Saturday, January 30, 2016

Golden State lifir góðu lífi með þristinum


Dýrategundir með fjölbreytt fæðuval eiga mikið betri lífslíkur en þau sem lifa á einhæfri fæðu. Þannig kemur það fyrir annað slagið að heilu stofnarnir verða fyrir stórum höggum ef helsta, eða jafnvel eina fæðutegund þeirra hverfur úr umhverfinu af einhverjum ástæðum.

Dæmi um dýr sem neyta fábreyttrar fæðu eru nokkrar slöngutegundir sem éta nær engöngu fuglaegg, ránfuglategundir sem lifa nánast alveg á sniglum og flestir kannast við risapönduna, sem gerir nánast ekki nokkuð skapaðan hlut annað en að éta bambus, ef hún er vakandi á annað borð. 

Bjarndýrinu húðlata til happs, vill svo vel til að oftast er nóg til af bambus á þeim svæðum sem pönduna er að finna, svo hún kemst nokkuð örugglega upp með það að neyta svo einhæfrar og tölum nú ekki um næringarsnauðrar fæðu.

Frændur pöndunnar, grábirnirnir í Bandaríkjunum, Kanada og Alaska, eru alveg úti á hinum endanum í fæðumenginu. 

Þeir éta bókstaflega allt sem að kjafti kemur og verða líka að gera það til að lifa af. 

Þeir detta í eina og eina veislu eins og þegar laxinn gengur upp í árnar til að hrygna og gleymir sér í gleðinni, en oftar kemur fyrir að fæðuval er af skornum skammti og þá þurfa þeir stundum að leika af fingrum fram og éta allt frá reyniberjum til reiðhjóla. 

Þannig mætti áætla að ef grábjörninn væri eins matvandur og frænka hans pandan, væri stofninn líklega í enn meiri útrýmingarhættu en hann er í dag, eða það sem meira er - útdauður.

Þið voruð örugglega farin að efast um að þessi fræði kæmu körfubolta nokkuð við, en auðvitað gera þau það. Það er nefnilega eins með körfubolta og dýraríkið - körfuboltalið geta ekki ætlast til þess að lifa af ef þau lifa á einhæfri fæðu.
































Ástæðan fyrir því að við fórum af stað með þessa hugleiðingu er allt að því geðbiluð skotgleði meistara Golden State Warriors fyrir utan þriggja stiga línuna og árangurinn sem liðið hefur náð með - nú eða eða þrátt fyrir - að taka svona mikið af langskotum. 

Hættu bara að gretta þig og smelltu á myndina hérna fyrir ofan svo þú sjáir tölfræðina almennilega. Bæði hvað eru margir leikmenn hjá Warriors að skjóta langt yfir meðallagi og hvað liðið allt ber höfuð og herðar yfir önnur lið hvað varðar langskotin. Þetta er náttúrulega ekki í lagi.

Hver hefur jú ekki heyrt klisjuna "live by the three - die by the three." Þessi lína lifði mjög góðu lífi í nokkra áratugi í NBA deildinni og var gjarnan notuð sem skammaryrði gegn skotglöðum liðum, sérstaklega þegar þau áttu slæma daga og hittu ekki neitt (og töpuðu). 

Lifðu með þristinum - deyðu með þristinum. 

Auðvitað er ýmislegt til í þessu, þó þetta sé opið hugtak, en það er alveg klárt mál að Golden State hefur breytt þessum viðhorfum eitthvað. 

Við höfum jú aldrei séð lið eins og Warriors áður og sérstaklega ekki bakvarðapar eins og Steph Curry og Klay Thompson.

En við verðum að gæta þess að lesa vel. Það er nefnilega ekki sama hvort þú lifir með þristinum eða lifir á þristinum. 

Golden State getur stundum leyft sér að lifa á þristinum í styttri sprettum og jafnvel heilu leikina, en þegar á heildina er litið lifir liðið auðvitað með þristinum en ekki á honum og þar er mergurinn málsins. 

Það væri einhæf fæða fyrir körfuboltalið að byggja allt sitt á eintómum þriggja stiga skotum (eins og Houston gerir stundum), eintómum æsóum og hnoði (eins og Toronto gerir stundum), eintómu stjórnleysi og geðveiki (eins og Sacramento gerir oftast) eða eintómum varnarleik (eins og Chicago og Memphis gera stundum).

En eins og þið vitið rúlla meistararnir ekki svona. Þeir eru með þetta allt saman

Þeir spila frábæran varnarleik og fjölbreyttan sóknarleik, en svo er þriggja stiga skotið fyrir þá svipað og laxagöngurnar fyrir grábirnina. Þá verða þeir svona eins og Egill Helga á all you can eat og þá er hollara að vera bara ekki fyrir.

Nei, Golden State lifir með þristinum, ekki á honum, og vinnur meira að segja af og til leiki þar sem það hittir ekki sjitt fyrir utan. Warriors er búið að mastera langskotin betur en nokkuð annað lið í NBA sögunni. 

Það fyndna við þetta er að þeir geta betur, geta enn bætt sig alveg helling. Steve Kerr er rétt að byrja með þetta lið og þeir busl-bræður Klay og Curry eru rétt að byrja líka.

Það er kannski dálítið kjánalegt að það hafi tekið menn yfir þrjá áratugi að byrja að nýta sér 3ja stiga skotið til fullnustu í NBA deildinni, en það borgar sig ekki að væla yfir því. 

Við fáum að fylgjast með því gerast þessi dægrin og bónusinn er að við fáum að horfa á lið eins og Golden State færa út kvíarnar og menn eins og Stephen Curry slá öll metin.

Það er ekki ónýtt. Vissulega, fjölbreytt og fallegt veisluborð alla daga.