Monday, April 29, 2013

JaVale og Bogut skiptast á kveðjum


Fyrst var það JaVale sem bauð Bogut upp á andlitsmeðferð:



En Bogut svaraði fyrir sig í nótt með einni hrikalegri:

Tveir í röð hjá Grindavík


Grindavík er Íslandsmeistari í körfubolta annað árið í röð eftir 79-74 sigur á Stjörnunni í frábæru úrslitaeinvígi. Það er ekki hægt að komast mikið nær titlinum án þess að hirða hann, en Stjörnumenn urðu að sætta sig við að fara tómhentir heim í Garðabæinn.

Stemningin í Röstinni í kvöld hefur örugglega hjálpað heimamönnum eitthvað og ekki kom það þeim illa þegar Jarrid Frye þurfti að fara af velli hjá Stjörnunni eftir aðeins þrettán leikmínútur vegna ökklameiðsla.

Heimamenn voru með leikinn í hendi sér lengst af, en við verðum að gefa Stjörnunni stórt kúdós fyrir að ná að jafna leikinn undir lokin með gríðarlegum karakter. 

Það var eins og þeir ætluðu að stela þessu, en Grindavíkurliðið var ekkert að fara að tapa þessum leik - mætti í jötunmóð.

Það er aldrei auðvelt að lesa í svona hreina úrslitaleiki. Tölfræðinni er hent út um gluggann og oftar en ekki breytast þessir leikir í slöggfest þar sem gráðugra liðið vinnur. Það var dálítið þannig í þessum leik. 

Hrikalegt fyrir Stjörnuna að missa Frye strax í fyrri hálfleik. Svona eru örlögin stundum grimm.

Þú púlar heilan vetur til að byggja upp gott lið og ná þér í góða stöðu fyrir úrslitakeppnina, en svo kemur lykilmaður þinn niður á löppina á mótherja eftir skot, snýr sig og er úr leik.

Ömurlegt dæmi, en því miður er ekkert við þessu að gera.

Við gætum alveg farið út í eitthvað ef og hefði. Gætum farið að leita að sökudólgum og blórabögglum. En við ætlum ekki að gera það að þessu sinni. Við fengum ósk okkar uppfyllta með fimm frábærum leikjum í úrslitunum og meira getum við ekki farið fram á.

Í þessu einvígi voru tvímælalaust á ferðinni tvö bestu körfuboltalið landsins. Óhemju vel mönnuð og með mestu breiddina í deildinni. 

Nú er spurning hvernig þau ætla að gera þetta næsta vetur þegar skorið verður niður í útlendingadeildinni og íslenskir leikmenn öðlast meira vægi.

Vonandi halda bæði þessi lið í lykilmenn sína og reyna aftur að ári. Sérstaklega á þetta við um Stjörnuna. Eins og það er mikill viðbjóður að tapa oddaleik um titilinn eftir að hafa verið 2-1 yfir, geta Garðbæingarnir þó huggað sig við það að þeir skildu allt eftir úti á gólfinu í Grindavík.

Vonandi sjáum við menn eins og Justin og Jovan halda áfram í Garðabænum og vonandi verður oddaleiksblúsinn fljótur að fara af þjálfurunum Teiti og Snorra. 

Þetta er vont fyrst, eins og þeir segja. Hungrið kemur fljótt til baka og það mætti segja okkur að það verði ekki erfitt að mótívera mannskapinn á næstu leiktíð eftir svona sárt silfur í kvöld.

Við þökkum ykkur, Dómínós, liðum og leikmönnum og KKÍ fyrir frábæran vetur. Okkur er strax byrjað að hlakka til haustsins þegar boltinn byrjar að skoppa á ný.

Sunday, April 28, 2013

Chicago er við það að slá út slappa Brooklyn-menn


Chicago er komið í 3-1 lykilstöðu í einvígi sínu við Brooklyn eftir sögulegan sigur í þríframlengdum leik fjögur í Chicago í kvöld. Leikmenn Nets eru allt nema úr leik og það er þeim sjálfum að kenna.

Brooklyn leiddi 109-95 þegar skammt var eftir af leiknum, en missti allt niður um sig á lokasprettinum og því varð að framlengja í stöðunni 111-111.

Það var fyrst og fremst ólíkindatólið Nate Robinson sem tryggði Chicago framlengingu með ógurlegri hetjurispu í sókninni. Naggurinn skoraði 34 stig á 29 mínútum og án hans hefði Chicago aldrei unnið þennan leik.

"I always think I'm on fire, kind of like the old school game NBA Jam," sagði Robinson eftir leikinn og laug engu - það var engu líkara en hann væri persóna í leiknum NBA Jam þegar hann var að raða niður skotunum.

Við höfum alltaf sagt að þetta Brooklyn lið fari bara eins langt og leikstjórnandi þess og aðalstjarna Deron Williams ber það.

Williams var úti í drulla í leikjum tvö og þrjú (sem Nets tapaði auðvitað) en var talsvert grimmari í kvöld. Hann á samt meira inni og okkur er alveg sama þó hann hafi skorað 32 stig í leiknum, Kirk Hinrich gerði honum lífið leitt á báðum endum vallarins.

Chicago á skilið gott klapp fyrir frábæra frammistöðu í þessu einvígi. Það er að vinna þessa leiki á frábærum varnarleik og nógu góðum sóknarleik og er komið í 3-1 þrátt fyrir að vera án sínst besta manns og með sinn næstbesta mann haltrandi um völlinn.

Í þúsundasta skipti: Tom Thibodeau er að gera fáránlega góða hluti með Bulls og á líklega skilið að vera kjörinn þjálfari ársins (eins og reyndar sjö aðrir menn, en látum það liggja milli hluta).

Brooklyn hefur engar afsakanir. Þetta er bara lélegt hjá þeim og liðið er að drulla á sig. Gæfulegur fjandi að vera að borga öllum þessum mönnum svimandi há laun og fá þessa frammistöðu fyrir peninginn. Prokhorov getur ekki verið sáttur við þetta. Ætli hann reki ekki PJ þjálfara og ráði Rafa Benitez í staðinn.

Nei, svona án gríns. Þetta er ekki að virka hjá Nets. Deron Williams virðist ekki geta haldið sér nógu heilum til að leiða þetta lið áfram og Joe Johnson var náttúrulega á annari löppinni eins og þið sáuð í kvöld.

Þetta lið hefur náð sér ágætlega á strik inn á milli en svo dettur það niður í ruglið.

Næsti leikur í þessu einvígi verður í Brooklyn á mánudagskvöldið og það getur vel verið að Nets nái að lengja aðeins í snörunni, en þetta lið er aldrei að fara að vinna þrjá leiki í röð á móti Bulls. Það vantar alla stemningu, baráttu og anda í þetta Nets lið og ekki eykst það nú eftir þetta drull í Chicago í kvöld.

Til að súmmera: Kúdós á Bulls, en það verður einhver að hringja á Hreinsitækni til að þrífa upp eftir Nets, sem eru einfaldlega að valda vonbrigðum í vetur þrátt fyrir að hafa bætt árangur sinn mikið í deildakeppninni.

Hér fyrir neðan getur þú séð samantekt af sprengjuárás Nate Robinson á aumingja Nets í kvöld.

Thursday, April 25, 2013

Við fáum oddaleik


Úrslitin í einvígi Grindavíkur og Stjörnunnar ráðast í oddaleik um helgina. Það er draumur allra þeirra sem hlutlausir eru og vilja bara sjá sem flesta leiki. Við erum í þeim flokki.

Grindavíkurliðið var svo sannarlega ekki tilbúið til að fara í sumarfrí í kvöld og vann sanngjarnan sigur í Ásgarði 88-82 í fjórða leik liðanna. Staðan er því orðin 2-2 í einvíginu og allt undir um helgina.

Það hjálpar að hafa stigamaskínur eins og Broussard (37/12) í liðinu sínu, en sóknarfráköstin voru heimamönnum líka dýr. Munaði þar mest um frammistöðu Davíðs Inga Bustion, sem er eins og svar Íslands við Kenneth Faried. Drengurinn hirti 13 fráköst (8 í sókn) á aðeins 18 leikmínútum og varnarleikur hans og barátta eru smitandi og skemmtilegt.

Stjörnumenn voru yfirspenntir og fundu ekki taktinn í kvöld. Það er eins og það hafi farið eitthvað í þá að sjá dolluna á hliðarlínunni. Þeir munu laga þetta fyrir oddaleikinn, sem verður sögulegur. Glæsilegur sigur hjá Íslandsmeisturunum í kvöld og draumaúrslitaleikur fram undan í Grindavík á sunnudaginn.

Gerald Green var líka að hoppa yfir fólk


Ivan Johnson fékk ofmetinn miðherja í andlitið


Wednesday, April 24, 2013

Af Óða-Georg og Eric Floyd


Í öðrum leik Denver og Golden State í úrslitakeppninni í nótt sem leið, tókst Warriors að gera nokkuð sem aðeins þremur liðum tókst í allan vetur.

Að vinna í Denver.

Fáir hefðu líklega reiknað með þessum sigri Golden State, enda missti liðið einn sinn sterkasta mann (David Lee) í meiðsli í fyrsta leiknum. 

Við skulum samt halda því til haga að Denver er líka án eins síns besta manns (Danilo Gallinari) og með annan lykilmann á felgunni (Kenneth "Dýrmennið" Faried).

Helsta ástæðan fyrir sigri Golden State í öðrum leiknum var að skyttur liðsins áttu allar góðan dag. Þegar svo er, getur ekkert lið í heiminum unnið Warriors. Það er bara þannig.

Steph Curry skoraði 30 stig fyrir Warriors og gaf 13 stoðsendingar. Golden State hefur vissulega ekki verið mikið í úrslitakeppninni undanfarin ár og því var eðlilegt að það væri langt síðan leikmaður félagsins bauð upp á þessar tölur í leik í úrslitakeppni.

Það vill svo skemmtilega til að þessi leikmaður var Eric "Sleepy" Floyd og leikurinn sem um ræðir var fjórði leikur Golden State og LA Lakers í annari umferð úrslitakeppninnar árið 1987. 

Lakers komst í 3-0 og gerði sig líklegt til að sópa dæminu, en Floyd frændi ykkar var nú ekki á því og setti NBA met með því að skora 29 stig í fjórða leikhlutanum, 38 í síðari hálfleik og 51 stig alls. 

Lakersliðið var 14 stigum yfir á kafla í fjórða leikhluta en Floyd skaut Warriors yfir með því að hitta meðal annars úr tólf skotum í röð.

Met Floyd stendur enn, en gamla metið á þessum tíma var 25 stig í einum leikhluta og var reyndar sett aðeins tveimur dögum áður af Isiah Thomas.

Þessi frábæri sigur Golden State dugði þó skammt, því Lakers lokaði einvíginu í fimmta leiknum og varð síðar NBA meistari eins og margir muna.

Gaman að geta þess að þjálfari Golden State á þessum tíma var enginn annar en George Karl, sem í dag er þjálfari Denver Nuggets. 

Það fór mjög í skapið á George að Lakers næði 3-0 forystu í einvíginu og tók hann því æðiskast á leikmenn sína í klefanum.

Reiðilesturinn beindist sérstaklega að Joe Barry Carroll sem seinna fékk viðurnefnið Joe Barely Cares, sem lýsti metnaði hans nokkuð vel.

"Ég rústaði skápnum hans í búningsklefanum," sagði George Karl í samtali við Denver Post í dag. 

"Ég var æfur eftir tapið í þriðja leiknum en Carroll sagði mér að slappa af, við hefðum átt fínt ár en Lakersliðið væri bara rosalega gott. Ég missti mig og þrumaði körfuboltum í skápinn hjá honum með þeim afleiðingum að hurðin brotnaði af," sagði Karl.

Segja má að æðiskast þjálfarans hafi dugað til að kveikja smá neista í hans mönnum, þó hann hafi aðeins dugað í einn leik. Neistinn varð að minnsta kosti að báli í hausnum á Sleepy Floyd, sem komst svo um munaði í sögubækur þennan dag árið 1987.

Hérna sérðu svipmyndir úr "Sleepy Floyd-leiknum" eins og hann er kallaður.

Dwigt Howard segir að varnarleikur snúist fyrst og fremst um varin skot


Spánverjinn Marc Gasol hefur verið útnefndur varnarmaður ársins í NBA deildinni.

Við höfum ekki mikið við það að athuga, Gasol er óhemju duglegur varnarmaður og vel að þessu kominn.

Við hefðum reyndar örugglega gefið Joakim Noah okkar atkvæði ef hann hefði verið heill heilsu.

Tyson Chandler er alltaf góður en hann var ekki alveg jafn öflugur í vetur og hann var á síðustu leiktíð, enda voru meiðsli líka að stríða honum líkt og Noah.

Fyrrum varnarmaður ársins, Dwight Howard, er þó alls ekki sammála því að Gasol eigi skilið að vera varnarmaður ársins.

Hann segir nefnilega að Serge Ibaka hjá Oklahoma sé ekki aðeins varnarmaður ársins hjá sér - heldur hefði hann átt að fá nafnbótina á síðustu leiktíð líka.

Skoðum nú hvað Howard hafði að segja við fjölmiðla eftir að Gasol var kjörinn varnarmaður ársins og takið sérstaklega eftir rökunum sem hann færir fyrir máli sínu.

"Það er skondið, en það er allt í lagi," sagði Howard þegar honum var greint frá valinu. "Við eigum næsta ár fyrir höndum og ég hef nægan tíma (til að endurheimta titilinn varnarmaður ársins, væntanlega - insk.ritstjórnar). 

"Að mínu mati er það hinsvegar Serge Ibaka sem er varnarmaður ársins miðað við allt sem hann gerði í vetur og hann hefði átt að vinna þetta í ár og í fyrra. Í mínum huga hvar hann augljóslega varnarmaður ársins miðað við frammistöðu hans í vörninni, en fólk sér þetta öðruvísi. Hann leiddi deildina í vörðum skotum og það er það sem varnarleikur snýst um."

Gott að vita það, Dwight. Takk fyrir að deila þessu með okkur.

Flugleikni Harrison Barnes


Það er eitt að geta hoppað hátt - annað að hafa stjórn á hlutunum þegar upp er komið. Troðslan hans Harrison Barnes hjá Warriors yfir Anthony Randolph hjá Nuggets lætur ekki mikið yfir sér í fyrstu, en þegar þú skoðar endursýninguna, sérðu hvað hér er um magnaða flugleikni að ræða. Viðbrögð liðsfélaga hans eru líka stórkostleg.



Mögnuð tilþrif hjá stráknum, í mögnuðum leik hjá Warriors. Það fer ekki hver sem er til Denver og lúskrar á heimamönnum, en það tókst Warriors í nótt sem leið.

Monday, April 22, 2013

Fatastríðið er hafið


Ofurstjörnurnar í NBA deildinni í dag kljást ekki aðeins inni á vellinum. Síðustu tvö ár eða svo, hafa nokkrir af mest áberandi leikmönnum deildarinnar einnig háð blóðuga baráttu utan vallar, sem er tískustríðið.

Þú ert ekki maður með mönnum (sem NBA stjarna) nema vera með stílista og ganga í nýjustu tísku - og hún þarf greinilega að vera mjög ögrandi. Þeir sem ríða hvað harðast fram á þessu sviði eru einmitt tveir bestu leikmennirnir í tveimur bestu liðum heimsins í dag.

LeBron James og Dwyane Wade hjá Miami og Russell Westbrook og Kevin Durant hjá Oklahoma.

Fjórmenningar þessir fóru hamförum í fatakaupum í úrslitakeppninni í fyrra og ef marka má byrjunina hjá þeim í ár, fáum við að sjá eitthvað rosalegt frá þeim þetta vorið.

Þú þarft að vera með sjálfstraustið í botni til að ganga í fötum sem líta út fyrir að hafa verið valin á þig af Órangútan á sýrutrippi, en við fáum ekki betur séð en að þannig hafi það verið hjá James.

Og Westbrook? Hann virðist hafa ætlað að fanga sinn innri Prins, ef svo má segja. Verðum að gefa Kevin Durant það að hann mætti bara í "venjulega ljótum fötum."







Sunday, April 21, 2013

Nýtt Hlaðvarp


Tíundi og nýjasti þátturinn af Hlaðvarpi NBA Ísland er dottinn í hús. Þar kíkja þeir Baldur Beck og Gunnar Björn Helgason á spádóma sína frá því í haust, útnefna leikmann ársins og spá loks í spilin fyrir átökin í úrslitakeppninni sem hófust í gærkvöld. Þú getur nálgast þáttinn með því að fara inn á Hlaðvarpssíðuna, nú eða með því að smella hér.

Saturday, April 20, 2013

Úrslitakeppnin hefst í kvöld



"Lyftukerfi" Warriors


Flóabloggarinn Ethan Sherwood Strauss tók saman þetta stutta og skemmtilega myndbrot sem sýnir hvernig Golden State fer að því að búa til gott langskot fyrir Stephen Curry, sem setti met í þriggja stiga skotum í vetur.

Takið eftir hreyfingunni sem er á bakvörðunum og svo hvernig fjarkinn og fimman hjá Warriors (Bogut og Lee) mynda vegg á toppnum sem gerir varnarmönnum Pistons ómögulegt að ná til Curry. Hann fær fyrir vikið opinn þrist, sem fyrir hann er eins og sniðskot fyrir venjulegt fólk.



Þetta er meðal þess sem George Karl og aðstoðarmenn hans hjá Denver liggja nú yfir, en meiðsli lykilmanna Nuggets gera það að verkum að margir spá því að Golden State muni jafnvel stela einvíginu.

Það er helst vegna þess að Danilo Gallinari er dottinn út hjá Denver og þeir Ty Lawson og Kenneth Faried eru ekki heilir heilsu. Við spyrjum auðvitað að leikslokum, en það er ljóst að enginn á eftir að sofna yfir leikjum þessara liða í úrslitakeppninni. Þetta verður klíník í sóknarleik ef að líkum lætur.


Úrslitakeppnin hefst í kvöld



Sögulegt San Antonio


Gregg Popovich hjá San Antonio er almennt álitinn besti þjálfarinn í NBA deildinni. Þegar honum er hrósað fyrir að vera góður þjálfari, er hann alltaf fljótur að vísa því á bug og segja að velgengni Spurs sé leikmönnunum að þakka en ekki honum - hann sé fyrst og fremst heppinn að hafa fengið leikmenn eins og Tim Duncan upp í hendurnar.

Pop þarf ekkert að vera með þessa stæla, hann er frábær þjálfari og hann veit það, en hitt er rétt að það skiptir engu máli hvað þú ert góður þjálfari - þú nærð litlum árangri ef þú ert ekki með góða leikmenn.

Þá komum við að kveikjunni að þessari hugleiðingu:

Gerið þið ykkur einhverja grein fyrir því hvað San Antonio er búið að vera sögulega frábært lið síðan Tim Duncan kom inn í NBA deildina um miðjan tíunda áratuginn?

Enn eitt árið var San Antonio að ljúka deildakeppninni með tæplega 60 sigra (58) og er það hvorki meira né minna en fjórtánda árið í röð sem liðið vinnur 50 leiki eða meira. Þetta er NBA met.

Þegar betur er að gáð, er Spurs reyndar tæknilega búið að vinna 50+ leiki sextán ár í röð, því í verkbanninu um aldamótin voru auðvitað bara spilaðir 50 leikir.

Það ár var San Antonio með einn besta árangurinn í sögu félagsins (74% vinningshlutfall), svo það er enginn glæpur að áætla að Spurs hefði klárað 50 sigra með vinstri það árið.

Árið áður en Tim Duncan kom inn í deildina var San Antonio ömurlegt og tankaði duglega meðan stórstjarnan David Robinson var í meiðslum alla leiktíðina. Þetta er eina ljóta tímabilið í sögu félagsins allt aftur til níunda áratugarins.

Það er því þannig að ef við uppreiknum verkbannsárið um aldamótin, hefur San Antonio unnið 50+ leiki nítján sinnum á síðustu tuttugu árum, sem er með algjörum ólíkindum.

Auðvitað á Gregg Popovich sinn þátt í þessari velgengni San Antonio. Það var ekki lítið umdeild og kjarkmikil ákvörðun hjá honum á sínum tíma að láta það verða sitt síðasta verk í skrifstofudjobbinu sínu hjá Spurs að reka þjálfarann (sem var búinn að ná flottum árangri í deildakeppninni) og ráða sjálfan sig í staðinn.

Þá kom Tim Duncan til skjalanna og síðan hefur San Antonio ekki gert annað en vinna 50+ sigra á tímabili og safna meistaratitlum.

Eins og við höfum getið um annað slagið í vetur, er Tim Duncan að eiga sögulegt ár hjá Spurs. Flestir voru búnir að afskrifa gamla manninn eftir að tölfræðin hans fór að dala hressilega ár eftir ár, en í ár er engu líkara en hann hafi sest að sumbli í æskubrunninum með Eddie Murphy.

Það er alveg sama hvað meiðsli leika Spurs grátt og alveg sama hvað Popovich sparar mínútur og hvílir stjörnurnar sínar - alltaf skal sýstemið ganga upp og Spurs vinna fullt af leikjum.

Pop er sennilega besti þjálfarinn í NBA og menn eins og Tony Parker og Manu Ginobili eru engir skussar, en San Antonio væri ekki búið að vera stórveldi í tvo áratugi ef Tim Duncan hefði ekki notið við.

Jú, hann Duncan er ekki sexí, hann á auðvelt með að fara í taugarnar á fólki, hann gefur ekki litrík viðtöl og er sannarlega enginn skrautfugl á vellinum heldur.

Hann veitir afar sjaldan persónuleg viðtöl og í rauninni hefur enginn hugmynd um hvaða mann hann hefur að geyma - fólk veit bara að hann er góður drengur, stórkostlegur körfuboltamaður og agaður leiðtogi eins besta liðs allra tíma.

Þannig að...

Ef þú hefur ekki gefið þér tíma til að staldra við og gefa því gaum að Tim Duncan er einn besti körfuboltamaður allra tíma, er heldur betur kominn tími á það.

Og ekkert væl um að San Antonio sé leiðinlegt lið. Þú hefur ekki hundsvit á körfubolta ef þú heldur slíku fram.

San Antonio kann að hafa verið dálítið leiðinlegt lið þegar það var að vinna titlana forðum, en á allra síðustu árum hefur Popovich gjörbylt spilamennsku liðsins og breytt því úr Land Rover í Lamborghini.
Allt í einu varð San Antonio eitt besta sóknarlið deildarinnar.

Þessi leikaðferð dugar alltaf í 50+ sigra í deildakeppninni, en undanfarin ár hefur vantað herslumuninn í úrslitakeppninni.

Liðið var mjög nálægt því að gera góða hluti í fyrra þegar það vann fyrstu 10 leikina sína í röð í úrslitakeppninni áður en það steinlá einhvern veginn fyrir Oklahoma (eftir að hafa komist 2-0 yfir).

Vonir Spursara í vor eru hátt spenntar, því liðið hefur verið miklu betra í varnarleiknum í vetur en það var í fyrra og eflaust má skrifa hluta af því á endurholdgun Tim Duncan.

Heilsufar lykilmanna er þó alltaf stóra spurningamerkið og sumir ganga svo langt að ætla Lakers að slá San Antonio út í fyrstu umferð út af meiðslavandræðum Tony Parker, Manu Ginobilli og Boris Diaw svo einhverjir séu nefndir.

Við ætlum nú ekki að ganga svo langt, en við verðum að veðja á móti Spurs í úrslitakeppninni af því við afskrifuðum liðið sem meistarakandídat fyrir svo löngu síðan. Þýðir ekkert að ætla að taka einhvern Reykhás á það.

Það fer samt enginn gráta á skrifstofu NBA Ísland ef San Antonio gerir góða hluti í úrslitakeppninni. Við berum óhemju virðingu fyrir þessum snillingum og þú ættir að gera það líka.

Stjarnan blés og jafnaði


Óskaplega lítið að segja um annan leik Stjörnunnar og Grindavíkur í lokaúrslitaeinvígi Úrvalsdeildarinnar í kvöld. Hann var eign Garðbæinga frá fyrstu mínútu og Grindavíkurliðið gjörsamlega átti aldrei möguleika. Ætli þetta sé ekki Stjörnuliðið sem spámenn sögðu að færi alla leið.

Þessi 93-56 stórsigur heimamanna í kvöld var þeim auðvitað alveg nauðsynlegur, en við áttum reyndar alls ekki von á að hann yrði svona rosalega afgerandi. Grindavíkurliðið hefði komið sér í lúxusstöðu með sigri, en það hefði ekki jafnað þennan leik þó liðin hefðu spilað út júlí.

Þjálfarar beggja liða gerðu lítið úr þeim mikla stigamun sem var á liðunum bæði í fyrsta og öðrum leiknum, en það er alveg klárt að tapið stóra í Grindavík kveikti vel í Garðbæingum.

Nú er bara spurning hvort þessi stóri skellur sem gulir fengu í Ásgarði í kvöld verður til að kveikja í þeim eða hreinlega draga úr þeim tennurnar. Stjarnan var þó inni í fyrsta leiknum en Grindavík sá aldrei til sólar í kvöld.

Stjarnan er því yfir á stigum í bardaganum en sem betur fer fyrir jafnvægið í einvíginu (við viljum að sjálfssögðu fá þetta í fimm leiki), er Grindavík með heimavallarréttinn og getur náð forystu á ný með sigri í Röstinni sinni á mánudagskvöldið.

Annar leikurinn í kvöld var kannski ójafn, en mikið óskaplega var hann samt skemmtilegur lengst af. Við höfum ákveðið að leggja fram tillögu á næsta ársþingi KKÍ að vinna þurfi fjóra leiki í lokaúrslitunum í stað þriggja - þetta er bara svo gaman.

Nokkrar myndir:















Thursday, April 18, 2013

Svona verður 1. umferð úrslitakeppni NBA



Grindavík 1 - Stjarnan 0




Eins og þið vitið, höfum við allt of lítinn tíma til að skrifa um úrslitaeinvígi Grindavíkur og Stjörnunnar. En við gerum það auðvitað samt.

Grindvíkingar sýndu það svart á hvítu í kvöld hvað það var barnalegt að ætlast til þess að Stjarnan færi eitthvað að valta yfir þá í úrslitaeinvíginu. Af hverju ætti Stjarnan, þó liðið sé óhemju vel mannað, endilega að valta yfir Íslands- og deildarmeistarana?

Það var pólitík og gremja sem olli því að fólk lét svona út úr sér um daginn. Allt í einu var $tjarnan orðið dýrasta lið í heimi og átti bara að valta yfir allt og alla. Hver er munurinn á liði Stjörnunnar í ár og t.d. Stjörnunnar í fyrra?  Ekki svo mikill, ef þú spyrð okkur, en þá var enginn að tala um að það væri skandall ef Stjarnan tapaði fyrir hinum eða þessum.

En að leiknum. Mikið hefur verið talað um að Grindavíkurliðið hafi skotið Stjörnuna í kaf - og þá með þriggja stiga skotum. Það er bara ekki rétt. Grindavíkurliðið skoraði fjórum stigum meira úr þristum í leiknum og hittni liðanna fyrir utan var svipuð - og ekkert sérstök.

Grindvíkingar fengu hinsvegar meira út úr sóknaraðgerðum sínum nær körfunni og þar lá helst munurinn á liðunum. Stjarnan hafði betur í fráköstunum en Grindavík náði sér í fleiri stig á línunni.

Stóri munurinn á liðunum að okkar mati var sá að leikurinn leystist upp í Helter Skelter í síðari hálfleik og það var bara eitthvað sem Stjarnan var ekki búið að reikna með.

Vissulega kom það illa við Grindvíkinga að missa eina miðherjann sinn og leikstjórnanda/skorunarmaskínu í villuvandræði þegar korter var eftir af leiknum. Auðvitað bjuggust þá flestir við því að Stjarnan myndi ganga á lagið.

Það gekk þó ekki eftir, enda fer það Grindvíkingum ágætlega að keyra á minnibolta og skjóta mikið fyrir utan - ekki síst þegar bæði aðal- og aukaleikarar leggja í púkkið.

Það sem gerðist eftir að Grindavík missti lykilmennina í villuvandræði var auðvitað eitthvað sem Stjarnan hefur væntanlega ekki reiknað með. Leikurinn breyttist í hálfgerðan indíánaleik og það hentaði heimamönnum, en Stjarnan lenti bara út af sporinu.

Þetta er einföldun, en svona kom þetta okkur fyrir sjónir.

Það skemmdi ekkert fyrir Grindvíkingum að það rann æði á Broussard og enginn réði neitt við hann.  Liðið hefði líklega aldrei unnið ef hann hefði ekki náð að framleiða stig á færibandi einn síns liðs, en það var ekki bara þessi fjölhæfi skorari sem lokaði þessu fyrir Grindavík.

Þeir Jóhann Árni og Ólafssynir sýndu svo sannarlega að þeir eru ekkert hræddir við Garðbæinga og fóru mikinn fyrir heimamenn. Það var frábært að horfa á þessa léttklikkuðu stuðkarla rífa Grindavíkurliðið áfram - Íslandsmeistararnir eiga svo sannarlega góða möguleika í einvíginu ef þessir þrír spila svona áfram.

Þetta var ekki kvöld Stjörnuliðsins, en hey, skítur skeður, eins og þeir segja.

Sem betur fer eru aðeins tveir sólarhringar í leik tvö í Ásgarði og þar verða heimamenn miklu beittari en þeir voru í kvöld.

Eitt atriði verðum við þó að minnast á.

Hversu góður er Jarrid Frye?

Þessi gaur fer aldrei upp úr þriðja/fjórða gír og getur gert nákvæmlega hvað sem hann vill á vellinum. Hann á reyndar aðeins til að koma sér í vandræði með boltameðferð sinni (gleymir að hann sé góðan leikstjórnanda með sér í liðinu) en þar fyrir utan er þessi gutti með ógnvekjandi sóknarpakka.

Virðist geta skorað hvar sem er á vellinum, frákastar vel og finnur félaga sína galopna hvað eftir annað eftir að hafa dregið til sín mikla athygli. Okkur er alveg sama hver er að dekka Frye, hann getur gert hvað sem honum sýnist og þarf bara að vanda sig aðeins. Það á enginn séns í hann ef hann bara finnur rétta taktinn -- hvenær hann á að láta Justin Shouse um þetta og hvenær hann á að fara sjálfur. Svakalegur spilari.

Leikur tvö í þessu einvígi er á föstudaginn og þið vitið að hann verður epískur.

Við erum þegar lögð af stað í Ásgarðinn.

Sunday, April 14, 2013

Nýtt Hlaðvarp















Í níunda þætti Hlaðvarps NBA Ísland ræðir Baldur Beck við Friðrik Inga Rúnarsson framkvæmdastjóra Körfuknattleikssambandsins.

Friðrik fer ofan í saumana á úrslitaeinvígi Grindavíkur og Stjörnunnar í Domino´s deildinni og spáir í spilin fyrir úrslitakeppnina í NBA sem hefst eftir nokkra daga.

Þá ræða þeir félagar hvað tekur við hjá Kobe Bryant eftir að hann sleit hásin og hvort sé kominn tími til að setja LeBron James í hóp með bestu leikmönnum allra tíma.

Hlustaðu á þáttinn með því að fara inn á Hlaðvarpssíðuna, nú eða með því að smella hér.

Heimskra manna ráð


Hérna fyrir neðan sérðu glæsileg tilþrif frá stórstjörnum Oklahoma City. Fyrst kemur varið skot frá Russell Westbrook og svo kemur Kevin Durant og treður boltanum á hinum enda vallarins. Flottir taktar, ekki satt?



Ekki að mati aganefndar NBA deildarinnar.

Durant missti sig aðeins í fagninu eftir troðsluna sína og renndi puttanum eftir framanverðum hálsinum. Væntanlega til að gefa til kynna að þessum leik myndi Oklahoma ekki tapa ef hann fengi einhverju ráðið. Við höfum oft séð menn gera þetta, skemmst er að minnast bakbrots-látbragðsins frá LeBron James á dögunum.

Haldið þið að Kevin Durant sé með þessu látbragði sínu að leggja til að unga fólkið hlaupi út á götu og skeri næsta mann á háls? Nei, ekki við heldur. Haldið þið að unga fólkið muni hlaupa út á götu og skera einhvern á háls eftir að hafa séð þetta? Ekki við heldur.

Aganefndin ákvað samt að sekta hann um þrjár milljónir króna fyrir þetta.

Það hefði enginn tekið eftir þessu látbragði hjá Durant ef aganefndin hefði ekki farið að blása það upp með þessum fáránlegu afskiptum sínum.

Pólitíski rétttrúnaðurinn, vænisýkin og forræðishyggjan í þessari deild er gjörsamlega ólíðandi. Hún endurspeglar því miður margt af því sem er að í bandarísku samfélagi, sem gefur sig út fyrir að vera æðislegt en er á svo margan hátt æpandi geðveikt.

Nú er bara að bíða eftir því að höfðað verði mál á hendur NBA Ísland fyrir þessi skrif.

Pottþétt.

Djöfulsins vitleysingar.

Saturday, April 13, 2013

Kobe Bryant úr leik


Allt í einu skiptir kapphlaupið um 8. sætið óskaplega litlu máli fyrir Los Angeles Lakers.

Kobe Bryant meiddist undir lokin í leik Lakers og Warriors í nótt sem leið og óttast er að hann sé með slitna hásin.

Þetta eru erfið meiðsli fyrir hvaða körfuboltamann sem er, ekki síst 34 ára gamlan mann sem spilað hefur óguðlegan mínútufjölda á löngum ferli.

Við skulum orða þetta þannig að ef um einhvern annan en Kobe Bryant væri að ræða, myndum við líklega segja að tíma hans á toppnum væri lokið.

Bryant var skiljanlega í molum í viðtali eftir leikinn. Elskaðu hann eða hataðu, það er ekki hægt annað en að finna til með þessum mikla stríðsmanni.



Við látum það liggja milli hluta hvort Lakers kemst í úrslitakeppnina eða ekki. Það skiptir bara ekki rosalega miklu máli úr þessu. Líklega verða forráða- og stuðningsmenn Lakers þeirri stundu fegnastir þegar þetta bölvaða tímabil verður flautað af. Það er með ólíkindum hvað ólukkan hefur elt þetta lið í vetur.

Við erum búin að fá gjörsamlega upp í kok af öllum þessum meiðslum á stjörnunum í NBA og líka hér heima á klakanum. Meiðsli eru versti óvinur skemmtilegasta leiks jarðar, en við verðum að halda ótrauð áfram engu að síður.

Þið getið hengt ykkur upp á að Kobe Bryant gerir það.

Viðbót: Hér fyrir neðan er hugleiðing sem Bryant skrifaði inn á Facebook eftir áfallið í gær.

Stjarnan og Grindavík leika til úrslita


Það verða tvö bestu körfuboltalið landsins sem mætast í úrslitaeinvígi úrvalsdeildarinnar, allir ættu að vera sammála um það. Stjarnan tryggði sér í kvöld stefnumót við Grindavík í lokaúrslitum með því að vinna Snæfell þriðja sinni og loka einvíginu í fjórum leikjum.

Það er rétt sem Ingi Þór þjálfari Snæfells benti á í einhverju viðtalinu í kvöld, meiðsli hafa sannarlega sett svip á úrslitakeppnina í vor. Þannig voru silfurdrengirnir í Þór ekki með fullskipað lið, Keflavík missir sinn besta mann í meiðsli og sömu sögu er að segja af Snæfelli.

Það er reyndar stórfurðulegt hvað Hólmarar eru óheppnir með þessa leikstjórnendur sína þegar vorar. Flestir muna eflaust eftir því þegar Jeb Ivey hljóp í skarðið hjá þeim eins og frægt varð þegar Snæfell landaði Íslandsmeistaratitlinum á sínum tíma.

Ekkert slíkt var uppi á teningnum að þessu sinni. Snæfell beit á jaxlinn og gerði sitt besta þrátt fyrir að hafa misst sinn besta leikmann.

Það var aðdáunarvert að sjá Pálma Frey stökkva inn í leikstjórnandastöðuna og leysa hana prýðilega. Hann hefur oft spilað þessa stöðu, en ekki mikið í vetur.

Vel má vera að lið Stjörnunnar sé einfaldlega sterkara en Snæfellsliðið. Breiddin er að minnsta kosti talsvert meiri í Garðabæjarliðinu, en þetta einvígi hefði alveg örugglega verið jafnara ef Jay Threatt hefði notið við allan tímann.

En það þýðir víst ekki að velta sér upp úr því. Svona er þetta stundum. Súrt að vinna alla þessa vinnu yfir veturinn og láta svo kippa undan sér fótunum í úrslitakeppninni. Hábölvað.

Eins og við komum inn á áðan, er óhætt að álykta að það séu tvö bestu liðin á landinu sem leika munu til úrslita - sömu lið og mættust í úrslitaleik bikarkeppninnar í vetur.

Stjarnan hafði betur í bikarnum eins og flestir muna og þorri spámanna telur að um endurtekið efni verði að ræða í lokaúrslitaeinvíginu sem hefst í næstu viku.

Kannski er eðlilegt að spá Garðbæingum sigri, en okkur þykir fólk ekki sýna Íslandsmeisturunum mikla virðingu þegar það segir að Stjarnan muni rúlla í gegn um þetta. Heldur fólk að Grindavík sé allt í einu með eitthvað lélegt lið?

Sprengja sprakk á höfuðborgarsvæðinu í vikunni.

Henni var miðað á lið Stjörnunnar. Allt í einu byrjuðu menn úr öllum áttum að senda pillur og kyndingar að Garðbæingum. Það á að vera "skandall" ef þetta "dýrasta lið Íslandssögunnar" landar ekki titlinum...

Þetta er dálítið einkennilegt.

Það er reyndar ekki langt síðan við skrifuðum pistil um að dagar Stjörnunnar sem krúttlegs Spútnikliðs væru taldir. Þetta byggðum við á þeirri staðreynd að liðið er orðið svo vel mannað að hið eina rökrétta í stöðunni væri að stefna á meistaratitilinn.

Stjarnan er búin að vinna bikarkeppnina í tvígang og stutt er síðan liðið komst í lokaúrslitin. Þá var liðið undirhundur eins og sagt er.

Nú er allt annað hljóð í kútnum. Núna á Stjarnan að verða Íslandsmeistari - allt annað er bara vonbrigði. Það er bara þannig.

Með þessu erum við alls ekki að gera lítið úr ríkjandi Íslandsmeisturum, sem eru með frábært lið. Við erum aðeins að benda á að kröfurnar eru að aukast mikið í Garðabæ.

Það er ekki langt síðan Stjarnan sleit barnskónum sem körfuboltafélag í efstu deild, en mikið hefur verið lagt í þetta síðan og nú virðist liðið komið til að vera í toppbaráttunni. Þetta hefur vakið upp nokkuð sterk viðbrögð hjá fólki og orð hafa verið látin falla sem bera vott um öfund í garð Stjörnunnar. Það er kannski eðlilegt.

En hvað er að því að fá nýtt stórveldi inn í körfuboltann á Íslandi? Nákvæmlega ekki neitt.

Helsti munurinn á Stjörnuliði undanfarinna ára og liðinu í dag, er að breiddin er meiri núna. Menn eru búnir að spila mikið saman og eru farnir að gjörþekkja hver annan, en mikilvægasta atriðið að okkar mati er að Stjarnan er loksins komin með almennilegan Neyðarkarl í Jarrid Frye.


Frye þessi er alveg frábær leikmaður og við höfum það eiginlega á tilfinningunni að hann sé bara að dúlla sér í þriðja og fjórða gír enn sem komið er. Gaurinn gerði nákvæmlega það sem honum sýndist í rimmunni við Snæfell og á inni.

Það hefur verið hlutverk Justin Shouse að vera Neyðarkarl hjá Stjörnunni undanfarin ár og oftast hefur hann staðið undir því. Hann hefur þó ekki alveg haft það sem til þurfti til að koma liðinu alla leið að titlinum og það er líklega ósanngjarnt að ætlast til þess af honum nú þegar hann er að komast af léttasta skeiði.

Shouse er samt enn stórkostlegur leikmaður eins og hann sýndi í kvöld þegar hann jarðaði Snæfell endanlega með þriggja stiga sýningu sinni í síðari hálfleik.

Það kemur hinsvegar miklu meira út úr honum nú þegar hann er kominn með Neyðarkarl með sér sem dregur til sín mikla athygli. Þá verður Shouse helmingi hættulegri og getur meira einbeitt sér að því að spila upp á alla skorarana í kring um sig - nóg er af þeim.

Einvígi Grindavíkur og Stjörnunnar verður hreinræktuð hágæðaskemmtun, það er óhætt að færa það strax til bókar. Það verður svo gaman að sjá hvernig Stjörnunni tekst til að berjast við tröllin Sigurð og Pettinella í fráköstunum og hvernig þeir ætla að fara að því að stöðva erlendu leikmennina, sem eru báðir óhemju hættulegir sóknarmenn eins og þeir sýndu gegn KR.

Grindvíkinga bíður líka hið nánast ómögulega verkefni að halda aftur af þeim Shouse og Frye, en það ætti að vera helsti lykillinn að því að leggja Stjörnuna - auk þess að vinna baráttuna um fráköstin.

Þetta verður hrikalega gaman.

Að lokum eru hér nokkrar myndir úr Ásgarði í kvöld. Okkur þykir bráðnauðsynlegt að taka fram fyrir þá sem sáu ekki leikinn, að flotskotið sem Dagur Kár Jónsson er að taka á einni af myndunum rataði rétta leið. Flott innkoma hjá honum í kvöld.