Showing posts with label Þrennur. Show all posts
Showing posts with label Þrennur. Show all posts

Friday, October 23, 2015

Blóðbað í Breiðholtinu


Fallega gert af Natvélinni og félögum í Þór að standa undir hrósinu sem við gáfum þeim á dögunum með því að valta yfir Tindastól í Ljósabekknum í Þorlákshöfn 92-66. Þetta eru ekki beint tölurnar sem við hefðum búist við, en Þórsarar eru þarna að láta enn betur vita af sér en þeir gerðu í Vesturbænum á mánudaginn.

Ekki skemmir að téð vél hélt áfram að terrorísera í teignum og hirti 17 fráköst, þó það væri auðvitað Davíð Ágústsson sem stal senunni með þristunum sínum sjö úr átta tilraunum.

Það er okkur alltaf ánægjuefni þegar litlu liðin úti á landi eru með kjaft, þó að þessu sinni hafi ofbeldið bitnað á öðru landsbyggðarliði. Þið vitið hvað við erum að fara.

Okkur dreymir jú öllum um að hvert einasta pláss á landinu fái forskeytið "körfuboltabærinn xxx."

Annað landsbyggðarlið með leiðindi er FSu, en það náði að hræða líftóruna úr Garðbæingum í Ásgarði í kvöld. Stjarnan náði á endanum að klára leikinn 91-87 en frá bæjardyrum heimamanna sýnir þessi leikur glöggt að það eru ansi fáir leikir gefnir í þessari deild.

Ef við skoðum dæmið frá sjónarhorni austanmanna, hljóta þessi úrslit að vera alveg sérstaklega svekkjandi, því þetta er í annað skipti á viku sem liðið tapar leik þar sem úrslitin ráðast í blálokin.

Liðið kastaði þessum kannski ekki frá sér líkt og Grindavíkurleiknum um daginn, en það er sama. FSu er hér að eiga við dæmigerða nýliðakveisu - að geta ekki klárað leiki - annað hvort vegna þess að það skortir reynslu eða gæði (oft bæði).

Nú er bara að sjá úr hverju FSu-menn eru gerðir, hvort þeir láta þetta mótlæti brjóta sig niður og eyðileggja tímabilið eða hvort þeir ná að bæta sig um þessi 5% sem vantar upp á til að fara að vinna leiki. Stigin eru dýrmæt í þessu, svo mikið er víst.

Aðalleikur kvöldsins fór fram í Breiðholtinu, þar sem ÍR tók á móti Grindavík. Þetta var aðalleikur kvöldsins af þeirri einföldu ástæðu að NBA Ísland var á svæðinu, enda alltaf gott að koma í Seljaskólann.

En talandi um Seljaskólann, megum við til með að minnast á mikilvægt atriði áður en lengra er haldið.

Um árabil - já, um árabil, voru Breiðhyltingar með allt lóðrétt niður um sig þegar kom að umgjörð og aðstöðu fyrir fjölmiðlafólk. Þar bar auðvitað hæst að internetið í kofanum var aldrei í lagi - ef það var þá einhvern tímann til staðar yfir höfuð. Við öskruðum okkur hás og skrifuðum okkur í krampa yfir þessum málum aftur og aftur en það skilaði litlu.

En batnandi fólki er best að lifa. Í kvöld varð okkur á að skjótast upp í fjölmiðlastúku inn á milli leikhluta til að skoða tölfræðina og þar beið okkar nokkuð mögnuð sjón. Þá reyndust ÍR-ingarnir ekki aðeins vera með dúndurgott internet (4G), heldur var þarna aðstaða fyrir alla fjölmiðlamenn hvort sem þeir voru skrifandi eða takandi upp og svo var þarna meira að segja kaffi, gos og bakkelsi!

Nú vitum við hvað þið eruð að hugsa - ætli blaðamannastéttin sé ekki nógu fjandi feit svo körfuboltafélögin á landinu fari ekki að bera í þau bakkelsi og slikkerí! Jú, þetta er hárrétt, en okkur þykir alveg nauðsynlegt að minnast á það þegar svona vel er staðið að málum - ekki síst þar sem menn voru með allt lóðrétt áður.

Þú þarft ekkert að vera með gos og bakkelsi, þannig séð, en það lýsir bara ákveðnum standard að hugsa vel um fjölmiðlafólkið meðan á leik stendur. Það hjálpar ekki aðeins til þegar kemur að umfjöllun, heldur er það líka augljóst merki um metnað og fagmennsku.

KR-ingar hafa verið í algjörum sérflokki þegar kemur að þessu atriði undanfarinn áratug. Við vitum alveg að KR er stór klúbbur og á því auðveldara með svona trakteríngar en önnur félög, en eins og áður sagði er þetta allt spurning um metnað félaganna. Það geta allir boðið upp á góða alhliða umgjörð ef viljinn er fyrir hendi - líka litlu klúbbarnir.

En vindum okkur að leiknum. Þeir eru eflaust fáir sem eru sammála okkur, en okkur þótti leikur ÍR og Grindavíkur alveg ógeðslega skemmtilegur.

Eins og þið vitið líklega, vann Grindavík miklu öruggari sigur en lokatölurnar 79-94 segja til um, þetta var blástur frá upphafi og langleiðina til enda. ÍR lenti sannarlega í grændernum í kvöld.

Monday, October 19, 2015

Af átakanlegri þrennuviðleitni Ricky Davis


Hægðaheili (ens. Shit for brains) er orðið sem kemur upp í hugann þegar við rifjum upp ferilinn hans Ricky Davis.

Þessi snaggaralegi vængmaður hafði óhemju hæfileika en skorti siðfræðilegar trefjar og andlegt atgervi til að nýta þá til fullnustu.

Davis lék með sex félögum á fjórtán ára ferli í NBA deildinni og var þekktur sem samviskulaus og skotglaður hægðaheili, en það var eitt atvik öðrum fremur sem setti svip sinn á feril hans - atvik sem menn eru enn að tala um.

Þetta var þegar hann lék með Cleveland árið 2003, vorið áður en LeBron James gekk í raðir Cavaliers. Cleveland-liðið var þá að bursta Utah Jazz á útivelli og Davis átti skínandi góðan leik. Svo góðan leik að hann vantaði aðeins eitt frákast upp á að ná þrefaldri tvennu.

"What the hell," hefur hann líklega hugsað þegar hann sneri sér við þegar sex sekúndur voru eftir af leiknum og skaut boltanum á eigin körfu í þeirri von um að fá skráð á sig frákastið sem upp á vantaði.

Skemmst er að segja frá því að hann fékk frákastið ekki skráð á sig og uppskar ekki annað en að komast á dauðalistann hjá Jerry Sloan, þjálfara Utah. Hérna fyrir neðan er viðtal við Sloan sem tekið var eftir leikinn. Það sést svo augljóslega hvað hann langar að taka Davis og troða honum ofan í trjákurlara.



Ricky Davis skoraði 20,6 stig, hirti 4,9 fráköst, gaf 5,5 stoðsendingar og stal 1,6 boltum að meðaltali á þessari leiktíð, en það er afskaplega innantóm tölfræði þegar haft er í huga að liðið vann ekki nema 17 leiki allan veturinn.

Kannski var það lán í óláni að Davis og félagar væru svona hræðilegir, því Cleveland datt í lukkupottinn sumarið eftir og fékk fyrsta valrétt í nýliðavalinu árið 2003. Og gettu nú hvaða leikmaður varð fyrir valinu!


















Talandi um hvað ef, þá er ekki gott að segja hvað hefði orðið um LeBron James ef Ricky Davis hefði spilað meira en 22 leiki árið eftir. Honum var þá skipt til Boston, þegar Cleveland var búið að fá nóg af honum. Líklega hefði félagið ekki getað fengið verri fyrirmynd fyrir Frelsarann sinn LeBron James en vitleysinginn Ricky Davis.

Þeir voru nokkrir frekar vafasamir hjá Cleveland á þessum árum, en Davis toppaði þá alla þegar kom að því að vera vitleysingur.

Ef Séð og Heyrt gerir lífið skemmtilegra, gerði Ricky Davis NBA deildina skemmtilegri.


Saturday, February 14, 2015

Við munum þig, Mason


Góðvinur ritstjórnarinnar Anthony Mason berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi eftir að hafa fengið alvarlegt hjartaáfall ofan á önnur veikindi sem þegar voru að hrjá hann.

Dapurlegt þegar svona ungir menn missa heilsuna og þó nýjustu fréttir bendi til þess að ástand hans hafi skánað eitthvað lítillega, er hann enn í lífshættu.

Þið eruð kannski búin að gleyma því hvað Anthony Mason var skemmtilegur leikmaður á sínum tíma, en við erum svo sannarlega ekki búin að gleyma því.

Og þá erum við ekki bara að tala um þegar hann myndaði eina físískustu framlínu körfuboltasögunnar með þeim Patrick Ewing, Charles Oakley og Charles Smith í New York.

Nei, við munum líka eftir því þegar hann gekk í raðir Charlotte, þar sem hann fór sérstaklega hamförum leiktíðina 1996-97.

Þá spilaði hann með drullu-skemmtilegu Hornets-liði sem hafði á að skipa mönnum eins og Glen Rice, Vlade Divac, Dell Curry (pabba Stephen Curry), Muggsy litla Bogues að ógleymdum fagmönnum eins og Ricky Pierce og Matt Geiger. Þetta lið vann 54 leiki um veturinn, en lét reyndar New York sópa sér út 3-0 í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Anthony Mason var byggður eins og jarðýta, en það skondna við það var að hann var með ágætis boltameðferð og átti það til að koma upp með boltann og stýra spili Hornets.

Þarna var hann líka með sína flottustu tölfræði á ferlinum - skoraði 16,2 stig, hirti 11,4 fráköst, gaf 5,7 stoðsendingar, stal einum bolta og skaut 52,5% utan af velli, sem er ekkert slor.

Kappinn bauð upp á einar fjórar þrennur um veturinn og setti í nokkrar hrikalegar tölfræðilínur inn á milli.

Dæmi má nefna fjóra leiki sem hann tók í röð janúar árið 1997 þar sem hann hrærði í 19/12/7, 20/17/8, 20/17/7 og 14/11/9 á einni viku í síðari hluta mánaðarins.

Í mánuðinum á eftir bauð hann upp á svipuð læti, þar sem sjá mátti leiki upp á 15/22/10, 21/18/8, 28/12/9, 19/13/12, 19/14/12 og svona var þetta leik eftir leik hjá vini okkar, skoðaðu bara logginn hans frá árinu 1997. Það eru ansi feitar línur þarna inn á milli.

 Mason var fjall að burðum, en í rauninni of lágvaxinn til að vera fjarki en of hrikalegur til að vera þristur. Ef við ættum að finna hliðstæðu Mason í deildinni í dag myndum við kannski helst benda á Draymond Green hjá Golden State.

Green er fljótari á löppunum og betri varnarmaður en Mason, en sá síðarnefndi var með miklu betri leik á póstinum og svona 89 sinnum sterkari. Það er þó eins með Mason og Green, ef menn hafa hæfileika, passa þeir inn í hvaða lið sem er.

Það var tíska hjá sumum að raka eitt og annað í hárið á sér þarna á tíunda áratugnum og Mason var fremstur í flokki í NBA deildinni í þeirri list, þar sem hann skaut meira að segja Dennis Rodman ref fyrir rass.

Við teljum ólíklegt að Mason sitji núna í sjúkrarúminu sínu (ef hann er þá með meðvitund) og hugsi um hvað það sé nú merkilegt og skemmtilegt að það sé fólk á Íslandi að hugsa fallega til hans í veikindunum og rifja upp afreksverk hans á körfuboltavellinum.

En svona er nú heimurinn lítill og lífið almennt undarlegt.

Láttu þér batna, Mase. Við hugsum hlýlega til þín.

Monday, January 19, 2015

Pavel fer ótroðnar tölfræðislóðir (+ myndir)


Í annað sinn í vikunni skelltum við okkur í DHL-höllina í gærkvöldi og horfðum á KR vinna körfuboltaleik. Ef skemmtilegur körfubolti, óhollt bakkelsi og ný myndavélarlinsa er ekki nóg til að draga fólk á völlinn, gerir ekkert það.

Við erum ekki frá því að sé að myndast hálfgerð hefð fyrir því að karlalið KR vinni körfuboltaleikina sem það tekur þátt í í vetur. Á fimmtudaginn sáum við KR leggja ÍR í deildakeppninni en í gærkvöldi voru það Keflvíkingar sem voru fórnarlömb Vesturbæinga. 

Sóknarleikur KR var ansi beittur og hittnin góð, svo Suðurnesjamennirnir áttu aldrei raunhæfa möguleika í þessu dæmi. Lokatölur urðu 111-90 fyrir KR og fyrir þau ykkar sem eruð ekki búin að skoða tölfræðina, getið gert það hér.

Það eina sem er fáránlegra en yfirburðir KR í deild og bikar í vetur, er gereyðingartölfræði Pavels Ermolinski. 

Eftir að hafa boðið upp á ólöglega 24/18/14/2 línu í sigrinum á ÍR á dögunum, bætti drengurinn um betur í gærkvöldi þegar hann fór inn í hálfleikinn með 8 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar! 

Eins og til að stríða okkur ákvað Pavel að sýna okkur hvað honum er sama um tölfræðina sína með því að skora bara níu stig í leiknum og sleppa þannig þrennunni, en það voru auðvitað ekki stigin sem skiptu máli. Það voru frekar þessi nítján fráköst og sextán stoðsendingar sem vöktu athygli. Þetta er svo mikið kjaftæði að það væri réttast að hringja í lögregluna.

Við höfum öruggar heimildir fyrir því að svona súrrealísk tölfræði hefur aldrei sést í úrvalsdeild karla í körfubolta. Vissulega hafa menn náð þrennu og þrennu, en það er bara ekkert eðilegt að þeir séu að fara um og yfir 15 í fráköstum og stoðsendingum leik eftir leik - og hvað þá að bjóða upp á 14/12/11 meðaltal í deildakeppninni.

Við þurfum að fara alla leið aftur til Óskars Róbertssonar hjá Milwaukee Bucks til að finna dæmi um jafn suddalega tölfræði og Pavel er að bjóða upp á.  Roberson er sem kunnugt er (er það ekki?) eini leikmaðurinn í sögu NBA sem hefur verið með þrennu að meðaltali yfir heilt tímabil (10+ stig, 10+ fráköst og 10+ stoðsendingar) árið 1962. 

Magic Johnson var ekki langt frá þessu 20 árum síðar (18,6 stig, 9,6 frák og 9,5 stoð), en það að hann skuli ekki hafa náð þessu, segir okkur hvað það er nær ómögulegt. Það yrði ótrúlegt afrek ef Pavel næði að klára það að vera með þrennu að meðaltali í deildinni í vetur. 

Tölurnar sem hann er að bjóða upp á eru svona eins og þú hefðir boðið langömmu þinni að taka leik í NBA 2K15, þar sem þú hefðir valið að vera með bandaríska landsliðið með LeBron James í fararbroddi en gamla konan - elliær, heyrnarlaus og vitlaus - hefði valið Coventry City.

Já, það þarf eitthvað mikið að breytast í körfuboltalandslaginu á Íslandi ef KR á ekki að hlaupa í burtu með bikarana sem í boði eru. Og þegar og ef að því kemur, verður það Pavel Ermolinski sem sér um að passa þá.

Friday, January 16, 2015

Myndir frá KR-ÍR


KR og ÍR buðu okkur formlega gleðilegt ár með tvíframlengdri bombu í DHL-höllinni í gærkvöldi. ÍR-ingar virtust vera búnir að gleyma því að þeir gætu ekkert í körfubolta og áttu í fullu tré við meistarana. Neyðarlegar tilraunir þeirra til að verja forskotið sitt á lokamínútunum í venjulegum leiktíma mistókust algjörlega og KR nýtti sér það. Lokatölur 113-110 fyrir KR.

Það er freistandi að lýsa því yfir að ÍR hafi sýnt okkur að það sé miklu sterkara en staða þess í deildinni segir til um, en það er leikrit sem við höfum öll séð oft áður. Tölfræði-hundarnir fengu sannarlega nóg fyrir peninginn í þessum leik.

Pavel bauð upp á 24 stig, 18 fráköst og 14 stoðsendingar hjá KR - eins og það sé bara alveg eðlilegt - og Matthías Sigurðarson leikstjórnandi Breiðhyltinga hlóð í 29/12/9. Við þökkum strákunum kærlega fyrir þennan nýársglaðning þeirra í tölfræðisafnið og fögnum því að karfan sé aftur farin á fullt á nýju ári.

Það voru teknar einar sjötíu myndir af þessu eins og þið sjáið hérna fyrir neðan. Gjörið svo vel og skoðið þær eins og þið viljið, við vitum að þið farið ekkert illa með þær þó þær séu ómerktar.





Monday, March 3, 2014

Þrennufræðin í Fréttablaðinu


Íþróttablaðamaðurinn og tölfræðigrúskarinn Óskar Ófeigur Jónsson á Fréttablaðinu var í dag með skemmtilega umfjöllun um þrennuglaða leikmenn í úrvalsdeildinni í gegn um árin. 

Eins og þið vitið kannski hafa þeir Emil Barja og Pavel Ermolinski verið ansi iðnir við þann kola í vetur. Við tókum okkur það bessaleyfi að klippa þetta út og líma hérna á vegginn ef einhver missti af þessu (smelltu til að stækka).




Tuesday, December 10, 2013

Ó, þið ungu hetjur


Við kíktum til gamans á leik Philadelphia og Orlando frá því fyrir nokkrum dögum, svona út af öllu fjaðrafokinu sem var í kring um þennan leik. Þar gerðist það í fyrsta skipti að nýliðar í sitt hvoru liðinu næðu þrefaldri tvennu þegar Sixers vann 126-125 seiglusigur eftir tvíframlengdan og æsispennandi leik.

Þetta voru þeir Michael Carter-Williams hjá Philadelphia og Victor Oladipo hjá Orlando. Sérstaklega hefur Carter-Williams vakið áhuga okkar og aðdáun. Hann sló auðvitað í gegn í sínum fyrsta leik sem atvinnumaður eins og þið munið kannski.

Það er fullkomlega glórulaust að hugsa til þess hvað fær félög eins og Cleveland til þess að sleppa því að taka leikmann eins og Carter-Williams í nýliðavalinu.

Velja heldur sekk eins og aumingja Anthony Bennett, sem hefur aldrei komist í form og skýtur 22% utan af velli. Svona getur lífið verið furðulegt og ósanngjarnt.

Bennett er kandídat í að verða slakasti leikmaður sem valinn hefur verið númer eitt í sögu NBA, en við skulum vona að aumingja drengurinn nái sér á strik.

Oft hafa óveður gengið yfir Fíladelfíu þó spáin hafi verið góð. Vonandi verður breyting þar á núna. Liðið á helling inni og ætti að vera í flottum málum með Carter-Williams við stýrið í framtíðinni. Kannski var nýliðavalið árið 2013 ekki versta draft í sögu mannkynsins eftir allt saman.

Guð blessi tveggja metra leikstjórnendur.


Thursday, October 31, 2013

Halló Hafnarfjörður*


Mikið fjandi er gaman að sjá þetta unga og skemmtilega lið Hauka í efstu deild á ný. Við skelltum okkur í Hafnarfjörðinn í gærkvöld og sáum Haukana skella Snæfelli 82-77 á Ásvöllum.

Ef marka má frétt karfan.is var þetta í fyrsta skipti síðan Stockton og Malone voru að spila sem Haukarnir ná að vinna Snæfell á heimavelli sínum. Sigur heimapilta var sanngjarn þó þeir hafi verið dálítið taugaóstyrkir í blálokin.

Nýliðar Hauka byrja leiktíðina því 3-1 og eru í rjúkandi fínum málum. Bandaríkjamaðurinn þeirra Terrence Watson var hrikalegur og skilaði 31/13 og Emil Barja hlóð í aðra þrennu vetrarins með dásamlegri 21/10/10 línu.

Emil er að bjóða upp á 10,3 stig, 9,8 fráköst og 8,5 stoðsendingar að meðaltali það sem af er á leiktíðinni og engum blöðum um það að fletta að hann er hér opinberlega að skora á Pavel Ermolinski í þrennukeppni í vetur.

Þvílík forréttindi að fá að fylgjast með svona snillingum spila körfubolta. Ef þessi byrjun á deildinni er til marks um það sem koma skal er ljóst að það verða jól í allan vetur.

Ef marka má fyrstu leikina liggur okkur við að segja að nýju 4+1 reglurnar um erlenda leikmenn séu besta reglubreyting í sögu mannkynsins. Við kunnum ekki að koma því í orð hvað við erum hamingjusöm yfir því hvað ungu íslensku leikmennirnir eru að standa sig vel.

Við vorum á báðum áttum um þegar ákveðið var að breyta reglunum frá því sem var í fyrra og óttuðumst að gæðin ættu kannski eftir að minnka eitthvað, en annað hefur komið á daginn. Þetta er bara blússandi þjóðlegt og skemmtilegt. Ekkert annað.

Þó við séum gjörsamlega fallin fyrir Haukaliðinu höfum við á tilfinningunni að við verðum að spara lofið á liðið svona snemma leiktíðar, því ekki viljum við að þessir guttar fari að ofmetnast og brenna yfir.

Það er samt ekki hægt annað en að hrífast af þessu liði og eins og við sögðum ykkur í síðustu færslu var umgjörðin hjá Haukunum til allrar fyrirmyndar í gærkvöldi. Stórt prik í kladdann fyrir Hafnfirðingana.

Íþróttamiðlar landsins eru nokkurn veginn á einu máli um það að Snæfellsliðið hafi átt arfaslakan leik.

Ingi Þór þjálfari var reyndar alveg sammála því og var til að mynda ekki par hrifinn af frammistöðu leikstjórnandans síns Vance Cooksey, sem er að skjóta innan við 32% úr 2ja stiga skotum það sem af er í deildinni. Þetta er snaggaralegur spilari en hann hefur ekki náð sér á strik og virðist vera orðinn tæpur á því að halda vinnunni.

Við ætlum nú ekki að setja Hólmara undir fallöxina eftir fjóra leiki, en það verður að viðurkennast að þetta lið á að vera miklu betra en þessi 1-3 byrjun segir til um. Snæfellsliðið er að okkar mati ljómandi vel mannað - a.m.k. hvað varðar stóra stráka - og hefur ekkert með það að gera að vera með undir 50% vinningshlutfall.

Það er ljóst að við verðum að fylgjast náið með þessu Haukaliði í vetur og við hvetjum fólk sannarlega til að skella sér á völlinn og sjá það spila. Einhver gæti haldið að þeir væru bara "ungir og vitlausir" og vissu ekki betur, en sennilegra er að þetta sé bara fjandi gott lið.

Kíktu á nokkrar myndir ef þú vilt. Það er aldrei að vita nema þær stækki ef þú smellir á þær.

* - Já, við sögðum halló Hafnarfjörður í (yfir)fyrirsögn. Enginn er fullkominn.