Wednesday, November 26, 2014

NBA deildin í Excel(.is)


Vinir okkar á excel.is eru alveg jafn hrifnir af körfubolta og við. Þeir hafa líka gaman að tölfræði, en á meðan skilningur okkar á tölfræði jafngildir þekkingu átta ára barna, eru fagmennirnir á excel.is vísindamenn þegar kemur að þessari dásamlegu hliðargrein körfuboltans.

Forsvarsmenn excel.is eru ekki aðeins fagmenn, heldur eru þeir til í að deila þekkingu sinni með okkur hinum, leikmönnunum. Að þessu sinni tóku þeir sig til og vippuðu öllum leikmönnum í NBA deildinni og allri þeirra tölfræði inn í excel, svo þú getir nú leikið þér að reikna út nánast hvað sem þér dettur í hug að biðja forritið um að finna. Apparatið uppfærir sig svo sjálft.

Við gætum haldið áfram að dásama þessa uppfinningu, en þá færum við mjög fljótlega að fabúlera um eitthvað sem við höfum minna en ekkert vit á. Það er miklu betra að leyfa sérfræðingunum sjálfum að útskýra hvernig þetta virkar.

Saturday, November 22, 2014

Klassíker: Spoelstra tæpur


Eitt bitastæðasta málið hjá NBA-pennum vestanhafs um þessar mundir er að sjálfssögðu stjörnum hlaðið Cleveland-liðið og brokkgengi þess í haust. Þetta er nákvæmlega í takt við heitasta fjölmiðlamálið í Bandaríkjunum fyrir fjórum árum, en þá var það hikstið á Miami sem var efst á baugi. Fjölmiðlar slefuðu þegar þeir slógu því upp að þetta LeBron-Wade-Bosh-dæmi þarna í Miami ætti aldrei eftir að ganga upp.

Það átti nú samt eftir að koma á daginn að Miami-dæmið gekk upp. Liðið fór í lokaúrslitin öll fjögur LeBron-árin og landaði titlum á tveimur þeirra. Ljómandi fínn árangur auðvitað. En eins og þið munið líklega flest, tók það Miami nokkurn tíma að komast í gang. Liðið spilaði 50% bolta fyrstu c.a. 20 leikina og það leiddist fólkinu ekki sem fann LeBron James allt til foráttu eftir Ákvörðunina örlagaríku.

Ástæðan fyrir því að Miami var svona lengi í gang á sínum tíma var meðal annars sú að liðið var mjög vandræðalegt í sóknarleiknum. 
Og það kom til vegna þess að Erik Spoelstra þjálfari lagði eingöngu áherslu á varnarleikinn allt frá æfingabúðum og fram í deildakeppni. 

Það skilaði sér strax og þó liðið hafi hikstað í sóknarleiknum, var það með nógu hæfileikaríka leikmenn til að vinna það upp og þeir fundu svo fljótlega taktinn þeim megin vallarsins. 

Ef þið spyrjið okkur, er það alltaf varnarleikurinn sem við hugsum um þegar við rifjum upp hvað það var sem gerði þetta Miami lið svona sterkt þegar það var á toppnum. Og þannig er það líka oftast með meistaralið.

Cleveland (5-6) hefur ekki byrjað vel í haust og það minnti okkur óneitanlega á það hvað fjölmiðlar - og við - voru að hugsa haustið 2010 þegar allt virtist vera í rugli hjá Miami. 

Þá var pressan auðvitað fljót að heimta höfuð Erik Spoelstra á bakka og sögusagnir uppi um að Pat Riley ætti eftir að reka hann og taka við sjálfur, rétt eins og hann gerði með Stan Van Gundy sex árum áður.

Þetta gekk blessunarlega ekki eftir og kannski eru einhver ykkar búin að gleyma því hvað Spo gerði vel í að sanna sig og halda svo utan um þetta lið í fjögur ár undir daglegri fjölmiðlapressu sem varla hafði sést áður. Sagan segir meira að segja að LeBron James hafi á þessum tíma farið á fund með Pat Riley og heimtað að Spoelstra yrði látinn fara, en Riley sagði honum að setja kork í´ann.

En svona sá grafíkdeildin á NBA Ísland fyrir sér ástandið hjá Miami fyrir fjórum árum:
Thursday, November 20, 2014

Hetjan og skúrkurinn Vince Carter


Snareðlurnar frá Toronto eiga ekki tvítugsafmæli fyrr en eftir eitt ár, en félagið er strax byrjað að fagna því með fortíðarblæ. Í nótt tóku forráðamenn Raptors loksins þá ákvörðun að heiðra fyrrum leikmann sinn Vince Carter með smá myndbandssýningu á risaskjánum.

Margir voru búnir að bíða ansi lengi eftir þessu augnabliki. Sumir til að fá tækifæri til að klappa honum lof í lófa, en aðrir til að baula á hann. Vince Carter lék með Toronto frá árinu 1998 til ársins 2004, þegar honum var skipt til New Jersey Nets fyrir dauða hænu, ryðgað stjörnuskrúfjárn og hálfan pakka af bláum Gajol - sem er ekki einu sinni góður eins og þið vitið.

Sumir segja að fyrsta höggið í þessu drama hafi komið frá félaginu, að það hafi verið klúbburinn sem klúðraði þessu öllu saman og flæmdi Vince í burtu. Við trúum því mætavel að félagið hafi klúðrað fullt af hlutum - það er staðreynd - en það er ekki hægt að kenna því um brotthvarf Vince Carter.

Carter nefnilega hætti bara!

Wednesday, November 19, 2014

Áratugur frá uppþotinu í Detroit


Í dag eru liðin tíu ár frá Hallarbyltingunni í Detroit (Malice at the Palace), þegar slagsmál leikmanna Pistons og Pacers inni á vellinum bárust alla leið upp í áhorfendastæði með skelfilegum afleiðingum.

Indiana-mennirnir sem áttu mestan þátt í látunum (Ben Wallace hjá Detroit átti líka stóran þátt í að kveikja eldinn) voru Ron Artest, Stephen Jackson og Jermaine O´Neal og fengu þeir 86, 30 og 15 leikja bönn fyrir þátttöku sína í uppþotinu.

Þessi uppákoma er svartur blettur á nútímasögu NBA deildarinnar og í kjölfarið fylgdu ýmsar reglubreytingar sem ætlað var að hreinsa ímynd deildarinnar.

Alvaldur deildarinnar David Stern gekk hart fram í málinu og setti meira að segja reglur um klæðaburð leikmanna.

Það sorglegasta við þetta allt saman er samt að Indiana-liðið, sem var ógnarsterkt og efnilegt á þessum tíma, flaut þarna inn í hringiðu ruglanda og óreiðu sem tók mörg ár að laga.

Við segjum það sama í dag og við sögðum þá. Þó Mike Breen segi í lýsingunni sinni að honum lítist ekkert á geðveikisglampann í augunum á Ron Artest, er Ron-Ron langt frá því að gera geðveikasti maðurinn í prógramminu. Það er tvímælalaust Stephen Jackson sem er geðsjúklingur dagsins þarna eins og þið sjáið glöggt á upptökunni.

Við skulum vona að sé langt í næstu uppákomu af þessu tagi í NBA deildinni.Vaxtarkippur Brúnars og fyrirbærafræðin


Flestir sem á annað borð vita hver Brúnar er, þekkja söguna á bak við skyndilegan vaxtarkipp drengsins á unglings- og fullorðinsárunum.

Anthony Davis er með ljómandi góða boltameðferð af stórum manni að vera, en það er að hluta til vegna þess að hann gegndi stöðu bakvarðar upp í það sem nemur íslenska tíunda bekknum.

Hann var víst helst þekktur fyrir að hanga úti í horni og skjóta þristum, sem er ákaflega skondin tilhugsun í dag (í deeesch!).

Davis var víst ekki nema rétt rúmlega 180 sentimetrar á hæð í kring um 14-15 ára aldurinn, en nú þegar hann er kominn yfir tvítugt, er hann að nálgast 210 sentimetrana.

Sagt er að hann hafi mest sprottið yfir 20 sentimetra á 18 mánaða kafla.

Og hann á víst enn að vera að stækka, sem er reyndar ekkert spes, því ef hann fer ekki að hætta því, er hætt við að hann verði brothættur. Hann er alveg nógu gjarn á að meiðast nú þegar, þessi sambrýndi nördalegi og krúttlegi ofurleikmaður.

Hann er orðinn svo góður og hann er svo sérstakur leikmaður, að ef hann heldur svona áfram, förum við að kalla hann fyrirbæri. 

Og þið sem þekkið til á NBA Ísland vitið að það að vera kallaður fyrirbæri er líklega mesti heiður sem leikmanni hlotnast í okkar bókum.

Fyrirbærin eru sjaldgæf og sérstök og hver kynslóð leikmanna gefur almennt ekki af sér nema eitt fyrirbæri. Þannig var Wilt Chamberlain (f. 1936) fyrirbæri, Magic Johnson (f. 1959)var fyrirbæri, Shaquille O´Neal var fyrirbæri (f. 1972) og LeBron James (f. 1984) er fyrirbæri.

Leikmenn sem flokkast undir þetta hugtak eiga það sameiginlegt að búa yfir einstökum hæfileikum og oft eru það líkamlegir burðir þeirra sem gera það að verkum að þeir bera höfuð og herðar yfir samferðamenn sína.

Wilt og Shaq voru einfaldlega stærri, sterkari, sneggri og hæfileikaríkari en keppinautarnir - þeir voru hrein og klár genaundur. Menn eins og Magic og LeBron voru fyrirbæri á þann hátt að þeir höfðu fáa veikleika, gátu spilað nánast hvaða stöðu sem er á vellinum og gert það nær óaðfinnanlega. Fyrsta mál á dagskrá hjá þeim var og er alltaf að gera meðspilarana betri

Það er misjafnt hvenær menn ná tökum á fyrirbærafræðum sínum. Það var til dæmis vitað mál að Magic Johnson yrði/væri mjög sérstakur leikmaður löngu áður en hann byrjaði að raka sig. Þetta er ekki alveg jafn klippt og skorið hjá Davis, sem spilar líka allt aðra stöðu, en hann er líklega besta efni í fyrirbæri síðan LeBron james kom inn í deildina fyrir rúmum áratug. Og þá erum við ekki bara að tala um klæðaburðinn.


Bjöllubarnið Klitschko


Leikkonan léttfætta Hayden Panettiere og hnefaleikakappinn Wladimir Klitschko eiga von á barni mjög fljótlega. Skemmst er frá því segja að Klitschko er aðeins hærri en unnustan, sem er frekar stutt í annan endann.

Viðbjóðsvefurinn TMZ birti í gær bumbumyndir af henni Hayden litlu. Hún geislar af fegurð eins og allar konur sem ganga með börn, en við getum ekki annað en haft áhyggjur af því hvernig hún á að koma þessu stykki sem hún gengur með í heiminn.

Barnið verður á stærð við Volkswagen bjöllu!

Við óskum parinu að sjálfssögðu allrar lukku í barnastandinu, en okkur sýnist þetta barn eiga eftir að ógna henni Toyotu litlu Ming í stærð ef eitthvað er. Hvað ætli Toyota sé orðin hávaxin í dag?

Vörutalning eftir tíu leiki


Nú eru búnir um það bil tíu leikir í NBA deildinni og mörg ykkar hafa auðvitað dottið í eitthvað panikk af því þið skiljið ekki hvað er að gerast, hvort greina megi raunverulegar stefnubreytingar þegar einn áttundi er búinn af leiktíðinni. Andiði rólega, við skulum kíkja á þetta saman.

Það er gaman fyrir Snareðlurnar að vera í toppsæti Austurdeildarinnar (8-2) þó ekki væri nema í smá stund. Liðið heldur ágætis dampi frá í fyrra og er á topp tíu bæði í vörn og sókn, en sú staðreynd að liðið hefur spilað sjö af tíu leikjum sínum á heimavelli hjálpar þar aðeins til.

Það er öllu betur af sér vikið hjá Washington eð vera í öðru sætinu með 7-2 þrátt fyrir að vera án ungskotbakvarðar síns fyrstu vikurnar. Chicago er ljómandi 8-3 þó stjörnur spili þar sparlega og meiðist reglulega eins og lög gera ráð fyrir. 

Við erum búin að segja ykkur það svona fjögurhundruð sinnum að Chicago á að rúlla þessari Austurdeild upp ef það heldur þokkalegri heilsu og það er í rauninni bara gott að menn séu að detta út leik og leik, því þá neyðist stagkálfurinn sem þjálfar liðið kannski til að leyfa nýliðunum að spila eitthvað.

Atlanta og Miami slefa yfir 50% og eru bæði að valda okkur vonbrigðum, en Milwaukee og Orlando eru sem stendur inni í úrslitakeppni í 7. og 8. sæti, sem er algjör bilun, alveg sama hvernig á það er litið. Þó að þau spili í Austurdeildinni.

Brooklyn og Charlotte koma næst og þau fá beina falleinkunn. Indiana og Boston hafa gert vel að vinna þrjá körfuboltaleiki, enda reikna menn ekki með stórkostlegum hlutum þar í haust. 

Sigrarnir þrír sem komnir eru í hús hjá Detroit og New York eru hinsvegar engan veginn nóg, en stuðningsmenn þessara liða verða að hafa það hugfast að það er svínslega erfitt að vinna körfuboltaleiki með drullulélegum körfuboltamönnum - alveg sama hvað þeir eru stór nöfn.

Svo er eitt lið í viðbót í Austurdeildinni.

Saturday, November 15, 2014

Friday, November 14, 2014

Skothvíslari Ricky Rubio


Þessi bráðhuggulegi maður heitir Mike Penberthy og spilaði nokkra leiki með meisturum Los Angeles Lakers á meistaraárunum um aldamótin.

Penberthy var og er skytta og þykist ekki vera neitt annað.

Í dag er hann skotþjálfari hjá Minnesota Timberwolves og hefur fengið það sérstaka verkefni að reyna að bæta hræðilega skotnýtinguna hans Ricky Rubio.

Penberthy hefur áður gert góða hluti með menn eins og Paul George hjá Indiana og Reggie Jackson hjá Oklahoma. Svo góða, að hann er kallaður skothvíslari hjá Minnesota.

Við heyrðum frábæra sögu af Penberthy á dögunum, sem við bara verðum að deila með ykkur.

Hún átti sér stað fyrir nokkrum dögum, skömmu fyrir einn af leikjum Minnesota. ESPN-penni nokkur var þá að horfa niður á völlinn þar sem leikmenn Timberwolves höfðu verið að hita upp skömmu áður, en nú var þar aðeins einn maður - téður Pemberthy.

Pemberthy tók sér stöðu í hægra horni vallarins og tók tíu þriggja stiga skot, sem öll fóru beint ofan í. Þá færði hann sig nokkra metra til vinstri og tók önnur tíu þriggja stiga skot á ská á móti körfunni, sem öll fóru sömu leið. Svo færði hann sig lengra til vinstri þangað til hann var beint á móti körfunni og enn setti hann tíu þrista í röð, sem snertu varla hringinn.

Þegar þarna var komið, voru komnir nokkrir áhorfendur sem voru farnir að fylgjast með þessum tilþrifum skotþjálfarans og þeir fóru að hlæja þegar 31. þriggja stiga skotið hans Pemberthy skall á hringnum og fór ekki ofan í. Hann var þá kominn á næstu skotstöð, á ská til vinstri.

Áhorfendahópurinn litli hló enn meira þegar næsta skot Pemberthy fór í spjaldið og ofan í. Þeir héldu áfram að hlæja og spurðu hvort þetta hefði þá allt verið grís hjá honum.

Þeir hættu að hlæja þegar næstu níu skot fóru í spjaldið og ofan í með nákvæmlega sama hætti.

Kannski getur einhver kennt Ricky Rubio að skjóta eftir allt saman.

Ef svona maður getur það ekki, er það ekki hægt.

Lakers missir ekki mjög oft af úrslitakeppninni


Hvað eiga ártölin 1958, 1975, 1976, 1994, 2005 og 2014 sameiginlegt?

Ekki hafa áhyggjur þó þú vitir það ekki, en þetta eru einu árin í sögu Minneapolis/Los Angeles Lakers sem liðið hefur ekki komist í úrslitakeppnina. 

Velgengni þessa félags er með algjörum ólíkindum, en nú er nokkuð ljóst að Lakers missir af úrslitakeppninni annað árið í röð í aðeins annað skiptið í rúmlega 60 ára sögu félagsins.

Öll þessi velgengni kemur reyndar ekki bara til vegna þess að framkvæmdastjórn félagsins hafi alltaf verið svona svakalega klár. 

Los Angeles er vinsæll áningarstaður hjá NBA leikmönnum og svo hefur glamúrinn í kring um liðið síðustu áratugi verið með því besta sem gerist. 

Menn vilja spila í Los Angeles, stjórnin hefur verið góð, markaðurinn er stór, stjörnurnar eru margar, glamúrinn glansandi og svo auðvitað endalaus peningur í bauknum.

Ástandið hjá Lakers í dag er grábölvað og hefur ekki verið jafn slæmt í fjörutíu ár. Jafnvel þó Lakers tækist á einhvern ótrúlegan hátt að fara að vinna leiki, kæmi það aðeins niður á liðinu, því það missir valréttinn sinn í nýliðavalinu næsta sumar til Phoenix ef það nær ekki valrétti eitt til fimm.

Á meðan liðið hangir á biðstofunni og bíður eftir að fá tækifæri til að verða gott í körfubolta aftur. 

Það er nákvæmlega ekkert sem stuðningsmenn Lakers geta huggað sig við í vetur nema kannski að skemmta sér við að horfa á Kobe Bryant skjóta og skjóta og skjóta og reyna að slá einhver met. 

Ekki eins og þeir geti drepið tímann með að fylgjast með nýliðanum sínum vaxa, enda er hann bara á hækjum í einhverju rugli. 

Mikið erum við öll fegin að halda ekki með Lakers þessi misserin, það er ekki gaman. En þið getið gleymt því ef þið haldið að nokkur maður eða kona í heiminum fari að vorkenna Lakers. 

Það vorkennir enginn liði sem er nýbúið að vinna tvo meistaratitla og sextán í það heila. Kommon.

Thursday, November 13, 2014

Stigahæstur... og svo San Antonio auðvitað


Við sögðum ykkur frá því hérna fyrir nokkrum dögum að Flóamenn í Golden State væru að gera sig breiða og hóta því að vera með í titilbaráttu. Við töluðum líka fallega um Clippers nokkrum sinnum í upphitunum fyrir tímabilið, enda er þar á ferðinni vel mannað lið með metnað. Öll vitum við svo að Oklahoma hefur lengi staðið á þröskuldi stórræða, þó alltaf skuli meiðsli setja þar strik í reikninginn.

Þetta mjálm allt saman þýðir þó ekki að við séum búin að gleyma San Antonio Spurs, meisturunum sjálfum. Ekki aldeilis. Við erum löngu hætt að láta þá svartklæddu gera okkur að fíflum og vonum að þið gerið slíkt hið sama.

Þetta hefur ekki verið sérstaklega gott haust hjá Spurs. Leikmenn liðsins og höfðingi þess Gregg Popovich hafa viðurkennt það að þeir þjáist af dálítlum titils-timburmönnum og ef eitthvað lið á síðustu áratugum mátti "detta aðeins í það" eftir að vinna meistaratitil, var það þetta San Antonio lið.

Við erum enn ekki farin að fatta hvernig í ósköpunum stóð á því að þetta lið náði að rífa sig upp úr þungbærasta tapi síðari ára í lokaúrslitum, sleikja sárin, safna liði og vinna titilinn árið á eftir.

Hvernig lið sem dregið er áfram af manni og mönnum sem farnir eru að halla í fertugt gat komið svona til baka og unnið sinn fyrsta titil í sjö ár - og það á móti kanónum eins og stjörnuliði Miami Heat. Þetta á ekki að vera hægt.

"Það er eðlilegt að þeir séu dálítið timbraðir. Þeir eru mannlegir," sagði Gregg Popovich eins og þolinmóður faðir í viðtali fyrir nokkrum dögum þegar hann var spurður út í ryðgað liðið hans.

Kannski ekki setning sem við áttum von á að heyra frá Popovich, en hann er ekkert flón. Hann veit hvað klukkan slær, þó hann verði alveg örugglega ekki svona auðmjúkur ef hans menn spila svona í mars.

Nei, San Antonio var ekki að bjóða upp á neinar flugeldasýningar á allra fyrstu dögum deildakeppninnar og þar hafa meiðsli m.a. sett strik í reikninginn eins og víða.

Tiago Splitter, Patty Mills og Marco Belinelli eru fjarri góðu gamni og þá missti framtíðarstjarna liðsins Kawhi Leonard af öllum undirbúningi liðsins, bleikur á brá.

Popovich hélt uppteknum hætti og hvíldi stjörnurnar sínar þegar liðið hans fór til Houston á dögunum og fékk flengingu.

Nokkrum dögum síðar (þegar við erum nýbúin að skrifa um hvað Golden State sé æðislegt lið), fer Popovich svo með liðið sitt í rútuferð um Kaliforníu og heimsækir Clippers og Warriors.

Clippers-liðið var fyrra fórnarlambið. Reyndar voru þeir Blake Griffin og DeAndre Jordan að glíma við flensu* og Clippersliðið ekki að spila vel, en San Antonio lék sér að því eins og köttur að vönkuðum fugli inni á stofugólfi.

Leyfði Clippers að vera yfir þangað til á lokamínútunni og stakk svo hnífnum í belginn á því og lét því blæða út á gólfinu í Staples - fyrir framan ríkan og geðveilan eigandann.

Kvöldið eftir var haldið til Oakland, þar sem meistararnir héldu körfuboltasmiðju og rúlluðu meistaraefnunum okkar í Warriors upp eins og að drekka bjór.

Það er eitt að horfa á Golden State spila körfubolta á móti venjulegum liðum, annað að sjá það spila við San Antonio - sem er búið að tapa fyrir Warriors í tvígang í síðustu 23 leikjum ef við munum rétt.

Og eins og til að snúa hnífnum aðeins betur í sárinu, stöðvaði San Antonio líka rispuna hans Stephen Curry, sem var búinn að skora amk eina þriggja stiga körfu í 75 leikjum í röð, sem er ein lengsta rispa sinnar tegundar í sögu NBA deildarinnar. Þetta eru náttúrulega kvikindi.

Nei, það er sko ekkert að San Antonio Spurs, besta körfuboltaliði í heimi.

Það góða við þetta allt saman er að vonbiðlar eins og Clippers og Warriors geta huggað sig við að nóvember er rétt að byrja.

Því miður fyrir San Antonio er enn bara nóvember.

En fyrir hönd hinna 29 liðanna í NBA deildinni, skulum við vona að þeir svartklæddu verði ekki svona fjandi góðir áfram.

Þá verður þetta bara ekkert spennandi næsta vor.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Það vakti athygli okkar að 9 af hverjum 10 miðlum sem fjallað hafa um höktið á Clippers undanfarna daga hafa ekki minnst einu orði á að þeir Griffin og DeAndre Jordan séu búnir að vera veikir þegar þeir eru að hakka liðið í sig. Þetta er að okkar mati enn eitt dæmið um það af hverju þið, lesendur góðir, ættuð frekar að afla ykkur upplýsinga um það sem er að gerast í NBA á NBA Ísland en ekki einhverjum miðlum sem vita ekkert hvað þeir eru að tala um.

Svona... hrokalaust.

Sunday, November 9, 2014

Sweet Moses


 


Eiga Flóamenn erindi í titilbaráttu?


Frábær leiktíð er hafin í NBA deildinni. Augu margra beinast að vandræðagangi Cleveland en það er miklu skemmtilegra að skoða liðin sem gengur vel. Og engu liði gengur betur í dag en Golden State Warriors.

Eins og komið var inn á í 32. þætti hlaðvarpsins á dögunum, er þetta Warriors lið skyndilega orðið svo sterkt að það er hreinlega til alls líklegt. Við verðum að viðurkenna að þetta kemur dálítið aftan að okkur. Við áttum bara ekki von á þessu.

Fyrir mánuði síðan, voru á að giska fimm körfuboltalið sem áttu raunhæfa möguleika á meistaratitli að okkar mati. Svona ef tekið var mið af þeim mannskap sem þau höfðu yfir að ráða. 

Þetta eru Cleveland og Chicago í austri og San Antonio, Oklahoma og ef til vill Los Angeles Clippers í vestri.

Öflug lið Dallas, Houston, Memphis og Golden State voru þar rétt fyrir utan. Lið sem eru að banka mismikið á dyrnar, en eru skrefi á eftir þeim áðurnefndu þó þau gætu alveg gert einhverja skandala ef þau hefðu heppnina með sér.

Friday, November 7, 2014

32. þáttur hlaðvarpsins er kominn í hús


32. þáttur hlaðvarpsins er kominn inn á þar til gerða síðu hjá okkur. Þar fara Baldur Beck og Gunnar B. Helgason yfir það sem borið hefur hæst í NBA deildinni á fyrstu vikunni. 

Það sem efst er á baugi er auðvitað vandræðagangurinn á Cleveland, en þeir félagar hafa mjög ólíkar skoðanir á titilvonum LeBron James og félaga. Það sem þeir eru hinsvegar sammála um, er að það er komið nýtt lið inn í myndina sem ætlar að gera atlögu að titlinum næsta sumar. Loks gefur Baldur út yfirlýsingu sem hann er mjög líklegur til að þurfa að éta ofan í sig. 

Smelltu hér til að komast í góðgætið.

Saturday, November 1, 2014

Oklahoma er úr leik í toppbaráttunni í vestrinu


Já frussandi.  Frussandi gremja!

Þetta er ekki bara ódýr orðaleikur. Farðu bara í efnisorðalistann hérna til hægri og sjáðu hvort er ekki til hasstagg sem heitir Frussandi Gremja.  Sátt(ur)? Ókei, þá getum við snúið okkur að því sem skiptir máli, nefnilega þróun mála í Vesturdeildinni.

Magnað að skuli vera búið að draga til stórtíðinda í vestrinu eftir að eins tvo leiki, en þannig er það nú samt. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinu ykkar sem á annað borð fylgist með NBA að Oklahoma City nær varla í lið lengur vegna meiðsla.

Nú síðast datt hann Russ okkar úr leik vegna handarbrots og verður frá í að minnsta kosti fjórar vikur. Okkur skilst að hann hafi meiðst eftir að hafa rekist utan í Kendrick Perkins liðsfélaga sinn. Ef einhvern tímann var ástæða til að senda þann mann í langt frí...

Oklahoma án Kevin Durant OG Russ?  Gleymdu því, enda byrjar liðið 0-2 og á erfiða daga og vikur í vændum án tveggja af bestu körfuboltamanna í heimi. Fyrir utan það að missa þessa sterku leikmenn, þá kann Oklahoma ekkert að spila án þeirra af því það hefur aldrei þurft að gera það.

Nú ætlum við ekki að detta í einhverja dramatík og halda því fram að Oklahoma komist ekki í úrslitakeppnina eða eitthvað svoleiðis rugl (gúlp!). 

En það er samt morgunljóst að fjarvera Russ og KD þýðir að Oklahoma á nú mjög litla möguleika á toppsætunum í vestrinu og þar með séns á að tryggja sér heimavallarrétt í seinni umferðum úrslitakeppninnar.

Fyrir mörg önnur lið væri þetta grábölvað, en við ætlum að nota þetta tækifæri og segja stuðningsmönnum Oklahoma að hafa engar áhyggjur af þessu. 

Oklahoma er nefnilega orðið það rútínerað og reynslumikið lið þrátt fyrir ungan aldur lykilmanna, að það getur alveg unnið stóra leiki á útivöllum. Það sýndi það t.d. á móti LA Clippers í vor sem leið.

En hvað þýða þessi meiðsli þeirra félaga fyrir Vesturdeildarkapphlaupið?