Tuesday, February 24, 2015

Menningarheimar


Auðvitað ber að fagna því þegar fólk leggur sig fram við að kynna og kynnast menningu annara þjóða. Bandaríkjamenn eru gott dæmi um þjóð sem er dálítið blind á annan kúltúr en sinn eigin, en þeir eru svo sem ekki einir um það.

Þannig mætti ef til vill segja að öll orðræða um Austurlönd á Vesturlöndum sé svo til byggð á gömlum og nýjum ranghugmyndum og fordómum sem hafa mun dýpri afleiðingar en fólk gerir sér almennt grein fyrir.

Við verðum því að taka vel í viðleitni Houston Rockets, sem klæddust mjög sérstökum búningum í tilefni þess að Kínverjar fögnuðu (nýju) ári geitarinnar þann 19. febrúar síðastliðinn. Hugmyndin á bak við þetta er að sjálfssögðu að græða peninga vekja athygli á þeim fjölskrúðuga kúltur sem finna má bæði í NBA deildinni sjálfri og meðal stuðningsmanna.

Við getum samt ekki að því gert að spekúlera aðeins í því hvað hefði gerst ef einhver húmoristinn í búningadeildinni hefði farið á smá flipp þegar hann var að skrifa textann á treyjurnar. Það er ekki eins og leikmenn Rockets eða megnið af áhorfendunum í húsinu og heima í stofu hafi hugmynd um hvað 没有人知道什么这意味着 þýðir!

Það eru ekki allir miðlar sem bjóða upp á menningarumræðu á háskólastigi og hægðahúmor á leikskólastigi í sömu greinarstúfunum, en þetta er að finna á NBA Ísland. Það er von að þú veltir því stundum fyrir þér lesandi góður, af hverju í ósköpunum þú lest þessa síðu yfir höfuð.