Friday, February 24, 2017

Félagaskiptagluggalokunarhlaðvarpið


Nokkur félög í NBA deildinni nýttu síðasta tækifærið til að styrkja sig áður en félagaskiptaglugganum var lokað í gærkvöldi. DeMarcus Cousins var stærsta nafnið sem skipti um heimilisfang þegar hann fór frá Sacramento til New Orleans, en hann var sannarlega ekki eini maðurinn sem skipti um lið í síðustu viku.

Í 76. þætti Hlaðvarps NBA Ísland fara þeir Baldur Beck og Gunnar Björn Helgason ítarlega yfir öll helstu félagaskiptin sem litu dagsins ljós fyrir lokun gluggans og hvaða áhrif þau munu hafa í framhaldinu. Þá ræða þeir stórar hrókeringar á skrifstofunni hjá Los Angeles Lakers, þar sem Magic Johnson er nú orðinn kóngur í ríki sínu.

Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á t.d. símann ykkar eða mp3 spilarann. Þessi nýjasti þáttur hlaðvarpsins er í boði ritstjórnar NBA Ísland og er því ókeypis, en ef þig langar að auglýsa vöruna þína hjá okkur, er þér velkomið að senda okkur línu á nbaisland@gmail.com. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Kærleikur og blíðuhót sem kynnu að vakna hjá hlustendum vegna hlaðvarpsins er heppilegast að senda á netfangið nbaisland@gmail.com, en það má einnig nota til að koma á framfæri spurningum eða hugmyndum varðandi hlaðvarpið eða síðuna í heild. Við reynum að svara öllum bréfum sem berast, enda eru það hlustendur og lesendur síðunnar sem halda geiminu gangandi.

Framundan í NBA á Stöð 2 SportAf gefnu tilefni viljum við benda ykkur á að smávægilegar breytingar hafa verið gerðar varðandi beinu útsendingarnar úr NBA deildinni á Stöð 2 Sport það sem eftir er af deildarkeppninni. Sportið hefur haldið sig fast við föstudagskvöldin þegar kemur að NBA deildinni í vetur, en óheppilegir sýningartímar gerðu það að verkum að ákveðið var að færa nokkrar útsendingar af föstudögum yfir á sunnudaga. 

Þannig var leikurinn sem fyrirhugað var að sýna næsta föstudagskvöld ekki á dagskrá fyrr en klukkan hálffjögur aðfararnótt laugardagsins, en sunnudagsleikurinn er á dagskrá klukkan 20:30, sem augljóslega er miklu heppilegri sýningartími fyrir alla. 

Hér fyrir neðan sjáið þið beinu útsendingarnar sem eftir eru í deildarkeppninni á Stöð 2 Sport. Við hvetjum ykkur til að geyma þetta plan og kynna það um leið fyrir þeim sem kynnu að hafa áhuga á því. Þau ykkar sem eruð reglulegir lesendur NBA Ísland vitið svo að upplýsingar um beinar útsendingar frá NBA á Sportinu og NBATV er jafnan að finna á dagskrársíðunni okkar hér á þessu vefsvæði.

Ef þið hafið spurningar þessu tengt er ykkur velkomið að hafa samband á nbaisland@gmail.com og við munum gera okkar besta til að leiða ykkur í sannleikann. Hafið ástarþakkir fyrir.

Sunnudaginn 26. febrúar: LA Lakers - San Antonio kl. 20:30
Sunnudaginn 5. mars: New York - Golden State kl. 20:30
Föstudaginn 10. mars: Minnesota-Golden State kl. 01:00
Föstudaginn 17. mars: Detroit-Toronto kl. 23:30
Sunnudaginn 26. mars: Houston - Oklahoma kl. 19:30
Sunnudaginn 2. apríl: San Antonio - Utah kl. 19:30
Föstudaginn 7. apríl: Houston-Detroit kl. 00:00


Tuesday, February 21, 2017

Nokkur orð um vistaskipti DeMarcus Cousins


Þetta kom dálítið aftan að okkur öllum. Anthony Davis var nýbúinn að leggja frá sér styttuna sem hann fékk fyrir að vera kjörinn leikmaður kvöldsins í Stjörnuleiknum og flest ykkar gengin til náða. Það var búið að vera eitthvað félagaskiptapískur í gangi yfir daginn, en menn færu nú ekki að skipta leikmönnum milli félaga á meðan þeir væru að spila Stjörnuleikinn, fjandakornið!

Jú, reyndar.

Sérstaklega ef menn eru Sacramento Kings. Og það þó allir sem réðu einhverju hjá Kings væru nýbúnir að sverja það að DeMarcus Cousins yrði ekki látinn fara frá Sacramento. Það liðu einhverjar fimmtán mínútur frá þessari hollustuyfirlýsingu Vlade Divac og félaga þangað til þeir pökkuðu nærbuxunum hans ofan í tösku og sendu hana í express til eiganda síns, sem í kaldhæðni örlaganna var einmitt staddur í New Orleans.

Þið sem hafið fylgst með atvinnuboltagreinum lengur en í eitt ár vitið ósköp vel að rekstur NBA liða er bissness en ekki fjölskylda. Einstaka klúbbar reyna að rembast við það að halda uppi einhvers konar fjölskylduímynd, en fæstum tekst það eins og nýleg dæmi með t.d. Miami Heat hafa sýnt.

Nei, viðskipti eru viðskipti eins og þeir segja og þó tímasetningin á þessum Cousins-viðskiptum hafi verið dálítið undarleg, kom hún svo sem ekkert á stórkostlega mikið á óvart. Cousins er búinn að vera í innsta kjarna slúðurfrétta í nokkur ár en ekki nokkrar vikur.

Flestir voru reyndar farnir að hallast að því að hann myndi framlengja við Kings af því þar átti hann möguleika á að fá svo miklu hærri samning hjá uppeldisfélagi sínu en í boði væri hjá einhverju hinna 29 liðanna í deildinni. Hann þarf svo sem ekki að svelta þó hann verði af þessum auka milljörðum sem hann hefði átt rétt á hjá Kings en við höfum svo sem engan áhuga á þeim hluta málsins.

Við höfum alltaf fyrst og fremst áhuga á körfuboltanum sjálfum og hvað þessi skipti þýða fyrir körfuboltalið New Orleans og Sacramento í framhaldinu. Við munum í fljótu bragði eftir einum NBA-penna sem fussaði ekki og sveiaði yfir því hvað Sacramento fékk lítið fyrir ofurstjörnuna sína og við verðum að taka undir þá hneykslan. DeMarcus Cousins er stórkostlega gallaður einstaklingur, en hæfileikar hans einir saman ættu að tryggja það að Kings fengju eitthvað smávegis í staðinn fyrir hann - jafnvel þó hann sé með lausa samninga í sumar.

En, nei. Það er varla hægt að segja það og það er ekkert við því að gera. Sacramento átti auðvitað að vera búið að selja manninn frá sér fyrir lifandi löngu, þegar það hafði einhver spil á hendi sér. Núna höfðu liðin sem voru að sparka í dekkin á Cousins með nánast öll spilin á sínum höndum. Þau þurftu ekkert að taka Cousins frekar en þau vildu. Þau gátu leyft sér að vega og meta stöðuna í rólegheitunum meðan forráðamenn Kings svitnuðu.

Vlade Divac og félagar vissu að klukkan var farin að tikka. Þeir urðu að gera eitthvað núna ef þeir ætluðu að fá eitthvað fyrir miðherjann sinn. Og ef við skoðum þessi viðskipti út frá því sjónarhorni, er það sem Sacramento fékk til baka kannski ekki svo slæmt - þó það sé auðvitað fjarri því að vera gott.

Það sem er áhugaverðast í þessu frá okkar bæjardyrum séð er tímasetningin á ákvörðun Kings. Fólk veltir því fyrir sér hvort eitthvað í fari Cousins undanfarna daga og vikur hafi jafnvel verið þúfan sem velti hlassinu endanlega. Allar þessar tæknivillur til dæmis - sem farnar eru að kosta leikbönn.

Það er ekki gott að segja hvað veldur og það skiptir náttúrulega ekki nokkru einasta máli núna, því félagaskiptin eru að fara í gegn, ef við gefum okkur að allir nái að ljúga sig í gegn um læknisskoðun (við eigum reyndar eftir að sjá Tyreke Evans sleppa í gegn um læknisskoðun, en það vill svo heppilega til að hann hóf auðvitað ferilinn sinn hjá Sacramento Kings á sínum tíma og því geta þeir bara ljósritað gamla skýrslu um hann og breytt dagsetningunni. Ekkert vesen!).


Fyrir utan nýliða, valrétti og aukaleikara er það DeMarcus Cousins sem er þungamiðjan í þessum viðskiptum og þó við vitum öll að hann er æpandi geðveikur, er framkvæmdastjóri New Orleans einfaldlega að bjarga starfinu sínu með þessum gjörningi.

Cousins er gallagripur, en hann er stórstjarna sem á að geta myndað eitt óárennilegasta sóknartvíeyki NBA deildarinnar með Anthony Davis og þó vissulega sé nokkur áhætta fólgin í því að fá til sín tímasprengju eins og Cousins, er það algjörlega áhættunnar virði af því félagið þurfti alls ekki að borga mikið fyrir hann.

Cousins er reyndar með lausa samninga í sumar og ef hann og umboðsmaður hans standa við hótanir sínar um að skrifa ekki undir neina samninga sem hugnast þeim ekki, yrði það auðvitað nokkuð blóðugt ef þessi viðskipti tryggðu Pelicans ekki annað en nokkurra mánaða leigu á miðherjanum. En, enn og aftur, þetta var ekki svo hrikalega dýrt dæmi og trúið okkur - þessi viðskipti voru eini fræðilegi möguleikinn sem New Orleans átti á því að næla sér í stjörnu á félagaskiptamarkaðnum. Auðvitað stökkva þeir á þetta!


En öllum er okkur sama um hvað stendur í samningnum hans Cousins. Við viljum vita hvort hann getur gagnast New Orleans eitthvað; hvort hann og Davis geta orðið þetta skaðræði á vellinum sem þeir eru sannarlega á pappírunum. Og þið eruð komin inn á NBA Ísland til að leita svara við þessum spurningum, af því þið megið ekki vera að því að bíða í margar vikur eftir því að fá að vita það.

Þið vitið líka að ritstjórn NBA Ísland er alltaf tilbúin að gera sig að fífli með illa ígrunduðum yfirlýsingum í allar áttir um allt og alla. Það er ein slík á leiðinni hérna um leið og þú lest þetta og við þurftum ekki að kreista hana upp úr okkur. Þið sem hafið fylgst eitthvað með hér á síðunni vitið hvað okkur finnst um hann Boogie Cousins og því vitið þið hvað okkur finnst um þessi félagaskipti.


Það var um að gera fyrir New Orleans að kýla á þetta. Ekki spurning. Sacramento hefði eflaust átt að fá eitthvað meira fyrir sinn snúð - Vlade Divac missti meira að segja út úr sér að honum hefði verið boðið meira en hann hefði klúðrað því - en Sacramento er bara Sacramento og Sacramento klúðrar alltaf hlutunum.

Það sem stuðningsmenn Kings geta þó sætt sig við er að félaginu er ekki lengur haldið í gíslingu af ofvöxnu, geðveiku og agalausu barni sem á allt of mikið af peningum og hefur aldrei fengið nei. Það eru sama og engir hæfileikar eftir í Sacramento, en þó að við vitum að forráðamenn félagsins eigi bara eftir að halda áfram að klúðra öllu, skuluð þið ekki láta ykkur bregða þó liðið sjái eitthvað aðeins til sólar á næstunni nú þegar búið er að skera krabbameinið í burtu.

Sjáið bara hvernig sjónvarpsmaður Sacramento Kings óð fram á ritvöllinn um leið og ljóst var að Cousins væri á útleið. Við vissum alveg að ástandið væri svona slæmt í Sacramento, en hversu oft sjáum við svona ummæli látin falla í NBA deildinni? Ekki oft.

Vissulega er það spennandi tilhugsun að láta sig dreyma um hvernig tveir af hæfileikaríkustu ungu stóru mönnunum í NBA í dag koma til með að vinna saman í sóknarleiknum (við skulum halda okkur á jörðinni - varnarleikurinn kemur seinna ef hann kemur yfir höfuð) og þið getið hengt ykkur upp á það að við eigum eftir að stilla inn á leiki New Orleans í forvitni okkar á næstunni.

Við skulum þó ekki fara fram úr okkur, því ef við eigum að greina þessi félagaskipti, verðum við að byrja á byrjuninni. Okkur þykir það leitt ef þessar æfingar okkar draga ykkur niður og koma ykkur á bömmer, en þið vilduð fá okkar skoðun á þessu.

DeMarcus Cousins er búinn að spila með Sacramento Kings í sjö ár og á þeim tíma hefur hann ekki náð nokkrum einasta árangri. Hljómar kannski hart, en þetta er staðreynd. Nema þú kallir það árangur að ná einu sinni að vinna 30 leiki á sjö árum árangur. Við héldum ekki.

Ástæðurnar fyrir erfiðleikum Kings hafa verið margþættar, en hluti þeirra lá hjá DeMarcus Cousins. Eins hæfileikaríkur og hann er - og hann stenst fyllilega tölfræðisamanburð við nánast hvaða miðherja sem er í sögu NBA - þá er hann latur, geðveikur, eigingjarn og fullkomlega agalaus, en þessir skapgerðarbrestir eru einmitt akkúrat andstæða þess karakters sem stórstjarna/leiðtogi NBA liðs þarf að búa yfir.

Ef við snúum þessu við til gamans, erum við komin með leikmann sem er duglegur, andlega sterkur, óeigingjarn, agaður og fórnfús. Og ef þetta eru ekki helstu kostirnir í skapgerð Tim Duncan, þá vitum við ekki hvað. Þarna sjáið þið, þetta er ekki flóknara.Þegar þetta er haft í huga, er ljóst að DeMarcus Cousins á sér hreint ekki bjarta framtíð sem sigurvegari í NBA deildinni og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, á hann bara einn möguleika á að komast í snertingu við einhvers konar velgengni.

Og það er ef hann endar hjá félagi með sterkan kúltúr, grjótharða skrifstofu, reyndan þjálfara sem hlustar ekki á neitt múður og liðsfélaga sem eru blanda af stjörnum og reynsluboltum.

Kannski voruð þið búin að geta ykkur til um það, en New Orleans Pelicans er hreint ekki svona félag og raunar ekki mikið nær því en Sacramento að vera svona fyrirmyndarklúbbur. Þið vitið sjálfssagt hvaða klúbbur það er sem við erum að lýsa - San Antonio er augljóslega félag sem uppfyllir megnið af þessum óraunhæfu kröfum - en málið er bara að það dugar ekkert minna þegar ólíkindatól eins og Cousins er annars vegar.


San Antonio er líklega eina félagið í NBA deildinni í dag sem tikkar í öll þessi box, en þó eru eitt og eitt félag í deildinni sem virðast hafa einhverja hugmynd um hvað það er að gera. Við höfum það sterklega á tilfinningunni að megnið af liðunum í deildinni hafi almennt séð ekki hugmynd um hvað þau eru að gera og gætu ekki svarað því hver langtímaáform þeirra væru þó þú stingir byssuhlaupi í andlitið á framkvæmdastjóranum.

En hvað um það. New Orleans er ekki félag með sterkan kúltúr. Það er félag með skárri kúltúr en Sacramento, en það segir fjandi lítið. Og af því að New Orleans er ekki með nógu sterkan kúltúr, skrifstofu og leiðtoga/stjörnur í leikmannahópnum, er þessi Cousins-tilraun dauðadæmd frá upphafi.

DeMarcus Cousins sýnir kannski á sér sparihliðarnar í nokkra daga, en svo fer hann strax aftur í sama horfið. Fer að halda félaginu í gísling með geðveiki sinni og agaleysi og strádrepur allan anda í búningsherberginu.

Hann verður fljótur að komast upp á kant við nýja þjálfarann - sennilega segir hann honum að fara til helvítis áður en langt um líður þegar þjálfarinn skammar hann fyrir að hafa fengið á sig sniðskot í þremur hraðaupphlaupum í röð af því Cousins var að öskra á dómarana og fá dæmdar á sig tæknivillur. Það er svona Cousins special, ef svo má segja.

Auðvitað vonum við að New Orleans breytist í Lísu í Undralandi og allt verði æðislegt, þeir Cousins og Davis nái óaðfinnanlega saman í vörn og sókn, liðið fari í úrslitakeppni og allir giftist prinsessunni, erfi kónginn og verði ríkir, gamlir og feitir, en þið vitið að þetta virkar ekki svona. Amk ekki þegar bandormar eins og DeMarcus Cousins eru annars vegar.

Við vonum fyrst og fremst að verði gaman að horfa á New Orleans spila um hríð og að við fáum að njóta þess að fylgjast með tveimur af hæfileikaríkustu körfuboltamönnum heims í kring um sjö fetin fara á kostum kvöld eftir kvöld.

Eða svona... þangað til Cousins springur í loft upp og gerir New Orleans að sama niðurdrepandi geðveikrahælinu og Sacramento hefur verið undanfarin ár.

Tuesday, February 14, 2017

Tuesday, February 7, 2017

Flóasvindlararnir


Ef þú ert í vafa, reyndu þá að styðjast við tölur, töflur og gröf sem sýna bullið sem er sóknarleikur Golden State Warriors...

Steph og KD voru einhverra hluta vegna kosnir kó-leikmenn mánaðarins í Vesturdeildinni eftir að Warriors-liðið þeirra straujaði flesta andstæðinga sína í janúar. Kannski hefði verið ósanngjarnt að gera upp á milli þeirra, en okkur er svo sem sama. Þetta snýst um hvað liðið er að gera, þegar allt kemur til alls.Það er samt hálfgerð bilun að skoða hvernig þessir brjálæðingar eru að skjóta boltanum. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað en svindl. Þeir eru að spila 2K á rookie-mode meðan allir aðrir eru að ströggla fyrir öllu sínu á styrkleikastigum fyrir lengra komna. (Stundum er betra að smella músarbendlinum á myndir sem virka óskýrar og stækka þær svo hægt sé að njóta þeirra til fullnustu. Bara smá heilræði, sem á t.d. við myndina hér fyrir ofan).

Þegar skotkortin þeirra skotfóstbræðra eru skoðuð, kemur ýmislegt undarlegt í ljós. Eins og t.d. hvernig Kevin Durant virðist ekki geta keypt körfu fyrir utan þegar hann er beint á móti körfunni og svo sökkar hann í hægra horninu. En restin er líka grænmálað glóruleysi, ef svo má segja. Fyrir þá sem ekki vita, marka grænu svæðin hittni yfir meðaltali í deildinni, gult er á pari og rautt er undir meðalhittni í deildinni. Þeir Curry og KD eru venjulega grænni en Jónas frá Hriflu og þessi leiktíð er engin untantekning hvað það varðar.

Sjáið þið t.d. hittnina hjá þessum mönnum úr þriggja stiga skotunum vinstra megin á ská. Hún ætti að vera bönnuð. Þeir eru búnir að taka 217 þrista af þessu færi í vetur og beisikklí búnir að hitta helmingnum af þeim. Sem er náttúrulega ekkert annað en rugl. Svo er fólk hissa á því að það geti enginn unnið þetta Warriors-lið!*

* - Djók. Það er enginn hissa á því. Ekki vera með þessa vitleysu!

Tuesday, January 31, 2017

LeBron er vanur því að safna liði


Það er ekkert nýtt að LeBron sé upptekinn við að reyna að skaffa sér nothæfa liðsfélaga. Grínið hérna fyrir neðan bar fyrir þegar hann var að safna liði hjá Miami fyrir sjö árum síðan.  Á margan hátt upplifum við þetta eins og þetta hafi gerst fyrir 20 árum síðan, en suman hátt eins og þetta hafi gerst í fyrra. Ja, hérna.
Monday, January 30, 2017

Austurdeildarvörutalning í janúar 2017


Um daginn skrifuðum við harðorðan rauntalspistil þar sem við viðruðum sterkar skoðanir okkar á stöðu mála í NBA deildinni. Til að gera langa sögu stutta, sögðum við að deildin væri pínu drasl akkúrat í dag, en það sem bjargaði henni væri að það væri óvenju mikið af alveg einstökum hæfileikamönnum að láta ljós sitt skína um þessar mundir. Liðin þeirra væru kannski léleg, en framboðið á hæfileikamönnum og piltum væri mjög gott.

Spekingar vestra hafa ekki tekið jafn sterklega til orða og við og hafa frekar fókusað á að valdajafnvægið í deildinni væri að breytast. Það er að hluta til rétt, því mörg af liðunum sem við kölluðum drasl í hroka okkar, eru lið sem eru jafnvel ung eða nýsamsett og því enn að finna sig. Það er löngu sannað að það tekur tíma að byggja upp góð lið í NBA deildinni, þó sum félög séu reyndar svo krónískt drasl að þau eru jafnvel búin að vera að byggja upp í áratugi án nokkurs árangurs *hóst* Knicks *hóst*

Hvað sem þessu líður, förum við aldrei af þeirri fasísku skoðun okkar að Austurdeildin sé ennþá drasl. Það má sjá ljósbirtu hér og þar í drullunni, en í það heila er þessi hluti deildarinnar ekkert annað en örlagarusl. Sjáðu bara þessa svokölluðu toppbaráttu í austrinu! Þetta er bara rugl!

Cleveland er gjörsamlega búið að drulla á sig undanfarið, en Toronto getur ekki kapítalíserað á það, af því það er að drulla á sig líka. Boston getur ekki kapítalíserað á það að Toronto sé að drulla á sig heldur og Atlanta getur ekki kapítalíserað á það að Boston sé að drulla á sig, af því þó það vinni reglulega fullt af leikjum í röð (nokkuð sem er óhjákvæmilegt þegar þú ert að spila megnið af leikjunum þínum í austrinu), þá tapa þeir alltaf jafnmörgum leikjum í röð beint í kjölfarið.

Austurdeildin er orðinn eins og mýrarboltaleikur milli tveggja drukkinna liða skipuðum kerlingum sem eru 60+ og 160+. Það er bara ekkert að frétta þarna núna.

Jú, jú, Washington er loksins f***íng farið að spila eins og það á að gera, en trúið okkur, það verður ekki lengi. Eins er Philadelphia líka farið að vinna nokkra körfuboltaleiki líka, sem er nokkuð sem ekkert okkar á eftir að venjast alveg strax.

En restin af austrinu er, lets feis it, drasl. Ekki kannski Brooklyn-drasl, ekki misskilja okkur, meira svona: "þið getið gleymt því að gera eitthvað í úrslitakeppninni næstu tvö til þrjú árin" -léleg.


Og þetta er ein af ástæðunum fyrir því að framkvæmdastjórar liðanna sem eru að þykjast vera að elta Cleveland í austrinu eru ekki að ýta spilapeningum sínum fram á borðið eins og stuðningsmennirnir vilja. Þess vegna reynir Toronto ekki að fá Paul Millsap, þess vegna er Danny Ainge of nískur til að eyða Brooklyn-valréttinum sem hann á.

Þessir menn vita sem er að í fyrra, í ár og kannski á næsta og þarnæsta ári, skiptir engu fjandans máli hvað þeir ná að kokka upp nógu góðum leikmannaskiptum eða yfir höfuð fá til sín leikmenn (fæst liðanna hafa burði eða kapítal til þess), þeir eiga enga möguleika á að slá Cleveland út úr úrslitakeppninni. Núll.

Cleveland hefur reyndar gert sitt besta til að halda í við stóru markaðina í New York og Chicago hvað varðar dramatík og þó að það sé ekkert nýtt að LeBron James taki smá sápudrama í fjölmiðlum, er ekki algengt að sjá hann vera eins harðorðan og bókstaflega ljótorðan eins og hann var um daginn þegar hann frussaði því út úr sér að liðið þyrfti hjálp - þyrfti annan playmaker.

Hmmm, ekki ætlum við að draga körfuboltaþekkingu LeBron James í efa, en við tippum á að það myndi kannski hjálpa Cleveland að rétta úr kútnum ef þeir myndu spila EINHVERJA vörn. En það gera þeir ekki og þeir eru ekki nógu góðir til að skjóta lið í kaf um þessar mundir - Korver eða enginn Korver.

Við erum búin að segja það 300 sinnum og eigum eftir að segja það 300 sinnum í viðbót: Cleveland MUN fá það - ekki í grillið - heldur á kaf í rassgatið, ef það hættir ekki að spila LeBron James svona óguðlegar mínútur í hverjum einasta leik. Það er ekki óráðlegt, það er bara pjúra heimska. Algjörlega fo***íng glórulaust. Afsakið orðbragðið, en það er ekki hægt að orða þetta öðruvísi! LeBron James er þremur 40 mínútna vikum frá því að fokka upp á sér hnénu. Við erum ekkert að grínast með þetta!Það getur vel verið að við höfum ekki nennt að skrifa það, en við erum nokkuð viss um að við gættum þess vel að taka það fram í einhverju hlaðvarpanna í haust að New York og Chicago væru á leið með hnífa í byssubardaga. Þau náðu bæði að blekkja okkur áleiðis fram að jólum, en nú eru herbúðir beggja klúbba eins og geðveikrahæli. Og í tilviki New York er það einmitt eins og menn vilja hafa það.

Það er ekki hægt að skipta um eiganda, því miður, þannig að öxin verður að falla á næsta mann í röðinni, Phil Jackson. Við berum gríðarlega virðingu fyrir Phil Jackson sem þjálfara, en maðurinn veit ekkert hvað hann er að gera sem framkvæmdastjóri. Eins ótrúlega og það hljómar, er NBA deildin búin að breytast gríðarlega síðan hann vann síðasta titilinn sinn með Lakers og það er margt sem bendir til þess að Jackson hafi orðið eftir í vegkantinum einhvers staðar á leiðinni í gegn um þessar breytingar.

Ekki misskilja, Phil Jackson hefur meira vit á körfubolta í hárunum í eyrunum á sér en við eigum eftir að sanka að okkur alla okkar ævi, en hvað mannaráðningar, stefnuskrá og lögfræði/samningahnoð varðar, er hann búinn að missa af lestinni. Ekki bara það. Hann veit ekki einu sinni hvar þá lest er að finna. Sérstaklega ekki þegar hann er ekki einu sinni í New York þegar liðið hans er að drulla upp á bak, leik eftir leik eftir leik. Við vottum aðdáendum Kristaps Porzingis innilega samúð okkar og skorum á stuðningsmenn Knicks að reyna hið ómögulega - að skipta um félag. Fara að halda með einhverju öðru félagi.


Það eru nákvæmlega þrjú lið í allri Austurdeildinni sem geta horft í spegil og sagt að þau eigi eitthvað í líkingu við bjarta framtíð. Philadelphia, Milwaukee og kannski Boston. Búið. Restin af liðunum eru annað hvort búin að toppa eða eiga litla sem enga möguleika á að verða góð. Almennilega góð, fattiði, ekki bara bleh-góð. Ekki horfa á okkur. Þetta er ekki okkur að kenna.

Framtíð Boston hefur verið talin björt allar götur síðan félagið rændi vitleysingana í Brooklyn öllum valréttum sínum í nýliðavalinu á einhverju sautján ára tímabili, en Danny Ainge og félagar eru alltaf að bíða eftir rétta tækifærinu, réttu skiptunum, rétta leikmanninum til að hrinda byltingunni almennilega í gang. Það er pótensjall þarna, en fyrir utan ofurmannskennda spilamennsku Isaiah Thomas í sóknarleiknum, hefur Celtics-liðið valdið vonbrigðum í vetur.

Já, já, sumt af því skrifast á meiðsli, en það eru öll liðin í NBA deildinni meidd. Öll, með tölu. Svo það þýðir ekkert að væla yfir því. Lið eins og Boston á að heita með breidd til að díla við meiðsli, nema kannski þegar kemur að algjörum lykilmönnum. Flestir tippuðu á að Boston ætti eftir að vinna 50 leiki í vetur, eftir að það bætti við sig einu ári í viðbót af reynslu og plögguðu Al Horford í miðjuna.

En eins og stundum vill verða þegar lið eiga að taka skrefið frá því að verða krúttleg og yfir í að fólk fari að gera kröfur á þau, eiga þau til að drulla á sig. Við erum ekki að segja að Boston sé búið að drulla á sig, en þessi frábæri varnarleikur sem liðið hefur verið að spila undanfarin ár er hvergi sjáanlegur í ár og liðið getur ekki frákastað til að bjarga lífi sínu, frekar en áður.

Við skulum spara hraunið á Boston um sinn í ljósi þess að liðið er búið að moka sig í annað sætið í austrinu í gegn um drulluhauginn eftir Toronto, en við eigum alveg eftir að sjá Boston vera með læti í vor.

Svipaða sögu er að segja af Milwaukee. Þar voru mjög spennandi hlutir að gerast fram að jólum, en nú er skyndilega svo komið að þetta lið getur ekki keypt sigur. Það er samt óþarfi að vera að fá heilablóðföll yfir því, lykilmenn Bucks eru ungir og vitlausir og eiga margt eftir ólært. Þeir verða að fá tíma.Viðsnúningur Sixers hefur verið með ólíkindum undanfarnar vikur og hélst nokkurn veginn í hendur við ógurlega spilamennsku Joel Embiid, sem hefur ekki aðeins skilað fallegum tölum, heldur hefur hann sprengt alla skala í tölfræði fyrir lengra komna líka. Philadelphia er að tapa leikjum með 700 stigum þegar hann er útaf, en vinna leiki með 1700 stigum þegar hann er útaf - eitthvað þannig.

En fyrir skömmu fóru svo að gerast þeir stórmerkilegu hlutir að liðið fór að vinna leik og leik án Embiid líka. Þessir leikir sem hann er að hvíla þessa dagana hræða úr okkur líftóruna og við vonum að þessi hnémeiðsli hans séu ekki alvarleg, en við skulum fúslega viðurkenna að eins mikið og við hötuðum aðferðafræði félagsins á liðnum árum, eigum við eftir að stilla á leiki Sixers þegar það fer að tefla þeim Embiid og Ben Simmons fram saman. Það. Verður. Eitthvað.

Árangur í NBA deildinni er Maraþonhlaup og það eina sem Philadelphia er búið að gera í þessu hlaupi er að undirbúa sig vel og klæða sig vel. Nú fer sjálft hlaupið að hefjast og í því getur allur fjandinn gerst. En það eru ekki mörg félög í NBA sem eru jafn vel undirbúin og jafn vel klædd og Philadelphia, svo það ætti eitthvað gott að geta gerst þarna á næstu árum. Ef skrifstofan klúðrar því ekki gjörsamlega.

Munið að það er ekki eins og Sixers-menn séu búnir að vera að færa körfuboltaguðunum gjafir á undanförnum árum. Meira svona farið út á svalir drukknir og öskrað á þá á hverju kvöldi og sagt þeim að fara til helvítis. Því verður áhugavert að sjá hverju Prósessinn skilar þegar upp verður staðið, en við fáum ekki að vita það fyrir alvöru fyrr en eftir allnokkur ár.