Saturday, January 30, 2016

Golden State lifir góðu lífi með þristinum


Dýrategundir með fjölbreytt fæðuval eiga mikið betri lífslíkur en þau sem lifa á einhæfri fæðu. Þannig kemur það fyrir annað slagið að heilu stofnarnir verða fyrir stórum höggum ef helsta, eða jafnvel eina fæðutegund þeirra hverfur úr umhverfinu af einhverjum ástæðum.

Dæmi um dýr sem neyta fábreyttrar fæðu eru nokkrar slöngutegundir sem éta nær engöngu fuglaegg, ránfuglategundir sem lifa nánast alveg á sniglum og flestir kannast við risapönduna, sem gerir nánast ekki nokkuð skapaðan hlut annað en að éta bambus, ef hún er vakandi á annað borð. 

Bjarndýrinu húðlata til happs, vill svo vel til að oftast er nóg til af bambus á þeim svæðum sem pönduna er að finna, svo hún kemst nokkuð örugglega upp með það að neyta svo einhæfrar og tölum nú ekki um næringarsnauðrar fæðu.

Frændur pöndunnar, grábirnirnir í Bandaríkjunum, Kanada og Alaska, eru alveg úti á hinum endanum í fæðumenginu. 

Þeir éta bókstaflega allt sem að kjafti kemur og verða líka að gera það til að lifa af. 

Þeir detta í eina og eina veislu eins og þegar laxinn gengur upp í árnar til að hrygna og gleymir sér í gleðinni, en oftar kemur fyrir að fæðuval er af skornum skammti og þá þurfa þeir stundum að leika af fingrum fram og éta allt frá reyniberjum til reiðhjóla. 

Þannig mætti áætla að ef grábjörninn væri eins matvandur og frænka hans pandan, væri stofninn líklega í enn meiri útrýmingarhættu en hann er í dag, eða það sem meira er - útdauður.

Þið voruð örugglega farin að efast um að þessi fræði kæmu körfubolta nokkuð við, en auðvitað gera þau það. Það er nefnilega eins með körfubolta og dýraríkið - körfuboltalið geta ekki ætlast til þess að lifa af ef þau lifa á einhæfri fæðu.
































Ástæðan fyrir því að við fórum af stað með þessa hugleiðingu er allt að því geðbiluð skotgleði meistara Golden State Warriors fyrir utan þriggja stiga línuna og árangurinn sem liðið hefur náð með - nú eða eða þrátt fyrir - að taka svona mikið af langskotum. 

Hættu bara að gretta þig og smelltu á myndina hérna fyrir ofan svo þú sjáir tölfræðina almennilega. Bæði hvað eru margir leikmenn hjá Warriors að skjóta langt yfir meðallagi og hvað liðið allt ber höfuð og herðar yfir önnur lið hvað varðar langskotin. Þetta er náttúrulega ekki í lagi.

Hver hefur jú ekki heyrt klisjuna "live by the three - die by the three." Þessi lína lifði mjög góðu lífi í nokkra áratugi í NBA deildinni og var gjarnan notuð sem skammaryrði gegn skotglöðum liðum, sérstaklega þegar þau áttu slæma daga og hittu ekki neitt (og töpuðu). 

Lifðu með þristinum - deyðu með þristinum. 

Auðvitað er ýmislegt til í þessu, þó þetta sé opið hugtak, en það er alveg klárt mál að Golden State hefur breytt þessum viðhorfum eitthvað. 

Við höfum jú aldrei séð lið eins og Warriors áður og sérstaklega ekki bakvarðapar eins og Steph Curry og Klay Thompson.

En við verðum að gæta þess að lesa vel. Það er nefnilega ekki sama hvort þú lifir með þristinum eða lifir á þristinum. 

Golden State getur stundum leyft sér að lifa á þristinum í styttri sprettum og jafnvel heilu leikina, en þegar á heildina er litið lifir liðið auðvitað með þristinum en ekki á honum og þar er mergurinn málsins. 

Það væri einhæf fæða fyrir körfuboltalið að byggja allt sitt á eintómum þriggja stiga skotum (eins og Houston gerir stundum), eintómum æsóum og hnoði (eins og Toronto gerir stundum), eintómu stjórnleysi og geðveiki (eins og Sacramento gerir oftast) eða eintómum varnarleik (eins og Chicago og Memphis gera stundum).

En eins og þið vitið rúlla meistararnir ekki svona. Þeir eru með þetta allt saman

Þeir spila frábæran varnarleik og fjölbreyttan sóknarleik, en svo er þriggja stiga skotið fyrir þá svipað og laxagöngurnar fyrir grábirnina. Þá verða þeir svona eins og Egill Helga á all you can eat og þá er hollara að vera bara ekki fyrir.

Nei, Golden State lifir með þristinum, ekki á honum, og vinnur meira að segja af og til leiki þar sem það hittir ekki sjitt fyrir utan. Warriors er búið að mastera langskotin betur en nokkuð annað lið í NBA sögunni. 

Það fyndna við þetta er að þeir geta betur, geta enn bætt sig alveg helling. Steve Kerr er rétt að byrja með þetta lið og þeir busl-bræður Klay og Curry eru rétt að byrja líka.

Það er kannski dálítið kjánalegt að það hafi tekið menn yfir þrjá áratugi að byrja að nýta sér 3ja stiga skotið til fullnustu í NBA deildinni, en það borgar sig ekki að væla yfir því. 

Við fáum að fylgjast með því gerast þessi dægrin og bónusinn er að við fáum að horfa á lið eins og Golden State færa út kvíarnar og menn eins og Stephen Curry slá öll metin.

Það er ekki ónýtt. Vissulega, fjölbreytt og fallegt veisluborð alla daga.

Friday, January 29, 2016

Við mælum með þessu í kvöld



Er þetta Green?


Nú er búið að tilkynna hvaða leikmenn skipa Austur- og Vesturdeildarúrvalið í Stjörnuleiknum í NBA sem fram fer í Toronto eftir tvær vikur. Það er bolurinn sem fær að kjósa byrjunarliðin en það eru (allir) þjálfararnir í deildinni sem ákveða hvaða leikmenn skipa varamannabekkinn.

Án þess að við höfum rannsakað það vísindalega, sýnist okkur ekki mikið um stórskandala þegar kemur að vali þjálfaranna þetta árið. Í fljótu bragði ætti Damian Lillard auðvitað að vera í liðinu á kostnað Kobe Bryant, en svo hefur það örugglega verið höfuðverkur fyrir þjálfarana að skilja goðsagnir eins og Tim Duncan og Dirk Nowitzki eftir heima. 

Nowitzki hefði örugglega verið til í að taka einn Stjörnuleik í viðbót, en eitthvað segir okkur að Tim Duncan langi heldur að slaka á með fjölskyldunni heldur en að fara í þriggja sólarhringa fjölmiðlamaraþonið sem helgin er.

Þegar valið í Stjörnuleikinn ber á góma verður okkur oft hugsað til þess hvað gerðist við þetta sama tækifæri árið 1990, en það er í fyrsta skipti sem við munum eftir því að valið í Stjörnuleikinn hafi farið í taugarnar á okkur. Og það hefur gert það ansi oft síðan.

Það sem fór svona heiftarlega í taugarnar á okkur fyrir aldarfjórðungi var líka vinsældakosning áhangenda - og það sem meira er - var það líka út af Lakers-manni sem hafði ekkert í Stjörnuleikinn að gera. 

Í dag er það Kobe Bryant en árið 1990 var það A.C. Green sem fór öfugt ofan í okkur.

A.C. Green var ágætis körfuboltamaður og gengdi auðvitað lykilhlutverki hjá sigursælu liði Los Angeles Lakers á níunda áratugnum. 

En að hann - maður sem skoraði innan við tíu stig að meðaltali í leik á umræddri leiktíð - væri kosinn í byrjunarliðið í Stjörnuleiknum í staðinn fyrir Karl Malone? 

Það var bara mesti skandall í heimi!

En svona var þetta og svona er þetta enn þann dag í dag og ekkert við því að gera. Þetta var samt dálítið gróft dæmi þarna 1990 og það voru fleiri gramir yfir þessu en við. Karl Malone varð brjálaður þegar hann frétti að 13 stiga hreinn sveinn með krullur hefði verið kosinn inn í byrjunarliðið á sinn kostnað.

Malone var afar óhress með þetta og ákvað að taka gremju sína út á næsta andstæðingi Utah Jazz á körfuboltavellinum, Milwaukee Bucks. Það gerði hann svo um munaði, því hann skoraði 61 stig í leiknum, hirti 18 fráköst og hitti úr 21 af 26 skotum utan af velli (19 af 23 á línunni) á aðeins 33 mínútum í 144-96 sigri Utah.*  Svona á að gefa út yfirlýsingar.

 Malone var kjörinn leikmaður Stjörnuleiksins í Houston árið áður (myndin hér fyrir ofan), en hvort sem það var fýla eða ekki, þá bar hann við meiðslum og mætti hann ekki í Stjörnuleikinn árið 1990 þrátt fyrir að hafa verið valinn í hann af þjálfurunum seinna.

"Ég get annað hvort farið heim til Louisiana að veiða eða farið til Miami. Akkúrat núna er ansi freistandi að fara að veiða," ansaði Malone þegar hann var spurður út í tilfinningar sínar að vera ekki valinn í byrjunarliðið. Þetta kom við egóið á honum, sem var risavaxið (hann talaði alltaf um sig í 3. persónu) en viðkvæmara en lappirnar á Greg Oden.

Karl Malone var framúrskarandi leikmaður á þessum árum og skilaði til að mynda 31 stigi og 11 fráköstum að meðaltali í leik og skaut 56% utan af velli leiktíðina ´89-´90. 

Ekki var hann verri í leikjunum fjórum gegn Lakers þennan vetur, þar sem hann skoraði 34 stig að meðaltali, hirti 9 fráköst og skaut 61%.

Einhver gæti ef til vill giskað á að ástæðan fyrir Stjörnuleiksdissinu á Malone hefði verið staða liðs hans í töflunni, því leikmenn í lélegum liðum fá jú færri atkvæði. 

En því var ekki að skipta þarna. Utah var alveg á hælunum á LA Lakers þegar þarna kom við sögu. Jazzararnir voru með 29 sigra og 11 töp, meðan Lakers var með 31 sigur og 9 töp.

Það var misjafnt hvort Malone var valinn á bekk eða í byrjunarlið í Stjörnuleikjunum sem fylgdu á eftir þeim dramatíska árið 1990, en hann mætti í þá á hverju ári þangað til árið 2002 þegar hann var valinn í síðasta skipti en sat vegna meiðsla.

Við þökkum Morgunblaðinu fyrir að leyfa okkur að birta blaðagreinina um reiðikastið hans Karl Malone hérna á vefsvæðinu, en hún er að sjálfssögðu skrifuð af Gunnari Valgeirssyni í Bandaríkjunum. Gunnar gerði vel í að fjalla um deildina fögru hér áður, þegar lítið sem ekkert var að finna um NBA boltann annað en tveggja daga gömul úrslit í Mogganum.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Þú hlýtur að vera að pæla í því hvað John Stockton gaf margar stoðsendingar í risaleiknum hans Malone, þar sem Utah setti 144 stig á töfluna. Þær voru reyndar ekki nema 16 í þetta skiptið, sem er ekki hægt að kalla annað en vonbrigði hjá manni sem var jú einu sinni með næstum því fimmtán stoðsendingar að meðaltali í leik. Dálítið undarlegt.

Tímamót


NBA Stjörnuleikurinn árið 2016 fer fram í Toronto á Valentínusardaginn, þann 14. nóvember næstkomandi. Þetta er vitanlega sunnudagur. Það sem er sérstakt við þennan leik og í rauninni merkilegast af öllu, er að það verður í fyrsta skipti síðan árið 1997 sem hvorki Tim Duncan né Dirk Nowitzki tekur þátt í Stjörnuleiknum í NBA.

Önnur gömul stjarna, Kobe Bryant, fékk að lafa inni í leiknum á lokaárinu sínu út á vinsældir sínar, því auðvitað hefur hann ekkert í leikinn að gera hvað spilamennskuna hans í vetur varðar.

Já, þetta eru sannarlega tímamót. Við sjáum engan þeirra í næsta Stjörnuleik. Svona verða kynslóðaskiptin í þessu eins og öðru. Við erum að fara að kveðja nokkrar af stærstu goðsögnum leiksins eftir eitthvað sem við mælum líklega í mánuðum en ekki árum.

Warriors-menn skora eins og Suns-lið Barkley


Metin hrannast upp hjá Golden State þessa dagana og reyndar San Antonio líka. Lætin í meisturunum eru eftirtektarverð, því í stað þess að spila eins og þeir séu saddir eftir titilinn, spila þeir eins og þeir séu á persónulegri vendettu gegn hverju einasta liði deildarinnar. Alltaf sömu krúttin, en spila eins og þeir séu brjálaðir. Eins og þeir séu í sjómann við gaurinn sem henti dúkku litlu systur þeirra í pollinn.

Ekki dettur okkur í hug að reyna að fiska upp öll metin sem þetta Warriors-lið er að slá um þessar mundir, en þó langar okkur að vekja athygli á nokkum skemmtilegum molum. Fyrsti molinn hefur með skemmtanagildið að gera og undirstrikar hvað Golden State er í senn sterkt og skemmtilegt lið.

Þið munið að helsta ástæðan fyrir því að Golden State er besta lið í heimi er að það spilar svo góða vörn. Liðið spilar frábæran sóknarleik, sem alltaf er að verða betri, en það er vörnin sem er grunnurinn og hún ræður. Golden State er best af því þeir gera allt rétt - og þeir sem gera rétt, sjá til þess að þétta varnarleikinn áður en þeir fara í sóknarkrúsídúllur.


Ókei, en nú er sóknarleikurinn hjá Golden State sem sagt að verða sama bomban og varnarleikurinn. Liðið virðist alltaf vera að skora meira og meira og þó hluta af því megi tengja tempóinu sem liðið spilar á (sem er náttla ansi hátt), er hraðinn ekki allt.

Golden State er nefnilega komið í óld skúl spilamennsku núna og farið að skora yfir 120 stig leik eftir leik, svona eins og liðið gerði hjá Don Nelson í kring um 1990. Og það var ekki leiðinlegt að horfa á það lið spila körfubolta.

Nú er svo komið að Golden State er búið að vinna fimm leiki í röð og er búið að skora 120+ stig í þeim öllum. Þetta gerist ekki á hverjum degi og liðið sem afrekaði síðast að skora svona hrikalega var heldur ekkert smálið. Það var Phoenix-liðið hans Charles Barkley frá árinu 1993.




























Þetta Suns-lið vann fimm í röð í febrúar á fyrsta árinu hans Barkley með liðinu, þar sem það skoraði ekki undir 121 stigi í neinum þeirra og vann þá líka alla. Eins og þið sjáið á rándýru töflunni sem við klipptum út handa ykkur, var þetta Suns-lið þeirra Barkley, Kevin Johnson og Dan Majerle ekki í teljandi vandræðum með að skora og gerði það reyndar liða best í deildarkeppninni þennan veturinn (þó það hafi tapað fyrir Chicago í lokaúrslitunum sumarið á eftir).

Enn sjaldgæfara afrek hjá Warriors var að vinna þrjá af fjórum leikjum með 30+ stigum, en samkvæmt Íþróttastofu Elíasar hafði ekkert lið unnið svo hrikalega síðan ofurlið Los Angeles Lakers byrjaði almanaksárið 1987 með álíka látum.

Golden State er núna búið að vinna þrjá leiki í röð þar sem það hefur aldrei lent undir á neinum tímapunkti í leiknum og er alls búið að eiga tíu slíka leiki í vetur.

Það er helmingi oftar en liðin sem koma næst - Chicago, Boston og San Antonio.

Stephen Curry er líka að hóta því að slá enn eitt metið, því hann skoraði þriggja stiga körfu í 117. leiknum sínum í röð í gærkvöldi og nálgast því NBA met Kyle Korver, sem setti þrist í 127 leikjum í röð fyrir ekki löngu síðan.

Bæði Golden State og San Antonio eru að hóta því að setja met í heimasigrum í vetur. San Antonio er þegar búið að setja met yfir flesta sigra í röð á heimavelli í byrjun leiktíðar, en það hefur unnið 25 fyrstu heimaleikina sína í vetur.

Golden State er auðvitað ekki búið að tapa heima heldur, aðeins búið að spila færri heimaleiki (22-0). Warriors-liðið er hinsvegar á lengri sigurgöngu á heimavelli í heildina, því þegar það skellti Dallas í nótt sem leið, var það fertugasti sigur liðsins í röð á heimavelli - rispa sem nær nú yfir ár aftur í tímann.

Með 40. heimasigrinum í röð, jafnaði Golden State árangur Orlando Magic frá árunum 1994-96, sem er næstbesti árangur í sögu NBA. Það er Chicago Bulls frá árunum 1994-96 sem hefur unnið flesta heimaleiki í röð í sögunni - fjörutíu og fjóra.

Og er Golden State að fara að tæta það met í sig eins og öll önnur?

Það verður alveg að koma í ljós, en það gæti orðið nokkuð snúið, því andstæðingarnir í næstu fjórum heimaleikjum Warriors eru Oklahoma, Houston, Atlanta og Oklahoma aftur. Ef liðið lokar þessu, þarf það svo að vinna Orlando þann 7. mars til að hrifsa metið af Bulls.

Skiljanlega hefur metið yfir flesta sigra á tímabili verið mikið í umræðunni í ljósi þessarar frábæru byrjunar hjá Golden State í vetur. Margir veðja á að Warriors geti slegið 72 sigra met Chicago Bulls frá miðjum tíunda áratugnum.

Við ætlum ekki að spá mikið í það núna, en ef þið hafið áhuga á að velta því fyrir ykkur hvort Stephen Curry og félagar geta slegið met þjálfara síns (Steve Kerr, þjálfari Warriors, lék með Chicago-liðinu sem á metið), mælum við með því að þið fylgist vel með liðinu í febrúar. Það eru nefnilega nokkur hressandi ferðalög fram undan hjá Warriors á næstu vikum.

Thursday, January 28, 2016

Saturday, January 23, 2016

Stephen Curry: Því ekki að skjóta frá miðju?


Stephen Curry spilaði alveg einstaklega Stephen Curry-legan leik í nótt þegar Golden State vann eitthvað í kring um 800. leikinn sinn á tímabilinu með því að skella Indiana á heimavelli 122-110.

Curry bauð upp á 39/10/12 dúllugang (sjöundu þrennuna á ferlinum) og átta þrista, en það var ekki nóg. Hann ákvað líka að skjóta einu sinni á körfuna frá sínum vallarhelmingi, en féll því miður á tíma við það svo karfan var ekki góð.

Þá er ekki annað en henda í aðra. Við hefðum sagt "reyna" að henda í aðra, en Steph Curry er ekki í "reyna"-bransanum frekar en Liverpool. Hann hittir bara alltaf, enda er það miklu betra þegar á heildina er litið.



Einu sinni þótti það stórmerkilegur hlutur ef leikmaður í NBA deildinni skoraði átta þriggja stiga körfur í einum og sama leiknum, en stórskotahríð Curry í vetur hefur gert það að verkum að nú þykir það álíka merkilegt og táknmálsfréttatími. Þetta var í NÍUNDA skipti í vetur sem Curry skorar átta þrista eða meira í leik, sem er NBA met og auðvitað mjög eðlilegt.

Þú veist væntanlega að tímabilið er jú hálfnað! Drengurinn ætlar í 400 þrista í vetur. Þessi geimvera.

Hann setti NBA met með 286 þristum á síðustu leiktíð en er kominn í 204 þrista í aðeins 42 leikjum á þessari leiktíð.

Ef hann heldur áfram á sama skriði út veturinn, verða tuttugu leikir eftir af tímabilinu þegar hann slær metið sitt. Sem er svoooo eðlilegt.

NBA metið yfir flestar þriggja stiga körfur í leik er í eigu Donyell Marshall (Toronto 2005) og Kobe Bryant (Lakers 2003), en þeir skoruðu tólf þrista í einum og sama leiknum (Marshall var með nítján tilraunir, Kobe átján).

Curry á best ellefu þrista í leik (eins og félagi hans Klay Thompson og nokkrir aðrir) sem hann setti niður í aðeins þrettán tilraunum þegar hann skaut New York til andskotans í febrúar árið 2013. Þar setti hann stigametið sitt með 54 stigum.

Eins og góður maður hafði orð á á Twitter í nótt, er það eiginlega með ólíkindum að Stephen Curry skuli ekki eiga NBA metið yfir flesta þrista í leik í ljósi þess að hann er gjörsamlega trylltur í langskotunum í vetur (ellefu tilraunir í leik) - og ekki bara það - heldur hittir hann vel líka (5 þristum í leik).

Það kæmi engum á óvart þó Curry færi að slá þetta met og við tippum á að þegar hann gerir það á annað borð, eigi hann eftir að setja fimmtán þrista en ekki þessa þrettán sem þarf til að slá metið.

Það eina sem mælir á móti því að Curry nái þessum áfanga er erfðaefnið í honum, því þó hann sé magnaðasta skytta í sögu NBA deildarinnar, skortir hann samviskuleysi manna eins og Kobe Bryant til að eltast við met.

Það er náttúrulega dálítið sérstakt þegar menn er farið að skorta leysi, en þið ættuð að vera farin að læra það núna að það er ekkert eðlilegt þegar Stephen Curry er annars vegar.

Heitur Curry



































Geim-Curry



Meth Curry



Friday, January 22, 2016

Haukfránn



Það er erfiðara en þú heldur að vinna titil í NBA


Forkólfar NBA deildarinnar hafa um árabil stuðst við regluverk er miðar að því að halda einhvers konar jöfnuði í deildinni, svo minni klúbbarnir eigi möguleika á að ná árangri alveg eins og stórveldin.

Ekki eru allir sammála um ágæti þessa kommúnisma og reglufarganið sem fylgir nýjum kjarasamningum í NBA deildinni er nokkuð umdeilt. Þannig eru reglur um launastrúktúr og launaþak gjörólíkar því sem tíðkast í atvinnudeildum í flestum öðrum boltagreinum, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.

En þessi pistill rúllaði ekki af stað af því okkur langaði svo mikið að fara að skoða katalóga og regluverk. Ef við hefðum gaman af því, hefðum við gerst lögfræðingar og ef við hefðum gerst lögfræðingar, væri ekki til neitt sem héti NBA Ísland af því þá værum við mjög líklega dauð inni í okkur.

Hugmyndin að þessum pistli fæddist þegar við heyrðum ónefnda fjölmiðlamenn ræða átakanlega dökka nánustu framtíð Brooklyn Nets í hlaðvarpsþætti á dögunum.



Framtíð Nets er kolsvört, vegna þess að forráðamenn félagsins tóku þátt í stóru og miklu áhættuspili fyrir nokkrum árum og töpuðu mjög illa. Þeir standa nú uppi með mestmegnis gagnslausan mannskap og enga valrétti, en á sama tíma er framtíð félagsins sem átti við þá viðskipti - Boston Celtics - hin bjartasta.

Brooklyn er fast í skrúfstykki af eigin völdum langleiðina til 2020 og því sjá stuðningsmenn framtíðina fyrir sér eins og súludansmær í Norður-Kóreu - það er eitthvað lítið að fara að gerast þar á bæ.

En þessi pistill er heldur ekki um Brooklyn Nets, Guð forði okkur öllum. Hugmyndin sem vaknaði við þessa Brooklyn-pælingu var aftur á móti þessi: Hvað þarf að gerast svo félag í NBA deildinni geti ekki aðeins orðið samkeppnishæft, heldur unnið meistaratitil?

Og því meira sem við hugsuðum um það, því þunglyndari urðum við, því það liggur í augum uppi að það er nánast ekki séns í helvíti að vinna NBA meistaratitilinn. Trúið þið okkur ekki? Gott og vel, við skulum bara skoða gögnin sem liggja fyrir.

(Mynd: Bill Russell, ellefufaldur NBA meistari sem leikmaður og síðar spilandi þjálfari Boston Celtics og Red Auerbach, þjálfari Celtics, sem var sigursælasti þjálfari í sögu NBA deildarinnar með níu meistaratitla þangað til Phil Jackson sló honum við árið 2009).



Það eru undantekningar á öllum reglum auðvitað, en það sem þú þarft til að vinna meistaratitla í NBA deildinni er ekki bara frábærir körfuboltamenn. Þú þarft instant heiðurshallarmeðlimi, goðsagnir, helst bestu leikmenn sögunnar í einhverjum stöðum - og þú þarft fleiri en einn og stundum fleiri en tvo. Og þú þarft að vera með sögulega góðan þjálfara og staff, góða skrifstofu, nóg af metnaði og peningum - og síðast en ekki síst, þarftu að vera ógeðslega heppinn, lesandi góður.

Til að forðast það að þessi pistill verði þriggja vikna lestur og til að halda okkur sem næst nútímakörfuknattleik, skulum við kíkja á síðustu 25 ár eða þar um bil í deildinni og miða okkur við árið þegar Michael Jordan tók við lyklunum að NBA deildinni úr höndum Magic Johnson og Larry Bird - árið 1991.

Chicago Bulls lið 10. áratugarins ættu að vera mörgum sem lesa þetta vel kunnug, en þó allir titlarnir gefi það ef til vill til kynna að þetta lið hafi rokið beint á toppinn og verið þar í áratug, var þetta nú ekki alveg svona auðvelt hjá Jordan og félögum.

Fyrstu þrjú árin sem Bulls fór í úrslitakeppnina með Jordan, féll það út í fyrstu umferð (1985-87), þá annari (´88) og loks í úrslitum Austurdeildarinnar fyrir Detroit árin tvö sem Pistons vann titlana ´89 og ´90.

Árið 1991 var hinsvegar komið að Chicago og liðið átti eftir að vinna sex titla á árunum 1991-98.

Myndin hér til hægri er af fyrsta meistaraliði í sögu Chicago frá árinu 1991. Þetta lið lagði Magic Johnson og félaga í Lakers 4-1 í lokaúrslitum eftir að hafa lent undir 1-0 á heimavelli í einvíginu.

Þessi Chicago-lið, sérstaklega liðið sem vann seinni þrennuna af titlunum (´96-´98), er almennt álitið eitt besta lið allra tíma í NBA deildinni.

Bæði liðin áttu það sameiginlegt að vera þjálfuð af sigursælasta þjálfara allra tíma Phil Jackson og þá gegndi Scottie Pippen hlutverki Robins við hlið Leðurblökumannsins Michael Jordan, sem reyndar var oftar kallaður Ofurmennið (ekki var vitað til þess að Súpermann hefði verið með samkynhneigðan unglingspilt sem side-kick eins og Leðurblöku-pervertinn).

Síðari útgáfan af meistaraliði Chicago var með ljómandi góða aukaleikara og rulluspilara, sem sumir hverjir eru virtari í annálum deildarinnar en svo að þeir séu kallaðir rulluspilarar þar.

Dennis Rodman var t.d. rankaður tíundi besti kraftframherji sögunnar af ESPN á dögunum, en auk hans voru þarna menn eins og Tony Kukoc og Steve Kerr, sem í dag þjálfar Golden State Warriors.

Chicago hafði sem sagt á að skipa besta leikmanni heims á sínum tíma og líklega besta leikmanni allra tíma í Michael Jordan, einum besta þjálfara allra tíma í Phil Jackson, öðrum leikmanni sem var einn af 50 bestu leikmönnum allra tíma sem kjörnir voru í tilefni hálfrar aldar afmæli NBA deildarinnar árið 1996 (Scottie Pippen).

Það var líka með tíunda besta kraftframherja sögunnar að mati ESPN (Rodman), einn besta evrópska leikmanni sögunnar í NBA deildinni (Kukoc) og góðum slatta af ljómandi góðum rulluspilurum sem keyptu plan þjálfarans.

Eins og titlarnir sex bera með sér, var þetta Chicago-lið ekkert slor og auk allra þessara hæfileikamanna, hafði það líka heppnina með sér, sem er alltaf mikilvægur þáttur í öllu meistarasamhengi eins og við erum alltaf að segja ykkur.

Þannig átti þetta Chicago-lið sér engan ákveðinn sögufrægan mótherja sem það þurfti að berjast við ár eftir ár eins og Celtics og Lakers lið þeirra Bird og Magic höfðu gert áratuginn á undan og ekki má gleyma meiðslunum.

Chicago slapp við öll stór meiðsli á þessum árum sem gerði því kleift að vinna titla. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort Chicago hefði unnið t.d. Phoenix ´93 eða Utah bæði árin 1997 og 98 ef Michael Jordan hefði slitið krossbönd í annari umferð úrslitakeppninnar.

Liðið sem sópaði til sín titlunum tveimur sem í boði voru á milli-Jordans-árunum 1994 og 1995 (þegar Jordan tók þá yfirmáta fáránlegu ákvörðun að gerast atvinnumaður í boccia) var Houston Rockets.

Fyrirliði og stórstjarna þessara Houston-liða var Hakeem Olajuwon, einn besti miðherji í sögu NBA deildarinnar (5. besta miðherja sögunnar að mati ESPN í könnun sem birt var á dögunum).

Annað árið fékk hann til liðs við sig gamla liðsfélaga sinn úr háskóla Clyde Drexler (5 besta skotbakverði sögunnar skv. sömu ESPN könnunar) og í kring um þá var langur listi frábærra rulluspilara.

Á meðal þeirra má nefna Kenny Smith (sjónvarpsmaður á TNT í dag), Robert Horry (sjöfaldur NBA meistari - meira um hann síðar), Vernon Maxwell, Otis Thorpe, Sam Cassell og fleiri góðir.

Þetta lið var svo þjálfað af mjög góðum þjálfara í Rudy Tomjanovich, sem einhverra hluta vegna er ekki kominn inn í Heiðurshöllina, en pólitíkin á bak við inngöngu í það batterí er ekki einföld.

Wednesday, January 20, 2016

NBA Landslagið í dag



Af dvínandi meistaravonum Cleveland


"Ég var ekki vanur að pæla í því að leikir gætu verið steitment-leikir þegar ég spilaði í deildinni, en það sem þetta Golden State-lið er að gera hérna... það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en steitment."

Það var eitthvað í þessum dúr sem hann Chris Webber sagði við Marv Albert þar sem þeir félagar sátu saman og lýstu leik Cleveland og Golden State á TNT sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi.

Ef það fór framhjá einhverju ykkar, þá valtaði Golden State yfir heimamenn í Cleveland 132-98, í leik sem var spennandi í um það bil fimmtán mínútur en breyttist svo í eitthvað sem er ekki hægt að kalla annað en hreina og klára slátrun. Það er hægt að senda frá sér yfirlýsingar með talsvert minna áberandi og afgerandi hætti en þetta.

Við erum sammála Chris Webber upp að vissu marki. Það er ekki alltaf mikið að marka þegar lið mætast í deildarkeppninni - sérstaklega ekki þegar þau eru á sitt hvorri ströndinni og mætast ekki nema tvisvar allan veturinn. Það getur því þýtt eitt þegar liðin mætast í nóvember og allt annað þegar þau mætast aftur í mars.

Nú eru Golden State og Cleveland búin að mætast í tvígang á leiktíðinni og mætast því ekki aftur fyrr en ef þau rekast aftur á hvort annað í lokaúrslitunum í júní.


Þegar þessi lið mættust á jóladag síðastliðinn, munum við að lengra komnir höfðu orð á því að báðir þjálfarar hafi haldið spilunum nokkuð þett upp að bringunni í þeim leik og þeir spáðu því að þau ættu bæði eftir að gera það í síðari viðureigninni. Það má vel vera að svo hafi verið, en það breytir því ekki að við erum alveg tilbúin í að lesa eitthvað út úr þessum leikjum - sérstaklega leiknum í gær.

Í okkar augum - og við erum svo heppin að hafa ekki hundsvit á körfubolta, þannig að það þvælist ekki of mikið fyrir okkur þegar við erum að leikgreina - styrkti leikurinn í gær okkur í ákveðinni trú.

Við höfum ekki verið tilbúin með að gefa út of stórar yfirlýsingar varðandi Golden State vs Cleveland fram að þessu af því það veit jú enginn hvernig þessi lið myndu smella saman í úrslitakeppninni ef þau mættust þar með alla sína menn heila.

En nú vitum við hvað gerist og erum tilbúin að deila því með hverjum sem vill heyra.


Cleveland á ekki fræðilegan möguleika í logandi helvíti í Golden State Warriors - hvorki í deildarkeppni, né seríu, með heilan leikmannahóp eða hálfan. Ekki breik. Ekki séns. Gleymdu því bara. Það er ekki að fara að gerast.

Hitti Golden State á toppleik og Cleveland á lélegan þarna í gær? Vissulega, en það breytir engu máli.

Þegar Warriors var búið að ná 40 stiga forskoti í leiknum, veittum við því athygli að það klikkaði á 4-5 galopnum þriggja stiga skotum sem það setur venjulega ofan í.

Það munaði sem sagt ekki miklu að Cleveland lenti yfir 50 stigum undir í þessum leik - á heimavelli - þar sem liðið tapar næstum aldrei. Sérstaklega með alla sína menn heila eins og það er loksins að gera nú um þessar mundir.

Þetta varð svo vandræðalegt á kafla að Andre Iguodala bókstaflega sofnaði á varamannabekk Warriors.

Saturday, January 16, 2016

Detroit heiðrar Stóra-Ben í nótt


Þetta er Stóri-Ben Wallace, miðherji Detroit Pistons á árunum 2000-´06 og 2009-´12.

Þeir verða ekki mikið hrikalegri en Wallace og það er ekki laust við að fólk velti því fyrir sér hvort þessi maður hafi einhvern tímann verið látinn pissa í glas.

"Merkja þetta betur, Skúli minn!"

Ef við ættum að finna einn körfuboltamann sem væri hvað best lýsandi fyrir meistaralið Detroit Pistons frá árinu 2004, myndum við velja Ben Wallace.

Hann var varnarakkeri einnar sterkustu varnar í sögu NBA deildarinnar og er sennilega sá maður sem hefur komist næst því að feta í fótspor Dennis Rodman síðan sá litríki maður lagði skó sína á hillun.

Wallace gegndi alltaf stöðu miðherja hjá Detroit þó hann væri ekki nema um 206 sentimetrar á hæð og þó það viðgangist í dag, þótti það dvergvöxtur fyrir miðherja á fyrstu árum aldarinnar.

Það er varla nóg að rétt slefa í tvo metrana ef maður þarf að dekka Shaquille O´Neal er það?

Jú, einhvern veginn dugði það Wallace. Svona stundum amk.

Ben Wallace var fjórum sinnum valinn Varnarmaður ársins í NBA deildinni, sem er met sem hann á með Dikembe Mutombo.

Fimm sinnum var hann í varnarúrvali deildarinnar og hann fór meira að segja í fjóra Stjörnuleiki - svo sterkt var Detroit á þessum árum. Liðið fór í úrslit Austurdeildar sex ár í röð, frá 2003 til 2008.

Hrikalegasta tölfræðin sem Wallace bauð upp á á ferlinum var árið 2003, þegar hann skoraði 7 stig að meðaltali í leik, en hirti 15,3 fráköst, stal 1,4 boltum  og varði 3,2 skot. Hann var með 10,3 stig, 14,3 fráköst og 2,4 varin skot að meðaltali í leik í úrslitakeppninni árið sem Detroit vann titilinn (2004).

Af hverjum erum við að rifja þetta upp núna?

Jú, af því að Detroit ætlar að hengja treyjuna hans upp í rjáfur í kvöld þegar Golden State kemur í heimsókn og verður hann þar með fyrsti leikmaðurinn úr meistaraliðinu 2004 sem er heiðraður með þessum hætti.

Þegar hefur verið ákveðið að Chauncey Billups fái sömu trakteríngar þann 10. febrúar næstkomandi. Reiknað er með því að Billups verði viðstaddur seremóníuna í kvöld ásamt liðsfélögum þeirra Rip Hamilton og Rasheed Wallace, svo einhverjir séu nefndir.

Wallace, sem er 41 árs gamall í dag, spilaði 655 leiki með Pistons á sínum tíma og á eitthvað af félagsmetum í vörðum skotum auk þess að vera ofarlega á listum í stolnum boltum og fráköstum.

Ekki slæmt af manni sem oft á tíðum var lágvaxnasti miðherji deildarinnar og enginn hafði áhuga á að taka í nýliðavalinu árið 1996.

Búningurinn hans Wallace (númer þrjú) verður sá áttundi sem fer upp í rjáfur í Höllinni í Detroit, en þar eru fyrir þeir Joe Dumars, Dennis Rodman, Isiah Thomas, Vinnie Johnson, Bob Lanier, Dave Bing og Bill Laimbeer. Ekki dónalegur mannskapur það.

Til lukku með þetta, Benni.

Aðeins um dagskrármálin


Já, af hverju Antetokounmpo? Af hverju Milwaukee, Toronto og New Orleans? Og af hverju í ósköpunum Brooklyn Nets og New York Knicks? Þetta eru nokkur af liðunum sem hafa fengið að vera á skjánum í NBA útsendingunum á Stöð 2 Sport í vetur. 

Þetta eru augljóslega ekki San Antonio, Cleveland, Miami eða Oklahoma - liðin sem hafa verið fastagestir í beinum útsendingum á Sportinu síðustu ár. 

En þið eruð líka búin að sjá þessi lið spila milljón sinnum - og þið vitið ósköp vel að þið fáið að sjá þessi lið í eldlínunni aftur kvöld eftir kvöld í úrslitakeppninni í vor eins og síðustu ár. Því þá ekki að brjóta þetta aðeins upp og skoða "hin" liðin yfir veturinn? Til dæmis Spútnikliðin með ungu og efnilegu leikmennina?

Ef rýnt er í leikjaprógrammið á Sportinu í vetur, kemur í ljós að það er fullt af Spútnikleikjum þar í bland við stærri leiki. Eini gallinn er bara að við höfum verið dálítið óheppin með nokkra þessara leikja þennan veturinn. Þar eigum við t.d. við leiki Milwaukee og New Orleans. 

Þessum liðum var spáð nokkuð góðu gengi í vetur og fjölmiðlar vestanhafs spáðu því margir að þau yrðu Öskubuskur vetrarins. Það hefur augljóslega ekki gengið eftir (stundum vegna meiðsla osfv), en þið vitið líka að NBA deildin er óútreiknanlegt fyribæri.


Austurdeildarleikir eru aðeins meira áberandi en vesturleikirnir, en það á sér líka eðlilegar skýringar. Leikirnir í Austurdeildinni byrja auðvitað fyrr en leikirnir fyrir vestan og því eru þeir á heppilegri sýningartíma á Íslandi en leikirnir vestra. Þetta er auðvitað miður í ljósi þess að Vesturdeildin er með miklu skemmtilegri lið og er búin að vera miklu sterkari síðan fyrir aldamót. En á móti kemur að því seinna sem leikurinn er á dagskrá, því minna áhorf, sem er miður.

Það sem stendur þó klárlega upp úr varðandi leikjaprógrammið á Stöð 2 Sport í vetur er hvað eru margir leikir í boði. Undanfarin ár hafa oftast liðið nokkrar vikur á milli útsendinga, en í vetur fáum við beina útsendingu hvert einasta föstudagskvöld - alls 24 leiki - bara úr deildarkeppninni. Það er ekkert slor.

Það er ekki hægt að gera öllum til hæfis í þessum efnum, það er augljóst, en við vonum að þessir punktar hér að ofan hafi svarað einhverjum spurningum sem legið hafa á fólki í vetur. Við bendum ykkur líka á að ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi leikina á Sportinu eða NBATV, getið þið sent línu á nbaisland@gmail.com og við reynum að hjálpa ykkur eftir fremsta megni.

Hérna fyrir neðan er svo leikjadagskráin á Stöð 2 Sport í vetur, en þið voruð nú öll búin að sjá hana fyrir löngu af því þið vitið að NBA Ísland birtir alltaf lista yfir beinar útsendingar á undirsíðunni "Dagskrá/Leikir í beinni" sem er á flipa undir hausnum efst á síðunni.


Friday, January 15, 2016

Bucks-Hawks færður til


NBA deildin hefur ákveðið að færa leik Milwaukee Bucks og Atlanta Hawks sem átti að hefjast klukkan 01:30 í nótt fram til klukkan 01:00. Það snertir okkur nokkuð vegna þess að þetta er NBA leikur vikunnar á Stöð 2 Sport. Þessu er hér með komið á framfæri. Verum upplýst, látum vita.

Wednesday, January 13, 2016

NBA Ísland skoðar einstaka körfuboltamenn


Frávik eru nauðsynleg í samfélagi okkar fullyrti franski félagsfræðingurinn Émile Durkheim fyrir meira en hundrað árum síðan. Enski náttúrufræðingurinn Charles Darwin talaði líka um annars konar frávik - skrímsli og ýmis konar vanskapnað - sem hefur áhrif á þróun dýrategunda. Við mannfólkið erum jú ekkert annað en dýr. Þetta eru merkileg fræði þó ólík séu, frá tveimur af skörpustu hugsuðum nítjándu aldarinnar.

Nú voru þeir Darwin og Durkheim ekki svo heppnir að geta fylgst með NBA körfuboltanum, en okkur verður stundum hugsað til þeirra þegar við fylgjumst með Leiknum í dag. Það er nefnilega eins með körfuboltamenn og annað fólk - það má finna skrímsli í þeirra röðum og það má alltaf koma auga á einhverja þróun í bæði leiknum og mönnunum sem spila hann.

Þeir sem lesa NBA Ísland reglulega muna eflaust eftir því að við höfum átt það til að skrifa um sérstaka tegund leikmanna sem við köllum fyrirbæri. Sumum finnst þetta kannski ljótt orð til að lýsa körfuboltamönnum, en trúið okkur, við meinum ekkert illt með því - þvert á móti. Við köllum nefnilega ekki hvern sem er fyrirbæri. Ó, nei.






(Mynd: Lakers miðherjarnir Kareem Abdul-Jabbar, Shaquille O´Neal og George Mikan)

Ástæðan fyrir því að við erum að hugsa um fyrirbæri núna er sú að þegar við vorum að hugsa um eitt þeirra um daginn, flaug okkur í hug að líklega væru fleiri fyrirbæri í NBA deildinni í dag en nokkru sinni fyrr. Og til að færa rök fyrir því, er upplagt að útskýra fyrir ykkur hvað við meinum með orðinu fyrirbæri, greina frá sögu þess og segja ykkur loks frá fyrirbærum dagsins í dag.

Fyrirbæri er í stuttu máli sá körfuboltamaður sem skarar fram úr keppinautum sínum með líkamlegum yfirburðum sínum og/eða hreinum hæfileikum. Flest fyrirbærin hljóta þá nafngift hjá okkur af því þau eru stærri, sterkari, fljótari, fjölhæfari eða hæfileikaríkari en flestir ef ekki allir mótherjar þeirra á körfuboltavellinum.

Eins og þið getið ímyndað ykkur, er enginn á ritstjórn NBA Ísland sem fór á NBA leiki fyrstu áratugina sem deildin var í gangi og því verðum við að styðjast við ritaðar heimildir í leit að fyrirbærum eins og öllu öðru sem átti sér stað um og eftir miðja síðustu öld.

Líklega eru flestir sammála um að fyrsta fyrirbærið í sögu NBA deildarinnar hafi verið George Mikan.  Miðherjinn Mikan teldist sannarlega ekki mikið fyrirbæri í NBA deild dagsins í dag, enda ekki nema 208 sentimetrar á hæð - hvítur og luralegur náungi með gleraugu.

Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar var Mikan hinsvegar hinn eini sanni risi deildarinnar og var margfaldur stigakóngur og meistari með forvera Los Angeles Lakers í Minneapolis. Mikan var kallaður Herra Körfubolti og sjá má styttu af honum fyrir utan heimahöll Minnesota Timberwolves.

Við gætum haldið langan fyrirlestur um Mikan og þau áhrif sem hann hafði innan og utan vallar, en það sem skiptir mestu máli hvað fyrirbærafræðina varðar var að Mikan var það áhrifamikill í teignum að gerðar voru reglubreytingar út af honum.

Það eru góðar líkur á því að þú sért fyrirbæri ef þarf að breyta reglunum út af þér og það er engin tilviljun að miðherjarnir sem komu á eftir Mikan og höfðu þessi áhrif á reglurnar, fá líka á sig fyrirbærastimpilinn hjá okkur.



Næsta fyrirbæri á blaði hjá okkur kom ekki inn í NBA deildina fyrr en nokkrum árum eftir að Mikan hætti, en það var Wilt Chamberlain - mögulega fyrirbæri allra fyrirbæra.

Við höfum skrifað um Wilt áður og minnum ykkur á að þessum pistli er ekki ætlað að vera ævisaga mannanna sem fjallað er um, en Wilt er á þessum lista - og mögulega á toppnum - af því hann var fullkomlega óstöðvandi körfuboltamaður, líkamlegt og íþróttafræðilegt undur sem NBA deildin var hreinlega ekki tilbúin að taka á móti þegar hann kom til sögunnar í upphafi sjöunda áratugarins.

Wilt er eini maðurinn sem hefur skorað 100 stig í einum leik í NBA deildinni og hann er eini maðurinn sem hefur skorað 50 stig að meðaltali í leik í NBA deildinni.

Hann á flest met NBA deildarinnar í stigaskorun og fráköstum, en hann leiddi deildina líka einu sinni í stoðsendingum bara af því hann langaði að prófa það. Wilt var magnaður alhliða íþróttamaður og var frambærilegur bæði í blaki og frjálsum íþróttum á sínum tíma.

Svo skemmir það ekki fyrir goðsögninni Chamberlain að hann var sagður hafa átt bólfélaga sem skiptu þúsundum, hann spilaði einu sinni meira en 48 mínútur að meðaltali í leik yfir heila leiktíð, hann tróð einu sinni bolta með mann hangandi í honum og á að hafa fótbrotið annan mann af því hann tróð boltanum svo fast ofan á aðra löppina á honum.

Wilt Chamberlain gjörsamlega dómíneraði NBA deildinni allan sjöunda áratuginn og fram á þann áttunda og enginn leikmaður fyrr eða síðar hefur gert eins miskunnarlausar árásir á tölfræðiskýrslur í sögu körfuboltans.

Já, góðir hálsar. Wilt Chamberlain var fyrirbæri. Kannski fyrirbæriÐ.



Næstu tvö fyrirbæri á blað hjá okkur verða einfaldlega að fara þangað af því þau voru svo fáránlega góð í körfubolta, en það vill reyndar svo skemmtilega til að þau voru einu sinni saman í liði. Þetta eru Lew Alcindor, síðar Kareem Abdul-Jabbar og félagi hans Oscar Robertson.

Kareem er að mörgum talinn besti miðherji allra tíma í NBA deildinni og var sexfaldur meistari, sexfaldur leikmaður ársins og er stigahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 38.387 stig.

Punkturinn yfir i-ið hjá Kareem var svo einkennismerkið hans, sveifluskotið, sem gerði hann að óstöðvandi sóknarmanni. Hann upplifði það líka að reglunum í leiknum var breytt út af yfirburðum hans á vellinum.

Liðsfélagi Jabbars (um hríð hjá Milwaukee Bucks), Oscar Robertson, var annars konar fyrirbæri, en hann er fyrsti maðurinn á lista okkar sem var ekki miðherji.

Robertson var bakvörður sem er frægastur fyrir fjölhæfni sína á vellinum, enda  er hann eini maðurinn sem hefur verið með þrefalda tvennu að meðaltali í leik yfir heilt tímabil í NBA deildinni.

Robertson var framúrskarandi körfuboltamaður á öllum sviðum. Hann hafði alla kosti sem góðir bakverðir þurfa að hafa, en var ofan á það sterkur eins og ljón og frákastaði eins og stór maður.