Jim Barnett hefur verið aðstoðarlýsandi á leikjum Golden State Warriors í þrjá áratugi og er ein af þessum röddum sem er ómissandi í flórunni. Fyrir tveimur árum tilkynntu forráðamenn Warriors að til stæði að yngja upp í starfi Barnett, sem í staðinn fengi kósí "sendiherrastöðu" hjá félaginu í tilefni þess að hann var að komast á eftirlaunaaldurinn.
Barnett var ekki alveg sammála þessum plönum og stuðningsmenn Warriors voru það svo sannarlega ekki heldur. Þeir settu því af stað herferð með það fyrir augum að halda Barnett í starfi. Þeir gátu ekki hugsað sér að horfa á Warriors-leiki í sjónvarpinu án þess að hafa þægilega rödd Barnett til að leiða sig í sannleikann um gang mála, en hann hafði með veikum mætti reynt að finna jákvæðu hliðarnar á spilamennsku liðs sem var í besta falli búið að vera lélegur brandari í deildinni áratugum saman.
Skemmst er frá því að segja að forráðamenn Golden State urðu við bón stuðningsmanna liðsins og buðu Barnett að halda áfram. Hann er enn að lýsa Warriors-leikjum og hugsið ykkur bara hvað það hefði verið handónýtt ef karlinn hefði nú verið látinn fara loksins þegar liðið fór að geta eitthvað í fyrsta skipti síðan það vann meistaratitilinn fyrir 40 árum síðan.
"Red" gamli Auerbach var þarna nýhættur að þjálfa Celtics eftir að hafa gert liðið að meistara átta ár í röð. Við starfi hans tók Bill Russell, eftir að þrír af liðsfélögum hans höfðu neitað að taka við af Auerbach.
Barnett lék aðeins einn vetur með Celtics og það í landslagi sem á ekkert skylt við NBA deildina í dag. Nýliðaárið hans 1966 var árið áður en leikmannasamtökin voru stofnuð og í þá daga voru engar tryggingar í samningum leikmanna og langtímasamningar þekktust ekki.
Barnett skrifaði upphaflega undir tveggja ára samning við Celtics sem nýliði og nískupúkinn Red Auerbach borgaði honum aðeins ellefu þúsund dollara í árslaun auk 500 dollara bónus við undirritun samnings.
Árið 1966 voru aðeins tíu lið í NBA deildinni og keppnisfyrirkomulagið var þannig að liðin tíu léku níu leiki hvert við annað og því samtals 81 leik á tímabilinu.
Það var svo árið eftir sem farið var að spila 82 leiki, þegar San Diego Rockets (Houston Rockets frá árinu 1971) og Seattle Supersonics (1967-2008 R.I.P.) bættust í hópinn og NBA liðin því orðin tólf.
Barnett og félagar í Boston spiluðu 23 æfingaleiki fyrir tímabilið 1966-67 og það var ekki síst þar sem félagið aflaði sér tekna til að geta borgað leikmönnum sínum laun. Liðið ferðaðist þá milli borga og spilaði og það var Red Auerbach sjálfur sem sá um að rukka inn á leikina.
Leikmenn ferðuðust gjarnan í þessa leiki á einkabílum sínum (félagið borgaði bensín) og þurftu oft að keyra í marga klukkutíma í útileiki.
Undirbúningstímabilið hjá Celtics í þá daga var fjórar vikur og þar af tóku leikmenn tvær æfingar á dag í tvær þeirra. Seinni æfing dagsins gat þá verið 48 mínútna útileikur í tveggja tíma ökuferð í burtu.
Keppnisfyrirkomulagið í NBA var með allt öðrum hætti en nú tíðkast og menn sem kvarta yfir álagi í deildinni í dag hefðu átt að prófa að spila í deildinni fyrir 50 árum.
Á nýliðaárinu hans Jim Barnett spilaði Boston til að mynda tólf leiki í röð í tíu fylkjum á tólf dögum og fór á milli leikjanna með rútu - sem það deildi með tveimur öðrum liðum (Hawks og Sixers)!
Frá Boston lá leið hans til nýliðanna í San Diego Rockets og þaðan til Portland Trailblazers þar sem hann átti sitt besta tölfræðiár í NBA, 18,5 stig, 4,8 fráköst og 4,1 stoðsendingu.
Barnett var ekki nema eitt ár í Portland, en náði þó að skrifa nafn sitt í annála liðsins, því það var eftir ævintýralega körfu frá honum sem Portland fékk viðurnefnið Rip City þegar þulur leiksins missti sig við að lýsa tilþrifum Barnett.
Árið 1971 fór Barnett til Warriors, en það var fyrsta ár félagsins í Oakland eftir að það tók upp nafnið Golden State Warriors.
Áður var það í Philadelphia (1946-62) og San Francisco (1962-71) og er því eitt af þremur liðum sem hafa verið í NBA deildinni frá stofnun hennar (Celtics, Knicks).
Barnett hefði með öllu átt að verða meistari með Warriors árið 1975 en því miður fyrir hann, þurfti hann að yfirgefa félagið árið áður.
Það var eftir að nýjasti klúbburinn í NBA deildinni, New Orleans Jazz, nýtti sér reglurnar sem leyfa nýjum liðum að velja sér leikmenn úr öðrum liðum í deildinni á stofnárum sínum - að því búnu að hin liðin séu tilbúin að láta leikmennina fara. Jafnan er hér um varamenn að ræða.
Hjá New Orleans myndaði Barnett ógurlegt bakvarðapar með "Pistol" Pete Maravich, en Pistólu-Pési var aðeins einn af fjölmörgum Heiðurshallarmeðlimum sem Barnett spilaði með á ferlinum.
Hann lék þannig með Bill Russell, Sam Jones, John "Hondo" Havlicek, Elvin Hayes, Earl "Perlu" Monroe, Rick Barry, Nate Thurmond, Walt "Clyde" Frazier og Júlíusi "Doktor Joð" Erving, sem eru tíu af fimmtíu bestu leikmönnum í sögu NBA sem valdir voru í tilefni hálfrar aldar afmælis deildarinnar árið 1996. Alls spilaði Barnett með eða á móti 34 af þessum 50 leikmönnum á ferlinum.
Barnett hefur lýst því yfir að hann taki eitt ár í einu þegar hann er spurður hvað hann ætli að vera lengi í lýsingabransanum.
"Hvað ætti ég svo sem að gera annað? Ég get ekki spilað tennis lengur og ég get ekkert í golfi!"
Ef Barnett fengi að velja sér einn leikmann í sögu NBA til að byggja lið í kring um, var hann ekki í nokkrum vafa.
"Ég tæki Wilt Chamberlain án þess að hugsa mig um. Michael Jordan er líklega besti leikmaður í sögu NBA þegar allt er talið, en enginn leikmaður fyrr eða síðar hefur haft aðra eins yfirburði á vellinum og Wilt."
Og gæti Wilt spilað í NBA í dag?
"Dwight Howard couldn´t carry a candle next to Wilt Chamberlain!
Wilt would dominate the league today!"
Svo mörg voru þau orð frá hinum geðþekka Jim Barnett.
Þetta var fánýtur pistill á föstudegi í boði NBA Ísland.