Tuesday, May 31, 2016

Fjórum sinnum betra en í fyrra


Það munaði ekki nema klofnu punghári að megnið af umræðunni um úrslitakeppnina í ár snerist að mestu um "fall Golden State Warriors." Svona getur þetta verið í þessu dásamlega sporti. Það er grátlega stutt á milli Óskars og Ófeigs stundum, eins og Oklahoma-menn fengu að reyna í nótt.

Hugsið ykkur bara hvert umræðan hefði farið ef Oklahoma hefði tekist að nýta einhvern af þessum þremur sénsum sem það fékk til að klára Warriors. Þá færi umræðan (hjá mörgum) á þetta plan:

* Að titillinn í fyrra hafi verið heppni af því Golden State þurfti ekki að mæta San Antonio og af því það vantaði lykilmenn í öll liðin sem það mætti í úrslitakeppninni - mest í Cleveland í lokaúrslitunum.

* Sennilega færu einhverjir að gagnrýna leikstíl Warriors og teldu upp rök sem þeir finndu til að sýna fram á að Steve Kerr væri ekki þessi frábæri þjálfari sem við héldum og að Stephen Curry hafi ekki beint brotnað undan pressunni, en í það minnsta valdið vonbrigðum í úrslitakeppninni hvort sem hann var meiddur eða ekki.

* Einhverjir pennar slá því föstu að Golden State geti ekki átt von á því að vinna fleir titla í framtíðinni nema taka sénsinn á að þynna liðið með því að ná í Kevin Durant í sumar.

* Aðrir segja að það hafi verið eltingaleikur liðsins við 73 sigrana í deildarkeppninni sem hafi farið með þetta, því leikmenn hafi hreinlega brunnið út í úrslitakeppninni eftir að hafa eytt of mikilli orku í deildina.


En blessunarlega fyrir meistarana, náðu þeir á einhvern ótrúlegan hátt að snúa þessu tapaða einvígi sér í hag og klára það í oddaleik á heimavelli, nokkuð sem virtist óhugsandi fyrir viku síðan. Nei, nú er það Oklahoma og leikmenn þess sem þurfa að standa undir allri þessari gagnrýni og leiðindaskrifum. Verði þeim það að góðu. Úff.

Í staðinn fyrir alla neikvæðu punktana sem við töldum upp hér að ofan, verður Golden State liðið nú ausið lofi, enda með hjarta meistarans sem tryggði því sigur í erfiðustu seríu þess til þessa.

Svona er svakalega stutt á milli í umfjölluninni og við munum satt best að segja ekki eftir tilviki þar sem er svona mjótt á mununum í narratífi - að stig til eða frá ráði því hvort frábært körfuboltalið teljist sannarlega eitt besta lið allra tíma, eða hvort það hafi bara verið loftbóla sem sprakk á fyrstu alvöru hindruninni sem varð á vegi hennar. Enn og aftur erum við að einfalda þetta mikið, en þið fattið hvað við erum að fara.


Og nú er bara ein sería eftir fyrir Golden State til að sanna sig endanlega sem eitt af þeim bestu í sögunni og kóróna þetta magnaða tímabil meta og 73 sigra. LeBron James er búinn að bíða lengi eftir að fá annan séns í Golden State, en að þessu sinni er hann með miklu meiri hjálp en í fyrra. Þá var enginn Kevin Love, (mestmegnis) enginn Kyrie Irving og svo má bæta því við að það var sannarlega enginn Channing Frye heldur.

Það hefur verið vinsælt þrætumál í eitt ár að stúdera hvernig einvígi Cavs og Warriors hefði farið í fyrra ef allir hefðu verið heilir hjá Cleveland. Án þess að geta fullyrt það, erum við nokkuð viss um að þó serían hefði spilast allt öðruvísi, hefði Golden State unnið hana á svipaðan hátt og það gerði þegar upp var staðið.

Þessi miklu betri sóknarleikur sem Cleveland hefði notið ef allir hefðu verið heilir, hefði líklega ekki náð að brúa bilið sem myndaðist vegna miklu lélegri varnarleiks. Kyrie Irving og Kevin Love eru svo langt undir meðallagi sem varnarmenn að það háir Cleveland-liðinu alvarlega.


Hvað haldið þið að menn eins og Stephen Curry og Draymond Green sleiki út um í veggnum og veltunni þegar þeir sjá fyrir sér að mæta Kyrie Irving og Kevin Love í staðinn fyrir Tristan Thompson og Matthew Dellavedova - svo ekki sé minnst á Andre Roberson, Kevin Durant og Serge Ibaka? Þið getið rétt ímyndað ykkur.

Eins og verða vill í lokaúrslitum, hefur enginn hugmynd um hvernig serían kemur til með að þróast, því enginn hefur hugmynd um hvernig þessi lið passa saman. Við fengum einhvern smjörþef af því í deildarkeppninni, þar sem Golden State gjörsamlega valtaði yfir Cleveland í báðum viðureignum, en eins og þið vitið er sjaldnast fylgni milli viðureigna í deildakeppni og úrslitakeppni. Lið sem hefur sópað öðru í deildarkeppninni lætur svo sópa sér út í úrslitakeppninni. Það eru mörg dæmi um þetta.

Það sem verður einna áhugaverðast að sjá í þessu einvígi er hvort liðin halda áfram að vera svona lygilega heit í þriggja stiga skotunum. Cleveland setti met yfir flesta þrista í einum leik þegar það drullaði yfir Atlanta um daginn og bæði Steph Curry (32) og Klay Thompson (30) bættu metið (28) yfir flestar þriggja stiga körfur skoraðar í einvígi í úrslitakeppninni í seríunni við Oklahoma.Við ætlum ekki að fara djúpt í þetta einvígi af því við erum ekki Zach Lowe og höfum ekki hundsvit á körfubolta. Það eina sem við vitum og fullyrðum - alveg eins og við gerðum fyrir úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar - er að einvígi Golden State og Cleveland verður alveg hrikalega skemmtilegt.

Það eru einfaldlega of margir frábærir körfuboltamenn í þessari seríu til hún geti með nokkru móti orðið leiðinleg. Það er bara ekki séns. Þetta verður fjórum sinnum betri sería en úrslitaeinvígið í fyrra. Það er alveg bókað, sama hvernig það fer.


Rétt eins og var og er með Warriors, er Cleveland með gríðarlegt narratíf á bakinu, sem á betri íslensku þýðir að það verður óhemju mikið skrifað um það hvort sem liðið vinnur eða tapar og það er nokkuð öruggt að einvígið verður sögulegt af því einu að LeBron James tekur þátt í því.

LeBron er náttúrulega að taka þátt í sjötta úrslitaeinvíginu sínu í röð og því sjöunda alls, sem er einstakt afrek hvort sem Austurdeildin er búin að vera drasl undanfarin ár eða ekki. LeBron er nú þegar kominn það hátt á lista bestu körfuboltamanna allra tíma að allt sem hann gerir í lokaúrslitunum er sögulegt.

Við vonum að bæði lið haldi áfram þar sem frá var horfið og haldi áfram að setja met í þriggja stiga körfum í úrslitunum. Það eru sannarlega mannskapur þarna til að gera það.

Við ætlum ekki að spá fyrir um þetta einvígi, en berum þess í stað upp spurningu sem þið getið reynt að melta þangað til klukkan eitt á fimmtudagskvöldið (Stöð 2 Sport) þegar fyrsti leikur lokaúrslitanna fer fram.

Hvernig í ósköpunum á Cleveland að stöðva þetta Golden State lið?

Office-dansinn hans Draymond GreenMeistararnir áfram eftir sögulega seríu


Við sögðum ykkur að þetta færi svona fyrir tveimur dögum síðan. Let´s face it, það var ekki séns í helvíti að Oklahoma tæki þennan leik. Heimaliðið vinnur game 7, það er bara þannig. Það er hinsvegar gríðarlega margt sem vert er að hugleiða eftir þetta einvígi og við erum að hugsa um að gera það hérna fyrir neðan.

Oddaleikur Golden State og Oklahoma um sæti í lokaúrslitunum þróaðist ekki eins og við höfðum spáð, því Warriors var ekki búið að klára hann í öðrum leikhluta. Í staðinn spilaði Oklahoma frábærlega í fyrri hálfleik og neitaði að gefast upp fyrr en í fulla hnefana eins og það hefur gert alla þessa úrslitakeppni.

Niðurstaðan er ein besta sería í sögu úrslitakeppninnar - tvö lið sem eru gjörsamlega hlaðin hæfileikum og sveiflur, drama og tilþrif á heimsmælikvarða. Þetta var sería okkar áhugamannanna og allir nema stuðningsmenn Oklahoma brosa út að eyrum yfir þessu magnaða sjónvarpskonfekti. Þetta var gjörsamlega geggjuð sería og það fyndna við þetta er að lokaúrslitin hafa alla burði til að verða álíka skemmtileg, með álíka starpower og hæfileika í Cleveland-liðinu.


Við vitum að það er klisja, en Oklahoma getur farið með höfuðið hátt út úr þessari seríu þó hún hafi tapast. Við vitum alveg að Russell Westbrook og Kevin Durant gefa skít í slíkan hugsunarhátt, en þó stefnan sé alltaf titill eða dauði hjá OKC og sé búin að vera það síðan árið 2012, var frammistaða liðsins í þessari úrslitakeppni til algjörrar fyrirmyndar.

Russell Westbrook og Kevin Durant spiluðu eins og þeir væru tveir af allra bestu körfuboltamönnum í heimi og það var hér um bil nóg til að koma liðinu í lokaúrslitin, þar sem þeir hefðu líklega þótt sigurstranglegir í margra augum eftir að hafa farið í gegn um tvo risavaxna andstæðinga á leiðinni þangað.

Ástæðan fyrir því að Oklahoma á að hluta að taka þessu tapi sem mórölskum sigri, var að liðið hafði í fullu tré við tvö sögulega góð körfuboltalið. Vann annað þeirra nokkuð örugglega eftir að hafa látið slátra sér í leik eitt og farið alla leið í oddaleik gegn hinu. Okkur er sama hvað hver segir, þetta var mjög góður árangur hjá Oklahoma og miklu, miklu betri árangur en við bjuggumst við af þessu liði þetta vorið.


Stuðningsmenn Oklahoma vilja ekkert frekar hlusta á eitthvað jarm um móralska sigra frekar en leikmennirnir, en ef þið spáið í því er Oklahoma eins nálægt því að vera NBA meistari og lið getur verið án þess að lyfta bikarnum. Það vantar alveg sorglega lítið upp á til að þetta lið geti orðið meistari, nánar tiltekið tvo þokkalega vængmenn. Til dæmis menn eins og Andre Iguodala og Harrison Barnes. Það er ekki meira, þó við gerum okkur grein fyrir að slíkir menn vaxi ekki á trjánum, sérstaklega Iguodala.

Dion Waiters stóð sig betur í þessari úrslitakeppni en við hefðum nokkru sinni þorað að vona, en hann er ekki nógu góður leikmaður til að valda því hlutverki sem ætlast er til af honum. Og Andre Roberson er það ekki heldur. Roberson er frábær varnarmaður og stóð sig í rauninni frábærlega í úrslitakeppninni, en eitt pínulítið atvik í leiknum kórónaði þessa skoðun okkar og sannar gildi hennar.

Það var þegar Roberson fékk sendingu frá Kevin Durant og stóð aleinn fyrir utan 3ja stiga línuna í síðari hálfleiknum, en í stað þess að skjóta án þess að hika, kastaði hann boltanum eins og sjóðheitri kartöflu til Dion Waiters, sem varð að taka langt, kontestað tveggja stiga skot sem fór að sjálfssögðu ekki ofan í. Vandamál Oklahoma í hnotskurn í einu litlu atviki.Það er alveg satt sem þeir segja: þú lifir með þristinum og þú deyrð með honum - og ekkert lið sannar það sennilega eins vel og Golden State. Málið er bara að þeir skjóta svo fáránlega vel úr 3ja stiga skotum að þeir lifa í sátt og samlyndi með þristinum og hafa enn ekki dáið með honum. Það munaði fáránlega litlu að þessu sinni, en það var þristurinn og ekkert annað sem beilaði meistarana út úr þessu einvígi.

Og það sem gerði endanlega útslagið var að Stephen Curry var loksins "hann sjálfur" í heilan leik og það hefði ekki geta komið á betri tíma fyrir Golden State.

Oklahoma spilaði einfaldlega betur en Golden State ef undan er skilinn hræðilegi kaflinn í lok sjötta leiksins og nokkrar mínútur í síðari hálfleik í oddaleiknum í nótt. Oklahoma-sóknin gekk prýðilega og það sem meira er, var varnarleikurinn hjá þeim algjörlega frábær - sá langbesti sem Golden State hefur nokkru sinni mætt.

En hversu ógeðslega niðurdrepandi er það fyrir sálartetur hvaða liðs sem er, að það skuli spila betur en andstæðingurinn í meirihlutann af leiknum - og leikjunum - en tapa samt? Það þurfa leikmenn Oklahoma að díla við núna. Þeir litu betur út en Golden State, spiluðu frábæra vörn, en meistararnir bara skutu þá í kaf með þriggja stiga skotum. Sumum hverjum fáránlegum. Flestum þeirra, meira að segja, fáránlegum.

Þetta er í rauninni ekki sanngjarnt, en svona er þetta því miður. Leikmenn Oklahoma eiga eftir að vera með óbragð í munninum í allt sumar yfir þessu. Matt Moore, körfuboltaskríbent hjá CBS, orðaði þetta skemmtilega á Twitter í nótt.


Seríur sem fara í sjö leiki eru alltaf jafnar og þessi var engin undantekning á því. Og þegar seríur eru svona jafnar - ekki síst þar sem liðið sem tapar kemst yfir 3-1 - er augljóst að sigurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var. Boltinn hefði ekki þurft annað en að skoppa til hægri en ekki vinstri - bara einu sinni - og þá vinnur lið B en ekki lið A.

Þess vegna er náttúrulega barnalegt að gefa út stórar yfirlýsingar eftir svona leiki (eins og við erum svo gjörn á að gera, eins og þið hafið séð). Liðið sem tapar er ekki drasl, og það er það sannarlega ekki í þessu tilviki. Oklahoma er alveg ógeðslega gott lið.

Kevin Durant sá þetta alveg eins og við og þegar hann var spurður út í tvo síðustu leikina og um leið hvað gerðist í einvíginu eftir að Oklahoma náði 3-1 forystu í því, sagði hann eitthvað á þessa leið: "Við spiluðum betur en þeir, fráköstuðum betur, áttum teiginn og spiluðum frábæra vörn. Þeir héldu bara áfram að setja niður þriggja stiga skot."Þetta var ekkert flóknara. Grínlaust. Það má vel vera að fólk sem raunverulega hefur vit á körfubolta segi ykkur eitthvað annað, en við fullyrðum það. Golden State vann þessa seríu af því það setti niður alveg ógeðslega mörg - og mörg hver fáránleg - þriggja stiga skot í síðustu tveimur leikjunum í þessu einvígi. Meira að segja mörg fyrir Golden State - og það eru MÖRG þriggja stiga skot.

Ef Golden State hefði hitt eitthvað nálægt því eðlilega úr 3ja stiga skotum í leikjum sex og sjö, væri Oklahoma á leiðinni í úrslit. Gallinn er bara sá að Stephen Curry og Klay Thompson eru tvær af bestu skyttum sem NBA deildin hefur nokkru sinni séð. Curry sú besta og Thompson er kominn helvíti hátt á þeim lista líka

Thompson sækir mjög hratt upp listann af því hann getur státað af því að hafa sett fleiri og stærri þrista í úrslitakeppninni en nokkurn veginn allir leikmenn í sögunni. Ray Allen er auðvitað þarna uppi, en magnið sem þeir Curry og Thompson eru að vinna með, trompar allt sem á undan hefur komið.

Tökum hinn svívirðilega ofmetna Reggie Miller sem dæmi. Hann skoraði 320 þrista í fimmtán ferðum í úrslitakeppnina á ferlinum. Klay Thompson er búinn að skora meira en helminginn af því (169) þó hann sé aðeins í sinni fjórðu úrslitakeppni á ferlinum. Reggie Miller skoraði þessa 320 þrista sína í 144 leikjum í úrslitakeppni, en Stephen Curry er búinn að skora 203 þrista í aðeins 50 leikjum í úrslitakeppni á ferlinum.


Þeir Ray og Reggie skoruðu nokkra áhrifamikla þrista á sínum tíma, en Reggie skoraði sína þrista flesta í fyrstu tveimur umferðunum, svo þeir Steph og Klay, sem eru á leið í önnur lokaúrslitin sín á ferlinum, eru þegar búnir að slá honum við hvað það varðar. Ray Allen á ennþá einn stærsta og eftirminnilegasta þrist í sögu lokaúrslitanna, en þeir skvettubræður hjá Golden State sækja hart að honum og eiga örugglega eitthvað uppi í erminni í komandi úrslitaeinvígi.

Við vitum alveg að þetta eru breyttir tímar og það er ósanngjarnt að bera þá Curry og Thompson saman við menn sem spiluðu á tímum þar sem fólk var ekki eins geggjað í dag þegar kemur að langskotum. Við erum aðeins að benda á það hvað Reggie Miller er ógeðslega ofmetinn bakverðir Golden State eru að skjóta allar metabækur í tætlur og eru að því er virðist og í raun og veru, rétt að byrja.

Þetta var hressandi útúrdúr, en það er bannað að misnota tækifæri til að drulla aðeins yfir Reggie Miller, þið vitið það.

Ef þið hafið lesið ameríska körfuboltamiðla lengur en í tvær vikur, vitið þið væntanlega hvert umræðan um Oklahoma mun fara héðan í frá. Nú snýst ALLT sem skrifað verður um þetta lið um hvort Kevin Durant framlengir samning sinn við félagið í sumar eða kýs að reyna fyrir sér annars staðar.


Við förum ekki ofan af því að við teljum og viljum að hann verði áfram hjá Oklahoma. Það er ekki ólíklegt að hann framlengi samning sinn um eitt ár og taki þar sem séns á að meiðast ekki alvarlega, því launaþakið verður búið að hækka svo svívirðilega eftir þetta eina ár að þá getur hann skrifað undir risasamning sem á engan sinn líkan í sögunni.

Okkur er alveg sama um þessar tölur, við vonum að bæði Durant og Westbrook verði áfram hjá Oklahoma og við erum alveg handviss um að þannig vilja forráðamenn Oklahoma hafa það. Þeir vita sem er að liðið er aðeins hársbreidd frá því að vinna meistaratitil og að vandamál þess liggur ekki hjá stjörnunum, heldur hjá aukaleikurunum, sem eru bara ekki nógu góðir.

Þú vinnur ekki titil með Dion Waiters í lykilstöðu, fjandakornið. Svona eins og við eigum eftir að sjá Cleveland vinna titil ef það þarf á stöðugu framlagi frá JR Smith að halda. Það á ekki að vera hægt, því auk þess að vera algjör hægðaheili, er Smith oftast hræðilegur þegar lið hans þarf mest á honum að halda (sjá: 28% 3ja stiga skotnýtingu í lokaúrslitunum í fyrra). Dálítið eins og Jamal Crawford hjá Clippers.
Þó við vonum vissulega að Durant verði um kyrrt hjá Oklahoma og þó að það sé á flestan hátt skynsamlegasta ákvörðunin fyrir hann, er eitt lið sem orðað hefur verið við hann áhugaverðara en öll önnur og það er einmitt Golden State.

Meistararnir gætu tekið hann með smá leikfimi í launa- og leikmannamálum, þó þeir þyrftu líklega að þynna aðeins hjá sér hópinn. Tilhugsunin um Kevin Durant í þessu Golden State liði hlýtur að vera efni í verstu martraðir hjá restinni af deildinni og það yrði þá og þegar óárennilegasta sóknarlið í sögu deildarinnar. Í einu orði sagt: Ósanngjarnt.

Við sjáum það samt ekki fyrir okkur að Kevin Durant muni ganga í sæng með óvininum, því hann hefur hingað til verið mjög hollur sínu félagi. Það er samt ómögulegt að gera sér í hugarlund hvað hann er að hugsa núna, annað en það að akkúrat núna er hann í massífu þunglyndiskasti.

Restin verður að koma í ljós í sumar. Sumarið eftir frábæra úrslitakeppni hjá Oklahoma, þá næstbestu í sögu félagsins (við blöndum sögu OKC ekki saman við sögu Seattle, það er fáránlegt). Megi þetta lið halda áfram að vaxa.

Fjölmiðlamenn greindu frá því að Kevin Durant hafi tekið í höndina á öllu staffinu hjá Golden State og þakkað öllum fyrir rimmuna, allt niður í skúringakonur og boltastráka. Það er klassi yfir Durant, hann er ekki bara stórkostlegur leikmaður, hann er líka vel upp alinn og auðmjúkur í tapi.Að lokum verðum við að gefa þjálfaranum Billy Donovan feitt kúdós. Hann var ekki langt frá því að stinga endanlega upp í okkur með því að fara hreinlega alla leið, eftir að við vorum búin að gera grín að honum og kalla hann lélegan þjálfara um daginn. Þetta undirstrikar hvað við höfum ekki hundsvit á körfubolta og erum í raun algjör fífl, en þið vissuð það nú alveg.

Donovan notaði veturinn í vetur til þess að gera tilraunir með liðið og var ekkert að stressa sig á því þó það tapaði kannski leikjum sem það átti að vinna í deildarkeppninni. Svo skipti liðið um gír í úrslitakeppninni og breyttist í þetta drápstól sem við sjáum fara alla leið með Golden State. Billy Donovan er enginn skussi, það erum við sem erum skussar.


Sunday, May 29, 2016

Þristarnir hans Klay Thompson í nótt


Hvað sáu geimverurnar?


Mörg okkar eru orðin ansi fljótfæri, óþolinmóð og fljót að alhæfa á þessum síðustu og verstu.

Twitter ýkir þessa tendensa upp hjá okkur. Við lifum í þjóðfélagi þar sem allt þarf að gerast strax eða ekki og ekkert fólk lifir undir eins ströngum "hvað hefurðu gert fyrir mig nýlega" formerkjum og íþróttamennirnir okkar.

Einhver minntist á það á Twitter í kvöld meðan fyrri hálfleikurinn hjá Oklahoma og Golden State var í gangi, að ef geimverur hefðu komið til jarðar og fylgst með leikjum dagsins, hefðu þær líklega ekki getað komið auga á tvo af bestu leikmönnum sinnar kynslóðar í NBA leiknum og úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Hér var auðvitað átt við þá Cristino Ronaldo og Stephen Curry.

Þetta var svo sem ekkert galið tíst. Okkur skilst að Ronaldo hafi ekki verið góður í úrslitaleiknum í dag og ekki var Curry að gera neinar rósir þegar þarna var komið við sögu. En hvað er þá vandamálið?

Jú, eftir því sem okkur var sagt, var Ronaldo víst að spila meiddur í úrslitaleiknum, en lét það ekki aftra sér frá því að spila hverja venjulegs leiktíma og framlengingar - jú og skora svo sigurmarkið í vítaspyrnukeppninni í lokin.

Sá eða sú sem sendi frá sér þetta tíst - og við erum ekki að blammera þetta tíst, per se, heldur bara að nota það sem lítið dæmi í þessari hugleiðingu - hefði aldrei sent það frá sér klukkutíma eða svo síðar, því þá var Curry búinn að skjóta Oklahoma í kaf og tryggja liði sínu oddaleik í einvíginu. Og það eru ekki slæmar líkur á því að hann muni vinna þann oddaleik.

Við tökum það fram að við erum alveg jafn slæm í þessu og hver annar. Við erum jú nýbúin að hrauna yfir Oklahoma í færslunni á undan þessari. Það sem við erum að reyna að segja er að kannski erum við öll orðin aðeins of... hreinlega geðveik, þegar kemur að íþróttahetjunum okkar.

Það má vel vera að menn eins og Curry og Ronaldo muni aldrei heyra það sem við erum að tísta eða tuða um þá og það getur vel verið að þessi tíst séu bara afrakstur fólks sem er að hugsa upphátt og fíflast eitthvað.

Og það getur vel verið að íþróttamenn séu þarna fyrir okkur til að öskra á þá, af því við þorum ekki að öskra á fólkið sem raunverulega á það skilið (stjórnmálafólkið).

En það getur líka vel verið að við séum alveg búin að missa plottið og séum orðin allt of tilætlunarsöm, hrokafull og leiðinlegir íþróttaáhugamenn.

Það má enginn íþróttamaður, undir nokkrum kringumstæðum, eiga eitthvað sem í okkar huga er eitthvað annað en fullkominn leikur - þá er viðkomandi íþróttamaður bara aumingi sem er búinn á því.

Liðið sem vann titilinn í fyrra er old news og drasl ef það vinnur ekki titilinn í dag og liðið sem vann titilinn fyrir tveimur árum er bara steingervingur sem öllum er sama um. Þjálfarinn sem vinnur níu leiki í röð en tapar einum illa er fáviti sem á að reka af því hann veit ekkert hvað hann er að gera. Leikmaðurinn sem svaf ekkert nóttina áður af því honum var illt í maganum og barnið hans var að taka tennur, er huglaus aumingi af því hann hitti illa úr skotunum sínum.

Bæði Oklahoma og Golden State hafa verið mesta drasl í heimi og meistaraefni með nokkurra daga millibili, ekki meira en það.

Þið kannist við þetta. Og við líka, af því við erum alltaf að haga okkur svona sjálf og það er hálft í hvoru ástæðan fyrir því að við erum að skrifa þessa asnalegu hugleiðingu.

Enginn íþróttamaður er fullkominn, frekar en við sjálf. Maradona gerði fullt af mistökum, en það hafa Ronaldo og Messi líka gert. Larry, Magic og Jordan gerðu sín mistök. Það gera LeBron, KD og Curry líka, svo við ættum kannski að vera aðeins viljugri í að leyfa þeim að vera mannlegir.

Kannski var eins gott að geimverurnar sem vísað var í að ofan voru að horfa á lélega íþróttamenn spila en ekki á tímalínurnar okkar á Twitter.

Einn í boði Oklahoma


Þeir voru nokkrir sem hristu höfuðið þegar við lofuðum þeim það fyrirfram að einvígi Golden State og Oklahoma ætti eftir að vera sögulega gott. Þetta var auðveldasta spá sem við höfum gert og hún gekk meira að segja eftir, öfugt við allar hinar.

Sjötti leikur liðanna í nótt fer sannarlega í sögubækurnar, enda bauð hann upp á allt sem leikir í úrslitakeppni þurfa að hafa til að vera epískir. Við þurfum tvö góð lið, fullt af stjörnum, fullt af tilþrifum á báðum endum vallarins, spennandi leik og svo vaðandi drama í lokin. Tékk.

Af því við erum svo neikvæð og leiðinleg, byrjum við á að skoða hvað fór úrskeiðis hjá Oklahoma.

Ef þú vilt stuttu útgáfuna, er þetta einvígi búið fyrir Oklahoma. Leikmenn liðsins gætu alveg eins pantað sér flug á Benidorm á morgun, því þeir þurfa ekki að eyða orkunni í að spila einn leik í viðbót sem þeir geta ekki unnið. Oklahoma fékk sinn séns í þessu einvígi, mjög góðan séns sem það skapaði sér sjálft. En þetta tækifæri er runnið úr greipum þeirra og kemur ekki aftur, ekki á þessari leiktíð.

Það er alveg grátlegt fyrir okkur sem erum svona hrifin af Oklahoma. Við vorum öll farin að sjá fyrir okkur að liðið ætti nú möguleika á að fara í úrslitin og hefna sín á LeBron James. Nú verður ekkert af því, það er svoleiðis ekki séns.

Á þessum tímapunkti er heppilegt að fara í ásakanaleikinn og það er Kevin Durant sem fær skellinn hjá okkur að þessu sinni. Russell Westbrook fór hrikalega að ráði sínu í lok leiksins eftir að hafa verið með einn tapaðan bolta og næstum þrefalda tvennu í fyrstu þremur leikhlutunum, en það var (því miður) Kevin Durant sem var skussinn í þessum leik.

KD var ekki andlega rétt stefndur í þennan leik og við sáum það frá fyrstu mínútu. Við höfum aldrei áður séð Kevin Durant spila svona.

Maðurinn skaut í hvert einasta skipti sem hann fékk boltann, hvar sem hann var á vellinum og minnti á leikmann í tölvuleik þar sem skottakkinn á fjarstýringunni er fastur inni. Hann tók sér ekki tíma til að grípa boltann einu sinni - bara grýtti honum í átt að körfunni um leið og hann snerti leður.

Við setjum Durant í skussasætið eftir þennan leik þó Westbrook eigi það alveg eins skilið, því þeir voru jú með alveg jafn ljóta skotnýtingu í leiknum, en Durant er ekki vanur að skjóta svona oft og illa og það fór alveg með þetta hjá Oklahoma.

Vitið þið hver er helsta ástæðan fyrir því að við myndum kannski tippa á Golden State ef við gætum farið með það 20 ár aftur í tímann og látið það spila við ´96 Bulls?

Ekki ofhugsa þetta. Ástæðan er einföld stærðfræði: þriggja stiga körfur gefa meira en tveggja stiga körfur. Og Golden State er hrikalegasta 3ja stiga skotlið sem við höfum séð, aðallega út af tveimur mönnum, þeim Stephen Curry og Klay Thompson (þó þeir fái oft mikla hjálp frá félögum sínum).

Þetta er mikil einföldun, við vitum það, en það er staðreynd að Golden State vinnur marga leiki bara af því það skorar (miklu) fleiri 3ja stiga körfur en andstæðingurinn.

Oft spilar liðið betri vörn en andstæðingurinn, en stundum er mótherjinn með alveg jafn margar körfur skoraðar og Golden State, jafn mörg fráköst, stoðsendingar, stolna bolta, tapaða bolta - heldur í við meistarana á öllum sviðum leiksins. Nema í 3ja stiga skotum. Og þá bara vinnur Golden State. Nánast alltaf.

Þannig var þetta dálítið í sjötta leiknum í nótt. Oklahoma hitti úr aðeins 3 af 23 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og fékk sem sagt níu stig af 3ja stiga línunni í nótt.

Klay Thompson, einn og sér, skoraði 33 stig úr þriggja stiga skotum. Alls skoraði Oklahoma 63 stig úr þristum í leiknum, gegn þessum níu frá heimamönnum. Þú vinnur engan körfuboltaleik með þessa tölfræði á móti þér. Ekki undir nokkrum kringumstæðum.

Oklahoma spilaði þokkalega í 43-44 mínútur. Við segjum þokkalega af því Durant og Westbrook hittu ekki neitt. En á síðustu 4-5 mínútunum fór Oklahoma að gera Oklahoma-lega hluti eins og að kasta boltanum asnalega frá sér og meistararnir gengu á lagið.

Með því að vera með alla þessa neikvæðni út í Oklahoma-liðið, er ekki ætlunin að gera lítið úr afrekum Golden State. Alls ekki.

Klay Thompson var maður leiksins og bætti gamla metið í úrslitakeppni um tvo þrista með því að setja ellefu kvikindi.

Curry var stórkostlegur á endasprettinum og alveg við þrennuna og Andre Iguodala var stórkostlegur í varnarleiknum, sérstaklega á kaflanum þar sem Warriors tók leikinn af heimamönnum, barði þá með honum og tróð honum ofan í kokið á þeim.

Þetta var einn magnaðasti viðsnúningur og skotsýning sem við höfum séð í úrslitakeppni og það var afar heppilegt að fá þennan leik á laugardagskvöldi svo sem flestir treystu sér til að sjá hann.

Málið er bara að við náum ekki óbragðinu úr munninum á okkur yfir frammistöðu Oklahoma í þessum leik. Það er alveg öruggt að bæði pressan og þreyta leikmanna höfðu áhrif á þessum skelfilega lokakafla hjá liðinu. Það útskýrir ekki allt saman. Jú, jú, Golden State datt í rosalegt stuð og spilaði góða vörn, þó það nú væri, en það útskýrir ekki þetta drullíbux frá Oklahoma.

Í hvert skipti sem við ætlum að fara að hrósa Golden State, verður okkur hugsað til hræðilegu skotanna og töpuðu boltanna sem Oklahoma bauð upp á í þessum leik. Golden State hrifsaði þennan leik til sín og tók hann, sem er gott hjá þeim, en þeir hrifsuðu hann ekki úr höndunum á Oklahoma-mönnum. Þeir tóku hann upp af jörðinni og hlupu með hann þegar þeir sáu að Oklahoma-menn stóðu bara álengdar og horfðu á hann í stað þess að taka hann sjálfir.

Long story short: Þú klúðraðir þessu Oklahoma.

Getur Oklahoma unnið í Oakland? Já, þeir sýndu það fyrir nokkrum dögum síðan.

En getur Oklahoma unnið leik sjö í Oakland, gegn meisturunum, sem eru búnir að hirða allan meðbyr í einvíginu með því að vinna síðustu tvo leiki þess og eru fyrir vikið búnir að finna hrokann sinn aftur? Einmitt.

Það yrði alveg stórkostlegt ef sjöundi leikurinn á mánudagskvöldið yrði í járnum allan tímann og úrslitin réðust í framlengingu. Og hversu epískt yrði það ef útiliðið, hafandi tapað tveimur í röð, myndi nú brjóta í bága við alla hefð og vinna leikinn? Það yrði magnað.

En þú veist það jafnvel og við - og hefur örugglega séð það hundrað sinnum - að svona rimmur enda í 90% tilvika á því að heimaliðið vinnur stórsigur þar sem úrslitin eru jafnvel ráðin strax í hálfleik.

Það kemur amk ekki til með að líða yfir okkur ef leikurinn á mánudaginn þróast þannig, þó það yrði þá fyrsti leikurinn í þessu einvígi sem færi þannig.

Málið er bara að körfuboltaguðirnir eru svo gjarnir á að refsa liðum grimmilega sem komast yfir 3-1 í seríum og klára þær ekki. Þess vegna erum við svo hrædd um að Golden State vinni oddaleikinn með 30 stigum.

Oklahoma var búið að spila alveg ógeðslega vel í þessari seríu, en nú erum við hrædd um að sú vinna sé öll farinn í súginn. Til að koma í veg fyrir það, þarf Oklahoma að vinna oddaleik á útivelli sem er álíka algengt fyrirbæri og lottóvinningar.

Saturday, May 28, 2016

Af lokaúrslita-LeBron og Toronto á Tene


Manstu eftir þessum sveppum hérna fyrir ofan? Það hlýtur eiginlega að vera, því það er ekki svo langt síðan þeir réðu öllu í Austurdeildinni eins og Detroit hafði gert árin á undan þeim. Af hverju erum við að rifja þetta lið upp? Jú, af því þetta er síðasta alvöru liðið sem LeBron James þurfti að kljást við í Austurdeildinni.

Cleveland fór loksins að taka hlutina alvarlega eftir neyðarleg töp í leikjum þrjú og fjögur gegn Toronto og gjörsamlega valtaði yfir Kanadaliðið í leikjum fimm og sex. Það var nákvæmlega ekkert óvænt við það. Munurinn á þessum liðum er í raun og veru stjarnfræðilegur, þó þau hafi nánast verið jöfn í töflunni í deildarkeppninni.

LeBron James er nú að fara í lokaúrslitin sjötta árið í röð og auðvitað er það til marks um hversu magnaður leikmaður hann er að hann skuli vera búinn að ná þessum árangri með sitt hvorum klúbbnum. Þú þarft að vera heppinn með að sleppa við meiðsli og ákveðinn snillingur ef þú átt að komast í lokaúrslit sex ár í röð - og viti menn - LeBron James er heppinn með meiðsli og snillingur.


En við skulum ekki sykurhúða þetta meira en nauðsyn krefur. Í rauntali sagt, hafa liðin hans LeBron James mætt aaafar lítilli mótspyrnu síðan áðurnefnt Celtics-lið lagði upp laupana. Eina liðið sem náði að stríða Miami-liðinu hans LeBrons í úrslitakeppninni var Indiana á sínum tíma. Það var ágætis lið, fínt varnarlið, en ákaflega takmarkað þegar upp var staðið. Það gat farið með Miami í oddaleiki, en þegar allt var í járnum, gat þetta lið bara ekki búið til stig og féll á því, aftur og aftur og aftur. Og gerir raunar enn.

Chicago hefði strangt til tekið átt að vera öflugasti andstæðingur Miami-liðsins á sínum tíma, en meiðsli eyðilögðu hverja einustu leiktíð hjá þeim og gera enn. Önnur lið voru þremur þrepum fyrir neðan Miami og aldrei annað en það sem við köllum fallbyssufóður.

Og ekki tók "betra" við þegar LeBron James gekk aftur í raðir Cavs, því síðan hann flutti heim, hefur Cleveland verið eina liðið sem getur eitthvað í Austurdeildinni. Eitthvað!

(Á töflunni hér fyrir neðan sérðu að það eru ekki nema FIMMTÍU ár síðan körfuboltamaður komst síðast í lokaúrslitin sex ár í röð eða oftar. Það voru allt aðrir tímar og allt annar bolti en tíðkast í dag. Varla sama íþrótt, satt best að segja. 

Svo eru jú þrjátíu lið í deildinni í dag, en okkur minnir að þau hafi verið níu þegar Boston vann titilinn átta ár í röð frá árinu 1959 til 1966. Þessi mulningsvéll af liði vann alls ellefu titla á þrettán ára kafla á sjötta og sjöunda áratugnum og Bill Russell tók þátt í þeim öllum).Eins og við höfum talað um svo oft, þarf eitthvað lið að fara með Cleveland í undanúrslitin úr Austurdeildinni hvort sem það er skítlélegt eða ekki. Á síðstu leiktíð var það Atlanta sem var þetta skítlélega lið (okkur er alveg sama þó það hafi unnið sextíu leiki í deildarkeppninni), enda sópaði Cleveland því út úr úrslitakeppninni með svo afgerandi hætti að við höfum sjaldan séð annað eins.

Atlanta liðið var gjörsigrað frá fyrstu mínútu í þessu einvígi, hafði enga trú á því sem það var að gera og sýndi álíka mikinn karakter og stjórnmálamaður. Lögðust niður grenjandi og létu keyra yfir sig og það þó Cleveland-liðið hafi m.a. verið án Kevin Love í seríunni eins og þið munið.

Það kom í hlut Toronto að vera í þessu hlutverki í ár eins og þið vitið, en Snareðlurnar brugðust nákvæmlega öfugt við því að mæta LeBron. Þær börðust eins og ljón, þó þær fengu stundum hrikalega ljóta skelli og náðu að krafsa út sigra í tveimur leikjum.

Þú trúir kannski ekki á svona móralska sigra, en þú gætir þurft að taka það til endurskoðunar. Toronto var að komast í undanúrslitin í fyrsta skipti í sögu félagsins, sem var auðvitað ákaflega spennandi fyrir klúbbinn, en hvort heldurðu að sé betra veganesti inn í næsta vetur - að vera sópað fjögur núll, eða að hafa náð að gera einvígi úr þessu í smá stund og vinna tvo leiki?

Toronto var aldrei, aldrei að fara að vinna þessa seríu, það er bara ekki nógu gott lið, en það verður forvitnilegt að sjá hvaða pól þeir taka í hæðina með þetta lið á næstu misserum. Þið munið kannski að það er í rauninni algjör tilviljun að þetta lið hafi raðast svona saman, því Toronto menn ætluðu að stokka þetta allt upp og fara að tapa aftur með það fyrir augum að byggja upp nýtt lið. Svipað og Portland var að gera.

En svo fór liðið óvart að vinna allt of marga leiki og þá voru plönin um uppstokkun sett á ís og nú er svo komið að þeir eru smátt og smátt að pikka einn einn og einn leikmann inn í dæmið hjá sér en byggja að mestu á leikmannakjarnanum sem þeir eru með fyrir - ungum mönnum eins og Kyle Lowry, DeMar DeRozan og Jónas Val-ansi-Jónas.

Þetta lið er ekki meistaraefni og verður aldrei með þennan kjarna, en það er nógu gott til að míga utan í Cleveland í toppbaráttunni í deildarkeppninni en tapa svo örugglega fyrir því í úrslitakeppninni. Svona er þetta bara í austrinu og þetta er veruleiki sem blasir við öllum hinum liðunum sem komust í úrslitakeppnina þeim megin lands.

Það er því rosalega kósí fyrir LeBron James að vera svona einráður í deildinni sinni og hann er náttúrulega að njóta góðs af ýmsum forgjöfum í því sambandi. Fyrir það fyrsta er náttúrulega ekkert lið í austrinu sem getur veitt Cleveland einhverja samkeppni og því heyrir það til undantekninga ef liðið sópar andstæðingum sínum ekki.

Þarna kemur afar mikilvæg hvíld inn í dæmið, hvíld sem LeBron James þarf nauðsynlega á að halda nú orðið, enda orðinn fullorðinn maður. Og á meðan Cleveland er bara á ströndinni að tana sig eftir öll þessi sóp, eru verðandi mótherjar þeirra í Vesturdeildinni að fara í gegn um hverja blóðugu baráttuna eftir aðra og grænda sig í drasl.En það þýðir ekkert fyrir okkur að vera að bölsótast út í LeBron James ræfilinn þó að þetta sé svona. Hann hafði vit á þvi að halda sig í Austurdeildinni þegar hann tók allar þessar Ákvarðanir sínar og þar er meira en huggulegt að vera. James er líka að nýta hvern dropa af þeim hagnaði sem það færir honum. Og þó það nú væri. Maðurinn ætlar að vinna eins mikið og hann getur meðan hann spilar í þessari deild.

Nú er Toronto farið á Benidorm* og Cleveland komið í lokaúrslitin eins og við vissum öll. Liðið bíður þess nú að fá að vita hvort það fær meistara Golden State eða ólíkindatólin í Oklahoma í keppninni um allar kúlurnar.

Við ætlum ekkert að fara að spá í spilin með það núna, en langar samt að vekja athygli á einu litlu atriði varðandi lokaúrslitin sem er ekki víst að allir hafi áttað sig á. Ef Golden State fer í fænalinn, verður liðið að sjálfssögðu með heimavallarréttinn gegn Cleveland eins og hvaða liði sem er í deildinni af því það setti jú met yfir fjölda sigra í deildarkeppninni (73).


En fari svo að Oklahoma komist í úrslitin, verður nefnilega Cleveland með heimavöllinn af því það vann 57 leiki í vetur en Oklahoma aðeins 55. Þetta er afar mikilvægt atriði í okkar huga ef Oklahoma tækist að slá Golden State út. Við sjáum ljóslifandi dæmi um það hvað eftir annað í hverri einustu úrslitakeppni hvað bölvaður heimavöllurinn er hrikalegar mikilvægur þegar kemur í svona hnífjafnar seríur.

Í lokaúrslitunum verður keppt með 2-2-1-1-1 fyrirkomulaginu alveg eins og í áðurgengnum umferðum eftir að 2-3-2 sýstemið var lagt niður á sínum tíma - segjum að séu tvö ár síðan.  Og vá, hvað þér er skítsama um það, lol.

Nýja fyrirkomulagið þýðir að öll ferðalög verða stífari hjá leikmönnum, starfsmönnum og fjölmiðlafólki, en það skiptir ekki nokkru máli þegar komið er í lokaúrslitin því deildin er alltaf að lengja og lengja tímann á milli leikja og gott ef hann verður ekki lengdur enn meira í ár. Ætli verði ekki einhverjar þrjár til fjórar vikur á milli leikja í finals í ár.

En svona í alvöru, er sýstemið í lokaúrslitunum steingelt og handónýtt út af þessum langa tíma sem líður á milli leikja, sérstaklega af því fólk er komið upp á lag með það í t.d. undanúrslitunum að það séu leikir á hverju einasta kvöldi.

Svo þegar kemur í lokaúrslitin er svo langt á milli leikja að fólk er gjörsamlega dottið úr væbinu og stemmaranum þegar er loksins komið að næsta leik. Þetta er rosalegur galli. Ekki galli, svona eins og apaskinnsgalli (#landsbyggðin), heldur galli, eins og í gallagripur.


Að lokum er svo rétt að benda ykkur á að restin af leikjunum í úrslitakeppninni verða sýndir beint á Stöð 2 Sport. Leikur sex hjá Oklahoma og Golden State, sem er ekki nema rétt RISAVAXINN, er í beinni í nótt (laugardag) klukkan eitt og ef til oddaleiks kemur, verður hann í beinni á sama tíma á mánudagskvöldið. Lokaúrslitin verða svo öll sýnd beint eins og vant er og hérna getur þú séð áætlaða leiktíma í úrslitunum eftir því hvort liðið fer áfram úr Vesturdeildinni.

Við vonum samt að þú sért ekki að lesa þetta og pæla í því í leiðinni hvaða leikir verði sýndir og hverjir ekki, þegar þú ert með dagskrársíðuna á NBA Ísland beint fyrir framan nefið á þér. Við uppfærum þessa dagskrá alltaf eins fljótt og við getum.

Það er dálítið skondið að þó við eigum merkilega stóran lesendahóp hér á NBA Ísland, virðast ekki nema um það bil þrjú prósent af þessu ágæta fólki átta sig á því að þessi dagskrársíða skuli vera virk. Annars lendum við í því reglulega að vinir og fjölskyldumeðlimir senda okkur línu í óðagoti og spyrja hvort og hvenær einhverjir leikir séu í beinni. Kommon sko...

----------------------------------------------------------------------------------------------

* - Það stuðlar reyndar miklu betur að senda Toronto til Tenerife en Benidorm, þannig að við erum            að hugsa um að gera undantekningu í þetta skiptið. Toronto fer á Tene - önnur á Bene.

Friday, May 27, 2016

Úrvalslið NBA Ísland 2016


Ekki hélduð þið þó að við ætluðum bara að halda kjafti yfir því þegar við horfðum upp á fjölmiðlamenn í Bandaríkjunum klúðra því enn eina ferðina að kjósa rétt í lið ársins í NBA deildinni? Nei, okkur er kannski skítsama um það hvernig valið er í Stjörnuliðin (samt ekki) en við tökum valið á úrvalsliðinu og liðunum í NBA mjög alvarlega.

Grínlaust. Þar er sífellt meira í húfi fyrir leikmennina, eins og við komum inn á síðar og ekki síst er þetta kjör mjög mikilvæg heimild fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar að stúdera, að ógleymdum heiðrinum sem því fylgir að vinna sér sæti í liði ársins.Þegar stjórnendur þátta í kring um NBA deildina kynna (gjarnan fyrrum) leikmenn til sögunnar, eru þeir mjög gjarnir á að segja: "fjórfaldur stjörnuleikmaður - Johnny Johnson" en það er strangt til tekið handónýtur mælikvarði af því þið vitið hvernig þetta blessaða Stjörnuleiksval er orðið. Þar fara menn inn sem eiga þangað ekkert erindi, svona spilalega séð *hóst* Kobe *hóst*

Miklu betri mælistika á feril leikmanns, ef hann er góður leikmaður yfir höfuð, er að telja upp hve oft hann var valinn í úrvalslið NBA deildarinnar. Nú er auðvitað ekki sama hvort menn eru valdir í fyrsta eða annað úrvalslið deildarinnar, því auðvitað eiga menn ekki að telja sér það til tekna í umræðunni nema þeir geti gortað af því að hafa verið valdir í fyrsta úrvalslið oftar en einu sinni. En allt telur þetta svo sem.

Hérna eru úrvalsliðin eins og kosið var í þau og niðurstöður birtar í gær:Það sem öskrar strax á alla sem vita eitthvað er að auðvitað hefur DeAndre Jordan frá LA Clippers ekkert að gera þarna og það sem er enn sárara fyrir manninn sem á að vera þarna inni í hans stað, er að hann spilaði meira að segja helling af mínútum í miðherjastöðunni þó hann sé ekki titlaður sem miðherji, svo það hefði ekki kostað miklar hrókeringar að setja hann þarna inn. Hér erum við auðvitað að tala um Draymond Green hjá Golden State.

Reglunum um það hvernig raða má mönnum í stöður var breytt eitthvað í ár og kunnugir segja að ef farið hefði verið eftir reglunum sem voru í gildi á síðustu leiktíð, hefðu fjölmiðlamenn geta tvistað þessu þannig að Draymond hefði komist inn í fyrsta liðið í miðherjastöðunni af því hann spilaði mínútur í henni.

Okkur er hinsvegar skítsama um reglurnar. Þetta er NBA Ísland og hér er spilað eftir okkar reglum, ekki einhverju steingeldu bulli. Hérna eru það verðugir menn sem komast að og engar arbítrasjónir, engar refjar.

Amerískum fjölmiðlamönnum til varnaðar verðum við þó að taka fram að þetta er allt annað en auðvelt val, en við ætlum að láta það líta út fyrir að vera auðvelt með alhæfingum og sleggjudómum eins og okkur einum er lagið. Þannig að:

DeAndre Jordan átti alveg ljómandi góðan vetur hjá Clippers, en hann hefur ekkert að gera í fyrsta úrvalslið. Það er eins hjá okkur og hjá valnefndinni úti, það að vinna skiptir gríðarlegu máli. Þess vegna eru menn eins og Brúnar úti í kuldanum. Þú getur bara ekki ætlast til þess að komast í úrvalslið NBA deildarinnar ef liðið þitt saug holræsi í allan vetur.

Fyrir utan DeAndre erum við nokkuð sátt við fyrsta úrvalsliðið, enda var það nú dálítill nóbreiner eins og við segjum.

Curry var maður ársins, Westbrook sprengdi alla tölfræðiskala, Kawhi var ófreskja á báðum endum sem menn eru bókstaflega að verða hræddir við og LeBron James hélt Cleveland-liðinu gangandi þó hann hafi verið á krúskontról í allan vetur. LeBron á krúskontról er betri en 97-98% leikmanna NBA deildarinnar - hann er það góður - ennþá. Þú getur hengt þig upp á það.

Maðurinn sem erfiðast var að skilja eftir fyrir utan fyrsta liðið var Kevin Durant, því þó Oklahoma hafi ekki unnið nema 50+ leiki þegar það átti að vinna vel yfir 60 leiki í deildarkeppninni, þá var Durant upp á sitt besta í vetur eftir meiðslavesenið í fyrra og heill Kevin Durant á sér engan líkan í NBA deildinni. Hann er í senn óstöðvandi og ökónómískur, einn besti skorari allra tíma og toppaði sinn besta árangur í fráköstum svona til gamans.

Af því við vorum búin að færa Draymond Green upp í fyrsta liðið, færum við því LaMarcus Aldridge upp úr þriðja liðinu í það annað, í stöðuna hans Green. Aldridge fékk engan til að falla í yfirlið með tölunum sínum í vetur, en hann var lykilmaður í ógnarsterku liði San Antonio og það tryggir honum þetta sæti.

Aftur verðum við hér að taka okkur það bessaleyfi að mölbrjóta reglur og viðmið, en það er gert af góðum ásetningi. Maðurinn sem okkur fannst vanta í annað úrvalslið deildarinnar var Klay Thompson hjá Golden State. Pilturinn sá stóð sig óhemju vel í vetur og var jú lykilmaður í besta liði í sögu deildarkeppninnar. Auðvitað þarf hann að fara inn!

Vandamálið með það var að fyrir í bakvarðastöðunum voru tveir leikmenn sem foru algjörlega frábærir í allan vetur, þeir Chris Paul og Damian Lillard. Jæja, það er ekki óalgengt að NBA lið spili með þrjá bakverði og þannig verður það með annað úrvalslið deildarinnar hjá okkur. Það verður því skipað þeim Kevin Durant, LaMarcus Aldridge, Klay Thompson, Chris Paul og Damian Lillard.

Golden State er ekki tilbúið að fara í sumarfrí


Það er betra að vera á heimavelli. Þess vegna eru menn að eltast við það að reyna að vinna alla þessa leiki í snjónum og slyddunni, allar þessar löngu og dimmu vetrarnætur.

Ef fimmti leikur Golden State og Oklahoma hefði verið í Oklahoma, væri þetta einvígi búið. En meistararnir búa svo helvíti vel að vera með heimavallarréttinn í þessu einvígi (og væru reyndar með heimavallarréttinn á móti öllum liðum í sögu deildarkeppninnar eftir 73 sigra í vetur) og þegar þú ert með heimavöllinn, er jú alltaf stutt í næsta heimaleik til að "beila þig út" ef þú lendir í vandræðum. Og Warriors menn lentu sannarlega í vandræðum í þessari Oklahoma-rimmu. Meiri vandræðum en þeir hafa nokkru sinni lent í áður.

Við höfum sagt það áður og segjum það enn. Ef Golden State hefði tapað þessum leik í nótt, fimmta leiknum, hefði það nánast drullað yfir allan þann árangur sem það er búið að ná á þessari stórkostlegu leiktíð. 

Ekki misskilja okkur, við hugsum ekki eins og að því er virðist 99% af fólki sem segir að þetta tímabil sé "ónýtt drasl sem enginn man eftir" ef það endar ekki á titli. 

Við erum alls ekki sammála því. Sjötíu og þrír sigrar eru fokkíng sjötíu og þrír sigrar og það er met sem er ekki víst að við eigum eftir að sjá slegið meðan við öll lifum, þannig að ekki koma hérna inn og rífa kjaft um ónýt leiktímabil.

En....

Það er ekki sama hvernig þú dettur út úr úrslitakeppninni og það hefði einfaldlega ekki verið meisturum sæmandi að detta út 4-1 fyrir lægra skrifuðu liði sem vann næstum því tuttugu færri leiki í deildarkeppninni og átti raunar ekkert að vera komið svona langt í úrslitakeppninni yfir höfuð. 

Meistaralið með allar sínar stjörnur (nokkurn veginn) heilar og á besta aldri á ekki undir neinum kringumstæðum að láta henda sér út 4-1.

Enda gerðu Golden State-menn það ekki. Þeir létu ekki henda sér út á eigin heimavelli, andskotinn hafi það. Það hefði einfaldlega verið lélegt, alveg sama hvað Oklahoma var búið að lækka í þeim rostann í leikjunum á undan.

Nei, meistararnir fundu einhverja blöndu af örvæntingu og krafti til að vinna fimmta leikinn 120-111 í nótt og minnka þá muninn í 3-2 í einvíginu. Leikur sex verður í Oklahoma á laugardagskvöldið klukkan eitt (Stöð 2 Sport) og akkúrat núna lítur dæmið svona út fyrir meistarana, ef við tökum okkur það bessaleyfi að túlka það með myndum:*
Við erum ekki viss um að við höfum séð mann skora 31 stig eins hljóðlega og Stephen Curry gerði í þessum leik í nótt, en hann var líkari sjálfum sér en hann var í leikjunum á undan, þó hann sé alls ekki eins og hann á að sér að vera. Hann er enn að klikka á skotum sem hann setur ALLTAF ofan í. Og það er ekki bara Oklahoma-vörninni að þakka. 

Við sem erum búin að horfa á nánast hvern einasta leik með Warriors síðustu árin erum farin að þekkja þessi augnablik þegar Curry (og Thompson) taka af skarið og klára leiki. Breyta muninum úr tíu stigum í tuttugu og fimm á nokkrum augnablikum. Curry hefur tekið míní-rispur, en hann hefur aldrei tekið algjörlega yfir leikinn eins og hann gerir svo oft.

Eitt af því sem vakti athygli manna og vann nokkuð augljóslega með Golden State í þessum leik var að liðið spilaði betri vörn og hafði í fyrsta skipti svo við munum í fullu tré við Oklahoma í fráköstunum og baráttunni í teignum yfir höfuð. 

Þeir Bogut og Speights voru afar hressir í þessum leik, hvor á sinn hátt, og eins og margir voru búnir að spá, fengu meistararnir gott framlag frá varamannabekknum sínum eins og verða vill í heimaleikjum.


Það sagði sína sögu að Golden State skuli hafa náð forystunni sem tryggði því að lokum sigurinn á mínútunum sem Curry sat á varamannabekknum. Hann kom svo reyndar inná og hjálpaði til við að sigla þessu í höfn, en við munum ekki eftir að hafa séð Warriors-liðið skjóta mörg lið út af sakramentinu með Curry á bekknum.

Dauðakippur Oklahoma þarna í blárestina var svo fáránlega áhugaverður, þar sem Kevin Durant fékk galopið þriggja stiga skot sem hefði minnkað muninn í aðeins þrjú stig þegar einhverjar 30-40 sekúndur voru eftir af leiknum.

"Shiiiiiiiiiiet" sagði Durant þegar Royce Young spurði hann hvort hann hefði viljað fá þetta skot til baka.

Oklahoma átti eftir að gera helling þó það hefði minnkað muninn í þessi þrjú stig á þessum tímapunkti, það er ekki eins og Curry og félagar séu mikið í því að klikka á vítum, en það hvort liðið hefði getað unnið leikinn er aukaatriði í okkar augum.

Fyrir okkur var þessi síðasta árás Oklahoma mjög táknræn. Hún sýndi okkur - og það sem miklu meira er, Golden State - að Oklahoma ætlar ALDREI að gefast upp í þessu einvígi og að þeir séu hungraðari í að fara áfram í þessu einvígi, jafnvel hungraðari en Warriors.

Leikmenn Oklahoma trúa því að þeir séu betra liðið í þessu einvígi og í okkar huga sýndi þessi sprettur þeirra í lokin það betur en nokkuð annað í þessari rimmu.

Það voru rosalega margir búnir að afskrifa Golden State fyrir þennan leik, en við vorum ekki svo frökk eða vitlaus eða hvað á að kalla það. Eins og við sögðum hér að ofan, það gat bara ekki verið að Golden State léti fara svona með sig. Þeir settu Cypress Hill-snælduna í tækið, hækkuðu, og höfðu hugfast að:

Nú er því komin upp afar áhugaverð staða í þessu einvígi. Pressan í fimmta leiknum var öll á Golden State, enda voru leikmenn liðsins á leið á Benidorm ef þeir hefðu tapað, en núna er hún öll komin aftur yfir á Oklahoma.

Leikmenn Oklahoma eru reyndar með bullandi sjálfstraust og eru búnir að gera helmingi áhrifameiri hluti á útivelli í þessari úrslitakeppni en öll hin fimmtán liðin til samans. Útileikurinn sem þeir verða hinsvegar að vinna ef þeim mistekst að klára þetta á heimavelli á laugardaginn, er ekki venjulegur útileikur, heldur leikur sjö á útivelli. 

Og þeir eru ekkert að vinnast mikið á útivelli þessir oddaleikir eins og þið vitið öll mætavel. Við þurfum ekki að rifja þá tölfræði upp fyrir ykkur, hún er ekki falleg fyrir útiliðið og þig langar ekkert að spila leik sjö í hávaðanum og Oracle - allra síst verandi búin(n) að tapa tvisvar í röð fyrir meisturunum þegar þar er komið við sögu.

Þetta er sumsé langt frá því að vera flókið dæmi. Oklahoma VERÐUR að vinna á laugardaginn. Það er ekkert raul, taut eða millivegur með það. Það er líka augljóst í okkar huga að ef Golden State tekst á annað borð að vinna sjötta leikinn, verður það af því liðið er búið að aðlagast það vel að það verður búið að ná yfirhöndinni "á stigum" í einvíginu og ef svo er, þarf varla að spila sjöunda leikinn.

Það er því augljóst með öllu, að liðið sem vinnur leikinn á laugardaginn, vinnur þessa seríu. 

Það er bara þannig.

Og því þá ekki að gefa ykkur mynd af því hvernig þetta lítur út fyrir Oklahoma:**
Það er mammúts-verkefni fyrir Golden State að vinna sjötta leikinn í Oklahoma, þar sem þeir hafa verið rassskelltir tvisvar í röð fyrir framan blóðþyrsta og háværa áhorfendur. 

Við fullyrðum það hér og nú, að Golden State þarf að eiga besta leikinn sinn í seríunni til að vinna þann leik. Framlag eins og í nótt, dugar engan veginn. Golden State menn þurfa sem sagt að spila eins og Golden State liðið sem við erum búin að sjá hakka allt sem í vegi þess hefur orðið síðustu tvö ár.

Allt annað en það, verður ekki nóg. Þá er það bara Benidorm.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Sjötti leikurinn fyrir Warriors verður eins og einvígi við Fjallið - og eins og þið vitið eru menn ekki mikið að komast út úr því með ókramdar hauskúpur eða hausa yfirleitt.

Sjöundi leikurinn er allur auðveldari að sjá. Hver getur jú ekki stútað einu stykki dverg í einvígi - og það á heimavelli? Þetta er með öðrum orðum leikur sem á að klárast ef menn gæta þess að vera einbeittir og klókir. Dvergurinn refsar þér grimmilega og heggur af þér kynfærin ef þú sýnir honum ekki virðingu eða missir einbeitingu. Nokkuð sem meistararnir verða að hafa hugfast.

** - Sjötti leikurinn fyrir Oklahoma er gerlegur að sjá og auðveldari í viðskiptum en margir aðrir, en þó ber að gæta varúðar, því helvítið hann Sam Tulley drap jú Hvítgöngumann þó hann sé alltaf eins og hann sé bæði að míga og skíta á sig af tilvistinni einni saman. Þett´er alveg: Lífið er ekki auðvelt, bollan þín, get over it!

Sjöundi leikurinn er svo eins og þið sjáið helvíti á jörðu fyrir Oklahoma. Ráfi þeir svo langt norður fyrir vegginn að tapa leikjum fimm og sérstaklega sex á heimavelli - er það þessi ódrepandi ófreskja andskotans sem bíður þeirra í Oakland. Brrrr.

Wednesday, May 25, 2016

Oklahoma heldur áfram að koma á óvart


Bara að við hefðum nú yfirgripsmikla þekkingu á körfuknattleik, þá gætum við sagt ykkur hvernig í fjandanum stendur á því að Oklahoma City er að taka tvö af bestu liðum sem NBA deildin hefur alið af sér og SLÁTRA þeim.

Við gætum alveg farið í að apa einhverjar fabúleringar um X og O eftir einhverjum af þeim örfáu pennum sem hafa eitthvað vit á körfubolta, en það yrði bara kjánalegt. Í staðinn segjum við ykkur frá því hvað fyrir leikmannsaugu okkar bar og hvernig við upplifðum það. Hvernig við upplifðum það að sjá NBA meistarana tapa tveimur leikjum í röð í fyrsta skipti í vetur og það með tilþrifum.


Það sem við tókum fyrst eftir þegar við horfðum á þessa seríu og allir hljóta að hafa séð mjög augljóslega í leik fjögur, er að Stephen Curry er ekki hann sjálfur í þessu einvígi. Og þá erum við ekki að meina að hann sé eitthvað andlega vanstilltur eða eitthvað þannig, heldur að hann sé meiddur. Stephen Curry er augljóslega meiddur og það sjá allir sem hafa séð svo mikið sem 3-4 leiki með Golden State í vetur.

Nú ætlum við alls ekki að taka neitt af varnarleik Oklahoma, sem hefur verið alveg frábær í þessari rimmu, en það er ekki bara þessum varnarleik að kenna að Stephen Curry er svona langt frá sínu besta. Þeir Adams og Ibaka hafa náð að snúa einu og einu skoti frá honum, en það er alveg stórfurðulegt að sjá Curry allt í einu klikka á opnum þristum, stuttum skotum og sniðskotum, aftur og aftur og aftur í sama leiknum.


Við horfðum á tugi leikja með Warriors í vetur. Þetta eru skot sem hann er ekki bara að hitta vel úr - þetta eru skot sem fara ÖLL niður hjá honum. ALLTAF. Sama hvort það er með vinstri eða hægri, eftir gegnumbrot eða hraðaupphlaup, með mann í sér eða ekki. Hann bara setur svona skot og er betri í því en allir leikmenn í deildinni. Tölfræðin meira að segja bakkar það upp.

Curry fékk þannig sjö galopin skot í leiknum í nótt og hitti aðeins úr tveimur þeirra - var 0 af 5 í þriggja stiga skotum af þeirri gerðinni. Það er bara augljóst að hér er ekki allt með felldu.

Ástæðan fyrir því að við erum að velta okkur upp úr þessu er jú að Curry er tvöfaldur verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar og því má nærri geta hvort það skiptir liðið hans máli að hafa hann á fullu gasi eður ei. Og það er allt frekar ei núna.

Tölfræðin hans Curry er einhverra hluta vegna fín í þessu einvígi, þar sem hann er með 24 stig, 5 fráköst, 5 stoðsendingar og 4,3 tapaða bolta í leik og skotnýtingu upp á 42%/37% og 86%. En þegar rýnt er í tölfræðina hans fyrir lengra komna, stökkva pöddurnar upp undan steininum.

Þannig skorar Golden State ekki nema skitin 98,8 stig per 100 sóknir þegar Stephen Curry en er ljómandi fínt 110,7 þegar hann er á bekknum.

Til samanburðar er Oklahoma að skora 115,4 stig á hverjar 100 sóknir þegar Russell Westbrook er inni á vellinum, en svo gjörsamlega hrynur leikur liðsins þegar hann fer útaf - alveg niður í 81,4 stig á 100 sóknir!

Við áttum okkur á því að úrtakið er ekki stórt í þessu sambandi, en til að setja þessar tölur í samhengi má nefna að Philadelphia var með verstu sóknartölfræðina í deildarkeppninni í vetur með 96,6 stig og aðeins Sixers, Lakers og Suns skoruðu innan við 100 stig á hverjar 100 sóknir á liðinni leiktíð.

Til gamans má geta þess að Golden State var einmitt með bestu sóknina í deildarkeppninni með 112,5 stig per 100 sóknir, Oklahoma með 109,9, San Antonio með 108,4, Cleveland með 108,1 og Toronto með 107.

Hver sagði að það væri varnarleikur sem væri lykillinn að því að vinna titla? Segir það ekki eitthvað að liðin fjögur sem eru eftir í úrslitakeppninni séu í fjórum af fimm efstu sætunum í þessari tölfræði? Það er einhver fylgni þarna á milli.

Og af því þú fórst að pæla í því í framhaldinu af þessu, þá var San Antonio með (sögulega) bestu vörnina í deildarkeppninni í vetur með 96,6 stig fengin á sig per 100 sóknir. Golden State leiddi deildina í þessari tölfræði á síðustu leiktíð, en var aðeins í fimmta sæti á þessari með 100,9. Hin liðin þrjú í undanúrslitunum koma svo skemmtilega hvert á eftir öðru í sætum 10, 11 og 12 á þessum lista. Cleveland með 102,3, Toronto með 102,7 og Oklahoma með 103 slétt.


Þetta var ljómandi fínn útúrdúr til að nota til að sleppa við að reyna að útskýra hvað er að gerast í einvígi Oklahoma og Golden State - hvernig meistararnir eru allt í einu bara einu tapi frá því að láta sparka sér í sumarfrí... Það er með ólíkindum.

Það hefur sitt að segja í seríunni að Stephen Curry sé ekki alveg með sjálfum sér eins og við sögðum og að Draymond Green hefur til dæmis spilað eins og órangútan á alsælu í leikjunum í Oklahoma.

En við skulum hætta að framleiða afsakanir handa Warriors-mönnum - hvorki þeir né þjálfarinn þeirra kæra sig um svoleiðis væl. Það er eitt af svo mörgu sem er svo töff við þetta Warriors-lið. Þeir eru allir svo auðmjúkir (meira að segja Draymond Green, þó hann gnísti tönnum á meðan) og nánast léttir á því þó þeir hafi ekki aðeins tapað tveimur leikjum í röð í fyrsta skipti á leiktíðinni, heldur var þeim pakkað saman. Sjáðu bara  brosið hans Steve Kerr eftir leikinn í nótt:


Ef við ættum að útskýra yfirburði Oklahoma í þessu einvígi á sem einfaldastan máta, til dæmis eins og til þess að hanna fyrirsögn úr því, myndum við líklega hafa hana "Of mikið OKC."  Þar eigum við auðvitað við að Oklahoma er búið að taka sína uppáhalds leikaðferð og troða henni upp á Golden State hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Sóknarleikur Oklahoma er nákvæmlega eins og maðurinn sem fer fyrir honum, Russell Westbrook: gjörsamlega villtur og óútreiknanlegur þó hann sé einfaldur. Málið er bara að þegar leikmenn Oklahoma geta valtað yfir hvaða lið sem er í deildinni þegar allir leikmenn liðsins leggja sig 100% fram á báðum endum vallarins og þegar þeir grípa til besta vopnsins síns, á ekki Warriors einu sinni séns.

Þetta leynivopn er svo sem ekkert leynivopn. Oklahoma er bara íþróttafræðilega betra en önnur lið í deildinni. Þeir getta teflt fram svo illviðráðanlegum liðsuppstillingum þar sem þeir hafa yfirburði hvað varðar hraða, hæð, lengd og sprengikraft. Þetta er dálítið frumstætt, en svona er þetta bara.


Það er annars fljótlegt að renna yfir það sem er að ganga upp hjá Oklahoma og hefur tryggt ótrúlega 3-1 forystu í þessu einvígi.

Þetta byrjar allt hjá Billy Donovan þjálfara, sem er ekki búinn að troða sokk upp í ritstjórn NBA Ísland, heldur er hann búinn að troða sokkaskúffu upp í okkur með því að vera á góðri leið með að út-þjálfa þrjá af bestu þjálfurum NBA deildarinnar í fyrstu úrslitakeppninni sinni og er 7-3 á móti liðunum tveimur sem flestir spáðu því að yrðu meistarar í júní (það er að segja annað hvort Spurs eða Warriors).

Næstum því allir leikmennirnir sem koma við sögu hjá Oklahoma í þessu einvígi eru að spila frábærlega vel og sumir hverjir eru að tvöfalda það framlag sem nokkur maður eða kona þorði að treysta á frá þeim í þessu einvígi. Þetta eru menn eins og Andre Roberson og Dion Waiters og raunar Steven Adams líka. Þessir kallar hafa allir farið á kostum á sinn hátt og eiga stóran þátt í velgengni liðsins.

Oklahoma fer samt aldrei lengra en Russell Westbrook og Kevin Durant draga það og eins og staðan er í dag, eru þeir einfaldlega að spila eins og tveir bestu körfuboltamenn í heimi. Það er er óþarfi að gera upp á milli þeirra Durant (28,8 stig, 8,8 fráköst, 2 stolnir og 1,8 varin - 45% fg, 31% 3pt og 91% ft) og Westbrook (27 stig, 6,5 fráköst, 11,8 stoð, 3,8 stolnir - 42% fg, 36% 3pt og 87% ft) en af því við erum svo mikil fífl, þá gerum við það samt.

Sumir segja að Kevin Durant sé búinn að vera maður úrslitakeppninnar til þessa, en hluti þeirra sem "kjósa" Durant, gera það af því hann er ekki Russell Westbrook - af því hann fer í taugarnar á þeim. Eitt sem vinnur mikið með Durant í þessari tilgangslausu hugleiðingu er hvað drengurinn er búinn að spila frábæra vörn í einvíginu við meistarana.

Viltu til dæmis giska á hvernig tveir bestu leikmenn Oklahoma eru búnir að skjóta þegar Kevin Durant er að dekka þá? Okkur grunaði það. Stephen Curry og Draymond Green eru 1 af 19 í skotum með níu tapaða bolta í þeim tilvikum sem Durant hefur dekkað þá. Þetta er náttúrulega lygileg tölfræði.

Þrátt fyrir þessar áhrifamiklu tölur, er það samt Russell Westbrook sem í okkar bókum er búinn að spila manna best eins og dæmið með stigaskor Oklahoma þegar hann var utan/innan vallar sýndi réttilega.

Golden State á bara ekkert svar við Westbrook, ekki frekar en San Antonio. Hann er bara allt of mikill Russell Westbrook. Hann gerir haug af mistökum, missir boltann oft og tekur mörg glórulaus skot, en hann mun alltaf gera það, sama hvort hann er að spila leik á undirbúningstímabilinu eða í lokaúrslitum. Russ hefur alltaf verið, er og verður alltaf, nákvæmlega Russ.

Við tókum eftir því að Kenny Smith í Inside the NBA þættinum fræga á TNT hélt því fram í nótt að nú væri komin gríðarleg pressa á Oklahoma að vinna fimmta leikinn í einvíginu í Oakland.

Fyrirgefðu, Jet, en huh?

Fyrsti og eini pressuleikurinn í þessari seríu fór fram í nótt. Pressan var mikil á Warriors er því tölfræðin fyrir lið sem lenda undir 3-1 í seríum í úrslitakeppni er álíka góð og líkur á að vinna í lottói. Svona til gamans getum við sagt ykkur það að lið sem hafa náð 3-1 forystu í undanúrslitarimmum í sögu NBA hafa unnið 37 einvígi og tapað aðeins tveimur. Tuttugu af þessum 37 liðum kláruðu seríuna í leik fimm.

Síðasta lið til að koma til baka og vinna undanúrslitaseríu eftir að hafa lent 3-1 undir var Boston liðið hans Larry Bird sem sneri við blaðinu gegn Philadelphia 76ers árið 1981 og toppaði það svo með því að vinna Houston 4-2 í úrslitaeinvíginu. Þetta var fyrsti titillinn hans Larry Bird með Boston.

En það var líka pressa á Oklahoma fyrir leik fjögur, bara öðruvísi pressa. Oklahoma VARÐ að vinna fjórða leikinn ef það ætlaði sér að vinna þessa seríu, af því ef það hefði tapað honum, hefði staðan verið orðin 2-2, Golden State búið að stela heimavellinum aftur og ætti nú tvo heimaleiki í þriggja leikja seríu.

Sem sagt, beisikklí ómögulegt dæmi, þó Oklahoma sé búið að vera að vinna ótrúlega sannfærandi útisigra í þessari úrslitakeppni.

Nú er staðan hinsvegar orðin sú að Golden State verður að vinna þrjá leiki í röð eða fara í sumarfrí, en það sem er svo magnað við blessaða úrslitakeppnina er að lið Warriors þarf ekki annað en að vinna einn heimaleik (næsta leik) til að hlaða pressunni aftur á Oklahoma. Þá vita þeir að þeir verða að vinna leik sex á heimavelli, því líkurnar á því að vinna Golden State á útivelli í leik sjö eru... við skulum segja helvíti litlar.

Þetta er svo gaman að þetta ætti næstum því að vera bannað.LOL!