Thursday, July 4, 2013

Stóri Al vill peninga fyrir að spila körfubolta

























 Stóri Al Jefferson er með lausa samninga hjá Utah Jazz og er á höttunum eftir samningi sem færir honum 15 milljónir dollara í árslaun. Hann ætlar að bíða rólegur eftir því að Dwight Howard klári fegurðarsamkeppnina sína, en eftir það gæti myndast sæmileg eftirspurn eftir Jefferson. Hann er nú einu sinni einn af síðustu leikmönnunum í NBA sem geta spilað með bakið að körfunni.

Jefferson er að koma af samningi sem er jú að borga honum 15 milljónir í laun á lokaárinu og því ættu lið ekki að borga manni 15 kúlur sem skilar 18 stigum, 10 fráköstum og 50% skotnýtingu?

Ah, af því að það eru tvær hliðar á körfuboltavelli. Jefferson líður mjög vel á helmingi andstæðinganna og getur framleitt stig upp úr engu þegar mikið liggur við. Hann er hinsvegar svo æpandi lélegur á hinum endanum að það er alveg sama hvað hann er ökónómískur í sókninni - hann skilar því öllu til baka hinu megin.

Al Jefferson er virkilega góður og prúður drengur. Hann gætir þess alltaf að andrúmsloftið sé gott í búningsklefanum og er alltaf tilbúinn að gera allt fyrir alla. Hann á hinsvegar aldrei eftir að komast upp úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar með liði þar sem hann er fyrsti valkostur. Því miður fyrir hann.

Stóri Al á eftir að fá borgað, sannið til, en það er hætt við því að það verði hjá félagi eins og Bobcats sem í besta falli sullar í meðalmennsku.