Friday, May 27, 2016

Úrvalslið NBA Ísland 2016


Ekki hélduð þið þó að við ætluðum bara að halda kjafti yfir því þegar við horfðum upp á fjölmiðlamenn í Bandaríkjunum klúðra því enn eina ferðina að kjósa rétt í lið ársins í NBA deildinni? Nei, okkur er kannski skítsama um það hvernig valið er í Stjörnuliðin (samt ekki) en við tökum valið á úrvalsliðinu og liðunum í NBA mjög alvarlega.

Grínlaust. Þar er sífellt meira í húfi fyrir leikmennina, eins og við komum inn á síðar og ekki síst er þetta kjör mjög mikilvæg heimild fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar að stúdera, að ógleymdum heiðrinum sem því fylgir að vinna sér sæti í liði ársins.Þegar stjórnendur þátta í kring um NBA deildina kynna (gjarnan fyrrum) leikmenn til sögunnar, eru þeir mjög gjarnir á að segja: "fjórfaldur stjörnuleikmaður - Johnny Johnson" en það er strangt til tekið handónýtur mælikvarði af því þið vitið hvernig þetta blessaða Stjörnuleiksval er orðið. Þar fara menn inn sem eiga þangað ekkert erindi, svona spilalega séð *hóst* Kobe *hóst*

Miklu betri mælistika á feril leikmanns, ef hann er góður leikmaður yfir höfuð, er að telja upp hve oft hann var valinn í úrvalslið NBA deildarinnar. Nú er auðvitað ekki sama hvort menn eru valdir í fyrsta eða annað úrvalslið deildarinnar, því auðvitað eiga menn ekki að telja sér það til tekna í umræðunni nema þeir geti gortað af því að hafa verið valdir í fyrsta úrvalslið oftar en einu sinni. En allt telur þetta svo sem.

Hérna eru úrvalsliðin eins og kosið var í þau og niðurstöður birtar í gær:Það sem öskrar strax á alla sem vita eitthvað er að auðvitað hefur DeAndre Jordan frá LA Clippers ekkert að gera þarna og það sem er enn sárara fyrir manninn sem á að vera þarna inni í hans stað, er að hann spilaði meira að segja helling af mínútum í miðherjastöðunni þó hann sé ekki titlaður sem miðherji, svo það hefði ekki kostað miklar hrókeringar að setja hann þarna inn. Hér erum við auðvitað að tala um Draymond Green hjá Golden State.

Reglunum um það hvernig raða má mönnum í stöður var breytt eitthvað í ár og kunnugir segja að ef farið hefði verið eftir reglunum sem voru í gildi á síðustu leiktíð, hefðu fjölmiðlamenn geta tvistað þessu þannig að Draymond hefði komist inn í fyrsta liðið í miðherjastöðunni af því hann spilaði mínútur í henni.

Okkur er hinsvegar skítsama um reglurnar. Þetta er NBA Ísland og hér er spilað eftir okkar reglum, ekki einhverju steingeldu bulli. Hérna eru það verðugir menn sem komast að og engar arbítrasjónir, engar refjar.

Amerískum fjölmiðlamönnum til varnaðar verðum við þó að taka fram að þetta er allt annað en auðvelt val, en við ætlum að láta það líta út fyrir að vera auðvelt með alhæfingum og sleggjudómum eins og okkur einum er lagið. Þannig að:

DeAndre Jordan átti alveg ljómandi góðan vetur hjá Clippers, en hann hefur ekkert að gera í fyrsta úrvalslið. Það er eins hjá okkur og hjá valnefndinni úti, það að vinna skiptir gríðarlegu máli. Þess vegna eru menn eins og Brúnar úti í kuldanum. Þú getur bara ekki ætlast til þess að komast í úrvalslið NBA deildarinnar ef liðið þitt saug holræsi í allan vetur.

Fyrir utan DeAndre erum við nokkuð sátt við fyrsta úrvalsliðið, enda var það nú dálítill nóbreiner eins og við segjum.

Curry var maður ársins, Westbrook sprengdi alla tölfræðiskala, Kawhi var ófreskja á báðum endum sem menn eru bókstaflega að verða hræddir við og LeBron James hélt Cleveland-liðinu gangandi þó hann hafi verið á krúskontról í allan vetur. LeBron á krúskontról er betri en 97-98% leikmanna NBA deildarinnar - hann er það góður - ennþá. Þú getur hengt þig upp á það.

Maðurinn sem erfiðast var að skilja eftir fyrir utan fyrsta liðið var Kevin Durant, því þó Oklahoma hafi ekki unnið nema 50+ leiki þegar það átti að vinna vel yfir 60 leiki í deildarkeppninni, þá var Durant upp á sitt besta í vetur eftir meiðslavesenið í fyrra og heill Kevin Durant á sér engan líkan í NBA deildinni. Hann er í senn óstöðvandi og ökónómískur, einn besti skorari allra tíma og toppaði sinn besta árangur í fráköstum svona til gamans.

Af því við vorum búin að færa Draymond Green upp í fyrsta liðið, færum við því LaMarcus Aldridge upp úr þriðja liðinu í það annað, í stöðuna hans Green. Aldridge fékk engan til að falla í yfirlið með tölunum sínum í vetur, en hann var lykilmaður í ógnarsterku liði San Antonio og það tryggir honum þetta sæti.

Aftur verðum við hér að taka okkur það bessaleyfi að mölbrjóta reglur og viðmið, en það er gert af góðum ásetningi. Maðurinn sem okkur fannst vanta í annað úrvalslið deildarinnar var Klay Thompson hjá Golden State. Pilturinn sá stóð sig óhemju vel í vetur og var jú lykilmaður í besta liði í sögu deildarkeppninnar. Auðvitað þarf hann að fara inn!

Vandamálið með það var að fyrir í bakvarðastöðunum voru tveir leikmenn sem foru algjörlega frábærir í allan vetur, þeir Chris Paul og Damian Lillard. Jæja, það er ekki óalgengt að NBA lið spili með þrjá bakverði og þannig verður það með annað úrvalslið deildarinnar hjá okkur. Það verður því skipað þeim Kevin Durant, LaMarcus Aldridge, Klay Thompson, Chris Paul og Damian Lillard.

Sá síðastnefndi er einstaklega vel að því kominn að hljóta þennan heiður, því hann fór fyrir Öskubuskuliði Portland sem gaf öllum gagnrýnendum og efasemdamönnum langt nef og flaug inn í úrslitakeppnina þrátt fyrir að hafa gefið alla bestu mennina sína í burtu. Dame er bara svo fáránlega mikill töffari að það hálfa væri hellingur.

Það segir sína sögu um hvað Stjörnuleikurinn er mikið bull að Damian Lillard skuli hafa setið heima og heklað á meðan Kobe Bryant, sem átti eina verstu leiktíð sem sögur fara af, fékk að baða sig í sviðsljósinu alla Stjörnuleikshelgina. Við erum samt alveg viss um að það er Lillard mikilvægara að komast í úrvalslið deildarinnar, sérstaklega í ljósi þess að hann fær nú vænan bónus á launin sín vegna "Rose-reglunnar." Meira um hana síðar...

Eins og þið sjáið erum við aftur að henda miðherja út og það út í hafsauga. Sko, þeir DeAndre Jordan og Andre Drummond áttu fína leiktíð, ekki misskilja, þeir fráköstuðu eins og andskotinn og DeAndre var flottur í vörn og merkilega seigur í sókn með 70% skotnýtinguna sína.


Þeir eru bara engan veginn á pari við hina leikmennina sem við erum búin að vera að telja upp og svo getum við bara ekki með góðri samvisku sett menn sem skjóta þrjátíu og fjörutíu fokkíng prósent úr vítum í úrvalslið deildarinnar.

Þessi vítafælni gerir báða leikmenn að massífum mínusum fyrir liðin þeirra á ögurstundu, enda henda þjálfararnir þeirra þeim oftar en ekki á bekkinn þegar í alvöruna er komið. Vilt þú hafa leikmann sem er ekki hægt að tefla fram þegar allt er í járnum í þínu úrvalsliði? Nei, ekki við heldur.

Þá er bara þriðja liðið eftir, en vitið þið hvað? Við ætlum ekki að fylla það út af þeirri einföldu ástæðu að við erum búin að telja upp leikmennina sem eiga skilið að vera í úrvalsliðum ársins og ef við færum að telja upp fleiri, væri þetta farið að þynnast verulega. Eini maðurinn sem við erum sæmilega sátt við að sjá í þriðja liðinu er Kyle Lowry. Hann fór fyrir Toronto-liðinu sem vann 56 leiki í vetur og spilaði ljómandi vel þegar hann nennti loksins að mæta í formi í æfingabúðirnar í haust sem leið.


Restin af leikmönnunum sem voru í þessum liðum eða á þröskuldinum, áttu af einni eða annari ástæðu bara ekki nógu gott tímabil til að rata hér inn.

Paul George var of óstöðugur, DaMarcus Cousins var of mikill vælandi geðsjúklingur, DeAndre Jordan og Andre Drummond skoruðu allt of lítið og hitta verr úr vítum en Stephen Curry hittir frá miðju, Isaiah Thomas var allt of mikið hjá Boston, Paul Millsap og Al Horford voru of mikið hjá Atlanta, DeMar Derozan er of leiðinlegur og Blake Griffin kýldi of marga til að fá að vera með á leiktíðinni.

Og vitið þið hvað? Ef við myndum slá þessu upp í smá kæruleysi, myndum við örugglega velja Karl-Anthony Towns í þriðja liðið okkar. Hann á það miklu frekar skilið í okkar bókum en hinir tréhestarnir. Sááá er að verða hrikalegur og á eftir að verða fastagestur á þessum lista hátt á næsta áratug ef hann sleppur við meiðsli.


Tveimur stórum nöfnum höfum við alveg sleppt eins og þið hafið kannski tekið eftir, en það eru James Harden hjá Houston og Anthony "Brúnar" Davis hjá New Orleans. Mál þeirra eru hvort um sig nokkuð forvitnileg.

Anthony Davis er búinn að vera í úrvalsliðs-umræðunni í allan vetur, því það var vitað mál að ef hann næði sér í sæti í einhverju af úrvalsliðunum, ætti hann rétt á spikfeitum bónus í samninginn sinn sem kallaður er "Rose-reglan" í höfuðið á Derrick Rose. Þetta er væn summa sem piltar á nýliðasamningum geta fengið ef þeir eru kjörnir leikmenn ársins eða komast x oft (tvisvar, minnir okkur) í úrvalslið ársins í deildinni.Í tilviki Davis er um að ræða rétt tæpar þrjúþúsund milljónir króna, svo þetta er peningur sem telur, þó hann sé auðvitað löngu orðinn fjárhagslega sjálfstæður fyrir lífstíð (ef hann er ekki hálfviti). Davis var góður í vetur, en hann var talsvert lakari en árið þar áður og var að glíma við einhvers konar meiðsli allan veturinn. Hann olli sem sagt vonbrigðum í vetur, þó ekki eins miklum og liðið hans, sem svo margir tippuðu á að yrði Öskubuska vetrarins. Í staðinn var það Bráðaniðurgangur vetrarins.

Blessaður James Harden rekur svo lestina hjá okkur og er það vel við hæfi. Það er skondið að James skuli ekki geta kastað grjóti í úrvalslið ársins þrátt fyrir að vera næstum því upp á hár með jafn góða tölfræði og árið áður þegar hann varð annar í valinu á leikmanni ársins og fékk sæti við hliðina á Stephen Curry í 1. úrvalsliði deildarinnar.

En rétt eins og með Davis, hlýtur Harden enga náð fyrir hönd hvorki amerískra penna né okkar, af því liðið hans olli svo hrikalegum vonbrigðum. Við sáum öll í gegn um Houston í vetur og sérstaklega sáum við í gegn um James Harden. Við hefðum getað sagt okkur það þegar hann byrjaði að míga utan Kardashian-viðbjóðinn að nú væri ferli hans sem topp körfuboltamanns lokið. Það stóð eins og stafur á bók. Hann mætti feitur í æfingabúðirnar í haust og eftir það var allt niður á við.

Harden var með sínar venjulegu sjúku tölur, það vantaði ekki, en hann hætti gjörsamlega að reyna í varnarleiknum og breyttist í algjört svarthol. Mórallinn í Houston liðinu var á Sacramento-stigi, sem er nóg til að ræsa út neyðarsíma og sjálfsmorðsvaktir um allan heim.Þið getið líka rétt ímyndað ykkur hvaða þátt James Harden átti í því að Kevin McHale greyið var rekinn frá Houston af því leikmennirnir hans nenntu ekki að vinna vinnuna sína. Sorglegt fyrir hetjuna hann McHale, sem var búinn að verða fyrir alveg nógu miklu mótlæti í lífinu svo þetta bull bættist ekki ofan á allt saman.

En þar hafið þið það. Þetta voru úrvalsliðin tvö og nokkar heiðurstilnefningar frá NBA Ísland fyrir veturinn 2015-16.

1. lið:

Stephen Curry
Russell Westbrook
Kawhi Leonard
LeBron James
Draymond Green

2. lið:

Damian Lillard
Chris Paul
Klay Thompson
Kevin Durant
LaMarcus Aldridge

3. Shout-out

Kyle Lowry
Karl-Anthony Towns