Thursday, October 20, 2016

Vegasvarpið 2016
 Þá er röðin komin að hinu árlega Vegas-varpi frá NBA Ísland þar sem spekingar síðunnar fara yfir spár veðbanka í Las Vegas um gengi liðanna í NBA í deildarkeppninni. Veðmála-vesírar Vegasborgar skjóta þannig á áætlaðan sigrafjölda hvers liðs fyrir sig og bjóða spilurum að tippa á hvort liðin verði yfir eða undir ákveðinni tölu.

Dæmi um þetta má nefna að Vegas setti hæstu tölu sem gefin hefur verið í sögunni á ofurlið Golden State Warriors í vetur, eða 66,5. Það kemur í hlut hlaðvarpara NBA Ísland að ákveða hvort þeir tippa á að Warriors vinni fleiri eða færri leiki en þetta á komandi vetri, þar sem margir spá því að liðið verði svo hrikalegt að það gæti jafnvel átt eftir að bæta ótrúlegt met sitt frá síðustu leiktíð þegar það vann 73 leiki í deildarkeppninni. Svona spár færðu þegar liðið sem setti met yfir flesta sigra í deildarkeppninni bætir við sig einum af þremur bestu körfuboltamönnum í heimi.

Já, það er ljóst að Golden State verður ekkert lamb að leika sér við í vetur, en við þurfum svo sem ekki að leita lengra en á síðustu leiktíð til að sjá að ekkert er öruggt og ekkert er ómögulegt í körfubolta - sem er bara ein af þúsund ástæðum fyrir því að þessi leikur ber höfuð og herðar yfir aðra.

Vegashlaðvarpinu er að venju skipt í tvennt; 68. þátturinn er helgaður Austurdeildinni og 69. þátturinn gerir Vesturdeildinni skil. Þið getið hlustað á þættina í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt þá þar á mp3 formi til að setja inn á spilarann ykkar.
Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

68. þáttur - Austurdeildin69. þáttur - VesturdeildinAthugasemdir og aðfinnslur sendist á: nbaisland@gmail.com

Wednesday, October 19, 2016

Í fréttum er þetta helst Nú er blessunarlega aðeins vika í að deildarkeppnin í NBA fari af stað. Þangað til minnum við ykkur á hlaðvarpið okkar, þar sem fyrri hluti Vegashlaðvarpsins árlega (68. þáttur) er kominn inn og síðari hlutinn (69. þáttur) er alveg að detta inn. Þið getið nálgast þetta efni á hlaðvarpssíðunni okkar, eins og þið vitið væntanlega.

Eins minnum við ykkur á dagskrársíðuna okkar, þar sem þið getið séð hvaða leikir eru fram undan í beinni útsendingu á bæði Stöð 2 Sport og NBATV rásinni. Stöð 2 Sport verður með beinar útsendingar frá NBA á hverju einasta föstudagskvöldi í allan vetur eins og á síðustu leiktíð og fyrsti leikurinn á Sportinu þetta haustið verður viðureign Toronto og Cleveland kl. 23:00 á föstudaginn eftir viku.

Friday, September 30, 2016

Nýtt hlaðvarp: Það styttist í þetta


 Nú er orðið afar stutt í jólin hjá okkur körfuboltafólki og föstudagskvöldið 30. september ætla snillingarnir í Domino´s Körfuboltakvöldi að hringja hátíðina formlega inn með fyrsta þætti vetrarins á Stöð 2 Sport, sem sendur verður út beint frá knæpunni á Kex kl. 21:00.

Hlaðvarp NBA Ísland fékk andlit þáttarins, Kjartan Atla Kjartansson, til að segja okkur frá vinnunni bak við tjöldin, framtíðaráformum í kring um þáttinn, Domino´s deildunum í vetur, landsliðunum, komandi vetri í NBA og margt, margt fleira.

Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Athugasemdir, ánægja og aðfinnslur sendast á: nbaisland@gmail.com
Sunday, September 11, 2016

Síðsumarshlaðvarp


Við erum örugglega ekki ein um það að vera farin að sakna NBA deildarinnar alveg hrikalega, enda er sumarið búið að vera langt og strangt. NBA Ísland reynir þó að gera það sem það getur til að stytta ykkur stundirnar þessar vikur sem eftir eru, þó íslenski boltinn fari auðvitað af stað fyrr (meira um það fljótlega).

Í nýjasta hlaðvarpinu stikla þeir Baldur og Gunnar yfir það helsta sem liggur á þeim nú þegar styttist í haustvertíðina í NBA, þar sem fókusinn er á Vesturdeildina, frá Golden State og niður og svo auðvitað margt fleira skemmtilegt.

Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Athugasemdir, ánægja og aðfinnslur sendast á: nbaisland@gmail.com

Wednesday, July 27, 2016

Nýtt hlaðvarp


Nýjasti þáttur hlaðvarpsins okkar er helgaður félagaskiptamarkaðnum í NBA, sem hefur verið einn sá fjörlegasti sem sést hefur. Þar ber hæst ákvörðun Kevin Durant að yfirgefa Oklahoma og flytja til Oakland þar sem hann kemur til með að mynda eitt óárennilegasta körfuboltalið sögunnar.

En það var ekki bara Durant sem skipti um heimilisfang. Flest liðin í deildinni bæði losuðu sig við og fengu til sýn nýja leikmenn og þeir Baldur Beck og Gunnar Björn Helgason renna yfir það sem helst vakti athygli þeirra á markaðnum í sumar. 

Í þessum tæplega tveggja tíma langa maraþonþætti færðu m.a. að heyra hvað þeim félögum finnst um umsvif liða eins og New York og Chicago á leikmannamörkuðum í sumar, en þar fara aðeins tvö dæmi um klúbba sem gerðu róttækar breytingar hjá sér fyrir átökin næsta vetur.

Þið getið hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Athugasemdir og aðfinnslur sendast á: nbaisland@gmail.com

Monday, July 18, 2016

GætiFriday, July 15, 2016

Tim Duncan með augum NBA ÍslandÞú veist að það er eitthvað sérstakt í gangi þegar hörkutól úr bransanum eins og RC Buford framkvæmdastjóri og Gregg Popovich þjálfari San Antonio vatna músum. En það gerðist nú samt á sitt hvorum fjölmiðlafundinum þegar þeir voru spurðir út í Tim Duncan, sem hefur ákveðið að leggja skó sína á hilluna eftir 19 ára feril í NBA deildinni.

Við erum búin að liggja yfir þessu í nokkurn tíma og reyna að átta okkur á því að Tim Duncan verði ekki í NBA deildinni næsta vetur. Rétt eins og verður með Kobe Bryant, eigum við öll eftir að sjá á eftir Tim Duncan þegar hann hverfur inn í sólarlagið, enda höfum við öll getað stillt klukkurnar okkar eftir stöðugri spilamennsku hans í nær tvo áratugi.

Við höfum stundum skrifað minningagreinar um menn þegar þeir hætta að spila í NBA. Við skrifuðum reyndar ekkert um Kobe Bryant á sínum tíma, því okkur þótti við vera búin að gera svo mikið af því í gegn um tíðina. Nú er ekki loku fyrir það skotið að við gerum ferilinn hans Kobe Bryant upp í pistli einn daginn, en þegar við heyrðum að Duncan væri hættur, greip okkur strax einhver tilfinning í ætt við skyldurækni - að við yrðum bara að skrifa pistil um hann.Tim Duncan er sannarlega ekki litríkasti eða umdeildasti leikmaður í sögu NBA deildarinnar, enda hefur umfjöllun um hann alltaf verið í lágmarki bæði hér og annars staðar. Þar liggja nokkrar ástæður að baki. Duncan var aldrei neitt fyrir það að trana sér fram og vildi helst ekki veita viðtöl, en þar að auki hefur kúltúrinn hjá Spurs aldrei snúist um neitt skrum, frægð eða frama.

Og það var að hluta til Tim Duncan sem byggði þennan fræga kúltúr, þetta stjórnkerfi San Antonio Spurs sem öll hin liðin í NBA deildinni hafa öfundað það af í tvo áratugi. Tim Duncan bara mætti (snemma) í vinnuna, vann vinnuna sína vandlega og fór svo heim til fjölskyldunnar, án frægðarljóma eða flugeldasýninga. Gregg Popovich er arkítektinn á bak við megnið af kúltúrnum hjá Spurs, en Tim Duncan hefur verið kjarni hans í nær tuttugu ár.

Tim Duncan hefur aldrei verið allra og mörgum finnst hann leiðinlegur leikmaður, ekki síst af því stuðningsmenn hinna liðanna í NBA eru búnir að vera að tapa fyrir honum í tuttugu ár. Flest körfuboltaáhugafólk sem við þekkjum hefur hinsvegar vottað Duncan virðingu sína í vikunni, hvort sem það var gefið fyrir leik hans eða ekki, af því þetta fólk veit að þar hverfur af sjónarsviðinu algjör goðsögn í sögu deildarinnar.Einhver ykkar eru eflaust búin að lesa eina eða fleiri af þeim fjölmörgu greinum sem skrifaðar hafa verið um Duncan síðustu daga. Þær hafa verið misgóðar, en leitað í svipaða sálma; Tim Duncan var frábær leikmaður - allt að því vélrænn - liðið hans vann næstum því alltaf, hann var meiri húmoristi og vænni drengur en flestir gerðu sér grein fyrir og líklega var hann líka betri leikmaður en flestir gerðu ráð fyrir.

Við hefðum kannski getað skrifað pistil í ætt við þetta, en þar sem við höfum alltaf horft á Tim Duncan út frá alveg sérstöku sjónarhorni, ákváðum við frekar að deila því með ykkur sem á annað borð nennið að lesa um hetjuna hæglátu. Nánar um það á eftir.Fyrsti tendensinn sem vaknaði hjá okkur þegar fyrir lá að skrifa Duncan út, var að reyna að finna út hversu ofarlega hann á heima á lista bestu körfuboltamanna allra tíma. Þá hnussa mörg ykkar og segja að fólk eigi ekki að vera að flokka körfuboltamenn - það sé ekkert hægt að bera saman bakverði og miðherja og enn síður ef líða áratugir á milli þess sem þeir spila í deildinni.

Við skiljum að mörgum finnist svona uppröðun og listar asnalegir, en það eru margir sem hafa gaman af þessu og okkur þykir bara alveg nauðsynlegt að reyna að átta okkur á því hvar við eigum að setja Duncan eftir þennan stórkostlega feril sem hann átti í NBA.

Monday, July 11, 2016

Tuesday, July 5, 2016

Kevin Durant + Warriors = Ofurlið


Umrótið í íþróttaveruleika okkar ætlar engan enda að taka. Á meðan karlalandsliðið okkar í knattspyrnu var að tryggja sér fimmta sætið á EM í Frakklandi, var Kevin Durant að ákveða að hann ætlaði að spila með Golden State Warriors á næstu leiktíð.

Þetta er Warriors-liðið sem vann meistaratitilinn í fyrra og 73 sigra á nýafstaðinni leiktíð og Kevin Durant - maðurinn sem er búinn að vera topp 3 leikmaður í NBA deildinni undanfarin ár. Einmitt.

Warriors-ófreskjan þarf að sjá á eftir Harrison Barnes, Festus Ezeli og Andrew Bogut til að búa til pláss fyrir Durant, en þegar þetta er ritað er félagið komið langt á veg með að tryggja sér þjónustu Zaza Pachulia og David West til að stoppa upp í götin sem þremenningarnir skilja eftir sig.

Enginn getur fullyrt um það hvernig þessi ráðstöfun á eftir að koma út fyrir varnar- og sóknarleik Warriors í framtíðinni, en þeir eru ekki margir sem reikna með að þetta verði flókið dæmi. Eitt besta varnar- og sóknarlið deildarinnar - og sögunnar - varð rétt í þessu MIKLU betra.

Uppstillingin Curry, Thompson, Iguodala, Durant og Green er á pappírunum langbesta sóknarlið sem sett hefur verið saman í sögu deildarinnar. Á pappírunum.

Heldur þú að flæðandi sóknarleikur Golden State með Durant innanborðs eigi allt í einu eftir að verða stirðbusalegur og lélegur? Ekki við heldur. Við þurfum ekki og nennum ekki, að þefa uppi tölfræði fyrir lengra komna til að sýna ykkur að jafn atkvæðamiklar en um leið ökónómískar skyttur/skorarar hafa aldrei sést áður á körfuboltavelli.

Fyrst um sinn er þetta auðvitað allt á pappírunum og það vinnur enginn titla á pappírunum, en það gæti orðið bæði skemmtilegt, en síðan vandræðalegt að horfa á varnir hinna 29 liðanna í NBA eiga við þessa ófreskju sem búið er að setja saman í Oakland.

Eins og við var að búast, eru hatursfullir og neikvæðir netverjar komnir úr felum og skiptast á að hrauna yfir Kevin Durant fyrir að velja auðveldu leiðina eins og LeBron James gerði forðum, nema hvað þeim er enn meira niðri fyrir núna. Durant gekk til liðs við óvininn og er náttúrulega lopasokkur og gunga fyrir vikið.

Við erum orðin allt of gömul til að velta okkur upp úr slíku.

Önnur holskefla er líka farin af stað, en það er kórinn sem syngur um að þetta sé allt Russell Westbrook að kenna. Ef hann hefði ekki verið svona vondur og eigingjarn og mikill fáviti (osfv), hefði þetta aldrei gerst.

Kommon. Við nennum ekki svoleiðis.

Niðurstaðan hér er sú að við erum komin með ofurlið allra ofurliða í NBA deildina. Við höfum oft séð stór nöfn taka sig saman og elta titla, en það gerist oftar en ekki þegar menn eru komnir hátt á fertugsaldurinn - ekki þegar meðalaldur stjörnuleikmanna liðsins er í kring um 27-28 ár.

Þessar sérstöku aðstæður sem myndast í NBA deildinni við þessar ógurlegu hækkanir á launaþakinu og hagstæðir leikmannasamningar (Stephen Curry) gera Warriors kleift að fara þessa áður óséðu leið.

Niðurstaðan verður alveg örugglega eitthvað sem á eftir að skemmta okkur fram undir morgun á hverri nóttu næstu árin.

Skál í boðinu.

Wednesday, June 29, 2016

The Boss
Ef LeBron James hefði kastað míkrófón í vatn


Við elskum fótbolta. Við spiluðum einu sinni fótbolta og þó við elskum fótbolta ekki eins mikið og körfubolta, fylgjumst við ekki síður með knattspyrnu en Leiknum okkar.

Okkur þykir nauðsynlegt að slá þennan varnagla áður en við byrjum á næstu hugleiðingu, svo fótboltamenn og konur fari ekki að kalla þetta körfuboltaáróður gegn fótbolta eða eitthvað slíkt. Þetta er ekki ætlað sem áróður, þetta er bara atriði sem vakti athygli okkar.

Þannig var að við rákumst á stutt brot úr kjaftaþættinum Mike & Mike á ESPN fyrir skömmu, þar sem Mike Greenberg benti á þennan skemmtilega punkt.

Greenberg var að tala um muninn á fótboltamönnum og körfuboltamönnum og þá sérstaklega muninn á hegðun þeirra frægustu í greinunum hvað fjölmiðla snertir.

Hann benti á tvö nýleg dæmi um eftirtektarverða hegðun knattspyrnumanna. Annars vegar atriðið þegar Cristiano Ronaldo henti míkrófón fjölmiðlamanns sem reyndi að ná tali af honum út í vatn og hinsvegar ákvörðun Lionel Messi að hætta að spila með landsliði Argentínu eftir tapið í úrslitaleik Ameríkukeppninnar á dögunum.

Þessi tvö atriði nefndi hann sem dæmi og velti svo upp spurningunni hvernig bandaríska þjóðin myndi bregðast við ef LeBron James myndi sýna svona hegðun.

Svarið við spurningunni er augljóst - James yrði tekinn af lífi í fjölmiðlum og víðar ef hann myndi gera eitthvað þessu líkt.

Eins og þið vitið flest, hefur hann margoft valdið fjaðrafoki í fjölmiðlum fyrir eitthvað sem mælist ekki við hliðina á íþróttum eins og míkrófónakasti án atrennu (í vötn). Eins og til dæmis að mæta með vitlausa húfu á íþróttakappleik og fá hraðasekt, svo við tölum nú ekki um "ákvörðunina" hans frægu.

Hvað hefðu fjölmiðlar t.d. sagt ef LeBron James hefði látið hafa annað eins eftir sér og Ronaldo gerði þegar hann gerði lítið úr íslenska landsliðinu eftir viðureign þess við Portúgal á dögunum?

Bandaríska pressan væri enn að hrauna yfir hann.

Það má segja ýmislegt misjafnt um Bandaríkjamenn, en íþróttastjörnurnar þeirra eru í flestum tilvikum kurteisar og almennilegar þegar kemur að samskiptum við fjölmiðla. Okkur er líka til efs að við eigum eftir að heyra "Strákana Okkar" vera með einhvern dónaskap við eða í fjölmiðlum og gildir þá einu hvort um er að ræða fót-, hand- eða körfuboltastrákana okkar.

Tilgangurinn með þessari hugleiðingu er ekki að draga upp dökka mynd af knattspyrnustjörnum eða upphefja íslenska eða ameríska íþróttamenn óþarflega mikið, það eru sannarlega hægðaheilar í körfuboltanum eins og annars staðar og menn eins og Ronaldo og Messi láta báðir gott af sér leiða með reglubundnum hætti.

Okkur langaði aðeins að benda á það hvað virðist vera misjafnt gildismat í gangi hjá íþróttastjörnum heimsins í dag og nokkuð misjafn tolerans þegar kemur að viðskiptum þeirra við fjölmiðla.

Sunday, June 26, 2016

Af framtíðaráformum Kevin Durant og Oklahoma


Nú þegar nýliðavalið árlega er afstaðið, geta NBA-miðlar í Bandaríkjunum nú einbeitt sér að ekkifrétt sumarsins, sem snýst um Kevin Durant og framtíðaráform hans á atvinnumarkaði. Þið vitið hvað við erum rosalega spennt fyrir svona skrumi, eða hitt þó heldur.

En rétt eins og aðrir NBA-miðlar, erum við hér á NBA Ísland með lesendur sem eru sumir hverjir forvitnir um svona mál og því verðum við að reyna að koma til móts við þá. Okkur leiðast kannski ekkifréttir um félagaskipti eða ekki félagskipti NBA leikmanna, en við erum bæði með hugmyndaflug og skoðanir, þannig að kannski er upplagt að við leggjum okkar lóð á vogarskálarnar í þessu leiðindamáli. 

Við segjum leiðindamáli, af því þetta skrum í kring um Durant er og verður eitt stórt leiðindamál og ekkifréttir þangað til hann gerir upp hug sinn, en þá verður ákvörðun hans frétt í einn eða tvo daga áður en allir steingleyma henni þangað til hann verður með lausa samninga næst.

Eins og flest ykkar vita líklega, hafa forráðamenn Oklahoma City ekki setið auðum höndum síðan liðið þeirra var slegið út úr keppni á sársaukafullan hátt í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar um daginn. Segja má að þeir hafi stolið senunni kvöldið sem nýliðavalið fór fram, þegar þeir ákváðu að ráðast í stórviðskipti á leikmannamarkaðnum.Þannig ákváðu Oklahoma-menn að skipta framherjanum Serge Ibaka til Orlando Magic í staðinn fyrir framherjann Ersan Ilyasova, bakvörðinn Victor Oladipo og framherjann unga Domantas Sabonis sem Orlando tók fyrir þá númer ellefu í nýliðavalinu síðar um kvöldið. Sabonis þessi er af ákaflega góðum körfuboltaættum eins og flest ykkar vita líklega, en hann er sonur miðherjans Arvydas Sabonis sem lék með Portland Trailblazers á árunum 1995-2003.

Menn og konur voru afar fljót að mynda sér sterkar skoðanir á þessum viðskiptum og við erum þar engin undantekning, þetta þykir okkur ansi djarfur og kappsamur leikur hjá Oklahoma-mönnum. 

Eitthvað hefur verið talað um að þarna sé um fyrirbyggjandi aðgerðir að ræða hjá Oklahoma, því Ibaka átti ekki langt eftir af samningi sínum við félagið og ljóst var að það yrðu engir smáaurar sem hann kæmi til með að fara fram á þegar að því kæmi. Bæði af því hann gegnir jú mikilvægu hlutverki hjá liðinu og af því að launaþakið í NBA deildinni er að hækka langt upp fyrir öll velsæmismörk, ekki ósvipað og húsnæðisverð í Reykjavík.

Það er ekkert leyndarmál að tölfræðin hans Serge Ibaka er búin að vera að dala með nokkuð áberandi hætti síðustu ár, en Oklahoma-pennar segja að það megi að hluta skrifa á þjálfarateymi liðsins, því Ibaka hafi verið beðinn um að gera hluti sem urðu ekki beint til að fóðra hjá honum tölfræðina. Til dæmis hafi minnkandi frákastatölur komið til út af því að Ibaka gerði meira af því að elta minni menn úti á velli í stað þess að vera undir körfunni. Það er sitt hvað til í þessu, meira að segja við vitum það.


Annað sem olli okkur áhyggjum - og eflaust forráðamönnum og stuðningsmönnum Oklahoma líka - var hvað 3ja stiga nýtingin hans var búin að hríðlækka undanfarið. Hlutverk Ibaka í sókninni var jú á margan hátt fólgið í því að standa fyrir utan línu og teygja á vörnum andstæðinganna - t.d. með því að toga stóru mennina með sér út úr teignum svo þeir væru ekki fyrir Russell Westbrook þegar hann keyrði á körfuna.

Stigaskor Serge Ibaka lækkaði úr 15,1 stigi fyrir þremur árum niður í 12,6 í ár og þriggja stiga nýtingin hans fór úr 38,3% fyrir þremur árum, sem er afbragð, niður í innan við 33% á liðnum vetri. Á sama hátt hrundi hann niður í blokkeringum, þar sem hann varði mest 3,7 skot 2012, en aðeins 1,9 í vetur.

Loks datt hann niður í fráköstunum, úr 8,8 fyrir þremur árum og niður í aðeins 6,8 í vetur, sem er heilu frákasti minna en leikstjórnandi liðsins tók (þó hann sé líklega öflugasti frákastari í sögu NBA miðað við hæð og stöðu á vellinum. Hér er að sjálfssögðu verið að tala um Russell Westbrook. Við misnotum ekki tækifæri til að tala um Russell Westbrook. Það væri asnalegt).

Þessi þróun í tölfræðinni er vissulega áhyggjuefni, en það sem gerði Ibaka að þeim algjöra lykilmanni sem hann var í liðinu, kemur hvergi fram á tölfræðiskýrslum. Þar erum við auðvitað að tala um varnarleikinn.

Varnarleikur Oklahoma var ekki eins góður í deildarkeppninni í vetur og undanfarin ár og þið munið eflaust eftir því að það var ein af ástæðunum fyrir því að við rökkuðum liðið niður í vor og sögðum að það ætti ekki möguleika á að gera neitt í úrslitakeppninni. 

Við erum alveg handviss um að Serge Ibaka átti þarna stóran hlut að máli, enda er hann búinn að vera mikilvægasti maður liðsins í vörninni í mörg ár.

En þegar kom inn í úrslitakeppnina um daginn, var allt í einu komið allt annað hljóð í Oklahoma-liðið og skyndilega var eins og hefði "tekið sig upp gamall varnarleikur" hjá þeim. Allt í einu voru leikmenn liðsins eins og byssukúlur út um allt gólf í vörninni, nóg til að slátra San Antonio og keyra meistara Golden State alveg út á bjargbrún, lamaða af ótta eins og Krókódílamanninn eftir viðskiptin við bjargvættinn Laufeyju í texta Magnúsar Þórs Jónssonar.Oklahoma varð fyrsta liðið til að finna svör við ógnarsterkum sóknarleik Golden State Warriors og gerði það með liðsuppstillingu sem NBA-penninn Nate Duncan kallaði Megadeath uppstillinguna, sem er ákaflega vel að orði komist. Lykilmaður í þessari aðferðafræði var að sjálfssögðu Serge Ibaka og þessi leikaðferð hefði trúlega aldrei gengið eftir með einhverjum öðrum leikmanni, því menn sem eru með þennan pakka af lengd, snerpu og íþróttamennsku eru teljandi á fingrum annarar handar - ef það.

Sopa benetFriday, June 24, 2016

LeBron James inn í elítu NBA Ísland


Við tókum þá meðvituðu ákvörðun að bíða aðeins með það að skrifa þennan pistil, til að láta tilfinningarússíbanann eftir oddaleikinn í lokaúrslitunum ekki hafa of mikil áhrif á okkur. Ykkur grunaði eflaust að þessi væri á leiðinni. LeBron James pistillinn. Þið höfðuð rétt fyrir ykkur.

Enginn körfuboltamaður hefur fengið neitt nálægt þeirri umfjöllun sem LeBron James hefur fengið á þessu vefsvæði, sem er ofureðlilegt, því það er stofnað þegar hann var orðinn besti körfuboltamaður í heimi. Og núna, einum sjö árum síðar eða svo, er hann það ennþá.

James var ekki besti leikmaður deildarkeppninnar í vetur frekar en síðasta vetur, þó hann væri með óguðlega tölfræði og skilaði liði sínu eitthvað upp undir 60 sigra eins og hann gerir á hverju ári. Við hefðum öll rekið upp stór augu ef einhver annar leikmaður hefði skilað þessari tölfræði hans, en við tökum framlagi hans alltaf sem sjálfssögðum hlut.

Væri James ekki að hugsa um að stilla álaginu í jafnt hóf yfir veturinn og spara sig fyrir úrslitakeppnina, væri hann líklega búinn að bæta einni eða tveimur styttum við þessar fjórar sem hann á uppi á hillu og afhentar eru leikmanni ársins í deildarkeppninni. En hann er að safna annars konar gripum núna og annars konar styttum.Við erum ekki enn farin að fatta hverning í fjandanum Cleveland fór að því að vinna meistaratitilinn árið 2016. Það er eins og sé eitthvað undarlegt í loftinu þessa dagana. Þið þurfið ekki að horfa lengra en á Evrópumótið í knattspyrnu í Frakklandi til að átta ykkur á því hvað við erum að meina. Kannski væri ekki vitlaust að fara og kaupa lottó, nú þegar 1. vinningur þar stefnir í 100 milljónir króna. Hver veit?

Eins og við héldum fram í neikvæðni okkar og leiðindum í síðasta pistli, förum við aldrei ofan af því að betra liðið hafi tapað þessu úrslitaeinvígi. Við vitum alveg að betra liðið vinnur alltaf í sjö leikja seríu og því er ákveðin mótsögn fólgin í þessari fullyrðingu, en getur betra liðið ekki tapað seríu ef leikmenn þess eru orðnir of þreyttir til að spila og besti leikmaðurinn gengur ekki heill til skógar?

Við erum nú hrædd um það. Og þetta kom fyrir Golden State Warriors núna.

Þeir voru orðnir bensínlausir og mættu besta körfuboltamanni í heimi sem var búinn að fá miklu þægilegra prógramm en þeir í úrslitakeppninni.

En það er ekki Golden State sem er viðfangsefni þessa pistils - það er LeBron James. Það má vel vera að Warriors-liðið hafi ekki spilað upp á sitt besta í lokaúrslitunum - það gerði það sannarlega ekki - en LeBron James gæti ekki verið meira sama.

Hann er búinn að rífa þetta ævintýri til sín, snúa því með hæfileikum og handafli, losa prinsessuna úr álögunum og giftast henni og allir lifðu hamingjusamir til æviloka. Amen.

Forsíðumyndina með þessari færslu bjuggum við til í fyrra. Þá vorum við alltaf að bíða eftir tækifæri til að skrifa LeBron James inn í meistaraklúbbinn, þar sem aðeins allra, allra, allra bestu leikmenn sögunnar fá aðgang. Fattiði, Jordan, Larry og Magic. Þannig klúbbur.Við verðum að segja alveg eins og er, ekki hefði okkur svo mikið sem dreymt um að James myndi pikka í okkur og minna okkur á að skrifa þessa grein með því að vinnna annan meistaratitil. Það töldum við - og þið örugglega - algjörlega ómögulegt.

Jú, jú, Cleveland hefur alltaf ákveðið forskot á fulltrúa vestursins í lokaúrslitum af því leið þess í gegn um austrið er svo átakanlega létt, en James og félagar geta ekkert að því gert. Þeir spila bara við það sem sett er fyrir þá og undanfarin ár hefur það verið svo mikið drasl að það er tímasóun að spila þessi einvígi. Sóun á tíma, sóun á sjónvarpsrétti, svo mikið bull að þessir klúbbar ættu að skammast sín.

Thursday, June 23, 2016

Wednesday, June 22, 2016

Okkur þykir það leitt, en...


Úrslitaeinvígin í NBA deildinni eru alltaf söguleg upp að vissu marki, en úrslitaeinvígið sem við fengum í ár var alveg sérstakt - einfaldlega eitt af þeim allra, allra bestu. Og það er Cleveland sem vann þetta allt saman. Cleveland! Margir trúa því ekki enn.

Margir héldu að úrslitarimma Cavs og Warriors yrði alltaf ákveðið skref niður á við í drama og gæðum frá stórkostlegu einvígi Golden State og Oklahoma um daginn, en lokaúrslitin voru ekki aðeins á pari við þá seríu - þau voru betri! Og það segir sína sögu.

Þeir voru ekki margir, sérfræðingarnir sem spáðu Cleveland sigri í þessu einvígi og ef þú hefur lesið eitthvað af pistlum okkar hér á þessu vefsvæði í vetur, veistu að þetta kemur okkur gríðarlega á óvart. Að Cleveland skuli hafa hirt titilinn af Golden State, er nokkuð sem við hefðum talið óhugsandi fyrir aðeins nokkrum dögum síðan, en nú er það orðin staðreynd sem við verðum að rannsaka nánar.Staðreyndin er nefnilega sú að Golden State er betra lið en Cleveland. Meira að segja miklu betra. Og það fékk tækifæri til að sýna okkur það enn einu sinni í þessum mánuði, en það tókst ekki að þessu sinni. Öllum verður á í messunni annað slagið og þegar Warriors-menn ætluðu að sýna okkur enn og aftur hvað þeir eru með gott tak á Cleveland, misstu þeir takið á seríunni sem þeim var gefin til þess.

Þið vitið alveg jafn vel og við að Warriors-liðið er betra en Cleveland. Þið sáuð Golden State vinna úrslitaeinvígið í fyrra nokkuð sannfærandi þegar upp var staðið, þið sáuð Warriors vinna leiki liðanna í deildarkeppninni í vetur og þið sáuð Curry og félaga komast í 2-0 og 3-1 í rimmu liðanna á dögunum.En lengra komust þeir ekki. Þeir misstu Cleveland fram úr sér og töpuðu. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar og okkur grunar að þú sért einmitt að lesa þennan pistil af því þig langar að vita hvað gerðist í þessu einvígi. Hvernig í ósköpunum fór Golden State að því að tapa úrslitaseríu eftir að hafa verið komið 3-1 yfir? Eftir svona frábæran og sögulegan vetur?

Við skulum ekki pína þig lengur. Ástæðurnar fyrir tapi Warriors eru banvæn blanda af kæruleysi, hroka, meiðslum, þreytu, óheppni og einum hálfguði. Hálfguðinn er LeBron James, ef það er að vefjast fyrir þér.Þetta kemur kannski út eins og við séum að gera lítið úr Cleveland og gjaldfella meistaratitilinn þeirra, en það er nú ekki ætlunin hjá okkur. Við erum bara að benda á sannleikann hérna. Við höldum hvorki með Cleveland né Golden State og er nokk sama hvort þessara liða vinnur þegar þau mætast í úrslitum. Við vorum ákaflega ánægð fyrir hönd LeBron James þegar hann vann þriðja titilinn sinn, en eigum annars ekki hest í þessum veðreiðum.

Ákvörðun Golden State að eltast við sigrametið í deildarkeppninni í vetur var nokkuð umdeild og það er ekki nokkur spurning að hið aukna álag sem fylgdi þeim áformum gerði Warriors-mönnum erfiðara fyrir í úrslitakeppninni.Á meðan var pressa á þeim fyrir nánast hvern einasta leik í vetur (þar sem þeir fengu oftast verðuga samkeppni frá mótherjanum af því þeir voru jú meistararnir) var Cleveland á krúskontról eftir hraðbrautum Austurdeildarinnar. Þá er ótalið að Golden State flýgur miklu, miklu lengra en Cleveland yfir veturinn, en förum ekki nánar út í það hér.

Margir segja að Warriors hefðu aldrei átt að eltast við þessi met í deildarkeppninni af því það væri meistaratitillinn sem skipti máli, ekkert annað. Þetta fólk hefur ekki skilning á því hvernig NBA deildin virkar. Þú segir ekki tiltölulega ungu og sögulega góðu körfuboltaliði að sleppa því að verða kallað besta lið allra tíma! Auðvitað læturðu slag standa, svona einu sinni! Ekki vera asni! Met eru til að slá þau!Warriors-liðið var nær óþekkjanlegt á löngum köflum í lokaúrslitaeinvíginu og það var að hluta til af því mannskapurinn var bara búinn á því. Búinn á því eftir langan og strangan vetur og bensínlaus eftir maraþonviðureign við Oklahoma í einvíginu á undan þar sem það þurfti sjálft að koma til baka eftir að hafa lent undir 3-1.

Meiðsli settu sinn svip á þetta líka. Stephen Curry var aldrei hann sjálfur í þessari úrslitakeppni, ekki nema í litlum rispum og það skiptir gríðarlegu máli fyrir allt gengi Warriors. Svo dettur Bogut út og Iguodala var ónýtur í bakinu. Þetta hjálpaði ekki.

Warriors menn gerðu sig líka seka um hroka og kæruleysi. Aftur fyrir bak sendingarnar hans Stephen Curry og afleit frammistaða hans á löngum köflum í varnarleiknum, eru færð í þann flokk. Meistararnir þáverandi héldu að þetta væri bara komið eftir tvo leiki - og endanlega búið eftir fjóra. Að þeir gætu bara látið sig renna í mark.Þá kom þetta Draymond Green dæmi upp á, enn eitt pungsparkið og leikbannið og hvað það nú var. Við erum ekki viss um að það hafi endilega verið rusltalið í Draymond sem kveikti í LeBron James (hann er ekki vanur að sækja sér mótiveríngu í einhverju til að verða brjálaður yfir), en eitthvað var það sem gerði það að verkum að hann tók þetta einvígi og sneri því við - nánast upp á sitt einsdæmi.

Og eins og þið sjáið, var það LeBron James sem var stóra breytan í einvíginu. Við vorum nánast hætt að öskra á sjónvarpið þegar kom að James. Fyrst sótti hann allt of lítið á körfuna og þegar hann loksins fór að sækja á körfuna, náði hann ekki að hitta nokkurn skapaðan hlut og því slógum við því föstu að hann væri bara orðinn of lúinn til að slútta.Var hann orðinn of gamall allt í einu!?! Það var það eina sem okkur datt í hug, en eins og þið sáuð í þremur síðustu leikjunum, reyndist það blessunarlega vera þvættingur. Ætli hann hafi ekki bara verið að geyma það besta þangað til í lokin.

James átti mestan þátt í því að Cleveland náði að vinna einvígið sem það átti ekki að geta unnið og við munum segja ykkur hvað okkur finnst um það í sérstökum pistli hér á NBA Ísland innan skamms.

En þrátt fyrir hetjúdáðir LeBron James, fékk hann nú smá hjálp frá félögum sínum líka. Kyrie Irving sýndi að hann getur ekki bara hangið á bolta og skorað hetjukörfur úr glórulausum færum í deildarkeppninni - heldur getur hann það í lokaúrslitum líka. Sem er áhrifamikið.Meira að segja Kevin Love hjálpaði til í úrslitaleiknum og (gúlp) JR Smith átti sennilega rispuna sem kveikti endanlega í Cleveland-liðinu í oddaleiknum. Við sögðum einhvern tímann að það yrði ekkert lið meistari sem þyrfti að treysta á mann eins og JR Smith í lykilhlutverki.

Ekki eruð þið hissa á því. Maðurinn er bandormur og vitleysingur. En mjög svo sveiflukenndur leikur hans í skotbakvarðarstöðunni nægði Cleveland að þessu sinni. Það er ekki annað en frekari sönnun þess hve yfirnáttúrulegur LeBron James var í úrslitunum.

Þrátt fyrir allt þetta mótlæti var Golden State nú samt aðeins tveimur sóknum frá því að verja titilinn sinn, sem einmitt þess vegna hlýtur að vera ennþá grátlegra fyrir leikmenn og þjálfara liðsins. Þeir töpuðu fyrir liði sem var orðið "tíkin þeirra" og geta ekki kennt neinum öðrum en sjálfum sér um það.

Þeir eiga líka eftir að gera það í allt sumar og við höfum trú á því að þeir komu brjálaðir en einbeittir til leiks næsta vetur og nýti sér þessa auknu reynslu til að hirða aftur það sem þeir telja að tilheyri þeim í júní á næsta ári.

Annað sem þarf að taka fram. Þó leikmenn Golden State hafi stundum spilað hrokafullan bolta og þó þeir fari orðið í taugarnar á mjög mörgum (eins og meistaralið eiga að gera), var framkoma þeirra algjörlega upp á tíu eftir leik. Þeir gáfu sér tíma til að þakka mótherjum sínum fyrir leikinn, hrósa þeim og sýna almenna auðmýkt sem er ekki á allra færi. Warriors-menn hafa sem sagt sýnt okkur að þeir kunna bæði að vinna og tapa eins og herramenn.Þessari hugleiðingu ekki ætlað að vera árás eða hraun yfir það sem Cleveland hefur afrekað í vetur, þvert á móti. Það að Cavs hafi náð að rífa titilinn af liði sem er búið að ná öðrum eins árangri og Warriors er ekkert minna en afrek.

Málið er bara að Golden State er búið að vera dálítið eins og Stephen Curry undanfarið. Þú sérð glefsur af snilldinni annað slagið, en ekkert í líkingu við það sem hann sýndi okkur dag eftir dag í vetur. Það skilar þér eitthvað áleiðis, jafnvel í úrslit, en það er ekki nóg til að vinna titil. Ekki þetta árið að minnsta kosti.