Thursday, December 26, 2013

Bolur ársins?


Hún Tina frænka þín sagði já þegar kærastinn bað hennar á leik Golden State og LA Clippers í nótt. Warriors vann leikinn naumlega og við skulum vona að það gefi góð fyrirheit fyrir komandi hjónaband. Hún sagði svo auðvitað frá þessu öllu á Twitter skömmu síðar.

Bolnum í Bandaríkjunum virðist alltaf þykja það jafn töff að fara á skeljarnar á íþróttaviðburðum, það vekur alltaf athygli og oftast endar fyrirtækið í sjónvarpinu - í það minnsta á risaskjánum í loftinu. Það er erfitt að finna athafnir á pari við þetta þegar kemur að bolun/plebbun. Blessaður bolurinn er svo krúttlegur. Hann lengi lifi.P.s. - Það er gaman að sjá ljósmyndarann Daníel Rúnarsson þarna lengst til hægri á myndinni. Daníel er ljósmyndari á Fréttablaðinu og það vill svo skemmtilega til að hann kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að því að vera bolur. Það er nefnilega hægt að vera bæði fagmaður og bolur. Fer meira að segja ágætlega saman.


Kevin Hart væri til í að vera örlítið hærri


Pop-viðtal dagsinsMyndir úr jólaleiknum í Los AngelesWednesday, December 25, 2013

Gleðilega hátíð


NBA Ísland óskar lesendum gleðilegra jóla. Takk fyrir stuðninginn og lesturinn. Þið eruð áberandi glæsilegur og vel gefinn hópur - það hefur aldrei verið neitt leyndarmál. Minnum á tvíhöfðann á Sportinu á jóladagskvöld. Góða skemmtun.

Saturday, December 21, 2013

Pekhálsinn


Hálsinn á Nikola Pekovic minnti okkur svo hrikalega á eitthvað. Vorum nokkrar mínútur að fatta það, en svo kom þetta. Hann er engin smásmíði, miðherji Úlfanna.

Sem knúinn af kjarnorku kastar hann körfuboltum í átt að körfum, gætir þess að annað fólk sé ekki að kasta boltum í körfuna hans og reynir loks að góma körfubolta sem skoppa hingað og þangað í látunum - til dæmis af körfuhringnum ef körfuboltinn fer ekki beint ofan í KÖRFU! Svona er jú körfuboltinn.


Velkominn í deildina vinur


Friday, December 20, 2013

Tarfurinn tekur Foxy Lady


SplitterKyle Korver hittir oft körfuboltum ofan í körfur


Já, svona lítur skotkortið hans Kyle Korver út um þessar mundir. Þið munið að græni liturinn táknar skotnýtingu yfir meðaltali í deildinni. Hann sprengir þann skala á öllum vígstöðvum.

Auðveldlega ein af tíu bestu langskyttum sem spilað hafa í NBA deildinni. Líklega ein af fimm bestu. Tölfræðin hans undanfarin ár hefur verið lygileg. Hann er ekki bara sætur og góður strákur, hann Korver frændi þinn, hann er líka afburða fær í að kasta körfuboltum niður um hringlaga gjarðir af löngu færi.


Chris Webber ákvað að vera eðlilegur


Perk er hressWednesday, December 18, 2013

Akkílesarhæll "Bricky" Ricky Rubio


Ricky Rubio hefur verið einn af uppáhalds leikstjórnendunum okkar síðan hann hóf að leika í NBA deildinni fyrir rúmum tveimur árum. Það eina sem menn fundu að Rubio á sínum tíma, var að hann var frekar dapur skotmaður. En svona hæfileikaríkur leikmaður kippir því auðvitað í liðinn, er það ekki?

Hreint ekki.

Við höfum enga ánægju af því að vitna í greinar sem menn eru aftur farnir að skrifa um Rubio og vanhæfi hans sem skyttu, en staðreyndin er bara sú að Rubio er ein lélegasta skytta í sögu NBA deildarinnar.

Hann hitti úr 36% skota sinna á nýliðaárinu sínu, aftur 36% á öðru ári og viltu giska á hvernig hann er að skjóta í ár? Jú, 36%.

Hérna til hliðar sérðu skotkortið hans Rubio í vetur. Þar má glöggt sjá hvar hann er veikastur fyrir.

Þriggja stiga skotin hans eru reyndar aðeins skárri í ár en áður, en það breytir því ekki að hann hefur aðeins hitt úr einu af hverjum þremur þriggja stiga skotum sínum á ferlinum.

Og veistu hvaða nýtingu Rubio er með í fjórða leikhluta í leikjunum 25 sem hann hefur spilað í vetur? Tuttugu og þrjú prósent! Þú ert ekki beint ógnandi í krönsinu með slíkar tölur.

Rubio á fáa sína líka þegar kemur að því að lesa leikinn og senda boltann og það sem merkilegra er, er að hann er mjög góður varnarmaður.

Fjölmiðlamenn setja oft samasemmerki milli varnarleiks og stolinna bolta - sem er kjaftæði - en Rubio er úrvalsboltaþjófur líka.

Spánverjinn ungi er fimmti stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar með 8 snuddur í leik og er í öðru sæti í stolnum boltum með tæpa þrjá í leik.

Loks ber að geta þess að hann er ljómandi frákastari líka, aðeins Russell Westbrook og Chris Paul eru afkastameiri í leikstjórnandastöðunni.

Eins og þið sjáið á þessu, er Rubio enginn skussi, en skelfileg skotnýting hans háir Minnesotaliðinu í sóknarleiknum, því það ber ekki nokkur maður virðingu fyrir Rubio sem skyttu. Þetta þrengir mikið að Úlfunum í sókninni og ekki er á það bætandi - liðið er eitt slakasta skotliðið í NBA.

Eitt af því sem lækkar Rubio hvað mest í skotnýtingunni eru þó ekki langskotin, múrsteinahleðslan sem hann er að bjóða upp á innan ruðningslínu í teignum.

Hann skaut 41% í teignum á síðustu leiktíð og þótti skelfilegur, en hann er búinn að lækka sig í 38% í ár.

Til að setja það í samhengi, má benda á að Chris Paul er með 62% nýtingu í sömu skotum, Tony Parker 57%, Rajon Rondo var með 55% í fyrra og Kyrie Irving 50%.

Einhver hefði haldið að Rubio væri nógu klókur til að vinna bug á þessum vandræðum sínum, en því miður fyrir Rubio, erum við búin að sjá nógu mikið af honum til að átta okkur á því að hann kemur alltaf til með að verða í stórvandræðum í þessum þætti leiksins.

Þetta er sannarlega leiðinlegt fyrir Rubio og Úlfana. Hann er hörkuleikmaður í nær alla staði og á eftir að hafa vinnu í NBA deildinni eins lengi og hann kærir sig um. Ef hann hinsvegar heldur áfram að skjóta svona eins og emúi á alsælu, er hætt við að við sjáum hann aldrei ná á toppinn - hvorki með liði sínu, né sem einstaklingur.

Það liggur beinast við að kalla svona grjótkastara og múrhleðslumann Steinþór, ekki síst af því hinn lykilmaðurinn í liði Úlfana heitir auðvitað Ástþór. Steinþór og Ástþór - er það ekki eitthvað?

Damian Lillard er sama hvað þér finnst


Hvað er svalara en að tryggja liðinu sínu sigur á útivelli með flautukörfu?Nú auðvitað að tryggja liðinu sínu annan útisigurinn í röð með flautukörfu!Damian Lillard er ekki umtalaðasti leikstjórnandinn í þessu dæmalausa miðjubakvarðagóðæri sem nú er í NBA deildinni. Hann er aldrei nefndur til sögunnar þegar talað er um bestu leikstjórnendur deildarinnar.

Menn ættu kannski að byrja að endurskoða það.

Lillard var besti nýliði NBA deildarinnar á síðustu leiktíð og er enn betri í ár.

Skotnýtingin hans mætti vera betri og hann á enn nokkuð í land í varnarleiknum (eins og 95% annars árs manna), en þar fyrir utan erum við að tala um algjöran töffara eins og Oakland-leikstjórnenda er siður.

Pilturinn skorar 20 stig að meðaltali í leik og gefur um sex stoðsendingar. Hann er orðin 40% þriggja stiga skytta og er ein besta vítaskytta deildarinnar (92%), sem er ekki lítið mikilvægt.

Það flottasta við ferilskrá drengsins er þó án efa árangur liðsins sem hann stýrir.

Portland er með besta árangur allra liða í NBA deildinni í dag og það er ekki síst að þakka þessum skemmtilega bakverði, sem fróðlegt verður að fylgjast með í framtíðinni.

Saturday, December 14, 2013

Það er kaldur vetur í New York


Hrakfarir New York Knicks halda bara áfram. Liðið tapaði fyrir Boston Celtics í nótt og er því með sex sigra og sextán töp. Það er næstum því spegilmynd árangurs liðsins á síðustu leiktíð. Þegar Mike Woodson tók við liðinu á þarsíðustu leiktíð, kláraði það 18-6 á lokasprettinum í deildakeppninni. Fylgdi því svo eftir með því að byrja 18-6 í fyrrahaust, þegar liðið var sjóðandi heitt eins og þið munið.

Við áttum ekki orð yfir því hvað New York var að vinna marga leiki á síðustu leiktíð, en við erum ekki eins hissa á óförum liðsins í vetur. Okkur þykir þetta New York lið nefnilega miklu meira 6-16 heldur en 18-6, sérstaklega ef Tyson Chandler er ekki með.

Carmelo Anthony er Carmelo Anthony. Mikill skorari sem nær ekki að gera menn í kring um sig betri. Hann hefur tekið dálítið stökk í fráköstum í vetur, en skárra væri það nú í fjarveru Chandler og spilandi við hliðina á einum lélegasta frákastara í sögu NBA - Andreu Bargnani.

Ferill J.R. Smith er búinn að vera eins og vatnsrennibraut síðan hann braut á Jason Terry í úrslitakeppninni í vor.

Hann er gjörsamlega búinn að missa allt sjálfstraust og er að skjóta 34% innan og utan línu og er að verða hættur að koma sér á vítalínuna. Það munar um minna.

Margir hafa reynt að greina það af hverju munurinn er svona gríðarlegur á Knicks núna og í fyrra. Meiðsli Tyson Chandler hafa mikið að segja í þessu, en liðið náði merkilegt nokk að halda vatni án hans á kafla á síðustu leiktíð líka.

Það eina sem okkur kemur í hug er að það eru færri leiðtogar í liði New York í vetur. Núna er enginn Jason Kidd, enginn Marcus Camby og enginn Rasheed Wallace.

Kidd var sá eini sem spilaði eitthvað af viti, en hann gegndi leiðtogahlutverki hjá hverju einasta liði sem hann spilaði með á ferlinum. Við skoðuðum tölurnar og það er hvergi að marka einhvern svakalegan mun á tölfræðinni núna og í fyrra, þó hún sé auðvitað eitthvað slakari núna í öllum þessum tapleikjum.

Við ætlum ekki að reyna að laga vandræði New York Knicks með þessum pistli, en við mælum samt með því að félagið stokki algjörlega upp hjá sér og rói á ný mið. Þetta er ekki að ganga.

Carmelo Anthony verður aldrei meistari sem aðalstjarna liðs í NBA deildinni, Tyson Chandler á ekki nóg eftir, Amare Stoudemire er fyrir og félagið hefur verið rekið eins og íslenskt fyrirtæki síðustu ár. Það er búið að veðsetja allt (valrétti) í topp í nánustu framtíð og sveigjanleikinn er enginn.

Það er ljótt að afgreiða lið svona með einu pennastriki, en við gerum það til að lina þjáningar stuðningsmanna Knicks, sem virðast alltaf halda að liðið þeirra sé hársbreidd frá því að verða meistari.

Kannski gaf það Knicks falsvonir á síðustu leiktíð að vinna seríu í úrslitakeppni. Liðið gæti þess vegna endurtekið það í ár í einni verstu Austurdeild í sögunni. Þegar það svo lendir í Miami eða Indiana - verður dæmið bara blóðbað sem er bannað innan 18 ára.

Glöggur lesandi á bandi Knicks (@KristjanDadi) benti réttilega á það á Twitter að væri kominn tími tli að hrista upp í þessu og reyna að fá eitthvað fyrir Carmelo Anthony á meðan hlutabréfin í honum eru í toppi.

Þau verða ekki hærri eftir þetta og það er áhugavert að hugsa til þess hvað New York gæti fengið fyrir hann. Spurning hvort liðið gæti komið sér inn í nýliðavalið í sumar.

Við finnum til með stuðningsmönnum Knicks, þó sumir þeirra séu í álíka góðri snertingu við raunveruleikann og stuðningsmenn Liverpool. Við viðurkennum það samt, að við glottum í hvert skipti sem New York drullar á sig - alveg eins og þegar Liverpool og enska landsliðið drulla á sig. Það er bara eitthvað svo fyndið.

En við óskum samt stuðningsmönnum Knicks á íslandi alls hins besta. Enginn á skilið að þurfa að halda með öðru eins geðveikrahæli og Knicks hefur verið undanfarin ár. Ekki voruð það þið sem ákváðuð að gera 100+ milljón dollara samning við Amare Stoudemire.

Thursday, December 12, 2013

Rólegur Iván!Af hverju Jaric?

Aldrei þótti okkur hann Marko Jaric neitt augnayndi þegar hann spilaði í NBA deildinni og satt best að segja finnst okkur hann bara eiginlega ljótur.

Augun eru til dæmis á röngum stað í grillinu á honum. Já, Jaric var hvorki frábær körfuboltamaður né fallegur.

Það er konan hans hinsvegar, hún Adriana Lima.

Hún er fædd í Brasilíu og á með honum tvö börn. Hún er náttúrulega heimsfræg fyrirsæta. Hvernig í fjandanum fer hann að þessu? Og ætli sé hægt að tappa þessu á flöskur? Þetta er náttúrulega rugl.
Glen Davis á alsælu í viðtali?


Ólíkindatólið Glen "Big Baby" Davis fer oftast ótroðnar slóðir í lífinu. Við sjáum að hér á það við í viðtali sem hann fór í eftir að Orlando-liðið hans lagði Charlotte í nótt.

Ef við vissum ekki betur, hefðum við haldið að sá stóri hefði verið undir áhrifum eiturlyfsins alsælu meðan á viðtalinu stóð. Í fyrsta lagi sækir hann mikið í snertingu og heldur utan um sjónvarpsmanninn allan tímann, sem er eiginlega dálítið vandræðalegt. Hann tyggur aftur og aftur hvað hann elskar allt og alla og er ógurlega jákvæður. Þetta eru tvö af algengustu einkennum sem merkja má á fólki undir áhrifum alsælu. Kannski að þeir ættu að láta Barnið pissa og sjá hvað kemur út úr því.

Wednesday, December 11, 2013

Þetta er þarna ennþá


Indiana vann fyrstu lotu


Indiana (19-3) sendi meisturum Miami (16-6) smá skilaboð í nótt með því að hafa betur 90-84 í fyrsta einvígi liðanna í deildakeppninni. Leikurinn fór fram í Indiana, þar sem heimamenn eru taplausir í tíu leikjum.

Góðu fréttirnar eru að þessi frábæru lið mætast aftur næsta miðvikudag en þá verður leikið í Miami. Hérna fyrir neðan eru nokkrir tölfræðipunktar úr einvíginu. Þarna sjáið þið m.a. hvað varnarleikur Pacers er rosalega sterkur og hvernig Paul George gekk að dekka LeBron James.
Fagmaðurinn

Tuesday, December 10, 2013

Kagawa að kennaNBA spjall í Sportþættinum á Suðurland FM


Mark Aguirre á afmæli í dagSkorarinn skemmtilegi Mark Aguirre á afmæli í dag. Framherjinn lék 13 ár í deildinni og átti sín bestu ár með Dallas, en fleiri muna kannski eftir honum með meistaraliðum Detroit Pistons árin 1989 og 1990.

Aguirre var sem áður segir frábær skorari og margir vilja meina að það sé skandall að hann sé ekki búinn að fá sæti í Heiðurshöllinni. Hann hefur reyndar ekki einu sinni fengið treyjuna sína hengda upp í Dallas, þar sem hann skoraði að jafnaði um 25 stig í leik á rúmum sjö árum.

Fyrir tuttugu árum síðan var Aguirre að skora 29,5 stig að meðaltali í leik og aðeins Adrian Dantley hjá Utah var með hærra meðaltal (30,5).

Það er nokkuð skondið að skoða listann yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar þarna fyrir 20 árum. Þar eru tæknilega níu af tíu stigahæstu mönnum deildarinnar minni framherjar (Ísmaðurinn spilaði bæði bakvörð og framherja).

Terry Cummings spilaði stöðu kraftframherja, en það er merkilegt að sjá ekki einn einasta bakvörð þarna á listanum.

Sagan segir að það hafi verið Aguirre sem lagði grunninn að kaupum Mark Cuban á Dallas Mavericks um aldamótin með því að koma á fundi með honum og Ross Perot, þáverandi eiganda félagsins.

Hérna fyrir neðan má sjá Aguirre sækja að Charles Barkley í Stjörnuleiknum árið 1988. Þetta var þriðji og síðasti Stjörnuleikur hans á ferlinum (´84, ´87).

Til hamingju með daginn, Mark.