Wednesday, June 28, 2017

Uppgjör 2017: Kevin Durant og Ákvörðunin II


Eftirfarandi pistill er hluti af uppgjöri NBA Ísland á nýafstöðnu keppnistímabili í NBA deildinni, með aðaláherslu á lokaúrslitaeinvígi Golden State og Cleveland og öllu mögulegu sem tengist því með beinum eða óbeinum hætti.

Ritstjórn NBA Ísland hvetur lesendur til að lesa formálann að þessari ritröð áður en það tekst á við greinarnar sem á eftir koma, en í honum reynum við að útskýra hvað fyrir okkur vakir með þessu öllu saman. 


Strangt til tekið er kannski ekki nauðsynlegt að lesa formálann fyrst, því það skilur enginn samhengislausan vaðalinn í okkur hvort sem er, en þið ráðið auðvitað hvernig þið hafið þetta. Það er það góða við NBA Ísland. Þið ráðið þessu öllu saman og þetta kostar ekki neitt  frekar en venjulega. Hefst þá pistillinn:Hér er fyrst mikilvæg áskorun frá ritstjórn:

Áður en lengra er haldið í þessum fyrsta pistli okkar í uppgjörinu á leiktíðinni 2016-17, verðum við eiginlega að ráðleggja fólki að sleppa því að lesa hann.

Fyrsta ástæðan fyrir því að sleppa því, er að hann er allt of  langur, fer allt of mikið út fyrir efnið (persónulegt met hjá okkur, reyndar, og þið getið rétt ímyndað ykkur hvurslags geðveiki þarf til að toppa metið okkar í að fara út fyrir efnið) og ef einhver lesandinn yrði svo nógu bilaður að lesa pistilinn til enda og jafnvel skilja hann líka, gæti viðkomandi lent í talsverðri klemmu.

Umræddur lesandi fengi þannig teiknaða upp fyrir sig allt of skýra og heildstæða mynd af nákvæmlega öllu sem viðkemur ákvörðun Kevin Durant að fara til Warriors í fyrra, áhrifum ákvörðunar hans á bæði Oklahoma og Golden State og um það bil þrjú þúsund aðra misáhugaverða hluti.

Eins og venjulega, leggjum við málin í ykkar hendur, kæru lesendur. Við treystum ykkur til að taka skynsamlegar ákvarðanir og fara ykkur ekki að voða í þessu.

Jæja, allir klárir? Ókei. Keyrum þá bara á þetta saman.

Fyrsta málið sem okkur langar að tækla í þessu margþætta uppgjöri okkar við leiktíðina 2017, er málið sem flestir sem fylgjast með NBA deildinni hafa myndað sér skoðun á, hvort sem hún var stór eða lítil.

Þetta er sumsé fíllinn sem er búinn að vera skítandi í herbergið í ellefu og hálfan mánuð - (auðveldlega) umdeildasta atriði ársins í NBA deildinni:

Ákvörðun Kevin Durant að ganga til liðs við Golden State sumarið 2016.

Fjöldi fólks hefur spurt sig að þessu og fjöldi fólks hefur líka spurt okkur beint að þessu: Af hverju?Auðvitað er NBA Ísland með svarið handa ykkur, til þess erum við, en við fórum að sjálfssögðu ekki beinu leiðina til að afla þess; tókum bara upp símann og hringdum í Kevin Durant eða fórum bara í heimsókn til hans í kaffi og kleinur. Þið vitið að þetta virkar ekki þannig - og ef þið vitið það - vitið þið líka að það kemur ekki eitt einasta satt orð út úr kjaftinum á atvinnuíþróttamönnum í viðtölum ef þeir eru spurðir spurninga sem eitthvað vit er í. Þannig er bransinn bara, því miður.*

Og þess vegna er miklu, miklu skemmtilegra fyrir ykkur að lesa svörin sem við gefum ykkur við spurningunni heldur en nokkurn tímann að hlusta á Durant sjálfan ljúga einhvern fjölmiðlamanninn stútfullan af útursnúningum og klisjum. Gleymdu því! Það er ekkert varið í það! Miklu betra að treysta á Íslandið sitt.

Flest ykkar vita hvernig vistaskipti Kevin Durant komu til, en fyrir þau ykkar sem eruð ekki með það á hreinu, var fólk ekki brjálað út í Durant fyrir það eitt að fara frá Oklahoma. Jú, jú, fólkinu sem var búið að styðja við bakið á honum í öll átta árin sem hann spilaði í borginni sárnaði þetta auðvitað og hluti af því mun baula á hann þangað til hann drepst.

En rétt eins var með og ákvörðunar-klúðrið hjá LeBron James á sínum tíma, hefði Durant getað komið mun færra fólki í vont skap ef hann hefði haft manndóm í sér til að ganga frá málum sínum eins og maður en ekki eins og gunga.

Sú staðreynd að Durant hafði ekki kjark til að segja meðstirni sínu Russell Westbrook frá ákvörðun sinni auglitis til auglitis - og ekki einu sinni með símtali - heldur bara með kjarklausu sms-i og gott ef það kom ekki eftir að allir voru búnir að frétta þetta allt saman hvort sem er. Við munum það ekki, enda skiptir það engu máli.

Durant einfaldlega skeit á bitann í þessu máli og svona viðskilnaður þykir okkur satt best að segja ekki sýna merki um mikinn þroska eða vandaðan karakter.

Við tökum þó fram og ítrekum, að við höfum að sjálfssögðu engan veginn efni á að dæma annað fólk þó við séum alltaf að gera það.

Þessir fordómar okkar út í manneskju sem er búin að láta meira gott af sér leiða en við munum gera alla okkar ævi, er líka gott dæmi um þann karakter sem við höfum að geyma. Gleymum því ekki.

Við mannfólkið höfum öll einhverja vankanta og galla, enda væri lífið nákvæmlega ekkert gaman ef allir væru fullkomnir!

Þá yrði lífið allt bara eins og þýsk fræðslumynd um frjósemirannsóknir á landsvæðum með krefjandi kolefnabindingar í krítísku hlutfalli koðnandi karbónatmagns við kjörvaxtarskilyrði keisaramörgæsa.

Annað atriði við flutninginn hans Durant fór þvert ofan í líklega 99% af fólki sem hafði skoðun á málinu yfir höfuð, en það var auðvitað ákvörðun hans að ganga til liðs við klúbbinn (Golden State) sem var nýbúinn að slá liðið hans Durant (Oklahoma) út í oddaleik í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar.

Við gerum viljandi lítið af því að vitna í oflátunginn Stephen A. Smith á sjónvarpssviði ESPN, en hann hefur allar götur síðan í fyrra kallað þetta aumustu félagaskipti sem hann hafi orðið vitni að í atvinnuíþróttum á sínum langa ferli sem fjölmiðlamaður.

Og það er ekkert skrum að kalla þetta hin aumustu félagaskipti, því svona gera menn eiginlega ekki í NBA deildinni. Ekki alveg svona gróft. Durant gæti vel mögulega verið búinn að setja heimsmet í vandræðalegum augnablikum á síðustu tólf mánuðum.


Gamlir karlar og útbrunnar stjörnur hafa alla tíð stundað það á efri árum sínum í deildinni að stökkva yfir í lið sem þeim þykja líklegir kandídatar í að vinna meistaratitil eða tvo, sérstaklega ef umræddri stjörnu hefur ekki tekist að vinna meistaratitil á ferlinum.

En að menn í blóma körfuboltalífsins - á hátindi frægðar sinnar og getu - skuli fara úr liði sem var árviss kandídat í að berjast um titilinn (þó það væri aldrei beinlínis sterkasti kandídatinn, var það alltaf með í umræðunni ef Westbrook og Durant (og Ibaka) voru heilir heilsu) og yfir í lið sem:

A) var nýbúið að slá liðið hans Durant út úr úrslitakeppninni í epískri seríu, þar sem Oklahoma komst meira að segja yfir 3-1 og aðeins skita - meðal annars hjá Durant - varð þess valdandi að Oklahoma sat eftir með sárt ennið en Golden State fór í úrslit.

B) var ekki aðeins nýbúið að slá NBA metið yfir flesta sigra á einu tímabili í deildarkeppninni (sem margir spáðu að yrði ALDREI slegið. Þið vitið, Jordan og allt það), heldur var það tveimur mínútum frá því að vera tvöfaldur ríkjandi NBA meistari líka - sem sagt, beisikklí, langfokkíngbesta liðið í NBA deildinni.

Og maðurinn sem er að ganga til liðs við þetta langbesta lið í deildinni? Jú, hann er löngu pottþéttur heiðurshallarmeðlimur sem hefur ekki farið niður fyrir þriðja sætið á lista bestu körfuboltamanna jarðar síðustu c.a. fimm árin!Ef eitthvað körfuboltalið í heiminum vantaði EKKI hjálp - og það frá einum besta körfuboltamanni í heimi - þá var það þetta Warriors-lið og þú áttaðir þig líklega á því um leið og þú heyrðir af þessu, lesandi góður. Þetta eru engin eldflaugavísindi.

Þarna var að verða til lið sem hafði alla burði til að endurheimta meistaratitilinn strax og berjast um (og vinna) marga fleiri. Og ekki aðeins það, heldur voru forráðamenn Warriors þarna nógu kjarkmiklir til að stökkva á óvænt tækifæri sem myndaðist við stökkbreytingar á launaþakinu og voru skyndilega komnir með lið í hendurnar sem á pappírunum gæti staðist samanburð við hvaða körfuboltalið sem er í sögunni.

Golden State var löngu orðið nýaldar-ofurlið sem skaut alla andstæðinga sína í kaf með hjálp tveggja pilta sem voru þegar orðnir afkastamestu og  sumpart hagkvæmustu langskyttur sem deildin hafði séð - og það var ekki einu sinni helsti styrkur liðsins!

Út frá sjónarhóli körfuboltans, var kannski hægt að tala um einn "veikleika" í þessu Warriors-liði sem samt var orðið besta lið í heimi áður en Durant barði þar að dyrum. Frábær varnarleikur, fjölhæfir og vel spilandi menn í bland við skytturnar ógurlegu, gerðu það að verkum að þessi veikleiki sást afar sjaldan. En hann kom bersýnilega í ljós í lokaúrslitunum 2016 - og þá sérstaklega á lokamínútunum í leik sjö, þegar allt Warriors-liðið var komið á felguna af þreytu og meiðslum.

Það vantaði mann sem gat sett knöttinn ofan í körfuna með sem fyrirhafnarminnstum og helst ökonómískustum hætti. Mann sem gat "náð í körfur" (sbr. enska orðasambandið: (to) get buckets**), búið til stig, framleitt stig á hagkvæman hátt, skapað eigið skot, komið sér á vítalínuna.

Þið vitið, þennan mann sem tæknilega vantar í flest lið í NBA deildinni. Við köllum þá oft neyðarkarla.

Og ef forráðamenn Golden State hefðu sent okkur tölvupóst og spurt okkur hvern við teldum besta neyðarkarlinn í deildinni?

Einu sinni hefðum við sagt Kobe, en þarna í fyrra hefðum við sagt - já, þið löngu búin að sjá þetta - auðvitað Kevin Durant.

Durant er ekki bara neyðarkarl, því heimildir herma að hann sé reglulega fínn piltur og jafnvel auðmjúkur annað slagið, þó að feimni hans gæti átt það til að vera túlkuð sem hroki, takt- eða áhugaleysi.

Það kæmi okkur ekki á óvart ef þessi veikleiki Durant (allt að því sjúkleg feimnin) hefði haft áhrif á hann þegar kom að erfiðum viðskilnaði hans við Oklahoma. Ekki er annað að sjá en að KD  sé þokkalega samstarfsfús, fúnkeri sæmilega í hóp, sé mjög vanmetinn varnarmaður og jú, svo er hann líka einn eitraðasti skorari í sögu íþróttarinnar, eins og stigakóngstitlarnir hans fjórir bera vott um.

Þið verðið að afsaka hvað við förum í risavaxna hringi í kring um þetta mál, en það er gott að eiga eina stóra og tæmandi samantekt á því frá a til ö - og allt á sama stað. Þetta er ein þýðingarmesta ákvörðun leikmanns með lausa samninga í seinni tíma sögu NBA.

Svo getur líka meira en verið að eitthvað af ykkur lesendum hafi vantað brot og brot inn í söguna á bak við tilurð ofurliðs Warriors. Við verðum að gera ráð fyrir því annað slagið að það sé raunverulega til fólk þarna úti sem af einhverjum furðulegum ástæðum er ekki 100% inni í málum í NBA deildinni og það sem verra er - sé kannski ekki búið að vera að lesa Íslandið sitt allar götur frá frá stofnun.

En ókei.

Þá erum við loksins komin að rúsínunni í afturendanum; Af - fokkíng - hverju?

Hvernig í ósköpunum datt einum besta leikmanni NBA deildarinnar það í hug, að beila ekki aðeins á klúbbnum sínum, heldur reka allt hnífasettið í bakið á hverjum einasta manni og konu sem stutt hefur við bakið á honum í Oklahoma gegn um tíðina með því að hoppa beint í bólið með alræmdasta ofurliði deildarinnar!?!

Það er að sjálfssögðu engin ein ástæða fyrir því að Durant tekur þessa risavöxnu og umdeildu ákvörðun, þær eru nokkrar, og við skulum segja ykkur frá þeim helstu.

Fyrir það fyrsta, var Durant orðinn leiður á að spila með Oklahoma-liðinu. Stuðningsmenn liðsins eru frábærir og honum samdi ágætlega við liðsfélaga sína, en það var bara eitthvað við þetta allt saman sem var ekki alveg að gera sig og þetta var allt orðið dálítið þreytt.

Kevin Durant hefur án nokkurs vafa haft helling með það að gera af hverju Oklahoma-liðið spilaði þennan fremur einhæfa og fyrirsjáanlega sóknarleik sem það gerði lengst af í tíð Durant.

Þegar þú ert með Stjörnuleikmenn og hvað þá heldur MVP-sleða eins og Durant og Westbrook í liðinu þínu, þá spilar þú einfaldlega þann sóknarleik sem þeim hentar að spila, ekki þann sem þér hentar.

Svona er þetta hjá mörgum liðum í NBA deildinni. Það eru ekki öll lið í NBA með Popovich-a og Carlisle-a á bekknum hjá sér, menn sem krefjast og njóta virðingar leikmanna sinna, sem vita að þeir eru bara að fara að vinna á kassa í bónus ef þeir gera ekki (nákvæmlega) eins og Pop segir.

En hvort sem það var Durant að kenna eða ekki, þá var dálítið eins og væri þak á því hvað þetta Oklahoma-lið gæti náð langt í úrslitakeppninni á hverju vori.

Það var alltaf með mannskap í að fara langt, við vissum það, en hvernig í ósköpunum stóð samt á því að þetta lið væri bara búið að komast einu sinni í lokaúrslitin síðan árið 2012?

Það var sennilega af því það vantaði einn leikmann í viðbót, það er oftast þannig í NBA, en stundum getur það verið af því að það er of mikið af leikmönnum í liðinu sem eru drasl og á einhvern eða allan hátt algjörir mínusar (Sefolosha, Roberson, Fisher, Perkins, Kanter, Morrow, Singler, hnnnngh! - just take your pick, eins og þeir segja).

Stundum er þjálfarinn bara ekki nógu góður og síðast en alls ekki síst, svo eru lið stundum bara fokkíng óheppin - og Oklahoma veit allt of mikið um þá hlið mála, en þá erum við auðvitað fyrst og fremst að tala um meiðsli.

Og fyrir utan að vera orðinn dálítið leiður á spilamennsku liðsins, að spila "skiptumst á" við Russell Westbrook og því hvernig það virtist alltaf skalla þetta ósýnilega þak sem það komst aldrei upp fyrir, þá ætlum við að leyfa okkur að giska á það að Durant hafi bara líka verið orðinn dálítið leiður á Oklahoma. Það er ekki eins og hvorki Oklahoma-borg eða restin af fylkinu séu einhver nafli alheimsins.

Sorry, en þetta er gargandi krummaskuð og sveit, það er ekkert þarna nema skraufþurr sandur og moldardrulla og það er álíka mikið um að vera í þessari borg og á Eskifirði eftir klukkan sex á kvöldin.

Það getur vel verið að fólkið þarna sé rosalega trygglynt og til í að lána þér vídeóspólur, en það er einhvern veginn ekki kjörlendi fyrir unga og þeldökka milljarðamæringa sem ólust upp við austurströndina, svona ef þið afsakið neikvæðnina í okkur.

Oklahoma bara býður upp á þetta. Þetta er drullugur sveitabær, þar sem bókstaflega ekkert gerist - árum saman - en svo loksins þegar eitthvað gerist, eru það bara harmleikir og náttúruhamfarir.

Það er hreinlega eins og að ef veðrið þarna fer af stað á annað borð, ákveði það að taka nokkur þúsund heimili og nokkur mannslíf svona í leiðinni. Kræst.Ofangreind atriði geta skipt máli í stóra samhenginu og ekki gleyma því að öll tökum við frekar stór þroskastökk þegar við erum á aldri við Durant, ekki síst þegar við byrjum að fatta að við eigum orðið erfitt með hluti sem við pældum aldrei í áður. Eins og þegar við föttum að við erum orðin timbraðari eftir að borða stóra máltíð í dag en við vorum eftir útihátíð í Eyjum þegar við vorum yngri.

Ákveðin hugmynd byrjar að læðast inn í kollinn á okkur: þessi þarna með það að við séum hægt og bítandi að verða ljót, feit, stirð og hrukkótt.

Og það sem enn verra er, sérstaklega ef við erum byrjuð að eignast börn - við erum að breytast í foreldra okkar.

Hversu mikið af þessu var farið að láta á sér kræla í höfðinu á Kevin Wayne Durant fyrir ári síðan skal ósagt látið, en það hefur alveg örugglega verið partur af hugsanaferlinu á einhverjum tímapunkti.

Durant hefur oft og mörgum sinnum minnst á það í viðtölum hvað hann var einmitt skotinn í Warriors-liðinu af því það spilaði allt öðruvísi bolta.

Þar skiptust menn ekki á að skjóta eins og í Oklahoma, heldur gekk boltinn hratt milli manna og sóknirnar enduðu á því að sá sem var í besta færinu tók skotið, hvað sem hann hét eða var með í laun - eða svona nokkurn veginn þannig.

Viðtals-vélin Lee Jenkins á Sports Illustrated droppaði einum Jenkins fyrir nokkrum dögum, en hann er einn af fáum pennum sem eftir eru í bransanum sem fólk gefur sér tíma til að lesa þegar hann sendir frá sér hlemmana sína.

Þetta eru þá oftast viðtöl sem hafa tekið marga mánuði í smíðum og innihalda venjulega einhvern slatta af djúsí stöffi sem hvergi er að finna annars staðar.

Nýjasta stykkið hans Jenkins fjallaði að einhverjum hluta um ákvörðun Durant að ganga til liðs við Warriors og hvað Draymond Green átti stóran þátt í því að kjafta Durant yfir.

Í viðtalinu kemur m.a. fram að Green hafi byrjað að tuða í Durant í gegn um sms-sendingar strax inni í búningsklefanum eftir tapið fyrir Cleveland í oddaleik lokaúrslitanna fyrir ári. Það er ekkert verið að drolla við hlutina á þeim bænum.

Dæmigert af Jenkins að reyna að ræna þrumunni frá okkur hérna á NBA Ísland, en hann verður að fá að leika sér í þessum sandkassa líka, blessaður, ef hann heldur að greiningar hans standist samanburð (geiiisp!).

Hvort það var í þessari grein eða annars staðar, er það reyndar alþekkt að það hefur alltaf farið mjög vel á með þeim Kevin Durant, Steph Curry og Andre Iguodala.

Þeir voru eins konar "Biblíubræður" þegar þeir léku saman með bandaríska landsliðinu á sínum tíma og þessi tengsli má ekki vanmeta þegar kom að þessari erfiðu ákvörðun hjá Durant.

Sagan segir að hann hafi verið sendandi Steph Curry sms fram á síðustu stundu, þar sem hann leitaði staðfestingar á því hjá Curry að hann væri til í að "hliðra til" fyrir sér í liði Warriors. Það sér auðvitað hver maður og kona að maður með hæfileikapakka eins og Durant, er ekki að fara að stefna á stoðsendingakóngstitilinn ef hann skiptir um heimilisfang. KD er skorari - og hann hefði aldrei, aldrei farið til Warriors nema fá algjört samþykki frá Curry (og restinni af lykilmönnum liðsins).

Sum ykkar muna kannski eftir annari grein sem Sports Illustrated birti um Kevin Durant fyrir nokkrum árum, þar sem hann opnaði sig m.a. um það hvað hann var orðinn hundleiður á að hafna alltaf í öðru sæti sem körfuboltamaður - hvort sem það var í kjörinu á leikmanni ársins eða í lokaúrslitaeinvíginu sjálfu.

Peningar skipta alltaf miklu máli þegar NBA leikmenn eru að hugsa sér til hreyfings, en þó svo að Durant gæti orðið af einhverjum krónum við að skipta um lið, er hann orðinn það múraður nú þegar og ekki bara á launatékkum úr NBA, því hann er auðvitað með risavaxinn skósamning líka.

Durant er ekkert að velta sér upp úr muninum á skrilljarði eða sprilljarði ef hann sér fram á að komast í borg, í klúbb og í spilamennsku sem hentar honum betur en sveitin sem hann var í.

En þá er þessari ólolandi upptalingu okkar að verða lokið og aðeins aðalatriðið eftir - og það vegur langþyngst í okkar bókum.

Ástæða númer eitt, tvö og þrjú fyrir því að Kevin Durant tók sénsinn á því að verða persona non grata og gera allt vitlaust - jafnvel hlutfallslega meira en LeBron með Ákvörðuninni á sínum tíma - var að hann var að missa af lestinni hvað varðar meistaratitil eða titla.

Og þó skömm sé að segja frá því, er bara alls ekki langt síðan við áttuðum okkur á því hverjum er raunverulega um að kenna þegar fólk er að skammast yfir öllum þessum ofurliðum sem hafa verið að myndast á undanförnum árum.

Þau urðu til á ólíkan hátt, en Golden State er á margan hátt að gera það sem Boston (Garnett og Allen), Miami (Bosh og LeBron) og í rauninni Cleveland-lið dagsins í dag hafa verið að gera undanfarinn áratug.

Menn mynda ofurlið fyrst og fremst af því þeir eru orðnir óþreyjufullir eða jafnvel örvæntingarfullir í viðleitni sinni til að vinna titil eða titla. Þeir eru tilbúnir að æsa stuðningsmenn sína upp á móti sér og jafnvel taka á sig stórvægilegar launalækkanir til að ná þessu takmarki sínu. Titillinn er auðvitað æðsta takmark allra leikmanna í NBA deildinni þó fæstir þeirra fái almennileg tækifæri til að ná því.

Það er því skiljanlegt að menn langi mikið til að vinna titla, en af hverju breytist titlaviðleitni sumra þeirra í örvæntingu eða þráhyggju?

Sennilega mestmegnis út af þrýstingi sem verður til í fjölmiðlum og hefur aðeins verið að aukast síðustu ár.

Þetta er þessi hugmyndafræði sem gengur út frá því að leikmaður sem hefur ekki unnið meistaratitla sé ekki aðeins verri og óæðri fulltrúi íþróttar sinnar, heldur nánast bara... rusl. Rusl, sem tekur því ekki að tala um.

Fjölmiðlar ganga mislangt í þessa átt, þeir eru ekki allir svona slæmir auðvitað, en skilaboðin sem bestu körfuboltamenn heims fá eru alveg skýr:

Þú verður aldrei metinn fyllilega að verðleikum nema þú vinnir titil/titla og þú færð ekki að vera memm - verður ekki boðið í partíið - nema vera með bling-bling á puttunum.

Það hefur alltaf þótt töff að hafa unnið meistaratitil, jafnvel þó menn hafi ekki unnið meira fyrir honum en að veifa handklæðum og klappa saman lófunum þegar kom að því að landa sjálfum titlinum.

Rulluspilarar eins og Kenny Smith geta alltaf rekið hringinn sinn framan í smettið á mönnum eins og Charles Barkley ef þeir fara eitthvað að þenja sig - mönnum, sem voru 100 sinnum betri leikmenn en þeir á sínum tíma.


Gaurarnir sem hafa unnið titlana segja gjarnan: "Þú hefur ekki einu sinni rétt á því að tjá þig um þetta af því þú ert ekki með hring" og eitthvað svona endemis kjaftæði. Þetta kemur reglulega upp í þættinum Inside the NBA, sem er besti sjónvarpsþáttur í heimi sem fjallar um körfubolta, fyrir utan Körfuboltakvöld.

Shaquille O´Neal er líka partur af þessum sama sjónvarpsþætti. O´Neal telur sig aðalsborinn af því hann hefur unnið titla, en lítur niður á Barkley af því hann gerði það ekki - alveg óháð því hvað Barkley spilaði marga Stjörnuleiki eða hve oft hann var í úrvalsliði deildarinnar.

Þegar kemur að því að tala um dýpstu og þýðingarmestu málefni NBA deildarinnar í þættinum - eins og t.d. allra bestu leikmennina eða meistaratitla - eru orð Barkley ómerk en allt sem O´Neal segir heilagur sannleikur. Af því hann hefur unnið titla, en Barkley enga.

Menn láta eins og það hafi verið Himnafaðirinn sjálfur sem smíðaði þennan meistarahring á fingri þeirra og þeim manni sem ber hann, munum við fljótlega geta þakkað fyrir að koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs og jafnvel fyrir að verða fyrsti maðurinn til að ná að opna g-mjólkurfernu án þess að hella neinu niður.

Ekki misskilja okkur, það er rosa flott að vinna titla og meistarahringar eru mjög töff á fingrunum á mönnunum sem lögðu mest á sig við að afla þeirra, en fólk sem trúir því að þeir séu það eina sem skiptir máli í NBA deildinni er á villigötum að okkar mati.

Það má vel vera að markmiðið með leiknum sé að vinna titla og það allt saman, en það hlýtur að gefa augaleið að í deild sem er svona hörð, svona tímafrek, með svona ógeðslega mörg lið og er svo í ofanálag bara með einn helvítis titil á ári, verði einfaldlega að geta gengið út á eitthvað annað líka.

Annars væri deildin bara dauð og ómerk og þið gætuð bara fengið ykkur túss og strika yfir nöfnin á svona tíu klúbbum í NBA og láta þá pakka saman og hætta, því þeir eru aldrei, aldrei, aldrei að fara að vinna þennan eina titil sem er í boði.

Það er svona álíka líklegt og að fólk fái fyrsta vinning í víkingalottóinu þrjár vikur í röð.

NBA körfuboltinn yfir höfuð, er fyrst og fremst bransi, afþreying og skemmtun. Fyrir ákveðna elítu og einstaka ljónheppin og/eða framúrskarandi félög, snýst þetta raunverulega um að vinna meistaratitla.

Hin liðin eru með í þessu til að hafa gaman, til að hafa ofan af fyrir fólkinu, sum til að græða peninga, en vita sem er að meistaratitill (ekki síst í nútíma NBA) er álíka fjarlægur draumur og vinningarnir í víkingalottóinu sem við minntumst á hér fyrir ofan. Við erum ekki að reyna að vera með leiðindi, þetta er bara svona, og það vita allir sem hafa gefið sér tíma til að stúdera söguna.

Sumir eru bara þannig að þeim er alveg sama um deildarkeppnina og nenna því ekki að fylgjast með deildarkeppninni nema með öðru auganu. Við skiljum það viðhorf ekki, enda höfum við gaman af NBA deildinni nánast allt árið og í raun engu síður í deildinni en í úrslitakeppninni.Þetta eru tvö ólík mót og ef þið þurfið frekari sönnun á því að þetta snúist um eitthvað annað en bara það að vinna meistaratitilinn í júní, þurfið þið ekki að horfa lengra en á nýafstaðna leiktíð. Ef við einföldum hana alveg niður í öreindir, má segja að tveir piltar hafi "unnið leiktíðina."

Og það voru fyrrum liðsfélagarnir Russell Westbrook, sem vann deildarkeppnina og er væntanlega að fara að taka á móti verðlaunum því tengt nokkrum klukkustundum eftir að þetta er ritað og Kevin Durant, sem tók ákvörðun og gekk til liðs við besta lið deildarinnar, vann með því titil og var besti maðurinn í lokaúrslitunum. Sitthvor verðlaunagripurinn handa þeim og allir glaðir.

Westbrook þurfti auðvitað að hlusta á holskeflu leiðinda í allan vetur af því leikstíll hans þótti ekki nógu fullkominn. En hann skoraði yfir 30 stig í leik í vetur, var með þrennu að meðaltali og fór með liðið sitt í úrslitakeppnina, svo trúið okkur - hann hefur það fínt. Hann skemmti okkur frá október til maí og (fyrrum) vinur hans Durant sá um rest.

Ólíkir dílar, en allir ánægðir.Þessi pistill fjallar um pilt sem spilaði með klúbbi sem við myndum alla jafna telja að stæði fyrir utan þessa litlu elítu sem er í þessu til að vinna titla en ekki bara til að framleiða afþreyingu og skemmtun. Það var náttúrulega Seattle sem tók Durant í nýliðavalinu á sínum tíma, en eftir að klúbburinn var fluttur nauðugur í sveitina í Oklahoma, tókst forráðamönnum hans nánast óaðfinnanlega upp í nýliðavalinu nokkur ár í röð.

Fyrir vikið, varð þetta litla félag þarna langt úti í sveit að contender, að liði sem vegna hæfileika þessara ungu pilta sem það sankaði að sér, var nú komið í aðstöðu til þess að keppa við liðin í elítunni.

Það yrði ekki létt verk að standa undir nafnbótinni contender, eða kandídat til að keppa um meistaratitilinn, vegna þess að forráðamenn og eigendur Oklahoma eru nískari en kollegar sínir hjá liðunum í elítunni. Þeir voru einfaldlega ekki tilbúnir að þurfa að leggja of mikið af peningum í liðið í formi lúxusskatts, sem því miður fyrir eigendur er nokkurn veginn óhjákvæmilegt þegar byggja á upp meistaralið.

Milljarðamæringarnir á bak við félögin í NBA deildinni eru misríkir, en hugmyndir fólks um hugarfar þeirra þegar kemur að því að reka klúbbana er oftast byggt á misskilningi. Fólk heldur nefnilega oft að ríkustu eigendurnir í NBA deildinni séu tilbúnir að borga lúxusskatt af því "þeir eru svo ógeðslega ríkir hvort sem er."


Þannig er þetta einmitt ekki og fljótlegast er að útskýra það á þann hátt að þessir menn urðu ekki svona ríkir á því að spreða peningum í allar áttir bara til gamans og þessir menn yrðu mjög líklega ennþá meira pirraður en þú ef þeir myndu týna 5000 króna seðli.

Það fer meira í taugarnar á þessum mönnum en þig grunar að félög í þeirra eigu séu að tapa fé á pappírunum. Þeir hata það, jafnvel þó það flokkist undir fórnarkostnað sem fylgir því að keppa um titla (sem er annað atriði sem spilar inn í þetta - egó eigendanna).

En hættum nú að tala um ríka fólkið og einblínum á það sem skiptir máli þegar vinna á meistaratitla - leikmennina sjálfa - og þá sérstaklega Kevin Durant.

Við sögðum ykkur frá því áðan hvað fjölmiðlar eru viljandi og óviljandi duglegir við að mynda þrýsting á allra bestu leikmenn NBA deildarinnar, jafnvel með því að hallmæla hæfileikum þeirra og hafna afrekum þeirra, þangað til þeir hafa unnið meistaratitil eða titla. Auðvitað kemur hluti af þessum þrýstingi frá kollegum, fjölskyldu og vinum, en megnið af honum kemur frá fjölmiðlum.

Gott dæmi um þetta er orðræðan í kring um framherjann Dirk Nowitzki hjá Dallas á sínum tíma.

Áður en Nowitzki fór svo listavel fyrir liði Dallas þegar það vann meistaratitilinn árið 2011, þótti hann ekki annað en mjúkhentur og hittinn Evrópumaður sem gat skorað fullt af stigum.

Þegar hinsvegar kom að því að vinna alvöru leiki og ná langt í úrslitakeppni, var hann ekki annað en gunga og lydda á ögurstundu ef marka mátti haturskórinn.

Alvöru stórstjörnur taka lið sín á bakið og brjótast í gegn um allar hindranir á leið sinni að titlinum, en það eina sem gungurnar gátu gert var að horfa á það í sjónvarpinu, enda kæmust þær aldrei á þennan stað af eigin verðleikum.

Nowitzki hafði oft borið Dallas-liðið á herðum sér djúpt inn í úrslitakeppnina og oftast spilaði hann eins og engill í gegn um hana alla. Oftast var það ekki honum að kenna að liðið kæmist ekki lengra, heldur voru andstæðingarnir einfaldlega með betra lið í það skiptið.

Þannig var það reyndar sannarlega ekki hjá Dirk liðinu hans þegar það náði besta árangrinum í deildinni árið 2007, en lét Spútniklið Golden State (8. og síðasta liðið inn í úrslitakeppnina í vestrinu) taka sig og pakka sér saman. Svona er þetta bara stundum í boltanum.

Skítur skeður, það er staðreynd, og yfir 99% góðra körfuboltamanna eiga amk nokkra leiki eða jafnvel nokkrar seríur í úrslitakeppni á ferlinum þar sem þeir ná bara ekki að spila upp á sitt besta. Það er bara þannig. Bæði Magic Johnson og LeBron James geta sagt ykkur ítarlega frá þessu fyrirbæri það ef þið trúið því ekki.Ókei, en hvað gerðist svo þegar Nowitzki var loksins búinn að vinna þennan titil sinn, sem hann nota bene vann af því hann náði að vinna fimm fleiri körfuboltaleiki en á bestu leiktíðunum sínum þar á undan og eftir og af því hann var með mjög vel mannað lið sem small saman og datt í stuð á réttum tíma (og sló nýstofnað ofurlið Miami út í lokaúrslitum)?

Jú, Dirk var ekki lengur þessi mjúki, aumi og andlega veiki Evrópubúi sem hann hafði verið fram að þessu. Nú var hann búinn að vinna titil og þið verðið bara að trúa því ef þið voruð ekki þarna þá - ÖLL orðræða í kring um hann sem leikmann breyttist á einu kvöld. Snerist hreinlega á hvolf.

Nú var hægt að taka Nowitzki út úr pistlunum um góðu leikmennina sem "unnu aldrei titil" og hætta að draga hann í flokk með mönnum eins og Ewing, Barkley, Stockton, Malone osfv. Nú var skyndilega hægt að tala um Dirk í sömu andrá og þessa "almennilega góðu" leikmenn sem náðu að vinna meistaratitla.Það er mjög heppilegt að skoða feril Dirk Nowitzki til að greina þetta fyrirbæri sem titlahrokinn er, því Dirk var með mjög ósanngjarna fordóma á herðunum fyrsta áratuginn sinn í deildinni. Hann var alltaf "mjúki" Evrópubúinn eins og áður sagði, en hann þurfti ekki að vinna nema þennan eina titil til að nánast eyða þessari leiðinda orðræðu sem alltaf hékk föst við hann áður.

Og við vissum nákvæmlega hvaða orðstír hann hafði á sér fyrir. Og við vissum alveg upp á hár hvað myndi gerast EF hann næði að vinna titil. Og það kom líka á daginn. Nú eigum við bara eftir að kíkja í katalógana og athuga hvort við færðum þessa kenningu okkar ekki örugglega á prent.

Hvað sem því líður, gerði titillinn hjá Dallas það að verkum að orðstír þessarar vandræðalegu og stundum feimnu þýsku Öskubusku, snerist á punktinum á einu júníkvöldi árið 2011. Þessi Adrian-úr-Rocky-týpa sem Dirk var búinn að leika löngum stundum, var allt í einu orðin einhver hrikalega foxí mega-bitch á borð við Brigitte Nielsen í Rocky IV (ísl. Steini IV: Steini á slóðum Stalíns) og Beverly Hills Cop II (Arnarnesslöggan II; Blámaður með böggum hildar) og var umsvifalaust tekin inn í hvaða kvenfélag, systrareglu eða saumaklúbb.Þetta kann að hljóma allt of einfalt eitthvað, en svona er þetta bara í alvörunni. Við urðum vitni af því með Dirk og Dallas og sáum það árið eftir þegar LeBron James hristi loksins af sér Grýluna (á kostnað Kevin Durant, náttúrulega) árið eftir.

Og ætli sé ekki best að skoða hvernig þetta heppnaðist hjá Durant. Fékk hann að gera eins og Dirk, sem hægt væri að líkja við fólksbíl sem ekið var í gegn um bílaþvottastöð; Hann ók inn um annan endann drulluskítugur en kom út um hinn eftir fimm mínútur svona skínandi fínn og flottur.

Aðstæðurnar hjá Dirk og Durant voru reyndar aðeins öðruvísi eins og við komum að einhvers staðar á fyrstu blaðsíðunum í þessari símaskrá sem þessi pistill er orðinn. Dirk fór inn í úrslitakeppnina 2011 sem aðalmaðurinn í liði sem átti sæmilegan séns á að komast langleiðina í úrslit, en kannski ekki endilega alla leið (eiginlega ekki, sko).Durant og félagar í Golden State voru hinsvegar með allt annan pakka á bakinu. Sérstaklega Durant sjálfur, því hann stakk af yfir í klúbb sem færa má rök fyrir því að hafi þá þegar haft á að skipa besta körfuboltaliði í heimi og þess vegna fór hann inn í úrslitakeppnina með KR-væntingar á bakinu. Þegar þú ert með KR-væntingar á bakinu, er ætlast til þess að þú vinnir allt sem í boði er, af því þú ert með besta mannskapinn og besta liðið og mestu peningana og bestu aðstöðuna og allt þetta.

Þess vegna varð okkur orð á því þegar við horfðum á Durant fagna titlinum um daginn, að trúlega hefði hann nú fellt eitthvað fleiri tár ef hann hefði þarna verið að fagna fyrsta titlinum sínum með Oklahoma-liðinu sínu gamla, en við skulum ekki fást við það að svo stöddu.

Kevin Durant steig út fyrir þægindarammann sinn, flutti búferlum, sætti sig við einhverja launalækkun, umturnaði lífi sínu, gerði allt vitlaust, kvaddi gamla vini (missti einhverja) og eignaðist nýja - allt til þess að losa sig við drauginn og klára þennan blessaða titil loksins.

Eins og við sögðum, var eins gott fyrir hann að vinna þennan fjandans titil finnst hann var með þetta bölvaða vesen og fór langt með að eyðileggja stóran hluta af keppnistímabilinu fyrir fjölda fólks. En þarna komum við að atriði sem okkur þykir skipta máli: hvernig Durant tæklaði þetta allt saman.

Hann gerði það nefnilega nánast óaðfinnanlega og við verðum öll bara að gjöra svo vel að hrósa honum fyrir það, helvískum.

Við vissum öll að Kevin Durant væri góður í körfubolta og hefði alla burði til að gera það sem hann gerði í lokaúrslitaeinvíginu, þar sem hann var frábær á báðum endum vallarins í sannfærandi sigri Warriors.

Sérstaklega var hann stórkostlegur í allri sóknarökónómíu, þar sem hann skoraði líklega einhver hagkvæmustu 35 stig að meðaltali sem sést hafa í lokaúrslitaeinvígi. Kíktu bara aðeins á þetta rugl hérna fyrir neðan, ef þú ert einhverra hluta vegna búin(n) að gleyma þessu.Cleveland mætti til leiks um daginn með svipaða varnartaktík og nýttist því svo frábærlega í seinni hluta úrslitaeinvígisins fyrir ári, en hún gekk mikið til út á það að reyna að hleypa Stephen Curry fyrir alla muni ekki upp í einhverja geðveiki. Það má deila um það hversu vel Cavs tókst þetta, því Curry spilaði heilt yfir ljómandi vel í einvíginu.

En eins og við töluðum alltaf um þegar við vorum að reyna að sjá fyrir okkur hvernig Durant ætti eftir að smella inn í þetta Warriors-lið, var þetta ekkert rosalega flókin stærðfræði eftir allt saman: Því þegar Cleveland náði að spila góða vörn í 16-20 sekúndur af skotklukkunni og halda aftur af stórskyttunum Curry og Thompson - var það Kevin fokkíng Durant sem endaði á því að fá galopið 3ja stiga skot úr horninu í staðinn fyrir Harrison Barnes.

Og þið vitið alveg hvernig það endar. Það endar nákvæmlega eins og það endaði um daginn.

Við fengum stórkostlega vel spilaða seríu af körfubolta, sem því miður var dálítið ójöfn á köflum, en hún reyndist á sama tíma kjörið tækifæri fyrir körfuboltaguðina til að útdeila riddarakrossum sínum.

Sennilega hefur mörgum ykkar brugðið eins og okkur þegar þið sáuð hvað ferilskráin hans Kevin Durant var allt í einu orðin úttroðin og tæmandi þegar hann var búinn að lyfta þessum bikurum - annars vegar dollunni fyrir meistaratitilinn og svo hinni fyrir að vera maður úrslitaeinvígisins.

Það vantar ekki andskoti mikið í safnið hjá honum lengur. Nema kannski meira af því sama og það er enginn vafi á því að það er takmarkið hjá honum og Curry og restinni af strákunum.

Kevin Durant er nefnilega leikmaður í þannig gæðaflokki, að hann á að vinna titla. Auðvitað tökum við undir með ykkur sem eruð fúl yfir því hvað það skemmdi jafnvægið í deildinni þegar Durant fór úr einu af fimm bestu liðunum í deildinni yfir í það besta.

Vissulega hefði það verið rómantískast  ef hann hefði verið um kyrrt í Oklahoma og þá kannski unnið bara einn titil og þar og grátið af hamingju í viku, í stað þess að ganga til liðs við óvininn, þar sem hann fær nú besta tækifæri sem NBA lið hefur fengið síðan amk um aldamótin til að vinna... hreinlega fullt af meistaratitlum - kannski í röð.Við vitum alveg að hlutirnir atvikast nær aldrei þannig í NBA deildinni, en þetta Warriors-lið er samt betur í stakk búið til að halda sannkölluðu hengingartaki á deildinni heldur en liðin sem hafa átt sér stórveldisdrauma í henni undanfarna áratugi.

Aldamótalið Kobe og Shaq og svo Chicago-liðið á öndverðum tíunda áratugnum eru einu liðin sem okkur fljúga í hug sem voru nógu ung en á sama tíma nógu sterk til að hóta því að vinna mörg ár í röð. Enda gerðu þau það.

Og nú er Warriors-liðið að hóta þessu sama, nema hvað að það er ennþá betur mannað og kjarnamannskapurinn í því er sennilega enn yngri en hann var í hinum tveimur áðurnefndu, sem eru síðustu tvö lið sem náðu að vinna þrefalt í NBA (´96 -´98 lið Bulls gerði það vissulega líka, en þar voru Elli kerling og Lalli lúni farin að banka heldur hressilega á dyrnar hjá Jordan og félögum ).Já, möguleikar þessa Warriors-liðs virka sannarlega ógnvekjandi fyrir öll hin liðin í deildinni, en við hvetjum þau ykkar sem eru að hugsa um að fara í þunglyndi yfir því til að kynna sér söguna og bendum þessu fólki á það að það koma reglulega fram lið í NBA deildinni sem þorri fólks fullyrðir að vinni fimm titla í röð - en svo gerist lífið og deildin er fljót að finna þetta organíska valdajafnvægi sem oftast er við lýði í fallegustu deild í heimi.

Við skoðum framtíðarhorfur Warriors-manna síðar, því á næstu dögum og vikum gerum við meira af því að horfa til baka og melta þetta fjölbreytta sérfæði sem NBA var að bjóða okkur upp á í vetur.Við biðjumst velvirðingar á því hvað þessi pistill er fáránlega langur, rótlaus og ófaglegur. Hann lenti bara strax út á einhverjar bilaðar brautir og við réðum ekkert við hann, þó við hefðum hent fyrstu útgáfunum af honum í ruslið.

Venjulega hefðum við verið búin að skrifa fullt af stöffi um eitthvað annað (t.d. um nýliðavalið og leikmannaskiptin á dögunum), en þessi fjárans pistill sat bara fastur í ristlinum á okkur og meinaði okkur aðgang að öllu öðru.

Jú, fyrir svo utan það að blessað lífið er búið að vera að gerast á fullu hjá okkur að undanförnu, á tímapunkti sem við höfum náttúrulega engan tíma til að sinna því. Svona er þetta stundum.

Við reynum að hafa hinar pælingarnar sem við eigum eftir styttri en 7500 orð, elskurnar.

Einmitt.

(P.s. - Í guðanna bænum slepptu því að vera að lesa þessa neðanmáls-hlunka hérna fyrir neðan. Við höfum ekki hugmynd um hvað var eiginlega í gangi í hausnum á okkur þegar við skrifuðum öll þessi ósköp. Þetta er náttúrulega ekki í lagi, sko...

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Hér var afar freistandi að tala um að "taka í fötu" á móðurmálnu okkar fallega, en þó einhverjum gæti dottið í hug að fara að nota orðið fötu sem slanguryrði um körfu, minnir orðasambandið "taka í fötu" okkur aðeins á tvenns konar afþreyingu - sem á allan hátt tengist neyslu ávana- vímu- og fíkniefna. Því verður þessari stuttu tungumálahugleiðingu lagt hér í snarhasti eins og vélarvana Lada Samara-bifreið.

** - (Athugið! Takið sérstaklega eftir því hvernig greinarhöfundur gætir þess að fara ekkert út fyrir efnið með eftirfarandi "neðanmálsgrein" eða hvað á að kalla þessa geðveiki sem hér fer á eftir. Þetta er náttúrulega ekki í lagi. En snúum okkur aftur að upprunalega umfjöllunarefninu. Hér fyrir neðan hefst hin raunverulega neðanmálsgrein):

Það eru ekki nema einstaka leikmenn sem eru nógu klikkaðir, kærulausir, æðrulausir, einlægir og heiðarlegir til að segja raunverulega það sem þeir eru að hugsa þegar þeir eru í viðtölum.

Þegar kemur að þessu er Charles Barkley að sjálfssögðu alltaf fyrsta nafnið sem kemur upp í hugann.

Fjölmiðlamenn elskuðu hann út af lífinu og gera enn, af því þessi baneitraða blanda hans af hroka, sakleysi, suðurríkjauppeldi, athyglissýki, uppátækjasemi og svo auðvitað mikilvægasta atriðinu - hárbeittum húmornum - gerði það að verkum að Barkley var alltaf umkringdur vænu stóði blaðamanna fyrir og eftir leiki.

Og það var ástæða fyrir þessum vinsældum hans. Barkley gjörsamlega dældi fyrirsögnunum í fjölmiðlamennina með kjaftinum á sér og svo einstaka uppákomum eins og að: hrækja (óvart) á krakka, aka bifreið undir áhrifum áfengis, fljúgast á við Bill Laimbeer, viðurkenna að hann væri í vondu skapi af því liðið sem hann spilaði með væri helvítis drasl (oftast frekar dapurt Sixers-liðið sem hann lék með fyrsta áratuginn sinn í deildinni) og kasta mönnum sem honum var í nöp við í gegn um rúður.

Leikmaðurinn sem kemst næst því að feta í fótspor Barkley í NBA deildinni í dag er tvímælalaust Draymond Green hjá Golden State. Þeir eiga nefnilega ansi margt sameiginlegt. Báðir eru fjarkar sem eru tæknilega ekki nógu hávaxnir til að spila stöðuna, en bæta upp skort á sentimetrum með klókindum, keppnisskapi, náðargáfu, innsæi og einstökum líkamlegum fídusum.

Dæmi um þessi atriði hjá Draymond Green er t.d. hvernig hann les leikinn jafnvel betur en menn sem hafa verið í deildinni í tíu ár, hann er handleggjalangur sem nýtist honum vel í fráköstum og við að verja skot og svo er hann frábær sendingamaður sem meiðist varla nokkru sinni og leynir á sér líkamlega þrátt fyrir að líta ekki út fyrir að hafa úthald í að labba í gegn um Kringluna.

Það sem gerði Barkley sérstakan var hvað hann var mikið (kjarnorku) náttúrubarn og hvað hann var bókstaflega með einhvers konar sjötta skilningarvit þegar kom að fráköstum. Barkley þurfti náttúrulega að vera eitthvað meira en venjulegur maður, því hann er ekki mikið hærri en 195 sentimetrar en hafði það að aftvinnu að hirða fráköst af mönnum sem voru 20 sentimetrum og þar yfir hærri en hann.

Við erum ekki að ýkja þegar við segjum að Barkley hafi verið spikfeitur þegar hann kom inn í deildina, en hann átti eftir að læra eitt og annað í sambandi við að vera atvinnumaður í íþróttum þegar hann kom til Sixers um tvítugt.

Barkley talar alltaf hlýlega til Moses heitins Malone og þakkar honum jafnan fyrir að hafa tekið sig inn á teppi og gert úr sér atvinnumann á sínum tíma - allt frá því að kenna honum að éta rétt yfir í það að klæða sig eins og maður.

En það var alveg sama hvað Barkley var feitur og alveg sama hvað hann var lágvaxinn við hliðina á öllum risunum sem hann mætti á hverju kvöldi.

Sprengikrafturinn, innsæið, útsjónasemin, hungrið og skapið fleyttu Barkley nógu langt til að tryggja að hann var til dæmis stigahæsti leikmaður eins frægasta og besta körfuboltaliðs sögunnar, Draumaliðs Bandaríkjanna á ÓL árið 1992.

Svo fór hann jú einu sinni alla leið í lokaúrslitin þegar hann fékk loksins að spila með almennilegu liði (Suns ´93), en þó hann hafi þurft að tapa fyrir Michael Jordan þar eins og allir aðrir, er ferilskráin hans ekkert frat, sérstaklega ef haft er í huga að hún er útfyllt af manni sem var á hæð við Helmut Kohl og Horst Tappert (megi þeir báðir hvíla í friði).

Rétt eins og Barkley, er Draymond Green svo sannarlega með kjaftinn fyrir neðan nefið og kemur sér nokkuð reglulega í vandræði af því hann ýmist gleymir eða nennir ekki að setja upp í sig síuna áður en hann fer í viðtöl. Nú síðast þótti Green tala af sér í viðtali í Cleveland eftir leik þrjú og einhverjir blaðamenn héldu því fram að drýldni Draymonds í viðtalinu hefði ögrað leikmönnum Cavs svo rosalega að þeir vöknuðu loksins úr rotinu og fóru að spila eins og menn - og unnu loksins einn helvítis leik!

Kjafturinn á Draymond mun ekki breytast mikið það sem eftir er af ferlinum hjá honum. Hann reynir kannski að stilla sig aðeins betur, en Draymond Green mun segja það sem honum býr í brjósti um þau málefni sem honum liggja á hjarta - og það mun einstaka sinnum koma honum í vandræði.

Forráðamenn og þjálfarar Golden State tala mikið um það að agamálin hans Green séu alltaf bæði í vinnslu og skoðun, en eigum við að segja ykkur leyndarmál? Þeim er alveg nákvæmlega sama, af því þeir vita að Green er andlegur leiðtogi liðsins og dólgslætin í honum eru fastur þáttur í því að koma liðinu í gang.

Green hefur auðvitað verið skammaður eins og hundur fyrir pungsækni sína á síðustu leiktíð, þar sem kýlingar og spörk (í hin ýmsu slátur) kostuðu Warriors mjög líklega meistaratitilinn. En eitthvað smá kjaftbrúk? Piiifff! Það er öllum scheiße sama!

Annars er bara rosalega fínt hvað við gætum þess alltaf að fara ekki staf út fyrir efnið í þaulskipulögðum skrifunum okkar.

Immit.