Thursday, January 29, 2015

Baráttan um 8. sætið í vestrinu er hörð


Það hefur sýnt sig að það er óhemju erfitt að vinna tuttugu körfuboltaleiki á einni viku. Þetta er vandamálið sem stendur frammi fyrir strákunum í Oklahoma City Thunder og farið er að vekja talsverða athygli.

Eins og þið munið kannski, voru margir fljótir að ýta á óðagotshnappinn í haust þegar ljóst varð að Oklahoma yrði án þeirra Kevin Durant og Russell Westbrook í nokkrar vikur. Alla jafna hefði það ekki verið stórmál, en ef þú ert Oklahoma City árið 2015, er það risavaxið vandamál.

Oklahoma er nefnilega lið sem má engan veginn við því að missa tvo bestu leikmennina sína. Ekkert lið á svo sem við því að missa tvo bestu leikmennina sína, en í tilviki Oklahoma er um að ræða tvo af bestu körfuboltamönnum í heimi og um leið mennina sem bera uppi 97,83% af sóknarleik liðsins.

Því fór náttúrulega allt til helvítis hjá Oklahoma á umræddum vikum eins og flestir spáðu. Þeir sem ýttu á óðagotshnappinn gerðu það af því þeir voru alveg vissir um að fjarvera þeirra Durant og Westbrook yrði til þess að Oklahoma næði ekki að komast í úrslitakeppnina í vor.

Við tilheyrðum þeim hluta fólks sem hló að þessari dramatík. 

Vesturdeildin var jú sögulega hrikaleg, en kommon, lið eins og Oklahoma yrði nú ekki lengi að vinna upp nokkra leiki þegar kanónurnar sneru aftur...

Þegar þeir félagar byrjuðu svo að spila aftur, báðir talsvert á undan áætlun, mátti sjá bera fyrir skítaglotti á andlitum okkar þegar Oklahoma byrjaði strax aftur að vinna leiki og Phoenix virtist ætla að hjálpa þeim að henda sér úr 8. sætinu í Vesturdeildinni því það byrjaði allt í einu að tapa leikjum á meðan Oklahoma vann sína.

Glottið er hinsvegar alveg horfið núna og það er meira að segja langt síðan. Staðan sem við töldum ómögulega er meira en mætt; Oklahoma er komið í mittisdjúpan skít.

NBA Ísland tekur rúnt í Austurdeildina


Þeir sem hafa fylgst með NBA deildinni í nokkur ár, vita að Stjörnuleikurinn í febrúar er ekki fullkominn mælikvarði á það hvaða körfuboltamenn eru bestir í heimi. Þeir sem hafa lesið NBA Ísland í nokkur ár vita líka að við hérna á ritstjórninni töpum engum svefni yfir Stjörnuleiknum og umstanginu í kring um hann.

Þetta sinnuleysi okkar má rekja til tveggja hluta. Því hvernig staðið er að því að velja leikmenn í Stjörnuleikinn og svo auðvitað þeirri staðreynd að leikurinn sjálfur er oftast bara fíflagangur, sem aðeins hefur færst í aukana á 21. öldinni (boltinn sem var spilaður í Stjörnuleikjunum undir stjórn manna eins og Isiah Thomas og Magic Johnson minnti a.m.k. á körfubolta).

Vegna þessa ætlum við ekki að eyða of mörgum orðum í Stjörnuleikinn. Bara sú staðreynd að Kobe Bryant og Carmelo Anthony hafi verið júróvisjónaðir í byrjunarliðin lætur okkur æla í munninn.

Nei, við skulum heldur beina sjónum okkar að deildakeppninni og þeim ferlum sem þar eru í gangi þessa dagana. Það sem vakið hefur hvað mesta athygli á ritstjórn NBA Ísland undanfarnar vikur er sápuóperan um Hið undarlega mál doktors Jekyll og herra Hyde sem er að eiga sér stað í Chicago.

Spilamennska Chicago Bulls hefur ekki aðeins verið beint úr smiðju Jekyll og Hyde að undanförnu, heldur eru slúðrið og dramatíkin í kring um liðið með því undarlegra sem við höfum orðið vitni að. 

Eins og lengra komnir vita, er ESPN-báknið ekki alsaklaust af því að reka áróður fyrir hinu og þessu annað slagið, en það sem við heyrðum í síðasta Hlaðvarpi Bill Simmons var með því grófasta sem við höfum heyrt. 

Í síðari parti hlaðvarpsins tók Simmons spjall við körfuboltapennann ágæta Zach Lowe sem skrifar fyrir Grantland, en í staðinn fyrir að biðja Lowe að greina hina ólíku persónuleika Bulls á körfuboltavellinum, ákvað Simmons að nota tímann til þess að kasta fram öllu því slúðri sem hann gat fundið til um Chicago-liðið og bókstaflega hélt því fram að það logaði allt stafna á milli hjá félaginu. 

Monday, January 26, 2015

Klay Thompson er ekki lítill lengur


Það er rosalega auðvelt að halda því fram núna að við höfum ætlað að skrifa sérstakan pistil um Klay Thompson sama kvöld og við skrifuðum síðasta pistil um Golden State Warriors, aðfararnótt föstudagsins.

Thompson var búinn að spila svo ljómandi vel fyrir Warriors í vetur og búinn að bæta sig svo mikið að okkur þótti kominn tími til að minnast sérstaklega á það. Velta því fyrir okkur hvað hann ætti stóran þátt í glettilegri velgengni Warriors og leiða hugann að því í leiðinni hvaða erindi hann ætti til dæmis í Stjörnuleikinn í næsta mánuði.

Nei, það varð ekkert úr þessum pistli, sem hefði getað orðið fyrsti pistillinn í sögu þessa vefsvæðis sem léti ritstjórnina líta gáfulega út. Það gat ekki verið svo gott.

En svona fyrir utan þess háttar egóisma, hefði það verið óþarfa blek að skrifa um Klay á fimmtudagskvöldið í ljósi þess hvað drengurinn gerði á föstudagskvöldið. Ef þú býrð ekki í helli í Afganistan, hefur það ekki farið fram hjá þér að Thompson rústaði NBA metinu yfir flest stig skoruð í einum leikhluta þegar hann sallaði þrjátíuogsjö stigum á aumingja Sacramento á rúmum níu mínútum í þriðja leikhluta.

Þetta eru orðnar gamlar fréttir núna, en það væri óeðlilegt ef við fjölluðum ekki aðeins nánar um þetta mál á NBA Ísland. Það er ekki eins og við fáum að sjá eitthvað svona vikulega í NBA deildinni.

Hugsið ykkur bara hversu margir stórkostlegir skorarar hafa spilað í NBA deildinni í gegn um tíðina og spáið svo í það hvað þeir voru flestir langt frá því að gera eitthvað líkt því sem Klay Thompson gerði á dögunum.

Ekki Kobe Bryant, ekki Michael Jordan og ekki einu sinni Wilt Chamberlain! Og hann skoraði jú einu sinni hundrað stig í einum og sama leiknum!

Enginn þessara ofurskorara hafði nefnilega það sem Klay Thompson hefur, þetta svakalega þriggja stiga skot. Haldið þið að það sé bara eðlilegt að maður sé að skjóta 13 af 13 í leikhluta - þar af 9 af 9 í þriggja stiga skotum?

Nei, það er sko ekkert eðlilegt við það og það er hreinlega ekkert víst að við fáum að sjá annan svona leikhluta á næstu þrjátíu árum í NBA deildinni. Þetta á ekki að vera hægt!

Öll höfum við séð menn hitna duglega við hin ýmsu tækifæri í gegn um tíðina. Við sáum Michael Jordan hrista höfuðið á móti Portland, við sáum Kobe skora 81 stig , Té-Mák skora 13 stig á 33 sekúndum og það er ekki langt síðan við sáum Carmelo Anthony skora 33 stig í einum leikhluta þegar hann var hjá Denver og jafna þannig 30 ára gamalt met Ísmannsins George Gervin.

Sunday, January 25, 2015

Hlaðvarp NBA Ísland: 35. þáttur


Í 35. þætti Hlaðvarps NBA Ísland höldum við okkur að mestu í heimahögunum. Gestur þáttarins er ritstjóri karfan.is, Jón Björn Ólafsson, sem er manna fróðastur um gang mála í Domino´s deild karla.

Baldur Beck og Jón Björn ræða yfirburði KR í deildinni í vetur, hvaða lið séu líklegust til að ná heimavallarrétti í úrslitakeppninni og kíkja svo á fallbaráttuna. Einnig eru málefni landsliðsins á dagskrá. Jón Björn fór á fund með landsliðsþjálfaranum Craig Pedersen á dögunum þar sem línur voru lagðar fyrir stærsta sumar í sögu karlalandsliðsins. Þetta og margt fleira í 35. þætti Hlaðvarps NBA Ísland.

Smelltu hér til að fara á Hlaðvarpssíðuna og nálgast þetta góðgæti.

Saturday, January 24, 2015

Hlaðvarp NBA Ísland: 34. þáttur


Þá er 34. þáttur Hlaðvarpsins okkar kominn á þar til gerða síðu. Gestur að þessu sinni er Chicago-maðurinn Snorri Örn Arnaldsson, sem ræðir stöðu mála hjá sínum mönnum og keppinautum þeirra í Austurdeildinni. Annars er víða komið við í þættinum, sem er 90 mínútur að lengd eins og allt gott bíó. Njótið vel, elskurnar. Eins og þið vitið, getið þið hlustað á alla þætti Hlaðvarpsins hérna.

Friday, January 23, 2015

Golden State er á metkeyrslu um miðja leiktíð


Það eru engin ný tíðindi, hvorki í Bandaríkjunum né hér á þessu vefsvæði, en Golden State Warriors (34-6) er alveg hrikalega sterkt og skemmtilegt körfuboltalið.

Og ekki minnkaði hrifning okkar á því í síðustu tveimur leikjum þess á heimavelli, þegar við sáum það vinna Denver með 44 stigum og rúlla svo Houston upp 126-113 í leik sem var miklu ójafnari en lokatölurnar gefa til kynna (Golden State var 30 stigum yfir þegar það hvíldi lykilmenn sína).

Þarna var Golden State ekki aðeins að sópa Houston í fyrsta skipti í rúma fjóra áratugi (og vinna alla fjóra leikina með 10+ stigum), heldur einnig setja félagsmet með 17. heimasigrinum í röð (það vann 16 í röð árið 1959 þegar það hét Philadelphia Warriors og landaði nýliða sem hét Wilt Chamberlain).

Og það sem er enn hrikalegra, er að liðið hefur nú unnið 20 leiki í röð þegar miðherjinn Andrew Bogut er með og það er sko engin tilviljun.

Andrew Bogut er líklega vanmetnasti leikmaður NBA deildarinnar.

Þið hefðuð bara átt að sjá hvernig hann fór með stjörnumótherja sinn Dwight Howard í gærkvöldi, þar sem hann byrjaði á að lækka rostann í honum með því að verja þrjú skot frá honum í sömu sókninni.

Rétt eins og Bogut er (að okkar mati) vanmetnasti leikmaður deildarinnar, er Dwight Howard svo sannarlega einn sá ofmetnasti. Það eru reyndar engin tíðindi og þeir sem hafa fylgst með á NBA Ísland síðustu árin, vita vel hvað okkur finnst um þann ágæta leikmann.

Vissirðu að síðast þegar við gáðum (ókei, ekk við, heldur Tom Haberstroh á ESPN) var Dwight Howard búinn að verja langflest skot á niðurleið í NBA deildinni - eða sautján talsins. Næsti maður var með ellefu.

Þetta væri skiljanlegt ef Howard væri átján ára, en hann verður þrítugur seinna á árinu.

Howard fór líka á kostum á óæskilegum sviðum gegn Warriors í nótt sem leið. Í stað þess að hjálpa liðinu sínu í varnarleiknum, var hann uppteknari við að fá á sig klaufavillur, sóknarvillur, tæknivillur, missa boltann og hengja haus. Hann var sem sagt sjálfum sér samkvæmur, blessaður.

Monday, January 19, 2015

Pavel fer ótroðnar tölfræðislóðir (+ myndir)


Í annað sinn í vikunni skelltum við okkur í DHL-höllina í gærkvöldi og horfðum á KR vinna körfuboltaleik. Ef skemmtilegur körfubolti, óhollt bakkelsi og ný myndavélarlinsa er ekki nóg til að draga fólk á völlinn, gerir ekkert það.

Við erum ekki frá því að sé að myndast hálfgerð hefð fyrir því að karlalið KR vinni körfuboltaleikina sem það tekur þátt í í vetur. Á fimmtudaginn sáum við KR leggja ÍR í deildakeppninni en í gærkvöldi voru það Keflvíkingar sem voru fórnarlömb Vesturbæinga. 

Sóknarleikur KR var ansi beittur og hittnin góð, svo Suðurnesjamennirnir áttu aldrei raunhæfa möguleika í þessu dæmi. Lokatölur urðu 111-90 fyrir KR og fyrir þau ykkar sem eruð ekki búin að skoða tölfræðina, getið gert það hér.

Það eina sem er fáránlegra en yfirburðir KR í deild og bikar í vetur, er gereyðingartölfræði Pavels Ermolinski. 

Eftir að hafa boðið upp á ólöglega 24/18/14/2 línu í sigrinum á ÍR á dögunum, bætti drengurinn um betur í gærkvöldi þegar hann fór inn í hálfleikinn með 8 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar! 

Eins og til að stríða okkur ákvað Pavel að sýna okkur hvað honum er sama um tölfræðina sína með því að skora bara níu stig í leiknum og sleppa þannig þrennunni, en það voru auðvitað ekki stigin sem skiptu máli. Það voru frekar þessi nítján fráköst og sextán stoðsendingar sem vöktu athygli. Þetta er svo mikið kjaftæði að það væri réttast að hringja í lögregluna.

Við höfum öruggar heimildir fyrir því að svona súrrealísk tölfræði hefur aldrei sést í úrvalsdeild karla í körfubolta. Vissulega hafa menn náð þrennu og þrennu, en það er bara ekkert eðilegt að þeir séu að fara um og yfir 15 í fráköstum og stoðsendingum leik eftir leik - og hvað þá að bjóða upp á 14/12/11 meðaltal í deildakeppninni.

Við þurfum að fara alla leið aftur til Óskars Róbertssonar hjá Milwaukee Bucks til að finna dæmi um jafn suddalega tölfræði og Pavel er að bjóða upp á.  Roberson er sem kunnugt er (er það ekki?) eini leikmaðurinn í sögu NBA sem hefur verið með þrennu að meðaltali yfir heilt tímabil (10+ stig, 10+ fráköst og 10+ stoðsendingar) árið 1962. 

Magic Johnson var ekki langt frá þessu 20 árum síðar (18,6 stig, 9,6 frák og 9,5 stoð), en það að hann skuli ekki hafa náð þessu, segir okkur hvað það er nær ómögulegt. Það yrði ótrúlegt afrek ef Pavel næði að klára það að vera með þrennu að meðaltali í deildinni í vetur. 

Tölurnar sem hann er að bjóða upp á eru svona eins og þú hefðir boðið langömmu þinni að taka leik í NBA 2K15, þar sem þú hefðir valið að vera með bandaríska landsliðið með LeBron James í fararbroddi en gamla konan - elliær, heyrnarlaus og vitlaus - hefði valið Coventry City.

Já, það þarf eitthvað mikið að breytast í körfuboltalandslaginu á Íslandi ef KR á ekki að hlaupa í burtu með bikarana sem í boði eru. Og þegar og ef að því kemur, verður það Pavel Ermolinski sem sér um að passa þá.

Aðeins um Russ


Russell Westbrook er dýnamískasti körfuboltamaður í heimi, það er staðreynd. Hann er því alltaf að eignast fleiri og fleiri aðdáendur, sem er hið besta mál, hann á það skilið.

NBA deildin á marga frábæra skemmtikrafta. Undanfarin misseri hafa menn eins og LeBron James og Kevin Durant ekki aðeins látið okkur fá gæsahúð með tilþrifum sínum, heldur hafa þeir aukinheldur barist um titilinn Verðmætasti leikmaður ársins.

Þeir félagar eru hinsvegar ekki efst á listanum að þessu sinni af mismunandi ástæðum og útlit fyrir að nýtt nafn verði ritað á MVP-styttuna góðu í vor.  Tveir menn eru þar oftast nefndir til sögunnar, þeir Stephen Curry og James Harden. Það er réttmætt að okkar mati. Þeir eru tveir af þeim leikmönnum sem hafa skarað hvað mest fram úr í toppliðunum í Vesturdeildinni.

Kevin Durant fellur næstum sjálfkrafa út úr þessari umræðu af því hann er búinn að missa úr nokkuð marga leiki og í raun og veru má segja það sama um hann Westbrook vin okkar.

Strangt til tekið, ætti Westbrook samt að vera með í þessari umræðu, því hann hefur farið hamförum að undanförnu.

Við eigum eftir að sjá til í vor hvað Oklahoma tekst að vinna marga leiki, hvort þeir Russ og KD verða heilir það sem eftir er - og hvort þeir halda áfram að spila svona vel.

Russell Westbrook er búinn að spila sig inn í hjörtu ansi margra körfuboltaáhugamanna og kvenna og skemmst er að minnast yfirlýsingar Kjartans Atla Kjartanssonar í hlaðvarpinu hjá okkur, þegar hann sagði Westbrook að sínu mati besta leikstjórnanda heimsins í dag.

Það má sannarlega rífast um það í margar vikur, en að okkar mati segir það sína sögu um spilamennsku Westbrook að hann skuli vera kominn inn í þessa umræðu. Þar hefði hann ekki verið fyrir tveimur árum síðan.

Hann er gríðarlega umdeildur leikmaður og þeim sem er illa við hann, rækta það hugarfar oft sérstaklega. Þetta er bara öfund og lélegur mórall - ekkert annað.

Við vonum að Westbrook og aðdáendur hans verði ekki sárir þegar við segjum þetta, en hann á því miður aldrei eftir að verða kjörinn MVP í NBA deildinni.

Það er alveg sama hvað Oklahoma vinnur marga leiki og hvað hann setur upp sóðalegar tölur, umdeildur leikstíll hans mun aldrei hljóta náð fyrir augum allra kjósenda.

En það er einmitt leikstíllinn sem gerir Russ að Russ. Hann er allt í senn hamhleypa, atmenni og berserkur sem ræðst linnulaust á andstæðinga sína og sýnir enga miskunn. Það er eins og hann verði aldrei þreyttur og sé bara með einn gír; allt í botni - alltaf!

Sunday, January 18, 2015

Kobe syngur Frozen


Stjarna er að fæðast í Minnesota


Þið vitið hvað við eigum það til að vera skeptísk á nýliða í NBA deildinni. Þessi vantrú okkar á unga fólkinu stafar af því að við höfum brennt okkur á að trúa einhverju skrumi um háskólaleikmenn sem hafa svo ekki gert neitt nema drulla á sig þegar þeir koma í deild hinna fullorðnu.

Andrew Wiggins var einn af þessum ungu mönnum sem óhemju miklar vonir voru bundnar við. Fólk var farið að líkja honum við LeBron James löngu áður en hann spilaði sinn fyrsta NBA-leik og talað var um að hann væri mesta efni sinnar kynslóðar í súperstjörnu í NBA deildinni.

Heilladísirnar reyndust ekki á bandi Wiggins á fyrstu vikunum sínum í NBA deildinni, því í stað þess að spila með LeBron James í góðu liði í Austurdeildinni, var honum skipt í kuldann í Minnesota í til félags sem er bæði lítið og frægt fyrir að vita ekkert hvað það er að gera.

Æði.

Jæja, það góða við þetta hjá Wiggins var þó að það vantaði ekki spilamínúturnar. Vitað var að Úlfarnir yrðu ekki beint sterkir í vetur, en eins og venjan er á þeim bænum, meiddist megnið af lykilmönnum liðsins strax í haust og því hefur nánast hver sem er getað fengið mínútur hjá Minnesota ef hann á annað borð er með púls.

Það má ef til vill deila um það hvort það gerir Wiggins gott að læra fyrstu skrefin sín í NBA deildinni með gjörsamlega handónýtu liði, en eftir að hafa verið tiltölulega rólegur fyrstu vikurnar á ferlinum, er hann nú heldur betur að minna á sig.

Það er dálítið leiðinlegt fyrir Wiggins að þessi fína spilamennska hans sé til einskis, því ekki vinnur liðið hans leiki.

Það er hinsvegar mjög jákvætt að pilturinn sé að leyfa okkur að skyggnast inn í framtíðina og sýna okkur að ef til vill geti hann staðið undir einhverjum af lofræðunum sem ortar voru til hans í allt sumar.

Við finnum alltaf jafn mikið til með stuðningsmönnum Úlfanna, sem hafa mátt þola gengdarlaust mótlæti og vonbrigði síðustu ár, en nú gæti farið að sjá til sólar hjá þeim ef Wiggins heldur áfram að spila svona eins og engill.

Við skrifuðum þessa stuttu hugleiðingu í tilefni þess að Wiggins átti sinn besta leik á ferlinum í nótt þegar hann skoraði 31 stig, hirti 9 fráköst, gaf 4 stoðsendingar, varði 3 skot og stal einum bolta í óvæntum útisigri Minnesota á Denver.

Við gáfum það í kjölfarið út á Twitter að nú væri Wiggins-vagninn formlega kominn á fulla ferð, enda var mikið talað um piltinn einmitt á þeim miðli í kjölfar þessarar góðu frammistöðu hans.

Sjáðu bara hvað Wiggins er búinn að spila eins og engill í janúar.

Þetta lofar óhemju góðu og verður vonandi til þess að tala stuðningsmenn Úlfanna inn af syllunni sem þeir hafa staðið á að undanförnu. Kannski er bara von í þessu eftir allt saman.

Friday, January 16, 2015

Myndir frá KR-ÍR


KR og ÍR buðu okkur formlega gleðilegt ár með tvíframlengdri bombu í DHL-höllinni í gærkvöldi. ÍR-ingar virtust vera búnir að gleyma því að þeir gætu ekkert í körfubolta og áttu í fullu tré við meistarana. Neyðarlegar tilraunir þeirra til að verja forskotið sitt á lokamínútunum í venjulegum leiktíma mistókust algjörlega og KR nýtti sér það. Lokatölur 113-110 fyrir KR.

Það er freistandi að lýsa því yfir að ÍR hafi sýnt okkur að það sé miklu sterkara en staða þess í deildinni segir til um, en það er leikrit sem við höfum öll séð oft áður. Tölfræði-hundarnir fengu sannarlega nóg fyrir peninginn í þessum leik.

Pavel bauð upp á 24 stig, 18 fráköst og 14 stoðsendingar hjá KR - eins og það sé bara alveg eðlilegt - og Matthías Sigurðarson leikstjórnandi Breiðhyltinga hlóð í 29/12/9. Við þökkum strákunum kærlega fyrir þennan nýársglaðning þeirra í tölfræðisafnið og fögnum því að karfan sé aftur farin á fullt á nýju ári.

Það voru teknar einar sjötíu myndir af þessu eins og þið sjáið hérna fyrir neðan. Gjörið svo vel og skoðið þær eins og þið viljið, við vitum að þið farið ekkert illa með þær þó þær séu ómerktar.

Sunday, January 11, 2015

Til hamingju með daginn hr. Dawkins (58)Knicks upp á háaloft


Það mætti halda að við værum með New York á heilanum, en þetta verður það síðasta sem skrifað verður um Knicks á leiktíðinni nema Madison Square Garden brenni til grunna. Við þurftum bara að koma frá okkur einni athugasemd í viðbót, sem okkur flaug í hug þegar við fylgdumst með "óslitinni sigurgöngu" Detroit Pistons og Philadelphia 76ers.

New York Knicks 2015 er sorglegasta körfuboltalið sem við höfum séð.

Philadelphia er með tvo eða þrjá NBA leikmenn í sínum röðum, en það hefur nú unnið fleiri leiki en New York. Philadelphia er að tánka, meðan New York ætlaði upphaflega að reyna að gera eitthvað í deildakeppninni. Og það þýðir ekkert að fela sig á bak við meiðsli.

Við vitum alveg að New York er líklega ekki lélegasta lið allra tíma, en það er klárlega það sorglegasta. Einhver lið hljóta að teljast lélegri en 2015 útgáfan af Knicks, en þau eru ekki mörg. Við erum að tala um það að New York er orðið svo lélegt að við erum farin að hata allt við félagið! Réttast væri að loka þessari vonlausu sjoppu.

Yfir og út á Knicks-skrif í bili.

"... Og haldiði svo kjafti!"

Saturday, January 10, 2015

Gagnrýnum Griffin (hvern annan?)


Kraftframherjar eiga fyrst og fremst að hirða fráköst. Það getur vel verið að það sé í tísku í NBA deildinni að vera með kraftframherja sem eru 3ja stiga skyttur, en ef þeir frákasta ekki eins og menn, falla þeir fljótlega úr náðinni hjá NBA Ísland.

Því er það ekkert gamanefni fyrir okkur að tilkynna að Blake Griffin er hættur að frákasta eins og karlmaður og er farinn að frákasta eins og spjátrungur, gunga og lydda - af fjarka að vera. Það eina sem Griffin hefur sér til málsbóta, er að hann er gjörsamlega að missa sig í stoðsendingunum. Hann er orðinn spielmacher númer tvö hjá Clippers og finnur félaga sína sem aldrei fyrr í sókninni.

Á meðan Griffin er með handónýt 7,8 fráköst að meðaltali í leik í vetur, sem er það langlægsta sem hann hefur boðið upp á á ferlinum, er hann kominn upp í fimm stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann er sérstaklega búinn að vera ötull í sendingunum upp á síðkastið, en hann er með 21 stig, 7,5 fráköst og 7,1 stoðsendingu að meðaltali í síðustu tíu leikjum sínum. Þetta eru LeBron-legar tölur.

Hann verður samt að pappíra sig í fráköstunum. Þetta er maður sem hirti 12 fráköst að meðaltali í leik á nýliðaárinu sínu.

Hann getur miklu betur og það er engin afsökun að hann sé að spila við hliðina á frákastahæsta manni deildarinnar (DeAndre Jordan með 13,6 fráköst í leik). Chris Paul hirðir nærri fimm fráköst í leik og ekki kvartar hann. Jú, hann er reyndar alltaf að kvarta yfir einhverju, en ekki fráköstum.

Annars ætlar það aldrei að detta úr tísku að setja Griffin undir smásjá og finna að öllu sem hann gerir inni á vellinum. Það kemur okkur á óvart hve fáir hafa skammast yfir því hvað Griffin er að gefa eftir í fráköstunum, en hver einasti NBA penni í heiminum fer annað slagið að besservissast eitthvað út af sóknarleiknum hans eða skotvali.

Við erum ending undantekning á þessu eins og þið hafið tekið eftir, en kannski hefur ekki farið mikið fyrir slíkri umfjöllun upp á það allra síðasta ef því við erum hálf vonsvikin yfir spilamennsku Clippers í vetur, þó liðinu gangi þannig séð ágætlega.

Það er bara svo hrikalega gaman að setja inn skotkort og nittpikka yfir Blake Griffin, svo við skulum bara vinda okkur beint í þá skemmtun. Griffin var ekki sérlega beittur skotmaður þegar hann kom inn í deildina og var í vandræðum með skotið allar götur til ársins 2013. Hérna sjáið þið skotkortið hans frá þeirri leiktíð, sem var hans þriðja á ferlinum.

Skotnýting Griffin þegar allt er talið var svo sem ljómandi fín árið 2013 (tæp 54%) út af öllum troðslunum og sniðskotunum, en þá var hann ekki nema 35% skytta af millifærinu svokallaða.Meintar bætingar Blake Griffin í stökkskotum af millifærinu hafa verið óhemju vinsælt umræðuefni í sjónvarpsútsendngum síðustu tvö árin og það er svo sem allt í lagi. Það er ekki eins og pilturinn hafi ekki verið að bæta sig.

Hérna er skotkort frá því undir lok janúar á síðustu leiktíð, þar sem sjá má að grænum svæðum fer fjölgandi. Græn svæði tákna skotnýtingu yfir meðaltali í deildinni á umræddum reit á vellinum, gult þýðir á meðaltali deildarinnar en rautt þýðir að leikmaðurinn sé undir meðalnýtingu deildarinnar.

Friday, January 9, 2015

Blaðamaður losnar undan oki Knicks


Blaðamennirnir á New York Times er búnir að hafa nóg að gera við að fylgjast með liði Knicks í NBA deildinni undanfarnar vikur. Ætli þeir séu ekki búnir að tæma orðakvótann þegar kemur að því að lýsa vanhæfni liðsins, sem hefur nú tapað 24 af síðustu 25 leikjum sínum í deildinni og hefur aldrei í sögunni byrjað eins illa.

Líklega hefur ákvörðunin verið tekin með tungu í kinn, eins og Bandaríkjamenn orða það, en yfirmenn íþróttadeildarinnar á Times hafa gefið það út að þeir ætli að leyfa blaðamanninum sem starfað hefur í kring um Knicks að einbeita sér að öðrum verkefnum framvegis. Þeir hafa samúð með manni, sem hlýtur að vera orðinn rosalega leiður á lífinu eftir að vera búinn að elta aulana í Knicks í tapleiki út um allt land.

Það er augljóst hvað vakir fyrir Times-mönnum með þessu útpili. Þeir eru einfaldlega að sýna það í verki hvað þeim er orðið óglatt af að horfa upp á Knicks gera sig að fífli kvöld eftir kvöld. Við erum nú þegar búin að skrifa allt of mikið um þetta lið eins og þið vitið, en við máttum til með að deila þessum greinarstúf með þeim ykkar sem kunna að hafa misst af honum.

Það verður aldrei þreytt að fylgjast með körfuboltafélaginu New York Knicks tortíma sjálfu sér.


Thursday, January 8, 2015

Svo eðlilegt eitthvað


Blygðunarlaus Ballmer


Sprilljarðamæringurinn og Clippers-eigandinn Steve Ballmer hefur vakið mikla athygli fyrir að lifa sig inn í leiki sinna manna og hefur verið fastagestur á hliðarlínunni síðan hann keypti félagið á 260 milljarða í fyrra.

En Ballmer er ekki bara í fílíng þegar hann horfir á körfubolta, hann fer líka á límingunum ef hann heyrir afspyrnu lélega tónlist eins og þetta myndband af honum frá því í gær sýnir. Hvað ætli hann myndi gera ef hann kæmi í Ásgarðinn? Og hversu gaman væri að vera svona blygðunarlaus og hann?

Körfuboltaannáll Skálfanda 2014


Sportmógúllinn Henry Birgir Gunnarsson á Fréttablaðinu/Vísi hefur komið sér upp hefð sem gengur út á að endurvekja íþróttaþáttinn sinn Skjálfanda á X-inu 97,7 á gamlársdag og fara þar yfir árið í boltagreinunum stóru. Gestir hans í körfuboltaprógramminu um daginn voru Kjartan Atli Kjartansson og Baldur Beck, en þeir renndu yfir körfuboltaárið hér heima og erlendis í léttum dúr.

Wednesday, January 7, 2015

Veðurspá fyrir Vesturdeildina


Um helgina tókum við stöðuna á Austurdeildinni í NBA og því helsta sem þar var að frétta og þá er ekki annað eftir en að hella sér í sterkari og skemmtilegri deildina í vestri.

Þau ykkar sem eruð hrifnari af Austurdeildinni og liðunum þar eruð örugglega orðin alveg rosalega leið á þessum vesturs-fasisma sem er í gangi hér á NBA Ísland, en það er hætt við því að þið verðið bara að sætta ykkur við hann eitthvað lengur. Vesturdeildin heldur bara áfram að verða sterkari og sterkari.

Ætli við höldum okkur ekki við svipaða aðferðafræði og í síðasta pistli og byrjum í kjallaranum. Þar er reyndar ansi lítið að frétta. Það er tilgangslaust að eyða bleki í lið eins og Úlfana og Lakers, þar er bara ekkert að frétta.

Svipaða sögu er í raun að segja af Sacramento og Denver: Sacramento missti algjörlega flugið þegar DaMarcus Cousins meiddist og fannst svo upplagt að reka þjálfarann í framhaldinu og láta Tyrone Corbin taka við.

Við ætlum að leyfa okkur að fullyrða að forráðamenn Kings eru eina fólkið í veröldinni allri sem fannst þetta góð hugmynd.

Denver heldur áfram að troða marvaðann frekar illa og það eina sem liðið hefur náð að gera vel í vetur er að gera hörðustu stuðningsmenn sína gjörsamlega geðveika.

Þegar hér er komið við sögu, fer sagan að verða áhugaverðari. Í níunda og tíunda sæti í Vesturdeildinni sitja tvö gjörólík lið á ólíkri leið með um það bil 50% vinningshlutfall.

Brúnar og félagar í New Orleans neita að gefast upp og hanga inni í myndinni með sæti í úrslitakeppninni þrátt fyrir alla gallana sem eru á liðinu. Málið er að það er hægt að fylla upp í helvíti mörg göt með leikmanni eins og Anthony Davis.

New Orleans verður mjög líklega á þessu sama róli fram á vorið og er og verður einhverjum breytingum frá því að gera eitthvað í þessari ógnarsterku Vesturdeild.

Hitt liðið í fimmtíu prósentunum er svo Oklahoma City, sem er óðum að komast á beinu brautina eftir hrikalegt meiðslabasl í allt haust.

Ein helsta ástæða þess að við biðum með það þangað til núna að gera Vesturdeildina upp, var sú að okkur langaði að sjá hvað myndi gerast þegar Golden State tæki á móti Oklahoma í Oakland á mánudagskvöldið.

Við tippuðum á að sá leikur ætti eftir að segja okkur mikið um stöðu mála í vestrinu og hann gerði það svo sem, þó hann hafi valdið okkur miklum vonbrigðum.

Við komum meira inn á þennan leik seinna í þessum pistli, en skömmu áður en hann var skrifaður vippaði Oklahoma sér á leikmannamarkaðinn eins og þið munið og fékk til sín vandræðagemsann Dion Waiters frá Cleveland.

Við verðum að segja að við erum ósköp lítið hrifin af þessum viðskiptum. Oklahoma þurfti svo sem ekki að borga mikið fyrir Waiters og vissulega er hann ungur ennþá, en við setjum spurningamerki við hugarfarið hjá honum og í raun almenna getu hans sem körfuboltamanns.

Sunday, January 4, 2015

Erfiður áratugur hjá Úlfunum


Hversu líklegt er að við fáum að sjá Minnesota Timberwolves í úrslitakeppninni í vor? Ekki mjög. Raunar eru betri líkur á því að sjá fljúgandi svín keppa í listdansi á skautum í helvíti en að Úlfarnir komist í úrslitakeppnina. Og það er hæpið að breyting verði þar á á allra næstu árum.

Við verðum reyndar að hafa það í huga að það stóð nú aldrei til hjá Úlfunum að fara í úrslitakeppnina í vor. Hugmyndin var að búa til gott körfuboltalið með þeim Ricky Rubio, Kevin Love og Nikola Pekovic. Þið munið öll hvernig það gekk, svona inn á milli ferða á slysó.

Því var hætt við það allt saman, Ástþór seldur og stefnan sett á að byrja upp á nýtt og byggja upp nýtt lið skipað ungum og efnilegum leikmönnum. Í fimmtánþúsund-sjöhundruðfimmtugasta-
ogáttunda skiptið.

Kannski er þetta að verða dálítið þreytt aðferðafræði, en svona er þetta víst hjá Úlfunum og fólkið í Minnesota virðist hafa keypt þetta plan. Að ættleiða hvolpana efnilegu og styðja þá af stað út í lífið. Að byrja enn og aftur upp á nýtt.


En hvað erum við að tuða um Úlfana núna? Nú þegar félagið er í enn einum öldudalnum, aðeins nokkrum mánuðum eftir að það var einn mest spennandi klúbburinn í NBA. Liðið sem allir fylgdust reglulega með og farið var að valda stuðningsmannaframhjáhöldum og vagnhoppi daglega.

Jú, í því sem við fórum að hugsa um efniviðinn hjá Úlfunum, áttuðum við okkur um leið á því hvað þessir strákar eins og Andrew Wiggins eiga óhemju langt í land áður en þeir búa til lið sem einhver þarf að taka alvarlega. Það þýðir að sama skapi að klúbburinn sem hefur verið lengst allra utan úrslitakeppninnar í NBA, þarf enn að bíða eitthvað lengur.

Minnesota hefur nefnilega ekki komist í úrslitakeppnina síðan 2004 og því verða ellefu ár í vor síðan liðið fékk að spreyta sig á alvörunni. Þetta ku vera næstlengsta lægð þessarar tegundar síðan 16 liða úrslitakeppnin var tekin í gagnið með núverandi fyrirkomulagi árið 1984.

Aðeins Golden State getur státað af öðrum eins aulagangi, þegar liðið missti af úrslitakeppninni tólf ár í röð frá árinu 1995 til 2007. Fólk gleymir því kannski í allri gleðinni við Flóann í dag, að Warriors var eiginlega ekki búið að gera neitt annað en gera sig að fífli í rúman áratug þegar það svo loksins komst í úrslitakeppnina árið 2006.

Eins og mörg ykkar muna, var það svo reyndar úrslitakeppni fyrir allan peninginn, þegar liðið gerði sér lítið fyrir og sló efsta lið deildakeppninnar út í fyrstu umferðinni (Dallas, sem vann hvorki meira né minna en 67 leiki í deildakeppninni þann veturinn).

Það hljómar kannski ekkert svakalega langt, þannig, þessi ellefu ár án úrslitakeppni hjá Úlfunum. En bíðið þið bara.

Eruð þið búin að gleyma því hvernig Minnesota var mannað þegar það fór síðast í úrslitakeppni? Og munið þið hverjir mótherjar þess voru? Hafið ekki áhyggjur, við erum hérna til að hjálpa þeim sem muna þetta ekki.

Minnesota-liðið árið 2004 gerði nefnilega miklu meira en að komast í úrslitakeppnina. Það fór alla leið í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar þar sem það þurfti reyndar að láta í minni pokann gegn pappírs-pésunum í Los Angeles Lakers.

Úlfarnir voru með gríðarlega öflugt lið þarna fyrir tíu árum síðan og unnu 58 leiki í deildakeppninni, sem er langbesti árangur í sögu félagsins. Fjögur bestu árin hjá Úlfunum voru árin 2000 (50 sigrar), 2002 (50 sigrar), 2003 (51 sigur) og téð 2004 (58 sigrar).

Minnesota er eitt af yngstu félögunum í NBA deildinni og var ekki stofnað fyrr en 1989. Fyrstu árin í deildinni voru skiljanlega ansi mögur, þar sem liðið var að vinna 15-20 leiki, en svo fór ástandið hægt og bítandi að skána.

Veðurspá fyrir Austurdeildina


Lesendur NBA Ísland geta alltaf treyst á að fá að vita með reglulegu millibili hvað klukkan slær í NBA. Eins og þið vitið flest, er narratífið fljótt að breytast í þessari dásamlegu deild. Stundum þarf ekki annað til en að einn eða tveir leikmenn verði fyrir því óláni að meiðast og þá getur allt farið upp í loft.

Við setjumst reglulega niður og skoðum stöðu mála í deildinni og reynum að veita ykkur yfirsýn á 30 liða deild þar sem fjöldi leikja fer fram á hverju kvöldi og fólk því fljótt að detta út úr taktinum. Við höfum kallað þetta vörutalningar. 

Nú ætlum við að henda í smá áramótapistil, en að þessu sinni er hann ekki aðeins ætlaður sem vörutalning og stöðutékk, heldur eru að verða til nokkrar áhugaverðar fléttur sem vert er að skoða nánar. Eitt það allra áhugaverðasta við NBA deildina - alveg eins og t.d. ensku úrvalsdeildina - er að taka eftir því og fylgjast með því þegar ný lið og nýir leikmenn ryðja sér til rúms í deildinni.

Fyrst beinum við sjónum okkar að Austurdeildinni og þróun mála þeim megin. Þar er að eiga sér stað merkileg þróun, þó megnið af liðunum þar sé í ruslflokki. Við botninn þar er New York, sem er búið að tapa 20 af 21 þegar hér er komið við sögu og er svo mikið drasl að stuðningsmenn þess eru farnir að þykjast vera Nets-aðdáendur.

Við erum reyndar búin að skrifa nóg um hamfarir Knicks og látum það því duga, þó það sé bíó út af fyrir sig að horfa á þetta lið tapa. 

Annað lið á botninum í austrinu er Detroit. Þið hafið heyrt okkur hrauna yfir þann ágæta klúbb með reglulegu millibili í vetur, en nú eru skondnir hlutir að gerast þar á bæ.

Þið munið að félagið borgaði Josh Smith fyrir að hætta að mæta í vinnuna um daginn. Þegar Smith fór til Houston, var Detroit búið að tapa fjórum leikjum í röð, sem var svo sem bara í ætt við annað hjá liðinu í vetur. 

Síðan Smith fór, hefur liðið hinsvegar snúið svona hressilega við blaðinu og er allt í einu búið að vinna fjóra leiki í röð - og það stórt. Detroit var 5-23 þegar Smith fór og var einn og hálfan mánuð að vinna fjóra leiki í upphafi leiktíðar (þó það væri 3-6 eftir fyrstu tvær vikurnar), en núna hefur það skyndilega unnið fjóra í röð á aðeins einni viku.

Þýðir þetta að Detroit sé allt í einu hætt að vera sorglegt körfuboltafélag? Nei, en það var kominn tími til að einhverjir af stuðningsmönnum Pistons hættu við að stökkva í sjóinn. Það er alveg hægt að búa til smá stemningu í kring um brotthvarf Josh Smith og ef stuðningsmönnunum leiðist, geta þeir líka horft á Houston-leiki sér til skemmtunar. 

Saturday, January 3, 2015

Brelluskot Martins gegn BretumÍþróttamaður ársins 2014


Það er óþarfi að fara yfir afrekaskrá Jóns Arnórs Stefánssonar á árinu, við látum öðrum miðlum það eftir, en hún er sannarlega glæsileg. Flestum er þykir líklega árangur landsliðsins undir hans stjórn bera hæst, enda er landsliðið á leið á stórmót í fyrsta skipti.

Jón Arnór hefur verið einn allra besti íþróttamaður þjóðarinnar í mörg ár og því er hann vel að því kominn að vera útnefndur íþróttamaður ársins 2014. Og það eftir harða keppni við Gylfa Sigurðsson, sem auk þess að spila í sterkri deild eins og Jón Arnór, var lykilmaður á bak við landsliðsafrek sem við höfum ekki séð áður. Þessir piltar báru höfuð og herðar yfir aðra á árinu að okkar mati.

Til hamingju Jón Arnór.

Patreksblús


Það er svo stutt á milli í þessu...

Patrick Christopher er lengi búinn að eiga sér draum um að komast í NBA deildina. Búinn að spila í Frakklandi, Tyrklandi og D-deildinni. Hann var á ágætis launum í Evrópu, en ákvað að semja við lið Iowa í D-deildinni til að eiga betri möguleika á að uppfylla drauminn stóra - að spila í NBA.

Christopher hefur m.a. spilað í sumardeildinni með Kings, Grizzlies og Pistons, en hefur alls verið látinn fara frá fimm félögum í NBA sem töldu sig ekki geta notað hann.

Fyrir nokkrum dögum hringdi umboðsmaðurinn í hann og sagði honum að Utah Jazz vildi fá hann. Nú var hann kominn í alvöruna.

Fyrsti leikurinn hans sem NBA leikmaður kom 27. desember sl. og tveimur dögum síðar varð draumurinn svo endanlega að veruleika þegar hann skoraði fyrstu körfuna sína sem NBA leikmaður í leik Jazz gegn Clippers í Los Angeles. Þar spilaði Christopher fyrir framan 50 vini og ættingja frá heimaborg sinni Compton. Rúsínan í pylsuendanum, ef einhvern tímann hefur fundist rúsína í pylsuenda.

Öskubuskuævintýrið hélt svo áfram í nótt, þar sem hann fékk sinn fyrsta leik í byrjunarliði vegna meiðslanna sem hrjá bakverði Jazz.

En þegar fimm mínútur voru liðnar af leik Jazz og Atlanta í nótt...

Búmm!

Lendir illa, snýr upp á sig og fór úr hnjálið.

Game over.

Þeir sögðu að hann hefði verið merkilega brattur inni í klefa eftir þetta, en þetta var ljótt atvik. Liðsfélagar hans litu undan og grettu sig. Voru svo slegnir út af laginu að þeir lentu undir 28-9 í leiknum.

Það er óþarfi að fara í grafgötur með þetta. Þetta var sénsinn hans, en nú er óþægilega líklegt að hann sé farinn, búinn.

Hvar er sanngirnin í þessu?

Köld Mamba