Saturday, September 12, 2015
Tvöfalt hjá Tommy Heinsohn
Rétt eins og þegar hann var innvígður í Heiðurshöllina sem leikmaður, tók nefndin sér góðan tíma í að ákveða hvort Tommy Heinsohn ætti þar heima sem þjálfari. Það tók meira en 20 ár að ákveða hvort hann fengi inni sem leikmaður en enn lengri tíma að heiðra hann sem þjálfara.
Ekki vitum við hvað olli þessum töfum, en við botnum heldur ekkert í aðferðafræði Heiðurshallarnefndar frekar en nokkur manneskja á þessari jörð. Heiðurshöllin er meingallað fyrirbæri þar sem pólitík, klíkuskapur og sérviska ráða för og nú er svo komið að það er eins og allir fljúgi þarna inn.
En við skulum ekki láta það bitna á Tommy Heinsohn að Heiðurshöllin sé fáránleg. Hann á alveg skilið að vera þarna inni karlinn. Heinsohn vann ekki nema átta meistaratitla á níu ára leikmannsferli sínum með Boston Celtics og þjálfaði liðið svo á árunum 1969 til 1978. Celtics varð meistari í tvígang undir stjórn Heinsohn (1974 og 1976) og hann var kjörinn þjálfari ársins í NBA árið 1973. Menn hafa fengið inni í Springfield fyrir minna.
Nú er ekki annað eftir en kippa karlinum inn í höllina sem sjónvarpsmanni til að fullkomna þrennuna. Heinsohn, sem við erum nokkuð viss um að talaði fyrir Fred Flintstone í teiknimyndunum um Steinaldarmennina, er búinn að vera aðstoðarlýsandi á Boston leikjum með Mike Gorman í yfir þrjátíu ár.
Karlinn er skemmtilega klikkaður lýsandi og jafnan dásamlega hlutdrægur þegar kemur að Boston-liðinu hans, en hann er eini maðurinn sem kemst upp með það af því hann er fyrir löngu orðin stofnun í annálum NBA deildarinnar.
Maðurinn er búinn að vinna hjá Celtics frá því árið 1956, sem þýðir að hann á sextíu ára starfsafmæli hjá félaginu á komandi leiktíð. Vonandi fáum við að heyra frasana hans í mörg ár í viðbót, því hann er enn í fullu fjöri þó hann sé kominn á níræðisaldur.
NBA deildin væri sannarlega ekki sú sama ef fuglar eins og Heinsohn væru ekki á skjánum reglulega, en þar fyrir utan er maðurinn náttúrulega einn mesti sigurvegari sem stigið hefur á parket í NBA sögunni.
Efnisflokkar:
Celtics
,
Goðsagnir
,
Heiðurshöllin
,
Tommy Heinsohn
,
Þjálfaramál