Wednesday, November 30, 2016

Draymond Green afgreiðir körfuboltaleiki, aftur


Þau ykkar sem hlustuðu á hlaðvarpið okkar á föstudaginn var, hafa eflaust tekið eftir því að þar fór að minnsta kosti helmingur þátttakenda gjörsamlega á límingunum við það að lýsa hrifningu sinni á spilamennsku Leatherman-framherjans Draymond Green hjá Golden State Warriors.

Alhliða spilamennska Green er nú í sviðsljósinu sem aldrei fyrr, ekki síst varnarleikur kappans, sem var eitt helsta umræðuefnið þegar leikmanninn bar á góma í ofangreindu hlaðvarpi. Hann er orðinn svo góður í körfubolta að það virðist ekki vera hægt að jinxa hann einu sinni.

Ekki ef marka má frammistöðu hans á lokaaugnablikunum þegar Warriors-liðið tók á móti Atlanta Haukunum á dögunum, en þá tók Green sig til og gerði nákvæmlega það sem lýst var í hlaðvarpinu; hann tók þá skynsömu ákvörðun að klára leikinn upp á sitt einsdæmi á lokamínútunum - og það sem meira er - hann gerði það (mestmegnis) með því að spila varnarleik.

Þetta var dálítið dæmigerður Warriors-leikur. Það var alltaf líklegra að Golden State væri að fara að vinna hann, því lið sem stunda það að vinna 10+ leiki í röð eiga það til að vera sigurstranglegri en... til dæmis lið úr Austurdeildinni.

Þetta var samt alveg leikur þarna í restina á mánudagskvöldið og Atlanta er alveg með gaura sem geta sparkað í punginn á þér ef þú yfirbugar þá ekki, svona ef við gætum þess að hafa líkingamálið bæði karllægt og ofbeldisfullt í tilefni jólanna.

Jæja, eins og þið sjáið í myndbandinu hérna fyrir neðan, freistaði Curry þess að stinga rýtingnum í Haukaliðið, en hetjuskotin hans voru ekki að detta og þið heyrið alveg að sjónvarpsþulir Warriors-liðsins eru ekkert yfir sig hrifnir af ákvarðanatöku og óþolnimæði sinna manna í sókninni þarna í lokin.

Það var á þessum tímapunkti sem Draymond Green tók áðurnefnda ákvörðun, sem minnst var á í hlaðvarpinu á föstudaginn; svona: Æ, best að loka þessu bara, snöggvast!

Smelltu á play, spólaðu á 7:30 og sjáðu hvað gerist. Nei, reyndar ekki. Farðu á 7:30 og horfðu bara á hvað Draymond Green gerir!Það er ekki flókin stærðfræði að nánast allt jákvætt sem gerist hjá góða liðinu frá og með þessum tímapunkti, kemur frá Green. Sama hvort það eru hindranir, stoðsendingar, fráköst, hagkvæmar villur, réttar staðsetningar og ákvarðanir - jú, eða kannski tvö varin skot sem klára leikinn og annað þeirra hrekkur meira að segja af sóknarmanninum og í innkast, eins og til að kóróna fagmennskuna.

Þetta er akkúrat málið með Draymond Green. Hvenær sástu svona leikmann, með svona pakka, gera svona hluti inni á körfuboltavelli síðast? Nákvæmlega.

Við vitum alveg að við erum dramatísk og við vitum líka að við höfum ekki með körfuboltalegt kapítal í að ætla okkur að fara að greina NBA leiki - hvort sem um er að ræða varnar- eða sóknarleik, Val eða Warriors. Við erum hvorki Valur Ingimundar né Hubie Brown (aiiit?).

En málið snýst heldur ekkert um það.

Málið snýst alfarið um það hvað Draymond Green er orðinn ískyggilega góður í körfubolta og hvað sú staðreynd er sumpart farin að grafa undan hugmyndafræði okkar um stórstjörnuna í NBA sem setið hefur og safnað ryki um árabil. Þetta er sannarlega rannsóknarefni, sem taka verður föstum tökum, helst með hjálp sérfræðinga, þegar hlutirnir róast aðeins á ritstjórninni eftir mánaðamótin.

Wednesday, November 23, 2016

Nýtt hlaðvarp: Fallega svartur föstudagur


71. þáttur Hlaðvarps NBA Ísland var að detta í hús. Í honum fara körfuboltaálfarnir Baldur Beck og Kjartan Atli Kjartansson yfir það sem verður í boði í körfunni á Sportinu fram að helginni.

Á Stöð 2 Sport verður boðið upp á þá skemmtilegu nýbreytni á föstudaginn kemur að sýna NBA leik (Celtics-Spurs á Sport 2 kl. 18:00) á undan leik dagsins í Domino´s deild karla (Þór Þ - Tindastóll á Sportinu kl. 20:00). Þetta kemur til vegna þess að á föstudaginn er svokallaður svartur föstudagur í Bandaríkjunum (dagurinn eftir þakkargjörð), en leikurinn í Boston er raunar sá eini sem er svona snemma á ferð í NBA deildinni - og er haldinn klukkan 13:00 að staðartíma.

Að venju er svo tekið létt útsýnisflug yfir NBA deildina með helstu stoppum í Boston, Oakland og Los Angeles, þar sem leikmenn eins og Al Horford, Kevin Durant, Draymond Green og Chris Paul verða í nærmynd.

Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Athugasemdir, ánægja og/eða aðfinnslur sendist til: nbaisland@gmail.com

Saturday, November 19, 2016

Russell Westbrook er þriggja treyju leikmaður
 Þú ert með boltann, þremur stigum yfir og sjö sekúndur eftir af leiknum. Hvað er best að gera? Á að koma boltanum á bestu vítaskyttuna eða fljótasta manninn? Á að reyna að tefja eða jafnvel teikna upp flott kerfi og reyna að skora strax? Hægt eða hratt? Lítill eða stór? Inn eða út?

Flest liðin í NBA eru svo heppin að vera með einn eða fleiri leikmenn, jafnvel stjörnuleikmenn, sem fá sérstaklega borgað fyrir að leysa svona þrautir. Russell Westbrook er einn þessara manna, en eins og þið vitið jafnvel og við, er hann ekki að flækja hlutina með endalausum spurningum og vangaveltum eins og við gerðum hér fyrir ofan.

Hjá Russ, er bara einn gír. Það er bara go!

Þannig að: Ef þú lendir í aðstæðunum sem við lýstum að ofan - og þú ert svo heppinn* að það er ekki nema einn svisslenskur miðherji upp á tvöhundruðogsjö sentimetra sem ver fleiri skot en allir nema fimm leikmenn í NBA deildinni - nú, þá náttúrulega keyrirðu bara á körfuna, hefur þig til flugs, og HAMRAR í grillið á áðurnefndum miðherja. Með VINSTRI hendi. Og klárar leikinn. Af hverju að vera að flækja það eitthvað?


Sumir leikmenn eru svo góðir að þeir selja þér treyjuna sína þó þú sért orðinn allt of feitur og eigir að vera löngu vaxinn upp úr því að klæðast NBA treyjum (samanber enska hugtakið dásamlega: full kit wanker).
Russ seldi okkur heimavallar- og  útivallartreyju Oklahoma númer núll - og er að spila svo yfirnáttúrulega vel núna að hann er við það að selja okkur þessa ógeðslegu óranslituðu líka! Þið vitið, þessa sem ekki einu sinni hann nær að gera töff. 

Sumir leikmenn eru bara svona svalir. Reyndar ekkert sumir. Þeir eru mjög fáir.

Russ er einn þeirra. Hann er með þrjátíu stig og þrennu í leik. Hann er þriggja treyju maður.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Þú tekur eftir því að við ávörpum þig í karlkyni. Það er af því að í okkar huga ert þú lesandi. Og lesandi er karlkynsorð, rétt eins og lekandi, á meðan verðandi er nafnorð í karlkyni, kvenkyni og meira að segja lýsingarorð líka!

Við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki komin langt út úr torfkofunum t.d. í jafnréttismálum og að margt af því sem við skrifum má eflaust túlka sem glórulausan ras- og sexisma. En við erum að reyna að bæta okkur. Fylla upp í götin með vitneskju og lærdómi, umburðalyndi, ást og kærleika.

Kúkur.

Lol!

Saturday, November 12, 2016

Popovich ræðir forsetakosningarnar


Hugsandi fólk er enn í losti yfir því að bandaríska þjóðin hafi kosið sjálfsmiðaðan níðing og trúð til að taka við embætti forseta þar í landi. Þetta kemur körfubolta ekkert við, en körfuboltamenn og miðlar hafa séð ástæðu til að tjá sig um málið eftir niðurstöðu kosninganna í vikunni.

Þannig tóku Ernie Johnson og félagar í Inside the NBA á málinu. Shaq og Barkley voru dálítið hneykslaðir á niðurstöðunni en ætla að gefa forsetanum nýkjörna tækifæri til að sanna sig. Ernie Johnson bað Jesú Krist bókstaflega að hjálpa sér í beinni útsendingu TNT - hjálpa sér að vinna úr þessari niðurstöðu mála.


Það sem allir biðu hinsvegar eftir, var að heyra viðbrögð Gregg Popovich þjálfara San Antonio. Þeir vissu að þar gæti komið biti sem færi rakleitt í mest lesið. Og Pop olli ekki vonbrigðum frekar en venjulega. Hann lýsti yfir áhyggjum sínum og fordæmdi óábyrgar og níðskotnar yfirlýsingar forsetans í kosningabaráttunni, sem hann sagði að hefðu kostað hvaða barn sem er áralangt útgöngubann. Hann líkir Bandaríkjunum við Rómarveldi.


Fyrir þremur árum settum við fram tvíþætta spá. Fyrri hluti hennar spáði því að Trump yrði kjörinn forseti Bandaríkjanna. Fólk hló að okkur. Síðari hlutinn sagði að Trump yrði valdur að þriðju heimsstyrjöldinni í forsetaembættinu. Við vonum að fólk eigi líka eftir að hlæja að því.

Þegar Donald Trump er dauður.

Wednesday, November 2, 2016

Hver er hræddur við vængbrotna Warriors?


Bandarískir körfuboltamiðlar hafa eðlilega gert sér mat úr því í dag og í gær hvernig LeBron James og félagar hans í Cleveland gátu ekki setið á sér með að senda mótherjum sínum í lokaúrslitunum í sumar smá pillu þegar þeir héldu upp á hrekkjavökuna.

Liðin hans LeBron James hafa vakið athygli fyrir frumlega og skemmtilega búninga undanfarin ár og 2016 varð engin undantekning í þeim efnum. Auk þess að vera með skemmtilega búninga að þessu sinni, gerðu LeBron og félagar grín að Golden State liðinu í myndmáli sínu og þeirri staðreynd að liðið hefði glutrað niður 3-1 forystu í úrslitaeinvígi liðanna í júní. Og auðvitað stukku miðlar eins og First Take á ESPN á þetta og veltu því fyrir sér hvort LeBron James hefði efni á því að vera með svona grín eða ekki. Það er eðlilegt að þættir eins og First Take, með vélbyssukjafta eins og Stephen A. Smith og hinn efnilega Max Kellerman (staðgengil Skip Bayless) taki svona mál fyrir, þetta er það sem svona þættir snúast um.

Okkur er auðvitað alveg sama hvort LeBron sendir strákunum í Golden State pillur eða ekki, en þetta innslag vakti okkur til ofhugsunar.

Ætli LeBron James sé hræddur við nýjustu útgáfuna af Golden State Warriors?

James glímdi (nánast) einn síns liðs við Warriors í úrslitunum árið 2015, þegar hann hafði hvorki Kevin Love né Kyrie Irving með sér í liði og þurfti að gera þetta allt saman sjálfur. Hann náði einhverra hluta vegna að komast 2-1 yfir í því einvígi, en komst ekki lengra.

Á síðustu leiktíð lenti hann hinsvegar undir 3-1, en þá var hann með fullskipað lið með sér, sem hjálpaði honum að gera út af við þreytulegt Warriors-liðið. Tvær breytur undir lokin á því einvígi eru gjarnan nefndar til sögunnar sem örlagavaldar Warriors; leikbannið hans Draymond Green og meiðslin hans Andrew Bogut.

Warriors-liðið hefur hingað til verið þekktast fyrir hættulegustu útgáfuna af sér sem er Dauðauppstillingin svokallaða, sem er uppstillingin þar sem Draymond Green fer í miðherjastöðuna og þeir spila án þess að vera með eiginlegan stóran mann. Þessi uppstilling (Curry, Thompson, Barnes, Iguodala og Green) var svo svakaleg að hún sprengdi skalann í tölfræði fyrir lengra komna þegar kemur að sóknarhagkvæmni, en þessi leikaðferð er eins og nítró á torfærubíl. Þú getur ekkert notað hana alltaf. Bara í stuttum sprettum og þegar með þarf - annars fer allt í vitleysu.


Golden State hefur sumsé alltaf þurft að hafa Andrew Bogut, þó hann virkaði stundum utangátta og hentaði ekki á gólfinu gegn öllum liðum. Þegar allt er eðlilegt, til dæmis í flestum deildarleikjum í NBA deildinni, er betra að vera með eiginlegan miðherja í byrjunarliðinu. Það er allt í lagi að henda manni eins og Draymond Green í miðherjann annað slagið til að slá mótherjann út af laginu, en það gengur aldrei til lengdar.

Þetta fengu Warriors menn að reyna undir lok lokaúrslitaeinvígisins í sumar þegar Bogut datt út vegna meiðsla. Golden State var jú með Festus Ezeli til að hlaupa í skarðið fyrir Bogut, en hann var hvorki með heilsu til þess, né hefur hann til að bera þá kosti sem gera Bogut sérstakan. Ezeli hefur fátt fram yfir Bogut nema ef til vill að vera sprækari á löppunum, en hafði það ekki einu sinni af því hann var á felgunni vegna meiðsla sem hrjá hann enn í dag (hann er ekki enn byrjaður að spila með Portland eftir að hafa gengið í raðir félagsins í sumar).

Og hvað gerðist hjá Golden State þegar Bogut var farinn, Ezeli (og Curry) á felgunni og áberandi merki um þreytu voru farin að láta á sér kræla?

LeBron James fann lykt af blóði, setti undir sig höfuðið og bókstaflega keyrði yfir Warriors-liðið í síðustu þremur leikjunum. Við þurfum ekki að rifja tölurnar hans í þessum leikjum upp - ef þú ert að lesa þetta, þá veistu hvað þær voru sóðalegar. Nú er kominn nóvember 2016, nýtt tímabil og Kevin Durant er kominn til Golden State. Já, þessi langi sem er búinn að vera einn af þremur bestu körfuboltamönnum heims í nokkur ár. Nú er hann kominn í lið Warriors og fyrir vikið er bolurinn búinn að ákveða að það verði stórslys ef liðið endurheimtir ekki titilinn úr höndum fjenda sinna í austri.

En þó að Kevin Durant sé alveg hreint ógeðslega góður í körfubolta, þá er ólíklegt að jafnvel hann nái að fylla upp í skarðið sem þeir Bogut, Ezeli, Marrese Speights og Harrison Barnes skildu eftir sig. Jú, jú, hann getur skorað meira en þeir allir saman í svefni, en hvað um allt hitt sem þeir gerðu fyrir Golden State?

Eins og til dæmis að spilaða rútíneraðan varnar- og sóknarleik sem tók ár að stilla saman og auðvitað það sem er svo mikið í tísku núna - að verja helvítis körfuna fyrir árásum andstæðinganna?

Zaza Pachulia? Anderson Varejao? JaVale McGee?

Þetta er ein af stóru ráðgátum vetrarins. Við vitum hvað gæti gerst ef Golden State nær ekki að stoppa upp í þessu göt, því allur sóknarleikur jarðarinnar nær tæplega að gera það.

Ætli LeBron James sé hræddur við nýjustu útgáfuna af Golden State Warriors, in deed.

Tuesday, November 1, 2016

Ofurlið Warriors í vanda


Það gerist kannski seint orðið, en þó getið þið oftast bókað að þegar hausinn á ykkur er gjörsamlega að springa af áhyggjum yfir mönnum eða málefnum í NBA deildinni, kemur NBA Ísland til bjargar og greiðir úr flækjunni. Til þess er vefurinn. Meðal annars.

Og við værum ekki að gegna hlutverki okkar ef við færum ekki aðeins ofan í saumana á dramatíkinni sem er að eiga sér stað í Oakland núna - þar sem Besta Lið Ever er pínulítið að drulla á sig.

Sko...

Það sem við skulum hafa alveg á hreinu áður en lengra er haldið, er að ÞÚ SPÁÐIR ÞVÍ EKKI að Golden State myndi byrja svona! Þú skalt ekki einu sinni reyna að halda því fram. Þá verður þú bara að vera úti.

Og þú verður líka að vera úti ef þú heldur að við ætlum að koma með einhverja "heita töku" á Warriors-liðið eftir þrjá leiki og hoppa öskrandi "að þeeeeetta sé búúúiiið!" ofan af nærliggjandi húsþökum. Láttu ekki svona.

Staðreyndin er nú samt sú að Golden State er alveg óralangt frá því að vera að spila góðan körfubolta núna. Svo langt að það er eiginlega bara að spila frekar illa.

Þrjátíu stiga heimatap fyrir Spurs í fyrsta leik og tveir drulluskítugir og ósannfærandi sigrar á kjallaraliðum undirstrika þetta bersýnilega. Og við værum ekki starfi okkar vaxin ef við hefðum ekki skoðun á þessu. Þó það nú væri.

Ef við reynum að ná yfirsýn yfir vandamálið hjá Warriors, dettur okkur einna helst í hug að benda fingrinum á ólíklegan kandídat í þessu mengi - mann sem hefur ekki þurft að hlusta á mikla gagnrýni síðan hann tók við starfi sínu fyrir tveimur árum eða svo. Mann, sem hefur raunar þurft að ganga með sólgleraugu innanhúss til að blindast ekki af velgengni sinni.

Þessi maður er Steve Kerr...

Við áttum okkur á því að undanfarnir mánuðir hafa tekið gríðarlega á skrokkana á öllum starfsmönnum Warriors og enn meira á sálartetrið. Þetta lið kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum upp á stjörnuhimininn í NBA deildinni og fékk að hlusta á skít um það að það væri ekki nógu gott í eitt ár - og neikvæðnitalið og gagnrýnin magnaðist bara eftir að liðið vann titilinn 2015.

Öll þessi neikvæðni virkaði reyndar ljómandi vel á liðið fyrstu mánuðunum og það var þessari neikvæðni og hvatningunni sem hún hafði í för með sér að kenna að Golden State átti bestu deildarkeppni í sögu NBA deildarinnar á síðustu leiktíð.

En allt þetta líkamlega og ekki síður andlega álag sem fylgdi öllum þessum sigrum, tók sinn toll á liðinu og það hrasaði í endamarkinu, þegar það var gjörsamlega búið á sál og líkama og var svo óheppið að lenda í krumlunum á einum besta körfuboltamanni allra tíma í jötunmóð í síðustu þremur leikjum vertíðarinnar.

Það er ekkert auðvelt að safna liði og arka út í stríð á ný eftir svona spennufall, en það er gerlegt, vissulega.

En þá kemur annað babb í bátinn. Í stað þess að sumarið fari í að sleikja sárin, peppa mannskapinn og hyggja á hefndir, fýkur allt prógrammið til Hollywood í handtösku þegar forráðamönnum félagsins dettur það í hug að láta slag standa þegar þeim býðst að fá til sín einu bestu skyttuna í heimi sem er ekki þegar fyrir í liðinu þeirra... - ef það meikar sens....

Þetta er auðvitað alhæfing og einföldun, en sumarið og haustið hjá Warriors fór allt í að sitja fyrir á myndum og svara spurningum um hvort væri nóg að þeir spiluðu með einn bolta á næstu leiktíð, hvort þeir væru með meiddi í egóinu sínu og hvort þeir héldu að þeir myndu tapa fleiri en einum leik á næstu leiktíð.

Lið með sterka karaktera, reynslubolta og leiðtoga léti svona skrum ekki slá sig út af laginu og auðvitað eru allar líkur á því að Warriors-piltar rétti skútuna af fljótlega. Annað er hreinlega óhugsandi. En það er skrekkur í liðinu núna, stærri en sést hefur hjá því síðan það byrjaði að vinna körfuboltaleiki oftar en einu sinni í viku.

Auðvitað er það kannski leikmönnunum sjálfum að kenna ef þeir mæta ekki klárir þegar flautað er til leiks og Draymond Green hefði til dæmis alveg getað sleppt því að vera alltaf á fylleríi, leggjandi hendur á fólk og setjandi myndir af beinlausa bitanum á sér á internetið! Það eru ekkert fyrstu þrjú atriðin í liðsandafræðunum!

En Draymond er dálítill vitleysingur þó að snillingurinn í honum vegi það oftast upp og strákarnir sem bera liðið uppi eru engin vélmenni þó þeir séu hæfileikaríkari en flestir. Það er enginn blóði borinn alfa-karlmaður í Warriors-liðinu og enginn sýkópati með sigurfíkn (MJ, Kobe) og þess vegna endar keflið hjá Steve Kerr í okkar bókum.

Það var Steve Kerr sem átti að grípa strax í taumana, koma mannskapnum niður á jörðina (það er nær ógerningur með klefa fullan af NBA súperstjörnum, við vitum það, en samt) og byrja strax að plana, byggja og gera.

Við sjáum alveg að stór hluti af því sem er að Warriors-liðinu í fyrstu leikjum vetrarins hefur 100% með strategíu að gera, en ekki endilega andlega hluti. Við sjáum, ekki bara hikandann í sóknarleiknum, heldur alla múrsteinana sem allir leikmenn sem ekki heita Curry eða Durant eru búnir að kasta í áttina að saklausu fólki úr galopnum færum undanfarna daga. Og við sjáum líka hvað varnarleikurinn hjá liðinu hefur á tíðum verið... nánast asnalega lélegur - nokkuð sem hefði verið gjörsamlega óhugsandi fyrir sex mánuðum.

Margt af þessu á sér ofur eðlilegar skýringar, eins og þær að það urðu talsverðar breytingar á liðinu í sumar og maðurinn sem er búinn að vera akkerið í varnarleik þess undanfarin guðmávitahvaðmörgár er farinn til Dallas til að deyja eins og fílarnir í Namibíu. Það tekur tíma að slípa þetta til og svo má ekki gleyma því að Golden State kemur alls ekki til með að geta fyllt skarð manna eins og Bogut með þeim mannskap sem það hefur. Það verður bara að gera hlutina öðruvísi.

En þessi vandræðagangur í leikfræðunum segir ekki hálfa söguna. Ef allt er eðlilegt, er Golden State er með næga hæfileika til að skjóta lágmark 25 lið í deildinni í kaf á hvaða degi vikunnar sem er þó það spili ekki nema miðlungsvörn. Gallinn er bara að enn sem komið er - og við vitum að þetta eru bara þrír leikir, sem jafngilda þremur mínútum í Domino´s deildinni - er bara ekkert eðlilegt við leik Warriors.

Þeir Stephen Curry og (sérstaklega) Kevin Durant eru búnir að klára tvo af þessum þremur leikjum liðsins út á það eitt að þeir eru tveir bestu sóknarmenn heims í körfubolta (and it´s not even close) og ekki út af neinu öðru. Draymond Green hjálpaði reyndar til við að klára Phoenix á dögunum með því að sýna skyndilega sitt rétta andlit í vörninni í fjórða leikhluta eftir að hafa verið eins og trúður megnið af fyrstu þremur leikhlutunum. Hann getur þetta ennþá.

Þegar eitthvað fer úrskeiðis, er dásamlegt að kasta til hendinni og finna blóraböggla. Ekki síst ef fólk getur gert það úr nokkuð þúsund kílómetra fjarlægð á bak við skrifborð - án þess að bakka það upp eða bera nokkra ábyrgð á því og jafnvel án þess að hafa hundsvit á umræðuefninu eins og við erum að gera núna.

En við ætlum nú samt að klína óförum Golden State Warriors á fyrstu vikunni á leiktíðinni 2016-17 á þjálfara ársins í fyrra og þann þjálfara sem hefur byrjað best allra þjálfara í sögu NBA deildarinnar, herra Steve Kerr.

Af hverju ekki?

Frá ritstjórn


Við munum vel hvað við blótuðum Bill Simmons ekki í hljóði hérna forðum þegar hann hætti að nenna að skrifa pistla á ESPN og gerði ekkert annað en að dæla út (stundum metnaðarlitlum) hlaðvörpum.

Líklega hefur Simmons aldrei verið jafn lélegur við að skrifa pistla á sínum tíma og við höfum verið undanfarið, en munurinn er kannski sá að hann var í 100% starfi við það, meðan við þurfum að djöggla námi, fjölskyldulífi, leik og starfi. Jú og við tölum/skrifum stundum um eitthvað annað en Boston Celtics.

Annars er þessum pistli ekki ætlað að vera skot á Simmons blessaðan, því hann var ákveðinn brautryðjandi fyrir fólk með takmarkaða menntun, metnað og gáfnafar í íþróttablaðamennsku. Þetta er ekkert skot, þetta er staðreynd og Simmons sjálfur myndi eflaust kvitta upp á þetta. Simmons hafði tvennt til brunns að bera og hefur enn - hann er duglegur andskoti þegar hann nennir því og hann er með frjótt ímyndunarafl.

Og hann veitti okkur líka innblástur á sínum tíma. Það má hann sannarlega eiga, þrátt fyrir sína vankanta. Og hann reyndi að vera skemmtilegur, þó það hafi stundum farið öfugt ofan í fólk. 

Við komumst að því sjálf fyrir löngu að það er alveg sama hvort þú heitir Bjarni Fel eða Bill Simmons, Martin Tyler eða Marv Albert, það verður alltaf alveg rosalega mikið af fólki þarna úti sem hatar þig og allt sem þú segir og er tilbúið að segja þér það, hvort sem þú átt það skilið eða ekki. Þannig er þetta bara.

Ætli við höfum ekki reynt með veikum mætti að feta í fótspor Simmons í baráttunni hér á landi. Við höfum verið að breiða út fagnaðarerindið frá því á níunda áratug síðustu aldar og það með nokkuð markvísum og beinum hætti í ræðu og riti síðasta rúma áratuginn. Fólk á skilið að fá að kynnast bestu skemmtun jarðar, meira að segja leiðinlegt fólk... svona næstum því.

Stundum berast okkur skilaboð og skeyti frá fólki sem kennir okkur um endurnýjaðan eða nýupptekinn áhuga sinn á NBA deildinni (eða körfubolta yfir höfuð) og þá brosum við eins og hýenur á Holtinu. Og svo rennur eitt lítið tár niður aðra hvora kinnina. Við erum ekki flóknari lífverur en þetta. Við fengum svona skilaboð í dag og það verður aldrei þreytt. Það skiptir máli.Þúsund sinnum hefur staðið til að breyta NBA Ísland. Spæsa síðuna upp, færa hana í nýjan búning, kommersjalísera hana, breyta henni, en aldrei hefur orðið neitt úr því. Það kemur til af tveimur ástæðum:

1.) - Við trúum ekki á það að breyta einhverju ef það virkar (sæmilega, á sinn hátt).

2.) - Við rekum síðuna eins og við treystum okkur að reka hana, án mikilla afskipta eða aðstoðar annara, af því þá getum við verið örugg um að hún gangi og virki. Við erum hvorki markaðsfræðingar né forritarar - við skrifum um körfubolta.

NBA Ísland hefur sumsé verið dálítið eins og Andre Miller í gegn um tíðina. Ekkert flott, ekkert flashy, en hún hefur alltaf rúllað áfram, þó hægt hafi farið.

Þetta þýðir þó ekki að við séum ekki opin fyrir því að reyna nýja hluti. Ef þú eða þið vitið um fólk sem langar að hjálpa til, sponsa síðuna, gefa henni andlitslyftingu, hýsa hana, hanna hana, skrifa á hana eða kaupa hana, þá erum við alveg tilbúin að hlusta. 

Þetta vita allir sem lesa NBA Ísland að staðaldri, en við höfum engar áhyggjur af því að eitthvað svona komi upp á, af því við höfum sterkan grun um að það sé sennilega einmitt svona sem fólk vill hafa Íslandið sitt. Einfalt, asnalegt, íhaldssamt, einlægt, ókeypis og annað slagið fyndið eða fræðandi.

Ef ekki, er símanúmerið okkar nbaisland@gmail.com

Afsakið þennan stórundarlega pistil sem rann allt í einu fram af lyklaborðinu og gleðilega NBA hátíð 2016-17, kæru lesendur. Takk fyrir lesturinn á síðunni og hlustunina á hlaðvarpið. Það eruð þið sem haldið þessu uppátæki gangandi.

Ritstjórnin

Sunday, October 30, 2016

Nýtt hlaðvarp


Sjötugasti þáttur Hlaðvarps NBA Ísland er kominn í hús, en þar renna Baldur Beck og Gunnar Björn Helgason yfir það sem staðið hefur hæst á fyrstu dögunum í deildarkeppninni í NBA.

Þeir ræða m.a. Golden State, San Antonio, New Orleans, Cleveland, Houston og LA Lakers. Þá kryfja þeir ógurlega byrjun Anthony Davis hjá New Orleans, vandræðaganginn á Draymond Green hjá Golden State og gera tæmandi lista yfir þá fáu leikmenn sem eiga raunverulegan möguleika á því að verða kjörnir leikmenn ársins í NBA deildinni. Allt þetta og miklu meira í nýjasta hlaðvarpinu frá NBA Ísland.

Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Athugasemdir, ánægja og/eða aðfinnslur sendist til: nbaisland@gmail.com

Friday, October 28, 2016

Veislan hefst í kvöld


Fyrsti NBA leikur vetrarins á Stöð 2 Sport verður á dagskrá á Stöð 2 Sport 2 kl. 23:00 í kvöld þegar Toronto tekur á móti Cleveland. Þetta eru liðin sem léku til úrslita í Austurdeildinni sl. vor og því má búast við góðri skemmtun. Bæði lið unnu fyrsta leikinn sinn á leiktíðinni og LeBron James hlóð m.a. í þrennu og virkar í fantaformi.

Stöð 2 Sport verður með beinar útsendingar frá NBA öll föstudagskvöld fram á vorið í ár líkt og á síðustu leiktíð, sem er ekki amalegur eftirréttur á eftir beinni útsendingu frá Domino´s deildunum og þættinum Körfuboltakvöldi.

Þið getið séð hvað er framundan af beinum útsendingum á Stöð 2 Sport og NBATV á dagskrársíðunni okkar sem er í flipanum efst á NBA Ísland síðunni. Nú, eða hér, ef þú sérð illa.

Ritstjórn NBA Ísland óskar ykkur öllum gleðilegrar körfuboltavertíðar.

nbaisland@gmail.com 

Thursday, October 20, 2016

Vegasvarpið 2016
 Þá er röðin komin að hinu árlega Vegas-varpi frá NBA Ísland þar sem spekingar síðunnar fara yfir spár veðbanka í Las Vegas um gengi liðanna í NBA í deildarkeppninni. Veðmála-vesírar Vegasborgar skjóta þannig á áætlaðan sigrafjölda hvers liðs fyrir sig og bjóða spilurum að tippa á hvort liðin verði yfir eða undir ákveðinni tölu.

Dæmi um þetta má nefna að Vegas setti hæstu tölu sem gefin hefur verið í sögunni á ofurlið Golden State Warriors í vetur, eða 66,5. Það kemur í hlut hlaðvarpara NBA Ísland að ákveða hvort þeir tippa á að Warriors vinni fleiri eða færri leiki en þetta á komandi vetri, þar sem margir spá því að liðið verði svo hrikalegt að það gæti jafnvel átt eftir að bæta ótrúlegt met sitt frá síðustu leiktíð þegar það vann 73 leiki í deildarkeppninni. Svona spár færðu þegar liðið sem setti met yfir flesta sigra í deildarkeppninni bætir við sig einum af þremur bestu körfuboltamönnum í heimi.

Já, það er ljóst að Golden State verður ekkert lamb að leika sér við í vetur, en við þurfum svo sem ekki að leita lengra en á síðustu leiktíð til að sjá að ekkert er öruggt og ekkert er ómögulegt í körfubolta - sem er bara ein af þúsund ástæðum fyrir því að þessi leikur ber höfuð og herðar yfir aðra.

Vegashlaðvarpinu er að venju skipt í tvennt; 68. þátturinn er helgaður Austurdeildinni og 69. þátturinn gerir Vesturdeildinni skil. Þið getið hlustað á þættina í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt þá þar á mp3 formi til að setja inn á spilarann ykkar.
Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

68. þáttur - Austurdeildin69. þáttur - VesturdeildinAthugasemdir og aðfinnslur sendist á: nbaisland@gmail.com

Wednesday, October 19, 2016

Í fréttum er þetta helst Nú er blessunarlega aðeins vika í að deildarkeppnin í NBA fari af stað. Þangað til minnum við ykkur á hlaðvarpið okkar, þar sem fyrri hluti Vegashlaðvarpsins árlega (68. þáttur) er kominn inn og síðari hlutinn (69. þáttur) er alveg að detta inn. Þið getið nálgast þetta efni á hlaðvarpssíðunni okkar, eins og þið vitið væntanlega.

Eins minnum við ykkur á dagskrársíðuna okkar, þar sem þið getið séð hvaða leikir eru fram undan í beinni útsendingu á bæði Stöð 2 Sport og NBATV rásinni. Stöð 2 Sport verður með beinar útsendingar frá NBA á hverju einasta föstudagskvöldi í allan vetur eins og á síðustu leiktíð og fyrsti leikurinn á Sportinu þetta haustið verður viðureign Toronto og Cleveland kl. 23:00 á föstudaginn eftir viku.

Friday, September 30, 2016

Nýtt hlaðvarp: Það styttist í þetta


 Nú er orðið afar stutt í jólin hjá okkur körfuboltafólki og föstudagskvöldið 30. september ætla snillingarnir í Domino´s Körfuboltakvöldi að hringja hátíðina formlega inn með fyrsta þætti vetrarins á Stöð 2 Sport, sem sendur verður út beint frá knæpunni á Kex kl. 21:00.

Hlaðvarp NBA Ísland fékk andlit þáttarins, Kjartan Atla Kjartansson, til að segja okkur frá vinnunni bak við tjöldin, framtíðaráformum í kring um þáttinn, Domino´s deildunum í vetur, landsliðunum, komandi vetri í NBA og margt, margt fleira.

Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Athugasemdir, ánægja og aðfinnslur sendast á: nbaisland@gmail.com
Sunday, September 11, 2016

Síðsumarshlaðvarp


Við erum örugglega ekki ein um það að vera farin að sakna NBA deildarinnar alveg hrikalega, enda er sumarið búið að vera langt og strangt. NBA Ísland reynir þó að gera það sem það getur til að stytta ykkur stundirnar þessar vikur sem eftir eru, þó íslenski boltinn fari auðvitað af stað fyrr (meira um það fljótlega).

Í nýjasta hlaðvarpinu stikla þeir Baldur og Gunnar yfir það helsta sem liggur á þeim nú þegar styttist í haustvertíðina í NBA, þar sem fókusinn er á Vesturdeildina, frá Golden State og niður og svo auðvitað margt fleira skemmtilegt.

Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Athugasemdir, ánægja og aðfinnslur sendast á: nbaisland@gmail.com

Wednesday, July 27, 2016

Nýtt hlaðvarp


Nýjasti þáttur hlaðvarpsins okkar er helgaður félagaskiptamarkaðnum í NBA, sem hefur verið einn sá fjörlegasti sem sést hefur. Þar ber hæst ákvörðun Kevin Durant að yfirgefa Oklahoma og flytja til Oakland þar sem hann kemur til með að mynda eitt óárennilegasta körfuboltalið sögunnar.

En það var ekki bara Durant sem skipti um heimilisfang. Flest liðin í deildinni bæði losuðu sig við og fengu til sýn nýja leikmenn og þeir Baldur Beck og Gunnar Björn Helgason renna yfir það sem helst vakti athygli þeirra á markaðnum í sumar. 

Í þessum tæplega tveggja tíma langa maraþonþætti færðu m.a. að heyra hvað þeim félögum finnst um umsvif liða eins og New York og Chicago á leikmannamörkuðum í sumar, en þar fara aðeins tvö dæmi um klúbba sem gerðu róttækar breytingar hjá sér fyrir átökin næsta vetur.

Þið getið hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Athugasemdir og aðfinnslur sendast á: nbaisland@gmail.com

Monday, July 18, 2016

GætiFriday, July 15, 2016

Tim Duncan með augum NBA ÍslandÞú veist að það er eitthvað sérstakt í gangi þegar hörkutól úr bransanum eins og RC Buford framkvæmdastjóri og Gregg Popovich þjálfari San Antonio vatna músum. En það gerðist nú samt á sitt hvorum fjölmiðlafundinum þegar þeir voru spurðir út í Tim Duncan, sem hefur ákveðið að leggja skó sína á hilluna eftir 19 ára feril í NBA deildinni.

Við erum búin að liggja yfir þessu í nokkurn tíma og reyna að átta okkur á því að Tim Duncan verði ekki í NBA deildinni næsta vetur. Rétt eins og verður með Kobe Bryant, eigum við öll eftir að sjá á eftir Tim Duncan þegar hann hverfur inn í sólarlagið, enda höfum við öll getað stillt klukkurnar okkar eftir stöðugri spilamennsku hans í nær tvo áratugi.

Við höfum stundum skrifað minningagreinar um menn þegar þeir hætta að spila í NBA. Við skrifuðum reyndar ekkert um Kobe Bryant á sínum tíma, því okkur þótti við vera búin að gera svo mikið af því í gegn um tíðina. Nú er ekki loku fyrir það skotið að við gerum ferilinn hans Kobe Bryant upp í pistli einn daginn, en þegar við heyrðum að Duncan væri hættur, greip okkur strax einhver tilfinning í ætt við skyldurækni - að við yrðum bara að skrifa pistil um hann.Tim Duncan er sannarlega ekki litríkasti eða umdeildasti leikmaður í sögu NBA deildarinnar, enda hefur umfjöllun um hann alltaf verið í lágmarki bæði hér og annars staðar. Þar liggja nokkrar ástæður að baki. Duncan var aldrei neitt fyrir það að trana sér fram og vildi helst ekki veita viðtöl, en þar að auki hefur kúltúrinn hjá Spurs aldrei snúist um neitt skrum, frægð eða frama.

Og það var að hluta til Tim Duncan sem byggði þennan fræga kúltúr, þetta stjórnkerfi San Antonio Spurs sem öll hin liðin í NBA deildinni hafa öfundað það af í tvo áratugi. Tim Duncan bara mætti (snemma) í vinnuna, vann vinnuna sína vandlega og fór svo heim til fjölskyldunnar, án frægðarljóma eða flugeldasýninga. Gregg Popovich er arkítektinn á bak við megnið af kúltúrnum hjá Spurs, en Tim Duncan hefur verið kjarni hans í nær tuttugu ár.

Tim Duncan hefur aldrei verið allra og mörgum finnst hann leiðinlegur leikmaður, ekki síst af því stuðningsmenn hinna liðanna í NBA eru búnir að vera að tapa fyrir honum í tuttugu ár. Flest körfuboltaáhugafólk sem við þekkjum hefur hinsvegar vottað Duncan virðingu sína í vikunni, hvort sem það var gefið fyrir leik hans eða ekki, af því þetta fólk veit að þar hverfur af sjónarsviðinu algjör goðsögn í sögu deildarinnar.Einhver ykkar eru eflaust búin að lesa eina eða fleiri af þeim fjölmörgu greinum sem skrifaðar hafa verið um Duncan síðustu daga. Þær hafa verið misgóðar, en leitað í svipaða sálma; Tim Duncan var frábær leikmaður - allt að því vélrænn - liðið hans vann næstum því alltaf, hann var meiri húmoristi og vænni drengur en flestir gerðu sér grein fyrir og líklega var hann líka betri leikmaður en flestir gerðu ráð fyrir.

Við hefðum kannski getað skrifað pistil í ætt við þetta, en þar sem við höfum alltaf horft á Tim Duncan út frá alveg sérstöku sjónarhorni, ákváðum við frekar að deila því með ykkur sem á annað borð nennið að lesa um hetjuna hæglátu. Nánar um það á eftir.Fyrsti tendensinn sem vaknaði hjá okkur þegar fyrir lá að skrifa Duncan út, var að reyna að finna út hversu ofarlega hann á heima á lista bestu körfuboltamanna allra tíma. Þá hnussa mörg ykkar og segja að fólk eigi ekki að vera að flokka körfuboltamenn - það sé ekkert hægt að bera saman bakverði og miðherja og enn síður ef líða áratugir á milli þess sem þeir spila í deildinni.

Við skiljum að mörgum finnist svona uppröðun og listar asnalegir, en það eru margir sem hafa gaman af þessu og okkur þykir bara alveg nauðsynlegt að reyna að átta okkur á því hvar við eigum að setja Duncan eftir þennan stórkostlega feril sem hann átti í NBA.

Monday, July 11, 2016