Í annað sinn í vikunni skelltum við okkur í DHL-höllina í gærkvöldi og horfðum á KR vinna körfuboltaleik. Ef skemmtilegur körfubolti, óhollt bakkelsi og ný myndavélarlinsa er ekki nóg til að draga fólk á völlinn, gerir ekkert það.
Við erum ekki frá því að sé að myndast hálfgerð hefð fyrir því að karlalið KR vinni körfuboltaleikina sem það tekur þátt í í vetur. Á fimmtudaginn sáum við KR leggja ÍR í deildakeppninni en í gærkvöldi voru það Keflvíkingar sem voru fórnarlömb Vesturbæinga.
Sóknarleikur KR var ansi beittur og hittnin góð, svo Suðurnesjamennirnir áttu aldrei raunhæfa möguleika í þessu dæmi. Lokatölur urðu 111-90 fyrir KR og fyrir þau ykkar sem eruð ekki búin að skoða tölfræðina, getið gert það hér.
Það eina sem er fáránlegra en yfirburðir KR í deild og bikar í vetur, er gereyðingartölfræði Pavels Ermolinski.
Eftir að hafa boðið upp á ólöglega 24/18/14/2 línu í sigrinum á ÍR á dögunum, bætti drengurinn um betur í gærkvöldi þegar hann fór inn í hálfleikinn með 8 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar!
Eins og til að stríða okkur ákvað Pavel að sýna okkur hvað honum er sama um tölfræðina sína með því að skora bara níu stig í leiknum og sleppa þannig þrennunni, en það voru auðvitað ekki stigin sem skiptu máli. Það voru frekar þessi nítján fráköst og sextán stoðsendingar sem vöktu athygli. Þetta er svo mikið kjaftæði að það væri réttast að hringja í lögregluna.
Við höfum öruggar heimildir fyrir því að svona súrrealísk tölfræði hefur aldrei sést í úrvalsdeild karla í körfubolta. Vissulega hafa menn náð þrennu og þrennu, en það er bara ekkert eðilegt að þeir séu að fara um og yfir 15 í fráköstum og stoðsendingum leik eftir leik - og hvað þá að bjóða upp á 14/12/11 meðaltal í deildakeppninni.
Við þurfum að fara alla leið aftur til Óskars Róbertssonar hjá Milwaukee Bucks til að finna dæmi um jafn suddalega tölfræði og Pavel er að bjóða upp á. Roberson er sem kunnugt er (er það ekki?) eini leikmaðurinn í sögu NBA sem hefur verið með þrennu að meðaltali yfir heilt tímabil (10+ stig, 10+ fráköst og 10+ stoðsendingar) árið 1962.
Magic Johnson var ekki langt frá þessu 20 árum síðar (18,6 stig, 9,6 frák og 9,5 stoð), en það að hann skuli ekki hafa náð þessu, segir okkur hvað það er nær ómögulegt. Það yrði ótrúlegt afrek ef Pavel næði að klára það að vera með þrennu að meðaltali í deildinni í vetur.
Tölurnar sem hann er að bjóða upp á eru svona eins og þú hefðir boðið langömmu þinni að taka leik í NBA 2K15, þar sem þú hefðir valið að vera með bandaríska landsliðið með LeBron James í fararbroddi en gamla konan - elliær, heyrnarlaus og vitlaus - hefði valið Coventry City.
Já, það þarf eitthvað mikið að breytast í körfuboltalandslaginu á Íslandi ef KR á ekki að hlaupa í burtu með bikarana sem í boði eru. Og þegar og ef að því kemur, verður það Pavel Ermolinski sem sér um að passa þá.
En áður en við gleymum því, er rétt að minna ykkur á að það eru nokkrar myndir úr leik KR og Keflavíkur hérna fyrir neðan. Ykkur er frjálst að nota þær ef þið vilduð vera svo yndisleg að geta þess hvaðan þær koma - merkja þær NBA Ísland.