Wednesday, September 30, 2015

Vörutalning í Vesturdeild


Um daginn kíktum við á Austurdeildina í NBA og komumst að raun um að hún inniheldur aðeins eitt alvöru körfuboltalið. Þegar við segjum alvöru körfuboltalið, erum við að meina lið sem hefur burði til að vinna meistaratitilinn. Þetta var Cleveland eins og þið munið. Það er séns þar.

Nú er hinsvegar kominn tími til að skoða Vesturdeildina, þar sem allt er miklu blómlegra eins og verið hefur síðustu ár. Við skulum velta því fyrir okkur saman hvaða lið í vestrinu hafa brag og burði til að keppa um titil næsta sumar.

Það er nauðsynlegt að taka svona vörutalningar annað slagið, því hlutirnir eru afskaplega fljótir að breytast í NBA deildinni eins og þið vitið. Menn meiðast, mönnum er skipt, menn eru látnir fara, menn eldast, menn fá liðsstyrk og mönnum vex fiskur um hrygg.

GOLDEN STATE WARRIORS

Ríkjandi meistarar í NBA deildinni eru ekki endilega alltaf liðið sem þykir líklegast til að vinna titilinn árið eftir, en þannig er það tvímælalaust í þetta árið.

Meistarar Golden State (það á eftir að taka okkur um það bil þrettán ár að venjast því að skrifa þessi þrjú orð) áttu sannkallaða draumavertíð á síðasta keppnistímabili þegar þeir spóluðu sig fyrstir í mark án þess að lenda í teljandi torfærum á leiðinni.

Það er því ekki óeðlilegt að margir tippi á að Warriors nái að endurtaka leikinn næsta sumar. Golden State kemur til leiks með sama lið og í fyrra, sem er mjög jákvætt í þessu tilviki, því lykilmenn liðsins eru flestir á fínum aldri og eiga nóg eftir.

Hressandi tilhugsun fyrir mótherja Warriors að geta átt von á því að Stephen Curry, Klay Thompson, Draymond Green, Harrison Barnes og Festus Ezeli eigi bara eftir að verða betri og betri næstu árin.

Andre Iguodala og Andrew Bogut eru ekki að verða betri, en ef þeir sleppa við þið vitið hvað og spila sinn leik, verða þeir áfram lykilmenn í leiftursstríði Dubs. Og hugsið ykkur, Kerr og þjálfarateymið hans eru rétt svo búnir með reynsluaksturinn á þessu liði, nú geta þeir farið að gera krúsidúllur.

Þeir segja að það sé hrikalega erfitt að vinna titilinn tvö ár í röð í NBA deildinni, en þrátt fyrir það er Golden State líklegast til að toppa 2016 af þeirri einföldu ástæðu að það er besta liðið - og er að verða betra. Eins og það sé ekki nógu gott fyrir. Þið sjáið því að við höfum ákveðið að stilla Golden State upp skör ofar en restinni af vesturliðunum, sem hlýtur að teljast eðlilegt að svo búnu.

En hvað með hin liðin sem ætla að vera með í slagnum í vestrinu? Kíkjum aðeins á þau.





HOUSTON ROCKETS

Það kom mörgum á óvart að Houston næði alla leið í úrslit Vesturdeildarinnar í vor. Sérstaklega kom það okkur á óvart, því við höfðum einmitt ekki séð nokkurn skapaðan hlut hjá þessu liði í úrslitakeppninni undanfarin ár sem benti til að það ætlaði að fara að vinna eitthvað.

Dallas varð engin hindrun í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en þegar kom að ógnarsterku Clippers-liðinu í annari umferð, hafði Houston heppnina loksins með sér eftir að hafa gleymt henni heima árið á undan þegar það lét Portland henda sér í sumarfrí.

Nú gæti einhver sagt að heppni hafi ekkert með það að gera hvort liðið sigrar í sjö leikja seríu - betra liðið vinni einfaldlega alltaf undir þeim kringumstæðum. Einvígi Clippers og Rockets fékk okkur aftur á móti til að efast um þá lógík, slíkar voru sveiflurnar.

Houston var blátt og marið, tárvott, tætt og rifið - gleymt og grafið. Það fipaðist í strax í byrjun á móti Chris Paul-lausu Clippers og lét það rassskella sig í fyrsta leik.

Lenti svo undir 3-1 og allir byrjuðu að skrifa minningargreinar um Rockets, enda var gjörsamlega átakanlegt að horfa upp á spilamennskuna. Baráttuandinn var á bak og burt og það vottaði varla fyrir karakter.

Við förum svo aldrei ofan af því að það var Clippers-liðið sjálft sem sneri einvíginu en ekki Houston.

Jú, jú, hann Josh Smith átti svo sem sinn þátt í viðsnúningnum þegar hann illaðist og tryggði Rockets sigur í fimmta leiknum, en við skrifuðum þetta á Clippers. Liðið varð bara allt í einu bensínlaust á Miklubrautinni og það gerðist svo skyndilega að það komst ekki einu sinni út í kant.

Það er meiriháttar furðulegt að horfa upp á svona lagað gerast en svona er úrslitakeppnin dásamleg - heldur bara áfram að gefa okkur gjafir sem okkur hefði ekki órað fyrir að fá.

Sunday, September 27, 2015

Af Kevin Johnson, Mark Price og skotfeimni Suns


Þú hefur sennilega ekkert við Kevin Johnson að gera ef þú ert svo heppinn að vera þegar með Mark Price í liðinu þínu.

Þannig sáu forráðamenn Cleveland þetta leiktíðina 1987-88 þegar Johnson var hluti af leikmannaskiptum Cleveland og Phoenix, sem áttu eftir að hafa mikil áhrif á báða klúbba - aðallega til batnaðar.

Ári síðar var Mark Price orðinn Stjörnuleikmaður og Kevin Johnson árið þar á eftir. Okkur verður oft hugsað til þessara tveggja frábæru leikstjórnenda, sem settu svip sinn á NBA deildina í kring um 1990.

Þeir Price og Johnson voru gjörólíkir leikmenn sem léku í NBA deild sem var gjörólík þeirri sem við fylgjumst með í dag.

Báðir hefðu þeir sómað sér vel í nútíma NBA, en þó sérstaklega Price, sem segja má að hafi verið á undan sinni samtíð.

Liðsfélagi hans frá Cleveland, Steve Kerr, lét einhvers staðar hafa eftir sér að Price hafi fullkomnað listina að kljúfa varnir andstæðinganna í tvímenningi - skottast milli þeirra í vegg og veltu.

Þess utan var Price margfaldur Stjörnuleikmaður og einn besti leikstjórnandi deildarinnar á sínum tíma, en leikstíll hans hefði hentað enn betur í dag. Price skaut mikið, skaut mikið af 3ja stiga skotum, löngu áður en það varð þessi stóri þáttur af öllum sóknarleik eins og það er í dag.

Ef við ættum að finna einhvern leikmann úr sögu NBA til að reyna að herma eftir leikstíl Stephen Curry, myndum við velja Mark Price. Það segir ykkur kannski hvernig leikmaður hann var.

Hann hafði vissulega ekki hraðann hans Curry og fólk þurfti kannski ekki að byrja að dekka hann um leið og hann kom yfir miðju, en að öðru leyti er Price sennilega besta Curry-eftirlíkingin sem okkur dettur í hug.

Cleveland fór frá því að vera drasl yfir í að vera ljómandi gott körfuboltalið undir stjórn Mark Price á sínum tíma. Hann fékk mikla hjálp við þetta verkefni frá mönnum eins og Brad Daugherty og fleirum. Þetta lið komst aldrei yfir Jordan-þröskuldinn í austrinu en var samt hörkulið.

Og Price var hjartað í því, þar sem hann varð meðal annars fyrsti maðurinn annar en Larry Bird til að bjóða upp á 50/40/90 leiktíð árið 1989 þegar hann skilaði 19 stigum og 8 stoðsendingum með skotnýtingu upp á 53%, 44% í þristum og 90% á línunni.

Ástæðan fyrir því að við fórum að pæla í þeim Price og Johnson var að við rákumst á gamlar tölfræðiskýrslur og þegar það gerist, eigum við það til að fara að fabúlera. Og þá koma svona pistlar eins og andskotinn út í bláinn og ekkert samhengi í neinu.

Þegar við vorum að leika okkur að skoða tölfræðina hans Kevin Johnson hjá Phoenix kom eitt og annað skemmtilegt í ljós.

Við höfum alltaf vitað hvað Johnson var góður leikmaður, en við vorum t.d. búin að gleyma því hvernig liðið hans leit út umrædda leiktíð - veturinn 1988-89.

Eins og við minntumst á áðan, voru þriggja stiga skot ekki komin í svona svakalega tísku og í dag árið 1989. En það var nefnilega mesta synd, því ef eitthvað lið hefði getað látið vaða fyrir utan, var það einmitt þetta Phoenix-lið. Ekki vantaði mannskapinn í það - mönnum bara flaug þetta ekki í hug.

Eða hvað myndir þú gera ef þú værir með Dan Majerle, Craig Hodges, Steve Kerr, Jeff Hornacek og Eddie Johnson í liðinu þínu, skorunarmaskínu eins og Tom Chambers og frábæran leikstjórnanda eins og Kevin Johnson sem getur komist fram hjá manninum sínum og inn í teig í hvert einasta skipti sem honum dettur það í hug?

Já, þú myndir líklega skjóta. Við vitum að við hefðum gert það.

Pældu í þessum skyttum! Dan Majerle tók tvisvar þátt í 3ja stiga skotkeppninni um Stjörnuhelgina og þeir Kerr, Hornacek og Hodges unnu hana - oft!

Og þeir tóku ekki einu sinni flest skot í Suns-liðinu árið 1989. Það var Eddie Johnson sem gerði það - tók næstum helminginn af þeim. Og hitti eins og fjandinn, 41%.

Chambers tók líka fleiri 3ja stiga skot en allir kóngarnir, sem er skondið, því hann var aldrei sérstök langskytta. Setti eitt af þremur þetta árið og var innan við 31% á ferlinum.

Hugsið ykkur að vera með allt þetta fæjerpáver í liðinu sínu og nota það ekki neitt. Phoenix-liðið árið 1989 tók samanlagt 481 3ja stiga skot á leiktíðinni og setti 168 þeirra niður (35%).

Ef þetta Suns-lið hefði verið einstaklingur, hefði það verið sjötta afkastamesta langskytta síðustu leiktíðar í NBA deildinni. Stephen Curry tók næstum því 650 þrista 2015 - og setti 286 þeirra niður!

Damian Lillard tók 572 þriggja stiga skot og það vill svo skemmtilega til að félagarnir James Harden og Trevor Ariza hjá Houston tóku báðir 555 slík í vetur.

Þá tók Klay Thompson félagi Curry hjá Warriors einnig fleiri þrista en ´89 lið Suns, eða 545.

Veistu hvað okkur finnst samt merkilegast við þetta Suns-lið?

Já, þú giskaðir rétt. Það sem er fáránlegast við þetta tiltekna lið er að Kevin Johnson var ekki valinn í vesturliðið í Stjörnuleiknum í Houston árið 1989.

Og það þó Magic Johnson væri meiddur og gæti ekki tekið þátt í leiknum. Nei, þeir ákváðu að senda Kareem gamla frekar í leikinn þó hann hefði ekkert erindi þangað. Hann var fjórði miðherji vesturliðsins (Hakeem Olajuwon, Kevin Duckworth, Mark Eaton) þetta árið. John Stockton var eini leikstjórnandi vestursins og lauk keppni með þrennu (11, stigum, 17 stoðsendingum og 12 töpuðum boltum).

Kannski komst Kevin Johnson ekki í Stjörnuliðið af því hann var með svo lélega tölfræði þetta árið...

Nei, bíddu aðeins. Hann var með 20 stig, 12 stoðsendingar*, 4 fráköst 1,7 stolna, 50% skotnýtingu, 88% vítanýtingu, spilaði 29 mínútur í leik (3. mesta í deildinni) og var kjörinn sá leikmaður sem tók mestum framförum í NBA deildinni á tímabilinu.

O.k, kannski ekki það.

En kannski var liðið sem hann var að spila með bara svona lélegt? U, nei. Phoenix var með 29 sigra og 17 töp um Stjörnuleikshelgina. O.k. - ekki það heldur.

Phoenix fékk einn fulltrúa í Stjörnuleiknum, hann Tom Chambers (25 stig, 8 fráköst), sem var fínt. En Kevin Johnson fékk ekki að fara með honum til Houston - og ekki Eddie Johnson heldur (21 stig).

Jabbar var með 10 stig og 4,5 fráköst að meðaltali hjá Lakers ´89 og hætti að spila um vorið.

Við erum alveg handviss um að við höfum bjargað mannslífum með þessum fróðleik, þó hann haldi samhengi á svipaðan hátt og Troll 2.

-------------------------------------------------------------------

* - Það er líka alveg eðlilegt að 12,2 stoðsendingar í leik hafi ekki dugað leikmanni nema í 3. sæti á lista stoðsendingahæstu leikmanna ársins í NBA árið 1989, en svona var að spila í deild með John Stockton (13,6 stoðsendingar í leik) og Magic Johnson (12,8 stoðsendingar í leik).

Wednesday, September 23, 2015

Hlaðvarp NBA Ísland: 49. þáttur


Hörður Tulinius á karfan.is er gestur í 49. þætti Hlaðvarps NBA Ísland. Hörður fylgdist náið með íslenska landsliðinu á EM á dögunum og deilir upplifuninni í Berlín með okkur. Hann komst meðal annars í návígi við mörg af stærstu nöfnunum í körfuboltaheiminum og segir okkur hvaða leikmenn og lið spiluðu best og verst á mótinu að hans mati.

Áður en viðtalið við Hörð hefst, leikum við stutt brot úr nýjasta þætti hlaðvarpsins Dunc´d on basketball, þar sem umsjónarmaðurinn Nate Duncan og hinn finnski Kristian Palotie fara fögrum orðum um íslenska landsliðið fyrir frammistöðu þess á EM um daginn.

Þú getur hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða sótt hann (download) inni á hlaðvarpssíðunni okkar góðu.

Tuesday, September 22, 2015

Fær Cleveland samkeppni í Austurdeildini í vetur?


Hvað tökum við til bragðs ef nýjasti þáttur hlaðvarpsins fer í klósettið vegna tæknivandræða og eyðileggur nokkrar dýrmætar vinnustundir aðfararnótt þriðjudags? Við getum annað hvort bölvað og ragnað í klukkutíma og farið að sofa eða ákveðið að skrifa pistil um efni þáttarins í staðinn. Við ákváðum að gera bæði: skrifa meðan við bölvuðum upphátt í hljóði.

Efni 49. þáttar hlaðvarpsins átti að vera umræða um hvaða lið myndu gera tilkall til meistaratignar í NBA deildinni næsta sumar, í tilefni þess að nú er ekki nema rétt rúmur mánuður þangað til deildarkeppnin hefst.

Þessi pistill verður ekki  jafn tæmandi og hlaðvarpið sem endaði í ruslinu. Þú átt alveg örugglega ekki eftir að lesa hann á hlaupabrettinu í World Class og guð forði okkur frá því að þú lesir hann á meðan þú ekur til vinnu. En við vonum að hann verði fræðandi. Kíkjum aðeins á þetta og byrjum í austrinu:


Austurdeildin á síðustu leiktíð var sennilega sú lélegasta í sögu deildarinnar, að minnsta kosti sú lang, langlélegasta síðan við byrjuðum að fylgjast með NBA fyrir um aldarfjórðungi síðan. Það er mál manna að austrið verði ekki eins arfaslakt í vetur og það var í fyrra, en við skulum þó ekki baka neinar kökur enn sem komið er.

Það má nefnilega vel vera að einhver af liðunum í austrinu fari frá því að vera brandari upp í að vera skítléleg, en það þýðir engan veginn að Cleveland fái einhverja samkeppni á leið sinni í lokaúrslitin 2016. Raunar er Cleveland með það mikla yfirburði í Austurdeildinni að við höfum aldrei upplifað annað eins - ekki einu sinni nálægt því.

Á síðustu leiktíð gátum við gefið okkur að lið eins og Chicago, Atlanta eða Washington gætu amk strítt Cleveland. Við vorum meira að segja svo tröllheimsk að við spáðum því að Chicago yrði liðið sem færi upp úr austrinu í lokaúrslitin.

Spáin var gerð síðasta haust eftir að við sáum Cleveland spila eins og drasl, með meingallað lið og LeBron James á hálfu gasi. Við höfðum svo rangt fyrir okkur að það er líkamlega vont.

Kallið okkur haters, en það segir meira um restina af liðunum í Austurdeildinni en styrk Cleveland hvernig málin þróuðust í úrslitakeppni Austurdeildarinnar á síðustu leiktíð. Sérstaklega voru það Atlanta og Chicago sem ollu okkur vonbrigðum þar - svo miklum að við myndum frekar segja að þau hafi gert sig að fíflum en valdið okkur vonbrigðum. Og ekki væla um meiðsli - það voru meiri meiðsli hjá Cleveland en öllum mótherjunum.

Saturday, September 19, 2015

Nokkur orð um Moses heitinn


Það er eins með okkur eins og aðra körfuboltamiðla, við höfum ekki hugmynd um hver Moses Malone var. Eitt af því fáa sem við vitum með vissu er að hann er nú látinn blessaður, aðeins sextugur að aldri. Við vitum kannski fátt um Moses, en við lítum á það sem skyldu okkar að skrifa nokkur orð um það þegar þrefaldur leikmaður ársins í NBA deildini fellur frá. Sérstaklega ef við fengum nú að horfa á hann spila.

Þið sem þekkið til Malone á annað borð vitið þetta litla sem fólk vissi yfir höfuð um hann, en þó hann hafi alltaf verið sem lokuð bók, þýðir það ekki að hann hafi ekki átt merkilegan feril. Því er alveg kjörið að skrifa nokkrar línur um hann til að upplýsa yngri lesendur um einn besta miðherja í sögu NBA deildarinnar. Við komumst ekki hjá því að detta í nokkrar klisjur þegar við gerum upp feril Moses Malone, en það verður bara að hafa það. Hann skal fá nokkur orð.

Moses Malone fæddist í krummaskuðinu Pétursborg í Virginíuríki árið 1955 og var alfarið alinn upp af móður sinni Maríu, sem sleit samvistum við faðir hans sem sagt er að hafi verið óreglumaður.

Það kom mjög fljótlega í ljós að Moses var enginn venjulegur piltur, því þó hann væri svo sem ekki hávaxinn á miðað við NBA-miðherja almennt (208 cm), var hann risi við hlið foreldra sinna.

Faðir hans var þannig innan við 171 cm á hæð og móðir hans ekki nema 158 cm, svo það eina sem hann erfði frá foreldrum sínum voru smávaxnar hendurnar.

Einn liðsfélaga hans sagði að það hefði bókstaflega verið ósanngjarnt ef Malone hefði verið með risastórar hendur, því hann var besti frákastari sinnar kynslóðar þrátt fyrir barnslegar hendurnar.

Malone ólst upp í fátækt og í grein um hann frá áttunda áratugnum segir að frárennslismálum hafi verið ábótavant á æskuheimili hans og að það hafi verið svo hrörlegt að það hafi bókstaflega verið gat á húsinu á einum stað.

María móðir hans flosnaði upp úr skóla þegar hún var í kring um tíu ára aldur þar sem hún var elst níu systkina og því var nóg annað fyrir hana að gera en hanga í skóla. Fyrir vikið hafði hún ekki um auðugan garð að gresja þegar kom að atvinnu, en þó hún hefði lítið milli handanna reyndi hún að dekra við son sinn eins og henni var unnt.


Moses var ekki námsmaður frekar en móðir hans og gekk vægast sagt illa í skóla. Hann var sjúklega feiminn og ekki beint mælskur - fékk einu sinni á sig gælunafnið Muldri Malone.

Þetta kann að hafa haft áhrif á það að hann varð fyrsti körfuboltamaðurinn í Bandaríkjunum til að stökkva beint úr menntaskóla í atvinnumennsku. Fjöldi háskóla hafði áhuga á að fá hann til sín, en hann ákvað fljótlega að atvinnumennskan væri málið og sú varð raunin.

Það var ABA-lið Utah Stars sem krækti í Moses árið 1975 en þá kom ekki til greina fyrir hann að semja við félag í NBA deildinni af því reglur þar á bæ leyfðu ekki nítján ára gömlum piltum að gera samninga.

























Moses spilaði stöðu framherja á fyrsta árinu sínu sem atvinnumaður og segja má að margt sé líkt með nýliðaárinu hans og nýliðaárinu hans Kevin Garnett hjá Minnesota á sínum tíma, en Garnett fetaði í fótspor Malone með því að fara í NBA deildina beint úr menntaskóla.

Malone var ekki nema um 90 kíló og mátti því hafa sig allan við í baráttunni í teignum, en íþróttamennska hans, styrkur og hraði tryggði þó að hann skilaði 19 stigum og tæpum 15 fráköstum að meðaltali í leik fyrir Stjörnuna í Salt Lake City. Ekki dónalegar tölur fyrir nítján ára gamlan strák, sem margir efuðust um að ætti eftir að standa sig í atvinnumennskunni.

Einhver hefði haldið að þessi fína byrjun hefði hjálpað Malone að festa sig í sessi sem leikmaður, en þó hann ætti eftir að spila sem atvinnumaður næstu tuttugu árin, áttu ótrúlega margir klúbbar eftir að vanmeta snilli hans.


ABA deildin lagðist af árið 1976 og í framhaldi af því fór Moses bæði til Portland Trailblazers og Buffalo Braves (L.A. Clippers), en bæði félögin ösnuðust til að láta hann fara, aðallega af því þau töldu sig ekki hafa efni á honum.

Saturday, September 12, 2015

Tvöfalt hjá Tommy Heinsohn


Rétt eins og þegar hann var innvígður í Heiðurshöllina sem leikmaður, tók nefndin sér góðan tíma í að ákveða hvort Tommy Heinsohn ætti þar heima sem þjálfari. Það tók meira en 20 ár að ákveða hvort hann fengi inni sem leikmaður en enn lengri tíma að heiðra hann sem þjálfara.

Ekki vitum við hvað olli þessum töfum, en við botnum heldur ekkert í aðferðafræði Heiðurshallarnefndar frekar en nokkur manneskja á þessari jörð. Heiðurshöllin er meingallað fyrirbæri þar sem pólitík, klíkuskapur og sérviska ráða för og nú er svo komið að það er eins og allir fljúgi þarna inn.



















En við skulum ekki láta það bitna á Tommy Heinsohn að Heiðurshöllin sé fáránleg. Hann á alveg skilið að vera þarna inni karlinn. Heinsohn vann ekki nema átta meistaratitla á níu ára leikmannsferli sínum með Boston Celtics og þjálfaði liðið svo á árunum 1969 til 1978. Celtics varð meistari í tvígang undir stjórn Heinsohn (1974 og 1976) og hann var kjörinn þjálfari ársins í NBA árið 1973. Menn hafa fengið inni í Springfield fyrir minna.



Nú er ekki annað eftir en kippa karlinum inn í höllina sem sjónvarpsmanni til að fullkomna þrennuna. Heinsohn, sem við erum nokkuð viss um að talaði fyrir Fred Flintstone í teiknimyndunum um Steinaldarmennina, er búinn að vera aðstoðarlýsandi á Boston leikjum með Mike Gorman í yfir þrjátíu ár.

Karlinn er skemmtilega klikkaður lýsandi og jafnan dásamlega hlutdrægur þegar kemur að Boston-liðinu hans,  en hann er eini maðurinn sem kemst upp með það af því hann er fyrir löngu orðin stofnun í annálum NBA deildarinnar.

Maðurinn er búinn að vinna hjá Celtics frá því árið 1956, sem þýðir að hann á sextíu ára starfsafmæli hjá félaginu á komandi leiktíð. Vonandi fáum við að heyra frasana hans í mörg ár í viðbót, því hann er enn í fullu fjöri þó hann sé kominn á níræðisaldur.


NBA deildin væri sannarlega ekki sú sama ef fuglar eins og Heinsohn væru ekki á skjánum reglulega, en þar fyrir utan er maðurinn náttúrulega einn mesti sigurvegari sem stigið hefur á parket í NBA sögunni.

Litríkur ferill sjónvarpsmanns Warriors


Jim Barnett hefur verið aðstoðarlýsandi á leikjum Golden State Warriors í þrjá áratugi og er ein af þessum röddum sem er ómissandi í flórunni. Fyrir tveimur árum tilkynntu forráðamenn Warriors að til stæði að yngja upp í starfi Barnett, sem í staðinn fengi kósí "sendiherrastöðu" hjá félaginu í tilefni þess að hann var að komast á eftirlaunaaldurinn.

Barnett var ekki alveg sammála þessum plönum og stuðningsmenn Warriors voru það svo sannarlega ekki heldur. Þeir settu því af stað herferð með það fyrir augum að halda Barnett í starfi. Þeir gátu ekki hugsað sér að horfa á Warriors-leiki í sjónvarpinu án þess að hafa þægilega rödd Barnett til að leiða sig í sannleikann um gang mála, en hann hafði með veikum mætti reynt að finna jákvæðu hliðarnar á spilamennsku liðs sem var í besta falli búið að vera lélegur brandari í deildinni áratugum saman.



Skemmst er frá því að segja að forráðamenn Golden State urðu við bón stuðningsmanna liðsins og buðu Barnett að halda áfram. Hann er enn að lýsa Warriors-leikjum og hugsið ykkur bara hvað það hefði verið handónýtt ef karlinn hefði nú verið látinn fara loksins þegar liðið fór að geta eitthvað í fyrsta skipti síðan það vann meistaratitilinn fyrir 40 árum síðan.


Eins og flestir í faginu, er Barnett fyrrum NBA leikmaður sjálfur, en deildin í dag er vægt til orða ólík þeirri sem hann lék í á sjöunda og áttunda áratugnum. Barnett var bakvörður og framherji og var valinn númer átta af Red Auerbach til Boston Celtics árið 1966. Eitthvað hefur karlinn verið duglegur að láta til sín taka innan sem utan vallar, því Celtics-goðsögnin John Havlicek gaf honum fljótlega gælunafnið Crazy Horse (ísl. Baldni Folinn).

"Red" gamli Auerbach var þarna nýhættur að þjálfa Celtics eftir að hafa gert liðið að meistara átta ár í röð. Við starfi hans tók Bill Russell, eftir að þrír af liðsfélögum hans höfðu neitað að taka við af Auerbach.

Barnett lék aðeins einn vetur með Celtics og það í landslagi sem á ekkert skylt við NBA deildina í dag. Nýliðaárið hans 1966 var árið áður en leikmannasamtökin voru stofnuð og í þá daga voru engar tryggingar í samningum leikmanna og langtímasamningar þekktust ekki.

Barnett skrifaði upphaflega undir tveggja ára samning við Celtics sem nýliði og nískupúkinn Red Auerbach borgaði honum aðeins ellefu þúsund dollara í árslaun auk 500 dollara bónus við undirritun samnings.

Árið 1966 voru aðeins tíu lið í NBA deildinni og keppnisfyrirkomulagið var þannig að liðin tíu léku níu leiki hvert við annað og því samtals 81 leik á tímabilinu.

Það var svo árið eftir sem farið var að spila 82 leiki, þegar San Diego Rockets (Houston Rockets frá árinu 1971) og Seattle Supersonics (1967-2008 R.I.P.) bættust í hópinn og NBA liðin því orðin tólf.

Barnett og félagar í Boston spiluðu 23 æfingaleiki fyrir tímabilið 1966-67 og það var ekki síst þar sem félagið aflaði sér tekna til að geta borgað leikmönnum sínum laun. Liðið ferðaðist þá milli borga og spilaði og það var Red Auerbach sjálfur sem sá um að rukka inn á leikina.

Leikmenn ferðuðust gjarnan í þessa leiki á einkabílum sínum (félagið borgaði bensín) og þurftu oft að keyra í marga klukkutíma í útileiki.

Undirbúningstímabilið hjá Celtics í þá daga var fjórar vikur og þar af tóku leikmenn tvær æfingar á dag í tvær þeirra. Seinni æfing dagsins gat þá verið 48 mínútna útileikur í tveggja tíma ökuferð í burtu.

Keppnisfyrirkomulagið í NBA var með allt öðrum hætti en nú tíðkast og menn sem kvarta yfir álagi í deildinni í dag hefðu átt að prófa að spila í deildinni fyrir 50 árum.

Á nýliðaárinu hans Jim Barnett spilaði Boston til að mynda tólf leiki í röð í tíu fylkjum á tólf dögum og fór á milli leikjanna með rútu - sem það deildi með tveimur öðrum liðum (Hawks og Sixers)!

Frá Boston lá leið hans til nýliðanna í San Diego Rockets og þaðan til Portland Trailblazers þar sem hann átti sitt besta tölfræðiár í NBA, 18,5 stig, 4,8 fráköst og 4,1 stoðsendingu.

Friday, September 11, 2015

EM uppgjörið


Það var nýtt fyrir okkur öllum að fara með karlalandsliðinu okkar á stórmót í körfubolta og tilfinningarnar innra með okkur að loknu móti eru því einnig framandi. Það er erfitt að lýsa hugarástandinu eftir EM, en trúlega eigum við það öll sameiginlegt að vera full af þakklæti og stolti.

Strákarnir okkar voru í sannkölluðum martraðarriðli á mótinu, en við förum aldrei ofan af því að það var af hinu góða. Af hverju ekki að hitta keisarann ef maður fer til Rómar á annað borð?

Eins og alþjóð veit, náðum við ekki að vinna leik á mótinu þó oft stæði það tæpt, aldrei eins tæpt og í lokaleiknum gegn Tyrkjum í gær. Auðvitað hefði verið gaman að vinna svona sterka þjóð í lokaleiknum á mótinu, en risaskotið hans Loga sem kom okkur í framlengingu tryggði að við fengum öll eitthvað ógleymanlegt fyrir peninginn. Það var frábær punktur aftan við þessa ævintýralegu daga í Berlín.



Án þess að fara út í einhvern þjóðernisfasisma, er það alveg rétt að körfuboltafjölskyldan okkar ytra gerði þetta mót líka eftirminnilegt, eins og karfan.is náði að sýna okkur eftir lokaleikinn.



Nú ætlum við ekki að hætta okkur út á þann hála ís að fara að leikgreina spilamennsku íslenska liðsins, en það vakti athygli okkar hvað strákarnir náðu að halda planinu sínu vel í vörn og sókn. Ef við eigum að vera alveg hreinskilin, bjuggumst við frekar við því að íslenska liðið yrði gólfmotta fyrir þessa sterku mótherja en að það ætti eftir að standa í þeim.

Trúlega hafa fleiri en færri sem á annað borð vissu hvað liðið var að fara út í í þessum riðli, reiknað með að töpin yrðu stærri. Pappírslegur gæðamunur á liðunum var einfaldlega það mikill og við höfum tekið eftir því að margur Íslendingurinn sem heima sat gerði sér enga grein fyrir því.

Við sáum nokkrar athugasemdir frá Jónum utan úr bæ á Facebook þar sem þeir voru að hneykslast á þessari glórulausu jákvæðni og hrósi í garð landsliðsins eftir hvern tapleikinn á fætur öðrum. Þetta fólk áttaði sig ekki á samhenginu og ekkert við því að gera, en kannski væri bara hollt fyrir okkur öll að tileinka okkur svona hugarfar í garð allra landsliðanna okkar.

Wednesday, September 9, 2015

Hlaðvarp NBA Ísland: 48. þáttur


Gestur í 48. þætti Hlaðvarpsins er tónlistarmaðurinn Smári Tarfur, sem hefur komið víða við á löngum ferli í músíkinni. NBA Ísland plataði Smára í heimsókn í stúdíó og yfirheyrði hann um tónlist og körfubolta, en Smári spilaði m.a. með Hlyni Bæringssyni á sínum yngri árum á Vesturlandinu og hefur séð nokkra eftirminnilega NBA leiki þar sem Kobe Bryant og Michael Jordan komu við sögu svo einhverjir séu nefndir.

Þú getur hlustað á hlaðvarpið í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt það á mp3 formi.

Monday, September 7, 2015

Gylfi Sigurðsson er íslenskur Stephen Curry


Gylfi Sigurðsson er svar Íslands við Stephen Curry. Kíktu á myndirnar hér að neðan og reyndu svo að mótmæla því. Þeir eru á svipuðum aldri, eru báðir fjallmyndarlegar stórskyttur og eru auk þess annáluð prúðmenni á velli. Skoðaðu bara myndirnar og berðu saman þar sem þeir eru að...


Allir á EM


Karlalandsliðið okkar í knattspyrnu tryggði sér í gærkvöldi sæti á EM á næsta ári með því að ná sér í stig gegn Kazakstan á heimavelli. Við viljum nota þetta tækifæri til að óska piltunum, þjálfarateyminu og öllum aðstandendum liðsins til hamingju með þennan ótrúlega árangur.

Það er í einu orði sagt frábært að fá að upplifa það að tvö af landsliðunum okkar séu að ryðjast áður ótroðnar slóðir - og það á sama tíma. Sjötti september verður líklega  merktur með rauðu í dagatalinu hjá mörgum, þar sem strákaliðið okkar komst loksins á stórmót. Þeir eiga hrós skilið ekki síður en félagar þeirra í körfunni og nú er hálf þjóðín farin að skipuleggja sumarfríið sitt í kring um EM í Frakklandi næsta sumar.

Það er hálf furðulegt að hugsa til þess hvaða árangur hefur náðst hjá þessum liðum, svo magnaður er hann. Víða mátti sjá og heyra fólk í geðshræringu í kring um knattspyrnuleikinn. Gleðitár runnu niður kinnar og gæsahúð var á öðrum hverjum manni og konu. Fólk veit hreinlega ekki hvernig það á að haga sér í allri þessari hamingju.

Saturday, September 5, 2015

Hlaðvarp NBA Ísland: 47. þáttur


Lokakeppni Evrópumótsins í körfuknattleik hófst með látum í dag, þar sem íslenska landsliðið mætti heimamönnum Þjóðverjum í fyrsta leik. NBA Ísland sló á þráðinn til Snorra Arnar Arnaldssonar þjálfara sem staddur er í Berlín og spurði hann út í leik íslenska liðsins, mótið í heild og stemninguna ytra. Þú getur hlustað á hlaðvarpið í spilaranum hér að neðan eða sótt það á mp3 formi á hlaðvarpssíðunni.

Siglt inn í söguna


Nú standa yfir merkustu tímar í sögu boltaíþrótta á Íslandi, þar sem karlalandsliðið í knattspyrnu er við það að feta í fótspor kvennaliðsins og tryggja sér sæti á stórmóti og karlalandsliðið í körfubolta er þegar komið á stórmót.

Það var einmitt í dag sem strákarnir í körfuboltalandsliðinu þreyttu frumraun sína á stórmóti, þegar þeir töpuðu naumlega fyrir Þjóðverjum 71-65 í opnunarleik B-riðils Evrópumótsins í Berlín. Eins og tölurnar bera með sér, var munurinn á liðunum ekki mikill í leiknum þó heimamenn væru skrefinu á undan frá fyrstu mínútu.

Oft er það smá skammtur af heppni sem fleytir liðum yfir síðustu hindranirnar þegar þau ná árangri. Gott dæmi um það er Hollandsleikur knattspyrnulandsliðsins ytra á dögunum. Þar duttu nokkur atriði með íslenska liðinu sem höfðu úrslitaáhrif á leikinn. Meiðsli lykilmanns, rautt spjald og vítaspyrnudómur. Svona atriði duttu aldrei með íslenska landsliðinu hér áður, en nýleg dæmi sýna svo ekki verður um villst að lið skapa sér heppni sína mikið til sjálf.

Ástæðan fyrir því að við minnumst á þessa heppni er að ef körfuboltastrákarnir hefðu verið með slíka heppni með sér í Berlín í dag, hefðu þeir getað stolið leiknum og skrifað nýja kafla í körfuboltakatalógana.

Þýska liðið náði nokkrum sinnum yfir 10 stiga forystu í leiknum og virtist algjörlega með leikinn í hendi sér eftir þrjá leikhluta. En eins og í fyrri hálfleiknum, náði íslenska liðið smá áhlaupi og náði að minnka muninn í sex stig þegar skammt var eftir.

Ef áðurnefnd heppni hefði verið með okkur, hefðu skotin hans Jóns Arnórs á þeim tímapunkti dottið niður og við hefðum ekki tapað boltanum í sókninni á eftir. Þjóðverjarnir gáfu okkur séns á að stela þessu í lokin, en það hafðist ekki að þessu sinni.

Auk þess að vera án heppninnar í leiknum, hefði íslenska liðið líka þurft að fá meira sóknarframlag frá mönnum eins og Pavel og Loga.


Þá gengur einfaldlega ekki að skjóta 55% úr vítum í svona leik og verða af 10 stigum á þeim bænum. Það var eflaust þarna sem taugatitringurinn kom best í ljós og við verðum sennilega að fyrirgefa þetta í ljósi þess hve risavaxið verkefnið var.

Það getur komið fyrir á bæstu bæjum að klikka á vítum - meira að segja Dirk Nowitzki klikkaði á tveimur vítum í röð, sem gerist á tíu ára fresti.

Já, Dirk Nowitzki. Þeir voru að spila við Dirk Nowitzki...

Það má vel vera að þú trúir ekki á móralska sigra í körfubolta, að tap sér alltaf tap, alveg sama hvernig á það er lítið - sama hvort það er með tveggja stiga mun eða fjörutíu stiga mun.

Stundum erum við hérna á ritstjórninni svona neikvæð og svartsýn á hlutina, en okkur dettur ekki í hug að vera það þegar kemur að landsliðinu okkar - sérstaklega eftir frammistöðu eins og þessa sem við fengum í Berlín í dag.

Strákarnir eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna í dag. Þeir börðust auðvitað eins og ljón, skárra væri það nú, en það sem okkur fannst merkilegra var að þeir létu tilefnið ekki stíga sér til höfuðs.

Reyndasti leikmaður liðsins Jón Arnór Stefánsson viðurkenndi að hann hefði aldrei verið eins taugatrekktur fyrir nokkurn leik og hann var í dag. Það var sannarlega ekki að sjá á honum, enda átti drengurinn frábæran leik og var besti maður vallarins að okkar mati.

Það er með endemum að leikmaður í þessum gæðaflokki skuli vera samningslaus. Hann nær að standa upp úr og skína gegn hvaða mótherjum sem er.

Jón er í Evrópuklassa og myndi sóma sér vel með hvaða liði sem er. Við höfum haldið því fram í tíu ár að hann ætti fullt erindi inn í NBA deildina, því hann er betri en margir bakverðir sem eru með vinnu þar.

Næsta verkefni á dagskrá hjá landsliðinu er Ítalía annað kvöld klukkan 16:00. Þetta er sunnudagurinn 6. september 2015, nánar tiltekið. Þar gildir að gleyma leiknum í dag, þó bragðið í munninum eftir hann sé súrt.

Það má reikna með því að lykilmenn liðsins verði þreyttir og eftir sig á morgun en það verður bara að hafa það. Því ekki að fara dýpra á bekkinn eftir því sem líður á mótið? Allt sem við gerum á þessu
móti er að vinna - pressan er engin, við erum að spila með peninga hússins.

Mikið óskaplega er það sérstakt en um leið gaman fyrir okkur öll - boltafólkið - að fá að upplifa svona spennandi tíma. Fyrir tíu árum síðan hefði enginn ódrukkinn maður spáð því að landsliðin okkar hefðu náð öðrum eins árangri og þau eru að sýna þessa dagana.

Því er vægast sagt súrrealískt að vera að horfra upp á BÆÐI fótboltann (væntanlega) og körfuna í Öskubuskuævintýrum á sama tíma.

Því er ekki úr vegi að hvetja fólk til að gleyma ekki að staldra aðeins við og þefa af blómunum í allri þessari hamingju. Gefum okkur tíma til að njóta þessara spennandi tíma. Þessi helgi er risavaxin og við skulum öll reyna að fá sem mest út úr þessu ævintýri.