Wednesday, December 18, 2013

Akkílesarhæll "Bricky" Ricky Rubio


Ricky Rubio hefur verið einn af uppáhalds leikstjórnendunum okkar síðan hann hóf að leika í NBA deildinni fyrir rúmum tveimur árum. Það eina sem menn fundu að Rubio á sínum tíma, var að hann var frekar dapur skotmaður. En svona hæfileikaríkur leikmaður kippir því auðvitað í liðinn, er það ekki?

Hreint ekki.

Við höfum enga ánægju af því að vitna í greinar sem menn eru aftur farnir að skrifa um Rubio og vanhæfi hans sem skyttu, en staðreyndin er bara sú að Rubio er ein lélegasta skytta í sögu NBA deildarinnar.

Hann hitti úr 36% skota sinna á nýliðaárinu sínu, aftur 36% á öðru ári og viltu giska á hvernig hann er að skjóta í ár? Jú, 36%.

Hérna til hliðar sérðu skotkortið hans Rubio í vetur. Þar má glöggt sjá hvar hann er veikastur fyrir.

Þriggja stiga skotin hans eru reyndar aðeins skárri í ár en áður, en það breytir því ekki að hann hefur aðeins hitt úr einu af hverjum þremur þriggja stiga skotum sínum á ferlinum.

Og veistu hvaða nýtingu Rubio er með í fjórða leikhluta í leikjunum 25 sem hann hefur spilað í vetur? Tuttugu og þrjú prósent! Þú ert ekki beint ógnandi í krönsinu með slíkar tölur.

Rubio á fáa sína líka þegar kemur að því að lesa leikinn og senda boltann og það sem merkilegra er, er að hann er mjög góður varnarmaður.

Fjölmiðlamenn setja oft samasemmerki milli varnarleiks og stolinna bolta - sem er kjaftæði - en Rubio er úrvalsboltaþjófur líka.

Spánverjinn ungi er fimmti stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar með 8 snuddur í leik og er í öðru sæti í stolnum boltum með tæpa þrjá í leik.

Loks ber að geta þess að hann er ljómandi frákastari líka, aðeins Russell Westbrook og Chris Paul eru afkastameiri í leikstjórnandastöðunni.

Eins og þið sjáið á þessu, er Rubio enginn skussi, en skelfileg skotnýting hans háir Minnesotaliðinu í sóknarleiknum, því það ber ekki nokkur maður virðingu fyrir Rubio sem skyttu. Þetta þrengir mikið að Úlfunum í sókninni og ekki er á það bætandi - liðið er eitt slakasta skotliðið í NBA.

Eitt af því sem lækkar Rubio hvað mest í skotnýtingunni eru þó ekki langskotin, múrsteinahleðslan sem hann er að bjóða upp á innan ruðningslínu í teignum.

Hann skaut 41% í teignum á síðustu leiktíð og þótti skelfilegur, en hann er búinn að lækka sig í 38% í ár.

Til að setja það í samhengi, má benda á að Chris Paul er með 62% nýtingu í sömu skotum, Tony Parker 57%, Rajon Rondo var með 55% í fyrra og Kyrie Irving 50%.

Einhver hefði haldið að Rubio væri nógu klókur til að vinna bug á þessum vandræðum sínum, en því miður fyrir Rubio, erum við búin að sjá nógu mikið af honum til að átta okkur á því að hann kemur alltaf til með að verða í stórvandræðum í þessum þætti leiksins.

Þetta er sannarlega leiðinlegt fyrir Rubio og Úlfana. Hann er hörkuleikmaður í nær alla staði og á eftir að hafa vinnu í NBA deildinni eins lengi og hann kærir sig um. Ef hann hinsvegar heldur áfram að skjóta svona eins og emúi á alsælu, er hætt við að við sjáum hann aldrei ná á toppinn - hvorki með liði sínu, né sem einstaklingur.

Það liggur beinast við að kalla svona grjótkastara og múrhleðslumann Steinþór, ekki síst af því hinn lykilmaðurinn í liði Úlfana heitir auðvitað Ástþór. Steinþór og Ástþór - er það ekki eitthvað?