Wednesday, December 30, 2009

Darko er að setja saman náttborð frá IKEA


Darko Milicic er í fýlu. Segir að NBA deildin sé full af lygurum. 

Darko, sem nú þykist vera leikmaður New York Nix, gaf það út fyrir skömmu að hann væri búinn að gefast upp á að reyna að meika það í NBA.

Darko segir forráðamenn Pistons hafa lofað sér spilatíma þegar þeir í ofsafenginni vímu eftir ofneyslu á frostlegi og teppalími tóku hann númer tvö í nýliðavalinu fræga árið 2003 (og gáfu skít í Carmelo Anthony, Dwyane Wade, Chris Bosh og fleiri gaura sem voru í boði það árið). Við þessi loforð hafi þeir ekki staðið.

Nú viljum við ekki vera með leiðindi, en ef Joe Dumars og félagar voru nógu vitlausir til að nota réttinn til að velja Dwyane Wade á mann sem nýttist liðinu álíka vel og Hreinn Hringsson eða Ásdís Rán hefðu gert - eru þeir varla í aðstöðu til að lofa spilatíma.

Nei, við viljum heldur fá svar við þessum spurningum:

Hverjum datt það eiginlega í hug að Darko Milicic væri góður leikmaður?
Hver borgaði útsendurum Pistons laun fyrir að halda því fram að þessi maður gæti eitthvað!?!
Hvað er Joe Dumars búinn að hlusta á marga Darko brandara (og hve marga hefur hann lamið í kjölfarið)?
Hver sannfærði Darko um að hann myndi meika það í NBA ef hann aflitaði á sér hárið?

Það eina sem stendur upp úr á ferli Darko í NBA er skandalinn að hann skuli hafa verið valinn númer tvö í besta nýliðavali síðari ára, aflitaða hárið og svo geðveikiskastið sem hann tók í viðtalinu eftir landsleikinn forðum (þegar hann hótaði að eiga innileg samskipti við mæður dómara leiksins).

Ha, nei nei - Þú ert ekkert rekinn... þannig

Við höfum verið að fylgjast með dramatíkinni í kring um meintan brottrekstur Vinny Del Negro úr þjálfarastólnum hjá Chicago Bulls.

Það lak út um daginn að leitin að eftirmanni hans væri þegar hafin. Del Negro neitaði því að vera á útleið í viðtali í gær og nú fyrir stuttu var haldinn blaðamannafundur hjá Bulls þar sem Gar Forman framkvæmdastjóri félagsins fór gjörsamlega á kostum.

Hann var spurður 800 spurninga um það hvort stæði til að reka Del Negro en svaraði þeim ekki. Þvaðraði bara í hringi og talaði um frímerkjasöfnun og loftslagsbreytingar. Svona eins og íslenskur stjórnmálamaður.

Vá hvað Chicago er búið að klúðra þessu máli.  Er greinilega að taka Martin Jol á Del Negro ræfilinn. Hvernig væri að segja manninum bara upp í stað þess að láta hann dangla svona í snörunni?

Það er betra þegar hitt liðið skorar ekki mikið


Það virðist sama hve heitir drengirnir í Atlanta verða. Alltaf virðast þeir breytast í smástelpur þegar þeir mæta Cleveland.

Leikur liðanna í nótt var jafn fram í fjórða leikhluta, þegar LeBron og félögum datt það snjallræði í hug að leyfa Hawks ekki að skora í tæpar níu mínútur! Leik lokið.

Tilþrif leiksins átti okkar maður Delonte West (sjá mynd).


Það getur stundum verið dálítið pínlegt að horfa á einhæfan sóknarleik Cleveland, en varnarleikur liðsins er alveg rosalegur núna. Og árangurinn eftir því.

-----------------

Gaman fyrir okkur en grátlegt fyrir þá sem halda með New Orleans. David West með 44/12 leik og Chris Paul með 16/11/10 þrennu en allt kom fyrir ekki gegn Houston. Það þarf einhver að taka það að sér að segja þessum Houston strákum að þeir séu ekki svona góðir...

Manu Ginobili var nokkuð líkur gamla góða sjálfum sér á NBA TV þegar San Antonio lallaði yfir Minnesota. Manu bauð upp á 14/9/10 leik af bekknum og hefði eflaust náð þrennunni ef úrslitin hefðu ekki verið ráðin jafn snemma og raun bar vitni.

Og ekki gat Kobe farið að falla í skuggann. Sallaði 42 stigum á Golden State í ekkisvosannfærandi sigri. Kobe fær samt risavaxið kúdós fyrir snuddurnar ellefu sem hann gaf á félaga sína.

Kevin Durant spilar körfubolta


Það er ekki langt síðan við vorum aðeins að gera grín að Kevin Durant. Hann spilaði hræðilega þegar hann var að frumsýna nýju skóna sína.

Núna er miklu meiri gleði hjá Durant og Liðinu sem spilaði í Seattle.

Thunder er búið að vinna fjóra leiki í röð, þar af þrjá á útivelli og Durant er búinn að skora 38, 30, 40 og 35 stig með um 60% nýtingu í þessum leikjum.

Menn hafa talað um Thunder sem efnilegt lið ansi lengi en það er fyrst núna sem liðið er að standa undir því. Og gott ef þessir strákar eru ekki bara orðnir eitthvað aðeins meira en efnilegir.

Svo er það mikill bónus að það er frábært að horfa á Thunder spila. Þetta er mjög skemmtilegt lið og það er martröð fyrir flest lið að mæta þeim.

Það er eins og allir leikmennirnir í liðinu séu sjö fet á hæð, hlaupi 100 metrana á 11 sléttum og geti stokkið upp í stigatöflu.

Tuesday, December 29, 2009

Þriðjudags Sprengingar

Z-bo er í ruglinu


Þetta er Zach Randolph.

Hann er með 28,2 stig og 18,2 fráköst að meðaltali í síðustu fimm leikjum sínum. Það gerir 141 stig og 91 frákasts samtals.

Síðasti leikmaður til að ná þessum tölum í fimm leikjum?

Shaquille O´Neal í febrúar á nýliðaárinu sínu 1993.

Og við minnum á að Zach Randolph var ekki á kjörseðli fyrir stjörnuleikinn. Á líklega aldrei eftir að spila stjörnuleik.

Svona kannski eins og Deron Williams...

Kannski hafa fáir veitt því athygli, en Z-bo er ekki aðeins að skila frábærum tölum í vetur (20 stig, 11+ frák), heldur er Memphis liðið allt í einu farið að vinna leiki!

Memphis er 8-4 í desember þar sem það hefur m.a. unnið góða sigra á Cleveland, Denver og Dallas.

Randolph gæti átt góðan þátt í því.

Vill hið raunverulega Lakers-lið gjöra svo vel að standa uppSem betur fer er bara komið fram í desember á keppnistímabilinu. Af hverju? Af því ef við værum stödd í maímánuði, værum við líklega að horfa upp á LA Lakers detta út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Kobe er lemstraður og er farinn að verða hættulega Mamba skotglaður.
Pau Gasol er búinn að spila eins og vængbrotinn dílaskarfur síðan við ösnuðumst til að hrósa honum um daginn.
Ron Ron er með meiddi (helvíti líklegt að hann hafi dottið niður stiga heima hjá sér) á líkama og sál.
Lamar Odom er... Lamar Odom.
Andrew Bynum heldur áfram að valda vonbrigðum. Náði síðast tvennu (stig,frák) þann 17. nóvember!
Og guðminnalmáttugur* hvað varamannabekkurinn er lélegur!

Þú heldur kannski að okkur sé í nöp við Lakers eftir þessa gusu. Svo er alls ekki. Það er bara lygilegt hvað Lakers-liðið getur sveiflast milli þess að vera drasl og besta lið í heimi á örfáum dögum!

* Lesist á innsoginu

Té-Mákur fæst fyrir... mikið

Þá er það staðfest. Dagar Tracy McGrady hjá Houston eru taldir.

Té-Mák hefur verið gefið frí um óákveðinn tíma og eftir fundarhöld milli fulltrúa hans og Rockets liggur fyrir að hann verði settur grimmt á markaðinn fram að lokun gluggans í febrúar.

Þá er bara spurning hvort er til nógu örvæntingarfullt félag í NBA til að taka við risavöxnum samningi og ónýtum skrokk Té-Máks þá mánuði sem hann á eftir. Og þegar við segjum "hann" - meinum við auðvitað samninginn og McGrady.

Þetta verður gasalega spennandi. Eða ekki. Gildir einu. Við gátum amk Photoshoppað allar myndirnar sem við áttum af McGrady á barnaspítalanum. Það var bara möst.

Meira einelti - Dwight Howard


Við höfum rosalega gaman af Rick Kamla á NBA TV. Hann sér um Fantasy Insider þáttinn sem sjá má á NBA TV.

Kamla er algjör vélbyssukjaftur og það er örugglega erfitt að hlusta á hann ef þú ert í vondu skapi eða þunglyndi.

Við spilum reyndar ekki fantasy körfubolta af því við þorum því ekki. Eyðum alveg nógu miklum tíma í þetta svo við byrjum ekki að taka þátt í draumaliðsleikjum ofan á allt annað.

Það breytir því ekki að við höfum gaman af því að horfa á þáttinn hans Kamla með öðru auganu. Dennis Scott líka hress með honum alltaf.

Það sem vakti athygli okkar í þættinum í kvöld var að Kamla var að tala um þá staðreynd að Dwight Howard tekur meira en þremur skotum færra að meðaltali í leik með Orlando en hann gerði á síðustu leiktíð!

Og hvert fóru þessi skot? Jú, til Vince Carter - lauslega reiknað. Carter tekur rúmlega þremur skotum meira í leik en Hedo Turkoglu gerði í fyrra. Einfölduð tölfræði? Vissulega. En þetta er ekkert vitlaus pæling.

Við höfum áður talað um skoðanir okkar á Vince Carter og skotgleði hans - og skotnýtingu. Nú er bara að velta fyrir sér hvort Howard þurfi ekki að fara að vinna fyrir því að fá þessi aukaskot sem hann ætti vissulega að fá ef allt væri eðlilegt.

Okkur svíður það hrikalega að hugsa til þess að miðherjinn sem er áskrifandi að úrvalsliði ársins í NBA - í miðherjalausri deild í þokkabót - sé ekki að ná að hósta upp tíu skotum að meðaltali í leik!!! Þetta er auðvitað lélegt grín!

Monday, December 28, 2009

Það er mánudagur í dag!


            
                                                                                                                                    

Ricky Davis er þjálfari LA Clippers


Það er alltaf gaman að vinna sterkt lið eins og Boston.

Þá skiptir ekki máli hvort Boston er með fullskipað lið eða ekki. Boston er alltaf Boston.

Þetta tókst Baron Davis og félögum í LA Clippers að gera í nótt. Baron tryggði sigurinn með flautukörfu.

Það að Clippers hafi unnið Boston er í sjálfu sér ekki svo merkilegt.

Það merkilegasta var að eftir leikinn þakkaði Baron öllum nema Mike Dunleavy þjálfara fyrir að leggja sitt að mörkum í sigrinum.

Helst þakkaði hann Ricky Davis fyrir góð ráð sem hann sagði hafa ráðið úrslitum í sigrinum. Ricky Davis! Það er maðurinn sem skaut einu sinni á eigin körfu í leik til að reyna að ná þrefaldri tvennu!

Mike Dunleavy er á sínu sjöunda ári með Clippers. Hefur skilað einu tímabili yfir 50% vinningshlutfalli. Það er ekki auðvelt að losna við hann, því hann er líka með skrifstofutitil hjá félaginu. Það er ekki fyrr en loksins núna sem farið er að pískra um að Dunleavy verið rekinn sem þjálfari. Clippers-menn þurfa þó ekki að örvænta. Þeir hafa Ricky Davis...

Vinny Del Negro verður trúlega ekki körfuboltaþjálfari bráðum


Mikið óskaplega er örugglega lítið gaman að vera Vinny Del Negro núna.

ESPN hefur lekið út frétt um það sem alla grunaði. Að Chicago sé bara að fresta því að reka hann af því félaginu gengur illa að finna eftirmann hans.

Auðvitað eru allir undir sólinni orðaðir við djobbið, en enginn ku þó hafa verið spurður formlega nema Doug Collins - sem eins og flestir vita þjálfaði liðið þegar Michael Jordan var að stíga sín fyrstu skref með Bulls fyrir aldarfjórðungi síðan.

Auðvitað vildi Collins ekki djobbið, sem hann fékk ekki þrátt fyrir augljósan áhuga sinn þegar Del Negro var ráðinn á sínum tíma.

Collins á líka að halda áfram í sjónvarpinu, þar sem hann er að okkar mati besti co-arinn í bransanum.

Avery Johnson, Byron Scott, Lawrence Frank, Sam Mitchell, Jeff Van Gundy - nefndu þá - þeir hafa allir verið orðaðir við stöðuna hjá Bulls.


Eitt er víst. Það þarf að finna einhvern almennilegan þjálfara fyrir þessa pjakka þarna í Chicago. Þeir eru að spila langt undir væntingum. Við hefðum meira að segja áhuga á djobbinu ef við værum ekki öll á kafi í að skrifa hérna á vinsælasta vefsvæði í Skandinavíu.*

*Ef marka má tölur sem við fengum frá norska fyrirtækinu sem sér um að mæla fylgi Framsóknarflokksins.

Sunday, December 27, 2009

Af vélindabakflæði og skóm í skóinn

Að hugsa sér. Það eru enn jól þó kominn sé 27. desember. Það kallast þriðji í jólum. Það var svo mikið að gera hjá okkur hérna á skrifstofunni um hátíðarnar að við gleymdum að kíkja í skóinn.

Einn af okkur rambaði þannig út í glugga í gær og komst að því, sér til mikillar og óskiptrar gleði, að hann hafði fengið skó í skóinn!!! Hversu svalt er það!?! Sá hinn sami rambar nú um skrifstofuna í splúnkunýjum inniskóm úr Rúmfó sem Kertasleikir var svo vænn að gefa honum rétt áður en hann hljóp upp í fjall í hangikjétið hjá Mömmu Grýlu.

Já, þau eru góð, blessuð jólin. Við erum að vísu búin að tæma alla góðu molana upp úr Gæðagötu-kassa númer tvö (3 kg) og brjóstsviðinn og vélindabakflæðið er í hámarki. Bumban er svo svakaleg að við yrðum dæmd rangstæð oftar en Jermain Defoe og Emmanuel Adebayor til samans ef við tækjum þátt í knattspyrnuleik.

Skítt með það. Við lofum bara bót og betrun á nýju ári eins og venjulega.

Nash vill þitt atkvæði!


Steve Nash er rangeygður og artí Kanadamaður sem heldur með Tottenham. Þrátt fyrir allt þetta má hann eiga tvennt. Hann er óskaplega góður körfuboltamaður og hefur skemmtilegan húmor.

Í myndbandinu hér fyrir neðan kemur hann með sína eigin útgáfu af kjósiðimigístjörnuleikinn myndbandi - svona eins og þeir Chris Bosh og félagi hans Amare Stoudemire hafa áður gert með góðum árangri. Ætli hann hafi gert þetta til að drulla yfir Amare?

Té-Mákur má ekki spila - Fer í barnaafmæli
Sem betur fer áttum við sjóveikitöflur í skápnum hérna á skrifstofunni (þið hljótið að vera farin að hafa áhyggjur af vinnulöggjöfinni hérna - það virðist alltaf vera fólk að vinna hérna - en hafið ekki áhyggjur. Fyrirtækið er skráð í Asíu og hérna má láta fólk vinna út í eitt).

Það er víst fínt buzz af því að borða mikið af sjóveikitöflum, en það var nú reyndar ekki þess vegna sem við skelltum í okkur tveimur töflum með Maltinu og Appelsíninu og smákökunum og konfektinu og... öllu því.

Nei, við gleyptum þær í okkur eftir að við lásum um Tracy McGrady og þá hringavitleysu sem nú er farin af stað í sambandi við spilatíma hans. T-Mac hefur verið að spila 7-8 mínútur í leik síðan hann sneri aftur eftir hnéuppskurðinn sem hann fór í árið 1983 snemma á þessu ári ef við munum rétt.

Nú er bara búið að senda kappann heim til sín og gefa honum frí til að halda upp á afmæli sonar síns.

Kannski af því hann óskaði þess að fá að spila meira í samtali við fjölmiðla á dögunum. Eða kannski af því forráðamenn Houston vilja augljóslega ekki láta hann spila meira en þetta svo hann meiðist ekki áður en þeir geta losað sig við hann - svo þeir fái kannski par af þokkalegum gönguskóm eða strætómiða í skiptum fyrir hann.

Hvað um það. Svona hringlandaháttur fer í taugarnar á okkur. Og þó ekki. Það má alltaf hafa gaman af því þegar hæstlaunaðasti körfuboltamaður í heimi er ekki annað en þátttakandi í sápuóperu.

Saturday, December 26, 2009

Árið er ekki búið hjá Ron Ron


Ron Artest virðist hafa áttað sig á því í gærkvöld að hann væri að falla á tíma með að ná inn einum skandal áður en árið 2009 næði að líða.


Samkvæmt fréttamiðlum vestanhafs tók hann því upp á því að detta niður stiga heima hjá sér og slasa sig.


Hann verður því ekki með liði sínu gegn Sacramento í nótt. Lamar Odom kemur inn í byrjunarlið Lakers í hans stað.Afsakið tortryggnina, en þessi frétt hljómar álíka trúlega í okkar eyrum og ef einhver hefði sagt okkur að Hemmi Gunn og Mariah Carey væru búin að stofna dauðarokkshljómsveit sem þegar væri byrjuð að æfa fyrir Eistnaflug 2010 í bílskúrnum hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Allir vissu að Lakers-menn væru að taka áhættu með því að fá Artest í sínar raðir. Þeir hefðu þó líklega tekið því ef einhver hefði sagt þeim fyrir skiptin að sem Lakers-maður ætti hann bara eftir að gefa út eina fáránlega yfirlýsingu og hrasa um jólapakka niður stigann heima hjá sér á almanaksárinu.

Ritstjórnin les og étur konfektÞað er rólegt hérna á skrifstofunni í dag. Við nennum bara ekki að skrifa mikið núna. Það er svo mikið af mat sem þarf að borða og bókum sem þarf að lesa.

Við erum t.d. á kafi í bók Bill Simmons núna, sem er ekki leiðinlegt, svona með fimmtán kílóum af konfekti og jólaöli.

Jólaleikirnir í gærkvöldi voru skrítnir og skemmtilegir.

Meistarar Lakers voru grátlega lélegir og létu Cleveland pakka sér saman á sínum eigin heimavelli. Við erum ekki hissa á því að stuðningsmenn þeirra gulu hafi kastað drasli inn á völlinn. Við hefðum líka gert það ef liðið okkar hefði spilað svona eins og aumingjar.

Boston vann flottan sigur í Orlando án Paul Pierce. Rondo (17/13/8) skilaði huggulegri línu. Dwight frákastar eins og óður maður en bauð upp á 1-7 í skotum. Orlando á ekki möguleika í Boston ef þeir grænu verða heilir í vetur. Þið lásuð það hér.

Miðherjaleysið á eflaust eftir að reynast Portland illa á köflum í vetur, en að okkar mati hentar það Blazers miklu betur að spila minnibolta. Sjáið bara sigurinn á Denver í gær. Roy með 40 þegar hann er laus við þessa hlunka úr teignum ;)

Friday, December 25, 2009

NBA Jól - Kobe gegn LeBron


Það eru alltaf skemmtilegir stórleikir á jóladag í NBA og jólin 2009 eru engin undantekning.

Aldrei þessu vant verður boðið upp á leik milli Kobe Bryant og Shaquille O´Neal á jóladag - að þessu sinni viðureign LA Lakers og Cleveland Cavaliers.

Leikurinn er auðvitað ekki lagður upp sem Kobe vs Shaq að þessu sinni. Sú var raunin einu sinni, en ekki í dag.

Djúsið fór úr einvígi þeirra félaga eftir að þeir A) sömdu frið og B) Shaq varð gamall maður.

Nei, í dag er þetta leikur tveggja stórliða og einvígi tveggja bestu körfuboltamanna í heimi.

Kobe Bryant og LeBron James.

Það er freistandi að skrifa 80.000 orða pistil um skoðanir okkar á rifrildinu eilífa um það hvor er betri LeBron James eða Kobe Bryant, en við ætlum ekki að fara út í það núna.Höfum það bara svona: LeBron James er besti körfuboltamaður heims í dag, ekki Kobe Bryant.

Kobe er kaffi og koníak. LeBron er skot af viskí og bjór.
Kobe er Metallica. LeBron er Slayer.

Allt góðir hlutir. Bara spurning hvort þú vilt á hvaða tíma. Það getur vel verið að við rúllum út dýrari týpunni af pistli um þetta skemmtilega málefni í vetur, en við getum bara ekki búið til tíma til þess akkúrat í augnablikinu.

Sjáum til hvað okkur berast margir reiðipóstar eftir þessar yfirlýsingar. Ef hraunflæðið verður mikið, er aldrei að vita nema við flýtum því að skrifa þennan ógnarstóra pistil sem þarf að semja til að rökstyðja þessar fullyrðingar.

Þangað til, er um að gera að stilla á Stöð 2 Sport eftir jólasteik númer tvö í kvöld og fylgjast með þeim félögum setja á svið sýningu fyrir okkur. Góða skemmtun.

Gleðileg Jól
Jólin eru komin af fullum þunga. Algjör gleði. Ritstjórn NBA Ísland vonar að þú og þínir eigið gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Við vonum líka að þið hafið haft gaman af því að fylgjast með hérna á síðunni þennan fyrsta (tæplega) mánuð sem hún hefur verið í loftinu.

Tölvubréfin sem okkur hafa borist benda til þess, að þeir sem heimsækja okkur daglega, geri það vegna þess að þeir hafi gaman af því. Aðsóknin hefur líka verið að vaxa stig af stigi, sem er mjög ánægjulegt.

Við hérna á ristjórninni höfum auðvitað verið á kafi í jólaundirbúningi - og nú síðast jólaboðum - og því höfðum við engan tíma til að búa til huggulega jólamynd með þessari hátíðlegu færslu.

Því þótti okkur upplagt að stela bara jóla-photoshoppi drengjanna á ESPN, enda er það mjög huggulegt og minnir okkur á stórleikina sem eru um jólin. Allir vita að Lakers-Cavaliers er sýndur beint á Stöð 2 Sport í kvöld (jóladag) klukkan 22.

Thursday, December 24, 2009

Wednesday, December 23, 2009

Verður Vinny rekinn á jólunum?
Vinny Del Negro situr í heitasta stólnum í NBA. Svo heitur er stóllinn að hvergi má finna mynd af Vinny
sitjandi. Menn hafa enda verið reknir fyrir minna en þann ófögnuð sem Chicago Bulls-liðið hefur boðið stuðningsmönnum sínum upp á að undanförnu.

Fyrst glutraði liðið niður 35 stiga forskoti og tapaði fyrir Sacramento á heimavelli og svo var ógæfan kórónuð með tapi gegn New York. Ken Berger segir frá þessu í hugleiðingu á sinni á CBS.

Það er rosalegt að sjá þetta fína lið vera að gera svona upp á bak í þann mund sem fólk er að leggja lokahönd á jólahreingerninguna.

Það yrði einfaldlega of fyndið ef Chicago ræki enn einn þjálfarann sinn á aðfangadag. Eins og fram kemur í greininni sem við hlekkjuðum á hérna fyrir ofan, voru bæði Tim Floyd og Scott Skiles reknir á jólunum. Ótrúlegt.

Þorláksmessa
Tuesday, December 22, 2009

Dwight Howard er að læra

Vince Carter á það til að keyra ekki á körfuna... nokkru sinni


Understatement  under · state · ment / ÈÃ nd \Ç ste ö tm \ nt/ n
1. Það að gera lítið úr e-u.
2. Staðhæfing sem er vægari en efni standa til; það að gera lítið úr (e-u).


"Stundum á hann það til að taka bara stökkskot," sagði ónefndur þulur um Vince Carter í kvöld. Tilefnið var líklega leikur hans gegn Portland á laugardagskvöldið þar sem hann hitti úr 1 af 14 skotum sínum utan af velli.

Þar fyrir utan eru til gögn sem sýna að Vince Carter hefur ekki keyrt einu sinni upp að körfu í leik síðan tveimur árum áður en hann missti hjartað hjá Toronto og hætti að leggja sig fram þangað til honum var skipt í burtu.

Já, hann á það til að taka bara stökkskot.

Vince er með 40% skotnýtingu og 33,6% þriggja stiga nýtingu. Spurning um að splæsa í að keyra upp að körfu einu sinni í viku. Hann kemst upp með þetta fram á vorið. Ef Carter fer að leggja það í vana sinn að skjóta 1-14 í úrslitakeppninni, verður fólkið í Disneyland fljótt að fara að heimta hann Hedo sinn aftur.

Kisuslagur


"Jerry!, Jerry!, Jerry!" heyrist nú kallað úr áhorfendastæðunum í Charlotte.

Gerald Wallace drullaði yfir gagnrýndi sér stærri menn hjá Kisunum í Bobcats á dögunum eftir að liðið tapaði fyrir Utah á heimavelli. Furðaði sig réttilega á því að liðið hefði ekki fengið nema átta fráköst samtals frá fimmu sinni og fjarka í leiknum.

Þetta eru Tyson Chandler og Boris Diaw sem þarna er verið að tala um.

Við vorum fljót að taka málstað Wallace í þessu dæmi, því stórir menn eiga að frákasta eins og menn, ekki eins og kisur.

Skemmst er frá því að segja að Chandler tók þessu ekkert of vel og bauð upp á 14 fráköst í gærkvöldi. Það dugði þó skammt, því liðið tapaði fyrir endurfæddum drengjunum í New York Nix.

Boris Diaw tók þessu dissi ekki eins persónulega og hirti aðeins 4 fráköst, en hann talar líka reiprennandi frönsku og það er ekkert að marka svoleiðis tappa.

Chandler (Bing) sagði gagnrýni Wallace vera bull og vitleysu og sagði leikmenn Charlotte ekki nógu góða til að hafa efni á því að benda hvor á annan eftir tapleiki. Það má vel vera, en Chandler er að bjóða upp á sjö stig og sjö fráköst að meðaltali í leik og hirðir fyrir það einn og hálfan milljarð í laun á ári! Held að megi nú láta svona kalla heyra það. Vissir þú að Chandler er búinn að gefa ellefu stoðsendingar í allan vetur? Ellefu stoðsendingar!?! Menn missa boltann oftar til félaga sinna í 25 leikjum! Þetta eru Yinka Dare tölur gott fólk!

Og Wallace? Við höfum áður talað um hann hérna á vefsvæðinu. Áhugasamir geta skoðað tölfræði hans hér. Wallace má rífa kjaft við kisur eins og Chandler þangað til kýrnar koma heim okkar vegna.

Monday, December 21, 2009

George Karl...
....getur ekki hætt að brosa. Sáum hann í Kringlunni í dag. Jólin eru alveg að koma.
Og Blogger er )$&(%$(&)&% drasl :)

Sunday, December 20, 2009

Það er körfubolti í sjónvarpinu í kvöld


Nú er allt gjörsamlega trítilvitlaust að gera á skrifstofu NBA Ísland. Það er varla tími til að sinna körfuboltanum í þessari jólaörtröð!

Það eru tveir leikir í imbanum í kvöld og við komum til með að kíkja á þá ef við sofnum ekki áður en til þess kemur.

Stöð 2 Sport er með Miami-Portland í beinni í kvöld. Samkvæmt okkar tímatali er hann reyndar klukkan 23 en ekki klukkan 22 eins og stendur í dagskránni. NBA TV er með Boston-Minnesota á sama tíma.

Saturday, December 19, 2009

Hreinar línur - CP3-2K


Við fengum kipp í tölfræðiblætið okkar í nótt. Chris Paul var ábyrgur fyrir því. New Orleans vann Denver og CP3 bauð upp á 30 stig (13-20 fg), 19 stoðsendingar og 9 fráköst. Subbulegt. Þetta var jólagjöfin okkar í ár. Takk, Chris.

Í fyrri hálfleiknum komu nákvæmlega 70% af körfum New Orleans eftir stoðsendingu frá Paul.

Spurning hvort liðið er orðið of háð honum. Okkur er alveg sama. Þetta er bjútifúl. Eins og að spila 2K í arcade mode. Hvenær náði einhver síðast 30/20/10 leik í NBA?

Gil var líka flottur með 45 stig og 13 stoðsendingar á gamla heimavellinum.
Við erum búin að stríða honum svo mikið að við verðum að gefa honum kódós þegar hann gerir vel. Það breytir þó engu um skoðanir okkar á Washington.Afrek hjá Boston að tapa leiknum sem við vorum að tala um í færslunni hér fyrir neðan. Afrek. Og Elton John-Brand skoraði sigurkörfuna upp úr einum af viðbjóðslega tilviljana- og fálmkenndum sóknaraðgerðum Sixers í lokin.
Við vitum ekki hvað Eddie Jordan er að gera með Sixers-liðið og það er alls óvíst að hann viti það sjálfur.

Dómurum finnst gaman að dæma dómaVið vorum að horfa á fyrri hálfleikinn hjá Boston og Philadelphia með öðru auganu. Letilegri körfuboltaleik höfum við ekki séð í vetur.

Nú vitum við ekkert hvernig Boston vinnur þennan leik þessi leikur fer, en Boston myndi tæplega vinna Mostra á miðað við kraftinn og viðleitnina sem liðið leggur í þessa léttu æfingu á móti Sixers í kvöld - og það með fullri virðingu fyrir Mostra. Bæði lið spila eins og þau hafi verið að borða jólasteikina fyrir fimm mínútum síðan.

Það koma alltaf svona leikir inn á milli - ekkert við því að gera. Það sem er hinsvegar átakanlegast við þennan leik, er að einn dómarinn er hreint ekki svona latur og heldur að hann sé kominn í sjöunda leik í úrslitum Austurdeildar. Flautar á allt sem hreyfist eins og Forrest Gump á sveppatrippi!

Félaginn tók ekkert aukalega fyrir að kasta Rasheed Wallace út úr húsi, en við sáum hann líka dæma sóknarvillur á stóru mennina hjá Boston fyrir það eitt að draga andann þegar þeir settu letilegar hindranir uppi á lyklinum. Voðaleg læti eru þetta svona mitt í jólaösinni.

Friday, December 18, 2009

KLANK á landsvísuVerðum að að óska New York Knicks til hamingju með NBA metið sitt í nótt.

Liðið hóstaði upp 29 þriggja stiga skottilraunum í fyrri hálfleik í tapi gegn Chicago Bulls. Knicks-menn reyndu alls 43 þriggja stiga skot í leiknum, sem er það næst mesta í sögunni.

En hey, því ekki að reyna þetta þegar maður er með heimsklassa þriggja stiga skyttur eins og Wilson Chandler (28,8%), Chris Duhon (31,5%) og Al Harrington (32,5%)?

Og Phoenix fær líka sérstakar hamingjuóskir fyrir að hafa tapað SAUTJÁNDA sjónvarpsleiknum sínum í röð í beinni á TNT í nótt. Er það hægt? Aldeilis lúxus fyrir Steve Nash og félaga að vera í beinni á landsvísu.

Thursday, December 17, 2009

Wipeout Washington


Við vorum eitthvað að tala um vandræðaganginn á Washington Wizards um daginn. Þessi vandræðagangur hefur orðið fleirum yrkisefni.

Þið munið eftir því þegar Gilbert Arenas var að fara illa að ráði sínu á vítalínunni í blálokin í tveimur leikjum um daginn. Það var frekar vont.

Arenas leit heldur ekkert svakalega vel út í gær þegar hann lét Tyreke Evans afklæða sig á ögurstundu. Niðurstaðan enn eitt tapið hjá Washington.

Það er kannski ósanngjarnt að vera að atast svona í Flip Saunders þjálfara og strákunum hans strax. Kannski þarf að gefa þeim meiri tíma til að finna sig betur áður en allir eru teknir af lífi.

En kannski þurfa forráaðmenn Wizards líka að átta sig á því að það er ekki nóg að fylla liðið af skorurum. Og kannski er löngu ljóst að þessi kjarni leikmanna virðist ekki til annars fallinn en reyna að ná 50% vinningshlutfallinu.

Það er ekkert leiðinlegt að horfa á Washington spila, en það er dálítið eins og að sjá fólkið reyna við vegginn með boxhönskunum í Wipeout.  Margir lúkka rosalega vel hálfa leið inn á vegginn en liggja svo allt í einu rotaðir í drullupolli áður en þeir geta sagt Hibachi!

Vika til jóla

Í dag er vika til jóla!. Hugsið ykkur bara. Jólaundirbúningurinn er nú kominn endanlega á fullt hjá okkur hérna á ritstjórninni og gleðin eftir því.

Öll leggjumst við á eitt við að reyna að gleðja hvort annað. Drekka svo mikið af malt og appelsín að við finnum á okkur. Gera eitthvað fyrir náungann. Fá niðurgang af lakkrístoppaofáti. Friður á jörð og hátíð í hjörtum. Amen.

Það hljóta að vera skórnir


Dallas minnti aðeins á sig í sjónvarpsleiknum á NBA TV í nótt. Pakkaði spútnikliði Oklahoma nokkuð örugglega 100-86 í sveiflukenndum leik sem við sáum með öðru auganu.

Dirk Nowitzki kann þetta ennþá þó hann líti út fyrir að vera að fara á grímuball sem Björn Borg.

Kevin Durant er ekki beinlínis með góðar tímasetningar. Oklahoma liðið sýndi ekki á sér sparihliðarnar í sjónvarpsleikjunum tveimur í vikunni og Durant átti líklega sinn versta leik í vetur.

Svona er þetta þegar verið er að hylla mönnum um of á jafn víðlesnum og virtum miðli og NBA Ísland.               "Það hljóta að vera skórnir" segir gamall frasi í Bandaríkjunum. Það átti prýðilega við í þessum leik. Þú getur ekki reimað á þig annan eins ófögnuð og Creamsicle Orange KD2 skóna frá Nike - sem Durant var að frumsýna - og ætlast til þess að vinna körfuboltaleik.

Durant er greinilega ekki alveg kominn með þetta. Hann þarf átakanlega að pappíra sig eftir frumsýningu sína fyrir Nike.

Það er ekki langt síðan við sáum LeBron James og Dwyane Wade taka skófrumsýningu í beinni á einum af stóru stöðvunum. Það var einn af skemmtilegri leikjum vetrarins til þessa - amk fyrri hálfleikurinn sem ætlaður var undir skóauglýsinguna.

Ó, og talandi um skóauglýsingar. Kobe Bryant hrærði í fasta liði eins og venjulega og  kláraði Milwaukee með flautukörfu eftir framlengdan leik. Menn voru nú reyndar ekki á eitt sáttir með dómgæsluna í þessum leik. Við erum eflaust ekki ein um að finnast skorta dálitla breidd í Lakers-liðið núna. Hvar er þessi margrómaði bekkur hjá Lakers? Vill hann gefa sig fram?

Við getum ekki tekið augun af tölfræðinni hjá Pau Gasol, sem hirti 22 fráköst. Hann hefur sem sagt hirt 20 eða fleiri fráköst í þremur af síðustu fjórum leikjum sínum! Og ekki veitir af.

Wednesday, December 16, 2009

Scal skal í brúnkumeðferð


Það er tilfinnanleg fréttagúrka í NBA þessa dagana og því gleðjumst við alltaf óstjórnlega þegar bloggararnir í Bandaríkjunum grafa upp skemmtilega mola handa okkur.

Þannig lásum við frétt um það í dag að útvarpsstöð nokkur í Boston ætlaði að bjóða Brian Scalabrine í brúnkumeðferð um stjörnuhelgina ef næðist að redda honum kvartmilljón atkvæða í byrjunarliðið.

Þetta er kannski til marks um hvað gengur vel hjá þeim í Boston núna. Liðið er á ellefu leikja sigurgöngu, sóknarleikurinn gengur ágætlega og þegar vörnin kemst í keppnisgírinn, verður ekki gaman að mæta heilum grænum í vor.

Og jú, það er einmitt Scalabrine sem er annar maðurinn á hinum dýnamíska jólaborða sem við settum efst á síðuna á dögunum.

Borðinn sýnir glöggt að jólastemmingin er að verða rosaleg hérna á ritstjórninni. Meira að segja japönsku pennarnir eru farnir að hengja upp músastiga og syngja lög með Siggu Beinteins. Þetta kom okkur Íslendingunum mikið á óvart, því það eina sem við vissum um japanska menningu - heyrðum við í lagatexta með HAM.

Í Tókýó eru engin jól
heimamenn í leikhúsunum hanga þó
skemmta sér við söng og dansasjóv


---------------------

Hundraðníutíuogáttasentimetrar af Hayes


Við höfum áður sagt ykkur frá aðdáun okkar á Houston Rockets í vetur. Seigla liðsins hefur verið með ólíkindum þrátt fyrir endalaus meiðsli Yao Ming og Tracy McGrady.

Það er mikið af hetjum og vanmetnum leikmönnum í Rockets-liðinu. Einn þeirra er Chuck Hayes.

Hayes hefur átt fast sæti í byrjunarliði Houston í allan vetur og hefur spilað stöðu miðherja. Það er nokkuð áhugavert í ljósi þess að Hayes er ekki nema 198 cm á hæð.

Ekki beint þessi hávaxni turn eins og sjá má á myndinni hér til hliðar þar sem hann berst við Tim Duncan.

Strákarnir á Fanhouse fóru á stúfana og komust að þeirri niðurstöðu að líklega væri Hayes lágvaxnasti miðherji í sögu NBA. Að minnsta kosti ef miðað er við leikmenn sem hafa verið fastamenn í byrjunarliði til lengri tíma.

Það er gaman að sjá að maður sem er lægri en margir af miðherjunum í Iceland Express deildinni sé að halda sínu í baráttunni við tröllin í NBA deildinni.

McGrady sást á körfuboltavelli


Þið eruð eflaust öll búin að fá ykkur fullsödd af fárviðrinu í kring um Tiger Woods í fjölmiðlum undanfarið. Við líka.

Hversu lengi er hægt að mjólka fréttir úr því að heimsþekkt íþróttastjarna hafi reynst hóra mannleg eftir allt saman (kannski dálítið mikið mannleg, en gildir einu)?

Hvað um það. Tiger getur nú alfarið hætt að örvænta. Hann hefur fengið stuðningsyfirlýsingu frá Ron Artest sem segist kannast við það að reka sig á í lífinu (ekki ýkja).

Hann hefur þá fengið stuðningsyfirlýsingu opinberlega frá bæði Charles Barkley og Ron Artest. Sannarlega tilhlökkunarefni að sjá hver stígur fram næst. Við tippum á O.J eða Tyson.

-----------------------------

Það var líka gaman að sjá að Tracy McGrady er kominn aftur á ferðina með Houston Rockets. Engu líkara en hann hafi verið að lesa NBA Ísland.

Okkur þykir í alvöru vænt um Tracy. Okkur þykir hann frábær og spennandi leikmaður og við vitum fyrir víst að hann er drengur góður, en ógæfa hans hefur veitt okkur ómældan innblástur sem illa gengur að halda inni. Sérstaklega eftir að við fórum að nota Photoshop.

Það var líka áhugavert að sjá að Houston vann leikinn í nótt. Kannski af því Tracy spilaði bara nokkrar mínútur. Á hann eftir að bæta spútniklið Rockets sem hefur staðið sig ekkert minna en stórkostlega eftir að þeir Yao og Tracy fluttu lögheimili sitt á sjúkrahúsið?

Ekki gott að segja, en ljóst er að þeir félagar verða að fara að pappíra sig ef þeir ætla ekki að verða nýjasta og ef til vill besta sönnunin á Ewing-kenningunni.

Tuesday, December 15, 2009

Til lukku með það


Andris Biedrins og Ronny Turiaf, miðherjar Golden State Warriors, eru báðir meiddir. Þeir eru ekki bestu körfuboltamenn í heimi. Það er gefið. En það er nokkuð víst að liðið þeirra hefur líklega aldrei saknað þeirra eins mikið eins og í kvöld þegar það sparaði 76ers kinnroðann sem fylgir þrettán töpum í röð með því að steinliggja í Philadelphia 117-101.

Huggulegt fyrir Sixers að fá meiðslum hrjáð lið Warriors í heimsókn til að stöðva þessa ljótu taphrinu. Warriors-lið sem var að spila fimmta útileik sinn í röð á einni viku. Lið sem var út-frákastað 59-26 í kvöld! Philadelphia hirti 25 sóknarfráköst. Skrítið að þeir hafi unnið....

Hvað um það. Við óskum Allen Iverson til hamingju með fyrsta sigur sinn með Sixers í hrikalega langan tíma. Liðið hafði ekki tapað þrettán leikjum í röð síðan á nýliðaári Iverson leiktíðina 1996-97.

Monday, December 14, 2009

StjörnuZach
 Zach Randolph er líklega ekki vandaðasti einstaklingurinn í NBA deildinni. Hefur átt það til að lenda í vandræðum utan vallar og innan hans gerir hann lítið af því að spila vörn og gefa boltann á hina krakkana.

Hann er samt einn af fáum mönnum í deildinni sem geta gefið þér 20 stig og 10 fráköst í hverjum einasta leik. Randolph hefur spilað eins og engill í óvæntri rispu Memphis Grizzlies undanfarið og er að skila 18,6 stigum (49% nýtingu) og 10 fráköstum að meðaltali í leik.

Hann kemst hinsvegar ekki á blað yfir þá sem tilnefndir eru í stjörnulið Vesturdeildarinnar.

Nafni hans Anthony Randolph (11 stig, 6,6 frák) hjá Golden State kemst á blað. Líka Paul Millsap hjá Utah (10 stig, 5,7 frák). Sjúkrahúslimurinn Greg Oden er þarna líka og svo auðvitað rúsínan í afturendanum - Tracy McGrady - sem við munum ekki eftir spilandi körfubolta síðan fyrir daga internetsins.

Svona er margt skrítið í deildinni okkar fögru.

Góð vika á skjánum

Það verður gaman hér á aðalskrifstofu NBA Ísland í nótt. Við erum nefnilega að hugsa um að búa til poppkorn og horfa á Denver-Oklahoma á NBA TV klukkan tvö.

Næstu þrír leikir á stöðinni eru reyndar mjög áhugaverðir og ef við fáum einhverju um það ráðið, munum við líklega horfa á þá alla.

Mán 14-Des Denver-Oklahoma 02:00
Þri 15-Des Phoenix-San Antonio 02:00
Mið 16-Des Oklahoma-Dallas 01:00

Þetta er hörkuprógramm. Gaman að sjá Kevin Durant og félaga hans í spútnikliði Oklahoma. Liðið er 12-10 en til samanburðar má geta þess að liðið vann sinn tólfta leik á síðustu leiktíð ekki fyrr en 6. febrúar. Greinilegur uppgangur þar á ferð.

Denver virðist vera búið að festa sig í sessi sem næstbesta liðið í Vesturdeildinni og það er ekkert grín að fara þangað í heimsókn. Carmelo Anthony er heitari en nokkru sinni. Búinn að skora 40 stig eða meira fjórum sinnum í vetur eftir að hafa gert það samtals tíu sinnum á fyrstu sex árum sínum í deildinni.

Þá er ekki leiðinlegt að horfa á viðureignir Phoenix og San Antonio sem segja má að hafi verið erkifjendur undanfarin ár. Phoenix er nú loksins að fá að spila aðeins á heimavelli eftir rosalega rispu á útivöllum, en San Antonio á hinn bóginn að hefja rispu á útivöllum.

Það hefur satt best að segja verið lítill glæsibragur á Spurs það sem af er vetri, þó ungu mennirnir séu að stimpla sig ágætlega inn í liðið. Menn eru alltaf að bíða eftir því að "Leðurblökumaðurinn" Manu Ginobili detti í sitt gamla form eftir langvarandi meðsli.

Þetta er svona eins og einhver pistlahöfundurinn vestra sagði á dögunum;

"Don't sleep on the Spurs, but stay disappointed until they start to heat up."

Sunday, December 13, 2009

LA Lakers spilaði á útivelli!


Það er margsannað að það er stutt á milli Óskars og Ófeigs í NBA deildinni.

Það eru ekki nema tveir dagar síðan Lakers var heitasta liðið í deildinni og allt í blússandi gír eftir alla þessa þægilegu heimasigra.

Þurfti ekki nema magakveisu, brákaðan fingur og eina heimsókn til Orkulausnahallar í Salt Lake City til að drulla yfir þá glansmynd.

Við vonum innilega að blessaður puttinn á Kobe verði ekki til frekari vandræða, því breiddin hjá liðinu er sorglega lítil þegar allt er talið.

Odom er flottur þegar hann er í sambandi og Shannon Brown er töffari. Aðrir frekar rólegir. Eins gott að Lakers haldi sínum mönnum heilum.

Talandi um að vera heill. Pau Gasol virkar þokkalega heill.

Ekkert að því að rífa niður 40 fráköst á sólarhring. Pau er stundum óttaleg kisa, en hann er alveg óskaplega góður körfuboltamaður.

Sögðum við fráköst? Getið hver var næstum búinn að toppa tölurnar hans Gasol á þessum sama sólarhring?

Já, rétt. Erick Dampier hjá Dallas. Hann var 14 af 16 samanlagt í skotum í sigurleikjum gegn Miami og Charlotte og hirti 17 og 18 fráköst í þessum leikjum. Alltaf svo hressandi þessa örfáu leiki sem Damp man eftir því að hann sé atvinnumaður í körfubolta.

Zach Randolph er reyndar líka búinn að vera í ruglinu í óvæntri rispu Memphis, en okkur sýnist hann ætla að leiðrétta það gegn Miami í kvöld.

Útrásarvíkingurinn Boozer
Við erum búin að skrifa tvo langa pistla um Carlos Boozer sem við byggðum á skoðun Charles Barkley á TNT á fimmtudagskvöldið þar sem hann kenndi framherjanum tækifærissinnaða um óstöðuga spilamennsku Utah Jazz í vetur.

Við hentum báðum pistlunum. Þið hefðuð ekki nennt að lesa þá hvort sem er. Staðreyndin er bara sú að Boozer er útrásarvíkingur.

Enginn leikmaður í deildinni gefur liði sínu jafn rosalega mikið en tekur það allt til baka og meira til í sömu andrá. Verði næsta liði sem tekur hann að góðu.

Utah Jazz gerir ekkert annað en veltast um í meðalmennsku fyrr en það losnar við Boozer og (samning) leikmannsins sem einu sinni var Andrei Kirilenko.

*Viðbót*

Af hverju heldur fólk áfram að skrifa á Blogger-blogg þó það sé í raun og veru handónýtt drasl með sömu óþolandi smávillunum og voru á því árið 2005?

Skilgreiningin á geðveiki er að gera sömu mistökin aftur og aftur og búast alltaf við annari niðurstöðu. Þar höfum við það.

Það er samt $%&%/$/&%  óþolandi að vinna á blogg sem birtir færslur eins (gallaðar) og því sýnist!

*Önnur Viðbót*

Nú er þessi færsla orðin eins og við vildum hafa hana. Það tók ekki nema 64 breytingar og vistanir. Til hamingju Blogger!

Agent Orange


"Þreföld tvenna Gilbert Arenas nægði Washington ekki gegn Indiana" sögðu fyrirsagnirnar eftir að Wizards tapaði enn einum leiknum í nótt.

Kannski er þetta dæmi um "glasið er hálffullt" fréttamennskuna í NBA.  Við erum kannski ekki alveg eins jákvæð. Ef við hefðum skrifað um tap Washington á heimavelli gegn undirmönnuðu Indiana-liði hefðum við líklega boðið upp á fyrirsögnina:

"Gilbert Arenas var rétt búinn að skipta um nærbuxur eftir að hafa klúðrað Boston-leiknum á fimmtudagskvöldið á vítalínunni þegar hann gerði aftur upp á bak við sömu aðstæður gegn slöku liði Indiana og sannaði endanlega fyrir mörgum að hann er hreint ekki sá töffari sem hann heldur að hann sé og að Washington vinnur aldrei neitt með þessum kjarna leikmanna!"

Kannski dálítið löng fyrirsögn. Það er rétt. En við sjáum þetta nokkurn veginn svona.

Saturday, December 12, 2009

Á KamrinumStundum er sagt að myndir segi meira en þúsund orð. Og það sem við erum í tímapressu og ansi gjörn á að segja hluti í þúsund orðum, er líklega best að súmmera upp hugsanir okkar í dag með einni mynd.

Þetta er væntanlega ekki í síðasta skipti sem þú sérð myndina af þessu huggulega náðhúsi. Það er kannski betra að gera því skil með mynd þegar menn eru að drulla á sig. Ef við gerum það í texta, gæti fólk misskilið okkur og haldið að við værum eintómir leiðindapúkar hérna á ritjstórninni.

Kamarinn© er í boði Papco

Friday, December 11, 2009

Dwyane Wade blakar burt körfuboltum


Við hérna á ritstjórninni höfum alltaf verið dálítið hrifin af Dwyane Wade. Nema kannski þegar hann var að taka öll vítin í úrslitaeinvíginu á móti Dallas 2006. Það var ekki gaman.

Tölfræðimolinn okkar í dag kemur einmitt úr smiðju Dwyane Wade. Hann var að verja sitt 400. skot á ferlinum á dögunum og er þar með aðeins einn af þremur mönnum í sögu NBA sem varið hafa 400+ skot þrátt fyrir að vera aðeins 193 cm á hæð.

Hinir eru Dennis heitinn Johnson (675 varin skot í 1110 leikjum) og David Thompson (407 varin í 509 leikjum), en rétt er að taka fram að ekki var byrjað að halda tölfræði yfir varin skot fyrr en leiktíðina 1973-74.

Wade er þarna kominn í ansi fínan hóp manna, en árangur hans er líklega einna bestur af þeim því hann hefur ekki spilað nema rétt rúmlega 400 leiki á ferlinum og getur því bætt hressilega við sig í framtíðinni.

Og þykir það gott að vera með um það bil eitt varið skot að meðaltali í leik á ferlinum í NBA? Spyrjið menn eins og t.d. Michael Jordan, Charles Barkley og Karl Malone. Þeir voru ekki nálægt því.

Komdu að dansa! Af fortíðarþrá og barnaafmælum


Þeir sem horfðu á leik Cleveland og Chicago á Stöð 2 Sport um daginn eru eflaust löngu búnir að gleyma tilþrifalítilli spilamennskunni sem boðið var upp á það kvöldið.

Það sem upp úr stóð í þessum leik voru allir bleiku skórnir og atriðið þegar LeBron James gerði sig líklegan til að lemja Joakim Noah sem sat á bekknum og lét kónginn heyra það.

Seinna kom í ljós að Noah var pirraður út í James vegna dansatriðanna sem leikmenn Cleveland voru að bjóða upp á í sigurvímu sinni.

Það er stutt á milli þess að gleðjast og niðurlægja andstæðinginn. Þú getur allt eins sagt mömmubrandara í NBA eins og að niðurlægja mótherja þinn.

Það er bara í alla staði illa séð.

Hvað um það. Kevin McHale var spurður álits á þessum dansatriðum LeBron James og félaga og svar hans fékk okkur til að hoppa um af illgirni, gleði og fortíðarþrá.


"Ef einhver hefði verið að dansa svona hérna í gamla daga hefði þjálfarinn okkar (Boston) spurt okkur stóru mennina hver okkar væri með fæstar villur. Ef maður hefði rétt upp hönd hefði hann sent mann inn á völlinn til að mæta dansaranum næst þegar hann keyrði á körfuna og skella honum í gólfið. Svo myndi maður spyrja hann þegar hann lægi í gólfinu; "Ertu viss um að þig langi að halda áfram að dansa vinur?"
Þetta myndi líklega leysa þetta dansvandamál."


Já, krakkar mínir. Svona gerðu menn þetta hérna í gamla daga. McHale gerði sitt í því að taka glansinn úr Lakers-liðinu í einvígi Boston og Lakers í úrslitunum á níunda áratugnum. Hver man ekki eftir líkamsárás hans á Kurt Rambis, núverandi þjálfara Minnesota og fyrrum Lakers-manni (sjá mynd).


Nú erum við ekki að segja að ofbeldi sé göfug lausn allra vandamála, en staðreyndin er því miður sú að NBA deildin er orðin eins og átta ára stelpuafmæli á Arnarnesinu.

Menn mega ekki svo mikið sem gretta sig lengur - þá er þeim kastað í sturtu. McHale hefði fengið þriggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir tæklinguna á Rambis ef hún hefði gerst í úrslitakeppninni í vor.

Það er algjör synd hvað búið er að útrýma föstum leik - og sérstaklega David Stern og félagar virðast staðráðnir í að skafa alla tilfinningu og karlmennsku úr leiknum.

Og til að bæta gráu ofan á svart koma svo svona 120 kílóa þungar grenjuskjóður eins og Anderson Varejao sem eru kastandi sér í völlinn í tíma og ótíma til að fiska villur - og komast upp með það!