögunni til að slá út liðið í efsta sæti.