Friday, November 14, 2014

Skothvíslari Ricky Rubio


Þessi bráðhuggulegi maður heitir Mike Penberthy og spilaði nokkra leiki með meisturum Los Angeles Lakers á meistaraárunum um aldamótin.

Penberthy var og er skytta og þykist ekki vera neitt annað.

Í dag er hann skotþjálfari hjá Minnesota Timberwolves og hefur fengið það sérstaka verkefni að reyna að bæta hræðilega skotnýtinguna hans Ricky Rubio.

Penberthy hefur áður gert góða hluti með menn eins og Paul George hjá Indiana og Reggie Jackson hjá Oklahoma. Svo góða, að hann er kallaður skothvíslari hjá Minnesota.

Við heyrðum frábæra sögu af Penberthy á dögunum, sem við bara verðum að deila með ykkur.

Hún átti sér stað fyrir nokkrum dögum, skömmu fyrir einn af leikjum Minnesota. ESPN-penni nokkur var þá að horfa niður á völlinn þar sem leikmenn Timberwolves höfðu verið að hita upp skömmu áður, en nú var þar aðeins einn maður - téður Pemberthy.

Pemberthy tók sér stöðu í hægra horni vallarins og tók tíu þriggja stiga skot, sem öll fóru beint ofan í. Þá færði hann sig nokkra metra til vinstri og tók önnur tíu þriggja stiga skot á ská á móti körfunni, sem öll fóru sömu leið. Svo færði hann sig lengra til vinstri þangað til hann var beint á móti körfunni og enn setti hann tíu þrista í röð, sem snertu varla hringinn.

Þegar þarna var komið, voru komnir nokkrir áhorfendur sem voru farnir að fylgjast með þessum tilþrifum skotþjálfarans og þeir fóru að hlæja þegar 31. þriggja stiga skotið hans Pemberthy skall á hringnum og fór ekki ofan í. Hann var þá kominn á næstu skotstöð, á ská til vinstri.

Áhorfendahópurinn litli hló enn meira þegar næsta skot Pemberthy fór í spjaldið og ofan í. Þeir héldu áfram að hlæja og spurðu hvort þetta hefði þá allt verið grís hjá honum.

Þeir hættu að hlæja þegar næstu níu skot fóru í spjaldið og ofan í með nákvæmlega sama hætti.

Kannski getur einhver kennt Ricky Rubio að skjóta eftir allt saman.

Ef svona maður getur það ekki, er það ekki hægt.