Friday, June 1, 2018

Meira svona, strákar!


Þetta var nú meiri vitleysan þarna í nótt...

Þvílíkur hvalreki fyrir fjölmiðlana, leikur eitt í lokaúrslitunum í ár.

Hvalreki fyrir fjölmiðlamennina. Þessa lötu - klárlega. Þessa sem hafa ekkert vit á leiknum, þessa sem hafa engan áhuga á leiknum - tékk, tékk. Og ekki gleyma þessum sem eru bara í þessu fyrir klikkbeituna og senseisjónalismann. Ekki leiddist þeim þetta.

Ofangreindar (en ekkert endilega mjög greindar) manngerðir mynda sorglega stóran hluta fjölmiðlafólks þarna úti. Og það má deila um það hvort við erum eitthvað skárri með því að opna hugleiðingu um fyrsta leik lokaúrslitanna á svona skítkasti en ekki umræðu um körfubolta. Leiðinlegt, en svona er þetta bara.

(Vertu samt ekkert að lesa lengra ef þér er illa við samhengislaust rant í allar áttir, sem byrjar sem körfubotamas en þróast svo fljótlega út í fordæmingar á barnaefni með vafasaman boðskap svo eitthvað sé nefnt. Þið vitið hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á þessu vefsvæði. Takið það og margfaldið það með þrjátíu - og þá fáið þið út vitleysuna sem flæðir í gegn um þessa færslu. Við berum enga ábyrgð á þessu. Þið hafið verið vöruð við

Annað var það, jú. Þessi aurskriða af hugleiðingu varð svo andskoti löng að við hvorki nennum né höfum tíma til að lesa yfir hana, svo farið umfram allt ekki að grenja þó hún sé full af bulli og villum. Við erum að reyna að starta okkur í gang aftur. Sýnið okkur umburðalyndi. Nú eða... fokkoff. Þetta er frítt efni. Lol).
Það kemur okkur sjálfum reyndar frekar á óvart að það fyrsta sem kemur niður á blað hjá okkur eftir þennan leik sé að byrja að hrauna yfir fjölmiðlana, sem flestir einbeittu sér að JR Smith og því að "hann hefði klúðrað leiknum" fyrir Cleveland. Einhvern tímann hefðum við tekið í sama streng, því eins og þið hafið kannski tekið eftir, er JR Smith í litlu uppáhaldi hjá okkur og hefur aldrei verið.

Það var jú þessi ritstjórn sem fullyrti það á sínum tíma að Cleveland yrði aldrei NBA meistari með menn eins og JR Smith í lykilstöðum. Seinna fengum við það jú í andlitið, en við kusum reyndar að snúa því þannig að sú staðreynd að LeBron James næði að leiða Cleveland til sigurs 2016 þrátt fyrir að vera með JR Smith í liðinu, væri trúlega eitt af hans allra fræknustu afrekum.

Nei, við gætum vissulega hraunað yfir JR eins og allir hinir, en við nennum því ekki. JR Smith er, hefur alltaf verið og verður alltaf, vitleysingur. Og það vita allir leikmenn og þjálfarar Cavs. Þeir vita að þeir geta átt von á svona bulli. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem JR Smith hagar sér eins og hálfviti undir lok leiks af því hann hefur ekki andlega burði eða greind til að átta sig á því hver staðan er.Það er eitt að gera svona fáránleg mistök þegar þú ert að spila með rusli eins og New York, en að flaska á þessu í lokaúrslitum... Það er bara svo dæmigert fyrir Smith að okkur finnst það hvorki sorglegt né fyndið. Þetta er bara dæmigerður JR. Sjáið bara viðbrögð hans á vellinum annars vegar og á blaðamannafundinum hinsvegar.

JR Smith vissi ekkert hvað hann var að gera þegar hann hljóp eins og fáviti út í loftið í stað þess að skora sigurkörfuna í leiknum. Hann vissi ekki hver staðan var í leiknum, en hann vissi heldur ekki hvort hann var að koma eða fara. JR Smith veit sjaldnast hvort hann er að koma eða fara yfir höfuð, svo líkurnar á því að hann átti sig eitthvað á því hvað hann er að gera þegar pressan er svona mikil eru hverfandi.

Ef nákvæmlega sama staða kæmi upp í leik tvö, myndum við setja peninginn á það að Smith myndi skjóta - og það áður en tíminn rynni út - og hann gæti meira að segja hitt, af því færið væri ómögulegt og JR Smith er manna duglegastur við að taka ómöguleg skot, því honum þykja þau skemmtilegri en skólabókarskot.

Eini gallinn við þessi tilþrif hans yrði auðvitað að hann væri að skjóta á vitlausa körfu.

Ef þér finnst þetta út í hött, hefurðu ekki horft á JR Smith spila körfubolta lengi. Við trúum honum 100% til að verða fyrsti maðurinn í sögu NBA til að tryggja andstæðingum sínum sigur í leik með því að skora sjálfsflautukörfu langleiðina frá miðju.

En, svona án gríns, hefurðu séð þetta frá sjónarhorninu hérna fyrir neðan?

LeBron hefði getað hellt sér upp á kaffi áður en hann tæki skotið. Hann er bókstaflega einmanna þarna úti. En óheppilegt, eh?Það er bara einn maður þarna úti sem er þakklátur fyrir það hvað JR Smith er mikill vitleysingur. Þú áttar þig eflaust á því hver það er. Það er jú maðurinn sem væri miklu nær að kenna um þetta. Maðurinn sem brenndi af vítinu sem mögulega hefði getað tryggt Cleveland sigur í leik eitt, maður að nafni George Hill.

Við misstum hökuna hálfa leið í gólfið þegar Hill hitti úr fyrra vítinu, því svipurinn á honum þegar hann steig á vítalínuna var ekki eins og á klaufdýri sem er að verða fyrir bíl, heldur meira eins og á manni sem er kastað ofan í gryfju fulla af glorsoltnum ljónum.Svo voru þarna alls konar atvik sem settu dómgæsluna í sviðsljósið og sitt sýndist hverjum um það eins og alltaf. Við komum ekki nálægt því. Höfum hvorki þekkingu né áhuga á því að taka umræðu um frábæran körfuboltaleik og snúa henni upp í eitthvað helvítis væl um dómgæslu, eða stóradóm um breinfört eða mannleg mistök.

Tölum um körfubolta.

Munið þið hvað Golden State átti að taka þetta auðveldlega? Við höfum aðeins séð tvær útgáfur af spám fyrir þetta einvígi. Annað hvort 4-0 eða 4-1 fyrir Golden State. Ekkert annað í boði. Eðlilega.Þetta var bara spurning hvort Warriors næðu að gera betur en í fyrra og sópa - eða hvort þeir myndu tapa einum leik, sem yrði þá annað hvort af því þeir yrðu of kærulausir til að sópa eða vegna þess að ofurmennska LeBron James yrði þeim ofviða í einum leiknum.

Þótti okkur þessar spár úti í hött? Alls ekki. Við kvittuðum undir þetta. Fyrir og eftir leik eitt, erum við á sömu skoðun - að þetta klárist í fjórum eða fimm leikjum. Það er okkar skoðun, vegna þess að Golden State er svo mikið betra lið en Cleveland, að það á ekki að vera stærðfræðilegur möguleiki að það taki Vesturdeildarklúbbinn meira en fimm leiki að afgreiða málið.Rökin þar að baki áætla að úr því miklu betra Cleveland lið með Kyrie Irving innanborðs, náði bara að vinna Golden State einu sinni í fyrra. Og þar sem áður var Kyrie Irving í Cleveland, eru nú Jordan Clarkson og Jeff Green (hnnnngh!)

Thursday, May 31, 2018

Wednesday, May 2, 2018

Mitchell eða Simmons? NBA Ísland fór í málið


Ef fyrsta umferð úrslitakeppninnar í NBA hefði þróast eitthvað aðeins öðruvísi en hún gerði, hefði verið auðvelt að skrifa gleðipistla um það að Anthony Davis hefði nú ekki aðeins komist í úrslitakeppnina, heldur farið þar hamförum í fyrstu umferðinni og sópað andstæðingi sínum í sumarfrí. Öll elskum við hann Brúnar og því samgleðjumst við honum öll, nema þau okkar sem halda með Portland Trailblazers auðvitað.

En eins falleg og stílhrein og sagan hans Brúnars var, er augljóst að hún kemst ekki nálægt því að toppa listann yfir áhugaverðustu punktana í fyrstu umferðinni. Ekki í deild þar sem Ben Simmons og Donovan Mitchell eru mættir á svæðið og farnir að láta til sín taka. Ó, nei. 

Þeir Simmons og Mitchell eru búnir að berjast um nafnbótina nýliði ársins í allan vetur og eru í rauninni enn að því, þó löngu sé búið að safna atkvæðum þegar kemur að nafnbótinni fyrir deildarkeppnina. Staðreyndin er sú að þeim er báðum skítsama um hana. Þeir vilja komast eins langt og þeir mögulega geta í úrslitakeppninni frekar en að keppa um einhverjar plastdollur sem eru bara hjóm og hégómi. 

Aðdáendur beggja pilta hafa eðlilega tvíeflst í úrslitakeppninni og hvor hópur hampar sínum manni og hraunar yfir hinn. Fólk sem hagar sér svoleiðis á ekki skilið að fylgjast með þeim spila körfubolta, því fólk á að njóta hæfileika beggja - sem eru ótvíræðir, ef það hefur farið framhjá einhverjum.

Þegar litið er á þá Ben Simmons og Donovan Mitchell er einn stór grundvallarmunur á þeim sem leikmönnum. Þessi munur þýðir til dæmis að Simmons mun alltaf fá nafnbótina nýliði ársins í ár og hefði sennilega fengið hana þó Mitchell hefði tryggt liði sínu sigur á flautukörfu í sjö síðustu leikjunum í deildarkeppninni.

Þessi stóri munur er sá að Donovan Mitchell er ofboðslega góður körfuboltamaður sem er að fá það mesta út úr hæfileikum sínum með stífum lærdómi og gríðarlegri vinnusemi. Ben Simmons, hinsvegar, er fyrirbæri. Og fyrirbæri hafa alltaf og munu alltaf hafa ákveðið forskot á venjulega fólkið þegar kemur að íþróttum - sérstaklega körfubolta.

Við ætlum ekki að fara djúpt í að útskýra fyrirbærishugtakið hér, enda höfum við gert það oft áður og þú getur örugglega glöggvað þig á því með því að leita í efnisorðalistanum á þessu vefsvæði. Fyrirbæri er í stuttu máli leikmaður sem hefur forskot á aðra leikmenn vegna líkamlegra burða eða yfirnáttúrulegra hæfileika. Oftast eru það þó einhvers konar líkamlegir yfirburðir.

Magic Johnson var fyrirbæri af því hann var risavaxinn leikstjórnandi sem gat brugðið sér í allra kvikinda líki á vellinum og var einn litríkasti og sigursælasti leikmaður í sögu deildarinnar, með einhverja mögnuðustu sendingagetu sem sést hefur og hugmyndaflug í kaupbæti.

Og hverjum hefur Ben Simmons helst verið líkt við á fyrsta árinu sínu sem leikmaður í NBA deildinni? Jú, auðvitað Magic Johnson. Í eyrum flestra er það hálfgert guðlast að líkja mönnum við goðsagnir eins og Magic Johnson, en Simmons þurfti ekki að spila marga leiki í deildinni til að undirstrika að þessi samanburður átti fullan rétt á sér.

Og nú þegar hann er búinn að vinna seríu í úrslitakeppni á fyrsta árinu sínu sem leikmaður í NBA - er óhætt að segja að hann sé endanlega búinn að vinna sér inn einhvers konar innistæðu fyrir því (nú á hann bara eftir að tryggja Sixers titilinn og vera með 40/15/10 í úrslitaleiknum og þá er þetta komið hjá honum).

Frammistaða Simmons bæði í deild og úrslitakeppni í ár hefur verið framúrskarandi og líklega betri en nokkur þorði að vona. Og við móðgumst ekki við nokkurn mann sem kýs hann nýliða ársins.

Hann er það samt ekki hjá okkur.

Við erum ekki hlutlaus í þessu, við vitum það. Við höfum ákveðin tengsli við Utah-liðið og þess vegna verður auðvelt fyrir fólk að kalla okkur hómera og öllum illum nöfnum sem fólk kann að koma upp með. Það verður bara að hafa það.

Við ítrekum samt að frammistaða beggja leikmanna í vetur og vor hefur verið með því betra sem sést hefur frá nýliðum síðustu áratugi í NBA deildinni og það eitt og sér er nú sæmilegt hrós handa þessum sveinum. 

Það sem við erum að reyna að segja er að þó við viljum meina að Mitchell sé búinn að eiga áhrifaríkara ár en Simmons, þýðir það ekki að okkur finnist Simmons vera aumingi og fáviti. 

Þvert á móti, höfum við gríðarlega gaman af að horfa á hann spila körfubolta og þið ættuð að vera farin að þekkja ritstjórn þessa vefsvæðis þegar kemur að leikstjórnendum sem frákasta eins og miðherjar og bjóða upp á þrennur dag eftir dag. Við eigum ekki séns í svoleiðis gaura. Þeir eiga okkur við fyrsta frákast, ef svo má segja.

Það sem fær okkur til að setja Mitchell upp fyrir Simmons - og þetta á við um bæði deild og úrslitakeppni, við erum ekki bundin neinum reglum eins og blaðamenn sem skrifa um NBA deildina - er pakkinn sem hann er búinn að bera á herðunum í allan vetur og gerir enn.

Ben Simmons er gaur sem þú getur hent inn í hvaða lið sem er og hann myndi brillera, frá fyrstu mínútu. Hann er tveir og tíu og gefur hann í gegn um klofið. Þar að auki er hann flottur varnarmaður og frákastari, með gott auga og það sem best er - hann er mikill keppnismaður með smá attitjúd.

Simmons voru réttir lyklarnir að Sixers-druslunni í haust og honum sagt að keyra hana eins glannalega og hann vildi og hann mátti gera eins mörg mistök og hann vildi. 

Eða haldið þið kannski að sé skjálfandi pressa á mönnum að byrja að spila með liði sem hefur einu sinni unnið 20 leiki á síðustu fjórum árum? 

Verandi fyrirbærið sem hann er, var Simmons ekki lengi að gera Sixers-liðið að sínu og stýra því að velgengni sem hefur ekki sést hjá félaginu árum saman. En var það allt honum að þakka? 

Vissulega hellingur af því. En eitt á það til að gleymast í stóra samhenginu þegar er verið að ræða Simmons og nýliðakapphlaupið og það allt saman; Philadelphia er actually komið með ágætis lið núna. Sixers-liðið er ekki einhver drullukaka af G-deildarleikmönnum og nafnlausum pappakössum sem enginn veit hverjir eru.

Efst á blaði þar er Joel Embiid, meðreiðarsveinn Simmons og afbrotabróðir. Það getur vel verið að Embiid hafi talist efnilegur á síðustu leiktíð (hann var það ekki) eða jafnvel á þessari, en það er hann ekki. Hann er bara ógeðslega góður körfuboltamaður og það er meira að segja ekkert mál að færa rök fyrir því að hann sé að verða einn besti körfuboltamaður veraldar nú þegar! Hann getur allt á vellinum og nú þegar hann hefur einhverra hluta vegna verið heill heilsu nánast samfleytt í nokkra mánuði, hefur hann eins og tölfræðin hótaði í fyrra, gert Sixers-liðið að miklu, miklu betra liði.

Svo er búið að fylla upp í þetta lið með alls konar mönnum sem eru allt frá því að vera byrjunarliðsmenn yfir meðallagi í deildinni (Redick, Covington) yfir í skemmtilega rulluspilara sem gegna minni hlutverkum en týna hver um sig eitthvað smotterí í púkkið. 

Síðast, en alls ekki síst - og það er nú eitt það ánægjulegasta við veturinn hjá Sixers að okkar mati - er það þjálfari liðsins, Brett Brown, sem á skilið að fá risavaxið hrós. 

Við skiljum ekki hvernig í andskotanum maðurinn hefur þolað við í Philadelphia í þessum drullupolli sem þetta félag er búið að vera síðustu ár. 

Aðstæðurnar hjá klúbbnum undanfarin ár hafa bókstaflega verið eins og á geðveikrahæli þar sem sjúklingarnir eru búnir að taka við stjórnartaumunum og færa læknateymið og restina af starfsfólkinu í óðsmannstreyjur.

Við ætlum ekki að fara út í þessar heimspekivangaveltur um Prósessinn og hvort hann átti rétt á sér eða ekki, við höfum andstyggð og viðbjóð á þessari aðferðafræði og munum aldrei gúddera hana, þó við göngum ekki svo langt að segja að forráðamenn Sixers hafi bókstaflega gert eitthvað af sér. Þeir fóru bara eftir meingölluðum reglum NBA, sem verðlauna vanhæfi svo hroðalega að það er stundum að hóta því að eyðileggja deildina.

Ókei, hér erum við sumsé búin að týna það til að þó Ben Simmons hafi spilað eins og engill í allan vetur, hafi hann fengið mjög mikla hjálp við að koma Sixers-liðinu úr 28 sigrum í 52. Hjálp frá einum besta leikmanni deildarinnar, ágætis rulluspilurum og afbragðs góðum þjálfara.

En þá er eitt atriði ótalið, sem við teljum vinna með Donovan Mitchell, en það er þessi sami þreytti en sanni, sálmur og við erum alltaf að syngja: Philadelphia er í Austurdeildinni! Og eins og þið vitið, er Austurdeildin rusl - og því ber að fara afar varlega í að slá menn sem í henni vinna til riddara.

Gerið okkur greiða. Farið og skoðið leikjaplanið hjá Philadelphia í febrúar, mars, apríl og til dagsins í dag. Það er ekki veikt. Það er mögulega skelfilegasta plan sem við höfum séð á ævi okkar og við höfum nú séð ýmislegt í gegn um tíðina.

Hvaða máli skiptir það, spyrðu? 

Jú, við erum bara að benda á það hvað þeir Mitchell og Simmons hafa haft gríðarlega ólíka hluti fyrir stafni síðustu mánuði. Mitchell er búinn að vera að spila við bestu lið deildarinnar kvöld eftir kvöld til að reyna að vinna liði sínu sæti í úrslitakeppni í gríðarlega hörðu kapphlaupinu í vestrinu, meðan Simmons og félagar voru á krúskontról í austrinu.

Skoðaðu töfluna hjá Sixers í alvörunni! Hún er búin að vera djók síðan í janúar. Það voru þarna tveir leikir við Cleveland og eitthvað, en restin var 90% leikir við ógnvalda eins og Nets, Hawks, Bulls, Magic, Knicks.... Þetta er djók.

Er ósanngjarnt að nota töfluna gegn Sixers og Simmons með þessum hætti, þar eð þeir geta jú ekkert að því gert þó þeir séu í rusl deild? Kannski, en við erum bara að leggja spilin á borðið hérna! Cleveland (50 sigrar, versta vörn deildarinnar) er eina 50 sigra liðið sem Sixers þurftu að mæta á síðustu mánuðum deildarkeppninnar og leikir gegn liðum sem unnu 40 sigra voru fátíðir. Þetta var allt gegn liðum sem voru með drulluna í hárinu.

Og svo mætir Philadelphia Miami í fyrstu umferð í úrslitakeppninni. Jú, jú, Simmons og félagar unnu sér inn réttinn til að mæta lakara liði með því að ná 3. sætinu í austrinu. En getur verið að fólk sé að hlaupa pínulítið á sig þegar það ætlar að setja kórónur á hausana á Sixers-piltunum? Jú, jú, þeir unnu helling af leikjum í röð undir lok deildarkeppninnar og tóku seigt og vel þjálfað Miami lið nokkuð sannfærandi í fyrstu umferðinni. Það var alveg flott hjá þeim. En hvort heldurðu að þeir hefðu valið að mæta Miami eða Oklahoma City í fyrstu umferðinni?

Á sama tíma er Donovan Mitchell í Vesturdeildinni. Hann er draftaður til félags sem mun aldrei vinna meistaratitil, en er samt sem áður alltaf með metnað til að ná eins langt og mannlega mögulegt er. Pínulítils félags, sem þrátt fyrir það hefur í raun notið ótrúlegrar velgengni án þess að geta nokkru sinni lokkað til sín leikmenn með lausa samninga eða endalausa valrétti í topp fimm.

Þegar Utah stal Mitchell með þrettánda valrétti í sumar (sama valrétti og það stal Karl Malone 30 árum áður), var planið ósköp einfalt. 

Þjálfarateymi Jazz hafði trú á guttanum sínum og ætlaði honum að spila slatta af mínútum og jafnvel auka aðeins breiddina í sóknarleik liðsins, sem var ekki mjög beittur þrátt fyrir að liðið hefði náð í aðra umferð úrslitakeppninnar árið áður án þess að vera með heimavallarrétt (hljómar kunnuglega).

Eins og flestir sem þetta lesa vita, fóru plön Utah Jazz öll sömul ofan í Gustavsberginn þegar Júdas Gordon Hayward ákvað að hann ætti betri möguleika á að vinna meistaratitil í Boston en í Utah og skildi uppeldisfélag sitt eftir í skítnum án þess að tala við kóng eða prest (hann beið svo lengi með að gefa upp áform sín að Utah átti ekki möguleika á að gera neitt vitrænt til að fylla skarð hans - og hann hafði ekki einu sinni manndóm í sér til að taka upp símann og tala við ekkju Larry Millers heitins, fyrrum eiganda Jazz, og láta hana vita að hann væri að fara frá félaginu sem var búið að hafa hann á brjósti síðan hann var 30 kílóa ræfill með hor).

Og hvað er þá til ráða? 

Jú, þeir réttu bara stráknum lyklana að sóknarleik liðsins og sögðu honum að gera eins og hann gæti. 

Það var ansi sóðalegt fyrstu vikurnar og við munum að við spurðum okkur hvað í fjandanum þjálfarateymi Utah væri eiginlega að hugsa að láta einhvern krakkavitleysing vera að taka öll skotin hjá liðinu, en komumst fljótlega að þeirri niðurstöðu að það var eina lógíkin. Það var enginn annar þarna sem gat gert það.

Og það er heila málið. Donovan Mitchell, 21 árs gamall nýliði - sem var ekki búinn að njóta þess að sitja á bekknum hjá NBA liði í heilan vetur og sjá hvernig allt fór fram og kynnast leikaðferðum og skipulagi liðs síns mánuðum saman - þurfti nú að gjöra svo vel og halda uppi sóknarleik hjá liði sem var með yfirlýst markmið um að komast í úrslitakeppni.

Þegar við segjum að Utah ætli að fara í úrslitakeppni, er það ekkert skrum út í loftið. Eins og við sögðum, er Utah eins langt frá því að vera ríkur, sexí eða trendí klúbbur og hægt er, en það er alltaf metnaður þar á bæ. 

Metnaður fyrir því að vinna leiki og komast í úrslitakeppni, öfugt við það sem tíðkast hefur hjá Philadelphia síðustu ár 

Prósess eða ekki prósess, þetta er ekki beint glæsileg ferilskrá hjá Philadelphia og stuðningsmenn liðsins vita það alveg - og verða þess vegna hundfúlir þegar einhver minnist á það við þá. 

Sem dæmi um þetta má nefna að Philadelphia var í vetur að vinna 50+ leiki á vetri í annað skipti síðan 1990. 

Utah er búið að vinna 50+ leiki fjórum sinnum síðan árið 2007, sem er áhugavert í ljósi þess að síðasti áratugur er sá langversti í sögu félagsins síðan það kom inn í deildina fyrir fjórum áratugum síðan (Utah er búið að vinna 50+ leiki fjórtán sinnum síðan 1990 og við skulum bara segja að það séu ekkert rosalega mörg lið í deildinni sem geta státað af slíkum stöðugleika).

Það er því ekkert píp þegar Donovan Mitchell eru réttir lyklarnir og hann beðinn um að koma liðinu sínu í úrslitakeppni. Þessu fólki var alvara.*

Þegar í þessa úrslitakeppni var komið, tók svo við afar áhugavert einvígi eins og þið hafið eflaust séð. Oklahoma City vann ekkert mikið fleiri leiki en Miami í vetur, en það gerði það í miklu erfiðari deild. Hefur þú sest niður og skoðað hver munurinn er á leikjaplani liðanna í austri og vestri? Prófaðu, og láttu okkur vita.

Munið þið eftir klisjunni um að liðið með besta leikmanninn vinni oftast seríuna í úrslitakeppni? Það er áhugaverð pæling eftir einvígi Utah og Oklahoma, þar sem varnarsinnað og þaulskipulagt, en gjörsamlega lamað sóknarlið Utah vann nokkuð öruggan sigur á stjörnum prýddu liði Oklahoma.

Donovan Mitchell var ekki besti maður Utah í einvíginu, þú veist örugglega ekki einu sinni hver það var, en liðið hefði aldrei, aldrei, aldrei unnið einvígið án hans og þessara 28,5 stiga sem hann skoraði að meðaltali í seríunni. 

Mitchell átti einhverja bestu seríu nýliða í sögu úrslitakeppninnar og þið eruð örugglega búin að sjá eitthvað af tölfræðimolunum sem undirstrikuðu það - eins og t.d. hvernig stigaskorun hans í fyrstu umferð úrslitakeppninnar hafi ekki verið toppuð nema af tveimur af mestu skorurum sögunnar. Hægt er að finna fleiri dæmi um svona sögulega hluti hjá Mitchell í deildarkeppninni líka.

Við áttum okkur á því að Ben Simmons getur líka státað af einhverjum svona metum, en það eru fleiri en Simmons sem geta spilað fleiri en eina stöðu á vellinum og án allrar kaldhæðni, hefðum við viljað sjá hvernig Simmons hefði tekist til ef hann hefði þurft að dekka Russell Westbrook í fyrsta einvíginu sínu í úrslitakeppni - og svo sjálfur verið dekkaður af Paul George... =>

Væri hægt að skrifa pistil eins og þennan og færa rök fyrir því að Ben Simmons hefði átt betra ár en Donovan Mitchell? 

Klárlega.

En við ætlum ekki að gera það. 

Það verður nægur tími til að skruma fyrir Ben Simmons næstu árin, því hann kemur til með að verða í sviðsljósinu hvort sem okkur líkar það eður ei. 

Mitchell verður í NBA eyðimörkinni í Utah í nokkur ár, þangað til hann finnur sér lið sem getur unnið titil og lætur sig hverfa þangað - gott ef hann tekur ekki þjálfarann sinn með sér.

En þangað til, ætlum við að njóta þess að horfa á hann vaxa og dafna sem leikmann og reyna að öskra okkur hás til að minna á það að ótrúleg innkoma hans inn í NBA deildina hafi verið ein sú magnaðasta sem sést hefur - alveg eins og hjá Ben Simmons.

Fáir nýliðar hafa komið inn í deildina með jafn miklum stæl og þeir Simmons og Mitchell hafa gert í vetur, sérstaklega ef við horfum í árangur þeirra í úrslitakeppninni, þar sem þeir kláruðu báðir amk eina seríu og voru enn betri í úrslitakeppninni en þeir voru í deildinni.

Það er til bunki af frægum leikmönnum, jafnvel stórstjörnum, sem spiluðu árum saman í NBA deildinni án þess að gera nokkuð svona - hvað þá á nýliðaárinu sínu.

Það verður dásamlegt að fylgjast með þessum tveimur vaxa í framtíðinni og satt best að segja er það hálf óraunverulegt að pæla í því hvað þeir gætu náð langt miðað við hvað þeir byrja vel. 

Og það sem er best við þetta allt saman, er að við erum aftur farin að sjá almennilega hæfileikaríka stráka koma inn í NBA deildina - Alvöru menn! 

Við skulum alveg viðurkenna að við vorum farin að verða hrædd um að þeir væru að hætta að koma, í allri þessari svínastíu af Anthony Bennett-um, Jahlil Okafor-um og Jimmer Fredett-um.

---------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Mitchell voru vissulega réttir lyklarnir og hann var beðinn að vera fyrsti kostur í sókninni hjá liði sem ætlaði sér í úrslitakeppni, en munurinn á Utah og mörgum öðrum félögum í NBA deildinni - flestum, raunar - er að þar á bæ er hlutunum hagað þannig að mönnum eins og Mitchell er komið í aðstöðu til að ná árangri með leiðbeiningum og liðveislu, sterku utanumhaldi og kúltúr sem er ritaður í steypu. 

Þessir hlutir hafa verið til staðar hjá klúbbum eins og San Antonio undanfarna áratugi og svona lagað er helsta ástæða þess að Boston Celtics á bjarta framtíð fyrir höndum og er búið að vinna fleiri titla en nokkuð annað félag. 

Og þessir hlutir eru aldrei nokkru sinni nálægt því að vera í lagi hjá farsabatteríum eins og Sacramento Kings, þar sem ekkert annað en bein sala á liðinu og algjör endurnýjun á öllu starfsfólki frá a til ö mun lyfta þeim hræðilega klúbbi upp úr drullufeninu sem hann er búinn að vera fastur í síðan hann flutti til Sacramento - og lengur en það.

Ef vel er að gáð, eru það líka þessir hlutir sem uppá vantar hjá Oklahoma City. Já, já, þú getur gagnrýnt Russell Westbrook þangað til þú verður blá(r) í framan - og jú, jú, hann á skilið að fá harða gagnrýni núna alveg eins og allir liðsfélagar hans - en þú gætir skammað leikmennina þangað til þú missir röddina - það mun engu breyta. 

Oklahoma nær ekki árangri, fyrr en þjálfarateymi liðsins, með blessun skrifstofunnar, mætir á fyrstu æfingu í haust og segir ákveðið: 

"Jæja, strákar, það er búið að vera gaman að spila hetjubolta hérna í tíu ár, en núna ætlum við að fara að spila kerfisbundinn körfubolta og ná árangri - og þeir ykkar sem treysta sér ekki til að gera það með okkur, geta farið út núna og lokað á eftir sér..."

Svona ganga hlutirnir auðvitað ekki fyrir sig í NBA. Þetta er deild Stjarnanna. Stjörnurnar ráða oftar en ekki ferðinni og það eru þær sem ráða því hvernig liðið spilar en ekki þjálfarinn. En það er líka ástæðan fyrir því að mörg þessara liða ná ekki árangri. 

Það segir sína sögu um hvað LeBron James er ógeðslega góður leikmaður, að hann skuli hafa unnið meistaratitil - og það á móti liðinu sem vann flesta sigra í sögu deildarkeppninnar - með leikstíl sem var algjörlega sniðinn eftir hans höfði og hans hæfileikum og miðaði líka að því að láta hann líta sem bestu út (þetta er enn leikstíll Cleveland, en núna hefur liðið ekki mannskap til að vera í fremstu röð, svo leikir liðsins í úrslitakeppninni 2018 verða keimlíkir leikjunum í lokaúrslitunum 2015, þar sem James gerði ALLT og hinir ekkert).

Monday, December 25, 2017

Saturday, December 23, 2017

Þetta hlýtur bara að vera/verða eitthvað


Sennilega er ekki ofsögum sagt að forráðamenn NBA deildarinnar hafi verið leiðandi síðustu áratugi þegar kemur að því að gera vöruna sína markaðsvænni. Eitt mikilvægasta atriðið hvað það varðar er að sjálfssögðu að gera NBA deildina sjónvarpsvænni.

 Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan NBA gerði talsverðar breytingar á regluverki sínu, t.d. varðandi fækkun á leikhléum, til að verða við kröfu áhorfenda bæði á vellinum og heima í stofu um að fækka ítrekuðum og hundleiðinlegum stoppum undir lok leikja. Þetta er að okkar mati mjög jákvætt atriði - að risavaxin deild á heimsvísu, skuli ekki vera blind og heyrnarlaus þegar kemur að tillögum og aðfinnslum viðskiptavina.

Nýjasta nýtt þegar kemur að tækni- og sjónvarpsmálum í NBA deildinni eru auðvitað sýndarveruleikagræjurnar. Eins og þið vitið, er ritstjórn NBA Ísland svo aftarlega á tæknimerinni, að við myndum tæknilega (pun sooo intended) ekki teljast sitjandi á bakinu á henni.Við verðum þó að viðurkenna að hugmyndin um að njóta NBA-leikja í sýndarveruleika(græjum) vekur hjá okkur talsverða forvitni og við sjáum ekki betur en að talsverðar vonir séu bundnar við að þetta nýja fyrirbæri gæti orðið eitthvað sem næði fótfestu í sjónvarpsupplifun fólks. 

Í myndbandinu hér fyrir neðan sjáum við stutta frétt sem gerð var um þetta nýlega fyrirbæri, en ljóst er að NBA deildin ætlar sér að þróa þessar hugmyndir eins langt og þurfa þykir af því flestum finnast þær jú ansi fróðlegar og spennandi.Það er hægt að sjá fullt af myndböndum á youtube sem sýna sjónarhorn manneskju sem er að horfa á NBA leik í sýndarveruleika, en það litla sem við vitum um þetta fyrirbæri er að það er víst engan vegin sama upplifun að sjá þetta á myndbandi eins og hér í fréttinni fyrir neðan - eða að vera með græjuna á hausnum og upplifa það sjálf(ur). 

Við vitum ekki með ykkur, en við værum alveg til í að prófa. Það hlýtur að vera dálítið spennandi að hafa það á tilfinningunni að LeBron James sé að koma hlaupandi á fullum spretti í fangið á manni.

Friday, December 8, 2017

Afsakið (þetta) hlé


Það er náttúrulega ekkert annað en vanvirðing við þá örfáu lesendur sem enn nenna að kíkja á NBA Ísland að skrifa ekki staf handa þeim í marga mánuði. Hvað sem því líður, getið þið rétt ímyndað ykkur hvort fór ekki um ritstjórn síðunnar þegar hún vaknaði allt í einu upp við það í lok sumars að hún hafði engan áhuga á að skrifa lengur - eftir að hafa gert það nánast daglega í meira en áratug.

Við höfum ekki hugmynd um af hverju ritstjórnin lamaðist skyndilega í ágúst, en mögulega hafa stórar breytingar eitthvað með það að gera. Svona breytingar eins og að flytja höfuðstöðvar okkar úr æsingi höfuðborgarinnar í sveitina og svo, tjah, ýmislegt annað skulum við segja.

Við höfum heldur ekki hugmynd um hvort neistinn til að skrifa er kominn aftur eða ekki. Það eina sem við vitum er að NBA deildin er alveg viðbjóðslega skemmtileg eins og alltaf - og að það er alveg stórkostlega asnalegt að skrifa ekki um það daglega eða vikulega eða hvað það nú er.

Tölvupóstunum hefur auðvitað rignt yfir okkur á nbaisland@gmail.com í þessari löngu og leiðinlegu pásu, þar sem þið lesendur eruð búnir að spyrja okkur hvað sé í gangi. Sum ykkar hafa verið reið yfir þessari leti og kæruleysi, sum ykkar hafið lýst yfir áhyggjum ykkar og spurt hvort við séum yfir höfuð á lífi.*

Við hefðum átt að vera búin að því fyrir löngu, en okkur langaði amk að segja ykkur að við værum enn lifandi, að okkur langaði ekki að loka síðunni, að við hötuðum meira en nokkru sinni að vera ekki lengur með hlaðvarp og að við ætluðum að reyna allt sem við mögulega gætum til að byrja að skrifa aftur. Ef ekki fyrir ykkur, þá fyrir okkur - og ef ekki fyrir okkur, þá fyrir ykkur, fattiði...

Við verðum bara að sjá hvað setur. Þessi færsla er amk byrjun, þó ekki væri annað.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Hvert einasta orð í þessari málsgrein er samviskulaus helvítis haugalygi. Við höfum ekki fengið einn einasta tölvupóst vegna málsins, enda er öllum svo skítsama hvort þessi síða er til eða ekki, en við ætlum bara að loka augum og eyrum fyrir þeirri staðreynd og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Við erum ekki gáfaðari en þetta, eins og þið komust öll að fyrir mörgum árum.

Tuesday, November 28, 2017

Thursday, July 6, 2017

NBA Ísland rýnir í félagaskipti Gordon Hayward


Þið heyrið leikmenn og þjálfara í NBA deildinni tala um að sé fjölskylduandrúmsloft hjá hinu eða þessu liði, nú eða fara alla leið með þetta og fullyrða að liðið þeirra standi saman eins og fjölskylda. Þetta er auðvitað rakinn þvættingur og flestir leikmenn væru til í að kveikja í þessari svokölluðu "fjölskyldu" sinni ef það þýddi að þeir fengju 5.000 dollurum hærri samning eða eitthvað þvíumlíkt.

Félögin í NBA deildinni eru misjöfn eins og þau eru mörg, en þó þeim verði aldrei ruglað saman við alvöru fjölskyldur, eru þó nokkrir klúbbar í NBA sem eru reknir á - hvað eigum við að segja - persónulegri máta en aðrir.Margir klúbbar í NBA deildinni eru með afar ópersónulegt sýstem og kaldhranalegan kúltúr, ef einhvern kúltúr yfir höfuð og versla með leikmenn út og suður eins og þeir væru körfuboltamyndir en ekki manneskjur. Þarna er ekkert elsku amma, engin persónuleg sambönd og samskipti. Þetta er bara bissness.

Utah Jazz er félag sem rekið er nánast þveröfugt við þetta. Auðvitað er Utah líka bissness eins og hinir klúbbarnir og auðvitað skipta þeir á leikmönnum og bjóða þeim nískulega samninga og allt það eins og öll hin liðin, en þau gera þetta mestanpart öðruvísi en aðrir þarna í Utah.

Það liggur líka beinast við að aðferðafræðin hjá Jazz sé aðeins öðruvísi, því fólkið í Utah - í Salt Lake City þar sem liðið er til húsa - er af öðrum sauðahúsum en fólkið á bak við restina af klúbbunum í NBA. Allt öðrum.Utah Jazz er afskaplega vel rekið félag, sannkallað fyrirmyndarfélag eins og San Antonio, sem kemur ekkert á óvart því að San Antonio smíðaði rekstrarmódelið sitt eftir Utah Jazz á tíunda áratugnum og til að rugla þessu enn betur saman, er hluti af staffinu hjá Utah fólk með Spurs-tengsli. Nægir þar að nefna framkvæmdastjórann Dennis Lindsay og þjálfarann Quin Snyder.

Og þetta vel rekna félag, á einum minnsta og á margan hátt óvinsælasta markaðnum í NBA deildinni, gerði allt rétt þegar kom að því að reyna að halda í Stjörnuleikmanninn sinn Gordon Hayward. Félagið hafði mikla trú á Hayward þegar það tók hann í nýliðavalinu á sínum tíma og það er alveg með hreinum ólíkindum að lesa hvað fólk var að segja um hann þegar Utah valdi hann.

Gleðipinninn í greininni hér fyrir neðan er gott dæmi, en hann gerir allt nema öskra upp yfir sig að Kevin O´Connor þáverandi framkvæmdastjóri Utah sé heilalaus helvítis hálfviti og eigi bara að ganga í sirkus fyrir þessa glórulausu vitleysu sem það var að drafta þennan horaða krakkavesaling inn í deild hinna fullorðnu karlmanna. Risavöxnu, fullorðnu karlmanna.
Já, Utah-menn gerðu allt sem þeir gátu, eða nokkurn veginn allt. Þeir styggðu Hayward eitthvað á tímabili með því að bjóða honum eitthvað nískulegan samning, en það var bara vegna þess að a) félagið tekur ekki þátt í því að borga leikmönnum einhverja bull-samninga. Það bara kemur ekki til greina. Og b) Hayward var andskotann ekkert nógu góður til að fá þennan helvítis max samning sem hann hefur alltaf átt rétt á, alveg sama hvað hann var lélegur. Hér er auðvitað átt við fyrstu árin hans í deildinni.

En nú er Hayward farinn til Boston. Bless, bless Utah, segir hann í einhverri bull-grein, sem segir ekkert. Nafngreinir hvorki meira né minna en EINN leikmann, eftir að hafa spilað með liðinu árum saman. Spes.

Skápurinn hans GordonsWednesday, June 28, 2017

Uppgjör 2017: Kevin Durant og Ákvörðunin II


Eftirfarandi pistill er hluti af uppgjöri NBA Ísland á nýafstöðnu keppnistímabili í NBA deildinni, með aðaláherslu á lokaúrslitaeinvígi Golden State og Cleveland og öllu mögulegu sem tengist því með beinum eða óbeinum hætti.

Ritstjórn NBA Ísland hvetur lesendur til að lesa formálann að þessari ritröð áður en það tekst á við greinarnar sem á eftir koma, en í honum reynum við að útskýra hvað fyrir okkur vakir með þessu öllu saman. 


Strangt til tekið er kannski ekki nauðsynlegt að lesa formálann fyrst, því það skilur enginn samhengislausan vaðalinn í okkur hvort sem er, en þið ráðið auðvitað hvernig þið hafið þetta. Það er það góða við NBA Ísland. Þið ráðið þessu öllu saman og þetta kostar ekki neitt  frekar en venjulega. Hefst þá pistillinn:Hér er fyrst mikilvæg áskorun frá ritstjórn:

Áður en lengra er haldið í þessum fyrsta pistli okkar í uppgjörinu á leiktíðinni 2016-17, verðum við eiginlega að ráðleggja fólki að sleppa því að lesa hann.

Fyrsta ástæðan fyrir því að sleppa því, er að hann er allt of  langur, fer allt of mikið út fyrir efnið (persónulegt met hjá okkur, reyndar, og þið getið rétt ímyndað ykkur hvurslags geðveiki þarf til að toppa metið okkar í að fara út fyrir efnið) og ef einhver lesandinn yrði svo nógu bilaður að lesa pistilinn til enda og jafnvel skilja hann líka, gæti viðkomandi lent í talsverðri klemmu.

Umræddur lesandi fengi þannig teiknaða upp fyrir sig allt of skýra og heildstæða mynd af nákvæmlega öllu sem viðkemur ákvörðun Kevin Durant að fara til Warriors í fyrra, áhrifum ákvörðunar hans á bæði Oklahoma og Golden State og um það bil þrjú þúsund aðra misáhugaverða hluti.

Eins og venjulega, leggjum við málin í ykkar hendur, kæru lesendur. Við treystum ykkur til að taka skynsamlegar ákvarðanir og fara ykkur ekki að voða í þessu.

Jæja, allir klárir? Ókei. Keyrum þá bara á þetta saman.

Fyrsta málið sem okkur langar að tækla í þessu margþætta uppgjöri okkar við leiktíðina 2017, er málið sem flestir sem fylgjast með NBA deildinni hafa myndað sér skoðun á, hvort sem hún var stór eða lítil.

Þetta er sumsé fíllinn sem er búinn að vera skítandi í herbergið í ellefu og hálfan mánuð - (auðveldlega) umdeildasta atriði ársins í NBA deildinni:

Ákvörðun Kevin Durant að ganga til liðs við Golden State sumarið 2016.

Fjöldi fólks hefur spurt sig að þessu og fjöldi fólks hefur líka spurt okkur beint að þessu: Af hverju?Auðvitað er NBA Ísland með svarið handa ykkur, til þess erum við, en við fórum að sjálfssögðu ekki beinu leiðina til að afla þess; tókum bara upp símann og hringdum í Kevin Durant eða fórum bara í heimsókn til hans í kaffi og kleinur. Þið vitið að þetta virkar ekki þannig - og ef þið vitið það - vitið þið líka að það kemur ekki eitt einasta satt orð út úr kjaftinum á atvinnuíþróttamönnum í viðtölum ef þeir eru spurðir spurninga sem eitthvað vit er í. Þannig er bransinn bara, því miður.*

Og þess vegna er miklu, miklu skemmtilegra fyrir ykkur að lesa svörin sem við gefum ykkur við spurningunni heldur en nokkurn tímann að hlusta á Durant sjálfan ljúga einhvern fjölmiðlamanninn stútfullan af útursnúningum og klisjum. Gleymdu því! Það er ekkert varið í það! Miklu betra að treysta á Íslandið sitt.

Flest ykkar vita hvernig vistaskipti Kevin Durant komu til, en fyrir þau ykkar sem eruð ekki með það á hreinu, var fólk ekki brjálað út í Durant fyrir það eitt að fara frá Oklahoma. Jú, jú, fólkinu sem var búið að styðja við bakið á honum í öll átta árin sem hann spilaði í borginni sárnaði þetta auðvitað og hluti af því mun baula á hann þangað til hann drepst.

En rétt eins var með og ákvörðunar-klúðrið hjá LeBron James á sínum tíma, hefði Durant getað komið mun færra fólki í vont skap ef hann hefði haft manndóm í sér til að ganga frá málum sínum eins og maður en ekki eins og gunga.

Sú staðreynd að Durant hafði ekki kjark til að segja meðstirni sínu Russell Westbrook frá ákvörðun sinni auglitis til auglitis - og ekki einu sinni með símtali - heldur bara með kjarklausu sms-i og gott ef það kom ekki eftir að allir voru búnir að frétta þetta allt saman hvort sem er. Við munum það ekki, enda skiptir það engu máli.

Durant einfaldlega skeit á bitann í þessu máli og svona viðskilnaður þykir okkur satt best að segja ekki sýna merki um mikinn þroska eða vandaðan karakter.

Við tökum þó fram og ítrekum, að við höfum að sjálfssögðu engan veginn efni á að dæma annað fólk þó við séum alltaf að gera það.

Þessir fordómar okkar út í manneskju sem er búin að láta meira gott af sér leiða en við munum gera alla okkar ævi, er líka gott dæmi um þann karakter sem við höfum að geyma. Gleymum því ekki.

Við mannfólkið höfum öll einhverja vankanta og galla, enda væri lífið nákvæmlega ekkert gaman ef allir væru fullkomnir!

Þá yrði lífið allt bara eins og þýsk fræðslumynd um frjósemirannsóknir á landsvæðum með krefjandi kolefnabindingar í krítísku hlutfalli koðnandi karbónatmagns við kjörvaxtarskilyrði keisaramörgæsa.

Annað atriði við flutninginn hans Durant fór þvert ofan í líklega 99% af fólki sem hafði skoðun á málinu yfir höfuð, en það var auðvitað ákvörðun hans að ganga til liðs við klúbbinn (Golden State) sem var nýbúinn að slá liðið hans Durant (Oklahoma) út í oddaleik í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar.

Við gerum viljandi lítið af því að vitna í oflátunginn Stephen A. Smith á sjónvarpssviði ESPN, en hann hefur allar götur síðan í fyrra kallað þetta aumustu félagaskipti sem hann hafi orðið vitni að í atvinnuíþróttum á sínum langa ferli sem fjölmiðlamaður.

Og það er ekkert skrum að kalla þetta hin aumustu félagaskipti, því svona gera menn eiginlega ekki í NBA deildinni. Ekki alveg svona gróft. Durant gæti vel mögulega verið búinn að setja heimsmet í vandræðalegum augnablikum á síðustu tólf mánuðum.


Gamlir karlar og útbrunnar stjörnur hafa alla tíð stundað það á efri árum sínum í deildinni að stökkva yfir í lið sem þeim þykja líklegir kandídatar í að vinna meistaratitil eða tvo, sérstaklega ef umræddri stjörnu hefur ekki tekist að vinna meistaratitil á ferlinum.

En að menn í blóma körfuboltalífsins - á hátindi frægðar sinnar og getu - skuli fara úr liði sem var árviss kandídat í að berjast um titilinn (þó það væri aldrei beinlínis sterkasti kandídatinn, var það alltaf með í umræðunni ef Westbrook og Durant (og Ibaka) voru heilir heilsu) og yfir í lið sem:

A) var nýbúið að slá liðið hans Durant út úr úrslitakeppninni í epískri seríu, þar sem Oklahoma komst meira að segja yfir 3-1 og aðeins skita - meðal annars hjá Durant - varð þess valdandi að Oklahoma sat eftir með sárt ennið en Golden State fór í úrslit.

Sunday, June 18, 2017

Lokaúrslitin 2017 - Formáli


Ef fólk ætlar að draga fram lífið af því að skrifa, hvort sem er að heilu eða hálfu, þarf það að geta skrifað þegar það er þreytt, annars hugar, þjáð og þurrausið. Það sögðum við við sjálf okkur í kvöld þegar við vorum búin að henda pistlinum sem var hálfnaður, en fundum ekki hjá okkur anda til að skrifa nýjan.

Við brutum allar reglurnar sem við vorum búin að setja okkur um þetta. Við blöðruðum öllu sem okkur langaði að segja um úrslitakeppnina frá okkur* í hlaðvörpum og á mannamótum og áður en við vissum af, vorum við runnin inn í eftirlokaúrslitasvartholið, 

Eftirlokaúrslitasvartholið er fyrirbæri sem aðeins fólk sem lifir og hrærist í körfubolta þekkir (eða kannski bara við, það er ekki gott að segja). Merking hugtaksins felst í nafninu, stundum grípur okkur ákveðin tilfinning eftir síðasta NBA leik sumarsins - og hún er stundum dálítið... deprímerandi. 

Og við komumst að því núna, að þetta er sérstaklega þungbær tilfinning þegar úrslitakeppnin stendur ekki undir væntingum í fyrsta skipti síðan við fórum allra okkar ferða á reiðhjólum og borðuðum nammi bara á laugardögum. Þetta voru áhyggjulausir tímar, svona ef hægt er að kalla æsku- og unglingsárin áhyggjulausa tíma, því þeir eru það sannarlega ekki hjá öllum.

En allar götur síðan á þessum tímum BMX-hjóla og blands í poka, hefur NBA deildin díliverað fyrir okkur. Hún hefur alltaf skilað sínu, hvort sem var á vetrum, vorum eða sólríkum sumrum.

Þangað til núna.

Og við vitum ekki alveg hvernig við eigum að haga okkur yfir þessu öllu saman. Þið munið að við reynum alltaf að vera heiðarleg hérna á NBA Ísland og það stóð ekki á okkur að viðurkenna að fyrstu þrjár umferðirnar í ár hefðu verið drasl. Þær voru það líka, því miður. Drasl á miðað við hvað, spyrðu? Til dæmis á miðað við allar úrslitakeppnirnar aldarfjórðunginn þar á undan. Það ætti að vera nógu stórt úrtak.

Ókei. 

En þá var komið að lokaúrslitunum sjálfum og það er þar sem fólk byrjar að vera ósammála. 

Við sögðum ykkur (einhvers staðar, í hlaðvarpi, útvarpi, sjónvarpi, á prenti - við munum það ekki) að það gæti vel verið að lokaúrslitin yrðu ekki mjög spennandi rimma (að það væru líkur á því að Golden State myndi vinna einvígið 4-1 - check the tape) per se, en sögðum jafnframt að það truflaði okkur ekkert, því við vissum það að körfuboltinn sem í boði yrði í þessu einvígi yrði ekkert minna en stórkostlegur!

Athugið að það er glapræði að lofa svoleiðis, því það getur enginn vitað upp á hár hvernig körfuboltaeinvígi spilast fyrirfram, sérstaklega ef liðin sem um ræðir mæta til leiks með nýjan mannskap (ef annað þeirra t.d. bætir við sig einum besta körfuboltamanni heims...).

En við lofuðum þessu nú samt - og stóðum við það, fjandakornið. Nánar um það síðar.

Því miður tilheyrum við sennilega frekar fámennum hópi fólks, hvers körfuboltaáhorf gengur ekki alltaf út á að halda með öðru liðinu, heldur erum við mætt til að horfa á körfuboltann sem liðin eru að bjóða upp á hvoru sinni. Hér er alveg sama hvort um er að ræða íslenska boltann eða NBA. Við höldum oftast einfaldlega með körfuboltanum. Og ef leikurinn sem við erum að horfa á hverju sinni er vel leikinn og/eða skemmtilegur, förum við ánægð að sofa.

Stuðningsmenn Cleveland og Golden State hugsa auðvitað ekki svona þegar þeir eru að horfa á liðin sín kljást eina ferðina enn í úrslitum, þó það nú væri. Þeir eru auðvitað brjálaðir allt einvígið og finna liði mótherjans allt til foráttu, það er bara partur af leiknum.

En hvað með alla hina? Hvað með þessa sem áttu ekki hest í kapphlaupinu? Lakers-fólkið og Celtics-fólkið og það fólk allt saman? Gat það ekki notið lokaúrslitanna eins og við?

Hreint ekki allir, virðist vera. Margir af þessum "öllum hinum" urðu fúlir og byrjuðu að vera með leiðindi þegar í ljós kom að einvígi liðanna tveggja sem spiluðu epískan oddaleik í úrslitum árið áður, hefði klárast í fimm leikjum að þessu sinni og "ekki einu sinni verið spennandi!"

Við erum búin að heyra allar mögulegar gerðir af leiðindum varðandi nýafstaðin lokaúrslit, sumar þeirra eiga rétt á sér, aðrar eru hreint út sagt fáránlegar. 

En af því við erum hérna til að hjálpa ykkur, skulum við gæta þess að taka allar þessar helstu vangaveltur fyrir í næstu greinum okkar og pistlum.

Næstu pistlar, hvort sem þeir verða fáir eða fleiri, langir eða stuttir, munu fara í það að leitast við að svara helstu spurningum og/eða fullyrðingum sem orðið hafa á vegi okkar í kring um þriðja lokaúrslitaeinvígi Golden State og Cleveland á jafnmörgum árum.

Ætli þið kannist ekki við megnið af þessum pælingum og fullyrðingum:

* Af hverju í andskotanum var Kevin Durant yfir höfuð að fara til Golden State?
* LeBron James er aumingi af því hann er bara 3-5 í lokaúrslitum - Jordan var 6-0!
* Frammistaða Kevin Durant þýðir einfaldlega að hann er orðinn betri en LeBron James!
* Lokaúrslitaeinvígið var ójafnt og þess vegna var það drasl!
* Iss, (einhver útgáfa af Celtics, Lakers eða Bulls) myndi rústa þessu Warriors-liði í seríu!
* Michael Jordan/LeBron James er klárlega miklu betri en LeBron James/Michael Jordan
* Kevin Durant/Warriors-liðið eyðilagði leiktíðina í ár og ekki bara það, heldur næstu 5 líka!

Þetta er það algengasta, en við eigum eflaust eftir að muna eftir fleiri atriðum þegar við byrjum að takast á við þetta. Við verðum bara að vinna þetta með þessum hætti núna, því fyrstu þrír pistlarnir sem við skrifuðum enduðu alltaf í einhverri algjörri steypu og fóru því í ruslið. 

Þessi hefði sjálfssagt átt að enda í ruslinu líka, flest sem við skrifum ætti að gera það, en við urðum að koma okkur einhvern veginn af stað svo við yrðum búin að klára að gera nýafstaðið tímabil upp áður en það næsta fer af stað í haust.

Hey, það er ekki eins og sé eitthvað mikið annað að gera næstu vikurnar.

Takk fyrir biðlundina.

P.s. - Ef þú ert með spurningar tengdar lokaúrslitaeinvíginu, er þér guðvelkomið að senda okkur þær á nbaisland@gmail.com - við skulum taka þær fyrir og svara þeim ef þær eru gáfulegar.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Fyrsta regla varðandi (körfubolta)skrif

Reyndu að forðast það að "tæma af tönkunum" í spjalli við vini þína, í hlaðvörpum eða fjölmiðlum áður en þú skrifar um leikinn eða einvígið sem þú ætlar að að taka til umfjöllunar, þvi það getur fipað þig þegar kemur að skrifunum. 

Kannski komast sumir upp með þetta, en hafið þó hugfast að jafnvel reyndari pennar geta fipast eða jafnvel lent í sjálfheldu við skrifin ef þeir brjóta þessa reglu. 

Ef þú ert búin(n) að "tappa þessu öllu af þér" áður en þú ferð að skrifa, gætu töfrarnir staðið á sér þegar á þarf að halda. 

Aðeins fólk sem hefur prófað að skrifa af einhverju viti veit hvað við eigum við þegar við tölum um töfrana, en án þeirra væri ritlistin ósköp fábrotin. Og þetta eru raunverulegir töfrar, sem aðeins ákveðinn hluti okkar fær að upplifa.

Ef þú gerir þetta allt saman rétt og sest beint að lyklaborðinu eftir leik (því fyrr, því betra, þó sumir þurfi að leyfa hlutunum að gerjast aðeins fyrst), er þetta allt saman brakandi ferskt í hausnum á þér og þá hafa fingurnir ekki undan við að drita öllu sem þú þarft að segja á lyklaborðið. 

Stóri bónusinn við að vinna þetta svona er að þá er greinarskrifari líka miklu betur í stakk búinn til að rökræða leikinn/einvígið við hvern sem er, því þá er hann nýbúinn að telja fram allt það markverðasta sem gerðist í því í greininni sinni og það sem meira er - færa rök fyrir skoðunum sínum á því! 

Svona er hægt að hagnast á því að gera hlutina í réttri röð, ekki það að ritstjórn NBA Ísland sé til fyrirmyndar í neinu sem kallast getur skipulag eða hagkvæmni. En þó ekki væri nema einn ungur og upprennandi penni þarna úti - já, eða blaðamaður sem veit ekkert hvað hann er að gera. NBA Ísland er alltaf tilbúið að hjálpa.

Ykkur er alltaf, öllum, meira en velkomið að senda okkur línu um hvað sem ykkur liggur á hjarta. Hvort sem það tengist ritlist eða lokaúrslitaeinvíginu 2017 - ekki hika við að hafa samband. Við svörum öllum tölvupóstum innan skynsamlegra marka. Við erum eftir sem áður með póstfangið 

nbaisland@gmail.com