Saturday, February 27, 2010

Boston er ekkert að spila neitt spes körfubolta


Það getur vel verið að sé til fólk sem fær ekki bráðaniðurgang þegar það horfir á Edduna.

Það getur líka vel verið að handboltahreyfingin á Íslandi sé svo efnuð að hún geti leyft sér að skutla bikurum milli húsa með þyrlu.

En það sem liggur hinsvegar alveg ljóst fyrir, er að New Jersey tók Boston í ristilspeglun í Garðinum í kvöld.

Við þurfum að láta kíkja á þetta við tækifæri.

Michael Jordan er að kaupa Charlotte Bobcats


 

Jason Drengsson þandi tölfræðiskýrslur


Svo virðist sem gamla brýnið Jason Kidd hafi kíkt á NBA Ísland áður en hann steig inn á völlinn með Dallas gegn Atlanta í gærkvöldi.

Lofræða okkar um Pavel Ermolinskij í gær virðist hafa kveikt heldur betur í hinum tæplega 37 ára gamla Kidd, því hann bauð upp á eina feitustu þrennu sína á ferlinum í sigri Dallas á Atlanta.

Kidd skoraði 19 stig, hirti 16 fráköst og gaf 17 stoðsendingar, sem er enn hrikalegri þrenna en Pavel náði í Hveragerði í gærkvöldi.

Josh Smith hjá Atlanta var reyndar ekki með neinn slorleik heldur. 18 stig, 11 fráköst, 8 stoðsendingar og 7 stolna bolta.

Og Russell Westbrook hjá Oklahoma skilaði líka 18/8/15 leik í sigri á Wolves. Svona leikir eru að verða daglegt brauð hjá drengnum.

Svona tölfræðiklám gleður okkur svo óstjórnlega. Þetta eru jól í febrúar. Ekkert annað.

Barnið hans Dell Curry er liðtækt í körfubolta
Nýliðinn Stephen Curry hefur heldur betur farið vaxandi með liði Golden State Warriors eftir áramótin. Fyrst var pilturinn ekki frægur fyrir annað en að vera sonur pabba síns, en undanfarnar vikur hefur hann blómstrað í anarkismanum hjá Don Nelson.

Nú er talað um að Curry sé kominn upp fyrir Brandon Jennings og sæki hart að Tyreke Evans í kapphlaupinu um titilinn nýliði ársins í NBA.

Það verður að deila eitthvað í fallega tölfræði piltsins af þeirri einföldu ástæðu að liðið sem hann leikur með spilar kamakasí-körfubolta, en þó ber ekki að draga úr því að hér er á ferðinni öflugur sóknarmaður.

Ekki láta blekkjast af andlitinu sem fengi ekki að fara inn á Lion King í bíó nema í fylgd með fullorðnum. Drengurinn er með leik eins og sjá má í myndbrotinu hér fyrir ofan þar sem hann fíflar Fuglamanninn skemmtilega í leik í gærkvöldi.

Friday, February 26, 2010

Pavels-Sprengingar


NBA Ísland var á vellinum þegar Pavel Ermolinskij spilaði sinn fyrsta leik með KR í Grindavík í byrjun febrúar.

Þá var strákurinn dálítið ryðgaður eins og gengur og gerist, en þó leyndi sér ekki að þarna fór sérstakur körfuboltamaður.

Við hugsuðum með okkur að þarna væri líklega á ferðinni besta svar Íslands við LeBron James.

Ekkert við leik Pavels síðan hefur dregið úr þeirri skoðun okkar. Hann verður betri með hverjum leiknum. Þrenna í síðasta leik og svo sóðaskapurinn sem hann bauð upp á í Hveragerði í kvöld.

Eða eru tölurnar 17 stig, 14 fráköst, 16 stoðsendingar, 5 stolnir boltar, 31 í +/- og 44 í framlag eitthvað annað en LeBron-ískar?
Þetta er rugl!

 Er ekki hægt að húkka Pavel upp á stefnumót með Helenu Sverris?

LeMagic James Helenuson Ermolinskij?

Cleveland enn á talsverðan körfubolta inni


Það lá í augum uppi að Cleveland var aldrei í vafa um að fá Zydrunas Ilgauskas aftur eftir Jamison skiptin. Liðið hefði aldrei tekið þá áhættu að þurfa að treysta alfarið á næstum fertugan Shaquille O´Neal í hverjum einasta leik.

Það kom líka á daginn í kvöld þegar hann meiddist á fingri eftir högg frá Glen Davis í stórsigri Cleveland á Boston.  Cleveland á ekki eftir að sakna Shaq neitt sérstaklega. Verður að okkar mati sterkara varnarlega í fjarveru hans.

Boston var auðvitað án Paul Pierce í leiknum í kvöld og hann er liðinu það mikilvægur að leikurinn var ekki alveg marktækur. Boston var í svaka stuði í fyrri hálfleik, en drullaði upp á bak í þeim síðari. Skoraði fimm körfur utan af velli síðustu 17,5 mínúturnar. Það er ekkert spes.

Þetta var merkilegt nokk fyrsti sigur Cleveland í Boston í einhver þrjú ár. Liðið á helling inni. Ekki síst varnarlega. Helling.

Delonte West og Anderson Varejao eru líklega tveir af tíu vanmetnustu leikmönnum NBA deildarinnar. Ekki sami glans á þeim og LeBron, Shaq, Jamison og Mo Williams, en liðið færi sennilega ekki langt án þeirra.

Sælar stelpur, Andris hérna


Þetta er Andris Biedrins frá Lettlandi. Miðherji hjá Golden State Warriors.

Hann er með þrettán prósent vítanýtingu í vetur. Það bara hlýtur að vera heimsmet.

Svona er að spila fyrir körfuboltaanarkistann Don Nelson í þessu skemmtilega en grátlega lélega liði Warriors.

Ímyndaðu þér stóru konuna sem er rekin í fyrsta Biggest Loser þættinum af því hún datt í það og pantaði tólf 18 tommu pizzur með ansjósum og kúkaði á sig þegar hún var vigtuð....

Ertu að sjá hana fyrir þér?

Ok, gott....

Af því hún er með meira sjálfstraust en Andris Biedrins.

Hasheem er farinn í Júmbódeildina


Hasheem Thabeet hjá Memphis Grizzlies hefur verið sendur í D-deildina þar sem vonast er til að hann fái jafnvel að spila smá körfubolta.

Thabeet var valinn númer tvö í nýliðavalinu síðasta sumar. Aldrei áður hefur maður sem tekinn var svo snemma í draftinu verið sendur í Júmbódeildina.

Tansaníumaðurinn knái var auðvitað hugsaður sem gæluverkefni hjá Memphis. Tekinn númer tvö, á undan betri leikmönnum, vegna þess að hann er 220 cm á hæð og þykir hafa háan efnileikastuðul (tremendous upside potential).

Hvenær rennur upp sá dagur að félögin í NBA hætta að drafta snúrustaura og einbeiti sér að því að taka bestu leikmennina sem völ er á hverju sinni í nýliðavalinu?

Liverpool er að gera góða hluti í Evrópudeildinni


 

Thursday, February 25, 2010

Shortest Straw


Við ætluðum að fara að gera veður út af þermingi forráðamanna NBA deildarinnar af því þeir hafa lagt bann við undarlegum kæk Caron Butler hjá Dallas sem er að tyggja sogrör í tíma og ótíma.

Í fréttatilkynningunni sem við lásum fyrst kom ekki fram að bannið á við það þegar hann er að éta rörin í miðjum leik - ekki bara á bekknum.

Butler tók þennan skrítna sið upp þegar hann var að venja sig af ofdrykkju Fjalla Daggar. Drakk víst alltaf lítrana af því sulli daglega og þambaði alltaf tvær í röð fyrir leiki.  Fékk svo hausverkjaköst og viðlíka þegar hann hætti því. Eðlilegt.

Annars er auðvelt að finna lausn við þessari sogröraáráttu.

Hann getur alveg eins nagað bara hlífðargóm eins og Gerald Wallace hjá Charlotte.

Hann er aldrei með góminn á sínum stað. Tyggur hann bara allan leikinn eins og jórtrandi belja.

Það virðist virka ágætlega.

Wednesday, February 24, 2010

Það er miðvikudagur í dag


 

Skin og skúrir


"Hvernig er veðrið þarna uppi?" var hann spurður eins og svo margir sem eru 220 cm á hæð.

"Það er rigning," ansaði hann og hrækti framan í spyrjandann. Þetta var á níunda áratugnum.

Þessi hávaxni maður er löngu orðinn cult-hetja í NBA og heitir Dwayne Schintzius.

Hann er löngu hættur að hrækja á fólk en berst nú fyrir lífi sínu. Við óskum honum alls hins besta.

Vince skorar á rassgatinu


Svo við höldum áfram að íslenska uppfyllingarefni frá Yahoo!

Dwight Howard hjá Orlando fékk það staðfest sem heimsmet um stjörnuhelgina þegar hann skoraði frá miðju sitjandi á rassgatinu.

Nú lítur út fyrir að Vince félagi hans hafi toppað það svo um munar. Spurning hvort hann ætti ekki frekar að æfa standandi skotin sín. Þau hafa ekki dottið svo vel hjá honum í vetur.

Kuldaskór


Veistu ekki hvað þú átt að gera við alla þessa peninga sem þú átt?

Splæstu þá í par af Aston Martin skónum hans Kobe frá Nike.

Ekki nema 90 þúsund parið.

Hugmyndin væntanlega byggð á myndbandinu/auglýsingunni frægu þar sem Kobe stökk einmitt yfir eitt stykki Aston Martin.

Tuesday, February 23, 2010

Josh Howard spilar ekki meiri körfubolta á leiktíðinni


Munaður fyrir Washington Wizards að Josh Howard skuli hafa hreinsað út úr hnénu á sér í gær, aðeins nokkrum dögum eftir að Dallas náði að losa sig við hann.

Nú þarf liðið að leggja enn minna á sig til að tanka það sem eftir lifir leiktíðar.

Við finnum ekkert rosalega mikið til með Howard. Hann hefur ekki spilað sérstaklega vel úr þeirri góðu hönd sem honum var fengin. Karma getur verið tík stundum.

 Verra með Ronnie Brewer ræfilinn. Hann átti ekki skilið að meiðast á læri klukkutímum eftir að Jazz sparkaði honum til Griz.

Monday, February 22, 2010

Í nafni Föðurins, Sonarins og þetta er ekki ár San Antonio


Við skrifuðum stuttan pistil um vandræðaganginn á San Antonio Spurs í síðasta mánuði.

Þar ætluðum við að láta stór orð falla, en ákváðum að bíða með stóra dóm þangað til eftir hið árlega keppnisferðalag liðsins eftir stjörnuleik - Ródeó-keppnisferðina ógurlegu.

Að þessu sinni spannaði keppnisferðin átta leiki og því hefur San Antonio ekki spilað einn einasta heimaleik í febrúarmánuði.


Það hefur verið ákveðin hefð fyrir því hjá San Antonio síðasta áratuginn að byrja keppnistímabilið rólega en setja svo í fluggírinn frá og með Ródeó-ferðinni. Þessi syrpa hefur oftar en ekki endað með meistaratitli í júní.

Í ár? Við eigum ekki von á að sjá San Antonio spila í júní árið 2010.

Við héldum í okkur með að afskrifa San Antonio í janúar, en eftir upp og niður keppnisferðalag í þrjár vikur (að stjörnuhelginni meðtalinni) sem lauk með töpum fyrir afleitum liðum Sixers og Pistons, er ekki hægt annað en loka bókinni á þetta frábæra lið.

Aldur lykilmanna, meiðsli og floppið hann Richard Jefferson eru ástæður sem vega þungt í þessu samhengi, en það sem skiptir mestu máli í okkar augum er bara sú staðreynd að San Antonio er ekki sama varnarlið og áður.

Ekki nálægt því.

Og San Antonio verður ekki NBA meistari á leiktíð þar sem liðið tapar t.d. þremur heimaleikjum í röð og liggur fyrir liðum eins og Philadelphia og Detroit back to back. Það bara gerist ekki.

San Antonio liðið hefur farið í taugarnar á ansi mörgum síðan það hreppti titilinn fyrst á verkfallsárinu 1999.

Liðið hefur þótt spila stirðbusalegan og glanslítinn sóknarleik og kæfandi varnarleikurinn sem gerði liðið að því stórveldi sem það var - var nú ekki mikið fyrir auga "leikmannsins"

Við hér á NBA Ísland erum engir sérfræðingar í körfubolta, en við erum heldur ekki "leikmenn". Og því kunnum við að meta San Antonio Spurs.

Við kunnum að meta aðferðafræði stjórnar félagsins, við kunnum að meta þjálfunaraðferðir Gregg Popovich, við kunnum að meta frábæran varnarleik liðsins, þroskaferil Tony Parker sem enginn trúði að gæti farið fyrir meistaraliði sem leikstjórnandi (líkt og Avery Johnson á undan honum), ótrúlega hæfileika og útstjónarsemi sigurvegarans Manu Ginobili og síðast en ekki síst, kunnum við að meta Tim Duncan.

Þú getur sagt hvað sem þú vilt, en Tim Duncan er einn af allra bestu leikmönnum sem spilað hafa í NBA frá upphafi. Metabækurnar og stöðugar tölfræðiskýrslurnar sýna það svart á hvítu. Og hann hefur verið til vélrænnar fyrirmyndar frá fyrsta degi sínum í deildinni.

Við vitum ekki af hverju við vildum endilega taka svona mikið pláss í að skrifa San Antonio formlega út sem kontender í NBA.

Hluti af því er sú undarlega tilhneiging okkar að vilja mála okkur út í horn og þurfa jafnvel að éta eitthvað ofan í okkur (sjá: Miami Heat 2006), en líklega er það bara af því okkur vantaði ástæðu til að skrifa nokkur orð um það vanmetna stórveldi sem Spurs-liðið hefur verið síðasta áratug.

Sem sagt af virðingu.


Það yrði því sannur heiður fyrir okkur að fá að éta alla okkar hatta í júní ef San Antonio næði að setja hringinn sem vantar á hægri höndina á Tim Duncan - að því gefnu að hann beri hring á þumalfingri.

Faðir Tími er tík


Flestir eru farnir að efast um að Boston geti talist í hóp þeirra liða sem líklegust eru til að hreppa meistaratitilinn í sumar.

Hluti af ástæðunni er sú staðreynd að Kevin Garnett er ekki sami leikmaður og hann var þegar liðið varð meistari 2008. Honum hefur gengið illa að fá sig góðan af hnémeiðslum og svo er maðurinn auðvitað búinn að spila ómanneskjulegan fjölda mínútna á löngum ferli í deildinni.

Tölfræðin mælir ekki allt, en eftirtaldir punktar sýna okkur glögglega að ekki er allt með felldu hjá Garnett - óháð þeirri staðreynd að hann spilar ekki sama mínútufjölda og áður.

*Garnett hefur sex sinnum hirt 10 fráköst eða meira í leik í allan vetur.
*Garnett á einn 20/10 leik í allan vetur.
*Garnett hefur ekki hirt 10 fráköst í leik síðan löngu fyrir jól.

Æsingurinn og brjóstkassahöggin eru enn á sínum stað, en lappirnar fylgja ekki með lengur. Faðir Tími er að ná til Kevin Garnett.

Sömu sögu er að segja um Shaquille O´Neal, Tracy McGrady, Allen Iverson, Manu Ginobili og fleiri góða. Stundum vegna meiðsla - stundum vegna aldurs. Faðir Tími nær okkur öllum. Ekkert fær okkur til að eldast hraðar en að sjá uppáhalds íþróttamönnunum okkar hraka á vellinum.

Gangur lífsins er tík.

Sunday, February 21, 2010

Dwight Howard sigraði í alpagreinum


Miðlar vestra sögðu að Dwight Howard hefði haft betur í einvígi sínu við Shaquille O´Neal í kvöld þegar Orlando færði Cleveland þriðja tapið í röð.

Líklega áttu þeir við að lið Howard hefði haft betur. Ekki þótti okkur Howard beinlínis yfirspila Shaq. Sá gamli gerði það sem honum sýndist. Alltaf jafn rosalegt að sjá tröllvaxinn mann á borð við Howard líta út eins og litla stelpu við hliðina á O´Neal.

Það vakti furðu okkar hvað LeBron James virtist taka fótinn af bensíngjöfinni í fjórða leikhluta. Og var eitthvert ykkar að fylgjast með Vince Carter í leiknum? Á hvaða plánetu var hann? Það var eins og hann væri að spila sinn fyrsta leik með Orlando. Hvernig á Orlando að vinna titil ef það þarf að treysta á svona mann?

Allt annað að sjá til Antawn Jamison. Hann sýndi þarna hvernig hann á eftir að nýtast Cleveland og teygja á vörnum andstæðinganna. Skrítið að sjá Cavs tapa þremur í röð samt. Það verður bara að játast.

Orlando-Cleveland í beinni klukkan 18 í kvöld


Það er rétt að minna körfuboltaáhugamenn og konur á að í kvöld klukkan átján verður bein útsending á Stöð 2 Sport frá viðureign Orlando Magic og Cleveland Cavaliers í NBA deildinni.

Það er ekki á hverjum degi sem NBA leikir eru á dagskrá á kristilegum tíma fyrir íslenska áhorfendur og því er um að gera að gera poppið og kókið klárt fyrir kvöldið.

Flestir hallast að því að það verði annað hvort Cleveland eða Orlando sem muni verða fulltrúi Austurdeildar í lokaúrslitum NBA í sumar og því er ljóst að hér er á ferðinni hörkuslagur.

Orlando hafði nokkuð góð tök á Cleveland í fyrravetur, en nú er öldin önnur og Cavs hefur unnið báðar viðureignir liðanna til þessa í vetur. Það verður líka skemmtilegur bónus að fá að sjá hvort Antawn Jamison verður búinn að hrista af sér frumraunartitringinn og fer að spila eins og maður.

Cleveland er líka búið að tapa tveimur leikjum í röð og má ekki við enn einu tapinu - ekki síst þegar leikmenn liðsins vita að þeir verða í beinni útsendingu á Íslandi.

Té-Mákur er aftur farinn að spila körfubolta


Það gladdi okkur að sjá að Tracy McGrady leika listir sínar á körfuboltavelli á ný í nótt þegar hans menn í New York Knicks töpuðu fyrir Oklahoma City.

Té-Mákur spilaði raunar eins og hann hefði aldrei tekið sér tveggja ára pásu. Svona næstum því.

Hann á ekki eftir að leiða Knicks til meistaratitils í sumar en það verður ekki af honum tekið að hann setti smá buzz í áhorfendastæðin í Garðinum. Það er ansi langt síðan einhver hefur gert það.


Og Oklahoma að vinna áttunda leikinn sinn í röð. Bara skemmtilegt lið. Westbrook hársbreidd frá þrennunni með 31/9/10 leik og Durant jafn óstöðvandi og áður. Oklahoma hefur löngu tekið við af Portland sem það NBA lið sem á bjartasta framtíð fyrir höndum. Gaman að sjá hvað verður hægt að styrkja þetta lið næsta sumar.

Það er svo ekki hægt að ljúka þessum pistli án þess að minnast á afrek hins smáa en knáa Darren Collison hjá New Orleans í fyrrakvöld.

Þessi litli tappi sem er nú að fylla skarð Chris Paul skilaði Hornets 18 stigum, 13 fráköstum og 12 stoðsendingum í sigri á Indiana. Og 8 töpuðum boltum reyndar líka. Það sem var ótrúlegast við þessar tölur hans var að hann hirti 10. frákastið sitt löngu áður en flautað var til hálfleiks. Ekki á hverjum degi sem svona stubbar skila svona tölfræði.

Hann er þá annar maðurinn í sögu Hornets sem nær þrennu í búningnum sem hann klæðist á myndinni. Þetta er auðvitað sami búningur og númer og Larry Johnson klæddist hjá félaginu á tíunda áratugnum.

Saturday, February 20, 2010

Takk Jamison


Verðum að nota þetta tækifæri og þakka Antawn Jamison kærlega fyrir að láta pistilinn okkar hérna fyrir neðan hljóma gáfulega.

Frumraun hans með Cleveland í tapi gegn Charlotte í nótt varð sannarlega til að ýta undir væntingar Cavs um meistaratitil.

Hann hefði nú samt mátt hitta úr amk einu af þessum tólf skotum sem hann tók í leiknum. Þó ekki væri nema fyrir okkur. Fail.

Það var heldur uppbyggilegra að sjá stóru strákana hjá Bobcats premjéra hjá Larry Brown, þá Tyrus Thomas og Japansmarkaðshrossakjötið sem einu sinni var Theo Ratliff.

Friday, February 19, 2010

LeBron og Melo spiluðu körfubolta


2003 árgangurinn í NBA þarf ekkert að skammast sín. Það er ekkert minna en frábært þegar þeir LeBron James, Carmelo Anthony og Dwyane Wade mætast á körfuboltavellinum.

Flott hjá þeim LeBron og Melo að nota deildarleik í febrúar til að fara í risavaxinn einn á einn í gærkvöldi þegar Cleveland tók á móti Denver.

Það sem gerir einvígi þessara tveggja leikmanna sérstakt er að þeir spila sömu stöðu. Og fara fyrir liðum sem eru á meðal þeirra allra bestu.

LeBron bauð upp á 43 stig, 13 fráköst, 15 stoðsendingar og 4 varin - sem er ekki aðeina fáránleg lína, heldur hefur hún aldrei sést í sögu NBA.

Melo toppaði hann samt með því að vinna leikinn fyrir ógnarsterkt lið Denver og lauma jú inn 40/7/6 leik í leiðinni. Þetta eru alvöru menn.

Sumir tuðuðu yfir því að leikurinn í gær hefði snúist upp í einvígi þeirra tveggja á milli og að þeir hefðu ansi oft misst sjónar af meðspilurum sínum. Og hvað með það? Það er febrúar og NBA deildin er fyrst og síðast skemmtiatriði. Það verða alveg nógu margir leiðinlegir slagsmálaleikir í úrslitakeppninni til að vega þetta upp.

Nú þarf Cleveland að fara að vinna úrslitaleiki í körfubolta


Það væri líklega hægt að skrifa bók um þá staðreynd að Antawn Jamison er orðinn leikmaður Cleveland.

Nú er Cleveland tvímælalaust orðið sterkasta lið í heimi á pappírunum. Pressan meiri á LeBron James og félaga að skila titli í hús. Þetta lið hefur enga afsökun fyrir því að verða ekki meistari. Enga.

Bilið milli þeirra sem hafa og hafa ekki er að breikka gríðarlega í heiminum undanfarið og það á ekki síður við um NBA.

Er það eðlilegt að liðið sem teljast mátti með mestu breiddina í deildinni fái 20/10 mann eins og Jamison á silfurfati? Svarið við því er þvert nei.

Af hverju segjum við á silfurfati? Af því Zydrunas Ilgauskas er ekki að fara að spila með Washington Wizards. Hann verður keyptur út þar, bíður í 30 daga og semur aftur við Cleveland.

Þetta eru ekki eðlileg viðskipti. Dálítið eins og menn spila þetta í viðskiptalífinu á íslandi. Löglegt en siðlaust og allt það.

En við skulum ekki velta okkur um of upp úr peningum og pólitík. Ef okkur þætti það skemmtilegt, myndum við klárlega ekki halda úti síðu eins og NBA Ísland. Og þar af leiðandi væri líf þitt, lesandi góður, örugglega nokkrum punktum leiðinlegra en ella.

Cleveland var á löngum kafla orðað við Amare Stoudemire hjá Phoenix, en fékk að lokum mun hagstæðari díl þegar það landaði Jamison. Við tókum eftir því að nokkrir pennar vestan hafs hafa ákveðið að kúka yfir Jamison-dílinn og horfa dreymandi upp í loftið og segja "hvað ef Cavs hefði landaði Stoudemire?"

Prump, kjaftæði og vitleysa, segjum við.

Jú, jú, Jamison er 33 ára gamall og á ekkert eftir að verða betri, en þú veist hvað þú færð frá honum á kvöldi hverju. Alltaf.

Og það er talsvert auðveldara að hugsa sér Jamison falla vel inn í Cleveland en Stoudemire. Hann á tvö ár eftir af tiltölulega stórum samningi sínum, en það er seinni tíma vandamál - og ekki stórt í sniðum.


Amare? Hann er jú bara 27 ára og skorar 20+ stig fyrir þig - en hvað meira? Það sem við sjáum fyrir okkur að Cleveland hefði fengið með Stoudemire væri ömurlegur varnarleikur, of fá fráköst, of mikið væl, of mikill töffaraskapur með of lítilli innistæðu og hné sem eru tifandi tímasprengjur.

Og ekki gekk honum sérstaklega vel síðast þegar hann spilaði með Shaquille O´Neal. Og vilt þú yfir höfuð byggja framtíð félags þíns á manni sem er með orðin "Svartur Jesús" húðflúruð á hálsinn á sér? Bara svona pæling.

Sú staðreynd að Antawn Jamison er kominn í herbúðir Cleveland Cavaliers þýðir einfaldlega að nú er að duga eða drepast fyrir LeBron James og hans menn.

Það er búið að leggja á borðið fyrir tímaskeið LeBron James í NBA deildinni.

Nú geta Cleveland menn hætt að fíflast og farið að setja undir sig hornin og vinna titla.

Annað væri óeðlilegt.

Thursday, February 18, 2010

Enn er rifa á glugganum


Margir hafa eflaust furðað sig á því hvað við höfum lítið blandað okkur í fjaðrafokið á síðustu dögunum fyrir lokun félagaskiptagluggans í NBA.

Það er kannski af því við erum orðin svo gömul og lúin hérna á ritstjórninni. Okkur finnst yfirleitt betra að bíða þangað til glugginn lokast og draga þá upp mynd af öllu saman.

Það sem hefur einkennt gluggann í ár er nokkurn veginn þetta. Mikið skrifað og ekkert gert.

Við gátum þó treyst á að eigandi Dallas hefði pung í að gera eitthvað. Hann hristi upp í hópnum hjá sér og fékk Brendan Haywood og Caron "Tough Juice" Butler frá Washington. Fyrir ári hefðum við verið mjög spennt fyrir hönd Dallas, en Butler er bara búinn að spila eins og uppvakningur hjá Wiz svo lengi að við erum farin að efast um hungrið hjá honum.

Svo var það auðvitað hann Marcus Camby. Hann fór í dramakast þegar hann frétti að honum hefði verið skipt til Portland. Bar því við að honum liði vel í LA og vildi síður rifa fjölskylduna upp og fara með hana norður til Oregon.

Nú erum við það fullorðin hérna að við vitum alveg að það er ekkert gaman að þurfa að rífa fjölskylduna upp, en hversu metnaðarfullur leikmaður ertu ef þú VILT EKKI FARA FRÁ LA FOKKÍNGS CLIPPERS!?!

Ekki misskilja, Camby er enn hungraður leikmaður. Þú ert ekki við toppinn í fráköstum í NBA ef þú ert að krúsa, en kommon. Hversu metnaðarlaus er þessi maður að vera ekki búinn að reyna að komast að hjá contender á síðustu árunum í deildinni? Hversu mikið mál er að fórna síðustu tveimur árunum í deildinni til að reyna að vinna eitthvað? Þú hefur allan bleepin tíma í heiminum til að leika við krakkana þína næstu tuttugu árin eftir það! Sauður.

Já og nú áðan var Cleveland að fá Antawn Jamison frá Washington fyrir.... ekkert. Æði. Meira um það fljótlega.

Wednesday, February 17, 2010

Marsdagskráin á NBA TV


Við vorum að henda inn marsdagskránni á NBA TV. Hana má finna í tenglinum hérna hægra megin á síðunni.

Það góða við mars er að um miðjan mánuðinn er skipt yfir á sumartíma í Bandaríkjunum og þá færist blessuð klukkan fram um klukkutíma.

Þannig hefjast fyrstu leikir í NBA klukkan 23:00 að íslenskum tíma í stað miðnættis áður. Það er vor í lofti gott fólk.

Maðurinn sem vildi ekki fara frá LA Clippers


 

Tuesday, February 16, 2010

Monday, February 15, 2010

Dwyane does Dallas... again


Al-Stjörnu leikurinn fór fram í nótt fyrir framan mesta fjölda áhorfenda nokkru sinni í sögunni, 108,713 manns. Þeir kunna þetta þarna í Dallas.

Leikurinn var góð skemmtun og það var Dwyane Wade sem stal senunni og var kjörinn leikmaður kvöldsins. Ekki í fyrsta skipti sem hann er kvalari Dallas-búa.

Við þurfum ekki að hafa mörg orð um þetta. Kíktu á tilþrifin í myndbandinu hér fyrir neðan.

Sunday, February 14, 2010

Al-Stjörnu-Sunnudags-Morgun-Hér


Loksins er eitthvað farið að gerast. Washington og Dallas að gera sjö manna leikmannaskipti.

Dallas að losa sig við mannskap sem var frekar til vandræða en gagns og fær tvo lykilmenn Wiz í staðinn.

Vonandi verða þeir Dallas til einhvers gagns. Það á samt eftir að koma í ljós.


Caron Butler hefur ekki verið 20% af sjálfum sér í vetur, en Haywood ágætur. Þetta ætti að styrkja Dallas en fyrir Washington vakir auðvitað ekkert annað en að moka út og byrja upp á nýtt.

Charley Rosen vegur og metur skiptin í þessum pistli.

Svo er verið að pískra um að Cleveland muni jafnvel landa Amare Stoudemire frá Phoenix fyrir Zydrunas Ilgauskas og JJ Hickson. Áhugavert, svo ekki sé meira sagt.

Æ, já. Nate Robinson vann troðkeppnina enn einu sinni. Vei. Talað um þetta sem eina lélegustu og óáhugaverðustu troðkeppni sem haldin hefur verið. Amk síðan árið 2002.

Paul Pierce sigraði í skotkeppninni eftir úrslitaeinvígi við Litla-Curry. Nash í brellukeppninni og Texas í 4x100 metra fjórsundi kvenna.

Og okkur gæti ekki verið meira sama.

Stjörnuleikurinn er í beinni klukkan eitt í nótt á Stöð 2 Sport.

Saturday, February 13, 2010

Friday, February 12, 2010

Thursday, February 11, 2010

Klói verður í byrjunarliði í Al-Stjörnuleiknum


Meiðsladraugurinn hefur heldur betur farið illa með stórstjörnurnar í NBA deildinni að undanförnu.

Svo illa, að í kvöld var tilkynnt að kötturinn skemmtilegi Klói verði í byrjunarliði Austurdeildar í Al-stjörnuleiknum á sunnudaginn. Klói er eins og flestir vita andlit Kókómjólkurdrykkjarins ljúffenga.

Þetta er auðvitað haugalygi. Nema auðvitað parturinn um að Klói sé andlit drykkjarins.

Í kvöld var hinsvegar greint frá því að David Lee hjá New York tæki sæti Allen Iverson (persónulegar ástæður, eins og t.d. fullkomið áhugaleysi) í stjörnuleiknum og Dallas maðurinn Jason Kidd kæmi inn fyrir Kobe Bryant (fjölmeiddi).

Hvenær verður Larry Hughes kallaður inn?

Steve Nash fer á kostum í auglýsingu


Þeir sem hafa horft eitthvað á amerískt sjónvarpsefni í vetur hafa væntanlega ekki misst af flottum bjórauglýsingum Dos Equis, sem fjalla um "Áhugaverðasta mann heims."  Töff auglýsing að okkar mati. Þú getur séð hana hér fyrir neðan.Nú er komin út ný auglýsing sem er skopstæling á Dos Equis auglýsingunni. Hér er á ferðinni spéfuglinn sjálfur Steve Nash og varan sem auglýst er heitir vítamínvatn. Eflaust óhollari en áðurnefndur bjór.  Flott frammistaða hjá honum.

Tuggur


*Það hefur nú verið staðfest endanlega (af okkur) að New Jersey Nets er lélegasta lið allra tíma. Eins og til að fullkomna ógæfu liðsins, komust ekki nema um það bil 1000 áhorfendur til að sjá Nets drulla á sig gegn Sacramento í gær vegna veðurs.

*Reyndar er eitt lið þó hlutfallslega lélegra en Nets. Detroit Pistons. Við erum að reyna að ná frumvarpi í gegn um öldungadeildina sem myndi þýða að leikmenn Detroit yrðu sektaðir fyrir að stela súrefni frá öðru heiðarlegu fólki.

*LA Lakers þarf að spila oftar án Kobe Bryant. Lakers hefur unnið þrjá í röð án Kobe og það þykir okkur ekki hjálpa honum í MVP kapphlaupinu. Og Lamar Odom og Pau Gasol væru bestu framherjar allra tíma ef þeir fengju að spila oftar við Utah Jazz.

*Stephen Curry er á góðri leið með að toppa pabba sinn. Bauð upp á 36/10/13 þrennu í gær, sem er helvíti flott.

Curry spilar reyndar með Warriors - liði sem er þjálfað af manni sem fer með garðsláttuvél í byssubardaga. Það lítur alltaf helvíti sannfærandi út þegar maðurinn með garðsláttuvélina nær að grísa á að vinna bardagann - en það gerist ekki oft.

*Boston verður aldrei NBA meistari 2010. Það er bara ekki fræðilegur möguleiki á því miðað við stöðuna í dag.

*Charlotte hefur ekkert við Tyson Chandler að gera. Ekki á meðan Nazr Mohammed býður upp á 20/20 leiki og sigurkörfur.

Té-Mákur leitar sér að vinnu


 

Tuesday, February 9, 2010

George Hill finnst líka gaman að taka myndir af... hlutum


Við vorum einmitt að pæla í því í dag hvað George Hill væri búinn að standa sig vel hjá annars döpru liði San Antonio Spurs í vetur. Svo lesum við þetta.

Hill ákvað að feta í fótspor Greg Oden og bjóða einhverri stúlkukind upp á það að dreifa nektarmyndum af sér á netinu.

Hill fetaði líka í fótspor Oden þegar hann játaði allt saman og baðst afsökunar.

Hann er þar með þriðji NBA leikmaðurinn á tveimur mánuðum sem fær bágt fyrir að vera með hættuleg verkfæri á glámbekk - ef við teljum Gilbert Arenas með.

Hérna virðist vera að myndast skemmtilegt trend.

RJ


 

Die Antwoord


Hvítt Súkkulaði


 

South of Heaven


 

Monday, February 8, 2010

Chris Kaman spilar körfubolta um næstu helgi


Óbeislaður kynþokki var það fyrsta sem kom upp í hugann þegar það var tilkynnt í kvöld að hinn eggjandi Chris Kaman hjá LA Clippers hefði verið valinn til að taka sæti hins meidda Portland-manns Brandon Roy í Al Stjörnuleiknum næstkomandi sunnudag.

Það er gaman að sjá Kaman þarna. Hann hefur ekki náð að gera LA Clippers að sómasamlegu körfuboltaliði frekar en nokkur maður síðan Sam Cassell gerði það hérna um árið, en Kaman er einn af fáum leikmönnum í NBA deildinni sem geta í raun og veru kallast miðherjar.

Þess má geta að Al Stjörnuleikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport á sunnudagskvöldið klukkan eitt eftir miðnætti.

Þjálfaraskipti hjá Clippers


 

Slagari í tilefni dagsins - On march the Saints!


Sunday, February 7, 2010

Rauðkál


Það var ekki eins mikill glans á viðureign Utah og Denver eins og til stóð í gær. Chauncey Billups ákvað að taka sér frí frá leiknum vegna ökklameiðsla eins og Carmelo Anthony.  Sigur Utah var aldrei í hættu í gær en Denver vann einvígi liðanna í deildinni 3-1 í vetur og kvíðir engu að mæta Jazz í úrslitakeppni ef til þess kæmi.

Jazz er samt búið að vinna 8 í röð og 12 af 13. Af hverju spyrðu? Af því mikið af þessu er heimaleikir og af því Andrei Kirilenko er búinn að spila eins og andsetinn frá því við drulluðum yfir hann hérna fyrir nokkru.

Ekki hlæja, en það er rosalega erfitt að vinna Utah í Salt Lake City ef Kirilenko spilar eins og hann hefur gert síðan hann var settur í byrjunarliðið fyrir einhverjum 10 leikjum síðan.

Jazz þarf að sætta sig við að fá sama og ekkert fyrir Carlos Boozer og losa sig við hann núna! Millsap er miklu betri kostur þegar allt er talið. Skipta Boozer út fyrir skotblokkara og við erum að dansa.

LeBron James fór hrikalega illa með okkur í gær. Hann var kominn með 31 stig gegn New York í byrjun annars leikhluta, en slakaði svo á og skilaði ekki nema 47 stigum, 8 fráköstum og 8 stoðsendingum. Ekki nema.

Kláraði svo leikinn í lokin þegar Cleveland var búið að hleypa Knicks aftur inn í hann með kæruleysi. Cleveland með 11 sigra í röð og spilar best allra liða í deildinni um þessar mundir.

Og LeBron er ekkert að hata að spila á móti Knicks. Búinn að gera dálítið af þessu í vetur. Byrja rosalega en fara svo bara að leika sér. Sýnir hvað honum gæti ekki verið meira sama um einstaklingsmet og tölfræði.

Kobe tók sér frí frá því að spila með Lakers í fyrsta sinn í 235 leikjum, en það kom ekki í veg fyrir fyrsta sigur hans manna í Portland síðan 2005.

Brandon Roy var í jakkafötunum hjá Blazers eins og svo oft áður. Hann þarf ekki að horfa lengur en til Kobe til að sjá hvaða fórnir þarf að færa til að vera alvöru súperstjarna. Þú bara ert klár í alla leiki og meiðist ekki. 

Þið megið svo minna okkur á að senda Russell Westbrook blómvönd fyrir 21/7/10/8 leikinn hans. Ú je.