Showing posts with label Blökkumaður fær borgað. Show all posts
Showing posts with label Blökkumaður fær borgað. Show all posts

Sunday, June 26, 2016

Af framtíðaráformum Kevin Durant og Oklahoma


Nú þegar nýliðavalið árlega er afstaðið, geta NBA-miðlar í Bandaríkjunum nú einbeitt sér að ekkifrétt sumarsins, sem snýst um Kevin Durant og framtíðaráform hans á atvinnumarkaði. Þið vitið hvað við erum rosalega spennt fyrir svona skrumi, eða hitt þó heldur.

En rétt eins og aðrir NBA-miðlar, erum við hér á NBA Ísland með lesendur sem eru sumir hverjir forvitnir um svona mál og því verðum við að reyna að koma til móts við þá. Okkur leiðast kannski ekkifréttir um félagaskipti eða ekki félagskipti NBA leikmanna, en við erum bæði með hugmyndaflug og skoðanir, þannig að kannski er upplagt að við leggjum okkar lóð á vogarskálarnar í þessu leiðindamáli. 

Við segjum leiðindamáli, af því þetta skrum í kring um Durant er og verður eitt stórt leiðindamál og ekkifréttir þangað til hann gerir upp hug sinn, en þá verður ákvörðun hans frétt í einn eða tvo daga áður en allir steingleyma henni þangað til hann verður með lausa samninga næst.

Eins og flest ykkar vita líklega, hafa forráðamenn Oklahoma City ekki setið auðum höndum síðan liðið þeirra var slegið út úr keppni á sársaukafullan hátt í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar um daginn. Segja má að þeir hafi stolið senunni kvöldið sem nýliðavalið fór fram, þegar þeir ákváðu að ráðast í stórviðskipti á leikmannamarkaðnum.



Þannig ákváðu Oklahoma-menn að skipta framherjanum Serge Ibaka til Orlando Magic í staðinn fyrir framherjann Ersan Ilyasova, bakvörðinn Victor Oladipo og framherjann unga Domantas Sabonis sem Orlando tók fyrir þá númer ellefu í nýliðavalinu síðar um kvöldið. Sabonis þessi er af ákaflega góðum körfuboltaættum eins og flest ykkar vita líklega, en hann er sonur miðherjans Arvydas Sabonis sem lék með Portland Trailblazers á árunum 1995-2003.

Menn og konur voru afar fljót að mynda sér sterkar skoðanir á þessum viðskiptum og við erum þar engin undantekning, þetta þykir okkur ansi djarfur og kappsamur leikur hjá Oklahoma-mönnum. 

Eitthvað hefur verið talað um að þarna sé um fyrirbyggjandi aðgerðir að ræða hjá Oklahoma, því Ibaka átti ekki langt eftir af samningi sínum við félagið og ljóst var að það yrðu engir smáaurar sem hann kæmi til með að fara fram á þegar að því kæmi. Bæði af því hann gegnir jú mikilvægu hlutverki hjá liðinu og af því að launaþakið í NBA deildinni er að hækka langt upp fyrir öll velsæmismörk, ekki ósvipað og húsnæðisverð í Reykjavík.

Það er ekkert leyndarmál að tölfræðin hans Serge Ibaka er búin að vera að dala með nokkuð áberandi hætti síðustu ár, en Oklahoma-pennar segja að það megi að hluta skrifa á þjálfarateymi liðsins, því Ibaka hafi verið beðinn um að gera hluti sem urðu ekki beint til að fóðra hjá honum tölfræðina. Til dæmis hafi minnkandi frákastatölur komið til út af því að Ibaka gerði meira af því að elta minni menn úti á velli í stað þess að vera undir körfunni. Það er sitt hvað til í þessu, meira að segja við vitum það.


Annað sem olli okkur áhyggjum - og eflaust forráðamönnum og stuðningsmönnum Oklahoma líka - var hvað 3ja stiga nýtingin hans var búin að hríðlækka undanfarið. Hlutverk Ibaka í sókninni var jú á margan hátt fólgið í því að standa fyrir utan línu og teygja á vörnum andstæðinganna - t.d. með því að toga stóru mennina með sér út úr teignum svo þeir væru ekki fyrir Russell Westbrook þegar hann keyrði á körfuna.

Stigaskor Serge Ibaka lækkaði úr 15,1 stigi fyrir þremur árum niður í 12,6 í ár og þriggja stiga nýtingin hans fór úr 38,3% fyrir þremur árum, sem er afbragð, niður í innan við 33% á liðnum vetri. Á sama hátt hrundi hann niður í blokkeringum, þar sem hann varði mest 3,7 skot 2012, en aðeins 1,9 í vetur.

Loks datt hann niður í fráköstunum, úr 8,8 fyrir þremur árum og niður í aðeins 6,8 í vetur, sem er heilu frákasti minna en leikstjórnandi liðsins tók (þó hann sé líklega öflugasti frákastari í sögu NBA miðað við hæð og stöðu á vellinum. Hér er að sjálfssögðu verið að tala um Russell Westbrook. Við misnotum ekki tækifæri til að tala um Russell Westbrook. Það væri asnalegt).

Þessi þróun í tölfræðinni er vissulega áhyggjuefni, en það sem gerði Ibaka að þeim algjöra lykilmanni sem hann var í liðinu, kemur hvergi fram á tölfræðiskýrslum. Þar erum við auðvitað að tala um varnarleikinn.

Varnarleikur Oklahoma var ekki eins góður í deildarkeppninni í vetur og undanfarin ár og þið munið eflaust eftir því að það var ein af ástæðunum fyrir því að við rökkuðum liðið niður í vor og sögðum að það ætti ekki möguleika á að gera neitt í úrslitakeppninni. 

Við erum alveg handviss um að Serge Ibaka átti þarna stóran hlut að máli, enda er hann búinn að vera mikilvægasti maður liðsins í vörninni í mörg ár.

En þegar kom inn í úrslitakeppnina um daginn, var allt í einu komið allt annað hljóð í Oklahoma-liðið og skyndilega var eins og hefði "tekið sig upp gamall varnarleikur" hjá þeim. Allt í einu voru leikmenn liðsins eins og byssukúlur út um allt gólf í vörninni, nóg til að slátra San Antonio og keyra meistara Golden State alveg út á bjargbrún, lamaða af ótta eins og Krókódílamanninn eftir viðskiptin við bjargvættinn Laufeyju í texta Magnúsar Þórs Jónssonar.



Oklahoma varð fyrsta liðið til að finna svör við ógnarsterkum sóknarleik Golden State Warriors og gerði það með liðsuppstillingu sem NBA-penninn Nate Duncan kallaði Megadeath uppstillinguna, sem er ákaflega vel að orði komist. Lykilmaður í þessari aðferðafræði var að sjálfssögðu Serge Ibaka og þessi leikaðferð hefði trúlega aldrei gengið eftir með einhverjum öðrum leikmanni, því menn sem eru með þennan pakka af lengd, snerpu og íþróttamennsku eru teljandi á fingrum annarar handar - ef það.

Saturday, December 26, 2015

Perla fyrir pening


Illa farið með besta lag Public Enemy, en ef við gleymum því í augnablik að þetta sé auglýsing, er þetta nokkuð skemmtilega gert. Hefði einhver átt að segja Chuck D að hann ætti eftir að lána þetta lag í farsímaauglýsingu daginn eftir að það kom út. Sá hefði hlegið.

Saturday, July 5, 2014

Úrkoma í grennd hjá Kobe og Lakers


Kobe Bryant er launahæsti körfuboltamaður í heimi þó hann hafi ekki spilað nema sex leiki á síðustu leiktíð vegna meiðsla og þó enginn viti hvort hann eigi eftir að geta spilað eitthvað nálægt sínum eðlilega leik þegar hann snýr loksins til baka í haust.

Kobe Bryant er með meira en eina milljón króna á tímann alla daga ársins ef við gefum okkur að hann vinni 8-9 tíma vinnudag eins og venjulegt fólk - þó hann geri það auðvitað ekki. Kobe er ekkert venjulegt fólk. Hann er með þrjú þúsund fjögurhundruð fimmtíu og tvær milljónir króna í laun fyrir skatt á þessu ári.

Þegar hann hættir að spila, verður hann kominn vel yfir 300 milljónir dollara á ferlinum, sem þýðir einhverja 34 milljarða króna miðað við gengi dagsins í dag (sem er auðvitað ekki rétt mælt, en okkur er skítsama).

Tuesday, July 1, 2014

Arenas er búinn að fá kaupið sitt


Það er langt síðan ólíkindatólið Gilbert Arenas hætti að spila í NBA deildinni, en hann var samt í þriðja sæti yfir launahæstu leikmenn NBA deildarinnar á liðinni leiktíð með rúman tvo og hálfan milljarð króna í árslaun.

Hann spilaði heila 49 leiki fyrir Orlando, sem fékk hann til sín í skiptum fyrir Rashard Lewis. Orlando nýtti sér svo amnesty-undanþáguna til að losa sig við hann, en þurfti auðvitað að borga launin hans í topp. Hann er nýbúinn að fá síðustu ávísunina sína. en hefur ekki verið tekinn alvarlega sem leikmaður síðan 2007.

Þessir milljarðar sem Arenas hefur verið áskrifandi að undanfarin ár, eru einhver mesti þjófnaður í sögu deildarinnar. Af hverju getum við ekki fengið svona eins og pínulitlar 200 milljónir af þessu - við gætum meira að segja sætt okkur við smáaura eins og 50 milljónir!

Það er ekki honum að kenna að hann meiddist, en samt. Kommon.


Jason Kidd plottar og planar



Thursday, June 19, 2014

NBA Ísland skoðar framtíðarhorfur Miami Heat


Eins gleðilegt og það er nú að krýna nýja NBA meistara á hverju ári, þarf einhver því miður einhver að tapa líka. Og þegar einhver tapar á stóra sviðinu, þarf að sjálfssögðu að finna blóraböggul. Það er inngróin og rík þörf hjá flestum okkar, þó hún sé sjaldnast sanngjörn.

Þið sem sáuð úrslitaeinvígi San Antonio og Miami þetta árið, vitið að það var sannarlega ekkert eitt sem réði því að San Antonio vann rimmuna. Það var frekar allt. Lið Spurs var einfaldlega miklu, miklu betra og því fór sem fór.

Það þýðir þó ekki að við getum ekki litið yfir farinn veg hjá Miami og reynt að kenna skella skuldinni á einhvern. Það er svo auðvelt, ódýrt, ósanngjarnt og skemmtilegt. Það er hægt að benda á margt og marga þegar kemur að Miami. 

Monday, March 31, 2014

Seðlance Stephenson


Hinn litríki Lance Stephenson hjá Indiana birti þessa mynd víst á Instagramminu sínu um daginn. Þetta ku hafa verið ein milljón dollara í reiðufé. Það fyndna við þetta er að Stephenson er einn tekjulægsti leikmaður NBA deildarinnar, því hann rétt skríður yfir milljón dollara í laun á þessu ári.

Þetta er í eina skiptið sem hann hefur fengið meira en milljón í laun þó hann sé á sínu fjórða ári í deildinni. Því er ekki gott að segja hvaðan hann fær þessa seðla. Kannski hefur hann bara fengið þessa peninga lánaða hjá frænda sínum sem vann í Víkingalóttóinu - nú eða rænt dýragarð. Hver veit þegar þessi maður er annars vegar.

Monday, November 11, 2013

Bankinn er alltaf opinn í Brooklyn


Launaþakið margfræga í NBA deildinni er í ár eitthvað um 7,2 milljarðar króna. Lágmarks launagreiðslur (90% af launaþakinu) sem félögin í deildinni þurfa að greiða leikmönnum sínum eru 6,5 milljarðar. Já, þú verður að eyða ákveðið miklum peningum ef þú ætlar að reka félag í NBA.

Lúxusskatturinn svokallaði byrjar að telja í 8,8 milljörðum og frá og með síðustu kjarasamningum sem gerðir voru í verkbanninu hræðilega, eru nú sektir fyrir að fara yfir launaþakið orðnar stjarnfræðilegar. Félögin þurfa þannig að borga 1,5 dollara á móti hverjum dollara ef þau fara 0-5 milljónum yfir markið og glæpsamlega 2,5 dollara á móti hverjum dollara ef farið er 10-15 milljónum yfir þakið.

Þannig gengur þetta koll af kolli, talan hækkar um 0,5 við hverjar 5 milljónir dollara sem farið er yfir markið. Það eru því varla takmörk fyrir því hvað hægt er að skattpína stórhuga félög á borð við Nets. Samkvæmt kjarasamningum, skiptast upphæðirnar sem Mikhail Prokhorov eigandi borgar í lúxusskatt á hin félögin í deildinni. Þessu kerfi er ætlað að koma á fjármálajöfnuði í deildinni, hvernig svo sem það gengur.



Brooklyn er að borga 12,4 milljarða króna í laun ef skatturinn er ekki talinn með og það er svo magnað að þú þarft ekki að taka saman nema laun byrjunarliðsins til að sprengja launaþakið í tætlur. Deron Williams, Joe Johnson, Paul Pierce, Kevin Garnett og Brook Lopez eru samanlagt með 10 milljarða í laun í vetur.

Brooklyn er að borga tæpa 10 milljarða bara í lúxusskatt í ár, sem er það langhæsta sem félag hefur þurft að reiða fram í sögu NBA.

Gamla metið átti Portland, sem pungaði út rúmum sex milljörðum í lúxusskattinn árið 2003 eftir að hafa gert nokkuð heiðarlega tilraun til að byggja upp meistaralið.

Þessir 10 milljarðar sem fara sérstaklega í skattinn hjá Nets eru hærri upphæð en 26 af liðunum 30 í NBA deildinni greiða í heildarlaun, sem er auðvitað alveg þræleðlilegt...

Prokhorov er í heildina að borga yfir 22 milljarða króna í laun í vetur, en hann hefur svo sem efni á því. Forbes metur eignir auðmannsins rússneska á yfir 1600 milljarða króna.

Hann fer því létt með að borga þessi svimandi háu laun - og á meira að segja afgang til að kaupa sér Stiga-sleða og Snickers ef sá gállinn er á honum.



Thursday, July 4, 2013

Stóri Al vill peninga fyrir að spila körfubolta

























 Stóri Al Jefferson er með lausa samninga hjá Utah Jazz og er á höttunum eftir samningi sem færir honum 15 milljónir dollara í árslaun. Hann ætlar að bíða rólegur eftir því að Dwight Howard klári fegurðarsamkeppnina sína, en eftir það gæti myndast sæmileg eftirspurn eftir Jefferson. Hann er nú einu sinni einn af síðustu leikmönnunum í NBA sem geta spilað með bakið að körfunni.

Jefferson er að koma af samningi sem er jú að borga honum 15 milljónir í laun á lokaárinu og því ættu lið ekki að borga manni 15 kúlur sem skilar 18 stigum, 10 fráköstum og 50% skotnýtingu?

Ah, af því að það eru tvær hliðar á körfuboltavelli. Jefferson líður mjög vel á helmingi andstæðinganna og getur framleitt stig upp úr engu þegar mikið liggur við. Hann er hinsvegar svo æpandi lélegur á hinum endanum að það er alveg sama hvað hann er ökónómískur í sókninni - hann skilar því öllu til baka hinu megin.

Al Jefferson er virkilega góður og prúður drengur. Hann gætir þess alltaf að andrúmsloftið sé gott í búningsklefanum og er alltaf tilbúinn að gera allt fyrir alla. Hann á hinsvegar aldrei eftir að komast upp úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar með liði þar sem hann er fyrsti valkostur. Því miður fyrir hann.

Stóri Al á eftir að fá borgað, sannið til, en það er hætt við því að það verði hjá félagi eins og Bobcats sem í besta falli sullar í meðalmennsku.

Tuesday, October 30, 2012

Harden farinn, Oklahoma tekur skref aftur á bak




Við höfum fengið óhemju magn af pósti og skilaboðum vegna nýjustu leikmannaskiptanna í NBA deildinni og það er auðvitað engin furða. Okkur langar að leggja hérna fram nokkrar línur um málið, þó seint sé.*

Stjórn Oklahoma City, silfurdrengjanna frá í sumar, ákvað nokkuð óvænt að skipta James Harden og skiptimynt til Houston Rockets í staðinn fyrir Kevin Martin og skiptimynt.

Ekki móðgast þó við notum orðið skiptimynt, þessir tveir leikmenn eru þungamiðjan í skiptunum hvað svo sem verður með ungu mennina og valréttina í framtíðinni.

Kjarasamningar og launaþak eru hugtök sem eru hvorki innan áhuga- né þekkingarsviðs okkar en það litla sem við höfum kynnt okkur um einstök efnisatriði þessara viðskipta, segir okkur að þau komi sér ágætlega fyrir bæði félög þegar allt er talið.

Það kemur þó endanlega ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár.

Harden hafði verið í sviðsljósinu um nokkurt skeið því samningar hans voru að losna. Oklahoma er lítið félag á litlum markaði og eigandi þess er skíthæll (sjá: Seattle Supersonics) og því var alltaf vitað að það yrði erfitt fyrir að að semja við Harden.

Thunder hafði þegar samið við þá Kevin Durant, Russell Westbrook og Serge Ibaka. Það kostaði sitt og þegar við bætum við feitum samningi Kendrick Perkins, var ljóst að ekki var mikið pláss eftir til að bæta við einum feitum samningi í viðbót.

Oklahoma var þó tilbúið að ganga ansi langt og bauð Harden samning sem var ekki langt frá hámarkinu, en hefði þýtt að launakostnaður hefði orðið ansi hár á næstu árum og snarminnkað svigrúm í leikmannamálum. Það er ekkert grín að borga lúxusskatt í nútíma NBA og það er ekki eitthvað sem lítil félög gera að gamni sínu.

Harden er sterkur og kornungur leikmaður sem var að leita að sínum fyrsta stóra samningi á ferlinum.

Auðvitað hefði sjötti maður ársins viljað halda áfram að spila með Thunder. Frábært lið og góður mórall, framtíðin björt og hlutverkið klárt. Það kom til greina.

En hvaða NBA leikmaður vill ekki fá tækifæri til að komast á topplaun og prófa að vera andlit metnaðarfulls félags sem er miklu stærra en Thunder.

Það er ekki ljóst hvað gerðist. Hvort stjórn Thunder var í kjúkling við Harden eða ekki. Skiptir eiginlega ekki máli. Það sem skiptir máli er að algjör lykilmaður í næstbesta liði deildarinnar er horfinn á braut.

Harden sinnti í raun tvöföldu hlutverki hjá Oklahoma á síðustu leiktíð. Spilaði bæði stöðu leikstjórnanda og skotbakvarðar þegar hann var inná - og hann var auðvitað inná lengur en flestir varamenn. Helsti styrkur Harden sem leikmanns liggur í því hvað hann er yfirnáttúrulega hagkvæmur sóknarmaður. Hann sprengir alla hagkvæmniskala og fær tölfræðigúrúa til að slefa.

Kevin Martin hefur reyndar líka verið nokkuð hagkvæmur leikmaður á sínum ferli. Er góður skotmaður og lúmskur í að koma sér á línuna, en þar með er það því miður upptalið. Hann er skelfilega lélegur varnarmaður, hefur verið í vandræðum með meiðsli, hann er lítill, léttur og aumur og gefur þér ekkert nema stig.

Eitt mikilvægasta atriðið í skiptunum hvað Oklahoma varðar, er svo hvernig Martin passar inn í móralinn í liðinu. Hann er nefnilega nokkuð fýlugjarn og hefur átt til að stangast á við þjálfara sína.

Oklahoma getur leyft sér þann munað að skipta Harden út og fá hreinræktaðan skotbakvörð í staðinn af því Eric Maynor, varaleikstjórnandi liðsins, snýr aftur í vetur eftir að hafa verið í meiðslum alla síðustu leiktíð. Miklar vonir eru bundnar við Maynor og Thunder er tvímælalaust sterkara lið þegar hann tekur við varaleikstjórn í stað Derek Fisher.

Þá er bara að sjá hvort Kevin Martin stendur undir hlutverki sínu.

Oklahoma City verður ekkert allt í einu lélegt lið þó það skipti James Harden í burtu, en að okkar mati veikir þetta liðið mikið. Oklahoma hafði þann möguleika að halda Harden út komandi leiktíð og reyna aftur við titilinn - sjá svo til. Það lá ekkert á að sleppa honum, en hinsvegar skiljanlegt að stjórnin hafi kýlt á þetta fína tækifæri þegar það gast.

Við nennum samt ekki að velta upp úr peningamálum og pótensjal. Ekki í þessum pistli. Við erum bara að hugsa um hvað þessi skipti þýða fyrir Thunder núna - á þessari leiktíð og næstu. Við erum óskaplega hrædd um að það eina sem þessi skipti þýða í ár sé að helsti keppinautur Miami Heat í deildinni hafi rétt í þessu verið að veikjast töluvert. Þannig sjáum við það bara og getum ekki neitað því að það vekur upp dálitla gremju.

Það er dálítið deprímerandi að sjá hvernig sýstemið virkar. Sjá hvernig félag eins og Oklahoma sem hafði heppnina með sér í nýliðavalinu og gerði allt rétt, hefur einfaldlega ekki burði til að halda sér við toppinn. Eða virðist ekki hafa burði til þess.

Nú eru að taka við nýjar reglur um launamál og samninga í NBA og þetta þrengir nokkuð að. Það er ekki hægt annað en setja spurningamerki við það hvað Houston er að eyða miklu í menn eins og Jeremy Lin og Omer Asik (og kannski Harden líka).

Það voru samningar eins og þessir sem settu allt á hliðina og ollu verkbanni á síðustu leiktíð. Það virðist enginn læra neitt af því. Enn þyrfti helst að verja þessa heimsku eigendur fyrir bullinu í sjálfum sér.

Það hefur verið í tísku að gefa bæði OKC og Houston c.a. B+ fyrir þessi viðskipti og það er skiljanlegt. Við erum hinsvegar ekki svona jákvæð.

Það var rétt sem Bill Simmons skrifaði fyrir skömmu, Oklahoma átti bara að drullast til að borga Harden og hafa áhyggjur af peningamálunum seinna.

Lið sem er svona nálægt þeim stóra á ekki að breyta svona til hjá sér þegar það stendur á þröskuldinum, við förum aldrei af þeirri skoðun.

Það tekur okkur mörg ár að sjá hvað kemur út úr þessum skiptum, en beinar afleiðingar þess þýða einfaldlega að næstbesta körfuboltalið í heimi er ekki eins sterkt og það var. Það eina jákvæða við þetta er að Oklahoma sleppur við dramatíkina sem óneitanlega hefði valdið ónæði þegar fjölmiðlar héldu samningaviðræðum Harden efst í fréttum dag eftir dag.

Houston gerir vel að fá Harden, flottan leikmann, en við efumst um framtíðina og peningana sem fara í Lin og Asik.

Oklahoma situr eftir veikara. Ungir og upprennandi leikmenn liðsins eru alltaf að bæta sig og Kevin Martin veit alveg hvar körfuna er að finna, en því miður er það bara hvergi nærri nóg til að fylla skarð James Harden.

Og hafðu það, fjandakornið!

* - Þetta átti að vera stutt hugleiðing. Immit.

Tuesday, July 31, 2012

Milljarðamæringurinn í Minnesota


Eins og flestir sem fylgjast með NBA deildinni vita, hefur Minnesota ákveðið að gera tveggja ára samning við rússneska framherjann Andrei Kirilenko.

Rússinn langi er aftur er kominn til Bandaríkjanna eftir að hafa skotist til Moskvu í eitt ár.

Úlfarnir ætla að bjóða honum níu milljónir dollara í árslaun, svo ljóst er að Kirilenko verður á allt of háum launum út ferilinn.

Kirilenko fór hamförum í Evrópu á síðustu leiktíð svo ætla má að hann hafi endurheimt megnið af svæginu sem gerði hann að einum fjölhæfasta leikmanni NBA deildarinnar á sínum tíma.

Eftir frábæran vetur árið 2004 ákvað stjórn Utah Jazz að Kirilenko, sem var alltaf að bæta sig, yrði maðurinn sem tæki við kyndlinum af Stockton og Malone og gaf honum allt of stóran samning sem hann stóð aldrei undir.

Kirilenko er stórkostlegur leikmaður þegar hann spilar fyrir Rússa og hefur meira að segja unnið einn stóran titil með liðinu. Vissulega átti hann sína spretti í NBA líka, þar sem hann gladdi tölfræðinörda m.a. með sínum frægu 5x5 leikjum og þrennum.

Kirilenko spilaði í tíu ár með Utah Jazz og hvern einasta leik sinn undir stjórn Jerry Sloan. Samskipti þeirra tveggja voru oft á tíðum ansi mislukkuð, sérstaklega á seinni árunum, og einu sinni gekk það svo langt að Kirilenko fór bókstaflega að grenja undan þjálfara sínum.

Utah spilaði alltaf mjög kerfisbundinn sóknarleik undir stjórn Jerry Sloan og þó Kirilenko hafi á suman hátt verið afar mikilvægur í þessu sýstemi, var hann líka á margan hátt ómögulegur í því.

Hann þarf að fá lausan tauminn til að geta notið sín og það var einfaldlega ekki í boði hjá Jazz á seinni árum, þar sem Deron Williams, Carlos Boozer og Mehmet Okur voru fyrstu kostir í sóknaraðgerðum.

Við höfum horft á fleiri leiki með Andrei Kirilenko en þú. Þess vegna roðnum við ekki við að skjóta fram eftirfarandi fullyrðingum.

Ef Kirilenko hefði spilan einhvers staðar annarsstaðar en í Utah, hefði hann orðið margfaldur stjörnuleikmaður í stað þess að spila þennan eina sem hann gerði árið 2004.

Ef Kirilenko hefði spilað undir stjórn t.d. Don Nelson, hefði sá gamli bara afhent Rússanum lyklana að Warriors-Volgunni og leyft honum að botna kvikindið.

Í kaosinu hjá Nelson, er óhætt að fullyrða að við hefðum séð meðaltöl upp á 18 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar, tvo stolna og tvö varin skot. Og þetta er varlega áætlað. Það má vel vera að hann hefði verið með enn betri tölur. Þér er óhætt að fara með þetta í bankann.

Hann Andrei vinur okkar stendur aldrei undir því að vera með milljarð króna í árslaun og hann á eftir að missa úr sína hefðbundnu 15-20 leiki á ári vegna meiðsla.

Við höllumst samt að því að hann eigi eftir að hjálpa Minnesota töluvert - og þá ekki bara af því hann er með húðflúr sem minnir á innyfli úr dílaskarfi á sterum.

Rick Adelman mun vonandi gefa Kirilenko slakan taum þegar hann kemur inn af bekknum í vetur og hafi Minnesota verið Spútnik/League Pass lið ársins í fyrra - verður það enn skemmtilegra í vetur.

Þegar þú ert með leikmenn með jafn næmt auga fyrir spili og Ricky Rubio og Andrei Kirilenko, gæti útkoman orðið eitthvað alveg sérstakt.

AK-47 kemur svo auðvitað fyrst og fremst með varnarleik inn í lið Úlfanna og ekki er vanþörf á því. Hann er sérfræðingur í að verja skot þegar hann læðist inn af veiku hliðinni og hreinsar til við hringinn. Vænghaf hans er endalaust og hann hefur nef fyrir boltanum - bæði að stela og verja.

Það er freistandi að spá því að Kirilenko muni slá í gegn hjá Úlfunum í vetur og jafnvel blanda sér í baráttuna um nafnbótina varamaður ársins (ef Minny notar hann rétt). Hann mun berjast við ökkla og bakmeiðsli í allan vetur eins og venjulega, en það er það eina sem við komum auga á sem ætti að aftra honum frá því að eiga eðalvetur hjá Úlfunum.

Okkur þætti það að minnsta kosti ekki leiðinlegt.