Thursday, January 29, 2015

NBA Ísland tekur rúnt í Austurdeildina


Þeir sem hafa fylgst með NBA deildinni í nokkur ár, vita að Stjörnuleikurinn í febrúar er ekki fullkominn mælikvarði á það hvaða körfuboltamenn eru bestir í heimi. Þeir sem hafa lesið NBA Ísland í nokkur ár vita líka að við hérna á ritstjórninni töpum engum svefni yfir Stjörnuleiknum og umstanginu í kring um hann.

Þetta sinnuleysi okkar má rekja til tveggja hluta. Því hvernig staðið er að því að velja leikmenn í Stjörnuleikinn og svo auðvitað þeirri staðreynd að leikurinn sjálfur er oftast bara fíflagangur, sem aðeins hefur færst í aukana á 21. öldinni (boltinn sem var spilaður í Stjörnuleikjunum undir stjórn manna eins og Isiah Thomas og Magic Johnson minnti a.m.k. á körfubolta).

Vegna þessa ætlum við ekki að eyða of mörgum orðum í Stjörnuleikinn. Bara sú staðreynd að Kobe Bryant og Carmelo Anthony hafi verið júróvisjónaðir í byrjunarliðin lætur okkur æla í munninn.

Nei, við skulum heldur beina sjónum okkar að deildakeppninni og þeim ferlum sem þar eru í gangi þessa dagana. Það sem vakið hefur hvað mesta athygli á ritstjórn NBA Ísland undanfarnar vikur er sápuóperan um Hið undarlega mál doktors Jekyll og herra Hyde sem er að eiga sér stað í Chicago.

Spilamennska Chicago Bulls hefur ekki aðeins verið beint úr smiðju Jekyll og Hyde að undanförnu, heldur eru slúðrið og dramatíkin í kring um liðið með því undarlegra sem við höfum orðið vitni að. 

Eins og lengra komnir vita, er ESPN-báknið ekki alsaklaust af því að reka áróður fyrir hinu og þessu annað slagið, en það sem við heyrðum í síðasta Hlaðvarpi Bill Simmons var með því grófasta sem við höfum heyrt. 

Í síðari parti hlaðvarpsins tók Simmons spjall við körfuboltapennann ágæta Zach Lowe sem skrifar fyrir Grantland, en í staðinn fyrir að biðja Lowe að greina hina ólíku persónuleika Bulls á körfuboltavellinum, ákvað Simmons að nota tímann til þess að kasta fram öllu því slúðri sem hann gat fundið til um Chicago-liðið og bókstaflega hélt því fram að það logaði allt stafna á milli hjá félaginu. 

Lowe kannaðist við eitthvað af þessu, en öfugt við Simmons, reynir hann að taka sig alvarlega sem fjölmiðlamann og reyndi því að segja sem minnst, þó hann kannaðist vissulega við að hafa heyrt eitthvað um óeiningu innan raða Bulls.

Nú má vel vera að allt sé farið í bál og brand á skrifstofunni hjá Bulls, það gæti útskýrt eitthvað af greinilegum vandræðum liðsins, en við höfum sjaldan eða aldrei heyrt eins blatant málflutning og Bill Simmons bauð upp á í umræddu hlaðvarpi. Við hristum bara höfuðið. Þar með erum við ekki að segja að við séum eitthvað skárri, en við erum heldur ekki partur af stærsta íþróttafréttabatteríi heims eins og BullStofa Bill Simmons (The BS Report).

Hvað sem öðru líður erum við nokkuð sammála þeim Simmons og Lowe þegar við lýsum yfir áhyggjum okkar af liði Chicago. Það er ekki lengur eitt besta varnarlið deildarinnar og virðist eiga erfitt með að "finna sig" þó það sé vel mannað. Þegar það er ekki að vinna lið eins og San Antonio og Golden State, er það að tapa fyrir liðum eins og Orlando og Utah eins og þið sjáið hérna til hliðar.

Þó við séum ekki hrifin af því hvað Tom Thibodeau þjálfari virðist alltaf keyra lykilmenn sína ofan í flórinn með allt of miklum spilatíma í deildakeppninni, er það ekkert launungarmál að maðurinn er ljómandi fínn þjálfari. 

Ef eitthvað er hinsvegar að marka allt þetta slúður sem er í gangi í fjölmiðlum vestra, virðist hann ekki vera auðveldasti maðurinn að eiga við á persónulega sviðinu og ef svo er, á hann margt líkt með forráðamönnum Bulls, sem eru frægir fyrir að búa til vesen úr engu allar götur aftur til daga Michael Jordan hjá félaginu.

Þeir hörðustu í slúðrinu vilja meina að dagar Thibodeau hjá félaginu séu hreinlega taldir og hann verði því látinn fara á næstu dögum. Það er skiljanlegt að menn séu kannski ósáttir við brokkið á liðinu, en að reka þjálfarann á þessum tímapunkti? 

Það væri kannski dálítið hart í ljósi þess hvað hann hefur verið að gera fína hluti af vanefnum með þetta lið í öllum meiðslunum síðustu ár. Að reka hann loksins þegar hann er að verða kominn með sæmilega heilt lið í hendurnar? Það væri í besta falli undarlegt, þó annað eins sé svo sem daglegt brauð í NBA deildinni.

Hvað okkur varðar - og hvort sem Tom Thibodeau verður rekinn eða ekki - viljum við bara sjá Chicago stappa í sig stálinu og fara að spila eins og það á að geta. C

hicago á að hafa alla burði til að vinna Austurdeildina og ykkur að segja, yrðum við meira en vonsvikin ef liðið gerir það ekki. Við vitum ósköp vel að Cleveland er með rosalegar stjörnur í sínum röðum, en Chicago er einfaldlega sterkara körfuboltalið á pappírunum þegar allt er talið þó það sé ekki með besta körfuboltamann heims á sínum snærum.

Þeim fer nú fjölgandi sem hoppað hafa aftur á Cleveland-vagninn eftir að LeBron James sneri aftur úr tveggja vikna fríinu sínu á Benidorm og byrjaði aftur að spila eins og besti körfuboltamaður í heimi. 

Þið munið að við skrifuðum Cleveland út af sakramentinu fyrir löngu síðan, en það var reyndar Cleveland sem var að búið að missa miðherjann sinn út leiktíðina, lið sem var eitt versta lið deildarinnar í vörninni, lið sem vissi ekkert hvað það ætti að gera við Kevin Love - og það sem verst var - lið sem var með LeBron James á 70% styrk.

En ekki halda að við ætlum að taka Reykhás á þetta og skipta um skoðun þó við höfum fullt vald til þess nú þegar svona miklar breytingar hafa átt sér stað hjá liðinu. 

Nei, við ætlum að standa á okkar, þó möguleikar Cleveland í dag - með 100% LeBron, hressari Irving og Ástþór, Mozgov í miðjunni og slettu og slettu frá JR Smith og Iman Shumpert - séu umtalsvert betri en þeir voru fyrir áramót þegar liðið var satt best að segja í ruglinu.

Við erum mjög hrifin af Mozgov og því sem hann kemur með inn á borð hjá Cleveland. Það er ekki lítill faktór í varnarleik liðsins að vera með svona tröll sem getur passað miðjuna. 

J.R. Smith hefur aldrei verið í uppáhaldi hjá okkur og tekur alltaf meira af borðinu en hann setur á það. Hann hefur verið í byrjunarliði Cleveland upp á síðkastið en það hlýtur að vera tímabundið. Við bindum meiri vonir við Shumpert og varnarleikinn hans. Hann getur stoppað í einhver af þeim götum sem verið hafa í varnarleik liðsins ef hann heldur heilsu blessaður.

Þið takið eftir því hvað við fjöllum mikið um Atlanta Hawks. Við erum því miður um borð í sama bátnum og aðrir miðlar sem fjalla um NBA deildina - við gefum Haukunum kúdós á að vera að vinna fullt af leikjum, en okkur er nákvæmlega sama um hvað þeir eru að gera þangað til þeir fara að vinna leiki í annari umferð úrslitakeppninnar.

Það er í rauninni skammarlegt að pjúristar eins og við þykjumst vera, skulum ekki veita Atlanta neina athygli og nennum ekki einu sinni að horfa á leikina þeirra. Aumingja Atlanta er bara í þeim hrikalega erfiðu sporum að vera Atlanta og það er bara öllum skítsama um Atlanta. Alveg sama hvort það er fólk á Raufarhöfn, í Reykjavík eða Atlanta. Það er ekki eins og fólk nenni að mæta á leiki þarna.

Liðið spilar körfubolta ein sog hann á að vera spilaður og lykilmenn liðsins eru góðir strákar sem leggja sig fram og eru búnir að vinna fullt af góðum liðum í vetur. Það er bara öllum skítsama.