Showing posts with label Lokaúrslit. Show all posts
Showing posts with label Lokaúrslit. Show all posts

Friday, June 1, 2018

Meira svona, strákar!


Þetta var nú meiri vitleysan þarna í nótt...

Þvílíkur hvalreki fyrir fjölmiðlana, leikur eitt í lokaúrslitunum í ár.

Hvalreki fyrir fjölmiðlamennina. Þessa lötu - klárlega. Þessa sem hafa ekkert vit á leiknum, þessa sem hafa engan áhuga á leiknum - tékk, tékk. Og ekki gleyma þessum sem eru bara í þessu fyrir klikkbeituna og senseisjónalismann. Ekki leiddist þeim þetta.

Ofangreindar (en ekkert endilega mjög greindar) manngerðir mynda sorglega stóran hluta fjölmiðlafólks þarna úti. Og það má deila um það hvort við erum eitthvað skárri með því að opna hugleiðingu um fyrsta leik lokaúrslitanna á svona skítkasti en ekki umræðu um körfubolta. Leiðinlegt, en svona er þetta bara.

(Vertu samt ekkert að lesa lengra ef þér er illa við samhengislaust rant í allar áttir, sem byrjar sem körfubotamas en þróast svo fljótlega út í fordæmingar á barnaefni með vafasaman boðskap svo eitthvað sé nefnt. Þið vitið hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á þessu vefsvæði. Takið það og margfaldið það með þrjátíu - og þá fáið þið út vitleysuna sem flæðir í gegn um þessa færslu. Við berum enga ábyrgð á þessu. Þið hafið verið vöruð við

Annað var það, jú. Þessi aurskriða af hugleiðingu varð svo andskoti löng að við hvorki nennum né höfum tíma til að lesa yfir hana, svo farið umfram allt ekki að grenja þó hún sé full af bulli og villum. Við erum að reyna að starta okkur í gang aftur. Sýnið okkur umburðalyndi. Nú eða... fokkoff. Þetta er frítt efni. Lol).




Það kemur okkur sjálfum reyndar frekar á óvart að það fyrsta sem kemur niður á blað hjá okkur eftir þennan leik sé að byrja að hrauna yfir fjölmiðlana, sem flestir einbeittu sér að JR Smith og því að "hann hefði klúðrað leiknum" fyrir Cleveland. Einhvern tímann hefðum við tekið í sama streng, því eins og þið hafið kannski tekið eftir, er JR Smith í litlu uppáhaldi hjá okkur og hefur aldrei verið.

Það var jú þessi ritstjórn sem fullyrti það á sínum tíma að Cleveland yrði aldrei NBA meistari með menn eins og JR Smith í lykilstöðum. Seinna fengum við það jú í andlitið, en við kusum reyndar að snúa því þannig að sú staðreynd að LeBron James næði að leiða Cleveland til sigurs 2016 þrátt fyrir að vera með JR Smith í liðinu, væri trúlega eitt af hans allra fræknustu afrekum.

Nei, við gætum vissulega hraunað yfir JR eins og allir hinir, en við nennum því ekki. JR Smith er, hefur alltaf verið og verður alltaf, vitleysingur. Og það vita allir leikmenn og þjálfarar Cavs. Þeir vita að þeir geta átt von á svona bulli. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem JR Smith hagar sér eins og hálfviti undir lok leiks af því hann hefur ekki andlega burði eða greind til að átta sig á því hver staðan er.



Það er eitt að gera svona fáránleg mistök þegar þú ert að spila með rusli eins og New York, en að flaska á þessu í lokaúrslitum... Það er bara svo dæmigert fyrir Smith að okkur finnst það hvorki sorglegt né fyndið. Þetta er bara dæmigerður JR. Sjáið bara viðbrögð hans á vellinum annars vegar og á blaðamannafundinum hinsvegar.

JR Smith vissi ekkert hvað hann var að gera þegar hann hljóp eins og fáviti út í loftið í stað þess að skora sigurkörfuna í leiknum. Hann vissi ekki hver staðan var í leiknum, en hann vissi heldur ekki hvort hann var að koma eða fara. JR Smith veit sjaldnast hvort hann er að koma eða fara yfir höfuð, svo líkurnar á því að hann átti sig eitthvað á því hvað hann er að gera þegar pressan er svona mikil eru hverfandi.

Ef nákvæmlega sama staða kæmi upp í leik tvö, myndum við setja peninginn á það að Smith myndi skjóta - og það áður en tíminn rynni út - og hann gæti meira að segja hitt, af því færið væri ómögulegt og JR Smith er manna duglegastur við að taka ómöguleg skot, því honum þykja þau skemmtilegri en skólabókarskot.

Eini gallinn við þessi tilþrif hans yrði auðvitað að hann væri að skjóta á vitlausa körfu.

Ef þér finnst þetta út í hött, hefurðu ekki horft á JR Smith spila körfubolta lengi. Við trúum honum 100% til að verða fyrsti maðurinn í sögu NBA til að tryggja andstæðingum sínum sigur í leik með því að skora sjálfsflautukörfu langleiðina frá miðju.

En, svona án gríns, hefurðu séð þetta frá sjónarhorninu hérna fyrir neðan?

LeBron hefði getað hellt sér upp á kaffi áður en hann tæki skotið. Hann er bókstaflega einmanna þarna úti. En óheppilegt, eh?



Það er bara einn maður þarna úti sem er þakklátur fyrir það hvað JR Smith er mikill vitleysingur. Þú áttar þig eflaust á því hver það er. Það er jú maðurinn sem væri miklu nær að kenna um þetta. Maðurinn sem brenndi af vítinu sem mögulega hefði getað tryggt Cleveland sigur í leik eitt, maður að nafni George Hill.

Við misstum hökuna hálfa leið í gólfið þegar Hill hitti úr fyrra vítinu, því svipurinn á honum þegar hann steig á vítalínuna var ekki eins og á klaufdýri sem er að verða fyrir bíl, heldur meira eins og á manni sem er kastað ofan í gryfju fulla af glorsoltnum ljónum.



Svo voru þarna alls konar atvik sem settu dómgæsluna í sviðsljósið og sitt sýndist hverjum um það eins og alltaf. Við komum ekki nálægt því. Höfum hvorki þekkingu né áhuga á því að taka umræðu um frábæran körfuboltaleik og snúa henni upp í eitthvað helvítis væl um dómgæslu, eða stóradóm um breinfört eða mannleg mistök.

Tölum um körfubolta.

Munið þið hvað Golden State átti að taka þetta auðveldlega? Við höfum aðeins séð tvær útgáfur af spám fyrir þetta einvígi. Annað hvort 4-0 eða 4-1 fyrir Golden State. Ekkert annað í boði. Eðlilega.



Þetta var bara spurning hvort Warriors næðu að gera betur en í fyrra og sópa - eða hvort þeir myndu tapa einum leik, sem yrði þá annað hvort af því þeir yrðu of kærulausir til að sópa eða vegna þess að ofurmennska LeBron James yrði þeim ofviða í einum leiknum.

Þótti okkur þessar spár úti í hött? Alls ekki. Við kvittuðum undir þetta. Fyrir og eftir leik eitt, erum við á sömu skoðun - að þetta klárist í fjórum eða fimm leikjum. Það er okkar skoðun, vegna þess að Golden State er svo mikið betra lið en Cleveland, að það á ekki að vera stærðfræðilegur möguleiki að það taki Vesturdeildarklúbbinn meira en fimm leiki að afgreiða málið.



Rökin þar að baki áætla að úr því miklu betra Cleveland lið með Kyrie Irving innanborðs, náði bara að vinna Golden State einu sinni í fyrra. Og þar sem áður var Kyrie Irving í Cleveland, eru nú Jordan Clarkson og Jeff Green (hnnnngh!)

Sunday, June 18, 2017

Lokaúrslitin 2017 - Formáli


Ef fólk ætlar að draga fram lífið af því að skrifa, hvort sem er að heilu eða hálfu, þarf það að geta skrifað þegar það er þreytt, annars hugar, þjáð og þurrausið. Það sögðum við við sjálf okkur í kvöld þegar við vorum búin að henda pistlinum sem var hálfnaður, en fundum ekki hjá okkur anda til að skrifa nýjan.

Við brutum allar reglurnar sem við vorum búin að setja okkur um þetta. Við blöðruðum öllu sem okkur langaði að segja um úrslitakeppnina frá okkur* í hlaðvörpum og á mannamótum og áður en við vissum af, vorum við runnin inn í eftirlokaúrslitasvartholið, 

Eftirlokaúrslitasvartholið er fyrirbæri sem aðeins fólk sem lifir og hrærist í körfubolta þekkir (eða kannski bara við, það er ekki gott að segja). Merking hugtaksins felst í nafninu, stundum grípur okkur ákveðin tilfinning eftir síðasta NBA leik sumarsins - og hún er stundum dálítið... deprímerandi. 

Og við komumst að því núna, að þetta er sérstaklega þungbær tilfinning þegar úrslitakeppnin stendur ekki undir væntingum í fyrsta skipti síðan við fórum allra okkar ferða á reiðhjólum og borðuðum nammi bara á laugardögum. Þetta voru áhyggjulausir tímar, svona ef hægt er að kalla æsku- og unglingsárin áhyggjulausa tíma, því þeir eru það sannarlega ekki hjá öllum.

En allar götur síðan á þessum tímum BMX-hjóla og blands í poka, hefur NBA deildin díliverað fyrir okkur. Hún hefur alltaf skilað sínu, hvort sem var á vetrum, vorum eða sólríkum sumrum.

Þangað til núna.

Og við vitum ekki alveg hvernig við eigum að haga okkur yfir þessu öllu saman. 



Þið munið að við reynum alltaf að vera heiðarleg hérna á NBA Ísland og það stóð ekki á okkur að viðurkenna að fyrstu þrjár umferðirnar í ár hefðu verið drasl. Þær voru það líka, því miður. Drasl á miðað við hvað, spyrðu? Til dæmis á miðað við allar úrslitakeppnirnar aldarfjórðunginn þar á undan. Það ætti að vera nógu stórt úrtak.

Ókei. 

En þá var komið að lokaúrslitunum sjálfum og það er þar sem fólk byrjar að vera ósammála. 

Við sögðum ykkur (einhvers staðar, í hlaðvarpi, útvarpi, sjónvarpi, á prenti - við munum það ekki) að það gæti vel verið að lokaúrslitin yrðu ekki mjög spennandi rimma (að það væru líkur á því að Golden State myndi vinna einvígið 4-1 - check the tape) per se, en sögðum jafnframt að það truflaði okkur ekkert, því við vissum það að körfuboltinn sem í boði yrði í þessu einvígi yrði ekkert minna en stórkostlegur!

Athugið að það er glapræði að lofa svoleiðis, því það getur enginn vitað upp á hár hvernig körfuboltaeinvígi spilast fyrirfram, sérstaklega ef liðin sem um ræðir mæta til leiks með nýjan mannskap (ef annað þeirra t.d. bætir við sig einum besta körfuboltamanni heims...).

En við lofuðum þessu nú samt - og stóðum við það, fjandakornið. Nánar um það síðar.

Því miður tilheyrum við sennilega frekar fámennum hópi fólks, hvers körfuboltaáhorf gengur ekki alltaf út á að halda með öðru liðinu, heldur erum við mætt til að horfa á körfuboltann sem liðin eru að bjóða upp á hvoru sinni. Hér er alveg sama hvort um er að ræða íslenska boltann eða NBA. Við höldum oftast einfaldlega með körfuboltanum. Og ef leikurinn sem við erum að horfa á hverju sinni er vel leikinn og/eða skemmtilegur, förum við ánægð að sofa.

Stuðningsmenn Cleveland og Golden State hugsa auðvitað ekki svona þegar þeir eru að horfa á liðin sín kljást eina ferðina enn í úrslitum, þó það nú væri. Þeir eru auðvitað brjálaðir allt einvígið og finna liði mótherjans allt til foráttu, það er bara partur af leiknum.

En hvað með alla hina? Hvað með þessa sem áttu ekki hest í kapphlaupinu? Lakers-fólkið og Celtics-fólkið og það fólk allt saman? Gat það ekki notið lokaúrslitanna eins og við?

Hreint ekki allir, virðist vera. Margir af þessum "öllum hinum" urðu fúlir og byrjuðu að vera með leiðindi þegar í ljós kom að einvígi liðanna tveggja sem spiluðu epískan oddaleik í úrslitum árið áður, hefði klárast í fimm leikjum að þessu sinni og "ekki einu sinni verið spennandi!"

Við erum búin að heyra allar mögulegar gerðir af leiðindum varðandi nýafstaðin lokaúrslit, sumar þeirra eiga rétt á sér, aðrar eru hreint út sagt fáránlegar. 

En af því við erum hérna til að hjálpa ykkur, skulum við gæta þess að taka allar þessar helstu vangaveltur fyrir í næstu greinum okkar og pistlum.

Næstu pistlar, hvort sem þeir verða fáir eða fleiri, langir eða stuttir, munu fara í það að leitast við að svara helstu spurningum og/eða fullyrðingum sem orðið hafa á vegi okkar í kring um þriðja lokaúrslitaeinvígi Golden State og Cleveland á jafnmörgum árum.

Ætli þið kannist ekki við megnið af þessum pælingum og fullyrðingum:

* Af hverju í andskotanum var Kevin Durant yfir höfuð að fara til Golden State?
* LeBron James er aumingi af því hann er bara 3-5 í lokaúrslitum - Jordan var 6-0!
* Frammistaða Kevin Durant þýðir einfaldlega að hann er orðinn betri en LeBron James!
* Lokaúrslitaeinvígið var ójafnt og þess vegna var það drasl!
* Iss, (einhver útgáfa af Celtics, Lakers eða Bulls) myndi rústa þessu Warriors-liði í seríu!
* Michael Jordan/LeBron James er klárlega miklu betri en LeBron James/Michael Jordan
* Kevin Durant/Warriors-liðið eyðilagði leiktíðina í ár og ekki bara það, heldur næstu 5 líka!

Þetta er það algengasta, en við eigum eflaust eftir að muna eftir fleiri atriðum þegar við byrjum að takast á við þetta. Við verðum bara að vinna þetta með þessum hætti núna, því fyrstu þrír pistlarnir sem við skrifuðum enduðu alltaf í einhverri algjörri steypu og fóru því í ruslið. 

Þessi hefði sjálfssagt átt að enda í ruslinu líka, flest sem við skrifum ætti að gera það, en við urðum að koma okkur einhvern veginn af stað svo við yrðum búin að klára að gera nýafstaðið tímabil upp áður en það næsta fer af stað í haust.

Hey, það er ekki eins og sé eitthvað mikið annað að gera næstu vikurnar.

Takk fyrir biðlundina.

P.s. - Ef þú ert með spurningar tengdar lokaúrslitaeinvíginu, er þér guðvelkomið að senda okkur þær á nbaisland@gmail.com - við skulum taka þær fyrir og svara þeim ef þær eru gáfulegar.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Fyrsta regla varðandi (körfubolta)skrif

Reyndu að forðast það að "tæma af tönkunum" í spjalli við vini þína, í hlaðvörpum eða fjölmiðlum áður en þú skrifar um leikinn eða einvígið sem þú ætlar að að taka til umfjöllunar, þvi það getur fipað þig þegar kemur að skrifunum. 

Kannski komast sumir upp með þetta, en hafið þó hugfast að jafnvel reyndari pennar geta fipast eða jafnvel lent í sjálfheldu við skrifin ef þeir brjóta þessa reglu. 

Ef þú ert búin(n) að "tappa þessu öllu af þér" áður en þú ferð að skrifa, gætu töfrarnir staðið á sér þegar á þarf að halda. 

Aðeins fólk sem hefur prófað að skrifa af einhverju viti veit hvað við eigum við þegar við tölum um töfrana, en án þeirra væri ritlistin ósköp fábrotin. Og þetta eru raunverulegir töfrar, sem aðeins ákveðinn hluti okkar fær að upplifa.

Ef þú gerir þetta allt saman rétt og sest beint að lyklaborðinu eftir leik (því fyrr, því betra, þó sumir þurfi að leyfa hlutunum að gerjast aðeins fyrst), er þetta allt saman brakandi ferskt í hausnum á þér og þá hafa fingurnir ekki undan við að drita öllu sem þú þarft að segja á lyklaborðið. 

Stóri bónusinn við að vinna þetta svona er að þá er greinarskrifari líka miklu betur í stakk búinn til að rökræða leikinn/einvígið við hvern sem er, því þá er hann nýbúinn að telja fram allt það markverðasta sem gerðist í því í greininni sinni og það sem meira er - færa rök fyrir skoðunum sínum á því! 

Svona er hægt að hagnast á því að gera hlutina í réttri röð, ekki það að ritstjórn NBA Ísland sé til fyrirmyndar í neinu sem kallast getur skipulag eða hagkvæmni. En þó ekki væri nema einn ungur og upprennandi penni þarna úti - já, eða blaðamaður sem veit ekkert hvað hann er að gera. NBA Ísland er alltaf tilbúið að hjálpa.

Ykkur er alltaf, öllum, meira en velkomið að senda okkur línu um hvað sem ykkur liggur á hjarta. Hvort sem það tengist ritlist eða lokaúrslitaeinvíginu 2017 - ekki hika við að hafa samband. Við svörum öllum tölvupóstum innan skynsamlegra marka. Við erum eftir sem áður með póstfangið 

nbaisland@gmail.com 

Saturday, June 10, 2017

Cleveland lifði, setti met og skemmti


Við verðum bara að viðurkenna það. Við vorum mjög nálægt því að sökkva fyrr en nokkru sinni í NBA-lokaþunglyndið okkar. Það réðist á okkur að morgni fjórða leikdags lokaúrslitanna, föstudaginn 9. júní 2017.

Allt í einu helltist yfir okkur alda neikvæðni og vonleysis þegar við leyfðum okkur að hugsa út í það hvað hatursmennirnir og konurnar ættu eftir að segja þegar Warriors-liðið kláraði Cavaliers í fjórum eða fimm leikjum.

Við erum reyndar mjög gjörn á að þjást af þunglyndi á morgnana, enda eru morgnar ofmetnasta og asnalegasta uppfinning mannkynsins og fólk sem finnst gaman að vakna á morgnana og spæna helst beint út að hlaupa eða lyfta þungum hlutum í leik eða starfi á bara að dauðskammast sín. Hvað er eiginlega að ykkur!

En ókei, snúum okkur aftur að lokaúrslitunum. Við vorum semsagt þarna nývöknuð og þunglynd að hugsa um hvað jarmið í helvítis höturunum ætti eftir að verða gjörsamlega óþolandi í allt sumar og allan næsta vetur ef Warriors sópuðu eða heiðursmannasópuðu seríunni, þegar svona stórkostleg en einföld hugmynd spratt fram í kollinum á okkur.



Það erum við sem ráðum því hvernig narratífinu verður háttað um þessi lokaúrslit eins og öllu öðru í NBA deildinni. Við getum haft áhrif á það hvernig þessi stjörnum prýdda sería verður mæld og túlkuð í framtíðinni. Fyrst og fremst ráðum við því öll sjálf - og þið lesendur líka - hvernig við túlkum þessa lokaúrslitaseríu alveg eins og allt annað sem verður á vegi okkar í lífinu.

Og þegar kemur að því að skrásetja óopinbera orðræðu- og munnmælasögu NBA deildarinnar á Íslensku, getum við lagt jafnvel nokkuð þungt lóð á vogarskálarnar. Og það þó við höfum ekki hundsvit á körfubolta, heldur aðeins áratugalanga óheilbrigða ástríðu fyrir fallegasta leik jarðar. Leiknum.



Af hverju í andskotanum ættum VIÐ að hafa áhyggjur af því hvað eitthvað pakk sem hefur ekkert gaman af NBA og drullar hvort sem er yfir allt sem því dettur í hug á félagsmiðlum? Plís, sko.

Þið vitið væntanlega af hverju þessi hræðsla og neikvæðni hreiðraði um sig í hjörtum okkar á þessum tímapunkti. Jú, það var af því við vorum skíthrædd um að þegar helvítis haturskórinn byrjaði að drulla yfir deildina okkar fyrir lélega úrslitakeppni og nú ógeðslega ójöfn lokaúrslit, myndi hann næstum því hafa rétt fyrir sér.

Og þið getið ímyndað ykkur hvernig það færi með okkur að kyngja því að heil úrslitakeppni í NBA yrði drasl frá upphafi til enda. Þið gætuð alveg eins ætlast til þess að við tækjum þátt í júróvisjón á næsta ári. Það bara var ekki að fara að gerast.



Eitthvað virðist þessi uppgerðar jákvæðni og hressleiki okkar hafa stuggað við körfuboltaguðunum, því þeir forðuðu okkur ekki aðeins frá sorglegri niðurstöðu eins og sópi, heldur buðu upp einn skemmtilegasta körfuboltaleik sem við höfum nokkru sinni séð!

Nei, Cleveland var ekki á leið í sumarfrí, alveg strax að minnsta kosti - og það lét ekki sópa sér út á eigin heimavelli, fjandakornið. Með fullri virðingu fyrir styrk Warriors-liðsins, hefði sóp bara verið lélegur árangur hjá ríkjandi meisturum sem voru ekki einu sinni með lykilmenn á sjúkralistanum að þessu sinni.

Ef við eigum að segja ykkur alveg eins og er, höfum við ekki hugmynd um hvað við eigum að segja um þennan stórfurðulega fjórða leik Cleveland og Golden State í nótt. En við skulum reyna, af því það er það sem við gerum, alltaf á endanum.

Þessi leikur hafði nokkurn veginn allt sem sögulega góður körfuboltaleikur þarf að hafa nema spennandi lokamínútur eða sigurkörfu og góðan varnarleik. Og þegar við vorum að hugleiða þessa staðreynd, byrjuðum við aftur að hugsa aðeins dýpra og pæla í því hvernig standi á því að leiftrandi sóknarleikur sé álitinn hálfgert blótsyrði nú orðið.



Viðbrögð fólks við sóknarleik eins og Cleveland spilaði í nótt minnir okkur á viðbrögð íslenska meðaljónsins - bolsins - við peningum. Þetta fólk á í stórkostlega meðvirku og æpandi geðsjúku sambandi við peninga. Það hugsar ekki um annað en peninga allan daginn, en fullyrðir á sama tíma við alla sem vilja eða vilja ekki heyra það, að því sé skítsama um peninga.

Ef þetta fólk á ekki peninga, fer það í þunglyndi og grenjar, en ef því áskotnast svo góður slatti af peningum (eins og það óskaði sér, auðvitað), ja þá fyrst verður andskotinn laus og þetta sama fólk bókstaflega missir vitið þangað til það er annað hvort búið að gefa peningana eða það sem líklegra er, búið að eyða þeim í glórulausa vitleysu.

Minnir þessi hræsni og hringavitleysa ykkur ekki dálítið á hugmyndir manna og kvenna um sóknarleik í körfubolta? Flestir þjálfarar, t.d. í NBA deildinni, predika fyrst og fremst vörn og vilja alltaf byrja á því að laga varnarleikinn áður en þeir fara nokkuð að pæla í sóknarleiknum.

Það er aldrei langt að bíða þess að hlutirnir verði vandræðalegir í sóknarleik í körfubolta alveg eins og í peningamálunum og hræsnin er nákvæmlega eins. Þjálfarar þykjast bara pæla í vörninni, en ef þið gæfuð þeim sannleikspillu og helltuð í þá hálfri viskí, myndu þeir segja ykkur eins og er - að það sem þeir séu hræddastir við af öllu er að liðið þeirra geri sig að fífli í sóknarleiknum.



Og það eru ekki bara lið sem líta illa út í sóknarleiknum. Sumir leikmenn voru einfaldlega ekki skapaðir á þessa jörð til þess að spila sóknarleik, eða kannski körfubolta yfir höfuð. Nærtækt og gott dæmi um þetta í NBA í dag er maður eins og Zaza Pachulia, miðherji Golden State.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------

Uppfært: Ritstjórnin villtist svona illa af leið þegar hún ætlaði að leiðrétta eina setningu í pistlinum að hún skrifaði flennistóra viðbót við hann - í miðjum pistlinum í þokkabót - sem ekki verður kölluð annað en ristill. 

Þið kannist við fyrirbærið, en það er þegar við missum stjórn á okkur og förum að halda þrumuræður um ákveðin málefni. Þessar ræður innihalda fá eða engin rök, aðeins fullyrðingar og gífuryrði, sem í stað þess að koma frá hjartanu eins og restin af efninu okkar (ekki kemur það frá heilanum, svo mikið er augljóst eftir 30 sekúndna lestur), heldur beint úr ristlinum.

Eftirfarandi hluti af pistlinum hefur verið endurskoðaður að hluta og talsverðu efni bætt við hann. Lesendur eru beðnir velvirðingar á þessum geðklofa og ritstjórn lofar bót og betrun. Fréttum við.



Zaza Pachulia er ekki búinn að gera neitt af viti alla úrslitakeppnina og það eina sem hans verður minnst fyrir í ár er að vera gaurinn sem:

1) Meiddi samherja sinn (Kevin Durant) með því að floppa eins og aumingi

2) Meiddi Kawhi Leonard viljandi og tók hann úr umferð og eyðilagði úrslitakeppnina fyrir San Antonio.

3) Gerði ekki sjitt í úrslitaeinvíginu annað en að missa boltann, klikka í dauðafærum, rífa kjaft (gaurinn hefur álíka mikið efni á því að rífa kjaft á körfuboltavelli og Egill Helgason hefur efni á því að hrauna yfir þéttvaxið fólk fyrir að vera á lélegu mataræði) og halda áfram að reyna að meiða andstæðinga sína. Og kosta lið sitt þannig enn frekari mínus.

Við fengum hárblástur frá lesanda/áhorfanda um daginn, sem þótti hatursáróður okkar gegn Zaza kominn út fyrir allt velsæmi. Þetta var alveg rétt hjá áðurnefndum lesanda/áhorfanda, fátt drepur jafn fljótt niður í okkur allt sem heitir fagmennska og það eitt að sjá þetta höfuðstóra gimp.

Finnst þér gaman að horfa á þetta drasl? Viltu borga aukalega fyrir það, jafnvel? Nei, í alvöru. Virtu þetta apparat aðeins fyrir þér og segðu okkur að þér finnist þetta kúl:






































Þetta er það eina sem hann gerir. Hann flopppar og vælir. Og missir boltann og klikkar á sniðskotum undir körfunni af því hann er svo hræddur um að einhver komi við vatnshöfuðið á sér.

Nei, viðbjóður okkar og andstyggð á Zaza eykst því miður bara með hverjum leiknum þessa dagana og fyrir vikið er hann nú búinn að ná árangri sem við munum ekki eftir að neinum körfuboltamanni hafi tekist áður: hann er nú kominn í Heiðurshöll Hægðaheila og Hálfvita (H3 eða Há Þrjá), sem er félagsskapur sem ritstjórn NBA Ísland var að stofna nú rétt í þessu.

Hér er um að ræða fámennan hóp atvinnuíþróttamanna sem eiga það sameiginlegt að geta fengið okkur til að vilja ekkert heitar en að sparka í bæði krakka og hvolpa af hreinni heift með því einu að koma okkur fyrir sjónir í innan við tvær mínútur í senn.

Og elítuna í þessum barnasparks-hóp okkar skipa Didier Drogba, Diego Costa (sérðu eitthvað trend í þessu?), Luis Suarez, El Hadji Diouf, Arjen Robben og svo auðvitað nýjasti meðlimurinn, vatnshöfuðið Zaza. Þessir íþróttamenn hafa skarað framúr þegar kemur að því að fara í taugarnar á okkur undanfarin ár.

Fyrir þau ykkar sem eruð núna að hrækja á tölvuskjáinn ykkar og öskra upphátt af hverju það séu t.d. engir Real Madrid-leikmenn (hnnngh!) á þessum lista, þá verðið þið að reikna með því að sem betur fer erum við ekki að horfa á þessi nagdýr og drullusokka á hverjum degi - sem betur fer. Auðvitað ættu menn eins og Sergio Ramos, Pepe og á margan hátt Ronaldo að vera á þessum lista líka, en það vill bara þannig til að þeir hafa ekki hitt nógu vel á okkur - amk ekkert í líkingu við hinar hrææturnar.

Bottomlænið á þessum lista er að úrvalshópurinn sem fyllir hann er skipaður cheating, flopping, malicious, venomous, stupid fu***ing cu***s sem koma óorði á lið sín og leikinn hvar sem þeir koma og eiga ekki skilið að fá að spila hann - hvað þá að fá milljarða í laun fyrir að gera það!

Einstaka menn á þessum lista, *hóst* Suarez *hóst* eiga náttúrulega bara að vera lokaðir inni á geðveikrahæli fyrir hegðun sem hundum er lógað fyrir - en þetta skögultennta og þarmhuga undirmálsskítseyði fær bara launahækkun upp á milljarð í viðbót. Þetta er bull.

Þegar við hugsum málið betur, var reyndar einn leikmaður í NBA deildinni nánast kominn inn á þennan lista á síðustu mánuðum sínum í deildinni, en það var Kevin Garnett. KG var frábær leikmaður og allt það, en eftir því sem hann varð eldri og geðveikari, stundaði hann það meira og meira að reyna að meiða minni og minni bakverði í deildinni með jafnvel hættulegum fantabrögðum sem oftast voru í formi olnbogaskota í andlit.

Kevin Garnett var góður, en hann er enginn nagli og hörkutól eins og hann hélt sjálfur. Hann þorði aldrei að svo mikið sem rífa kjaft við nokkurn mann sem var eitthvað nálægt honum að stærð, en pikkaði þeim mun meira á saklausum bakvarðaraumingjum sem gátu ekki svarað fyrir sig. Og þá var Garnett rosalega stór kall.

Þetta er einkennandi hegðun fyrir níðinga og bullur, sem taka ógæfu sína út á minni máttar en hlaupa svo grenjandi í felur ef þeir mæta jafnokum sínum. Við höfum kynnst svona hyski og þið megið giska hvernig það endaði.



Á myndinni hér fyrir neðan kontempleitar hrosshausinn Iman Shumpert* hvort hann eigi að "taka einn fyrir liðið" (og okkur öll) og negla þetta þefdýr í eitt skipti fyrir öll.

Nei, djóóók!**



Nú líður okkur eins og Bruce Banner þegar hann vaknar hálf timbraður á skítugum sófanum sínum á teygjanlegustu nærbuxum í sögu mannkynsins.

Hann er með hausverk og hann er með massífan móral, þó hann hafi ekki hugmynd um hvað hann gerði í gær. Hann veit bara að hann fokkaði gjörsamlega öllu upp. Og þegar Bruce Banner fer og fokkar hlutunum upp sem Hulk, eru ágætis líkur á að Gísli Marteinn sé ekkert að fara að hjóla neitt í þeim bænum á næstunni. Það eru engar götur eftir til að hjóla á - og kannski engin hjól eftir heil heldur, fattiði.

Okkur minnir að á einhverjum tímapunkti í þessum pistli höfum við byrjað að tala um að vera jákvæð en strax myndað algjöra þversögn með því að byrja að mæta neikvæða fólkinu með enn meiri neikvæðni. Og svo byrjuðum við að hugsa um Zaza - og svo Suarez - og svo bara varð allt svart.

Fyrirgefið okkur. Það sem byrjaði sem lítil saklaus leiðrétting á einni setningu í þessum texta, varð að þúsund orða viðbót þar sem við frussuðum ósviknu hatri og fyrirlitningu í allar áttir yfir allt og alla. Þetta er ekki gott fyrir heilsuna. Þetta er náttúrulega ekki í lagi...




































Hér endar viðbót kvöldsins við pistilinn - ristillinn - og nú snúum við okkur aftur að því sem við vorum að segja í upprunalega pistlinum...

---------------------------------------------------------------------------------------------------

Það eru til fleiri vandræðalegar hliðar á sóknarleik einstaklinga og liða. Skemmst er að minnast hvað allt verður rosalega vandræðalegt á köflum þegar ákveðið lið er t.d. bara með einn góðan sóknarleikmann og ákveður því að hann eigi að gera ALLT í sóknarleik liðsins - slútta ÖLLUM sóknum.

Dæmi um þetta eru Russell Westbrook í vetur, Dwyane Wade hjá Miami árin áður en LeBron fór þangað, níundi áratugurinn hjá Michael Jordan og Mömbu-árin hans Kobe Bryant inn á milli titlanna.

Það er staðreynd að sóknarleikur er engu minna mikilvægur en varnarleikur ef lið ætla að ná árangri í NBA deildinni og þið þurfið ekki annað en að rýna aðeins í tölfræðina til að átta ykkur á því. Gamla klisjan um að varnarleikur vinni titla er ekkert fallin úr gildi, ekki misskilja okkur, en það sem við föttum ekki er hvers vegna í andskotanum fólk er svona rosalega spéhrætt  og skammast sín svona fyrir sóknarleikinn sinn.

Eini maðurinn sem spilar æpandi sóknarleik og er skítsama bæði um varnarleikinn sinn og hvað þér finnst um hann, er Mike D´Antoni þjálfari Houston, en hann hefur líka verið skotskífa haturskórsins í mörg ár af því vörn vinnur ekki bara titla (og sókn þá náttúrulega ekki) heldur eru það bara fávitar sem halda að þeir geti fengið allt fyrirhafnarlaust sem einblína á sóknarleikinn. Einhver "stökkskotalið" sem eru full af leikmönnum sem eru bara að hugsa um rassgatið á sjálfum sér og spila ekki körfubolta eins og á að spila hann!



Þetta er að verða komið á það stig að við erum sjálf orðin gáttuð á því hvað okkur tekst að fara fleiri þúsund orð út fyrir efnið í hvert einasta skipti sem við sláum á lyklaborð í nafni NBA deildarinnar. Við erum ekki alveg með það á hreinu hvað þið eigið að græða á því ef líking okkar varðandi sóknarleik og peninga gengur upp. Meira ruglið.

Ókei, slúttum þessu þá með því að fókusa fyrst aðeins á leikinn í nótt og svo á framhaldið. Við erum alveg 150% viss um að haturskórinn og leiðindapésarnir eiga eftir að baula þennan leik niður og hrauna yfir okkur þegar við segjum skoðun okkar á honum, nákvæmlega í takt við viðhorfið sem við útskýrðum hér fyrir ofan. En okkur er fjandans sama.

Okkur er nákvæmlega sama þó varnarleikurinn í leik fjögur hafi stundum verið bjánalega lélegur og gleyma því hvað við vorum og erum gáttuð á því að Golden State - þetta heimsklassa varnarlið - skuli hafa fengið á sig HUNDRAÐ-ÞRJÁTÍU-OG-SJÖ stig og tapað 137-116 þegar það átti auðvitað að vinna leikinn og tryggja sér annan meistaratitilinn sinn á þremur árum.



Við þurfum að fara að troða því inn í hausinn á okkur öllum að það er allt í lagi að spila fokkíng sóknarleik annað slagið og láttu þér ekki detta það í hug að fara að tuða yfir því! Viltu ekki bara drulla yfir hvolpa og rjómaís í leiðinni? Viltu kannski renna norður í Skagafjörð og athuga hvort þú getur drepið hrossastóð með helvítis leiðindunum í þér?

Nei, við áttum það skilið að fá svona flugeldasýningu af leik í lokaúrslitunum, úrslitaeinvígi sem hefur boðið upp á frábæran sóknarleik frá fyrstu mínútu og öðru liðinu hefur mistekist einu sinni að skora innan við 113 stig í öllum fjórum leikjunum! Golden State er þannig að bjóða upp á mjög svo 9. áratugar-leg 119,8 stig skoruð að meðaltali í leik í lokaúrslitunum og Cleveland 113,8. Þetta eru tölur sem Mach Schau-liðið hans Magic hjá LA Lakers á 9. áratugnum hefði verið stolt af.

Eigum við ekki bara að semja um það að hætta að vera þessir fánaberar neikvæðni og leiðinda og hleypa smá sóknargleði inn í líf okkar? Akkúrat, við erum sammála. Þetta er bara skemmtilegt. Fá smá Reynir Pétur í þetta, smá Völu Matt... dass af Magga Skjévíng. Hah?



En hvað eigum við þá að segja um einvígið í heild? Einhver ykkar geta reynt að mótmæla því, en leikurinn í nótt var bara svo fjandi góður einn og sér að hann er ansi nálægt því að redda einvíginu. Við erum ekkert að slá svona fram í neinu kæruleysi, lesendur góðir, okkur er alvara.

Við sögðum ykkur fyrir einvígið að gæðin í því myndu tryggja það að það yrði ljómandi skemmtilegt nánast alveg óháð því hvort það færi 4-0 eða 4-3.

Já, við sögðum nánast og auðvitað hittum við þá beint á þetta nánast-kjaftæði þegar Golden State komst í 3-0 og virtist ætla að pakka þessu og setja öll heimsmet heims í leiðinni. Þetta leit ekki vel út, við skulum viðurkenna það.

Þess vegna var þessi risafórn frá körfuboltaguðunum svona dásamleg í nótt. Auðvitað vonum við alltaf að allar seríur fari alla leið, af því við viljum alltaf fresta hinu óhjákvæmilega í fyrirsjáanlegri NBA-leysis örvinglan okkar. Við kvíðum sumrinu öfugt við annað og venjulegra fólk.

En á þessi sigur eftir að snúa einvíginu á haus líkt og gerðist í fyrra? Er Cleveland að fara að storma til baka og taka þessa seríu? Nei, sennilega ekki. Og sennilega endar ævintýri LeBron James og félaga meira að segja í Oakland á mánudagskvöldið (Sport sýnir, klukkan eitt, nema hvað).

Þeir líta þá kannski á þetta sem svo að þeir hafi þó náð að bjarga andlitinu með því að vinna þó einn leik og láta ekki sópa sér út á heimavellinum sínum.

En þeir gerðu meira en það. Þeir gáfu okkur einn skemmtilegasta og sóknarlega sturlaðasta leik sem við höfum nokkru sinni séð - óháð stað og stund - en það vildi svo vel til að þessi leikur var útilokunarleikur í lokaúrslitum og fær því fullt vægi. Það verður ekki mikið betra.

Sagan verður að leiða í ljós hvort þessi leikur í nótt nær að redda þessu einvígi frá því að dæmast hálfgert dödd og það fer náttúrulega mikið eftir því hvað gerist í næsta leik. Hvað sem því líður munum sannarlega gæta þess að missa ekki af þeim leik, frekar en neinum öðrum í þessu stjörnum prýdda og magnaða einvígi.

Og af því við erum í þessu uppreisnar- og hate the haters-skapi, ætlum við að nota þetta tækifæri til að hrópa hér yfir torg og heiðar hvað það var nú ógeðslega gott á leiðindapúkana sem misstu af þessum stórkostlega metleik í nótt. Það var svo gott á þá, enda áttu þeir ekki skilið að sjá hann. Það vorum bara við og þið sem sáum hann - fólkið sem elskar Leikinn.

Þið takið eftir því að þessi hugleiðing minnist varla einu orði á stórkostlega frammistöðu leikmanna beggja liða, en málið er bara að það er ekkert nýtt. Stórstjörnurnar í báðum liðum eru búnar að fara á kostum frá fyrstu mínútu í þessu einvígi og munu halda því áfram á mánudagskvöldið. Við skoðum frammistöðu einstaka leikmanna kannski frekar þegar einvígið klárast. Nægur tími til að sleikjast og skammast þá.

Megi þessi ógnvekjandi vel mannaða úrslitasería halda áfram að gefa af sér gleði og vonir.

Góða skemmtun, áfram, elsku vinir.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Það geta ekki verið fleiri menn á þessari jörð sem eru með höfuð eins og hesturinn Herra Ed og nafn, sem er ekki bara kvenmannsnafn, heldur hljómar eins og eigandinn sé alveg klárlega giftur David Bowie (eða hafi verið það).

** - Auðvitað er þetta ekkert fokkíng djók! Þessi fáviti á skilið að fá einn á lúðurinn. Hann er ekki bara risavaxin og hárug varta, full af greftri, í annars dásamlega fallegu andliti Warriors-liðsins, heldur er hann búinn að sanna það endanlega í þessari úrslitakeppni að hann er BÆÐI hæfileikalaus OG fáviti. Ekki slæm uppskera. Þú veist, miðað við fávita almennt.

Friday, May 26, 2017

NBA Ísland gerir upp undanúrslitin


Undir nánast öllum kringumstæðum hefðum við skrifað tvo pistla til að gera upp undanúrslitaeinvígin í úrslitakeppni NBA deildarinnar. En þó þessi pistill verði sjálfssagt fjórum sinnum lengri en hann þarf að vera eins og allir okkar pistlar, segir það sína sögu um úrslitakeppnina í ár að það er algjör óþarfi að skrifa sitthvorn pistilinn til að gera upp austur og vestur. Einn er yfirdrifið nóg.

Úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar lauk í nótt þegar Cleveland gjörsamlega slátraði Boston Celtics í Boston, að þessu sinni 135-102. LeBron James og félögum leið einfaldlega miklu betur í leikjunum í Boston í þessu einvígi, sem er í besta falli stórfurðulegt, en engu að síður staðreynd.



Ef framtíð Celtics væri ekki jafn björt og raun ber vitni, væru þessi ljótu töp liðsins á heimavelli meira að segja kjörin ástæða til að skella sér í gott þunglyndi eitthvað fram eftir sumri.

Lið sem nær besta árangrinum í Austurdeildinni nokkuð óvænt, kemst í úrslit austursins nokkuð óvænt og er með fyrsta valrétt í nýliðavalinu í sumar, gæti svo sem ákveðið að fara í þunglyndiskast, en það yrðu sett lög á það undir eins líkt og lögreglumenn sem ætluðu í verkfall.

Nei, það gekk allt of margt upp hjá Celtics í vetur og vor svo þeir hafi efni á að fara í þunglyndiskast. Var súrt fyrir þá að spila ekki mínútu gegn Cleveland í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar án síns besta sóknarmanns? Vissulega. Var fúlt að það voru fleiri leikmenn hjá Boston en bara Thomas sem voru meiddir? Vissulega. Hefði 100% heilsa þessara manna breytt útkomunni á þessu einvígi? Aldrei.



Þessi sprettur Celtics-manna í úrslitakeppninni núna var ekki annað en generalprufa fyrir það sem koma skal hjá liðinu. Þeirra ár er ekki í ár og ekki á næsta ári heldur, hvort sem þið sættið ykkur við það eða ekki. Markmið Danny Ainge var ekki að vinna titil á þessu ári, því það sér hver manneskja að ef svo hefði verið, hefði hann skipt einhverju af valréttunum sem liðið á uppi í erminni fyrir leikmann á borð við Jimmy Butler eða Paul George, ef við gefum okkur að þeir hefðu verið falir yfir höfuð (sem er alls ekkert víst, hvað sem slúðursögur segja).

Í stað þess að horfa svo stutt fram á veginn, ákvað Ainge hinsvegar að einbeita sér að langspilinu og það er hárrétt ákvörðun að okkar mati. Trúið okkur, ef Ainge stendur eitthvað gott til boða til að gera Boston liðið að alvöru áskoranda í nánustu framtíð, mun hann ekki hika við að stökkva á tækifærið.



En eins og staðan er núna, er hann að horfa lengra fram á veginn. Og það er ekkert sem bendir til annars en að Boston (þökk sé glórulausri ákvarðanatöku eiganda Brooklyn Nets á sínum tíma) sé í langbestum málum allra liða í Austurdeildinni ef Cleveland er undanskilið, akkúrat í augnablikinu.

Öll umræða um Boston Celtics í ár og í nánustu framtíð er alltaf fljót að fara í farveg sem kemur málinu ekkert við, alveg eins og hún gerði akkúrat núna hjá okkur. Meiningin var að skoða árangur liðsins í úrslitakeppninni í ár, en auðvitað byrjum við strax að hugleiða framtíðina hjá þeim. Umræðan um Boston fer nefnilega alltaf annað hvort út í valrétti í nýliðavalinu eða framtíð Isaiah Thomas.

Ef við sleppum því, er ekki hægt að segja annað en að þetta lið hafi farið fram úr björtustu væntingum í vetur. Það er okkar skoðun og eins og þið vitið, sjáum við glasið næstum alltaf hálftómt, svo við erum alveg harðákveðin í að Celtics hafi gert vel í vetur.



En þó Boston hafi farið fram úr væntingum, þýðir það þá samt ekki að liðið hafi ógnað Cleveland á nokkurn hátt í úrslitakeppninni, því það gerði það alls ekki.

Cleveland lauk í nótt við eitthvað það undarlegasta heiðursmanna-sóp sem við höfum nokkru sinni séð og við eigum aldrei, aldrei eftir að gefa okkur með þá samsæriskenningu að LeBron James hafi ákveðið að gefa þriðja leikinn til að ná sér í smá pening í Vegas í ljósi þess að stuðullinn á Boston-sigur í leiknum var sá hæsti í Las Vegas í áratugi.

Einvígi Boston og Cleveland var svo ójafnt að lýsendur nær og fjær voru á köflum uppteknari við að leika sér að því að fylgjast með ferðalagi LeBron James upp tölfræðimetalistana.

Í nótt náði hann ansi merkum áfanga þegar hann fór upp fyrir Michael Jordan og varð stigahæsti leikmaður allra tíma í úrslitakeppni.

Það er ekki dónalegt afrek hjá manni sem aldrei hefur litið á sig sem skorara, per se, og hefur alltaf leitast við að koma liðsfélögum sínum inn í leikinn alveg eins og honum sjálfum.

Manni sem hefur alltaf fundist körfuboltinn vera liðsíþrótt sem snerist um að spila "á réttan hátt" og finna besta skotið.

Þessi grundvallarmunur á LeBron James og Michael Jordan (sem var auðvitað skorari númer eitt, tvö og þrjú, körfuboltalegur böðull sem var lengi að tileinka sér "leyndarmálið" svokallaða) - manni sem er fyrirmynd hins svokallaða hetjubolta í dag.



Það má vel vera að Austurdeildin sé búin að vera eitt allsherjar andskotans rusl megnið af árunum sem LeBron James er búinn að spila í NBA deildinni, en það breytir því ekki að sú staðreynd að maðurinn sé að fara í sín áttundu lokaúrslit og nú sín sjöundu í röð, er eitt af bestu rökunum fyrir því að hann sé í raun og veru geimvera. Við erum alltaf að bíða eftir því að LeBron James missi til dæmis af eins og einum leik í úrslitakeppni af því hann snýr sig á ökkla eða eitthvað. En, nei.

Tuesday, December 20, 2016

Takk aftur, Tim


Nú er búið að hengja treyjuna hans Tim Duncan upp í rjáfur í San Antonio eins og þið tókuð eftir. Það var sannarlega ekki verið að drolla við þetta. Ætli forráðamenn Spurs séu ekki hræddir um að hann eigi eftir að hverfa inn í Amazon frumskóginn einn daginn og koma aldrei aftur, eða eitthvað slíkt. Hvað vitum við svo sem um þessa hávöxnu ráðgátu af manni.

Okkur þótti vænt um að horfa á seremóníuna, sem var stutt og hnitmiðuð á miðað við tilefnið, en þið vissuð að það yrðu ekki teknir neinir sjö tímar í að keyra Tim Duncan út. Alveg eins og þegar Duncan tilkynnti að hann væri hættur á sínum tíma, fengum við eitthvað nostalgíukast og hugsuðum að við yrðum nú að skrifa eitthvað um þetta. 
Vorum næstum því búin að gleyma því að við vorum búin að gera það, nokkuð ítarlega meira að segja. Þau ykkar sem nenntuð ekki að lesa það, getið þá kannski gert það núna, ef þið eigið eftir að sakna Duncan eins og við.

Við eigum ekki eftir að sakna þess að horfa á Duncan spila, þannig séð, við erum búin að gera meira af því en flestir á síðustu tveimur áratugum. Við eigum bara eftir að sakna hans af því hann var á sinn hljóðláta hátt ein af undirstöðunum í NBA deildinni, hvort sem hann fór í taugarnar á þér eða þú elskaðir hann.

Það er óþarfi að skrifa annan hlemm um Duncan eins og við gerðum í sumar, en okkur langar bara að vekja athygli á nokkrum atriðum.

Þau ykkar sem horfðuð á athöfnina þegar treyjan hans Duncan fór upp í rjáfur (hún er aðgengileg víða á youtube), hafið eflaust veitt því athygli hvað þeir Tony Parker, Manu Ginobili og Gregg Popovich töluðu lítið um leikmanninn Tim Duncan í ræðunum sínum. Það vita allir að Duncan var góður leikmaður og því var óþarfi að tala um það við þetta tækifæri - Duncan hefði líka ekki nennt að hlusta á það. 

Nei, það eina sem komst að hjá höfðingjunum sem tóku til máls til að heiðra liðsfélaga sinn til 15-20 ára var hvað hann væri góður liðsfélagi og góð manneskja. 

Þeir færðu líka rök fyrir máli sínu. Minntust á hvernig hann peppaði þá upp þegar illa gekk, hvað hann var mikill leiðtogi, hvað hann gaf gott fordæmi og hvað hann var alltaf tilbúinn að eyða tíma í að gera félaga sína betri (eins og að taka aukaæfingar til að reyna að gera körfuboltamann úr Boban á lokaárinu sínu). 

Það var ekki ónýtt fyrir börnin hans Duncan að fá að heyra allt þetta hrós um gamla manninn á þessu sviði. Það er ekki víst að það gerist nema einu sinni enn.

Þetta er allt voðalega boring, við vitum það, svona leiðindi þykja ekki sexí í dag. En þetta segir okkur hvernig manneskja er horfinn af NBA sviðinu - þið vitið hvernig leikmaður er horfinn af sviðinu. Við vorum búin að segja ykkur það.

Eitt í viðbót langaði ykkur að minnast á, sem við tókum ekki í fram í greininni í sumar. Það var að skjóta niður vitleysu sem við höfum heyrt nokkrum sinnum og vekja athygli á öðru atriði í framhaldinu.

Stundum er talað um að Spurs-liðið hans Tim Duncan hafi ef til vill haft heppnina með sér þegar kom að styrkleika mótherja þeirra úr austrinu í lokaúrslitunum. Þetta er rétt, en sömu sögu er að segja af t.d. aldamótaliði LA Lakers. 

Wednesday, November 2, 2016

Hver er hræddur við vængbrotna Warriors?






















Bandarískir körfuboltamiðlar hafa eðlilega gert sér mat úr því í dag og í gær hvernig LeBron James og félagar hans í Cleveland gátu ekki setið á sér með að senda mótherjum sínum í lokaúrslitunum í sumar smá pillu þegar þeir héldu upp á hrekkjavökuna.

Liðin hans LeBron James hafa vakið athygli fyrir frumlega og skemmtilega búninga undanfarin ár og 2016 varð engin undantekning í þeim efnum. Auk þess að vera með skemmtilega búninga að þessu sinni, gerðu LeBron og félagar grín að Golden State liðinu í myndmáli sínu og þeirri staðreynd að liðið hefði glutrað niður 3-1 forystu í úrslitaeinvígi liðanna í júní.



 Og auðvitað stukku miðlar eins og First Take á ESPN á þetta og veltu því fyrir sér hvort LeBron James hefði efni á því að vera með svona grín eða ekki. Það er eðlilegt að þættir eins og First Take, með vélbyssukjafta eins og Stephen A. Smith og hinn efnilega Max Kellerman (staðgengil Skip Bayless) taki svona mál fyrir, þetta er það sem svona þættir snúast um.

















Okkur er auðvitað alveg sama hvort LeBron sendir strákunum í Golden State pillur eða ekki, en þetta innslag vakti okkur til ofhugsunar.

Ætli LeBron James sé hræddur við nýjustu útgáfuna af Golden State Warriors?

James glímdi (nánast) einn síns liðs við Warriors í úrslitunum árið 2015, þegar hann hafði hvorki Kevin Love né Kyrie Irving með sér í liði og þurfti að gera þetta allt saman sjálfur. Hann náði einhverra hluta vegna að komast 2-1 yfir í því einvígi, en komst ekki lengra.

Á síðustu leiktíð lenti hann hinsvegar undir 3-1, en þá var hann með fullskipað lið með sér, sem hjálpaði honum að gera út af við þreytulegt Warriors-liðið. Tvær breytur undir lokin á því einvígi eru gjarnan nefndar til sögunnar sem örlagavaldar Warriors; leikbannið hans Draymond Green og meiðslin hans Andrew Bogut.

Warriors-liðið hefur hingað til verið þekktast fyrir hættulegustu útgáfuna af sér sem er Dauðauppstillingin svokallaða, sem er uppstillingin þar sem Draymond Green fer í miðherjastöðuna og þeir spila án þess að vera með eiginlegan stóran mann. Þessi uppstilling (Curry, Thompson, Barnes, Iguodala og Green) var svo svakaleg að hún sprengdi skalann í tölfræði fyrir lengra komna þegar kemur að sóknarhagkvæmni, en þessi leikaðferð er eins og nítró á torfærubíl. Þú getur ekkert notað hana alltaf. Bara í stuttum sprettum og þegar með þarf - annars fer allt í vitleysu.


Golden State hefur sumsé alltaf þurft að hafa Andrew Bogut, þó hann virkaði stundum utangátta og hentaði ekki á gólfinu gegn öllum liðum. Þegar allt er eðlilegt, til dæmis í flestum deildarleikjum í NBA deildinni, er betra að vera með eiginlegan miðherja í byrjunarliðinu. Það er allt í lagi að henda manni eins og Draymond Green í miðherjann annað slagið til að slá mótherjann út af laginu, en það gengur aldrei til lengdar.

Þetta fengu Warriors menn að reyna undir lok lokaúrslitaeinvígisins í sumar þegar Bogut datt út vegna meiðsla. Golden State var jú með Festus Ezeli til að hlaupa í skarðið fyrir Bogut, en hann var hvorki með heilsu til þess, né hefur hann til að bera þá kosti sem gera Bogut sérstakan. Ezeli hefur fátt fram yfir Bogut nema ef til vill að vera sprækari á löppunum, en hafði það ekki einu sinni af því hann var á felgunni vegna meiðsla sem hrjá hann enn í dag (hann er ekki enn byrjaður að spila með Portland eftir að hafa gengið í raðir félagsins í sumar).

Og hvað gerðist hjá Golden State þegar Bogut var farinn, Ezeli (og Curry) á felgunni og áberandi merki um þreytu voru farin að láta á sér kræla?

LeBron James fann lykt af blóði, setti undir sig höfuðið og bókstaflega keyrði yfir Warriors-liðið í síðustu þremur leikjunum. Við þurfum ekki að rifja tölurnar hans í þessum leikjum upp - ef þú ert að lesa þetta, þá veistu hvað þær voru sóðalegar.



 Nú er kominn nóvember 2016, nýtt tímabil og Kevin Durant er kominn til Golden State. Já, þessi langi sem er búinn að vera einn af þremur bestu körfuboltamönnum heims í nokkur ár. Nú er hann kominn í lið Warriors og fyrir vikið er bolurinn búinn að ákveða að það verði stórslys ef liðið endurheimtir ekki titilinn úr höndum fjenda sinna í austri.

En þó að Kevin Durant sé alveg hreint ógeðslega góður í körfubolta, þá er ólíklegt að jafnvel hann nái að fylla upp í skarðið sem þeir Bogut, Ezeli, Marrese Speights og Harrison Barnes skildu eftir sig. Jú, jú, hann getur skorað meira en þeir allir saman í svefni, en hvað um allt hitt sem þeir gerðu fyrir Golden State?

Eins og til dæmis að spilaða rútíneraðan varnar- og sóknarleik sem tók ár að stilla saman og auðvitað það sem er svo mikið í tísku núna - að verja helvítis körfuna fyrir árásum andstæðinganna?

Zaza Pachulia? Anderson Varejao? JaVale McGee?

Þetta er ein af stóru ráðgátum vetrarins. Við vitum hvað gæti gerst ef Golden State nær ekki að stoppa upp í þessu göt, því allur sóknarleikur jarðarinnar nær tæplega að gera það.

Ætli LeBron James sé hræddur við nýjustu útgáfuna af Golden State Warriors, in deed.