Friday, December 11, 2009

Dwyane Wade blakar burt körfuboltum


Við hérna á ritstjórninni höfum alltaf verið dálítið hrifin af Dwyane Wade. Nema kannski þegar hann var að taka öll vítin í úrslitaeinvíginu á móti Dallas 2006. Það var ekki gaman.

Tölfræðimolinn okkar í dag kemur einmitt úr smiðju Dwyane Wade. Hann var að verja sitt 400. skot á ferlinum á dögunum og er þar með aðeins einn af þremur mönnum í sögu NBA sem varið hafa 400+ skot þrátt fyrir að vera aðeins 193 cm á hæð.

Hinir eru Dennis heitinn Johnson (675 varin skot í 1110 leikjum) og David Thompson (407 varin í 509 leikjum), en rétt er að taka fram að ekki var byrjað að halda tölfræði yfir varin skot fyrr en leiktíðina 1973-74.

Wade er þarna kominn í ansi fínan hóp manna, en árangur hans er líklega einna bestur af þeim því hann hefur ekki spilað nema rétt rúmlega 400 leiki á ferlinum og getur því bætt hressilega við sig í framtíðinni.

Og þykir það gott að vera með um það bil eitt varið skot að meðaltali í leik á ferlinum í NBA? Spyrjið menn eins og t.d. Michael Jordan, Charles Barkley og Karl Malone. Þeir voru ekki nálægt því.