Saturday, September 19, 2015

Nokkur orð um Moses heitinn


Það er eins með okkur eins og aðra körfuboltamiðla, við höfum ekki hugmynd um hver Moses Malone var. Eitt af því fáa sem við vitum með vissu er að hann er nú látinn blessaður, aðeins sextugur að aldri. Við vitum kannski fátt um Moses, en við lítum á það sem skyldu okkar að skrifa nokkur orð um það þegar þrefaldur leikmaður ársins í NBA deildini fellur frá. Sérstaklega ef við fengum nú að horfa á hann spila.

Þið sem þekkið til Malone á annað borð vitið þetta litla sem fólk vissi yfir höfuð um hann, en þó hann hafi alltaf verið sem lokuð bók, þýðir það ekki að hann hafi ekki átt merkilegan feril. Því er alveg kjörið að skrifa nokkrar línur um hann til að upplýsa yngri lesendur um einn besta miðherja í sögu NBA deildarinnar. Við komumst ekki hjá því að detta í nokkrar klisjur þegar við gerum upp feril Moses Malone, en það verður bara að hafa það. Hann skal fá nokkur orð.

Moses Malone fæddist í krummaskuðinu Pétursborg í Virginíuríki árið 1955 og var alfarið alinn upp af móður sinni Maríu, sem sleit samvistum við faðir hans sem sagt er að hafi verið óreglumaður.

Það kom mjög fljótlega í ljós að Moses var enginn venjulegur piltur, því þó hann væri svo sem ekki hávaxinn á miðað við NBA-miðherja almennt (208 cm), var hann risi við hlið foreldra sinna.

Faðir hans var þannig innan við 171 cm á hæð og móðir hans ekki nema 158 cm, svo það eina sem hann erfði frá foreldrum sínum voru smávaxnar hendurnar.

Einn liðsfélaga hans sagði að það hefði bókstaflega verið ósanngjarnt ef Malone hefði verið með risastórar hendur, því hann var besti frákastari sinnar kynslóðar þrátt fyrir barnslegar hendurnar.

Malone ólst upp í fátækt og í grein um hann frá áttunda áratugnum segir að frárennslismálum hafi verið ábótavant á æskuheimili hans og að það hafi verið svo hrörlegt að það hafi bókstaflega verið gat á húsinu á einum stað.

María móðir hans flosnaði upp úr skóla þegar hún var í kring um tíu ára aldur þar sem hún var elst níu systkina og því var nóg annað fyrir hana að gera en hanga í skóla. Fyrir vikið hafði hún ekki um auðugan garð að gresja þegar kom að atvinnu, en þó hún hefði lítið milli handanna reyndi hún að dekra við son sinn eins og henni var unnt.


Moses var ekki námsmaður frekar en móðir hans og gekk vægast sagt illa í skóla. Hann var sjúklega feiminn og ekki beint mælskur - fékk einu sinni á sig gælunafnið Muldri Malone.

Þetta kann að hafa haft áhrif á það að hann varð fyrsti körfuboltamaðurinn í Bandaríkjunum til að stökkva beint úr menntaskóla í atvinnumennsku. Fjöldi háskóla hafði áhuga á að fá hann til sín, en hann ákvað fljótlega að atvinnumennskan væri málið og sú varð raunin.

Það var ABA-lið Utah Stars sem krækti í Moses árið 1975 en þá kom ekki til greina fyrir hann að semja við félag í NBA deildinni af því reglur þar á bæ leyfðu ekki nítján ára gömlum piltum að gera samninga.

























Moses spilaði stöðu framherja á fyrsta árinu sínu sem atvinnumaður og segja má að margt sé líkt með nýliðaárinu hans og nýliðaárinu hans Kevin Garnett hjá Minnesota á sínum tíma, en Garnett fetaði í fótspor Malone með því að fara í NBA deildina beint úr menntaskóla.

Malone var ekki nema um 90 kíló og mátti því hafa sig allan við í baráttunni í teignum, en íþróttamennska hans, styrkur og hraði tryggði þó að hann skilaði 19 stigum og tæpum 15 fráköstum að meðaltali í leik fyrir Stjörnuna í Salt Lake City. Ekki dónalegar tölur fyrir nítján ára gamlan strák, sem margir efuðust um að ætti eftir að standa sig í atvinnumennskunni.

Einhver hefði haldið að þessi fína byrjun hefði hjálpað Malone að festa sig í sessi sem leikmaður, en þó hann ætti eftir að spila sem atvinnumaður næstu tuttugu árin, áttu ótrúlega margir klúbbar eftir að vanmeta snilli hans.


ABA deildin lagðist af árið 1976 og í framhaldi af því fór Moses bæði til Portland Trailblazers og Buffalo Braves (L.A. Clippers), en bæði félögin ösnuðust til að láta hann fara, aðallega af því þau töldu sig ekki hafa efni á honum.

Eins og nærri má geta hefði það orðið gríðarlega eðlilegt ef Moses hefði samið við Portland og myndað framvarðasveit með Bill Walton í liði sem vann titilinn árið 1977. Það er ekki mjög líklegt að þetta lið hefði tapað mörgum leikjum í úrslitakeppninni það árið. Hver ætlar til dæmis að reyna að hirða frákast af liði sem er með Walton, Moses og Maurice Lucas undir körfunni? Einmitt.


Það átti eftir að koma oftar en einu sinni fyrir á ferli hans að peningar yrðu til þess að hann þurfti að skipta um heimilisfang, en það var lítið við því að gera. Malone krafðist þess að fá almennilega borgað og ekkert athugavert við það, enda var hann óumdeildur gæðaleikmaður.

Það sannaði hann endanlega árið 1979, þegar hann sem leikmaður Houston Rockets var kjörinn leikmaður ársins (MVP) í NBA deildinni. Hann skilaði þá 24,8 stigum, 17,6 fráköstum, 1,5 vörðu skoti, 54% skotnýtingu og spilaði rúma 41 mínútu að meðaltali í leik.


Þetta var í fyrsta skipti af þremur sem Malone var kjörinn leikmaður ársins í NBA deildinni. Hann náði ágætis árangri með liði Houston á árunum 1977 til 1982, þar sem liðið komst meðal annars nokkuð óvænt í lokaúrslit gegn Boston Celtics árið 1981.

Moses skilaði 22 stigum og 16 fráköstum í úrslitaeinvíginu gegn Boston en það dugði ekki gegn þeim grænu, sem kláruðu rimmuna 4-2.

Aftur voru það peningamálin sem urðu til þess að Moses skipti um heimilisfang árið 1982 en hann gekk þá í raðir Philadelphia 76ers, sem var mjög öflugt lið áður en hann fór þangað - en sögulega sterkt þegar það fékk Moses.
































Restin heyrir sögunni til eins og þeir segja. Sixer-liðið undir stjórn Billy Cunningham hafði á að skipta leikmönnum eins og Doktor Júlíusi Erving, Maurice Cheeks, Andrew Toney og Bobby Jones svo einhverjir séu nefndir.

Sixers-liðið 1982-83 sigldi eins og ísbrjótur í gegn um deildarkeppnina og vann 65 leiki, sem var næstbesti árangur í glæstri sögu liðsins sem nær aftur til ársins 1950 (meistaralið Sixers frá ´67 var það eina sem vann fleiri leiki, 68-13).


Það var svo fyrir úrslitakeppnina 1983 sem Moses lét frá sér frægustu ummæli sín á ferlinum þegar hann var spurður út í áform Sixers-liðsins í úrslitakeppninni: "Fo, fo, fo!" sagði hann og átti þar við að liðið ætlaði sér að sópa andstæðingum sínum í öllum þremur umferðunum í úrslitakeppninni.
































Reyndar fer tvennum sögum af því hvort hann var að meina að liðið ætlaði að sópa rimmunum eða hvort hann var einfaldlega að benda á hvað liðið þyrfti að vinna marga leiki, en hrokafyllri útgáfan er auðvitað skemmtilegri og því hafa menn haldið sig við hana síðan.






















Spáin hans Malone var ekki langt frá því að ganga upp eins og frægt varð. Liðið tapaði aðeins einum leik í úrslitakeppninni og sópaði L.A. Lakers í lokaúrslitunum, eftir að hafa tapað fyrir því 4-2 í úrslitunum árið áður. Munurinn á þessum tveimur Sixers-liðum var að sjálfssögðu Moses Malone.

Það var ekki síst honum að þakka að Philadelphia burstaði Lakers, því Moses gerði sér lítið fyrir og pakkaði Kareem Abdul-Jabbar saman í seríunni. Moses var með 26 stig og 18 fráköst að meðaltali í einvíginu meðan Kareem skilaði "aðeins" 23,5 stigum og 7,5 fráköstum, sem er heldur hóflegt í hans bókum.


Það voru fráköstin sem voru ær og kýr Moses Malone sem körfuboltamanns og þá ekki síst sóknarfráköstin. Stór hluti sóknarleiks hans kom upp úr sóknarfráköstum, því hann lærði það snemma á ferlinum að það var sannarlega ekki gefið að menn væru duglegir að senda boltann inn í teig á miðherjann sinn, sama hversu öflugur hann var. Ekki að undra að eitt af gælunöfnunum hans hafi verið Chairman of the boards (ísl. Baldni Folinn).
































Moses var sex sinnum frákastakóngur í NBA deildinni, þar af fimm ár í röð 1981-85 og leiddi ABA/NBA níu sinnum í sóknarfráköstum. Malone var samanlagt stigahæsti leikmaður NBA deildarinnar á níunda áratugnum.

Moses athafnaði sig að mestu í námunda við körfuna þar sem hann var óstöðvandi lengst af á ferlinum, þar sem hann var tólf sinnum valinn í Stjörnulið og fjórum sinnum í fyrsta úrvalslið deildarinnar (sem er reyndar lítið, en það er ekki auðvelt að keppa við menn eins og Kareem í þeim efnum).

Hann var duglegur við að verja skot, en sendingar voru ekki ofarlega á blaði hjá honum. "Ég fæ ekki borgað fyrir að skora," sagði hann. Eins og áður sagði var Moses Malone bæði feiminn og fámáll og hélt sig oftast til hlés, sérstaklega þegar ókunnugir voru á svæðinu.

Fjölmargir þeirra sem skrifað hafa um Moses síðustu daga hafa haldið því fram að hann sé vanmetnasti leikmaður sinnar kynslóðar í NBA og það er ekki svo galin kenning.

Skapgerð Malone hefur tvímælalaust haft áhrif á orðspor hans í NBA deildinni og fyrir vikið var það algengt að leikmenn, stuðningsmenn og blaðamenn misskildu hann. Leikmenn slógu því föstu að hann væri heimskur af því hann sagði aldrei orð, stuðningsmenn áttu það til að halda að hann væri dóni af sömu ástæðu og fjölmiðlamenn álitu hann jafnvel hrokagikk þegar þeim tókst ekki að toga upp úr honum orð.


Það er nokkuð augljóst að þetta hefur haft sín áhrif á það hvernig Moses hefur verið minnst (eða ekki minnst) sem leikmanns í NBA og það er óhætt að fullyrða að enginn þrefaldur leikmaður ársins í NBA deildinni hefur fengið jafn litla umfjöllun, skrum, glamúr og glys eins og Moses Malone. Hitt er þó einnig víst að Malone er slétt sama um þetta allt saman.

Eins og þið sjáið er alveg ljóst að Moses Malone er einn besti miðherji í sögu NBA deildarinnar og margir kalla hann besta (sóknar) frákastara sögunnar. Sumir hafa gagnrýnt hann fyrir að vera stundum aðeins of duglegur að safna sóknarfráköstum og ganga jafnvel svo langt að hann hafi stundað að klikka viljandi af skotum undir körfunni til þess eins að safna fráköstum.


Fyrrum liðsfélagi hans hjá Utah Stars, Ron Boone, fullyrti hinsvegar í viðtali á dögunum að þetta væri ekki rétt. Moses hefði einfaldlega verið klaufi að koma boltanum ofan í, en það gerði oftast ekkert til því enginn var fljótari í annað og þriðja stökk eftir boltanum.

Til að gefa ykkur hugmynd um stóriðju Malone í sóknarfráköstunum er einhver búinn að reikna það út að ef úrvalsfrákastarar á borð við Dwight Howard og Tim Duncan ætluðu sér að jafna Moses í þeirri deildinni, þyrftu þeir að halda áfram að spila á núverandi afköstum í sautján eða átján ár! Það er svo sem ekki ótrúlegt, því Moses hirti til að mynda ekki nema sjö komma tvö sóknarfráköst að meðaltali í leik með Houston leiktíðina 1979. Sem er alveg eðlilegt.

Sá hluti sem er hvað áhugaverðastur við Moses að okkar mati er hvað allir liðsfélagar hans og þjálfarar bera honum vel söguna. Hann var kannski feiminn og fámáll, en þegar fólk var komið inn fyrir skelina hjá honum og búið að vinna traust hans, gat það sannarlega treyst á hann.


Tveir fyrrum lærisveinar hans eru okkur ofarlega í huga þegar kemur að þessu. Þeir Charles Barkley (hjá Sixers) og Hakeem Olajuwon (hjá Rockets). Moses var lærifaðir Hakeem Olajuwon hjá Houston og Draumurinn hefur oft getið þess að Moses hafi hjálpað sér mikið þegar hann var að fóta sig í NBA deildinni. Það er ekki ósennilegt í ljósi þess hvað þeir voru um margt líkir leikmenn, frekar lágvaxnir miðað við miðherja en óhemju snöggir, sterkir, viljugir og útsjónarsamir.

Þá kannast flestir við það hvað Charles Barkley hefur talað vel um Moses allar götur frá því hann kom inn í deildina. Barkley var sem kunnugt er með endalausa hráa hæfileika og guðsgefinn skrokk, en hann var allt of þungur þegar hann kom til Philadelphia sem nýliði árið 1989. Það var Moses Malone sem var fyrsti maðurinn til að aga nýliðann til og sagði honum umbúðalaust að hann ætti litla framtíð fyrir sér sem atvinnumaður því hann væri bæði feitur og latur.

Sem betur fer fyrir Barkley tók hann heilræði Malone að mestu alvarlega og var sjálfur kjörinn leikmaður ársins í NBA áratug síðar. Þegar hann var innvígður í Heiðurshöllina á sínum tíma kom ekki annað til greina en að láta Moses leiða sig í púltið. Samband þeirra var svo sterkt að Barkley hefur gefið það út að hann hafi kallað Moses pabba.


Á þessu má sjá að Moses Malone er ekki aðeins búinn að vinna til allra verðlauna og viðurkenninga í bókinni, heldur skilur hann eftir sig hlýjar minningar hjá mörgum af goðsögnum deildarinnar. Hann er önnur NBA stjarnan sem lýkur keppni á stuttum tíma og minnir okkur óþægilega á það hvað lífið getur verið mikil andskotans tík stundum.

Ritstjórn NBA Ísland vonar að þeir Moses og Darrell Dawkins hafi það gott í efra og þakkar þeim fyrir minningarnar.

Að lokum eru hér tvö myndbönd með Moses-stemmara og svo góður slatti af myndum af kappanum héðan og þaðan á glæstum ferlinum frá 1975 til 1995. Minnumst Mósesar.