Wednesday, November 2, 2016

Hver er hræddur við vængbrotna Warriors?


Bandarískir körfuboltamiðlar hafa eðlilega gert sér mat úr því í dag og í gær hvernig LeBron James og félagar hans í Cleveland gátu ekki setið á sér með að senda mótherjum sínum í lokaúrslitunum í sumar smá pillu þegar þeir héldu upp á hrekkjavökuna.

Liðin hans LeBron James hafa vakið athygli fyrir frumlega og skemmtilega búninga undanfarin ár og 2016 varð engin undantekning í þeim efnum. Auk þess að vera með skemmtilega búninga að þessu sinni, gerðu LeBron og félagar grín að Golden State liðinu í myndmáli sínu og þeirri staðreynd að liðið hefði glutrað niður 3-1 forystu í úrslitaeinvígi liðanna í júní. Og auðvitað stukku miðlar eins og First Take á ESPN á þetta og veltu því fyrir sér hvort LeBron James hefði efni á því að vera með svona grín eða ekki. Það er eðlilegt að þættir eins og First Take, með vélbyssukjafta eins og Stephen A. Smith og hinn efnilega Max Kellerman (staðgengil Skip Bayless) taki svona mál fyrir, þetta er það sem svona þættir snúast um.

Okkur er auðvitað alveg sama hvort LeBron sendir strákunum í Golden State pillur eða ekki, en þetta innslag vakti okkur til ofhugsunar.

Ætli LeBron James sé hræddur við nýjustu útgáfuna af Golden State Warriors?

James glímdi (nánast) einn síns liðs við Warriors í úrslitunum árið 2015, þegar hann hafði hvorki Kevin Love né Kyrie Irving með sér í liði og þurfti að gera þetta allt saman sjálfur. Hann náði einhverra hluta vegna að komast 2-1 yfir í því einvígi, en komst ekki lengra.

Á síðustu leiktíð lenti hann hinsvegar undir 3-1, en þá var hann með fullskipað lið með sér, sem hjálpaði honum að gera út af við þreytulegt Warriors-liðið. Tvær breytur undir lokin á því einvígi eru gjarnan nefndar til sögunnar sem örlagavaldar Warriors; leikbannið hans Draymond Green og meiðslin hans Andrew Bogut.

Warriors-liðið hefur hingað til verið þekktast fyrir hættulegustu útgáfuna af sér sem er Dauðauppstillingin svokallaða, sem er uppstillingin þar sem Draymond Green fer í miðherjastöðuna og þeir spila án þess að vera með eiginlegan stóran mann. Þessi uppstilling (Curry, Thompson, Barnes, Iguodala og Green) var svo svakaleg að hún sprengdi skalann í tölfræði fyrir lengra komna þegar kemur að sóknarhagkvæmni, en þessi leikaðferð er eins og nítró á torfærubíl. Þú getur ekkert notað hana alltaf. Bara í stuttum sprettum og þegar með þarf - annars fer allt í vitleysu.


Golden State hefur sumsé alltaf þurft að hafa Andrew Bogut, þó hann virkaði stundum utangátta og hentaði ekki á gólfinu gegn öllum liðum. Þegar allt er eðlilegt, til dæmis í flestum deildarleikjum í NBA deildinni, er betra að vera með eiginlegan miðherja í byrjunarliðinu. Það er allt í lagi að henda manni eins og Draymond Green í miðherjann annað slagið til að slá mótherjann út af laginu, en það gengur aldrei til lengdar.

Þetta fengu Warriors menn að reyna undir lok lokaúrslitaeinvígisins í sumar þegar Bogut datt út vegna meiðsla. Golden State var jú með Festus Ezeli til að hlaupa í skarðið fyrir Bogut, en hann var hvorki með heilsu til þess, né hefur hann til að bera þá kosti sem gera Bogut sérstakan. Ezeli hefur fátt fram yfir Bogut nema ef til vill að vera sprækari á löppunum, en hafði það ekki einu sinni af því hann var á felgunni vegna meiðsla sem hrjá hann enn í dag (hann er ekki enn byrjaður að spila með Portland eftir að hafa gengið í raðir félagsins í sumar).

Og hvað gerðist hjá Golden State þegar Bogut var farinn, Ezeli (og Curry) á felgunni og áberandi merki um þreytu voru farin að láta á sér kræla?

LeBron James fann lykt af blóði, setti undir sig höfuðið og bókstaflega keyrði yfir Warriors-liðið í síðustu þremur leikjunum. Við þurfum ekki að rifja tölurnar hans í þessum leikjum upp - ef þú ert að lesa þetta, þá veistu hvað þær voru sóðalegar. Nú er kominn nóvember 2016, nýtt tímabil og Kevin Durant er kominn til Golden State. Já, þessi langi sem er búinn að vera einn af þremur bestu körfuboltamönnum heims í nokkur ár. Nú er hann kominn í lið Warriors og fyrir vikið er bolurinn búinn að ákveða að það verði stórslys ef liðið endurheimtir ekki titilinn úr höndum fjenda sinna í austri.

En þó að Kevin Durant sé alveg hreint ógeðslega góður í körfubolta, þá er ólíklegt að jafnvel hann nái að fylla upp í skarðið sem þeir Bogut, Ezeli, Marrese Speights og Harrison Barnes skildu eftir sig. Jú, jú, hann getur skorað meira en þeir allir saman í svefni, en hvað um allt hitt sem þeir gerðu fyrir Golden State?

Eins og til dæmis að spilaða rútíneraðan varnar- og sóknarleik sem tók ár að stilla saman og auðvitað það sem er svo mikið í tísku núna - að verja helvítis körfuna fyrir árásum andstæðinganna?

Zaza Pachulia? Anderson Varejao? JaVale McGee?

Þetta er ein af stóru ráðgátum vetrarins. Við vitum hvað gæti gerst ef Golden State nær ekki að stoppa upp í þessu göt, því allur sóknarleikur jarðarinnar nær tæplega að gera það.

Ætli LeBron James sé hræddur við nýjustu útgáfuna af Golden State Warriors, in deed.