Saturday, February 28, 2015

Af Cleveland og MVP-umræðunni


Sum okkar sáu Cleveland halda áfram sigurgöngu sinni í gærkvöld með því að skella toppliði deildarinnar, Golden State Warriors. Enginn sem tók þátt í leiknum tók undir það að sigurvegari leiksins myndi senda mótherjanum og restinni af deildinni skilaboð með því að vinna, en svona sigur skiptir máli fyrir sálartetrið - ekki síst hjá Cleveland.

Það var gaman að sjá þessi lið stangast á og það var greinilegt frá fyrstu mínútu að bæði lið tóku leikinn alvarlega og léku fast. Enginn lék fastar en LeBron James og ef við ættum að lýsa leiknum í sem fæstum orðum, myndum við líklega segja að James hafi bara klárað hann fyrir Cleveland.

Cleveland-liðið byggir sóknarleik sinni miklu meira upp á einstaklingsframtaki en Golden State og það er á margan hátt eðlilegt.

Annars vegar þekkjast leikmenn Cavaliers ekki mjög vel (hvað þá menn eins og JR Smith, Timofey Mozgov og Iman Shumpert) og hinsvegar er auðvitað freistandi að treysta á einstaklingsframtak þegar þú ert með leikmenn eins og LeBron James og Kyrie Irving, sem geta skorað á hvern sem er, hvar og hvenær sem er.

Það er þó óneitanlega fallegra að horfa á Golden State spila, því þar á bæ eru leikmenn ekki bara miklu óeigingjarnari, heldur eru þeir flestir búnir að spila það lengi saman að þeir eru orðnir nokkuð rútíneraðir í sóknarleiknum, jafnvel þeir séu með nýjan þjálfara alveg eins og Cleveland.

Þið munið eflaust að við skrifuðum Cleveland út af sakramentinu í kring um það þegar Anderson Varejao meiddist og liðið gat nákvæmlega ekki neitt. Þetta er ekki það lið.

Þetta er allt, allt annað lið og miklu betra. Og þetta lið er að öllum líkindum að fara að vinna Austurdeildina í vor. Við sjáum amk ekki hvaða lið ætti að stöðva það, amk ef LeBron James spilar af þessum krafti.

MVP-umræðan er búin að vera nokkuð hressandi í vetur, líklega helst af því nú hafa ný nöfn verið í umræðunni á þeim bænum. Tveir menn hafa verið í sérflokki í allan vetur hvað þetta varðar, þeir Stephen Curry hjá Golden State og James Harden hjá Houston.

Það er alveg sama hvað við verðum gömul og reynd, alltaf látum við þessa MVP-umræðu í fjölmiðlum fara í taugarnar á okkur. Það er helst vegna þess hve margir menn sem skrifa um NBA deildina í Bandaríkjunum virðast vera undir meðalgreind.

Við áttum okkur ekki á því hvaða stöðlum er farið eftir þegar velja á verðmætasta leikmann NBA deildarinnar á vorin, en það hlýtur hvern mannsbarn (nema margir NBA-pennarnir í Bandaríkjunum) að sjá hvernig staðið hefur verið að valinu undanfarin ár og áratugi.

Fjölmiðlamenn í Bandaríkjunum eru alveg handvissir um það ár eftir ár að leikmaður hjá liði sem vinnur 40 leiki sé "ofarlega á lista" eða "í umræðunni" þegar kemur að valinu, en þetta er algjör þvættingur.

Leikmennirnir sem hlotið hafa nafnbótina MVP síðustu (mörg) ár hafa undantekningalaust verið bestu leikmennirnir í besta eða næstbesta liði vetrarins - og þá alltaf liði sem er að vinna fast að, eða yfir 60 leiki.

Þannig að, NEI, það er fjandans sama hve vel menn eins og LeBron James og Russell Westbrook eru að spila þessar vikurnar og liðin þeirra að vinna marga leiki, þeir verða ekki fyrir valinu ef TÍU lið í deildinni eru með betri árangur en Oklahoma og Cleveland og hvað þá ef umræddir leikmenn eru búnir að missa úr einhvern helling af leikjum. Ekki vera svona heimskir!

Nei, Curry og Harden eru og hafa í allan vetur verið mennirnir sem eru að berjast um þetta og þannig verður það eflaust til vors. Atlanta fær ekki fulltrúa í þessa umræðu þó það vinni alla leiki sem það á eftir og heldur ekki Memphis - maður með 18 stig og 8 fráköst (Gasol) verður ekki kjörinn MVP, alveg sama hvað hann er góður varnarmaður og í alla staði huggulegur. Lillard og Aldridge taka svo frá hver öðrum hjá Portland og Clippers-liðið vinnur ekki nógu marga leiki til að geta átt fulltrúa í þessu.

En hvort á þá að velja Curry eða Harden?

ÞAÐ er hinsvegar ekki auðveld spurning. Curry hefur verið nefinu á undan í umræðunni lengst af í vetur einfaldlega af því liðið hans er búið að vera í efsta sæti deildarinnar nær undantekningarlaust í allan vetur. Það þýðir þó sannarlega ekki að hann sé líklegur bara út á það eitt.

Curry er með meðaltöl upp á 22 stig, 8 stoðsendingar, 5 fráköst og 2 stolna bolta, sem er sannarlega ekkert slor. Þetta eru ekki tölur sem hann hefur ekki boðið upp á áður, en liðið hans hefur heldur ekki verið að stunda það að vera með 80% vinningshlutfall. Lygileg skottölfræði Curry (48% í skotum, 40% í þristum og 90% í vítum) en svo ekki til að skemma þetta.

Pennar sem hallir hafa verið undir Curry eins og Ethan Sherwood Strauss hjá ESPN-veldinu hafa verið duglegir að tala máli Curry í MVP-umræðunni í allan vetur.

Strauss benti m.a. á það í pistli fyrir um það bil mánuði að tölfræðin fyrir lengra komna væri í flestum tilvikum betri hjá Curry en hjá Harden, en við nánari skoðun í dag, komumst við reyndar að því að Harden er búinn að taka fram úr Curry á flestum þessum sviðum.

Og þá komum við að því af hverju Harden á þetta skilið. Hann er ekki sama skyttan og Curry, enda eru það fæstir mennskir menn, en Skeggið er samt að gera alla varnarmenn deildarinnar gráhærða með klókindum sínum í sóknarleiknum. Harden er að bjóða upp á 26/6/7/2 - og það sem meira er - er hann gjörsamlega búinn að draga liðið sitt áfram á hárinu í allan vetur.

Það eru nefnilega ekki tölurnar sem eru áhrifaríkastar í máli Harden, heldur sú staðreynd að þökk sé Harden, hefur Houston einhvern veginn í fjandanum náð að halda sér í þriðja sæti í Vesturdeildinni fram í mars og það þrátt fyrir að næstbesti maður liðsins sé búinn að missa af helmingi leikja þess í vetur. Við vitum að það er ekki vinsælt að gefa mönnum stig í MVP-rallinu af því að þennan og hinn vantar í liðið þeirra, en þú verður að viðurkenna að þetta er helvíti vel gert hjá Harden. Alveg sérstakt, raunar.

Ef farið verður eftir MVP-bókinni sem notuð hefur verið í fræðunum til þessa, myndum við tippa á að Curry yrði fyrir valinu ef það færi fram í dag. Ef svo væri ætti hann það fyllilega skilið, því við megum heldur ekki gleyma því að eins sterkt og Warriors-liðið er, er það bókstaflega miðlungslið án Stephen Curry. Það er tölfræðilega sannað.

Ef við gefum hinsvegar skít í hefðina og skoðum einfaldlega hver hefur verið liði sínu (sem er í toppbaráttu) mikilvægastur í vetur, er ekki hægt annað en að velja Harden. Það er staðreynd að mjög margir þola hann ekki og það er alveg skiljanlegt - maðurinn getur verið gjörsamlega óþolandi.

Það sem er hinsvegear mest óþolandi við hann er að liðið þitt tapar alltaf fyrir honum þó meðspilarar hans séu samansafn af Corey Brewer-um, Josh Smith-um og einhverjum gamalmennum og D-deildarsveppum sem enginn hefur nokkru sinni heyrt minnst á.

Wednesday, February 25, 2015

Derrick Rose er úr leik - og Chicago líka


Okkur er alveg sama hvað þú ert jákvæður einstaklingur. Þú veist að þetta er búið spil. Sem stuðningsmaður Chicago ertu ýmsu vanur, en sama hvað þú reynir að hræra upp í bjartsýninni með öllum þínum Pollýönnu-frösum, veistu að þetta er búið.

Við fengum að vita það í nótt að leikstjórnandinn og meiðslakálfurinn Derrick Rose hjá Chicago hefði meiðst enn eina ferðina og þyrfti í hnéuppskurð á sama hné og síðast. Óheppni Rose og Bulls er glæpsamleg, ekkert annað. Við fundum til með Rose í fyrstu sautján aðgerðunum sínum, en þetta er bara orðið asnalegt. Átakanlegt, sorglegt, ósanngjarnt en umfram allt asnalegt. Aumingja Rose hlýtur að hafa verið tannlæknir, böðull eða barnaníðingur í fyrra lífi.

Við erum búin að gæla við það í nokkrar vikur að skrifa Chicago út af sakramentinu en eitthvað hélt í okkur, einhver vonarglæta um að kannski færi þetta lið að spila eins og það á að geta best. Það gerðist hinsvegar aldrei og svo koma þessar skelfilegu fréttir inn á borð. Rose er úr leik, trúlega það sem eftir er tímabils og því er ekki annað fyrir okkur að gera en pakka saman, skella í lás og yfirgefa slotið.

Þessi nýjustu meiðsli hans eru ekki mjög alvarleg í sjálfu sér, en þegar menn eru búnir að fara í sjöhundruð aðgerðir á stuttum tíma og heita Derrick Rose, horfir málið allt öðru vísi við.

Það er ljótt að segja svona, því okkur þykir vænt um Rose, en hann er búinn. Hann á eftir að spila körfubolta áfram, en hann á aldrei eftir að verða nema skugginn af sjálfum sér, þeim gríðarlega öfluga bakverði sem kjörinn var leikmaður ársins í NBA deildinni 2011. 

Gott ef það var ekki Penny Hardaway, sem sjálfur veit allt um meiðsli sem eyðileggja feril körfuboltamanns, sem hélt því fram að Rose væri ekki að spila á mikið meira en 70% afköstum miðað við áður. Og þó Rose á 70% krafti sé sterkur leikmaður, er hann ekki leikmaður sem gerir lið að meistara.

Vandamál Chicago Bulls voru mörg og skemmtileg í gær, en tíðindi næturinnar þýða einfaldlega að partýið er búið. Við erum búin að bíða í fjögur ár eftir að þetta Bulls lið fari á toppinn í Austurdeildinni og geri atlögu að meistaratitlinum, en nú bíðum við ekki lengur. Það er tilgangslaust. Dæmið er búið.

Chicago er því miður enn háð því að það fer ekki lengra en Derrick Rose dregur það. Hann var kannski búinn að fá hjálp í vetur í formi Pau Gasol og Öskubuskunnar Jimmy Butler, en Rose verður að draga vagninn. Og Rose er ekki í neinu standi til að draga þennan vagn. Hann var það ekki í gær og verður það svo sannarlega ekki í framtíðinni. Vandamál Bulls í vetur eru ekki öll honum að kenna, en það skiptir engu máli núna.

Þetta er búið. Meistaravonir Chicago Bulls sem hafa verið heitar undanfarin ár og kjarnast í kring um Rose, Joakim Noah og Tom Thibodeau. Þær eru nú algjörlega úr sögunni. Nískir, þverir og hrokafullir dólgarnir á skrifstofunni eiga kannski eftir að sýna einhverja viðleitni til að styrkja liðið í framtíðinni en þið vitið jafnvel og við að það verður ekkert úr því.

Þegar Derrick Rose kemur til baka úr þessum nýjustu meiðslum, verða Joakim Noah og Mike Dunleavy búnir að bæta einu ári í viðbót á þreytta og símeidda skankana á sér, svo hjálpar er ekki að vænta úr þeirri áttinni. Eina smáglætan sem blasir við Chicago er að liðið landi stórlaxi með lausa samninga á borð við Kevin Durant þegar að því kemur. Það verður að teljast ótrúlegt.

Þetta eru ósanngjörn skrif og vægðarlausar spár til handa Chicago-liðinu þínu, við gerum okkur grein fyrir því, en því miður á þetta eftir að standa eins og stafur á bók. Það var gaman að þekkja þig, Chicago. Bæ, bæ.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------

Eftirskrift:

Enn og aftur er LeBron James að fá smá aðstoð frá körfubolta- og meiðslaguðunum þegar kemur að því að hefla veg hans í gegn um úrslitakeppnina. Aftur eru þeir að taka Bulls-lið með pótensjal og vippa því úr leik með því að klippa Rose niður. 

Nú vantar ekki annað en stóru meiðslin hans Al Horford og það er stutt í þau. Þá getur Cleveland dúllað sér þægilega í gegn um Djókdeildina sína og komið hvílt og ferskt í lokaúrslitaeinvígið í júní. Þvílík sæla. 

LeBron James klífur tölfræðilistana


Clyde Drexler, Kobe Bryant, Larry Bird, Michael Jordan, Allen Iverson, Dwyane Wade, Clyde Frazier, Tracy McGrady, Rick Bary, Gary Payton, Jerry West, Pete Maravich, Penny Hardaway, Paul Westphal og nú Scottie Pippen...

Þessir gæðaleikmenn eiga fleira sameiginlegt en að vera goðsagnir í sögu NBA deildarinnar, því þeir hafa allir gefið færri stoðsendingar en LeBron James á ferlinum. James varð í nótt stoðsendingahæsti framherji í sögu NBA deildarinnar þegar hann hoppaði yfir Scottie Pippen á listanum. Pippen hirti sætið af John Havlicek hjá Boston skömmu eftir aldamótin.

Fæstir leikmannanna sem við töldum upp hér að ofan eru leikstjórnendur - mennirnir sem alla jafna eru efstir í stoðsendingum hjá liðum sínum - en þeir eru nokkrir af sterkustu leikmönnum allra tíma. Okkur datt því í hug að telja nokkra þeirra upp til að gefa ykkur mynd af því hvert stefnir hjá LeBron James.

Það sem er áhugaverðast við þennan áfanga hjá fyrirbærinu James er hvað hann er ungur þegar hann nær honum. Drengurinn er nýorðinn þrítugur og það tók hann innan við 900 leiki að taka fram úr Pippen á stoðsendingalistanum. Pippen gaf sínar 6135 stoðsendingar í 1178 leikjum, en James þurfti "ekki nema" 890 leiki til að taka fram úr honum.

Ástæðan fyrir því að James er búinn að ná þessum áfanga er náttúrulega sú að þó hann sé í grunninn skráður (minni) framherji og skili því fullkomlega, hefur hann oftar en ekki spilað meira eins og bakvörður og handleikur boltann miklu meira en kollegar hans í framherjastöðunum.

James, alveg eins og Pippen, hefur verið uppnefndur "framstjórnandi" eða "leikherji" (point forward) til að undirstrika fjölhæfni hans á vellinum.

Það er nánast sama hvert er litið þegar kemur að LeBron James. Alls staðar eru met í sjónmáli. Sem stendur er hann staddur í 24.000+ stigum, 6000+ fráköstum og 6000+ stoðsendingum, sem eru tölur sem sjást ekki á hverjum degi - hvað þá frá þrítugum manni sem gæti með smá heppni átt eftir að spila mörg ár í viðbót í deildinni.

James er þegar kominn í 22. sæti stigalistans og verður einhvers staðar í kring um 25. sætið á stoðsendingalistanum þegar vorar hjá okkur, það er að segja ef kemur eitthvað vor.

Enn og aftur, krakkar, langar okkur að gefa ykkur heilræði. Reynið umfram allt að taka leikmanni eins og James ekki sem sjálfssögðum hlut og reynið að njóta hvers augnabliks. Við erum að fylgjast með leikmanni sem kemur til með að fá að setjast við háborðið í Heiðurshöllinni þegar að því kemur. Borðinu sem er frátekið fyrir MJ, Larry, Magic, Kareem, Wilt, Oscar og Russell.

Tuesday, February 24, 2015

Nash og súrefnisþjófurinn


Ekkert okkar er nákvæmlega eins, sem betur fer, en sumt fólk er bókstaflega ekki í lagi. Hérna er heiðursmaðurinn og gæðapilturinn Steve Nash að lenda í klónum á manneskju sem er algjör sóun á súrefni. 

Við höfum allt of lágan tolerans gagnvart veiku fólki, það er einn af veikleikum okkar. En svo eru góðar líkur á því að þessi ágæti maður sem er að reyna að ná athygli Nash, sé alls ekkert veikur, heldur bara hálfviti. 

Það vekur upp í okkur Gamla Testamentið að horfa upp á svona. Við getum ekki sætt okkur við það að sé til svona fólk í heiminum. Fólk sem gerir ekkert annað en að spreða skít og ógæfu meðan það stelur súrefni frá öllum hinum - og er ekki einu sinni lamið í andlitið með felgulykli fyrir það. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt.


Menningarheimar


Auðvitað ber að fagna því þegar fólk leggur sig fram við að kynna og kynnast menningu annara þjóða. Bandaríkjamenn eru gott dæmi um þjóð sem er dálítið blind á annan kúltúr en sinn eigin, en þeir eru svo sem ekki einir um það.

Þannig mætti ef til vill segja að öll orðræða um Austurlönd á Vesturlöndum sé svo til byggð á gömlum og nýjum ranghugmyndum og fordómum sem hafa mun dýpri afleiðingar en fólk gerir sér almennt grein fyrir.

Við verðum því að taka vel í viðleitni Houston Rockets, sem klæddust mjög sérstökum búningum í tilefni þess að Kínverjar fögnuðu (nýju) ári geitarinnar þann 19. febrúar síðastliðinn. Hugmyndin á bak við þetta er að sjálfssögðu að græða peninga vekja athygli á þeim fjölskrúðuga kúltur sem finna má bæði í NBA deildinni sjálfri og meðal stuðningsmanna.

Við getum samt ekki að því gert að spekúlera aðeins í því hvað hefði gerst ef einhver húmoristinn í búningadeildinni hefði farið á smá flipp þegar hann var að skrifa textann á treyjurnar. Það er ekki eins og leikmenn Rockets eða megnið af áhorfendunum í húsinu og heima í stofu hafi hugmynd um hvað 没有人知道什么这意味着 þýðir!

Það eru ekki allir miðlar sem bjóða upp á menningarumræðu á háskólastigi og hægðahúmor á leikskólastigi í sömu greinarstúfunum, en þetta er að finna á NBA Ísland. Það er von að þú veltir því stundum fyrir þér lesandi góður, af hverju í ósköpunum þú lest þessa síðu yfir höfuð.
Nýtt hlaðvarp


Þá er komið að 36. þætti hlaðvarpsins hjá okkur. Fulltrúi NBA Ísland slær á þráðinn til Kjartans Atla Kjartanssonar úr þjálfarateymi Stjörnunnar, sem um helgina tryggði sér bikarmeistaratitilinn í karlaflokki. Kjartan segir frá upplifun sinni, talar um starfið hjá Stjörnunni, gulldrenginn Justin Shouse og margt fleira. Síðari hluti viðtalsins snýr svo að félagaskiptunum í NBA deildinni á dögunum og hvaða lið séu að gera sig líkleg til að vinnna meistaratitil í sumar.

Smelltu hér til að komast á hlaðvarpssíðuna og nálgast þáttinn.

Saturday, February 21, 2015

Félagaskiptaglugginn lokaðist með látum


Það er alltaf mikið fjör á bandarísku körfuboltamiðlunum þegar líður að lokun félagaskiptagluggans í NBA, en það reynist í langflestum tilfellum vera skrum og ekkifréttir. Menn bjuggust ekki við "stórum glugga" að þessu sinni af því mörg af félögunum sem á annað borð voru að hugsa um að gera breytingar, voru þegar búin að því. Þetta voru lið eins og Dallas (Rajon Rondo), Houston (Josh Smith), Oklahoma (Dion Waiters) og Memphis (Jeff Green).

Allt var með kyrrum kjörum þangað til 40 mínútur voru í lokun gluggans. Þá byrjuðu að leka út fréttir af félagaskiptum en bomban kom svo ekki fyrr en tíu mínútum fyrir lokun gluggans. Þá hreinlega varð allt vitlaust á markaðnum og menn hafa varla séð annað eins.

 Það eru svona gluggar sem gera það að verkum að menn eru svona spenntir fyrir þessu. Áður en yfir lauk voru hvorki meira né minna en 39 leikmenn búnir að skipta um heimilisfang og annað eins af nýliðavalréttum í framtíðinni.

Við fengum bæði að sjá fyrirsjáanleg viðskipti og óvænt. Nokkrir leikmenn voru búnir að vera að væla í fjölmiðlum og vildu fara frá félögum sínum. Þetta voru menn eins og Goran Dragic hjá Suns, Reggie Jackson hjá Oklahoma og Enes Kanter hjá Utah. Þeir fengu allir að flytja og eru handvissir um að nú verði alltaf jólin.

Það væri glórulaust að ætla að gera hverjum einustu viðskiptum skil í einum pistli og okkur dettur ekki í hug að reyna það einu sinni. Það er hinsvegar alveg nauðsynlegt að renna yfir stærstu dílana og skjóta út í loftið hvort um gáfuleg eða vitlaus viðskipti var að ræða. Við megum heldur ekki missa af tækifærinu til að gefa út yfirlýsingar sem gætu átt eftir að bíta okkur í (anus) í framtíðinni. Það er alltaf klassískt.

Núna erum við að renna inn á lokasprettinn í deildakeppninni og því notuðu mörg af liðunum sem ætla sér í úrslitakeppni tækifærið og freistuðu þess að styrkja sig með manúveríngum á leikmannamarkaðnum. Það er líka svo fjandi erfitt að standa í stað og gera ekki neitt ef a) liðið þitt er götótt og b) allir keppinautarnir eru búnir að bæta við sig leikmanni eða leikmönnum.

Tuesday, February 17, 2015

Fjögur mögur ár Amare Stoudemire hjá Knicks


Við höfum ekki verið sökuð um sérstaka Þórðargleði yfir óförum New York Knicks undanfarin ár, sem er undarlegt í ljósi þess að við fáum mjög mikið út úr því að vera með leiðindi út í það ágæta félag á þessu vefsvæði. Þið vitið svo sem að þessi leiðindi rista ekki djúpt og eiga rætur að rekja til skrifstofu félagsins og fjölmiðla í New York fremur en leikmanna liðsins og enn síður stuðningnsmannanna.

Segja má að New York standi á tímamótum í dag. Carmelo Anthony fer líklega í hnéuppskurð og kemur ekki meira við sögu í vetur og í dag kunngerðu Knicks að þeir hefðu leyst framherjann Amare Stoudemire undan samningi. Því má segja að ákveðnu tímaskeiði sé að ljúka hjá Knicks. Tímaskeiði sem við skulum kalla Amare-Melo tilraunina.

Við kölluðum ekki til fjölmiðlafundar þegar Stoudemire gekk í raðir Knicks frá Phoenix sumarið 2010. Umfjöllun okkar um það var þvert á móti frekar fátækleg. New York þurfti að landa stjörnu til að selja miða og úr því það náði ekki í LeBron James (sem aldrei kom til greina hvort sem er), ákvað það að henda hundrað kúlum í manninn sem kallaði sig bæði Svarta Jesú og S.T.A.T. (Standing Tall And Talented).

Hann var bæði hár og hæfileikaríkur, hann Amare, það vantaði ekki og hann skilaði Knicks 25 stigum og 8 fráköstum í leik á fyrsta árinu sínu þar sem hann spilaði 78 leiki. Hann var allt í öllu hjá liðinu fram yfir áramótin 2011 en í febrúar það ár, fór Knicks í stórvirkar aðgerðir á leikmannamarkaðnum sem enduðu með því að liðið landaði Carmelo Anthony.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á, en auðvitað hefðum við átt að skjóta þessi viðskipti Knicks alla leið til andskotans og fordæma þau strax frá upphafi, því þau meikuðu ekki sens í eina mínútu.

Það tók okkur rúman mánuð að tjá okkur eitthvað um þetta nýja Knicks-lið og við höfum verið neikvæð og leiðinleg út í þetta lið nánast óslitið síðan.

Og það eru ástæður fyrir þessari neikvæðni. Hvað hefur New York afrekað síðan það ákvað að kasta sitt hvorum 100 milljónunum í þá Stoudemire og Anthony? Jú, 151 sigri og 160 töpum samkvæmt New York Daily News (ekki halda að við nennum að telja það saman).

Það sem skyggir enn frekar á þessa undarlegu viðskiptahætti Knicks er að þegar þeir Amare og ´Melo hafa spilað saman með liðinu (Amare er náttúrulega búinn að missa mjög mikið úr vegna meiðsla), er það meira að segja lélegra.

New York er aðeins 74-110 þegar tvímenningarnir eru báðir með og það sem verra er, er það aðeins 2-10 í úrslitakeppninni undir sömu kringumstæðum.

Á meðan annað lið sem ætlaði sér stóra hluti með því að púsla saman stórstjörnum, Miami Heat, fór í lokaúrslitin fjögur ár í röð með hjálp stjarnanna sinna, var New York 36 leikjum undir 50% vinningshlutfalli með þeim Melo og Amare - 44 leikjum ef úrslitakeppnin er meðtalin.

NBA Spjall í Sportþættinum á Útvarp Suðurland


Monday, February 16, 2015

Stjörnuhelgin í NBA - (Risavaxið) myndasafn


Zach LaVine hjá Minnesota vann troðkeppnina, Stephen Curry hjá Golden State vann skotkeppnina og Vesturdeildarliðið lagði Austurliðið 163-158 þar sem Russell Westbrook skoraði 41 stig og var maður leiksins. Svo fóru líka fram brellukeppni og liðakeppni með guggum og gamalmennum. Þetta eru hápunktar helgarinnar, en hér fyrir neðan geturðu endurupplifað skemmtilegustu augnablikin með hjálp ljósmyndaranna - og meira að segja kynnt þér nýjustu fatatískuna með hjálp LeBron James og auðvitað Russell Westbrook, sem var óumdeildur sem verðmætasta fórnarlamb tískunnar um helgina.


Það er aðeins einn


Saturday, February 14, 2015

Við munum þig, Mason


Góðvinur ritstjórnarinnar Anthony Mason berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi eftir að hafa fengið alvarlegt hjartaáfall ofan á önnur veikindi sem þegar voru að hrjá hann.

Dapurlegt þegar svona ungir menn missa heilsuna og þó nýjustu fréttir bendi til þess að ástand hans hafi skánað eitthvað lítillega, er hann enn í lífshættu.

Þið eruð kannski búin að gleyma því hvað Anthony Mason var skemmtilegur leikmaður á sínum tíma, en við erum svo sannarlega ekki búin að gleyma því.

Og þá erum við ekki bara að tala um þegar hann myndaði eina físískustu framlínu körfuboltasögunnar með þeim Patrick Ewing, Charles Oakley og Charles Smith í New York.

Nei, við munum líka eftir því þegar hann gekk í raðir Charlotte, þar sem hann fór sérstaklega hamförum leiktíðina 1996-97.

Þá spilaði hann með drullu-skemmtilegu Hornets-liði sem hafði á að skipa mönnum eins og Glen Rice, Vlade Divac, Dell Curry (pabba Stephen Curry), Muggsy litla Bogues að ógleymdum fagmönnum eins og Ricky Pierce og Matt Geiger. Þetta lið vann 54 leiki um veturinn, en lét reyndar New York sópa sér út 3-0 í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Anthony Mason var byggður eins og jarðýta, en það skondna við það var að hann var með ágætis boltameðferð og átti það til að koma upp með boltann og stýra spili Hornets.

Þarna var hann líka með sína flottustu tölfræði á ferlinum - skoraði 16,2 stig, hirti 11,4 fráköst, gaf 5,7 stoðsendingar, stal einum bolta og skaut 52,5% utan af velli, sem er ekkert slor.

Kappinn bauð upp á einar fjórar þrennur um veturinn og setti í nokkrar hrikalegar tölfræðilínur inn á milli.

Dæmi má nefna fjóra leiki sem hann tók í röð janúar árið 1997 þar sem hann hrærði í 19/12/7, 20/17/8, 20/17/7 og 14/11/9 á einni viku í síðari hluta mánaðarins.

Í mánuðinum á eftir bauð hann upp á svipuð læti, þar sem sjá mátti leiki upp á 15/22/10, 21/18/8, 28/12/9, 19/13/12, 19/14/12 og svona var þetta leik eftir leik hjá vini okkar, skoðaðu bara logginn hans frá árinu 1997. Það eru ansi feitar línur þarna inn á milli.

 Mason var fjall að burðum, en í rauninni of lágvaxinn til að vera fjarki en of hrikalegur til að vera þristur. Ef við ættum að finna hliðstæðu Mason í deildinni í dag myndum við kannski helst benda á Draymond Green hjá Golden State.

Green er fljótari á löppunum og betri varnarmaður en Mason, en sá síðarnefndi var með miklu betri leik á póstinum og svona 89 sinnum sterkari. Það er þó eins með Mason og Green, ef menn hafa hæfileika, passa þeir inn í hvaða lið sem er.

Það var tíska hjá sumum að raka eitt og annað í hárið á sér þarna á tíunda áratugnum og Mason var fremstur í flokki í NBA deildinni í þeirri list, þar sem hann skaut meira að segja Dennis Rodman ref fyrir rass.

Við teljum ólíklegt að Mason sitji núna í sjúkrarúminu sínu (ef hann er þá með meðvitund) og hugsi um hvað það sé nú merkilegt og skemmtilegt að það sé fólk á Íslandi að hugsa fallega til hans í veikindunum og rifja upp afreksverk hans á körfuboltavellinum.

En svona er nú heimurinn lítill og lífið almennt undarlegt.

Láttu þér batna, Mase. Við hugsum hlýlega til þín.

Friday, February 13, 2015

Thursday, February 12, 2015

Stjörnuleiksvörutalning í vestrinu


Stjörnuleikurinn er um helgina og því eru erfiðir tímar fram undan hjá okkur sem getum ekki verið án NBA körfuboltans - heil vika án þess að spilað sé í deildakeppninni. Adam Silver og félagar í forsvari deildarinnar virðast staðráðnir í að hlusta á allt vælið um of mikið álag á leikmenn í deildinni og þetta lengda frí í kring um Stjörnuleikshelgina er hlutur af viðleitni deildarinnar í þá átt.

Það eru tvær hliðar á þessu hvíldar-máli. Líklega er ætlunin með þessu að við áhorfendur fáum á endanum meira fyrir peninginn okkar þegar við sjáum stjörnurnar okkar hafa meira úthald og spila betri körfubolta. Gömlu hundarnir sem máttu sætta sig við að ferðast á almennu farrými um allar jarðir til að spila hér áður, vorkenna leikmönnum dagsins í dag ekki mikið með allan sinn lúxus, en hvað okkur varðar, gæti aukin hvíld vonandi orðið til að stemma stigu við hlut sem er orðinn að vandamáli í NBA í dag - meiðslunum.

Og þessi bölvuðu meiðsli eru fyrirtaks brú yfir í efni þessa pistils. Við ætlum að taka vörutalningu í Vesturdeildinni og hjálpa ykkur að ná áttum þar, nú þegar menn eru að flykkjast á Benidorm til að hvíla sig fyrir lokasprettinn í deildinni. Þeir sem ekki eru á leið til New York að spila í Stjörnuleiknum, það er að segja.

Við erum örugglega búin að tyggja það ofan í ykkur í hverjum einasta pistli um Vesturdeildina í vetur og komum til með að halda því áfram - þessi Vesturdeild er bara ekki hægt. Hún er svo sterk, að það er ekki spilandi í henni og því má í raun segja að liðin sem standa utan við átökin í vestrinu - Minnesota, Lakers, Utah, Denver og Sacramento, séu á sinn hátt heppin að vera að byggja upp á nýtt um þessar mundir, því þú þarft bókstaflega að vera með ofurlið til að ætla að komast upp úr annari umferð í úrslitakeppninni í vor.

Núna á allra síðustu dögum, hefur hinsvegar komið smá sprunga í brynju þessarar ógnarsterku Vesturdeildar og hér á eftir ætlum við að rýna í þessar sprungur og skoða hvaða áhrif þær gætu haft í framhaldinu. Sprungurnar sem við erum að tala um, eru auðvitað helvítis meiðslin, en við hefðum mátt segja okkur að þau ættu eftir að ráða miklu um framgang mála alveg eins og þau hafa gert í deildinni undanfarin misseri. Gjörsamlega óþolandi þróun og svo örlagarík að réttast væri að gera eitthvað róttækt í málinu.

Ef við byrjum á því að skoða baráttuna um áttunda sætið í vestrinu, má segja að sé komið nýtt tvist í hana. Þetta tvist heitir New Orleans.

Wednesday, February 11, 2015

Barkley stríðir tölfræðinjörðunum


Það er gaman að sjá hvað Charles Barkley á enn auðvelt með að gera allt vitlaust með kjaftinum á sér. Tölfræðinördar heimsins eru froðufellandi af reiði eftir að Barkley lét ristilinn mása yfir Houston Rockets og tölfræðiþenkjandi framkvæmdastjóra félagsins.Við héldum að fólk kæmi auga á það að þetta eru bara kyndingar hjá Barkley, en það er eins með þetta eins og annað - það má enginn segja neitt orðið án þess að vera krossfestur fyrir það.

Við erum reyndar nokkuð viss um að bæði Barkley og Shaquille O´Neal hafa ósköp litla trú á tölfræði fyrir lengra komna og auðvitað er það satt sem þeir segja, að þegar öllu er á botninn hvolft, eru það liðin með mestu hæfileikana sem vinna.

Barkley var vissulega nokkuð harðorður í garð Rockets, en það er erfitt að vera ekki sammála honum. Eða haldið þið kannski að Houston eigi eftir að komast upp úr fyrstu umferð í úrslitakeppninni í vor - hvað þá lengra?

Monday, February 9, 2015

Meðal-Jóninn magnaði


Stuðningsmenn Utah Jazz bauluðu þegar félagið þeirra ákvað að taka Butler-drenginn Gordon Hayward með níunda valréttinum í nýliðavalinu árið 2010. Það er sumpart skiljanlegt þegar haft er í huga að maðurinn sem tekinn var á eftir Hayward fór til Indiana og heitir Paul George. Margir æla enn aðeins i munninn sinn þegar þeir rifja það upp.

Kannski þótti stuðningsmönnum Jazz ólíklegt að ræfilslegur og barnalegur gutti eins og Hayward gæti hjálpað liðinu þeirra á nokkurn hátt. Það er líka skiljanlegt hugarfar, því árið 2010 leit Hayward út fyrir að vera tólf ára gamall og 27 kíló með blautt hár og skólatösku. Hann leit reyndar líka út fyrir að heita Ásmundur og hefur því borið það viðurnefni hjá okkur allar götur síðan, en engar tilraunir verða gerðar til að útskýra það hér.

"Gefið honum nokkur ár áður en þið dæmið hann," sagði Kevin O´Connor yfirmaður leikmannamála hjá Jazz eftir nýliðavalið.

Hann var viss í sinni sök, enda eru engar tilviljanir í starfslýsingunni hjá honum. Hann vissi að Hayward væri vel upp alinn og duglegur með smá hæfileika og það væri blandan sem til þyrfti til að búa til góðan körfuboltamann.

Þeir sem hafa verið neikvæðir í garð Hayward voru líka fljótir að benda á það í fyrra að hann væri ekki leikmaður sem gæti borið lið á herðum sér og komið því t.d. í úrslitakeppnina.

Það er líka rétt hjá þeim, Gordon Hayward er enginn LeBron James og ekki er hann Kevin Durant heldur. Því fór það fyrir brjóstið á ansi mörgum þegar Utah ákvað að jafna samningstilboðið sem Charlotte gerði honum síðasta sumar og greiða honum því um 63 milljónir dollara fyrir störf sín næstu fjögur árin. Maðurinn sem gat ekki borið lið á herðum sér var allt í einu orðinn "max" spilari - kominn á himinhá laun sem hann þurfti að standa undir.

Saturday, February 7, 2015

Loftárásir Kyle Korver


Okkur leiðist nú ekki að líma skotkort upp um alla veggi eins og þið vitið. Það er góð leið til að túlka tölfræðiblæti á háu stigi.

En nú er svo komið, að það verður ekki hjá því komist að sýna ykkur nokkrar myndir. Það er svona þegar einhver NBA leikmaðurinn tekur upp á því að vera bara í ruglinu.

Maðurinn sem um ræðir er Kyle Korver hjá Atlanta Hawks. Korver hefur alltaf verið mjög beitt skytta - ein sú besta í deildinni - en hann er búinn að vera alveg sérstakur undanfarin ár og í ár er hann svo kominn í áðurnefnt rugl.

Korver á sjálfur metið yfir besta 3ja stiga nýtingu á tímabili, en hann skaut hvorki meira né minna en 53,6% úr þristum þegar hann var hjá Jazz veturinn 2009-10.

Eins og margir vita er Korvera að eiga annað eins ævintýratímabil núna (53,3%) en það sem er enn merkilegra við það, er að hann er að taka nærri þrisvar sinnum fleiri þriggja stiga skot en hann var að taka árið 2010.

Það stafar mestmegnis af því að hann er farinn að spila meira en hann gerði á síðustu árum. Hann er kominn í besta form sem hann hefur verið í á ferlinum og þjálfarinn treystir honum og gætir þess að hæfileikar hans nýtist til fullnustu.

Við verðum að klappa sérstaklega fyrir liðum eins og Jazz og Bulls sem voru með Korver í sínum röðum en töldu sig ekki hafa þörf fyrir hann, en þó ber að hafa í huga að Korver var ekki sá leikmaður sem hann er í dag árið 2010.

Hann var jú heimsklassa skytta eins og hann hefur alltaf verið, en hann var þungur á löppunum og gat ekki haldið mosa fyrir framan sig í vörninni í þá daga.

En það þýðir ekkert að velta sér upp úr fortíðinni. Það sem við höfum gaman af er nútíðin hans Kyle Korver og okkur langar að deila með ykkur hringlandi geðveiku skotkortinu hjá manninum.

Og til að setja hittnina hans í samhengi, byrjum við á að deila með ykkur skotkorti þriggja manna sem þið ættuð öll að kannast við. Allt eru þetta stórstjörnur á misjöfnum stað á ferlinum, en enginn þeirra getur kallast góð 3ja stiga skytta eins og þið sjáið hérna fyrir neðan (smellið til að stækka myndirnar).

Þið munið væntanlega að guli liturinn þýðir að leikmaðurinn sem um ræðir sé að skjóta mjög nálægt meðaltali deildarinnar á því svæði. Sé liturinn rauður, þýðir það að leikmaðurinn sé að skjóta undir meðaltali í deildinni, en græni liturinn þýðir að hann er með betri nýtingu en meðaltal deildarinnar.Næstir á svið koma svo Swish-lendingarnir Klay Thompson og Stephen Curry hjá Golden State, en öfugt við þá Kobe, Wade og Rose, eru þeir framúrskarandi þriggja stiga skyttur eins og allir sem fylgjast með NBA hafa fengið að sjá undanfarin misseri. Hafi þremenningarnir á fyrstu kortunum verið slakar þriggja stiga skyttur, eru Warriors-piltarnir fagmenn í greininni.Og þá getum við skoðað kortið hans Kyle Korver. Það er með algjörum ólíkindum að maðurinn sé að skjóta svona vel, þvi þið megið ekki gleyma því að hann er oftast með besta varnarmann andstæðinganna límdan í andlitið á sér hverja einustu sekúndu sem hann spilar, þó þeir eigi það nú til að sofna á verðinum.

Það sést best á því að Korver er með 53,3% 3ja stiga nýtingu þegar hann "grípur og skýtur" og hvorki meira né minna en 57,3% ef þú skilur hann eftir opinn. Og hvað er þetta með að hitta tveimur af hverjum þremur þristum úr hægra horninu? Er það bara...Þetta er bara svo langt frá því að vera eðlilegt.
Nennir þessi maður kannski að slappa aðeins af!